Hæstiréttur íslands

Mál nr. 128/2008


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Varanleg örorka
  • Lífeyrisréttindi
  • Stjórnarskrá
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Dómsatkvæði

Fimmtudaginn 18. desember 2008.

Nr. 128/2008.

Þóra Halldórsdóttir

(Björn L. Bergsson hrl.)

gegn

Bjarna Guðmanni Emilssyni og

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

Skaðabætur. Líkamstjón. Varanleg örorka. Lífeyrisréttindi. Stjórnarskrá. Vanreifun. Frávísun að hluta frá héraðsdómi.

Þ sótti um skaðabætur vegna líkamstjóns sem hún hlaut í umferðarslysi 30. september 1998 sem leiddi til þess að hún varð að láta af starfi flugumferðarstjóra. V greiddi henni bætur á grundvelli yfirmatsgerðar sem ákvað varanlega miska hennar 35% og varanlega örorku 40%. Deilt var um hvort tjónið væri þar með að fullu bætt en Þ taldi sig hafa sýnt fram á að raunverulegt tjón hennar væri meira, bæði hvað varðaði missi vinnutekna vegna varanlegrar örorku og skert lífeyrisréttindi. Með vísan til útreikninga tryggingastærðfræðings taldi Þ sig hafa sýnt fram á að reglur skaðabótalaganna sem giltu á tjónsdegi hefðu ekki uppfyllt það markmið að hún fengi tjón sitt að fullu bætt samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í dómi Hæstaréttar var vísað til Hæstaréttardóms nr. 311/1997 þar sem lagt var til grundvallar að reglur skaðabótalaga mæltu fyrir um hvernig bætur fyrir tjón skyldu reiknaðar og taldist það fullar bætur í samræmi við 72. gr. stjórnarskrárinnar. Reglur skaðabótalaganna væru hlutlægar og óumdeilt væri að V hefði bætt tjón hennar samkvæmt ákvæðum laganna eins og þau voru á slysdegi. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna V og B af aðalkröfu Þ. Varakrafa Þ byggði á því að við ákvörðun skaðabóta fyrir varanlega örorku hefði átt að reikna henni hærra hlutfall framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð en þau 6% sem V hefði lagt til grundvallar. Þ taldi að viðmiðið hefði átt að vera 22,9%. Talið var að útreikningar Þ á varakröfu hefðu ekki með réttu sýnt hvert hefði getað hafa verið jafngildi framlags vinnuveitanda hennar í starfi flugumferðarstjóra á þeim tíma er slysið varð. Var varakrafa Þ af þeim sökum talin vanreifuð og var þeim þætti málsins vísað frá héraðsdómi.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. mars 2008. Hún krefst þess aðallega að stefndu verði dæmdir til að greiða sér 30.966.218 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 30. september 1998 til 29. mars 2006 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara að stefndu verði dæmdir til að greiða  3.102.643 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 30. september 1998 til 12. júní 2007 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og að áfrýjandi greiði þeim málskostnað fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi sækir í málinu skaðabætur vegna líkamstjóns sem hún hlaut í umferðarslysi 30. september 1998. Slysið leiddi til þess að hún varð að láta af starfi flugumferðarstjóra. Í yfirmatsgerð var varanlegur miski hennar talinn 35% og varanleg örorka 40%. Á grundvelli þess hefur stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. greitt henni bætur í samræmi við reglur skaðabótalaga, eins og þær voru á tjónsdegi. Deilt er um hvort tjónið sé þar með að fullu bætt. Telur áfrýjandi sig hafa sýnt fram á það að raunverulegt tjón hennar sé meira, bæði að því er varðar missi vinnutekna vegna varanlegrar örorku og skert lífeyrisréttindi. Það sé því ekki full bætt eins og hún eigi rétt til samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar.

II

Að því er bætur fyrir varanlega örorku varðar leggur áfrýjandi til grundvallar, að við mat á örorkustigi hafi yfirmatsmenn beitt þeirri aðferð, að bera saman ævitekjur í því starfi, sem hún varð að láta af, og í hinu sem hún síðar menntaði sig til. Tryggingastærðfræðingur hafi síðan reiknað út fjártjón hennar á sömu forsendum. Hún bendir jafnframt á að fjárhæð tjóns hennar hefði orðið svipað ef notaður hefði verið margfeldisstuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga, eins og henni var breytt með 5. gr. laga nr. 37/1999, sem tók gildi 1. maí 1999. Þetta sýni að reglur skaðabótalaga sem giltu á tjónsdegi hafi ekki uppfyllt það markmið að hún fengi tjón sitt að fullu bætt. Krafa hennar byggi ekki á því, að horfið sé til þeirra útreikningsaðferða sem beitt var fyrir gildistöku skaðabótalaga, heldur hafi verið um að ræða galla á viðmiðum laganna og sé þess krafist að tekið sé tillit til þessa.

