Hæstiréttur íslands
Mál nr. 171/2003
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Örorka
- Miskabætur
- Þjáningarbætur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 4. desember 2003. |
|
Nr. 171/2003. |
Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. (Ingvar Sveinbjörnsson hrl.) gegn Ragnhildi Ólafsdóttur (Karl Axelsson hrl.) og gagnsök |
Bifreiðir. Líkamstjón. Skaðabætur. Örorka. Miskabætur. Þjáningabætur. Gjafsókn.
R slasaðist í umferðarslysi 2. júlí 1996 þegar hún var 13 ára gömul. Varanlegur miski R var metinn 75% en varanleg örorka 100%. Viðurkenndi A bótaskyldu vegna slyssins og greiddi bætur en í málinu var deilt um hvort R ætti rétt á frekari bótum fyrir varanlega örorku, álagi á bætur fyrir varanlegan miska, þjáningabótum, og bótum fyrir annað fjártjón. Ekki var talin lagaheimild til að víkja frá skýru ákvæði 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um útreikning bóta vegna örorku barna og voru þær því ákvarðaðar á grundvelli miskastigs eins og það hafði verið metið af örorkunefnd og matsmönnum. Þótti þessi aðferð ekki brjóta gegn 72. gr. sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. R hafði hlotið umtalsverða vitræna skerðingu við slysið og var bundin hjólastól til ferða utan dyra. Þótti ljóst að hún væri og yrði verulega háð aðstoð annarra við helstu athafnir daglegs lífs og að slysið hefði haft varanleg og afgerandi áhrif á tækifæri hennar til að njóta frístunda og hvers kyns lífsgæða um ókomna framtíð. Því þótti rétt að hækka miskabætur til hennar um 30%. Fallist var á kröfu R um að greiða bæri henni þjáningabætur í samræmi við matsgerð. Því var hafnað að hugtakið annað fjártjón í 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga næði til áætlaðs kostnaðar við endurhæfingu, þjálfun og sérkennslu af ýmsu tagi sem R yrði fyrirsjáanlega fyrir í framtíðinni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 9. maí 2003. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara, að kröfurnar verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu 16. júlí 2003. Hún krefst þess, að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 12.654.856 krónur með 2% ársvöxtum frá 2. júlí 1996 til 15. september 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
I.
Eins og fram kemur í héraðsdómi slasaðist gagnáfrýjandi alvarlega í umferðarslysi 2. júlí 1996, en þá var hún 13 ára gömul. Í matsgerð læknanna Ragnars Jónssonar og Guðmundar Benediktssonar 28. febrúar 2000 er komist að þeirri niðurstöðu, að varanlegur miski hennar vegna slyssins sé 75% og varanleg örorka 90%. Í álitsgerð örorkunefndar 3. júlí 2001 er varanlegur miski metinn 75% en varanleg örorka 100%. Gagnáfrýjandi krafðist bóta að fjárhæð 29.495.750 krónur og greiddi aðaláfrýjandi henni 17.112.629 krónur 15. október 2001. Í máli þessu er deilt um það, hvort greiða eigi frekari bætur fyrir varanlega örorku, varanlegan miska og þjáningabætur, auk bóta fyrir annað fjártjón.
II.
Í 5. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 kemur fram aðalreglan um ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku. Bætur greiðast ekki nema eigi sé lengur að vænta bata eftir tjónsatvik og að fyrir liggi, að geta tjónþola til þess að afla sér tekna með vinnu sé varanlega skert. Mat á því fer eftir fjárhagslegum mælikvarða.
Samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga, eins og hún var, er gagnáfrýjandi varð fyrir slysinu, skal ákvarða bætur vegna varanlegrar örorku til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig, að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur, á grundvelli miskastigs samkvæmt 4. gr. laganna, en í þeim tilvikum er ekki unnt að nota árslaun til þess að ákveða bætur samkvæmt 6. og 7. gr. Í 4. gr. laganna segir að bætur skuli vera 4.000.000 krónur, sbr. 15. gr., þegar miski er metinn alger (100%), en við lægra miskastig lækki fjárhæðin í réttu hlutfalli. Fjárhæð örorkubótanna fer eftir miskastigi og reiknast eftir nánar tilteknum hlutfallstölum af því. Í 4. mgr. 8. gr. segir, að örorkubætur skuli vera 400% af bótum fyrir varanlegan miska, þegar miskastig er 90%, 95% eða 100%, en 325% af bótum fyrir varanlegan miska, þegar miskastigið er 75%.
Gagnáfrýjandi krefst bóta fyrir varanlega örorku eftir þeirri aðferð, sem mælt er fyrir um í 8. gr. laganna, en miðað við 100% varanlega örorku en ekki 75% eins og miskastig gagnáfrýjanda var metið bæði af örorkunefnd og í matsgerð.
Eins og að framan getur er reiknigrundvöllur samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga annar en 5. 7. gr. og þau sjónarmið sem ráða fjárhæðinni allt önnur. Mat á bótum samkvæmt 5. gr. fer eftir fjárhagslegum mælikvarða en bætur samkvæmt 8. gr. fara eftir læknisfræðilegum mælikvarða og skulu ákveðnar á grundvelli miskastigs.
