Hæstiréttur íslands
Mál nr. 268/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Aðfararheimild
|
|
Þriðjudaginn 30. apríl 2013. |
|
Nr. 268/2013. |
Gunnar Árnason (Gísli Baldur Garðarsson hrl.) gegn Íslandsbanka hf. (Stefán A. Svensson hrl.) |
Kærumál. Fjárnám. Aðfararheimild.
G kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að fellt yrði úr gildi árangurslaust fjárnám sem gert hafði verið hjá honum að beiðni Í hf. á grundvelli skuldabréfs sem G hafði gengst í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Talið var að af 7. tl. 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1989 um aðför leiddi að aðfarar yrði ekki krafist á hendur þeim sem tekið hefðu á sig sjálfskuldarábyrgð á efndum skuldabréfs, nema slík skuldbinding ábyrgðarmanns kæmi fram í skuldabréfinu sjálfu. Þar sem G hafði gefið út sjálfstæða yfirlýsingu um skuldbindingu sína, sem ekki fullnægði áðurgreindum áskilnaði, gat yfirlýsingin ekki verið gild aðfararheimild. Var beiðni Í hf. um aðför því ekki reist á fullnægjandi aðfararheimild og hefði sýslumanni borið að synja um hana af sjálfsdáðum, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 90/1989. Var aðfarargerðin því felld úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. apríl 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2013 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fellt yrði úr gildi árangurslaust fjárnám sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá honum 7. september 2012. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að aðfarargerðin verði felld úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði gaf sóknaraðili út skuldabréf 3. ágúst 2005 til forvera varnaraðila, sem þá bar sama nafn en var síðar nefndur Glitnir banki hf. Í skuldabréfinu viðurkenndi sóknaraðili að skulda bankanum 7.842.454 japönsk jen en sú fjárhæð var sögð að jafnvirði 4.500.000 krónur miðað við 2. ágúst 2005. Skuldina átti að endurgreiða með 14 afborgunum á sex mánaða fresti og var fyrsti gjalddagi 5. janúar 2006. Hinn 21. september 2007 var undirrituð áritun á skuldabréfið um skuldaraskipti og skilmálabreytingu, en samkvæmt henni samþykkti bankinn að G. Árnason ehf., síðar Mardrangar ehf., yrði nýr skuldari í stað sóknaraðila. Einnig var tekið fram að bankinn félli frá öllum kröfum á hendur sóknaraðila vegna skuldabréfsins. Með yfirlýsingu 4. október sama ár gekkst sóknaraðili í sjálfskuldarábyrgð til tryggingar á skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldabréfsins.
Með aðfararbeiðni 15. febrúar 2010 krafðist varnaraðili þess að sýslumaðurinn í Reykjavík gerði fjárnám hjá sóknaraðila á grundvelli skuldabréfsins og sjálfskuldarábyrgðar hans. Fór fjárnámið fram 7. september 2012 og var það árangurslaust eins og rakið er í úrskurði héraðsdóms. Í málinu leitar sóknaraðili úrlausnar um gildi þeirrar gerðar eftir reglum 15. kafla laga nr. 90/1989.
II
Samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 má gera fjárnám fyrir skuldabréfi ef það hefur að geyma þá skilmála sem þar koma fram og er vottað með tilgreindum hætti. Í 1. mgr. 3. gr. laganna segir að aðfarar megi krefjast hjá þeim sem skylda hvílir á samkvæmt hljóðan aðfararheimildar, en það nær einnig til þeirra sem gengist hafa í sjálfskuldarábyrgð fyrir efndum skuldbindingar samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laganna, ef áskilnaði þess ákvæðis gagnvart aðalskuldara er einnig fullnægt gagnvart ábyrgðarmanni. Af þeim orðum 1. mgr. 3. gr. laganna að „skylda hvílir á samkvæmt hljóðan aðfararheimildar“ leiðir að skuldbinding ábyrgðarmanns þarf að koma fram í sjálfu skuldabréfinu, sbr. dóm Hæstaréttar 24. nóvember 1997, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á blaðsíðu 3399.
Sóknaraðili gekkst ekki undir sjálfskuldarábyrgð sína með því að árita það skuldabréf sem ábyrgð hans tók til. Þess í stað gaf hann út sjálfstæða yfirlýsingu um skuldbindingu sína en hún gat ekki verið aðfararheimild samkvæmt því sem hér hefur verið rakið. Því var beiðni varnaraðila um aðför ekki reist á fullnægjandi aðfararheimild og bar sýslumanni að synja um hana af sjálfsdáðum, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 90/1989. Þegar af þeirri ástæðu og þótt þessu hafi ekki verið borið við af hálfu sóknaraðila ber að fella fjárnámið úr gildi.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Fellt er úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði 7. september 2012 hjá sóknaraðila, Gunnari Árnasyni, samkvæmt kröfu varnaraðila, Íslandsbanka hf.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2013.