Stefndu mótmæla framangreindum málsástæðum áfrýjanda og telja hana byggja kröfur sínar á öðrum grundvelli en lagður sé með skaðabótalögum. Útreikningsaðferðir og forsendur tryggingastærðfræðingsins séu meira í ætt við þær sem stuðst hafi verið við fyrir gildistöku skaðabótalaga og séu ekki í samræmi við gildandi reglur. Fullar bætur séu þær bætur sem ákveðnar séu eftir reglum skaðabótalaga. Þannig hafi verið reiknaðar þær fjárhæðir sem áfrýjanda hafi verið greiddar og eigi hún ekki lögvarinn rétt til frekari bóta.

III

Með skaðabótalögum voru fyrst lögfestar almennar reglur um bætur fyrir líkamstjón. Tilgangur laganna var meðal annars að móta skýrar reglur, draga úr vafa og ósamræmi og greiða fyrir málsmeðferð. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 311/1997, sem birtur er í dómasafni réttarins 1998 bls. 1976 og vísað er til í héraðsdómi, var því hafnað að þágildandi ákvæði skaðabótalaga leiddu til skerðingar á aflahæfi tjónþola þannig að andstætt væri 72. gr. stjórnarskrárinnar. Reglur skaðabótalaga eru hlutlægar og ráðast bætur því ekki af þáttum eins og til dæmis einstaklingsbundnu starfsvali. Óumdeilt er að stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hefur bætt tjón áfrýjanda samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga eins og þau voru á slysdegi, þar með talið vegna varanlegrar örorku sem bætt hefur verið að fullu eins og lögmælt er. Um þá aðferð sem beitt er við útreikning aðalkröfu áfrýjanda vegna iðgjaldahluta atvinnurekanda í lífeyrissjóð gildir það sama að hún samræmist ekki ákvæðum skaðabótalaga. Er því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna stefndu af aðalkröfu áfrýjanda.

IV

Varakrafa áfrýjanda byggir á því að við ákvörðun skaðabóta fyrir varanlega örorku beri að reikna henni hærra hlutfall framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð en þau 6% sem stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. lagði til grundvallar við útreikning tjónsins. Áfrýjandi telur að þetta viðmið eigi að vera 22,9%, en fyrir slysið hafi hún átt aðild að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og sé sá háttur hafður þar á, að ekki sé greitt mánaðarlegt framlag vinnuveitenda heldur gildi svokölluð eftirmannsregla. Áfrýjandi fékk mat dómkvadds manns á eingreiðsluverðmæti mismunar á lífeyrisréttindum flugumferðarstjóra annars vegar og hins vegar sérfræðings á tölvusviði miðað til ákveðnar ævitekjur í hvoru tilviki fyrir sig. Var niðurstaða þessa mats 15. nóvember 2005 lögð til grundvallar í aðalkröfu. Áfrýjandi fór þess á leit við sama matsmann 9. október 2007 að hann reiknaði hvert mótframlag atvinnurekanda þyrfti að vera í prósentum talið til lífeyrissjóðs til að „tryggja ... samsvarandi réttindi og hún hefði notið í B deild LSR ef hún hefði starfað sem flugumferðarstjóri út starfsævina.“ Niðurstaða þessa útreiknings, að gefnum þeim forsendum að áfrýjandi sjálf greiddi „4% í aldursháða réttindadeild í almennum lífeyrissjóði og að greitt sé iðgjald af 21,5% hærri launum þangað en hefði verið gert í B deild LSR“, var að „framlag launagreiðanda hefði þurft að vera 22,9%.“ Með þessu telur áfrýjandi sýnt að við útreikning skaðabóta til hennar vegna varanlegrar örorku beri að leggja til grundvallar að iðgjaldahluti atvinnurekanda í lífeyrissjóð vegna hennar hefði orðið 22,9%, en ekki 6% eins og miðað hafi verið við í uppgjöri skaðabóta frá stefndu. Sé tjón hennar af þessum sökum vanbætt sem nemur 3.102.643 krónum.

V

Óumdeilt er að eftir reglum skaðabótalaga, eins og þau voru þegar áfrýjandi varð fyrir líkamstjóni, skyldi við útreikning á missi framtíðartekna telja með framlag atvinnurekanda til lífeyrissjóðs tjónþola, þótt þetta hafi ekki verið tekið berum orðum fram í lögunum. Voru öll tvímæli þar um síðar tekin af með breytingu á 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sem gerð var með 6. gr. laga nr. 37/1999. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 264/2004, sem birtur er í dómasafni réttarins 2004 bls. 5049, var því jafnframt slegið föstu að tjónþoli ætti rétt á því að miðað sé við raunverulegt framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð á þeim tíma sem tjón verður. Þótt áfrýjandi byggi varakröfu sína á þeirri forsendu sýnir útreikningur á varakröfu hennar ekki með réttu hvert gæti hafa verið jafngildi framlags vinnuveitanda hennar í starfi flugumferðarstjóra til B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á þeim tíma sem tjón varð. Er varakrafa hennar vanreifuð af þessum ástæðum. Með því að ekki er útilokað að úr þessu megi bæta er rétt að vísa þessum þætti málsins frá héraðsdómi.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Varakröfu áfrýjanda, Þóru Halldórsdóttur, um greiðslu á 3.102.643 krónum er vísað frá héraðsdómi.