Héraðsdómur lagði til grundvallar að fyrir lægi sérstakt mat á varanlegri örorku gagnáfrýjanda í skilningi skaðabótalaga, þrátt fyrir þá reglu laganna, sem í gildi var á slysdegi, að um bótauppgjör barna skyldi fara eftir miskastigi, og féllst á að fyrir lægi læknisfræðileg staðfesting örorkunefndar á því, að skerðing á vinnugetu gagnáfrýjanda væri alger. Taldi hann því rétt á grundvelli 8. gr. þágildandi skaðabótalaga að reikna gagnáfrýjanda örorkubætur sem 400% af bótum fyrir varanlegan miska.
Ekki er unnt að fallast á það, að mat örorkunefndar á varanlegri örorku gagnáfrýjanda hafi verið læknisfræðilegt. Ákvæði 8. gr. þágildandi skaðabótalaga um útreikning bóta vegna varanlegrar örorku barna voru skýr. Slíkar bætur skyldi ákvarða á grundvelli miskastigs samkvæmt 4. gr. laganna. Er því ekki lagaheimild til þess að víkja frá þeim skýru reikniaðferðum, sem tilgreindar voru í 8. gr., eins og þær voru á tjónsdegi. Ber að reikna varanlega örorku gagnáfrýjanda miðað við 75% varanlegan miska, sem henni var metinn af örorkunefnd.
Gagnáfrýjandi telur, að það brjóti gegn 72. gr, sbr. 65. gr., stjórnarskrárinnar að miða útreikning bóta við 75% miska en ekki 100% miska, því að hún fái þá ekki örorkubætur til samræmis við þá skerðingu á vinnugetu, sem hún hefur orðið fyrir. Hæstiréttur hefur metið það svo í dómi sínum 4. júní 1998 í máli nr. 317/1997, bls. 2233 í dómasafni, að 1. mgr. 8. gr. þágildandi skaðabótalaga sé reist á skýrum málefnalegum forsendum og ekki andstæð þeim megintilgangi laganna, að tjónþoli fái almennt, auk hæfilegra miskabóta, fullar bætur fyrir raunverulegt fjártjón sitt. Hún gangi því ekki í berhögg við stjórnarskrárvarin réttindi bótakrefjenda.
Hinn 15. október 2001 greiddi aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda 12.688.071 krónu vegna varanlegrar örorku hennar og var miðað við 75% varanlegan miska. Samkvæmt framansögðu er ekki unnt að fallast á kröfu gagnáfrýjanda um frekari greiðslu vegna varanlegrar örorku.
III.
Aðaláfrýjandi hefur greitt gagnáfrýjanda 3.904.022 krónur í bætur vegna varanlegs miska, sbr. 4. gr. skaðabótalaga, en eins og fyrr segir var varanlegur miski hennar metinn 75%. Gagnáfrýjandi krefst 50% álags á þær bætur samkvæmt heimild í 1. mgr. 4. gr. Héraðsdómur hækkaði bæturnar um 25%.
Eins og lýst er í héraðsdómi hefur slys gagnáfrýjanda haft alvarleg og veruleg áhrif á heilsu og allt líf hennar. Gagnáfrýjandi, sem fyrir slysið var afburða nemandi, auk þess sem hún lagði stund á tónlist og íþróttir, hlaut miklar heilaskemmdir, sem skerða getu hennar í hvívetna. Eins og segir í vottorði Ludvigs Guðmundssonar læknis 15. júlí 1999 hefur hún hlotið „mjög umtalsverða vitræna skerðingu í formi greindarskerðingar, minnistruflana, einbeitingarskorts, persónuleikabreytinga og hvatvísi.“ Þá er hún bundin hjólastól til ferða utan dyra og vinstri handleggur nýtist henni ekki til nokkurra starfa. Hún er og verður verulega háð aðstoð annarra við helstu athafnir daglegs lífs og er ljóst, að slysið hefur haft varanleg og afgerandi áhrif á tækifæri hennar til að njóta frístunda og hvers kyns lífsgæða um ókomna framtíð. Þykir því rétt að hækka miskabæturnar um 30%. Aðaláfrýjandi greiði því gagnáfrýjanda 1.171.207 krónur í viðbót vegna varanlegs miska.
IV.
Í áðurnefndri matsgerð læknanna Ragnars og Guðmundar var tímabil þjáningabóta gagnáfrýjanda miðað við rúmlega tvö ár en eftir það virtust einkenni hennar ekki hafa breyst marktækt. Töldu þeir að gagnáfrýjandi hefði verið veik í skilningi skaðabótalaga frá 2. júlí 1996 til 30. ágúst 1998. Hún hefði verið rúmliggjandi vegna slyssins í 475 daga en veik, án þess að vera rúmliggjandi, í 315 daga. Krafðist hún 1.089.400 króna í þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga. Aðaláfrýjandi hefur þegar greitt henni 520.536 krónur í þjáningabætur en telur hana ekki hafa verið veika í skilningi skaðabótalaga allt það tímabil, sem læknarnir meta sem þjáningabótatímabil. Bendir hann á, að fram komi í gögnum málsins, að gagnáfrýjandi hafi hafið skólanám haustið 1997 og verið í unglingavinnu sumarið 1998. Sé því ekki unnt að leggja matsgerðina til grundvallar um þjáningabæturnar. Við mat á því, hvort tjónþoli sé veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga, hlýtur einkum að verða stuðst við læknisfræðilegt mat og gögn um læknismeðferð tjónþola á tímabilinu. Líta verður svo á, að með matsgerðinni hafi verið lagt læknisfræðilegt mat á veikindatímabil gagnáfrýjanda, og hefur því mati ekki verið hnekkt. Er því fallist á kröfu gagnáfrýjanda og ber aðaláfrýjanda að greiða henni 568.864 krónur til viðbótar vegna þjáningabóta.