Mál þetta var þingfest 16. nóvember sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 11. febrúar sl. Sóknaraðili er Gunnar Árnason, Naustabryggju 36, Reykjavík en varnaraðili er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að felld verði úr gildi ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík 7. september 2012 í aðfararmáli nr. 011-2010-03337 um að halda gerðinni áfram gegn mótmælum og útskýringum sóknaraðila og ljúka henni með árangurslausu fjárnámi hjá sóknaraðila. Sóknaraðili krefst þess einnig að ,,verða sýknaður af öllum kröfum varnaraðila í máli þessu“. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að aðfarargerð Sýslumannsins í Reykjavík í máli nr. 011-2010-03337 dags. 7. september 2012 standi óbreytt. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Málavextir
Hinn 3. ágúst 2005 gaf sóknaraðili út skuldabréf til Íslandsbanka hf., kt. 550500-3530, síðar Glitnis banka hf. Skuldabréfið ber númerið 526-261685. Fram kemur í fyrirsögn skuldabréfsins að það sé ,,skuldabréf í erlendum gjaldmiðli Húsnæðislán“. Í skuldabréfinu er því lýst að stefndi viðurkenni með undirritun sinni á skuldabréfið að skulda bankanum 7.842.454 japönsk jen (JPY), ,,jafnvirði í íslenskum krónum þann 2.8.2005“ 4,5 milljónir króna. Skuldina átti að endurgreiða með 14 jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti og var fyrsti gjalddagi 5. janúar 2006. ,,Grunnvextir nú“ eru sagðir vera ,,JPY 0,06625“ og ,,fast vaxtaálag Libor“ er sagt vera 2,00. Vextir séu samtals nú 2,07%. Ráðstöfunarreikningur er sagður vera bankareikningur með númerinu 0526-26-404056 og er ekki deilt um að það sé reikningur í íslenskum krónum.
Fram kemur í 3. gr. skilmála skuldabréfsins að greiða skyldi breytilega vexti af láninu. Vextir af öðrum lánshlutum en evrum og íslenskum krónum skyldu vera LIBOR-vextir og skyldu ákvarðast fyrir viðkomandi gjaldmiðil tveimur dögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils, að viðbættu vaxtaálagi. Með LIBOR (London Inter Bank Offered Rate) vöxtum sé átt við vexti á millibankamarkaði í London eins og þeir séu auglýstir kl. 11:00 að staðartíma í London á BBA-síðu Reuter. Í 5. gr. kemur fram að sóknaraðili skuli greiða af láninu í íslenskum krónum. Íslandsbanki skuli reikna út fjárhæð hverrar afborgunar og/eða vaxta miðað við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á þeim gjaldmiðlum sem lánið samanstandi af allt að tíu dögum fyrir gjalddagann. Í 6. gr. segir að lánveitandi geti leyft færslu skuldarinnar yfir á aðra gjaldmiðla og/eða breytt skiptingu á milli þeirra síðar á lánstíma og skuli greiða breytingagjald samkvæmt verðskrá bankans. Fram kemur m.a. í 8. gr. að við vanefndir af hálfu sóknaraðila sé heimilt að gjaldfella skuldina fyrirvaralaust og án uppsagnar. Sama gildi verði bú sóknaraðila tekið til gjaldþrotaskipta eða ef hann leitar nauðasamninga. Lánveitanda sé þá jafnframt heimilt að umreikna erlendan lánshluta í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi lánveitanda á þeim gjaldmiðlum sem lánið samanstandi af kl. 12 á hádegi á gjaldfellingardegi. Einnig undirritaði sóknaraðili yfirlýsingu 3. ágúst 2005 þar sem hann lýsir því yfir að það sé ,,alfarið mín ákvörðun að breyta samsetningu myntkörfu á húsnæðisláni sem ég tek hjá Íslandsbanka hf., gegn ráðgjöf Íslandsbanka hf. um samsetta myntkörfu.“ Fyrir liggur að lánið var greitt út til sóknaraðila í íslenskum krónum og lagt inn á ofangreindan reikning.
Hinn 21. september 2007 ritaði sóknaraðili persónulega og sem fyrirsvarsmaður G. Árnasonar ehf. undir skjal með fyrirsögninni ,,Áritun um skuldaraskipti og skilmálabreytingu Skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“. Í upphafi texta skjalsins kemur fram að það sé áritun á skuldabréf útgefið 3. ágúst 2005 af sóknaraðila ,,upphaflega eftirfarandi erlendar fjárhæðir: JPY 7.842.454“. Því er lýst að eftirstöðvar lánsins séu ,,eftirfarandi erlend fjárhæð: JPY 5.601.755,38“. Einnig kemur fram að Glitnir banki hf. samþykki skuldaraskipti þannig að í stað sóknaraðila gerist G. Árnason ehf. skuldari samkvæmt skuldabréfinu og sé fallið frá öllum kröfum á hendur sóknaraðila. Síðan segir eftirfarandi: ,,Jafnframt mun skuldabréf þetta eftirleiðis vera lán í erlendum gjaldmiðlum frá Glitni banka hf., útibú 526, í stað húsnæðisláns í erlendum gjaldmiðlum.“ Tekið er fram að skuldari hafi kynnt sér skilmála bréfsins, sem séu að öðru leyti óbreyttir.
