Hæstiréttur íslands

Mál nr. 370/2002


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Húsbrot
  • Eignaspjöll
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. nóvember 2002.

Nr. 370/2002.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Ólafi Má Jóhannessyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Líkamsárás. Húsbrot. Eignaspjöll. Skaðabætur.

Ó var sakfelldur fyrir líkamsárás á hendur fyrrverandi sambúðarkonu sinni og manni sem var gestkomandi á heimili hennar. Einnig var hann sakfelldur fyrir tvö húsbrot og eignaspjöll í tvö skipti. Ó hafði áður verið sakfelldur fyrir líkamsárás og var litið til þess við ákvörðun refsingar. Líkamsárásirnar þóttu hrottalegar og án nokkurs tilefnis, en þær voru framdar í beinu framhaldi þess að Ó réðst í heimildarleysi inn í íbúð konunnar, í fyrra skiptið í júlí 2001 að næturlagi, en það síðara í desember sama árs og var hann þá í félagi við annan mann. Þegar allt framangreint var virt var refsing Ó hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

          Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

          Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. ágúst 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms að öðru leyti en því að refsing verði þyngd og tildæmdar bætur handa Eggerti Orra Erlendssyni hækkaðar í 508.474 krónur.

          Ákærði krefst sýknu af sakargiftum samkvæmt II. kafla ákæru, en refsing verði milduð að öðru leyti og hún skilorðsbundin. Þá krefst hann þess aðallega að bótakröfum verði vísað frá dómi, en til vara að þær verði lækkaðar.

          Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða, og heimfærslu til refsiákvæða vegna þeirrar háttsemi, sem honum er gefin að sök í II. og III. kafla ákæru.

          Ákærði var sakfelldur með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 1998 fyrir líkamsárás 25. janúar sama árs og var brot hans talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Í máli því, sem nú er til úrlausnar, er hann sakfelldur fyrir tvær líkamsárásir, tvö húsbrot og eignaspjöll í tvö skipti. Við ákvörðun refsingar hans ber því að vísa til 1. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga. Líkamsárásir ákærða voru hrottalegar og án nokkurs tilefnis. Voru þær báðar framdar í beinu framhaldi þess að hann réðst í heimildarleysi inn í íbúð fyrrverandi sambúðarkonu sinnar, í fyrra skiptið 15. júlí 2001 að næturlagi, en það síðara 22. desember sama árs og var hann þá í félagi við annan mann, sbr. 2. mgr. 70. gr. framangreindra laga. Þegar allt framangreint er virt er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði.

          Eins og fram kemur í héraðsdómi voru Svandísi Ástu Jónsdóttur og Eggerti Orra  Erlendssyni dæmdar bætur úr hendi ákærða, annars vegar vegna miska og hins vegar vegna kostnaðar og lögmannsaðstoðar. Eru miskabætur til þeirra hæfilega ákveðnar í héraðsdómi. Kröfur þeirra um lögmannskostnað verða teknar til greina með 25.000 krónum til hvors um sig, en bótakröfum þessum var ekki fylgt eftir af hálfu þeirra við meðferð málsins. Að öðru leyti er staðfest niðurstaða héraðsdóms um kröfurnar, svo og um sakarkostnað.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og greinir í dómorði.                  

Dómsorð:

Ákærði, Ólafur Már Jóhannesson,  sæti fangelsi í 10 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur skulu vera óröskuð að öðru leyti en því að ákærði greiði Svandísi Ástu Jónsdóttur og Eggerti Orra Erlendssyni hvoru um sig 25.000 krónur  vegna lögmannskostnaðar.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2002.