V.
Gagnáfrýjandi krefur aðaláfrýjanda um 2.000.000 krónur í bætur fyrir annað fjártjón, sbr. 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Ljóst sé, að hún muni um ókomna framtíð þurfa að stunda endurhæfingu, þjálfun og sérkennslu af ýmsu tagi og verða fyrir umtalsverðum kostnaði vegna þess. Erfitt sé að meta þann kostnað nákvæmlega, sem af þessu muni hljótast, og sé því fjártjónið áætlað.
Í athugasemdum við 1. mgr. 1. gr. frumvarps til skaðabótalaga er tekið fram, að með orðunum „annað fjártjón“ sé átt við útgjöld, sem falla á tjónþola strax eða fljótlega eftir að tjónsatvik bar að höndum en erfitt sé að færa sönnur á, t.d. með því að leggja fram reikninga. Aðaláfrýjandi hefur þegar greitt áfallinn sjúkrakostnað og annað fjártjón að fjárhæð 245.383 krónur. Með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á það, að gagnáfrýjandi eigi ekki rétt á frekari greiðslum vegna þessa kröfuliðar.
VI.
Samkvæmt framansögðu ber aðaláfrýjanda að greiða gagnáfrýjanda 1.740.071 krónu með vöxtum svo sem í dómsorði greinir.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir báðum dómstigum, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, greiðist úr ríkissjóði. Hefur þá verið tekið tillit til þess, að með uppgjörinu, sem lögmaðurinn gerði við aðaláfrýjanda 15. október 2001, fékk hann greiddar 465.753 krónur.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf., greiði gagnáfrýjanda, Ragnhildi Ólafsdóttur, 1.740.071 krónu, með 2% ársvöxtum frá 2. júlí 1996 til 15. september 2001, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Aðaláfrýjandi greiði 800.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, og renni þær í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 800.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 29. janúar síðastliðinn, er höfðað af Ragnhildi Ólafsdóttur, Sóltúni 7, Reykjavík, á hendur Alþjóðlegum bifreiðatryggingum á Íslandi sf., Suðurlandsbraut 6, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 12.654.856 krónur, með 2% ársvöxtum frá 2. júlí 1996 til 15. september 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og að honum verði tildæmdur málskostnaður. Til vara er þess krafist, að kröfur stefnanda verði lækkaðar, málskostnaður falli niður og dráttarvextir verði dæmdir frá dómsuppsögudegi.
I.
Stefnandi slasaðist alvarlega í umferðarslysi 2. júlí 1996 við gatnamót Sæbrautar og Dalbrautar í Reykjavík. Bar slysið að með þeim hætti, að stefnandi, sem þá var 13 ára að aldri, hljóp í veg fyrir bifreið, sem var ekið vestur Sæbraut. Varð stefnandi fyrir bifreiðinni og kastaðist upp á vélarhlíf hennar og þaðan í götuna. Fór stefnandi í öndunarstopp, en blásið var í hana lífi og hún síðan flutt í sjúkrabifreið á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Stefnandi hlaut margvíslega áverka í slysinu, bæði andlega og líkamlega. Hún hlaut alvarlegan höfuðáverka, en fyrir slysið var hún afburða-nemandi og félagslega virk. Eftir það varð gjörbreyting á andlegu atgervi, félagslegri hegðun og atferli stefnanda. Hefur hún þjáðst af vinstri helftarlömun, persónuleikabreytingum og breytingum á minni og námsgetu. Þrátt fyrir mikla endurhæfingu í kjölfar slyssins hefur stefnandi mikil andleg einkenni og varanlega líkamlega fötlun vegna slyssins.
Bifreiðin, sem ekið var á stefnanda, var á sínum tíma tryggð hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Eigandi hennar greiddi hins vegar ekki iðgjöld og var trygging bifreiðarinnar felld niður 1. nóvember 1995. Af þeim sökum vísuðu Sjóvá-Almennar tryggingar hf. málinu frá sér og bentu á stefnda sem tryggingaraðila á grundvelli umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. reglugerð nr. 556/1993 um lögmæltar ökutækjatryggingar. Er málsaðild stefnda og bótaskylda ágreiningslaus.
Með matsbeiðni, dagsettri 8. september 1999, óskaði þáverandi lögmaður stefnanda eftir því við læknana Ragnar Jónsson og Guðmund Benediktsson, að þeir mætu afleiðingar slyssins fyrir stefnanda. Í matsgerð þeirra, dagsettri 28. febrúar 2000, var komist að þeirri niðurstöðu, að stefnandi hefði verið veik í skilningi 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 2. júlí 1996 til 30. ágúst 1998, þar af rúmliggjandi frá 2. júlí 1996 til 28. september 1997 og aftur frá 9. ágúst 1998 til 30. ágúst 1998. Varanlegur miski samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga var metinn 75% og varanleg örorka samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga var metin 90%.
Af hálfu stefnanda var leitað til Jónasar Hallgrímssonar, læknis, með bréfi, dagsettu 21. nóvember 2000, og óskað álits hans á matsgerðinni og niðurstöðum hennar. Í svarbréfi Jónasar, dagsettu 25. nóvember 2000, lét hann uppi það álit sitt, að bæði varanlegur miski og varanleg örorka væri vanmetin. Var því ákveðið að óska eftir áliti örorkunefndar á þeim atriðum, og stóðu bæði stefnandi og stefndi að beiðninni. Í álitsgerð örorkunefndar, dagsettri 3. júlí 2001, er varanlegur miski metinn 75%, en varanleg örorka hennar vegna afleiðinga slyssins 100%, eða alger. Ekki er ágreiningur með málsaðilum um matsniðurstöður örorkunefndar, hvað varðar varanlegan miska og varanlega örorku eða matsniðurstöðu læknanna Ragnars Jónssonar og Guðmundar Benediktssonar varðandi tímalengd þjáningabóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga.
