Hæstiréttur íslands
Mál nr. 96/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. D. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 10. mars 1999. |
|
Nr. 96/1999. |
Sýslumaðurinn á Hvolsvelli (Friðjón Guðröðarson sýslumaður gegn Steini Ármanni Stefánssyni (Hilmar Baldursson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald d. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
S var grunaður um tvær líkamsárásir. Talið var að skilyrðum d. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 væri fullnægt til að verða við kröfu um gæsluvarðhald. Var úrskurður héraðsdóms staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. mars 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt þar til dómur fellur í máli hans, en þó eigi lengur en til mánudagsins 19. apríl 1999, kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Krefst varnaraðili þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður styttri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Fyrir Hæstarétt hafa verið lagðar nýjar skýrslur af vitnum auk ljósmynda af ýmsum vopnum, sem fundust við húsleit í herbergi varnaraðila að Akurhóli. Með vísan til d. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er fallist á, að skilyrði séu til að taka kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald til greina. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 1999.
Ár 1999, laugardaginn 6. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Sigríði Ólafsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi:
Sýslumaðurinn í Rangárvallasýslu hefur, með vísan til c og d liða, 1. mgr. 103. gr. og 2. mgr. 103. gr. l. nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, krafist þess, að Steini Stefánssyni kt. 071066-5179, Þingholtsstæti 8, Reykjavík, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt þar til dómur fellur í máli hans en þó eigi lengur en til mánudagsins 19. apríl 1999 kl. 16:00.
Samkvæmt greinargerð sýslumanns var sakborningur handtekinn á Vistheimilinu að Akurhóli af lögreglunni á Hvolsvelli í að kveldi 4. mars sl. kl. 19:35 í kjölfar líkamsárásar á fostöðumanns vistheimilisins, Þorstein Sigfússon, vegna þess að honum hafi mislíkað reglubundin leit í farangri hans, en sakborningur hafi verið að koma úr leyfi. Samkvæmt lýsingu Þorsteins í lögregluskýrslu, þann 5. mars sl., hafi sakborningur ráðist að honum með vasahníf í hendi og slegið til hans. Hafi fyrsta höggið lent á auga Þorsteins, og hafi hann strax kennt sársauka í auganu, “eins og eitthvað skærist í það”. Hafi honum sortnað fyrir augum við þessa atlögu, en sakborningur hafi strax í kjölfarið slegið hann aftur og svo þriðja höggið, þegar hann reyndi að komast undan sakborningi. Hafi þurft að sauma tvö spor í hornhimnu vinstra auga, en læknisvottorð liggi ekki fyrir. Vitnið, Sæmundur Stefánsson, starfsmaður á vistheimilnu, hafi lýst atburðinum nokkuð á sama veg og Þorsteinn, og hafi hann m.a. séð sakborning ota hnífnum að Þorsteini og að hnífurinn hafi lent a.m.k. tvisvar í úlpu Þorsteins.
Í kjölfar handtökunnar hafi sakborningur verið fluttur til vistunar í fangageymslu lögreglunnar að Hverfisgötu 113. Þar hafi hann, að morgni 5. mars, ráðist að fangaverðinum, Einari Halldóri Björnssyni, og veitt honum þungt högg með krepptum hnefa á hægri vanga, vegna þess að honum hafi ekki líkað svör Einars við beiðni um að ræða við tiltekinn mann. Eftir læknisskoðun á Slysadeild hafi Einar ekki verið talinn hafa hlotið beinbrot, en vangi hans hafi verið afar rauður og bólginn.
Sakborningur hafi hlotið reynslulausn þann 24. mars 1997 í 2 ár á eftirstöðvum refsingar, 840 dögum, en með dómi Hæstaréttar frá 21. maí 1993 hafi verið staðfestur dómur Héraðsdóms, þar sem sakborningur var dæmdur í 7 ára fangelsi, m.a. fyrir brot gegn 219. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Árið 1989 hafi hann hlotið skilorðisbundinn dóm fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og árið 1991 hafi hann verið dæmdur fyrir brot á 1. mgr. 106. gr. s.l. Sakborningur hafi einnig verið dæmdur til fangelsisrefsingar fyrir þjófnað. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. maí 1998 hafi sakborningur verið sakfelldur fyrir brot á 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga og dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, skilorðisbundið í 2 ár. Dómarinn í því máli hafi ákveðið að láta reynslulausn sakbornings standa, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga og hafi, við þá ákvörðun, m.a. haft hliðsjón af andlegri vanheilsu sakbornings.
Sakborningur sé sterklega grunaður um brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, er varðað geti allt að 16 ára fangelsi. Sé því krafist gæsluvarðhalds yfir honum, með vísan til 2. mgr. 103. gr. oml. Að auki beri að líta til sakarferils sakbornings og þeirrar staðreyndar, að hann fremji tvær líkamsárásir á sama sólarhringnum, að því er virðist vegna þess, að hann getur ekki hamið skapsmuni sína, og verði að ætla, að þeir skapbrestir tengist hans andlegu vanheilsu, er vikið sé að í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. maí 1998. Því sé vísað til c- og d- liða 1. mgr. 103. gr. oml. til rökstuðnings kröfunni, en ætla megi, að sakborningur muni halda áfram brotum, og að þau brot séu þess eðlis að telja megi gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings.
Með vísan til rannsóknargagna og í ljósi þeirra upplýsinga, sem fram hafa komið við skýrslutökur í málinu, bæði í framburði sakbornings hér fyrir dóminum, og annarra, sem yfirheyrðir hafa verið vegna þess hjá lögreglu, er fullnægt skilyrðum c- og d- liða, 1. mgr. 103. gr. l. nr. 19/1991 um gæsluvarðhald. Hins vegar þykja ekki hafa verið leiddar nægar líkur að því á þessu stigi, að meint brot sakbornings falli undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og er því ekki fullnægt skilyrðum 2. mgr. 103. gr. l. nr. 19/1991 um gæsluvarðhald. Samkvæmt framansögðu er krafa sýslumannsins í Rangárvallasýslu um að sakborningur sæti gæsluvarðhaldi tekin til greina. Ekki þykja efni til að ákveða styttri tíma með vísan til þess sem fyrir liggur varðandi sakarefnið og hér að framan greinir.
Úrskurðarorð:
Sakborningur, Steinn Stefánsson, sæti gæzluvarðhaldi allt þar til dómur fellur í máli hans, en þó eigi lengur en til mánudagsins 19. apríl 1999 kl. 16:00.