Mál þetta var höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 5. mars 2002, „á hendur Ólafi Má Jóhannessyni, kt. 020969-3779, Laugavegi 46, Reykjavík, fyrir eftirgreind hegningarlagabrot framin í Reykjavík: 

I.  Líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 20. október 2000, að Laugavegi 46, ráðist á þáverandi sambýliskonu sína, Svandísi Ástu Jónsdóttur, kt. 010772-3389, slegið hana margsinnis í andlit, háls og bringu, svo að hún féll í gólfið, og þá sparkað margsinnis í höfuð hennar og líkama og rifið í hár hennar, allt með þeim afleiðingum að hún bólgnaði og marðist í andliti, hlaut áverka á hálsi, marblett á hné og eymsl yfir kjálka, hvirfli og brjósthrygg.

      Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981 og 110. gr. laga nr. 82, 1998.

II.  Fyrir eftirgreind brot framin í húsinu nr. 82 við Hverfisgötu að morgni sunnudagsins 15. júlí 2001:

1) Húsbrot, með því að hafa sparkað upp hurð íbúðar á 2. hæð hússins, heimili nefndrar   Svandísar Ástu, og ruðst í heimildarleysi inn í íbúðina.

      Telst þetta varða við 231. gr. almennra hegningarlaga.

2)   Eignaspjöll, með því að hafa slegið með flösku í sófaborð í stofu íbúðarinnar, með þeim afleiðingum að glerplata á borðinu brotnaði.

      Telst þetta varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga.

3)   Líkamsárás, með því að hafa ráðist á Svandísi Ástu og slegið hana í andlitið og rifið í hár hennar, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut 3 cm skurð á hægri augabrún sem sauma þurfti saman og hárlokkur losnaði af höfði hennar.

      Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981 og 110. gr. laga nr. 82, 1998.

4)   Líkamsárás, með því að hafa í félagi við óþekktan mann, sem ruddist heimildarlaust inn í íbúðina á eftir ákærða, ráðist á Eggert Orra Erlingsson, kt. 260477-4399, sem var gestkomandi í íbúðinni, og ákærði slegið Eggert Orra þrívegis í andlitið, með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði og marðist í kringum hægra auga.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981 og 111. gr. laga nr. 82, 1998.

III.  Húsbrot og eignaspjöll, með því að hafa laugardaginn 22. desember 2001 sparkað upp hurð íbúðar á 2. hæð í húsinu nr. 82 við Hverfisgötu, heimili nefndrar Svandísar Ástu, og ruðst í heimildarleysi inn í íbúðina og valdið þar skemmdum á eigum hennar með því að velta sjónvarpi um koll og slegið með hamri í síma og náttborð, með þeim afleiðingum að síminn eyðilagðist og borðið skemmdist.

Telst þetta varða við 231. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.  Þá eru í málinu gerðar svofelldar bótakröfur:

Vegna ákæruliða I og II gerir Svandís Ásta Jónsdóttir þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að greiða henni 410.300 kr. í skaðabætur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 af 360.500 kr. frá 16. júlí 2001 til greiðsludags, og loks er krafist vaxta af lögfræðikostnaði.

Vegna ákæruliðar III gerir Svandís Ásta Jónsdóttir þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að greiða henni 290.462 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38, 2001 af 250.000 kr. frá 22. desember 2001 til greiðsludags.

Eggert Orri Erlendsson gerir þá kröfu í málinu að ákærði verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 508.474 kr. með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 15. júlí 2001 til 17. nóvember 2001 og með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann bóta vegna kostnaðar við lögmannsaðstoð samkvæmt mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi auk álags er nemi virðisaukaskatti af þóknuninni.” 

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds.  Til vara krefst hann vægustu refsingar er lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin.  Hann krefst þess að bótakröfum verði vísað frá dómi, til vara að þær verði lækkaðar verulega. 

Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 22. maí sl.

Ákæruliður I.