Þann 15. ágúst 2001 sendi lögmaður stefnanda kröfubréf til stefnda með skaða- og miskabótakröfum henni til handa, samtals að fjárhæð 29.495.750 krónur, auk vaxta og kostnaðar. Með bréfi stefnda, dagsettu 23. ágúst 2001, voru gerðar nokkrar athugasemdir við kröfur stefnanda. Til lúkningar kröfu um þjáningabætur bauð stefndi 515.481 krónur til sátta. Til lúkningar kröfu um bætur fyrir varanlegan miska bauð stefndi 3.865.630 krónur og til lúkningar kröfu um bætur fyrir varanlega örorku bauð hann 12.563.298 krónur. Kröfum um bætur fyrir annað fjártjón var hafnað. Loks lýsti stefndi sig reiðubúinn til að greiða vexti lögum samkvæmt og hæfilegan innheimtukostnað. Jafnframt var tekið fram, að stefndi hefði tvívegis greitt upp í væntanlegar skaðabætur, 900.000 krónur þann 29. desember 1997 og 500.000 krónur þann 12. júlí 2001. Aðilar skiptust á skoðunum um uppgjörið, en þann 15. október 2001 var gengið frá greiðslu á þeim bótum, sem stefndi var fús til að viðurkenna, að teknu tilliti til innborgana stefnda, en lögmaður stefnanda gerði við móttöku bótanna fyrirvara um það, sem af hálfu stefnanda var þá talið standa eftir óbætt.
Stefnandi fékk gjafsókn í málinu með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsettu 9. janúar 2002.
II.
Í máli þessu gerir stefnandi kröfur á hendur stefnda vegna þess, sem hann telur skorta á fullar bætur í eftirtöldum bótaliðum; varanlegri örorku (1), varanlegum miska (2), þjáningabótum (3) og öðru fjártjóni (4).
1. Varanleg örorka.
Stefnandi gerir þá kröfu, að bætur til hennar vegna varanlegrar örorku taki mið af þeirri staðreynd, að varanleg skerðing á vinnugetu hennar sé 100%, eða alger, eins og staðfest sé í álitsgerð örorkunefndar frá 3. júlí 2001. Í álitsgerð örorkunefndar segi svo um þetta:
„Tjónþoli var á slysdegi 13 ára gömul. Við slíkar aðstæður eru að öllum jafnaði ekki fyrir hendi skilyrði til að meta varanlega örorku tjónþola út frá þeim forsendum sem bjuggu að baki 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og það lagaákvæði var á slysdegi. Örorkunefnd telur hins vegar að í þessu tilviki sé ljóst að tjónþoli geti vegna afleiðinga slyssins ekki vænst þess að verða gjaldgeng á vinnumarkaði í framtíðinni, og óljósir möguleikar um vinnu á vernduðum vinnustað þykja ekki breyta þeirri niðurstöðu. Samkvæmt þessu er varanleg örorka tjónþola vegna afleiðinga slyssins metin 100% eða alger.”
Til samræmis við þetta hafi stefnandi krafist þess, að bætur fyrir varanlega örorku yrðu reiknaðar sem 400% af bótum fyrir varanlegan miska. Nemi þessi kröfuliður því 20.822.000 krónum á uppgjörsdegi í október 2001. Stefndi hafi greitt 12.688.071 krónu 15. október 2001 og standi því eftir 8.133.929 krónur, sem krafist sé greiðslu á.
Stefnandi reisir kröfu um, að útreikningur bóta til hennar fyrir varanlega örorku skuli miðast við algera skerðingu vinnugetu, á eftirgreindum sjónarmiðum:
a. Meginregla skaðabótalaga um, hvernig meta skuli og reikna tjón vegna varanlegrar örorku sé í 5. gr. laganna. Í 1. mgr. komi fram, að valdi líkamstjón varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna eigi tjónþoli rétt á bótum fyrir varanlega örorku. Samkvæmt 2. mgr. skuli, þegar tjón vegna örorku er metið, líta til þeirra kosta, sem tjónþoli á til að afla sér tekna með vinnu, sem sanngjarnt er að ætlast til, að hann starfi við. Samkvæmt 3. mgr. skuli reikna örorku tjónþola í hundraðshlutum (örorkustigum).
Í ljósi þess, að stefnandi hafi aðeins verið 13 ára, er slysið varð, og að hún hafði því ekki aflað tekna næstliðin ár fyrir slys, sem hafa mætti hliðsjón af við útreikning bóta fyrir varanlega örorku, hafi þær bætur verið reiknaðar út á grundvelli reiknireglu 8. gr. skaðabótalaga. Stefnandi telji hins vegar blasa við, að þar sem fyrir liggi læknisfræðileg staðfesting örorkunefndar á því, að skerðing á vinnugetu hennar sé alger, eða 100%, beri að miða bótauppgjör samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga við þá staðreynd. Beri ekki að beita undantekningarreglu 8. gr. skaðabótalaga þannig, að bætur fyrir varanlega örorku taki aðeins mið af metnum 75% miska, þegar fyrir liggi, að skerðing á vinnugetu sé mun meiri. Fái ekki fá staðist að reikna stefnanda bætur fyrir varanlega örorku á grundvelli þess, að varanlegur miski sé 75%, þegar fyrir liggi læknisfræðileg staðfesting á því, að skerðing á varanlegri vinnugetu sé 100%. Því mati hafi ekki verið hnekkt og beri því beinlínis á grundvelli 8. gr. skaðabótalaga að reikna stefnanda örorkubætur sem 400% af bótum fyrir varanlegan miska. Að sínu leyti styðjist sú afstaða einnig við áðurgreinda meginreglu skaðabótalaga um, hvernig reikna skuli bætur fyrir varanlega örorku, sbr. 5. gr. skaðabótalaga.