Að öðru leyti skal hinn áfrýjaði dómur vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2008

                Mál þetta, sem var dómtekið 30. janúar sl. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Þóru Halldórsdóttur, Safamýri 25, Reykjavík á hendur á  Bjarna Guðmanni Emilssyni, Búðarstíg 5, Eyrarbakka og Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu birtri  11. júní 2007.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndu greiði bætur að fjárhæð 30.966.218 kr. auk vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 30. september 1998 til 29. mars 2006, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara er þess krafist að stefndu greiði bætur að fjárhæð 3.102.643 kr. auk vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til 12. júní 2007 en dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu auk álags er nemur virðisaukaskatti.

                Dómkröfur stefndu eru þær, að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hennar hendi að mati dómsins. 

Málavextir.

Stefnandi var starfandi flugumferðarstjóri. Að kvöldi 30. september 1998, en þá var hún 31. árs að aldri, lenti hún í umferðaróhappi á Suðurlandsbraut við Álfheima í Reykjavík. Stefnandi leitaði til slysa- og bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Greindist hún með tognun á hálsi og baki, fékk lyfseðil og var send heim.

Áður, eða á árinu 1993, lenti stefnandi einnig  í bílslysi og hafði eftir það slys fundið til nokkurra óþæginda í hálsi, herðum og mjóbaki og stundum fyrir vægri einbeitingartruflun, en hafði þrátt fyrir það getað unnið  fullt starf. Hinn 24. febrúar 1998 hafði örorkunefnd metið stefnanda 8% varanlegan miska og 8% varanlega örorku eftir það slys. Við slysið 30. september 1998 ýfðust  upp einkenni stefnanda eftir  slysið 1993 og við bættust verkir í hægri handlegg, titringur í höndum, verkir í mjóbaki, einbeitingar-og minnisvandkvæði og vandkvæði við að stilla sjónskerpu. Varð stefnandi fljótlega að hætta sem flugumferðarstjóri og náði ekki hæfni til þess starfs á ný. Með bréfi 23. ágúst 1999 felldi flugmálastjórn úr gildi heilbrigðisskírteini stefnanda til að starfa sem flugumferðarstjóri.

Stefnandi var án atvinnu í október 1998 til júní 2000. Byrjaði hún þá í skrifstofuvinnu hjá fyrirtækinu H.Pálssyni ehf. í 80% starfi, en haustið 2001 hóf hún nám í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Lauk hún því námi vorið 2005. Í október 2005 hóf hún síðan störf hjá fyrirtækinu Flugkerfum ehf. við prófanir á hugbúnaði fyrir flugumferðarstjóra og við þjálfun þeirra í notkun búnaðarins. Hefur stefnandi að sögn verið  í 60% starfshlutfalli við þetta starf.

Hinn 5. júní 2001 mat örorkunefnd afleiðingar slyss stefnanda hinn 30. september 1998. Var stefnandi í skrifstofustarfinu hjá H. Pálssyni ehf., þegar mat örorkunefndar fór fram.  Mat örorkunefnd stefnanda 10% varanlegan miska og 30% varanlega örorku af völdum slyssins.  Taldi stefnandi afleiðingar slyssins vanmetnar.

Hinn 2. maí 2002 mátu dómkvaddir matsmenn, þeir Sverrir Bergmann taugalæknir og Viðar Már Matthíasson lagaprófessor, varanlegan miska stefnanda af völdum slyssins 35 stig og varanlega örorku 35%. Taldi stefnandi enn um vanmat að ræða. 

Hinn 9. mars 2005 mátu dómkvaddir yfirmatsmenn, þeir Grétar Guðmundsson heila- og taugaskurðlæknir, Hannes G. Sigurðsson hagfræðingur og Páll Sigurðsson lagaprófessor, stefnanda 35% varanlegan miska og 40% varanlega örorku af völdum slyssins. Er byggt á því í matinu, að stefnandi muni hefja störf sem sérfræðingur á tölvusviði um mitt ár 2005 og starfa  á því sviði  til 63 ára aldurs.

Hinn 22. mars 2005 ritaði stefnandi bréf til yfirmatsmanna og óskaði eftir skilgreiningu á þeim gögnum, sem legið hefðu yfirmatinu til grundvallar og eftir afritum af þeim útreikningum sem matið byggðist á.

