Hæstiréttur íslands

Mál nr. 341/2001


Lykilorð

  • Vinnusamningur
  • Kjarasamningur
  • Opinberir starfsmenn
  • Yfirvinna


Miðvikudaginn 24

 

Miðvikudaginn 24. apríl 2002.

Nr. 341/2001.

Guðný Lára Petersen

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Vinnusamningur. Kjarasamningur. Opinberir starfsmenn. Yfirvinna.

Framhaldsskólakennarinn G taldi sig hafa orðið fyrir kjaraskerðingu vegna ákvarðana skólastjórnenda um að skerða þann fjölda kennslustunda sem áður höfðu verið í tiltekinni námsgrein. Ekki var á það fallist á að G ætti rétt á þeim greiðslum sem hún krafðist í málinu, hvorki með vísan til þess að rétturinn yrði leiddur af kjara­samningi né að íslenska ríkið (Í) hefði með ólögmætum aðgerðum svipt hana þeim rétti. Var Í því sýknað af kröfum G.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. september 2001 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 59.493 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. júní 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 26. mars sl. að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu birtri 16. júní sl. af Guðnýju Láru Petersen, kt. 201157-6339, Norðurtúni 29, Bessastaðahreppi, á hendur íslenska ríkinu, kt. 550169-2989, Arnar­hvoli, Reykjavík, til heimtu vangreiddra launa, dráttarvaxta og máls­kostnaðar.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 59.493 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá birtingardegi stefnu til greiðsludags og málskostnað að skaðlausu að mati dómsins. Krafist er að við ákvörðun máls­kostnaðar­fjárhæðar verði tekið tillit til virðisauka­skatts sem stefnanda beri að greiða af lögmannsþóknun.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að henni verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og að málskostnaður verði í því tilviki látinn falla niður.

Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni

Stefnandi byrjaði að kenna við Iðnskólann í Reykjavík haustið 1998. Haustönn 1999 kenndi hún meðal annars rafmagnsfræði, áfanga RAF115. Fram hefur komið að áfanginn telst fimm einingar en kennslustundir voru átta á viku þessa önn.

Í námskrá handa framhaldsskólum, námsbrautir og áfangalýsingar, sem gefin var út af menntamálaráðuneytinu í júní 1990, segir í reglum um mat á fyrra námi að námsefni framhaldsskólanna sé mælt í einingum. Samsvari hver eining að jafnaði námi sem nemi tveimur kennslustundum á viku í eina önn. Samkvæmt þessu hefðu kennslustundir í RAF115 átt að vera tíu á viku en ekki átta. Ný námskrá var gefin út á árinu 1999 en þar er ekkert sambærilegt ákvæði.

Stefnandi byggir kröfu sína í málinu á því að skerðing um tvær kennslustundir á viku hafi leitt til þess að hún hafi ekki fengið greidd þau laun sem hún hefði fengið ef skerðingin hefði ekki komið til. Stefnandi hefur lagt fram útreikninga Kennara­sambands Íslands og Félags framhaldsskóla­kennara á launum vegna kennslu­stundanna, sem þannig féllu niður, og er krafa hennar í málinu byggð á þeim, en útreikningarnir hafa ekki sætt andmælum af hálfu stefnda.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Kröfur stefnanda eru byggðar á því að hún sé fastráðin kennari við Iðn­skólann í Reykjavík. Hún kenni þar nokkrar kennslugreinar, en mál þetta snúist aðeins um eina þeirra, auðkennd RAF115 í kennsluskrá skólans.

Samkvæmt 21. gr. laga um framhaldsskóla sé aðalnámskrá, sem menntamála­ráðherra setji, meginviðmiðun skólastarfs. Í henni skuli kveðið á um uppbyggingu einstakra námsbrauta, samhengi í námi og meðallengd námstíma á hverri braut. Ákveðinn lágmarksfjöldi kennslustunda sé ákveðinn í námskránni í einstökum námsgreinum.

Námskrá handa framhaldsskólum frá 1990 hafi verið í gildi þegar núgildandi kjara­samningur stefnda við stéttarfélag stefnanda frá 1997 tók gildi. Þar segi að námsefni fram­halds­­skólanna sé mælt í einingum, og að hver eining samsvari að jafnaði námi, sem nemi tveimur kennslustundum á viku í eina önn. Við matið skuli gengið út frá þeirri meginreglu að tímafjöldi í grein á viku og innihald náms ákvarði þann einingafjölda sem nemandi fái metinn.