b. Verði talið, að textaskýring á 8. gr. skaðabótalaga leiði til þess, að bætur til stefnanda vegna varanlegrar örorku verði aðeins reiknaðar miðað við niðurstöðu í álitsgerð örorkunefndar um 75% varanlegan miska, og að örorkubætur til stefnanda reiknist því aðeins sem 325% af bótum fyrir varanlegan miska, sé á því byggt, að í því felist mismunun sem brjóti gegn rétti, sem stefnanda beri samkvæmt 72. gr., sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Ljóst sé, að gríðarlegur munur verði á skaðabótum til stefnanda, eftir því, hvort lagt er til grundvallar, að skerðing á vinnugetu hennar sé alger, þ.e. 100%, eða samsvari 75% miska. Megintilgangur reiknireglunnar í 8. gr. skaðabótalaga sér að mæla fyrir um fjárhæð örorkubóta til handa þeim tjónþolum, sem hafa nýtt vinnugetu sína á þann hátt, að þeir hafi engar eða takmarkaðar vinnutekjur haft. Við slíkar aðstæður séu almennt ekki efni til að meta sérstaklega hver skerðing á vinnugetu sé í hundraðshlutum talin. Af þeim sökum feli 8. gr. skaðabótalaga í sér almenna reglu um, að bætur fyrir varanlega örorku skuli metnar með hliðsjón af miskastigi. Eins og sérstaklega standi á í tilfelli stefnanda sé hins vegar ljóst, og staðfest í álitsgerð örorkunefndar, að varanleg skerðing á vinnugetu hennar sé alger, eða 100%. Leiði textaskýring á 8. gr. skaðabótalaga til þess, að stefnandi fái ekki, þrátt fyrir þetta, greiddar örorkubætur til samræmis við þá skerðingu á vinnugetu, sem hún sannanlega hafi þurft að þola, sé stefnandi, umfram aðra tjónþola, svipt stjórnarskrárvörðum eignarrétti sínum, en aflahæfi manna njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar.
2. Varanlegur miski.
Ekki sé ágreiningur um að leggja niðurstöðu um 75% miska til grundvallar. Hins vegar telji stefnandi að beita beri heimild í 4. gr. skaðabótalaga til að ákveða henni hærri bætur en leiða af viðmiðunarfjárhæðum greinarinnar, sem numið hafi, vegna ákvæðis 15. gr. skaðabótalaga, 5.205.500 krónum í október 2001. Án hækkunar hafi bætur til stefnanda fyrir 75% varanlegan miska numið 3.904.022 krónum, og hafi stefndi verið fús til að greiða þá upphæð, en ekki hærri. Stefnandi telji, að bæta beri 50% álagi við fjárhæðina, sem stefndi vildi greiða. Nemi þessi kröfuliður í málinu því 1.952.063 kr. Vart sé unnt að deila um, að fullt tilefni sé til að beita heimildinni til hækkunar á bótum fyrir varanlegan miska í tilviki stefnanda þessa máls. Í matsgerð læknanna Ragnars Jónssonar og Guðmundar Benediktssonar sé vísað til læknisvottorðs Ludvigs Guðmundssonar, læknis á Reykjalundi, þar sem segi svo um stefnanda:
„Ragnhildur, sem fyrir bifreiðarslys það sem hún varð fyrir þann 2. júlí 1996 var efnileg og vel gerð stúlka með toppárangur í námi, auk þess sem hún lagði stund á tónlist og íþróttir með góðum árangri, hefur vegna mikilla heilaskemmda hlotið mjög alvarlega og að því er virðist varanlega fötlun sem skerðir getu hennar í hvívetna. Þannig hefur hún hlotið mjög umtalsverða vitræna skerðingu í formi greindarskerðingar, minnistruflana, einbeitingarskorts, persónuleikabreytinga og hvatvísi. ... Þá er hún einnig með mikla vinstri helftarlömun með mjög skertri göngugetu svo hún er bundin hjólastól til ferða utan dyra og lömun í vinstri handlegg og hendi sem hefur orðið þess valdandi að hendi og handleggur nýtast henni ekki til neinna starfa. Auk þess valda spastmar henni óþægindum og stundum verkjum, einnig hefur hún minnkaðan raddstyrk og nefmælgi og einhæft tal, m.a. vegna raddbandalömunar.”
Allt séu þetta atriði, sem hljóti að leiða til þess, að rétt teljist að beita hækkunarheimild 4. gr. skaðabótalaga í tilviki stefnanda. Skuli sérstaklega minnt á, að hér sé um unga stúlku að ræða og slysið hafi, auk annars, haft varanleg og afgerandi áhrif á möguleika hennar til að njóta frístunda og hvers kyns lífsgæða um ókomna framtíð.
3. Þjáningabætur.