Samkvæmt skýrslu lögreglu voru lögreglumenn í bíl á leið niður Laugaveg snemma að morgni föstudaginn 20. október 2000.  Segir að á móts við hús nr. 46 hafi grátandi kona komið hlaupandi að bifreiðinni.  Var þar á ferð Svandís Ásta Jónsdóttir.  Hafi hún verið með talsverða áverka í andliti og verið blóðug.  Sagði að sambýlis­maður sinn hefði barið sig.  Var kallað eftir frekari aðstoð, en maðurinn reyndist vera farinn úr íbúðinni að Laugavegi 46, sem konan vísaði þeim á.  Leit að honum bar ekki árangur.  Svandís lagði fram formlega kæru og gaf skýrslu hjá lögreglu síðar sama dag. 

Fyrir dómi sagði Svandís að þau hefðu verið að koma úr veislu í fjölskyldu ákærða á Langholtsvegi.  Þau hefðu komið heim um klukkan tvö að hún hélt, kannski á milli klukkan eitt og tvö.  Þau hafi bæði verið undir áhrifum áfengis.  Hún hafi ætlað að fara að sofa þar sem hún hafi ætlað að fljúga til Noregs morguninn eftir.  Þá hafi ákærði ráðist á sig og barið sig.  Þá hafi hann sparkað í andlit hennar þar sem hún lá á gólfinu.  Hún hafi öskrað hátt.  Allt í einu hafi verið bankað á hurðina og hafi ákærði þá hætt barsmíðunum og farið til dyra.  Þar hafi verið kominn stór svertingi, sem Svandís kvaðst ekki hafa séð áður.  Hún hafi þá náð að hlaupa út, hafi farið niður á Laugaveg og séð þar strax lögreglubifreið. 

Svandís sagði að piltur og stúlka hefðu búið í húsinu á þessum tíma.  Pilturinn hefði sagt henni frá því síðar að ákærði hefði komið upp á háaloft og falið sig eftir að hún var farin. 

Ákærði neitaði að tjá sig um sakarefni þetta hjá lögreglu.  Hann tjáði sig fyrst fyrir dómi og neitaði þá sök.  Hann ber að hann og Svandís hafi verið að skemmta sér saman þetta kvöld og hafi þau farið að rífast.  Þau hafi verið á veitingastaðnum Vegas og hafi Svandís slegið hann með flösku.  Hann hafi þá farið.  Hann hafi ekki verið heima með henni um nóttina.  Hann kvaðst því ekki geta skýrt áverka hennar.  Aðspurður hvert hann hefði farið vildi ákærði ekki svara því, kvaðst hafa farið í boð. 

Atvik þessi sem ákærði lýsir segir Svandís að hafi gerst löngu áður. 

Karl Hjartarson, varðstjóri í lögreglunni, var í lögreglubifreiðinni sem tók upp Svandísi umrætt sinn.  Hann sagði að þeir hefðu orðið varir við hana þar sem hún stóð á götunni og veifaði til þeirra.  Hún hafi verið talsvert lemstruð í andliti og blæddi úr nefi hennar.  Hún hefði sagt þeim að sambýlismaður sinn hefði barið sig.  Þeir hefðu kallað eftir frekari aðstoð og farið þá inn í íbúðina, en þar hefði enginn fundist.  Hann sagði að íbúðin hefði borið þess merki að átök hefðu átt sér þar stað. 

Aðspurður sagði Karl að sig rámaði í að Svandís hefði nefnt að svertingi hefði komið á staðinn. 

Bjarni Guðmundsson, lögreglumaður, var meðal þeirra lögreglumanna sem voru kallaðir á vettvang.  Hann kvaðst muna eftir að kona hefði verið með áverka í andliti og sagt að sambýlismaður sinn sem væri í íbúðinni hefði barið hana.  Þeir hefðu ekki fundið neinn í íbúðinni. 

Sölvi Rafn Rafnsson, lögreglumaður, kvaðst lítið muna eftir atviki þessu.  Hann mundi þó að hafa séð konu úti á götu og að hún hafi verið með áverka í andliti.  Síðan hefði varðstjóri ákveðið að leita að manninum, en hann hafi ekki fundist. 