Menntamálaráðherra hafi gefið út nýja námskrá, Aðalnámskrá framhaldsskóla, á árinu 1999. Í henni sé ekki að finna sams konar ákvæði um samsvörun eininga og kennslustunda. Umfjöllun um þetta innan skólanefndar Iðnskólans í Reykjavík hafi leitt til þess að menntamálaráðherra hafi ritað skólameistara skólans bréf 7. júlí 1999. Í bréfinu komi meðal annars fram að í námskrá fyrir framhaldsskóla sé ekki lengur ákvæði áðurgildandi námskrár um samsvörun eininga og kennslustunda, ein eining á móti tveimur kennslustundum að jafnaði. Á hinn bóginn sé túlkun kjarasamninga í höndum fjármálaráðherra og um hana verði ekki hlutast eftir að kjarasamningur hafi verið gerður. Af framangreindu leiði það álit ráðuneytisins að fækkun kennslustunda eftir umfjöllun og samþykki viðkomandi deilda sé heimil, fari hún ekki í bága við grunnforsendur og túlkun réttra aðila á samningum um kaup og kjör kennara. Menntamálaráðuneytið telji mikilvægt að þessum valkosti í skipulagningu skólastarfs verði haldið opnum eins og verið hafi, í sátt aðila og með hagsmuni skóla, nemenda og kennara tryggða.

Í námsvísi fyrir Iðnskólann séu upplýsingar um viðkomandi greinar tilgreindar með kerfisbundnum hætti og birtist þær þannig í stundaskrá. Í RAF1158-01 626 sé 115 númer greinarinnar en aftasta talan sýni einingafjölda hennar og talan 8 vísi til kennslustundafjölda á viku. Talan 01 tiltaki hópinn og 626 sé númer kennslustofu.

Stefnandi heldur því fram að hún hafi verið ráðin til að kenna þessa náms­grein. Þegar vinnustundatafla hennar fyrir haustönn 1999 hafi verið kynnt hafi komið á daginn að stjórnendur skólans hafi ákveðið, án samráðs við hana eða þá deild sem hún starfi við, aðra kennara eða stéttarfélög þeirra, að fækka kennslustundum í þessari kennslugrein án þess þó að hróflað væri við námskröfum eða námsefni sem ætlunin hafi verið að fara yfir. Í stað þess að námsgreinin RAF115 yrði kennd tíu kennslu­stundir á viku hafi hún aðeins verið kennd í átta. Þrátt fyrir þessa breytingu hafi einingafjölda greinarinnar ekkert verið breytt. Stefnandi hafi orðið fyrir beinni kjaraskerðingu við breytinguna samhliða auknu álagi á hana sem kennara miðað við það sem verið hefði, ef farið hefði verið eftir námsvísi skólans. Við munnlegan málflutning var af hálfu stefnanda bent á að í grein 2.7.1 kjarasamnings fjármála­ráðherra annars vegar og Hins íslenska kennara­félags og Kennarasambands Íslands hins vegar frá 7. júní 1997 komi fram að ávallt skuli hafa samráð við kennara um fjölda kennslustunda en af hálfu stefnda er þetta talið of seint fram komið.

Kjarasamningurinn frá 7. júní 1997 sé enn í gildi. Á grundvelli hans beri að reikna stefnanda laun fyrir þá vinnu sem hún hafi verið ráðin til að vinna. Ein af grundvallarforsendum kjarasamningsins sé sú viðmiðun milli einingafjölda og kennslustunda sem gilt hafi samkvæmt þágildandi námskrá fyrir framhaldsskóla. Þeirri forsendu hafi Iðnskólanum í Reykjavík verið óheimilt að hrófla við. Komi þetta ótvírætt fram í bréfi menntamála­ráðherra frá 7. júlí 1999 til þáverandi skólameistara skólans. Kennsluskerðingin, sem stjórnendur Iðnskólans hafi ákveðið einhliða haustið 1999 og komið hafi þá til framkvæmda, hafi falið í sér höfnun á vinnuframlagi sem stefnanda hafi verið skylt að láta í té sem kennari við skólann. Hún eigi þess vegna rétt á að fá greitt fyrir þann vinnustundafjölda með sama hætti og verið hefði, ef vinnan hefði verið unnin. Stefnandi hafi þegar við upphaf skólaársins gert fyrirvara um rétt sinn vegna þessa, enda hafi skólinn með þessu brotið rétt gagnvart henni og nemendum skólans.