Stefndi hafi ekki leitast við að sýna fram á nein atvik, sem réttlætt geti frávik til lækkunar frá viðmiðunarfjárhæðum 3. gr. skaðabótalaga og verði ekki séð, að um nein slík atvik sé að ræða í málinu. Stefnandi hafni því, að efni séu til nokkurrar lækkunar á þessum kröfulið hennar og vísist um það, auk annars, til dómvenju Hæstaréttar í sambærilegum ágreiningsmálum um fjárhæð þjáningabóta.
4. Annað fjártjón.
Samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorðum og matsgerðum verði stefnandi til framtíðar að stunda endurhæfingu, þjálfun og sérkennslu af ýmsu tagi. Ljóst sé, að stefnandi verði fyrir umtalsverðum kostnaði vegna þessa, sem sé áætlaður 2.000.000 króna. Öldungis ljóst sé, að svo alvarlegt slys eins og það, sem stefnandi varð fyrir, muni, auk annars þess tjóns, valda henni ýmsu fjártjóni öðru. Líf það, sem stefnandi lifði áður, hafi tekið algerum stakkaskiptum og sé hún nú háð margskonar aðstoð og hjálpartækjum í daglegu lífi. Erfitt sé að meta þann kostnað, sem af þessu muni hljótast nákvæmlega og sé fjárhæð kröfu um bætur fyrir annað fjártjón því áætluð. Þó megi sjá af ýmsum reikningum dæmi um kostnað af þessu tagi. Þar sem varanlegar afleiðingar slyssins séu svo miklar muni útgjöld af þessu tagi og ýmsu öðru jafnt og þétt falla á stefnanda um ókomna framtíð. Um lagagrundvöll kröfunnar sé m.a. vísað til 1. gr. skaðabótalaga.
Samkvæmt framansögðu sundurliðast stefnukrafan þannig:
1. Óbætt vegna varanlegrar örorku 8.133.929 kr.
2. Óbætt vegna varanlegs miska 1.952.063 kr.
3. Vangreiddar þjáningabætur 568.864 kr.
4. Annað fjártjón 2.000.000 kr.
Samtals 12.654.856 kr.
Krafist sé 2% ársvaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá slysdegi til upphafsdags dráttarvaxta, 15. september 2001, en þá hafi verið liðinn mánuður frá dagsetningu kröfubréfs lögmanns stefnanda.
Stefndi reisir sýknukröfu á því, að stefndi hafi þegar greitt fullar bætur að lögum og venju til stefnanda, samtals 19.756.474 krónur.
Um sýknu af frekari bótakröfum vegna varanlegrar örorku.
Með setningu skaðabótalaga hafi verið settar skýrar og einfaldar reglur um uppgjör líkamstjóna. Í lögunum sé greint á milli tveggja hópa, þeirra sem fengu uppgjör skv. 5.-7. gr. þágildandi laga og hinna sem fengu uppgert eftir 8. gr. Í greinargerð þágildandi gerðar laganna komi fram, að ekki væri alltaf einsýnt hvor leiðin gæfi hagstæðari niðurstöðu. Málefnaleg rök hafi legið til þessarar aðgreiningar og ekki síst þau rök, að afar erfitt sé að meta fjárhagslega örorku barna og sumra þeirra, sem féllu undir uppgjör samkvæmt 8. grein þágildandi laga. Núgildandi gerð laganna leysi ekki þennan vanda, en enga leiðsögn sé að finna í greinargerð núgildandi laga um það, hvaða sjónarmið eigi að hafa að leiðarljósi við mat á örorku barna önnur en þau, að mat á fjárhagslegri örorku verði að fara eftir stöðluðum reglum, þar sem vart séu tiltækar efnislegar viðmiðanir í hinum einstöku tilvikum. Hvað sem þessu líður sé einsýnt, að texti þágildandi laga sé skýr um að leggja eigi mat á varanlegum miska til grundvallar um útreikning bóta fyrir varanlega örorku. Lögskýringarkostur stefnanda um að miða beri við mat á varanlegri örorku, hafi enga stoð í lögskýringargögnum, dómaframkvæmd eða framkvæmd samsvarandi laga í Danmörku.
Það sé alrangt, að það liggi fyrir læknisfræðileg staðfesting örorkunefndar um 100% skerðingu á vinnugetu. Mat örorkunefndar á varanlegri örorku skv. 5. grein þágildandi skaðabótalaga sé og geti ekki verið læknisfræðilegt af augljósum ástæðum, svo sem fram komi í texta 5. gr. skaðabótalaga. Hafi mat örorkunefndar að þessu leyti ekkert gildi við úrlausn máls þessa. Sé mati örorkunefndar að þessu leyti og mótmælt, þar sem forsendur til að meta örorku viðkomandi skv. 5. grein skaðabótalaga hafi ekki verið fyrir hendi. Þá sé bent á, að fjárhagslegt mat á örorku barna geti verið afar erfitt.