Svar yfirmatsmanna er frá 4. apríl 2005. Segir þar m.a., að matið á varanlegu örorkunni felist í samanburði á ætluðum tekjum stefnanda sem flugumferðarstjóri, ef slysið hefði ekki orðið, og tekjum sem ætla mætti að hún aflaði sér sem sérfræðingur á tölvusviðið í 80% starfi. Næmu ætlaðar ævitekjur stefnanda sem flugumferðarstjóri 178,9 m.kr., en sem sérfræðings á tölvunarsviði 93,3 m.kr. Þá  tóku yfirmatsmennirnir fram, að ekki hefði verið tekið tillit til tekjuskatta eða annarra frádráttarliða í matinu né mismunandi framlaga í lífeyrissjóði og þar með lífeyrisréttinda.

Hinn  2. júní 2005 óskaði stefnandi eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta, hver væri mismunur þeirra lífeyrisréttinda, sem stefnandi myndi hafa fengið sem flugumferðastjóri að gefnum 178,9 m.kr. ævitekjum í því starfi og þeirra lífeyrisréttinda, sem hún myndi fá sem sérfræðingur á tölvusviði að gefnum 93,3 m.kr. ævitekjum í því starfi. Var Benedikt Jóhannesson tryggingastærðfræðingur dómkvaddur til starfans. Skilaði hann mati 15. nóv. 2005. Reiknaðist honum mismunur á lífeyrisréttindunum vera á milli 10,7 og 14,3 m.kr.

Hinn 28. mars 2006 gerði félagið upp tjón stefnanda á grundvelli yfirmatsins og reglna skaðabótalaga um ákvörðun fjárhæðar bóta fyrir líkamstjón. Námu uppgerðar bætur samtals 26.415.161 kr., þar af bætur fyrir varanlega örorku 18.585.680 kr. Stefnandi tók við bótunum með fyrirvara um alla þætti uppgjörsins. Krafðist hún jafnframt greiðslu á kostnaði vegna tölvunarfræðinámsins að fjárhæð 1.416.551 kr. 

Með tölvubréfi 6. des. 2006 bað stefnandi síðan Benedikt Jóhannesson að reikna út eingreiðsluverðmæti mismunarins á ætluðum ævitekjum stefnanda sem flugumferðarstjóri annars vegar og sem sérfræðingur á tölvunarsviði hins vegar. Reiknaðist Benedikt Jóhannessyni eingreiðsluverðmæti þessa mismunar vera 42.508.000 kr. miðað við 1. október 1999 (batahvörf), ef ekki væri tekið tillit til örorkulíkutöflu, en ella 40.859.000 kr.  Taldi Benedikt eðlilegra að miða við seinni töluna.

Mál þetta var síðan höfðað með stefnu birtri 11. júní 2007. Hinn 21. september 2007  greiddi stefndi VÍS hinn umstefnda námskostnað stefnanda, svo og eftirstöðvar örorkubóta ásamt vöxtum og kostnaði.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfu um skaðabætur á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 og ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987. Grundvöllur bótakröfu stefnanda er hlutlæg ábyrgðarregla umferðarlaga og því óumdeildur í máli þessu. Jafnframt byggir málsókn stefnanda á reglum skaðabótaréttar, m.a. um tjónstakmörkun, og þeirri réttarvernd sem stjórnarskrá lýðveldisins Íslands tryggir eignarréttindum.

Aðalkrafan samanstendur af tveimur kröfuliðum. Annars vegar er krafa um frekari bætur vegna varanlegrar örorku og hins vegar  krafa vegna óbættra skerðinga á lífeyrisréttindum.

Krafan um frekari bætur vegna varanlegrar örorku er reist á grundvallarreglum skaðabótaréttar um skyldu tjónvalds til að bæta tjónþola allt tjón hans. Sé þeirri reglu ekki fylgt til hins ýtrasta skortir á að stjórnarskrárvarin eignarréttindi stefnanda séu í hávegum höfð. Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar verður enginn maður sviptur eignum sínum nema bætur komi fyrir en ítrekað hefur verið leyst úr því á vettvangi dómstóla að í aflahæfi einstaklinga felist stjórnarskrárvarin eignarréttindi.

Úr því hefur verið leyst með mati dómkvaddra yfirmatsmanna að varanleg örorka stefnanda vegna afleiðinga þessa slyss nemi 40%. Við það mat voru efnisákvæði 5. gr. laga nr. 50/1993 lögð til grundvallar og þeim beitt í samræmi við viðtekna skýringu á því hverra kosta stefnandi ætti völ  til að afla sér tekna með vinnu sem sanngjarnt er að ætlast til að hún stundi. Með matsgerðinni var annars vegar lagt mat á hver orðið hefði framvinda í lífi stefnanda ef slysið hefði ekki átt sér stað og hins vegar ályktað um það hvernig líklegt sé að framtíð hennar verði í ljósi þeirrar staðreyndar að hún varð fyrir líkamstjóninu. Skerðingin á tekjuöflunarhæfinu var skilgreint sem nefnt prósentuhlutfall.