Hugi M. Egilsson, lögreglumaður, mundi ekki eftir öðru en að hafa leitað að manni í íbúð.  Hann sagði að maðurinn hafi ekki fundist, en að í íbúðinni hafi sést merki um átök. 

Meðal gagna málsins eru ljósmyndir er lögregla tók af Svandísi á lögreglustöðinni þennan dag.  Í læknisvottorði Ólafs R. Ingimarssonar, sem dagsett er 17. nóvember 2000, er lýst komu Svandísar á slysadeild.  Þar er fyrst lýst bólgu í nefi, en segir síðar að nef sé ekki brotið.  Þá er lýst þrútinni og bólginni efri vör og að hún kvarti um verki í framtönn og eymsli í kjálka.  Lýst er áverka á neðanverðum hálsi sem líkist því að vera eins og eftir fingur og roða aftan á hálsi.  Ekki sáust merki í hársverði og ekki áverkamerki í brjósthrygg, en sagt að hún kvarti um eymsli þar.

Ákæruliður II. 

Frumskýrsla lögreglu segir að tilkynnt hafi verið um innbrot til sofandi fólks, Svandísar Ástu og Eggerts Orra, í íbúð á 2. hæð að Hverfisgötu 82, að morgni sunnudagsins 15. júlí 2001.  Segir nánar að á hurð að íbúð Svandísar sjáist merki um að brotist hafi verið inn.  Í íbúðinni séu blóðblettir á gólfi og húsgögn á rúi og stúi.  Glerplata ofan á viðarsófaborði sé brotin.  Skráð er frásögn Svandísar sem segist hafa verið sofandi í rúmi sínu ásamt vini sínum, Eggerti.  Einhver óþekktur maður hafi komið inn í herbergið, en Svandís taldi að hann hefði komið inn um glugga.  Hafi hún komið manninum út á gang og læst hurðinni fram.  Skömmu seinna hafi hurðinni verið sparkað upp og þar hafi verið kominn fyrrverandi sambýlismaður hennar, ákærði Ólafur. 

Ákærði segir í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hafi ætlað sér að sækja Svandísi eftir vinnu þetta kvöld, en hún hafi unnið á Club Seven.  Hún hafi ekki verið þar og þá hafi hann komið við á LA kaffi og keypt kampavínsflösku og gengið niður á Hverfisgötu þar sem Svandís bjó.  Þar hafi enginn verið en svo hafi hann heyrt einhver læti, það hafi verið öskrað.  Allt í einu hafi útidyrnar verið opnaðar, hann hafi þá rokið inn og sparkað upp hurðinni að íbúð Svandísar.  Maðurinn sem opnaði hafi komið upp á eftir honum.  Ákærði kveðst hafa lamið manninn sem lá í rúmi Svandísar og danglað eitthvað í hana.  Hann hafi ekki barið Svndísi.  Hann hafi ruðst inn í heimildarleysi.  Þá játaði hann að hafa brotið glerplötu í borði, en tók fram að hann ætti borðið sjálfur. 

Nánar aðspurður kvaðst hann hafa slegið Svandísi í andlitið með olnboganum, hann hafi ekki rifið í hár hennar.  Hann hafi verið að lemja Eggert þegar Svandís hafi komið aftan að honum og rifið í sig.  Þá hafi hún fengið olnbogann óvart í andlitið.  Þá játaði ákærði hafa hafa barið Eggert Orra Vigfússon eins og segir í ákæru.  Hann kvaðst ekki viss um að hann hefði nefbrotið Eggert, hinn maðurinn sem kom inn í íbúðinni hefði líka slegið Eggert.  Þennan mann kvaðst ákærði aldrei hafa séð áður og ekki vita nein deili á honum. 