Því sé andmælt, að regla 8. greinar um uppgjör varanlegrar örorku barna á grundvelli miskastigs sé undantekningarregla um uppgjör á tjónum barna. Reglan sé aðalregla um uppgjör, þegar um sé að ræða slys á börnum. Því sé og andmælt, að uppgjör í samræmi við þágildandi 8. grein skaðabótalaga feli í sér mismunun, sem brjóti gegn 72. grein, sbr. 65. grein stjórnarskrárinnar. Fyrir það fyrsta hafi Hæstiréttur þegar dæmt að svo sé ekki, sbr. t.d. H.1998, 2223, þar sem því sé slegið föstu, að reikniregla 1. mgr. 8. greinar fari ekki gegn ákvæðum stjórnarskrár um vernd eignarréttinda og jafnræði. Í öðru lagi hafi því verið ítrekað hafnað að miða útreikning á bótum fyrir þann hóp manna, sem undir 8. grein fellur, við reglur 5.-7. greinar, sbr. nú síðast dóm í málinu nr. 19/2002, 13. júní 2002. Málatilbúnaður stefnanda sé enn eitt afbrigði þeirrar viðleitni að leita allra tiltækra leiða til að komast hjá hinum skýru og einföldu reglum þágildandi laga. Í þriðja lagi sé skýrt, að regla l. mgr. 8. greinar þágildandi laga sé málefnaleg og ógjörningur sé að túlka lagaákvæðið á þann veg, sem stefnandi heldur fram. Í fjórða lagi sé á það bent, að allar reglur geti falið í sér visst ósamræmi, sem felist í því, að sumir fái hærri bætur en aðrir, að gefnum ákveðnum forsendum. Slíkt ósamræmi feli ekki í sér brot á stjórnarskrárvörðum réttindum, svo fremi sem um sé að ræða reglu, sem alla varði jafnt. Feli ákvörðun um bætur á grundvelli miskastigs fyrir varanlega örorku ekki í sér skerðingu á stjórnarskrárvörðum eignarréttindum.
Um sýknu af frekari bótakröfum vegna varanlegs miska.
Af hálfu stefnda sé fallist á, að um sé að ræða afar þungbæran miska, en fram hjá því verði ekki litið, að hækkunarheimildin sé undantekningarregla, sem eingöngu beri að beita, þegar sérstaklega standi á. Í greinargerð þágildandi 4. gr. skaðabótalaga hafi t.d. verið tekið fram, að heimildin til að ákveða hærri bætur vegna miska væri til nota í sértökum tilvikum, s.s. þegar tjónþoli hefur orðið fyrir mikilli sköddun á útlimum og misst sjón á báðum augum. Í þessu sambandi sé og á það bent, að í greinargerð gildandi 4. gr. skaðabótalaga sé tekið fram, að heimildin til hækkunar taki fyrst og fremst til tilvika, þar sem töflumat á læknisfræðilegri örorku færi yfir 100%.
Um kröfu stefnanda um frekari þjáningabætur.
Stefndi hafi þegar greitt 520.536 krónur í þjáningabætur, og muni það vera tvöfalt hámark það, sem við er miðað í lokamálsið 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga. Á það sé bent í þessu sambandi, þrátt fyrir mat læknanna Ragnars Jónssonar og Guðmundar Benediktssonar, sé ljóst samkvæmt gögnum málsins, að stefnandi hafi ekki verið veik í skilningi skaðabótalaga allt það tímabil, sem læknarnir meta sem þjáninga-bótatímabil, þ.e. frá slysdegi til 30. ágúst 1998. Í gögnum málsins komi t.d. fram, að stefnandi hafi hafið skólanám haustið 1997 og að stefnandi hafi verið í unglingavinnu tvo mánuði sumarið 1998. Af þessum staðreyndum megi ljóst vera, að þegar greiddar þjáningabætur séu hæfilegar bætur og beri því að sýkna af þessum lið bótakröfu stefnanda.
Um kröfu stefnanda um bætur fyrir annað fjártjón.
Stefndi hafi þegar greitt áfallinn sjúkrakostnað og annað fjártjón í samræmi við ákvæði skaðabótalaga, að fjárhæð 245.383 kr. Krafa um bætur fyrir framtíðar-sjúkrakostnað og annað fjártjón, eftir að heilsufar stefnanda var orðið stöðugt, með þeim hætti, sem krafan er framsett, hafi ekki stoð í lögum eða venju, og beri því að sýkna af þessum kröfulið.
III.
Regla 8. greinar skaðabótalaga um uppgjör varanlegrar örorku barna á grundvelli miskastigs er aðalregla laganna um uppgjör, þegar um er að ræða slys á börnum. Hins vegar komst örorkunefnd að þeirri niðurstöðu, að varanleg skerðing á vinnugetu stefnanda vegna afleiðinga slyss þess, sem mál þetta á rætur að rekja til, sé 100%, eða alger. Er tekið fram í álitsgerðinni, að vegna ungs aldurs stefnanda séu að öllum jafnaði ekki fyrir hendi skilyrði til að meta varanlega örorku tjónþola út frá þeim forsendum, sem bjuggu að baki 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og það lagaákvæði var á slysdegi, en þrátt fyrir ungan aldur stefnanda, telji nefndin, að ljóst sé, að stefnandi geti vegna afleiðinga slyssins ekki vænst þess að verða gjaldgeng á vinnumarkaði í framtíðinni, og óljósir möguleikar um vinnu á vernduðum vinnustað þyki ekki breyta þeirri niðurstöðu. Liggur því fyrir sérstakt mat á varanlegri örorku stefnanda í skilningi skaðabótalaga, þrátt fyrir þá reglu laganna, sem í gildi var á slysdegi, að um bótauppgjör barna skyldi fara eftir miskastigi. Samkvæmt því er fallist á með stefnanda, að fyrir liggi læknisfræðileg staðfesting örorkunefndar á því, að skerðing á vinnugetu stefnanda sé í raun og veru alger. Hefur því mati ekki verið hnekkt. Í ljósi þess og til samræmis við þann megintilgang skaðabótalaganna, að tjónþoli fái fullar bætur fyrir raunverulegt fjártjón, þykir mega á grundvelli 8. gr. þágildandi skaðabótalaga reikna stefnanda örorkubætur sem 400% af bótum fyrir varanlegan miska. Er því fallist á kröfu stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku, að fjárhæð 8.133.929 krónur.