Að mati stefnanda er ekki fullur samhljómur milli þeirra aðferða sem matsmenn skilgreindu að þeir hefðu beitt við matið, en um þær gerir stefnandi engan ágreining, og niðurstöðunni. Í ljós er leitt, sbr. bréf yfirmatsmanna frá 4. apríl 2005, að tjónsútreikningur samkvæmt 7. gr. laga nr. 50/1993 fullnægir ekki áskilnaði 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins í tilviki stefnanda. Útreikningur sýnir glöggt fram á hvernig matsmenn komust að niðurstöðu um 40% varanlega örorku stefnanda með útreikningi á sitt hvorum ævitekjum að gefnum forsendum á grundvelli matsgagna og annarra handbærra upplýsinga og þekkingar matsmanna. Niðurstaða matsmannanna fól í sér að tjónið næmi 85,6 milljónum króna út starfsævina. Reiknað til eingreiðsluverðmætis að teknu tilliti til lífslíkna og örorkulíkna er tjón stefnanda reiknað út sem 40.859.000 kr.

Með hliðsjón af þeim hlutlægt sannaða mismun sem sýnt er fram á að ofan og útreikningi á raunverulegu metnu tjóni stefnanda blasir við að útreikningsaðferðum skaðabótalaga verður ekki beitt um varanlega örorku hennar heldur ber að víkja þeim til hliðar í krafti stjórnarskrárvarinna eignarréttinda stefnanda.

Útreiknað eingreiðsluverðmæti tjóns stefnanda vegna varanlegrar örorku er eftirfarandi:

Tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku                                       kr. 40.859.000

Greiðsla v/varanlegrar örorku 29. mars til frádr.                              kr. 18.585.680

Greiðsla v/varanlegrar örorku 21. sept. 07 til frádr.                         kr.   2.070.681

Greiðsla v/vaxta af varanlegri örorku 29. mars til frádr.                  kr.   2.975.161

Greiðsla v/vaxta af varanlegri örorku 21. sept.                                kr.      561.260

Vangoldið vegna varanlegrar örorku                                                kr. 16.666.218

Krafist er dráttarvaxta af þessari fjárhæð frá 29. mars 2006.

Varðandi hitt atriðið þ.e. bætur vegna  skerðingar á lífeyrisréttindum, byggir stefnandi á því að með bréfi matsmanna frá 4. apríl 2005 var einnig staðfest að á skorti að niðurstaðan í prósentuhlufalli endurspeglaði rétta niðurstöðu. Þar var beinlínis tekið fram að ekki væri tekið tillit til áhrifa á lífeyrisréttindi sem slysið hafði fyrir stefnanda. Að mati stefnanda á það engan veginn við rök að styðjast að sleppa því að líta til þessa þáttar við mat á tjóni hennar. Hún hafði haslað sér völl sem flugumferðarstjóri og hugðist hafa það fyrir ævistarf. Raunar er þröngt um vik að víkja af þeirri braut hafi hún á annað borð verið valin, vegna þeirrar sérhæfingar sem starfið krefst. Flugumferðarstjórar láta snemma af störfum, sbr. grein 4.4.1.1 í reglugerð 419/1999 sem nú er í gildi, sbr. reglugerð 344/1990, sem gilti er stefnandi varð fyrir slysi sínu. Við þessu er brugðist með ávinnslu lífeyrisréttinda en einnig eru réttindi úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins almennt til muna betri fyrir sjóðfélaga heldur en réttindi í almennu lífeyrissjóðunum. Stefnanda stendur ekki til boða að afla sér lífeyrisréttinda lengur sem flugumferðarstjóri. Ótvírætt er að í þessum skertu réttindum felst tjón sem er óbætt, sbr. matsgerðina frá 15. nóvember 2005.

Jafnvel þó svo yrði litið svo á, að vanbætt tjón vegna glataðra lífeyrisréttinda teljist til varanlegrar örorku, sbr. 5. gr. skaðabótalaga, þá breytir það ekki því að tjónið er óbætt. Sú staðreynd liggur fyrir og einnig liggur fyrir að yfirmatsmenn tóku ekki tillit til þess við mat sitt á tjóni stefnanda. Telst varanleg örorka stefnanda þá einfaldlega vanmetin vegna afleiðinga slyssins.

Vegna glataðra lífeyrisréttinda liggur fyrir mat dómkvadds matsmanns dags. 15. nóvember 2005 þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að tjón stefnanda, þar sem hún nýtur ekki aðildar og réttindaávinnslu í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins sem flugumferðarstjóri, nemi allt að 14.300.000 kr. og miðast dómkrafa stefnanda við þá fjárhæð. Gerð er krafa um að þessi kröfuliður beri 2% vexti með lögjöfnun frá 16. gr. laga nr. 50/1993 frá tjónsdegi til 31. október 2006 en dráttarvexti frá þeim tíma.