Hinn 4. október 2007 undirritaði sóknaraðili yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð. Fram kemur í upphafi skjalsins að Glitnir banki hf. sé ,,kröfuhafi skuldabréfs í erlendum gjaldmiðlum nr. CU-261685, útgefnu 3. ágúst 2005, af Gunnari Árnasyni, kt. 040569-919, upphaflega að fjárhæð JPY 7.842.454,00“. Síðan segir: ,,Lánið sem upphaflega var húsnæðislán í erlendum gjaldmiðlum er breytt í almennt lán í erlendum gjaldmiðlum frá Glitni hf. þann 21. sept. 2007.“ Einnig segir í skjalinu: ,,Lánið er nú að est. JPY. 5.601.755,38.“ Fram kemur að sóknaraðili taki á sig sjálfskuldarábyrgð á láninu og nái ábyrgðin til allra vaxta, gengismunar og kostnaðar. Sjálfskuldarábyrgðin gildi áfram þótt greiðslufrestur verði veittur á láninu, einu sinni eða oftar, þar til lánið er að fullu greitt. Að öðru leyti haldist ákvæði skuldabréfsins óbreytt.
Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd, en í framhaldi af því var settur á stofn Nýi Glitnir banki hf., sem nú ber heiti varnaraðila.
Að kröfu varnaraðila gerði Sýslumaðurinn í Reykjavík árangurslaust fjárnám hjá sóknaraðila 7. september 2012 á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar hans á umræddu skuldabréfi.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að samkvæmt lánsformi og meginmáli skuldabréfsins sé um að ræða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum. Þar komi fram að skuldabréfið sé til komið vegna húsnæðisláns Íslandsbanka hf., í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla, að jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum. Tekið sé fram í ákvæðum skuldabréfsins að endurgreiða skuli lánið í íslenskum krónum. Í meginmáli skuldabréfsins sé yfirlýsing skuldara [útgefanda] um að hann taki á sig þá skyldu með undirritun sinni að endurgreiða skuldina eins og hún sé tilgreind, 4.500.000 íslenskar krónur, samkvæmt skilmálum lánsins eins og nánar greinir í skuldabréfinu. Yfirlýsingin sé í órjúfanlegu samhengi við að fjárhæð lánsins sé birt í tölu- og prentstöfum í íslenskum krónum. Lánsfjárhæð í íslenskum krónum hafi verið ráðstafað inn á reikning sóknaraðila nr. 0526-26-404056. Sami reikningur hafi verið skráður skuldfærslureikningur lánsins vegna afborgana höfuðstóls og vaxta. Óumdeilt sé að Íslandsbanki hf. hafi á þeim degi þegar lánið var veitt ekki boðið viðskiptavinum sínum önnur húsnæðislán en verðtryggð húsnæðislán eða gengistryggð húsnæðislán í íslenskum krónum. Síðarnefnda lánsformið sé lánsform umrædds skuldabréfs. Íslandsbanki hf. hafi ekki boðið viðskiptavinum sínum erlend lán til húsnæðiskaupa hér á landi á þeim tíma er umrætt skuldabréf hafi verið gefið út. Um staðlað lánsform bankans sé að ræða sem hafi verið samið af sérfræðingum bankans á sviði viðskipta og lögfræði.
Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að dómar Hæstaréttar Íslands í málum nr. 464/2012 18. október 2012 og nr. 600/2011 15. febrúar 2012 eyði óvissu um hvernig standa skuli að endurútreikningi láns samkvæmt umræddu skuldabréfi. Því geti ekki verið um ómöguleika eða óskýrleika máls að ræða hjá varnaraðila sem torveldað geti framvindu endurútreiknings svo neinu nemi. Ákvörðun sýslumanns sé því ólögmæt. Bankastjóri varnaraðila hafi lýst því yfir opinberlega að varnaraðili hafi nú hafist handa við að endurútreikna öll ólögmæt gengistryggð lán í kjölfar dóma Hæstaréttar og í því sambandi hafi varnaraðili meðal annars gert ráðstafanir til að fella niður mál fyrir dómstólum sem ætlað hafi verið að skýra nánar hvernig staðið skyldi að endurútreikningi ólögmætra gengistryggðra lána. Rök varnaraðila fyrir þeirri ráðstöfun séu þau að rekstur umræddra dómsmála sé nú ekki lengur talinn nauðsynlegur til að varpa ljósi á það hvernig staðið skuli að endurútreikningi þar sem Hæstiréttur Íslands hafi með nýlegum dómum sínum um ólögmæti gengistryggingar lánsskuldbindinga í íslenskum krónum kveðið afdráttarlaust upp úr um hvernig endurútreikningi skuli hagað. Varnaraðila eigi því að vera í lófa lagið að reikna út stöðu umræddrar skuldar. Gera verði þá skýlausu kröfu til varnaraðila, sem sé fjármálastofnun, að endurútreikningur fari fram án tafar. Fyrr geti varnaraðili ekki talist hafa uppfyllt skilyrði laga nr. 90/1989 og fyrr geti sóknaraðili ekki brugðist við áskorun um að greiða skuld og fyrr geti sóknaraðili ekki gert aðrar ráðstafanir, s.s. varðandi endurfjármögnun. Grundvallarforsenda í því sambandi sé að útreiknuð staða láns liggi fyrir hjá varnaraðila og sé í samræmi við gerð láns, lánaskilmála og dómafordæmi Hæstaréttar. Niðurstaða útreiknings hafi ekki enn verið kynnt fyrir sóknaraðila. Við munnlegan flutning málsins vísaði sóknaraðili til þess að lánið hefði upphaflega verið tekið sem húsnæðislán. Lög nr. 151/2010 hafi breytt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu í þeim tilgangi að tryggja sömu meðferð gengistryggðra lána og gildi um öll húsnæðislán til neytenda. Lögin gildi, sé lán greitt út í íslenskum krónum. Hinn 21. september 2007 hafi nýr greiðandi tekið við í stað sóknaraðila, Mardrangar ehf., áður G. Árnason ehf. Engin eðlisbreyting hafi orðið á láninu við skuldaraskipti, heldur hafi einungis nýr skuldari tekið við. Mardrangar ehf. hafi tekið yfir lánið í rangri stöðu. Félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2012.