Í áðurnefndri matsgerð læknanna Ragnars Jónssonar og Guðmundar Benedikts-sonar vísa þeir um miska til læknisvottorðs Ludvigs Guðmundssonar frá 15. júlí 1999. Þar kemur fram, að stefnandi hafi hlotið mjög alvarlega og varanlega fötlun, sem skerði getu hennar í hvívetna. Hafi hún þannig hlotið mjög umtalsverða vitræna skerðingu í formi greindarskerðingar, minnistruflana, einbeitingarskorts, persónu-leikabreytinga og hvatvísi. Þá sé hún einnig með mikla helftarlömun með mjög skertri göngugetu, þannig að hún sé bundin í hjólastól til ferða utan dyra og lömun í vinstri handlegg og hönd, sem hafi orðið þess valdandi, að hönd og handleggur nýtist henni ekki til neinna starfa. Auk þess valdi spastmar henni óþægindum og stundum verkjum, en einnig hafi hún minnkaðan raddstyrk og nefmælgi og einhæft tal, meðal annars vegna raddbandalömunar. Í áliti örorkunefndar segir, að öllum gögnum beri saman um, að stefnandi hafi fyrir slysið verið afburðanámsmaður, en námsgetu hafi hrakað mjög mikið við slysið. Þá sé hún einnig með stjarfalömun vinstra megin í líkamanum og noti stöðugt Baclofen (spasmolytikum) vegna þess, en hún finni mikið fyrir því að stífni og ,,spastisitet” aukist við streitu og álag. Þá hafi sjónin einnig versnað við slysið og finni stefnandi fyrir minnkandi sjónsviði til vinstri og einnig minnkandi heyrn. Enn fremur hafi stefnandi verulega skert minni, mikinn skort á einbeitingu og einnig sé hún verulega hvatvís og hömlulaus.
Telja verður, að hækkunarheimild 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaganna sé ekki bundin við algeran miska, heldur megi beita henni við lægra miskastig, sbr. dóm Hæstaréttar frá 15. mars 2001 í máli nr. 395/2000. Svo sem rakið er, varð gjörbreyting á lífi stefnanda við slysið, bæði andlega og líkamlega. Er stefnandi og kemur til með að verða verulega háð aðstoð annarra við helstu athafnir daglegs lífs. Þá hefur slysið haft og mun fyrirsjáanlega hafa gríðarleg á áhrif á möguleika stefnanda, sem einungis var 13 ár að aldri, er hún slasaðist, til að njóta frístunda og hvers kyns lífsgæða. Samkvæmt því er fallist á með stefnanda, að hinn metni 70% varanlegi miski nái ekki að bæta miska hennar að fullu. Þykir sanngjarnt, að bæturnar verði hækkaðar um 25%, eða um 976.031,50 krónur.
Leggja verður til grundvallar við úrlausn á þjáningabótakröfu stefnanda fyrrnefnda matsgerð læknanna Ragnars Jónssonar og Guðmundar Benediktssonar, en samkvæmt henni telst stefnandi hafa verið rúmliggjandi vegna slyssins í 475 daga, en veik, án þess að vera rúmliggjandi, í 315 daga. Er krafa stefnanda reiknuð samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga. Að mati dómsins hefur stefndi ekki fært nein haldbær rök fyrir því, að atvik máls þessa séu með þeim hætti, að efni séu til að beita lækkunarheimild lokamálsliðar tilvitnaðs lagaákvæðis. Er því fallist á kröfu stefnanda um þjáningabætur, eins og hún er fram sett.
Í athugasemdum með 1. gr. frumvarps þess, er varð að skaðabótalögum, segir, að með orðunum ,,annað fjártjón” í 1. mgr. sé átt við útgjöld, sem falla á tjónþola strax eða fljótlega eftir að tjónsatvik bar að höndum, en erfitt sé að færa sönnur á, til dæmis með því að leggja fram reikninga. Stefndi hefur þegar greitt áfallinn sjúkrakostnað og annað fjártjón í samræmi við ákvæði skaðabótalaga, að fjárhæð 245.383 krónur. Skilja verður málatilbúnað stefnanda á þann veg, að hér sé höfð upp krafa um þann sjúkrakostnað og annað fjártjón, sem stefnandi muni verða fyrir í framtíðinni. Hefur stefnandi ekki fært rök fyrir því, að krafan, eins og hún er fram sett, hafi stoð í ofangreindu lagaákvæði eða öðrum réttarheimildum. Ber því að sýkna stefnda af þessum kröfulið.
Samkvæmt framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 9.678.824,50 krónur (8.133.929 + 976.031,50 + 568.864), ásamt vöxtum eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin laun lögmanns hennar, Heimis Arnar Herbertssonar hdl., sem eru hæfilega ákveðin 750.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, er telst hæfilega ákveðinn 750.000 krónur og renni í ríkissjóð.
Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf., greiði stefnanda, Ragnheiði Ólafsdóttur, 9.678.824,50 krónur, ásamt 2% ársvöxtum frá 2. júlí 1996 til 15. september 2001, en dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og 750.000 krónur í málskostnað, er renni í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin laun lögmanns hennar, Heimis Arnar Herbertssonar hdl., 750.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.