Svandís Ásta lýsti atvikum svo að hún hefði vaknað við að einhver var að klifra inn um gluggann í næsta herbergi.  Þetta hafi verið maður sem hún þekkti ekki neitt.  Hún hafi rekið hann fram á gang.  Hún hafi ætlað aftur í rúmið, en þá hafi hurðin verið brotin upp og ákærði komið inn ásamt manninum sem hafði komið inn um gluggann.  Ákærði hafi ráðist að Eggerti sem var í rúminu, spurt hvað hann væri að gera þar og barið hann.  Hún hafi reynt að stöðva ákærða, en þá hafi hann slegið hana í andlitið með hnefanum og síðan farið að brjóta glös og annað.  Hinn maðurinn hefði ekki ráðist að sér, en hann hefði ráðist á Eggert. 

Svandís kvaðst eiga borð það sem ákærði braut plötuna af. 

Eggert Orri Erlendsson, sem var gestkomandi í íbúðinni, lýsti atvikum á sama veg og Svandís.  Ólafur hefði fyrst lamið sig en síðan snúið sér að Svandísi og lamið hana.  Ólafur hafi aðallega slegið hana í andlitið.  Eggert sagði að maðurinn sem var með Ólafi hefði lamið sig eitthvað, en sá hafi aðallega haldið honum á meðan Ólafur sló. 

Tómas Frosti Sæmundsson, rannsóknarlögreglumaður, og Guðlaugur Wiium Hansson, lögreglumaður, gáfu skýrslu fyrir dómi um atvik.  Ekki er tilefni til að rekja skýrslur þeirra. 

Áverkum er Svandís Ásta hlaut umrætt sinn er lýst í vottorði Leifs Jónssonar, læknis á slysadeild, sem dagsett er 27. júlí 2001.  Þar segir að 3 cm skurður sé á hægri augabrún auk þess sem nögl á vinstri þumalfingri sé brotin þvert.  Sárið á enninu hafi verið saumað fimm sporum.  Loks segir að ljóst þyki að Svandís hafi fengið högg á andlitið.

Áverkum Eggerts Orra er lýst í vottorði Ingu Þórarinsdóttur, deildarlæknis á Háls-, nef- og eyrnadeild, dagsettu 6. september 2001.  Þar segir m.a.: 

„... var hann með mar í kringum hægra auga og einnig skurð á nefi.  Kvartaði ekki um skakkt bit og engar tennur virtust hafa brotnað.  Eðlilegt skyn var í andliti og allar augnhreyfingar eðlilegar.  Engin tvísýni reyndist vera til staðar.  Ekki greinanleg blæðing í miðnesi en miðnes örlítið skakkt sem er líklega gamall áverki.  Greinilega er þó til staðar nefbrot og er sveigja á nefi yfir til vinstri.  Einnig er hann aumur yfir ennis- og kinnarsaumum hægra megin ...”

Ákæruliður III. 

Frumskýrsla lögreglu greinir að borist hafi tilkynning um að eitthvað gengi á í íbúð að Hverfisgötu 82.  Á staðnum fékk lögregla þær upplýsingar að maður hefði stokkið  niður af svölum og lent á vélarhlíf bifreiðar.  Svandís tjáði lögreglu að ákærði hefði ruðst inn í íbúð hennar og ráðist að sér og valdið skemmdum á munum.  Blóðslettur sáust um alla íbúðina, en Svandís tjáði lögreglu að blætt hefði úr sári á vinstra handarbaki ákærða. 

Verknaðarlýsingu þessa ákæruliðar játaði ákærði fyrir dómi.  Hann vildi að fram kæmi að stuttu áður hefði faðir hans, sem er gullsmiður, verið rændur í verslun sinni við Laugaveg.  Hann hefði fengið upplýsingar sem bentu á tiltekna menn sem héldu til í húsi við Laugaveg.  Lögreglan hafi ekki fundið neitt við húsleit þar.  Hann hafi tengt þetta við Svandísi.  Hún hafi síðan hringt í sig og spurt af hverju hann hefði sigað lögreglunni á sig og bætt síðan við að hann myndi aldrei finna þýfið. 