Þar sem varnaraðili hafi ekki endurreiknað lánið hafi sýslumanni borið að stöðva framgang gerðarinnar með vísan til 10. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Áskorun varnaraðila til sóknaraðila um að greiða skuld hafi ekki byggst á réttum útreikningsforsendum og geti því ekki talist uppfylla skilyrði laga nr. 90/1989. Sóknaraðili geti ekki brugðist við áskorun um að greiða skuld þegar staða lánsins liggi ekki fyrir. Óumdeilt sé að meint staða kröfunnar sé til muna hærri en raunveruleg staða lánsins ef rétt væri reiknað. Meint krafa samkvæmt greiðsluáskorun til sóknaraðila í desember 2009 hafi verið 7.097.733 krónur, sem er tæpum 58% hærra en upphaflegur höfuðstóll skuldarinnar. Áskorun um að greiða skuld samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 90/1989 verði að eiga sér stoð í undirliggjandi lánsskjali. Óumdeilt sé að lánið sé ekki reiknað í samræmi við vaxtaákvæði 3. tl. lánaskilmála skuldabréfsins og forsendur lánveitingarinnar um vaxtafót. Útreikningur kröfunnar taki heldur ekki mið af því að um ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum sé að ræða. Engu máli skipti þó að sett sé fram tiltekin og sundurliðuð fjárhæð.
Í þriðja lagi telur sóknaraðili að sýslumaður hafi ekki haft heimild til að ljúka gerðinni með árangurslausu fjárnámi með vísan til 62. gr. laga nr. 90/1989. Sóknaraðili eigi eignir sem nægi til tryggingar kröfunni og hafi ekki lýst yfir hinu gagnstæða við fyrirtöku máls hjá sýslumanni. Þá hafi sóknaraðili verið mættur til gerðarinnar 7. september sl. og við sex fyrri fyrirtökur á skrifstofu sýslumanns.
Í fjórða lagi kveðst sóknaraðili ekki geta sæst á að greiða á grundvelli aðfarargerðar mun hærri fjárhæð en raunveruleg staða skuldar gefi tilefni til og þurfa síðar, þegar endurútreikningur lánsins liggi fyrir, að krefjast endurgreiðslu á því sem ofgreitt hafi verið. Það samrýmist engan vegin reglum samningaréttar og almennum reglum kröfuréttarins eða reglum laga nr. 90/1989.
Í fimmta lagi sé ósamræmi til staðar í því hverjum krafan tilheyri. Varnaraðili sé fjármálastofnun með kennitölu 491008-0160. Kröfuhafi samkvæmt umræddu skuldaskjali sé lögaðili með kennitölu 550500-3530. Skuldabréfið beri ekki með sér að varnaraðili sé framsalshafi samkvæmt óslitinni röð framsala. Sóknaraðili vísar í því sambandi til almennra reglna kröfuréttarins um framsal fjárskuldbindinga.
Í sjötta lagi hafi nýr aðili tekið við greiðslu umrædds skuldabréfs með skuldskeytingu 21. september 2007, G. Arnason ehf., síðar Mardrangar ehf. Samtímis hafi varnaraðili fallið frá öllum kröfum á hendur sóknaraðila.
Krafa sóknaraðila um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. og 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattsskyldur og því sé nauðsynlegt að taka tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili byggir á því í fyrsta lagi að skuldbinding í erlendum gjaldmiðli, einum eða fleirum, brjóti ekki í bága við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Varnaraðili mótmælir því að útgreiðsluháttur lánsins, greiðsla afborgana og vaxta eða önnur þau atriði er sóknaraðili byggir á bendi til þess að um lán í íslenskum krónum sé að ræða. Ákvæði skuldabréfsins um vexti og aðrir skilmálar þess bendi eindregið til þess að um skuldbindingu í erlendri mynt sé að ræða. Engin atriði er varða tilurð skuldabréfsins bendi til þess að um lán í íslenskum krónum sé að ræða.