Krafist er vaxta af fjárkröfum stefnanda í samræmi við skaðabótalög eins og þau voru á tjónsdegi. Þannig er krafist 2% vaxta af fjárkröfu vegna varanlegrar örorku og annars fjártjóns vegna vanbættra lífeyrisréttinda frá slysdegi, sbr. 16. gr. þágildandi skaðabótalaga. Um skilgreiningu á upphafstíma dráttarvaxtakröfu vísast til hvors kröfuliðar fyrir sig.

Krafa stefnanda er að öllu leyti ófyrnd, annars vegar vegna áðurnefnds samkomulags aðila en einnig sökum þess að í tvígang hefur verið höfðað mál til þess að rjúfa fyrningu. Vísar stefnandi í því sambandi til ákvæða laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Sérstaklega vísast til 2. tl. 3. gr. laganna sem kveður á um að gjaldkræfir vextir fyrnist á fjórum árum en skv. 11. gr. sömu laga rýfur málsókn fyrningu og sé nýtt mál höfðað innan 6 mánaða eftir að fyrra máli lauk þá er því fyrningarrofi viðhaldið.

Varakrafa stefnanda að fjárhæð 3.102.643 kr. felst í óbættu tjóni vegna varanlegrar örorku í raun þar sem lífeyrisréttindi stefnanda eru vanbætt þar sem miðað var við 6% mótframlag atvinnurekanda til lífeyrissjóðs þegar framlagið þyrfti að nema 22,9% til að vega upp þann mun sem er á réttindaávinnslu stefnanda í almennum lífeyrissjóði og B deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sbr. bréf Talnakönnunar frá 23. október 2007.

Viðmiðunartekjur eru tekjur í október 1997 til og með september 1998. Þær eru 3.762.698 kr. og að viðbættu 22,9% lífeyrisjóðsframlagi 4.624.355 kr. Framreiknuð viðmiðunarlaun, með vísitölu í september 1998, 3605 stig og svo í mars 2006, 4926 stig, er greiðsla stefnda fór fram, verða þannig 6.318.884 kr. sem margfalda ber með þágildandi margföldunarstuðli skv. 6. gr. laga nr. 50/1993 og örorkuprósentunni.

                Þannig reiknuð nemur varanleg örorka 23.759.004. Þegar hafa verið greiddar 20.656.361 kr., þannig að vangreidd varanleg örorka nemur 3.102.643 kr. sem er höfuðstóll varakröfu. Krafist er 2% vaxta af fjárkröfu vegna varanlegrar örorku frá slysdegi, sbr. 16. gr. þágildandi skaðabótalaga. Krafist er dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá þingfestingardegi 12. júní 2007.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 50/1993 um skaðabætur auk umferðarlaga nr. 50/1987. Jafnframt er byggt á meginreglum skaðabótaréttar um fullar bætur fyrir tjón sem og reglum um tjónstakmörkun, orsakasamband og sennilega afleiðingu. Þá er og byggt á Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, einkum 72. gr. um friðhelgi eignarréttarins. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988 en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyld og ber því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Sýknukrafa stefndu er byggð á því, að með þegar uppgerðum bótum til stefnanda sé umstefnt tjón vegna slyss hennar 30. september 1998 að fullu bætt að lögum. Eigi stefnandi  því ekki lögvarinn rétt til frekari bóta úr hendi stefndu.

                Það er grundvallarregla í skaðabótarétti, að tjón fæst ekki bætt, nema til þess sé heimild í lögum. Bætist tjón þannig aðeins að því marki, sem lög og réttarskipunin  heimilar hverju sinni. Teljast það fullar bætur í lagaskilningi. Á stefnandi ekki lögvarinn rétt til bóta umfram það.

Um ákvörðun fjárhæðar skaðabóta til stefnanda vegna slyssins fer eftir reglum skaðabótalaga nr. 50/1993 um bætur fyrir líkamstjón. Voru með þeim lögum lögfestar nýjar reglur um ákvörðun fjárhæðar skaðabóta fyrir líkamstjón, er komu í stað eldri dómvenjureglna um ákvörðun bótafjárhæðar. Hafa stefndu bætt tjón stefnanda að fullu eftir reglum skaðabótalaga nr. 50/1993.

Stefnandi krefst hins vegar skaðabóta fyrir líkamstjón sitt á allt öðrum grunni en fyrir er mælt í skaðabótalögum. Krefst stefnandi bóta fyrir varanlega örorku í tveimur liðum, þ.e. fyrir varanlegt vinnutekjutap á grundvelli mismunar á ætluðum ævitekjum sínum sem flugumferðarstjóri annars og tölvunarfræðingur hins vegar, og bóta fyrir töpuð lífeyrisréttindi á grundvelli mismunar á lífeyrisréttindum í tilteknum lífeyrissjóðum.