Þá tók ákærði fram að hann hefði gert við sjónvarpið. 

Svandís sagði að sjónvarpið hefði ekki skemmst, það hefði dottið í sundur en hún hefði náð að setja það saman aftur.  Þá neitaði hún því að hún hefði hringt í ákærða eins og hann lýsir. 

Niðurstöður.

Um atvik samkvæmt ákærulið I eru ekki önnur vitni en Svandís Ásta, en ákærði neitar sök.  Atvik hafa verið að litlu leyti upplýst.  Svandís hefur verið staðföst í framburði sínum.  Vitni greina frá því að þegar um nóttina hafi hún skýrt frá því að ákærði hafi ráðist á sig og veitt sér áverka.  Allt að einu eru ekki tæmdir möguleikar þeir sem fyrir hendi voru til að upplýsa um ferðir ákærða og Svandísar þetta kvöld.  Þá eru tímasetningar í frásögn Svandísar ekki í samræmi við skýrslur lögreglu um afskipti hennar.  Verður að þessu athuguðu að sýkna ákærða þar sem brot samkvæmt þessum lið er ósannað. 

Ákæruliður II er í fjórum hlutum, en um er að ræða atvik sem urðu sunnudaginn 15. júlí 2001.  Bæði ákærði og vitni bera að óþekktur maður hafi komið á staðinn og blandast inn í atburðarásina, en hann hefur ekki fundist.

Fyrsta liðinn, húsbrot, hefur ákærði játað fyrir dómi og er brotið sannað með játningu hans og framburðum Svandísar Ástu og Eggerts Orra.  Er brotið réttilega heimfært til 231. gr. almennra hegningarlaga í ákæru.

Eignaspjöll samkvæmt lið 2 hefur ákærði játað, en staðhæfir að hann eigi sjálfur borðið.  Þessa staðhæfingu hans verður að meta ósannaða, en borðið var staðsett á heimili Svandísar Ástu, en ekki hjá ákærða.  Brotið er réttilega fært til refsiákvæða. 

Ákærði neitar að hafa slegið Svandísi Ástu eins og lýst er í lið 3.  Hann kveðst hafa rekið olnboga í andlit hennar þegar hún réðst að honum.  Hafi það verið óviljaverk.  Gegn þessari neitun ákærða er skýr framburður Svandísar Ástu, sem studdur er að nokkru af framburði Eggerts Orra.  Er skýring ákærða ótrúverðug.  Á grundvelli framburðar Svandísar og Eggerts Orra og með hliðsjón af áverkum þeim sem hún hlaut er sannað að ákærði hafi slegið hana í andlitið og rifið harkalega í hár hennar.  Er brot þetta réttilega fært til refsiákvæða í ákæru. 

Ákærði játar að hafa ráðist á Eggert Orra Erlingsson og slegið hann í andlit.  Ber hann að hinn óþekkti maður sem þarna var hafi einnig slegið til Eggerts.  Þvertekur hann þó ekki fyrir að hafa veitt Eggerti þá áverka sem lýst er í ákæru.  Af skýrslu Eggerts verður ekki ráðið að hinn óþekkti maður hafi veitt honum áverka.  Dómurinn telur sannað með játningu ákærða og framburði Eggerts Orra að ákærði hafi valdið Eggerti Orra Erlingssyni þeim meiðslum sem rakin eru í ákæru.  Hefur hann með atlögu sinni brotið gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. 