Verði ekki fallist á kröfur stefnanda á þeim grundvelli að skólinn hafi hafnað umsömdu vinnuframlagi hennar eru kröfur hennar einnig reistar á því að skólinn hafi, í trássi við fyrirmæli menntamálayfirvalda, bakað stefnanda fjárhagstjón með ólögmætri breytingu á kennslufyrirkomulagi sem rýrt hafi atvinnu­tekjur hennar. Um­rædd kennsluskerðing hafi verið framkvæmd fyrirvaralaust og án samráðs við þá aðila, sem þurft hafi að fjalla um slíkar breytingar áður en þær kæmu til framkvæmda, svo sem viðkomandi deild skólans, stefnanda sjálfa og undir öllum kringumstæðum stéttarfélag hennar. Um bótagrundvöll er vísað til sakarreglunnar og þess að ákvörðun um kennsluskerðinguna hafi verið ólögmæt þar sem hún hafi verið tekin án þess að gætt væri ákvæða IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 13. gr.

Samkvæmt kjarasamningi hafi kennsluskylda stefnanda verið 23,09 kennslu­stundir á viku. Kennsla samkvæmt stundatöflu hennar á haustönn 1999 hafi verið talsvert meiri en nam kennsluskyldunni, en kennsla umfram hana hafi verið greidd með yfirvinnukaupi. Af þessu leiði að kennsluskerðingin hafi orðið til þess að lækka yfirvinnutekjur, sem stefnandi hefði ella haft í starfi sínu, en skerðingin hafi numið tveimur kennslustundum á viku þessa önn. Fyrir þessar kennslustundir hefði stefnandi fengið greitt sem nemi 1,45 klukkustund á yfirvinnukaupi fyrir hverja kennslustund samkvæmt grein 1.5.6.1 í kjarasamningi aðila. Samkvæmt þessu hafi hún átt að fá greitt fyrir þær yfirvinnukaup í 2,90 klukkustundir á viku. Yfirvinnukaupið hafi verið 1.225,69 krónur fyrir hverja klukkustund. Samkvæmt því sé launakrafan 3.554 krónur á viku. Haustönnin sé 15 kennsluvikur, og því nemi krafan fyrir önnina 53.314 krónum. Stefnandi krefjist jafnframt 11,59% orlofs til viðbótar yfirvinnukaupinu og nemi sá kröfuliður 6.179 krónum. Dráttarvaxtakröfuna byggir stefnandi á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, einkum 10. og 12. gr., og um málskostnað er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er bent á að málsástæður stefnanda komi ekki heim og saman við grundvöll málsins en málsástæður og lagarök væru að ýmsu leyti ósamrýmanlegar kröfum hennar. Þetta geti valdið því að málinu beri að vísa frá dómi án kröfu. Í upphafi stefnu komi fram að stefnandi þurfi að höfða mál þetta til heimtu vangreiddra launa, tiltekinnar fjárhæðar, dráttarvaxta og málskostnaðar. Málatilbúnaður sé mjög óljós um það hvort eða hvernig ráðningar- eða kjarasamningur kunni að vera vanefndir af hálfu stefnda. Ráðningarsamningur hafi ekki verið lagður fram og aðeins lítill hluti kjarasamningsins frá 1997. Hvergi sé vísað til efnisákvæða ráðningar- eða kjarasamnings og útskýrt í hverju vanefnd kynni að vera fólgin, en tilvísun til greinar 1.5.6.1 í þessu sambandi geti engan veginn talist fullnægjandi, enda ekki krafist launa fyrir unnar yfirvinnustundir. Stefnandi haldi einnig uppi málsástæðum til stuðnings sömu kröfu til heimtu vangreiddra launa með vísan til almennu skaðabótareglunnar. Engin bótakrafa sé þó gerð í málinu og alls óljóst hvort átt sé við bótarétt innan samninga eða utan. Skaðabótakrafa sé allt annars eðlis en krafa til heimtu launa. Af þessum ástæðum kunni að vera ófært að taka málið til efnismeðferðar.