Um fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku fer aftur á móti eftir reglum 5.-7. gr. skaðabótalaga. Skal meta bætur fyrir varanlega örorku til fjárhæðar á grundvelli margfeldis örorkustigs, árslauna og margfeldisstuðuls. Eru þær bætur fullar bætur að lögum fyrir varanlega örorku, þ.m.t. tap á lífeyrisréttindum.

Er ekki lagaheimild til ákvörðunar fjárhæðar bóta fyrir varanlega örorku á öðrum grundvelli eða eftir annarri aðferðarfræði en felst í reglum skaðabótalaga.

Kröfu stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku í formi eingreiðsluverðmætis, mismunarins á ætluðum ævitekjum hennar sem flugumferðarstjóri og ætluðum ævitekjum hennar sem sérfræðingur á tölvusviði, skortir því lagastoð og ber að hafna henni af þeim ástæðum. Sama gildir um hinar umstefndu bætur fyrir meint töpuð lífeyrisréttindi. Tjón stefnanda skv. ákvæðum skaðabótalaga hefur hins vegar verið bætt að fullu eftir reglum þeirra laga eins og áður segir.

Þá er ekki rétt hjá stefnanda, að bætur til hennar fyrir varanlega örorku á grundvelli reglna 5.-7. gr. skaðabótalaga standist ekki áskilnað 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignaréttarins með því þær bætur nái ekki að bæta allt tjón hennar, sem nemi kr. 85,6 m.kr. út starfsævina skv. niðurstöðu matsmanna, eða að eingreiðsluverðmæti 40,8 m.kr. Þvert á móti hefur Hæstiréttur þegar dæmt, að reglur 5.-7. gr. skaðabótalaga standist ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. H 1998:1976 (mál nr. 311/1997). Er enda um að ræða almennar málefnalegar reglur um ákvörðun bótafjárhæðar fyrir skerðingu á tekjuöflunarhæfi, er taka á sama veg til allra, sem eins stendur á um. Hefur Hæstiréttur einnig dæmt, að takmörkun (þak) á fjárhæð skaðabóta fyrir varanlega örorku skv. reglum skaðabótalaga standist stjórnarskrána, sbr. H 2001:1169 (mál nr. 395/2000). Verða stefnanda því ekki dæmdar frekari örorkubætur á þeim grundvelli, að hinar uppgerðu örorkubætur eftir reglum skaðabótalaga standist ekki stjórnarskrána.

Vegna kröfur stefnanda um sérstakar bætur fyrir töpuð lífeyrisréttindi tekur stefndi fram að stefnanda hefur þegar verið bætt það að fullu eftir reglum skaðbótalaga, en bætur fyrir slíkt tjón felast í bótum fyrir varanlega örorku skv. reglum 7. gr. laganna. Kemur það fram í ákvörðun árslauna til bótaútreiknings skv. 7. gr. laganna, en við ákvörðun árslauna skal telja með framlög tjónþola og vinnuveitanda hans til lífeyrissjóðs. Er stefnandi því í raun að tvíkrefja um bætur fyrir töpuð lífeyrissjóðsréttindi. Skortir þannig alveg  lagaskilyrði til að verða við þessum bótalið.  Er skv. öllu framangreindu enginn  grundvöllur til að verða við kröfum stefnanda.

Fjárhæð umstefndra bótaliða og útreikningum á þeim verður einnig að andmæla per se sem röngum, óútskýrðum og of háum. Er augljóslega rangt við útreikning á mismun ætlaðra ævitekna stefnanda, sem flugumferðarstjóri annars vegar og sérfræðingur á tölvunarsviði hins vegar, að miða aðeins við starfsævi til 63 ára aldurs. Er starfsævi tölvunarfræðinga mun lengri hvað sem starfsævi flugumferðarstjóra líður. 

Þá er sá galli á mati og útreikningum Benedikts, að ekki verður séð hvernig niðurstöðurnar eru fengnar, svo að staðreyna megi útreikningana. Þá liggur fyrir, að ekki hefur verið tekið tillit til skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis til lækkunar við mat á varanlegri örorku, sbr. bréf yfirmatsmanna frá 4. apríl 2005. Ekki er heldur tekið tillit til þess til lækkunar bóta við bótaútreikninga né í stefnukröfum.

Kröfu um dráttarvexti er mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi, en til vara frá fyrri tíma en  mánuði eftir birtingu stefnunnar í málinu.

Forsendur og niðurstaða.

Í málinu krefst stefnandi til viðbótar áður uppgerðum bótum, aðallega  30.966.218 kr., en til vara 3.102.643 kr. Vill stefnandi fá í bætur fyrir varanlega örorku af völdum slyssins eingreiðsluverðmæti mismunarins á ætluðum ævitekjum sínum sem flugumferðarstjóri annars vegar og sem sérfræðingur á tölvunarsviði hins vegar, eða 40.859.000 kr. skv. útreikningum Benedikts Jóhannessonar. Telur stefnandi vangoldnar örorkubætur nema 16.666.218 kr., þegar bæturnar frá stefnda VÍS  fyrir varanlega örorku hafa verið dregnar frá. Þá vill stefnandi fá bætt ætluð töpuð lífeyrisréttindi vegna slyssins að fjárhæð 14.300.000 kr. eftir mati Benedikts. Nemur aðalkrafa stefnanda  þannig  samtals 30.966.218 kr. Samkvæmt varakröfu stefnanda telur stefnandi að lífeyrisréttindi hennar séu vanbætt, en í stað 6% mótframlags atvinnurekanda ætti framlagið að nema 22,9%.