Hæstiréttur Íslands hafi í dómum sínum slegið því föstu að við úrlausn á því, hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli eða gjaldmiðlum, verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni og að í því sambandi skipti einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin sé tilgreind í þeim. Skuldabréf nr. 526-261685 kveði skýrt á um skuldbindingu í erlendri mynt. Í fyrirsögn skuldabréfsins komi fram að um húsnæðislán í erlendum gjaldmiðli sé að ræða. Því næst sé útgefandi tilgreindur og vextir, afborganir og lánstími skilgreindur. Þá komi skýrt fram að útgefandi viðurkenni, með undirritun sinni á skuldabréfið, að skulda 7.842.454 japönsk jen. Fyrir neðan þessa skýru tilgreiningu skuldbindingar sóknaraðila komi fram að fyrrnefnd fjárhæð í jenum jafngildi 4.500.000 íslenskum krónum. Sú tilgreining haggi ekki skýrri tilgreiningu skuldbindingarinnar í hinum erlenda gjaldmiðli. Tilgreining skuldbindingarinnar í hinum erlenda gjaldmiðli hafi verið ítrekuð við skuldaraskipti og í sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingu sóknaraðila komi skýrt fram að skuldbinding sem hann ábyrgist hafi upphaflega verið og sé enn í japönskum jenum.
Í dómi Hæstaréttar 23. nóvember 2011 í máli nr. 551/2011 haf því verið slegið föstu að skýr tilgreining á höfuðstól skuldar í erlendri mynt ásamt fyrirsögn er beri með sér að um skuldbindingu í erlendri mynt sé að ræða leiði til þess að skuldbinding teljist vera í erlendri mynt. Sérstaklega sé tekið fram í dóminum að tilgreining jafnvirðis höfuðstóls skuldarinnar í íslenskum krónum haggi ekki þessari niðurstöðu.
Skuldbinding sóknaraðila samkvæmt skuldabréfinu sé því í erlendri mynt og varnaraðila sé þess vegna ekki skylt að endurreikna það eins og ef um skuld í íslenskum krónum hefði verið að ræða. Ekkert bendi til þess að útreikningur kröfunnar í greiðsluáskorun eða aðfararbeiðni sé ekki réttur.
Í öðru lagi vísar varnaraðili til þess að óumdeilt sé að sóknaraðili hafi mætt til fyrirtöku aðfarargerðarinnar 7. september 2012 og ekki lýst þar yfir að hann ætti ekki eignir til að tryggja kröfu varnaraðila. Sóknaraðili hafi hins vegar gengið út af skrifstofu sýslumanns áður en gerðinni lauk. Í endurriti gerðarbókar sýslumanns komi fram að eftir að fulltrúi sýslumanns ákvað að gerðinni yrði fram haldið þar sem um lögmætt erlent lán væri að ræða hafi sóknaraðili lýst því yfir að hann myndi bera þá ákvörðun undir héraðsdóm og síðan hafi hann vikið af skrifstofu sýslumanns án þess að sýslumaður fengi ráðrúm til að ljúka gerðinni. Samkvæmt 2. tl. 62. gr. laga nr. 90/1989 um aðför verði kröfu um fjárnám lokið án árangurs ef enginn mætir til gerðarinnar af hálfu gerðarþola þótt hann hafi sannanlega verið boðaður til hennar og engin vitneskja liggi fyrir um eign sem gera mætti fjárnám í. Sú ákvörðun sóknaraðila að víkja af skrifstofu sýslumanns áður en gerðinni lauk jafngildi því að mæta ekki til gerðarinnar. Sóknaraðili hafi ekki verið viðstaddur gerðina, aðeins upphaf hennar. Sú fullyrðing sóknaraðila að hann eigi eignir til að tryggja kröfu varnaraðila sé ósönnuð. Sóknaraðili hafi ekki bent á eignir til fullnustu kröfunni en það sé sú leið sem hann hafi, telji hann hið árangurslausa fjárnám ekki gefa rétta mynd af fjárhagsstöðu sinni.
Í þriðja lagi vísar varnaraðili til þess að við fyrirtöku á aðfararbeiðni hjá sýslumanni 7. september 2012 hafi sóknaraðili lagt fram kvittun fyrir greiðslu gjalddaga 7. janúar 2008. Eins og sjá megi af aðfararbeiðni sé fyrsti gjalddagi í vanskilum 5. janúar 2009 og lánið sé gjaldfellt í innheimtukerfi bankans 16. október 2009. Á þeim degi hafi staða lánsins verið umreiknuð í íslenskar krónur sem gerði 6.496.562 krónur og sé það höfuðstóll kröfunnar samkvæmt aðfararbeiðninni. Við útreikning kröfunnar hafi því þegar verið tekið tillit til allra greiðslna á árinu 2008.
Í fjórða lagi hafnar varnaraðili því að til staðar sé ósamræmi milli þess hver sé kröfuhafi samkvæmt skuldabréfinu og þess hver hafi krafist aðfarar hjá sóknaraðila. Varnaraðili hafi fengið skuldabréfið framselt frá Glitni banka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Sú ákvörðun hafi verið byggð á heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands frá 1. nóvember 2011 í máli nr. 567/2011 veiti ákvörðunin fullnægjandi sönnun fyrir eignarhaldi varnaraðila á skuldabréfinu.