Sýknukrafa stefnda er studd þeim rökum að Iðnskólanum í Reykjavík beri samkvæmt framhaldsskólalögum að halda uppi námi á ólíkum námsbrautum og útskrifa nemendur af þeim. Við skólann sé haldið uppi fjölda námsgreina en oft með fáum nemendum. Stjórnendur skólans hafi takmarkað tímafjölda í einstökum áföngum þegar um fáa nemendur hafi verið að ræða, í hraðferðum og vegna skipulagningar á stundaskrám. Liggi meðal annars til grundvallar þeirri ákvörðun að sinna megi fáum nemendum betur á styttri tíma en mörgum, svo og að nemendur með góðan undirbúning komist af með færri kennslustundir en ella. Enn fremur skipti máli að fjármunir nýttust sem best og að ráðdeildar væri gætt í rekstri skólans. Því er mótmælt sem ósönnuðu að álag á stefnanda hafi orðið meira þegar á allt væri litið, en engar athugasemdir hafi komið fram þess efnis af hálfu stefnanda. Hver og ein kennslustund með færri nemendum hljóti að nýtast betur en þegar fullskipað sé, einkum í verklegu námi. Hafi öllum kennurum, þ.á m. stefnanda, verið kunn sú framkvæmd að fækka tímum í einstökum áföngum eða fella þá niður, en sambærileg umræða hafi átt sér stað fyrir vorönn 1999 og fyrr. Breytingar á kennslustundafjölda í áföngum í framhaldsskólum almennt væru algengar og hafi kennurum, þ.á m. stefnanda, verið kunnugt um það. Slíkar breytingar hafi komið fram áður, þ.e. fyrir skólaveturinn 1999 til 2000.

Kennurum skólans hafi verið gerð grein fyrir ákvörðunum um kennslu á haustönn 1999 á kennarafundi 19. ágúst 1999. Stundaskrárgerð væri langt komin og hafi kennurum verið boðið að gera athugasemdir. Farið hafi verið fram á að einstakar deildir fjölluðu um málið og hafi það verið gert, en engar athugasemdir hafi verið gerðar um fjölda kennslustunda í þeim áfanga sem hér um ræði. Stefnandi hafi mætt á kennarafundinn, svo sem henni hafi verið skylt, og í framhaldi af fundinum hafi henni verið afhent stundaskrá, þar sem handritað hafi verið af áfangastjóra að hraðdeildaráfanginn RAF115 væri "settur inn með fyrirvara um samþykki aðila er málið varðar".

Í greinargerð skólameistara skólans komi fram ástæður fyrir fækkun kennslu­stunda í áfanganum RAF115, sem sérstaklega varði hraðferðir grunndeildar rafiðna, en í námsvísi skólans sé boðið upp á hraðferðir þar. Nemendum með góðan bóklegan undirbúning hafi í um það bil 20 ár verið gefinn kostur á að stytta iðnnám sitt í rafiðnum. Þetta hafi meðal annars verið gert með því að fækka kennslustundum og koma á hraðferð í áfanganum, en í greinargerð skólameistara sé þess getið að árangur þessara hópa hafi verið góður. Aldrei hafi komið fram athugasemdir við þessa tilhögun sem mótuð hafi verið af kennurum skólans, ýmist við kennslustjórn, deildarstjórn eða kennslu við deildina. Þetta eigi sér einnig forsögu eins og kennslu hafi verið hagað 1998 og gögn málsins sýni.

Engar athugasemdir hafi komið fram, hvorki frá deild, deildarstjóra, hópi viðkomandi kennara né stefnanda. Þar sem settir hafi verið fyrirvarar á stundatöfluna og engar rökstuddar athugasemdir hafi komið frá stefnanda sé rangt að ekki hafi verið haft við hana samráð eins og hún haldi fram. Fækkun kennslustunda við gerð stundatöflu hafi því verið tekin í fullu samráði við kennara, þ.á m. stefnanda, en auglýst hafi verið eftir athugasemdum á kennarafundi. Þótt stefnandi hafi gert fyrirvara um kennslu sína haustið 1999 með skriflegri yfirlýsingu 19. ágúst það ár, sem deildarstjóri hafi móttekið, hafi engin rök verið færð fyrir því að stefnandi teldi vandkvæðum bundið að kenna áfangann samkvæmt stunda­töflunni. Stefnandi eigi enga lögvarða kröfu til þess að henni yrðu látnar í té umræddar yfirvinnustundir þannig að réttur til frekari yfirvinnugreiðslu stofnaðist.