Eins og að framan greinir varð stefnandi fyrir slysi árið 1998 og var henni metinn 35% varanlegur miski og 40% varanlega örorka vegna slyssins.  Hefur stefndi greitt stefnanda bæturnar sem reiknaðar voru á grundvelli 5.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ágreiningslaust er að bæturnar eru réttilega reiknaðar samkvæmt gildandi skaðabótalögum og að þær hafi verið greiddar stefnanda. Þannig er tjónið að fullu bætt samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993.

Í málinu byggir stefnandi á því, að bætur fyrir varanlega örorku hennar á grundvelli reglna skaðabótalaga nr. 50/1993 séu ekki fullar bætur og brjóti í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar. Eins og að framan greinir krefst stefnandi bóta fyrir varanlega örorku sem nemur eingreiðsluverðmæti mismunarins á ætluðum ævitekjum sínum sem flugumferðarstjóri annars vegar og sem sérfræðingur á tölvunarsviði hins vegar. Eins og að framan greinir byggir krafa stefnanda á annarri útreikningsaðferð en skaðabótalögin gera ráð fyrir. Skortir því þessa útreikningsaðferð lagastoð. Stefnandi telur að krafa hennar eigi stoð í 72. gr. stjórnarskrárinnar en samkvæmt því ákvæði verður enginn maður sviptur eigum sínum nema bætur komi fyrir og í aflahæfi einstaklings felist stjórnarskrárvarin eignarréttindi.

Að mati dómsins hefur þessu ágreiningsefni þegar verið svarað, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 311/1997 en þar segir: „Á það er fallist með áfrýjanda að í aflahæfi manna séu fólgin eignarréttindi, sem njóti verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Á hinn bóginn er ótvírætt og raunar óumdeilt í málinu, að löggjafinn hefur heimild til að setja reglur um það hvernig ákvarða skuli bætur þegar aflahæfi manna er skert, enda sé það markmið slíkra reglna að fullar bætur komi fyrir. Með skaðabótalögum nr. 50/1993 var bætt úr brýnni þörf fyrir lögfestar reglur á þessu sviði. Með lögunum var aðferðum við útreikning tjóns vegna varanlegrar örorku breytt í verulegum atriðum. Leitast var við að setja skýrari og einfaldari reglur um ákvörðun bótafjárhæða, sem til þess væru fallnar að draga úr vafa og leiða til skjótari og ódýrari málsmeðferðar. Hins vegar er ljóst að eftir sem áður verða bætur ekki ætíð ákveðnar þannig að óyggjandi sé. Þó verður að telja að hinar stöðluðu reglur laganna leiði til frekara samræmis í bótaákvörðunum og stuðli að jafnræði. Samanburður milli hins nýja bótakerfis og þess, sem áður gilti, er örðugur og getur ekki gefið einhlít svör um það, hvort hin nýju lög fullnægi því markmiði að tryggja tjónþolum fullar bætur fyrir fjártjón. Slíkt mat er torvelt og verður að ætla löggjafanum nokkurt svigrúm í þessum efnum, enda er það hlutverk hans að setja almennar reglur um forsendur bótaákvarðana, þegar þess er þörf. Ekki verður annað séð en að þau ákvæði skaðabótalaganna, sem hér er um fjallað, þ.e. 5. - 7. gr., eins og þau voru við setningu laganna 1993, hafi stuðst við málefnaleg sjónarmið og ekki falið í sér mismunun. Að öllu athuguðu verður að telja að ekki hafi verið sýnt fram á það í málinu, að lögin hafi ekki getað þjónað ofangreindu markmiði og verði því ekki beitt um tjón áfrýjanda. Í þeim fólst skýrt og ótvírætt mat löggjafans, sem við svo búið verður ekki haggað af dómstólum.“

                Krafa stefnanda um bætur vegna skerðinga á lífeyrisréttindum í aðal- og varakröfu er sama marki brennd og krafan um óbætta varanlega örorku, það er að ekki er lagastoð fyrir henni.

                Með vísan til þess sem að framan greinir er stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Björn Bergsson hrl.

                Af hálfu stefnda flutti málið Hákon Árnason hrl.

                Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan

DÓMSORÐ

Stefndu,  Bjarni Guðmann Emilsson og Vátryggingafélag Íslands hf., skulu sýkn af kröfum stefnanda, Þóru Halldórsdóttur.

Málskostnaður fellur niður.