Í fimmta lagi segir varnaraðili það óumdeilt að með skuldskeytingu 21. september 2007 hafi sóknaraðili losnað undan skuldbindingum sínum samkvæmt umræddu skuldabréfi. Sóknaraðili hafi hins vegar gefið út yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð 13 dögum síðar, 4. október 2007.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför er aðilum að aðfarargerð heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdómara um aðfarargerð, ef krafa þess efnis berst héraðsdómara innan átta vikna frá því gerðinni var lokið. Þeirri aðfarargerð sem hér um ræðir lauk með árangurslausu fjárnámi 7. september 2012 og var krafa sóknaraðila um úrlausn dómsins móttekin 8. október 2012. Samkvæmt 94. gr. laga nr. 90/1989 gilda almennar reglur um meðferð einkamála í héraði eftir því sem við getur átt, með þeim undantekningum sem þar greinir.
Sóknaraðili byggir dómkröfu sína m.a. á því að annar aðili en varnaraðili sé kröfuhafi samkvæmt skuldabréfi nr. 526-261685 og að með skuldskeytingu 21. september 2007 hafi sóknaraðili verið losaður undan skuldbindingum sínum samkvæmt skuldabréfinu. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála leiða varnir byggðar á aðildarskorti til sýknu ef fallist er á þær. Verður því fyrst leyst úr þessum málsástæðum sóknaraðila.
Umrætt skuldabréf er gefið út af sóknaraðila 3. ágúst 2005 til Glitnis banka hf. Fyrir liggur að 7. október 2008 neytti Fjármálaeftirlitið heimildar í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Í framhaldi af því var varnaraðili settur á stofn, en hann hét þá Nýi Glitnir banki hf. Hinn 14. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf. til varnaraðila. Sú ákvörðun byggði á heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar Íslands 1. nóvember 2011 í máli nr. 567/2011. Samkvæmt 1. tl. ákvörðunarinnar er öllum eignum Glitnis banka hf., hverju nafni sem þær nefnast, þ. á m. kröfuréttindum, ráðstafað til varnaraðila, fyrir utan réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum og eignir sem taldar eru upp í viðauka við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Í ljósi þessa er að mati dómsins nægilega sannað að umrætt skuldabréf hafi með ákvörðuninni orðið eign varnaraðila.
Óumdeilt er að með ,,Áritun um skuldaraskipti og skilmálabreytingu Skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“, sem dagsett er 21. september 2007, samþykkti Glitnir banki hf. skuldaraskipti þannig að G. Árnason ehf. yrði framvegis skuldari að umræddu skuldabréfi og féll um leið frá öllum kröfum á hendur sóknaraðila. Varnaraðili byggir hins vegar á því að sóknaraðili hafi ritað undir yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð 4. október 2007 þar sem hann taki á sig sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldabréfsins. Umrædd yfirlýsing er lögð fram í málinu. Hún er undirrituð af sóknaraðila og þar tekur hann berum orðum á sig sjálfskuldarábyrgð á greiðslu ,,skuldabréfs í erlendum gjaldmiðlum nr. CU-261685, útgefnu 3. ágúst 2005, af Gunnari Árnasyni, kt. 040569-919, upphaflega að fjárhæð JPY 7.842.454,00“. Ekki verður annað ráðið af tilvitnuðum orðum yfirlýsingarinnar en að þar sé vísað til umrædds skuldabréfs. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1989 er heimilt að krefjast aðfarar hjá þeim sem hafa tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á efndum skuldbindingar samkvæmt 7. tl. 1. mgr. 1. gr. ef áskilnaði þessara ákvæða gagnvart aðalskuldara er einnig fullnægt gagnvart þeim. Er kröfu varnaraðila því réttilega beint að sóknaraðila.
Í dómum Hæstaréttar Íslands 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 var því slegið föstu að ófrávíkjanleg ákvæði 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu stæðu því í vegi að lántaki væri skuldbundinn af ákvæði í samningi um að fjárhæð láns í íslenskum krónum tæki breytingum eftir gengi erlends gjaldmiðils. Meginágreiningur aðila máls þessa lýtur að því hvort umrætt skuldabréf feli í sér löglegt lán í erlendum gjaldmiðli eða hvort lánið sé í íslenskum krónum, tengt við gengi erlendra gjaldmiðla, í andstöðu við 14. gr. laga nr. 38/2001.