Breytingarnar á kennslustundafjölda hafi verið ræddar í skólaráði í september 1999. Skólaráð fjalli meðal annars um starfsáætlun skólans og framkvæmd hennar, sbr. b lið 2. gr. reglugerðar nr. 140/1997 um skólaráð við framhaldsskóla. Í 9. gr. laga nr. 80/1996 séu ákvæði um almenna kennarafundi, er fjalli m.a. um námsskipan og kennslu­hætti. Kennarafundur komi tillögum sínum á framfæri við skólanefnd og skólaráð. Skólanefndin marki síðan áherslur í starfi skólans og geri árlega starfs- og fjárhagsáætlun fyrir skólann, sbr. 7. gr. laganna.

Mótmælt er að ekki hafi verið haft samráð við kennara eða viðkomandi deild. Ekki hafi annað komið fram en að deildir einstakra námsgreina hafi samþykkt fjölda kennslu­stunda, og eftir atvikum fækkun þeirra, og hagað kennslu í einstökum áföngum í samræmi við það. Trúnaðarmaður og áheyrnarfulltrúi kennara hafi komið sjónarmiðum sínum ítarlega á framfæri er mál þessi hafi verið rædd á árinu 1998 og fram á sumar 1999, meðal annars á vettvangi skólanefndar. Engin nauðsyn hafi verið samkvæmt lögum eða kjarasamningi að leita samráðs stéttarfélags við gerð stundatöflu.

Í kjarasamningi stefnanda séu engin ákvæði um sérstakt tilkall til lágmarksfjölda yfirvinnustunda. Yfirvinna samkvæmt greinum 2.3 og 1.5 verði ekki greidd nema hún sé innt af hendi vegna fyrirmæla forstöðumanns á grundvelli 17. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ákvæði í 2. kafla kjarasamnings um stundafjölda, miðað við starfshlutfall og greiðslur samkvæmt þeim, hafi ekki verið vanefnd. Stefnandi hafi sinnt kennslu umfram kennslu­skyldu og fengið greidda yfir­vinnu. Engin lögvarin krafa til launa vegna yfirvinnu umfram það hafi stofnast og beri því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda.

Því er mótmælt að samhengi sé milli einingafjölda og kennslustunda í kjara­samningi sem óheimilt hafi verið að hrófla við. Lýsing í námskrá á námsáfanga, og eftir atvikum áætlaðar kennslustundir í ljósi einingafjölda, geti ekki verið bindandi um vinnuframlag stefnanda, en ekkert slíkt samhengi milli einingafjölda og kennslu­stunda verði ráðið af kjarasamningnum. Mótmælt er að um sé að ræða grundvallar­forsendu kjarasamnings þessa efnis og að brotið hafi verið gegn kjarasamningi á nokkurn hátt eða að einhverjum forsendum kjarasamnings hafi verið raskað. Stefnandi hafi verið ráðin sem kennari við skólann í fullt starf og fyrir það hafi hún fengið greitt í samræmi við fyrirmæli kjarasamninga, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 47. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Engar skyldur hafi verið vanefndar af hálfu stefnda gagnvart stefnanda, hvorki samkvæmt ráðningar­samningi né gildandi kjarasamningi.

Það sé í fullu samræmi við stjórnunarrétt vinnuveitanda, sbr. 15. gr. og 17. gr. laga nr. 70/1996, að mæla nánar fyrir um vinnutíma kennara, þ.á m. um hvenær krafist skuli yfirvinnuframlags, en kröfur stefnanda varði yfirvinnustundir eingöngu. Ákvarðanir stjórnenda skólans um kennslu í einstökum námsgreinum, og þar með á vinnutíma, hafi verið í samræmi við lög og gengju ekki lengra en nauðsynlegt hafi verið. Þær lúti hvorki takmörkunum í kjarasamningi framhaldsskóla­kennara né væru þær háðar samþykki stefnanda. Slíkt fyrirkomulag væri í ósamræmi við ábyrgð og forræði yfirvalda í skólamálum. Skólinn hafi að lögum rúmar heimildir til að ákveða kennslu­stundafjölda í einstökum áföngum og stjórn skólans eigi ákvörðunar­vald hverju sinni um lágmarks­kennslustundafjöldi í hverjum áfanga án tillits til þess hvað ráðið verði af einingafjölda í auðkenni greinarinnar í áfangakerfinu. Þetta sé fyllilega í samræmi við bréf menntamálaráðherra frá 7. júlí 1999 og heimildir í námskrá, en fjöldi kennslustunda sé ekki ákveðinn þar fyrir hvern áfanga. Því er mótmælt að ákvarðanir um kennslustundafjölda hafi verið andstæðar efni bréfs mennta­­mála­ráðherra eða að í bréfinu felist túlkun á kjarasamningi.