Ákærulið III játar ákærði.  Skýringar hans breyta engu um refsinæmi brota hans, sem eru réttilega færð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði hefur nokkrum sinnum sætt sektarrefsingum fyrir brot gegn umferðar­lögum, áfengislögum og lögum um ávana- og fíkniefni.  Ákvörðun refsingar hans var frestað skilorðsbundið í dómi 19. desember 1988, en hann var þar sakfelldur fyrir skjalafals.  Hann var dæmdur til að sæta fangelsi í sjö mánuði fyrir fíkniefnabrot með dómi 6. mars 1992.  Loks var honum gert að sæta 60 daga varðhaldi skilorðsbundið með dómi 22. ágúst 1998.  Var hann þar sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en hann braut þar gegn þáverandi sambýliskonu sinni.  Ákærði stóðst skilorð dómsins. 

Ákærði er nú sakfelldur fyrir húsbrot og líkamsárás gegn tveimur einstaklingum, auk eignaspjalla.  Líta ber til þess að hann hefur áður sætt refsingu fyrir líkamsárás.  Refsing hans er ákveðin fangelsi í sex mánuði. 

Í samræmi við niðurstöðu um ákærulið I ber að vísa bótakröfu Svandísar Ástu Jónsdóttur vegna þess liðar frá dómi.  Er krafan samofin kröfu vegna II. ákæruliðar, auk atviks sem ekki er ákært fyrir.  Vegna atviksins í II. ákærulið, eignaspjöll og líkamsárás þann 15. júlí 2001, krefst Svandís bóta samtals að fjárhæð 360.500 krónur.  Kröfu hennar um þjáningabætur verður að vísa frá dómi þar sem hún er ekki studd gögnum.  Þá er mat á tjóni á munum ekki rökstutt og verður sömuleiðis vísað frá dómi.  Krafa hennar um miskabætur er að fjárhæð 120.000 krónur og þykir mega fallast á hana.  Verður hún dæmd með dráttarvöxtum frá 4. apríl 2002, er málið var þingfest og ákæran borin undir ákærða fyrir dómi.  Ennfremur verður ákærða gert að greiða bótakrefjanda kostnað vegna lögmannsaðstoðar, sem er ákveðin 60.000 krónur.  Er þá tekið tillit til virðisaukaskatts.

Krafa Svandísar vegna III. ákæruliðar er um miskabætur og bætur fyrir tjón á munum.  Að því leyti sem krafist er miskabóta er það vegna atvika sem ekki er ákært fyrir.  Mat á tjóni á munum er eins og við ákærulið II ekki rökstutt og verður þessari kröfu því í heild vísað frá dómi. 

Eggert Orri Erlendsson krefst endurgreiðslu útlagðs kostnaðar sem nemur samtals 8.474 krónum.  Þá krefst hann miskabóta samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1993 að fjárhæð 500.000 krónur.  Þegar litið er til áverka hans og mið tekið af dómvenju verða miskabætur til hans ákveðnar 200.000 krónur.  Verður ákærði dæmdur til að greiða honum 208.474 krónur. Rétt er að krafan beri dráttarvexti frá þingfestingardegi, 4. apríl 2002. Ennfremur verður ákærða gert að greiða bótakrefjanda kostnað vegna lögmannsaðstoðar, sem er ákveðin 60.000 krónur.  Er þá tekið tillit til virðisaukaskatts.

Sakarkostnað verður ákærði dæmdur til að greiða.  Málsvarnarlaun verjanda hans eru ákveðin 150.000 krónur.

Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Jón Finnbjörnsson, Arngrímur Ísberg og Guðjón St. Marteinsson. 

D ó m s o r ð

Ákærði, Ólafur Már Jóhannesson, sæti fangelsi í sex mánuði. 

Ákærði greiði Svandísi Ástu Jónsdóttur 120.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum frá 4. apríl 2002 til greiðsludags og 60.000 krónur í lögmannsþóknun.  Að öðru leyti er kröfum hennar vísað frá dómi. 

Ákærði greiði Eggerti Orra Erlendssyni 208.474 krónur með dráttarvöxtum frá 4. apríl 2002 til greiðsludags og 60.000 krónur í lögmannsþóknun. 

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun Hilmars Ingimundarsonar, hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.