Hæstiréttur Íslands hefur frá þessum tíma kveðið upp marga dóma, þar sem á það hefur reynt hvort skuldbinding samkvæmt lánssamningi teljist vera um fjárhæð í íslenskum krónum, sem á þennan óheimila hátt hafi verið gengistryggð, eða fjárhæð í erlendum gjaldmiðli, einum eða fleiri, sem fyrrnefnt lagaákvæði tekur ekki til. Í þessu samhengi skiptir mestu máli dómur réttarins 7. júní 2012 í máli nr. 524/2011. Í málinu var deilt um skuldabréf, gefið út af tveimur einstaklingum til forvera varnaraðila, Glitnis banka hf. Rétturinn taldi að við úrlausn þess hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum væri að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum væri fyrst að líta til heitis skuldabréfsins en fyrirsögn þess var: „Skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum.“ Í öðru lagi að lánsfjárhæðin væri samkvæmt orðalagi skuldabréfsins fyrst tilgreind í þremur erlendum gjaldmiðlum, svissneskum frönkum, japönskum jenum og evrum, og síðan jafnvirði lánsins í íslenskum krónum. Í þriðja lagi væru vextir samkvæmt skuldabréfinu til samræmis við að um erlent lán væri að ræða tilgreindir LIBOR- og EURIBOR-vextir. Í fjórða lagi væri til skilmálabreytingar að líta, en fyrirsögn hennar væri: „Skilmálabreyting skuldabréfs í erlendum myntum/mynteiningum“ og væri jafnvirðisfjárhæðar í íslenskum krónum þar ekki getið. Að þessu virtu var það niðurstaða réttarins að hér hefði verið tekið gilt lán í hinum tilgreindu erlendu gjaldmiðlum.
Við munnlegan flutning málsins mótmælti lögmaður varnaraðila tilvísun til 5. tl. skilmála skuldabréfsins sem nýrri málsástæðu sem væri of seint fram komin. Á þetta er ekki fallist. Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að tiltekið sé í ákvæðum lánsins að endurgreiða skuli lánið í íslenskum krónum. Sóknaraðili vísar hér greinilega til 5. tl. skilmála skuldabréfsins.
Skuldabréf það sem um er deilt í máli þessu ber fyrirsögnina ,,Skuldabréf í erlendum gjaldmiðli“. Þá kemur fram að útgefandi skuldabréfsins viðurkenni að skulda Íslandsbanka hf. tiltekna fjárhæð í japönskum jenum og síðan er tilgreint jafnvirði hennar í íslenskum krónum miðað við tiltekna dagsetningu. Þá eru vextir samkvæmt skuldabréfinu tilgreindir LIBOR-vextir. Í áritun um skuldaraskipti og skilmálabreytingu er í fyrirsögn þess getið að um sé að ræða ,,Skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“. Einungis er getið um hina upphaflegu fjárhæð í japönskum jenum og eftirstöðvar skuldabréfsins eru sömuleiðis einungis tilgreindar í japönskum jenum. Þá er endurtekið í árituninni að skuldabréfið muni ,,eftirleiðis vera lán í erlendum gjaldmiðlum ... í stað húsnæðisláns í erlendum gjaldmiðlum“. Í yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð kemur fram að Glitnir banki hf. sé ,,kröfuhafi skuldabréfs í erlendum gjaldmiðlum ... upphaflega að fjárhæð JPY 7.842.454“. Eftirstöðvar lánsins séu ,,JPY 5.601.755,38“. Ekki er minnst á fjárhæð í íslenskum krónum. Ekki verður annað séð en að þetta skuldabréf sé fyllilega sambærilegt því skuldabréfi sem um ræddi í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar. Samkvæmt þessu verður að fallast á það með varnaraðila að umrætt skuldabréf sé löglegt lán í erlendum gjaldmiðli. Það haggar ekki þessari niðurstöðu þó að lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum á reikning sóknaraðila og honum hafi borið að endurgreiða það í íslenskum krónum, enda bendir ákvæði skuldabréfsins, um að Íslandsbanki hf. skyldi reikna út fjárhæð hverrar afborgunar og/eða vaxta miðað við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á þeim gjaldmiðlum sem lánið samanstandi af allt að tíu dögum fyrir gjalddagann, til þess að skuldin sé í erlendri mynt.
Samkvæmt greinargerðum aðila málsins og því sem fram kom við munnlegan málflutning greinir aðila á um það hvort varnaraðila beri skylda til að endurreikna skuld samkvæmt skuldabréfinu í samræmi við ákvæði til bráðabirgða X við lög nr. 38/2001, sem bætt var við lögin með lögum nr. 151/2010. Fram kemur í ákvæðinu að hafi húsnæðislán til neytanda verið greitt út í íslenskum krónum eða ef umbreyting úr erlendum myntum er hluti viðkomandi lánssamnings, en endurgreiðsla skuldarinnar miðist að einhverju leyti við gengi erlendra gjaldmiðla, fari um uppgjör vegna ofgreiðslu og framtíðarskilmála skuldbindingarinnar eftir því sem greinir í 18. gr. laganna. Ágreiningslaust er að upphaflega var um húsnæðislán að ræða til neytanda, þ.e. sóknaraðila, og að lánið var greidd út til sóknaraðila í íslenskum krónum. Hinn 21. september 2007 ritaði sóknaraðili persónulega og sem fyrirsvarsmaður G. Árnasonar ehf. undir ,,Áritun um skuldaraskipti og skilmálabreytingu Skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“, þar sem Glitnir banki hf. samþykkir skuldaraskipti þannig að í stað sóknaraðila gerist G. Árnason ehf. skuldari samkvæmt skuldabréfinu. Í skjalinu segir m.a.: ,,Jafnframt mun skuldabréf þetta eftirleiðis vera lán í erlendum gjaldmiðlum frá Glitni banka hf., útibú 526, í stað húsnæðisláns í erlendum gjaldmiðlum.“ Tekið er fram að skuldari hafi kynnt sér skilmála bréfsins, sem séu að öðru leyti óbreyttir. Með þessu var skilmálum skuldabréfsins skýrlega breytt, samtímis því sem lögaðili gerðist skuldari í stað einstaklings, þ.e. sóknaraðila. Ekki verður ráðið af orðum umrædds ákvæðis til bráðabirgða X eða lögskýringargögnum við lög nr. 151/2010 að skýra beri ákvæðið rýmkandi lögskýringu á þann veg að það gildi einnig um lán þar sem einstaklingur er ekki lengur skuldari. Er varnaraðila því ekki skylt að endurreikna skuld samkvæmt skuldabréfinu. Ekki skiptir máli þótt sóknaraðili hafi síðar gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu skuldabréfsins, enda var umrædd skilmálabreyting ítrekuð í yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð.
Í aðfararbeiðni varnaraðila til Sýslumannsins í Reykjavík kemur fram fjárhæð höfuðstóls skuldarinnar, 6.496.562 krónur. Mótmæli sóknaraðila við fjárhæð kröfu varnaraðila byggja einvörðungu á því að krafan hafi ekki verið endurreiknuð í samræmi við ákvæði til bráðabirgða X við lög nr. 38/2001, en þeirri málsástæðu hefur verið hafnað. Verður því að leggja til grundvallar að höfuðstóll kröfunnar sé rétt útreiknaður.
Sóknaraðili byggir á því að sýslumanni hafi ekki verið heimilt að ljúka gerðinni með árangurslausu fjárnámi þar sem hann hafi verið mættur til hennar og ekki lýst því yfir að hann ætti ekki eignir til að tryggja kröfu varnaraðila. Samkvæmt 2. tl. 62. gr. laga nr. 90/1989 verður fjárnámi eftir kröfu gerðarbeiðanda lokið án árangurs ef enginn mætir til gerðarinnar af hálfu gerðarþola þótt hann hafi sannanlega verið boðaður til hennar og engin vitneskja liggur fyrir um eign sem gera mætti fjárnám í. Samkvæmt endurriti úr gerðabók Sýslumannsins í Reykjavík mætti sóknaraðili sjö sinnum til gerðarinnar. Við síðustu fyrirtöku, 7. september 2012, vék sóknaraðili úr skrifstofu sýslumanns, eftir að fulltrúi sýslumanns hafði ákveðið að halda gerð áfram að kröfu varnaraðila þrátt fyrir mótmæli sóknaraðila. Ákvæði 2. tl. er nýmæli sem var lögfest með lögum nr. 95/2010. Fram kemur m.a. í 5. kafla í almennum athugasemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 95/2010 að þetta nýmæli sé sett til að auðvelda afgreiðslu aðfararbeiðna hjá sýslumönnum. Til að tryggja réttarstöðu gerðarþola sé samhliða lagt til að lögfest verði heimild fyrir hann til að krefjast endurupptöku gerðarinnar, hafi henni verið lokið án árangurs og hann geti bent á eignir til tryggingar kröfu gerðarbeiðanda. Óeðlilegt sé að gerðarþoli geti hindrað að aðfararbeiðni verði tekin fyrir með því einu að virða að vettugi fjárnámsboðun og haga málum þannig að erfitt reynist að hafa uppi á honum eða málsvara. Með vísan til þessara athugasemda verður að túlka ákvæðið þannig að ef gerðarþoli mætir til aðfarargerðar en víkur úr skrifstofu sýslumanns áður en gerð er lokið megi halda gerðinni áfram og ljúka henni án árangurs, liggi engin vitneskja fyrir um eign sem gera mætti fjárnám í. Var því heimilt að ljúka aðfarargerðinni án árangurs eftir að sóknaraðili vék úr skrifstofu sýslumanns. Þá neytti sóknaraðili ekki þess úrræðis að óska eftir endurupptöku aðfarargerðarinnar samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 67. gr. laga nr. 90/1989, teldi hann sig eiga nægar eignir til fullnustu kröfu varnaraðila.
Með vísan til framangreinds er þeirri kröfu sóknaraðila hafnað að felld verði úr gildi ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík 7. september 2012 í aðfararmáli nr. 011-2010-03337 um að halda gerðinni áfram og ljúka henni með árangurslausu fjárnámi hjá sóknaraðila, og er aðfarargerðin staðfest.
Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 skal í úrskurði héraðsdómara kveða á um staðfestingu eða ógildingu aðfarargerðar eða um breytingu hennar. Sú krafa sóknaraðila að hann verði ,,sýknaður af öllum kröfum varnaraðila í máli þessu“ kemur því ekki til álita.
Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 á varnaraðili rétt á málskostnaði úr hendi sóknaraðila, sem þykir með hliðsjón af umfangi málsins hæfilega ákveðinn 200.000 krónur og hefur við ákvörðun upphæðarinnar verið tekið tillit til skyldu varnaraðila til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Við uppkvaðningu úrskurðarins var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Úrskurðarorð:
Staðfest er aðfarargerð Sýslumannsins í Reykjavík í máli nr. 011-2010-03337.
Sóknaraðili, Gunnar Árnason, greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 200.000 krónur í málskostnað.