Samráði við kennara um framkvæmd kennslunnar hverju sinni sé markaður farvegur í lögum, sbr. 2. mgr. 8. gr. og 9. gr. laga nr. 80/ 1996 um framhaldsskóla. Hvorki geri þau lög né kjarasamningar framhaldsskólakennara ráð fyrir því að framboð kennslu og kennslumagns skuli háð efni kjarasamnings.

Í kjarasamningnum séu engin ákvæði um að viðmiðun skuli vera milli eininga og kennslustundafjölda, enda sé starf stefnanda ekki metið til eininga á þann hátt sem vísað hafi verið til í eldri námskrá fyrir framhaldsskóla. Í námskrám og ákvæðum framhalds­skólalaga, sem þær byggi á, sé átt við réttindi nemenda en ekki kennara og sé þar um að ræða reglur um mat á fyrra námi nemenda. Þær viðmiðanir geti hvorki skoðast sem forsendur kjarasamnings né sem lögvarið tilkall kennara til vinnu­framlags eða launa.

Breytingar á kennslunni hafi verið óverulegar og ekki umfram það sem stefnandi hafi mátt búast við. Þá hafi breytingarnar verið byggðar á málefnalegum sjónar­miðum. Í 2. kafla kjarasamningsins séu ítarleg ákvæði um skiptingu vinnu­tímans og hvernig ákveða skuli árlegan fjölda kennslustunda. Af honum leiði að fjölgi kennslustundum umfram dagvinnuskyldu aukist yfirvinna að sama skapi. Með sama hætti geti yfirvinna í einhverjum tilvikum minnkað ef kennslustundum er fækkað. Samkvæmt ákvæðum kjarasamnings greiðist yfirvinna eingöngu sé hún unnin en engin vanefnd hafi orðið á slíkum greiðslum.

Mótmælt er að stefnandi hafi orðið fyrir kjaraskerðingu en yfirvinna og greiðslur fyrir hana séu mjög breytilegar frá einum tíma til annars. Því er og mótmælt að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni. Þessar málsástæður rúmist ekki innan kröfugerðar stefnanda og þann grundvöll sem marki sakarefnið. Fækkun kennslustunda hafi ekki verið reist á saknæmri eða ólögmætri háttsemi, og ekki sé unnt að líta á ákvarðanir stjórnenda Iðnskólans sem höfnun á vinnuframlagi er teljist ólögmæt og bótaskyld. Stefnandi hafi ekki orðið fyrir fjárhagstjóni vegna ólögmætrar háttsemi.

Tjóninu er enn fremur mótmælt sem röngu og ósönnuðu enda hafi stefnandi ekki átt lögvarinn rétt til vinnu utan daglegs vinnutíma. Enginn samningur sé um slíkt vinnuframlag og rangt sé að ákvarðanir um kennslu­fyrirkomulag hafi verið í trássi við fyrirmæli menntamálayfirvalda. Við ákvörðun kennslustunda hafi í einu og öllu verið farið að lögum svo og námskrá og fyrirmælum menntamála­ráðherra. Verði ekki á það fallist er því haldið fram að hér sé ekki um að ræða hagsmuni stefnanda, er njóti réttarverndar skaðabótareglna, þar sem hún eigi ekki lögvarða kröfu samkvæmt kjarasamningi til greiðslu fyrir yfirvinnu án vinnuframlags umfram dagvinnuskyldu og þá yfirvinnu sem þegar hafi verið greitt fyrir. Stefnandi hafi því ekki orðið fyrir réttarröskun. Þá hafi stefnandi ekki gert tilraun til að sýna fram á ætlað tjón, t.d. hvort hún hafi haft aðrar og hærri tekjur fyrr, og ef því væri að skipta hvort einhver fylgni sé þar við ákvarðanir um kennslustundafjölda.

Enn fremur mótmælir stefndi því að ákvarðanir um fækkun kennslustunda hafi verið fyrirvaralausar. Þær hafi verið kynntar kennurum skólans á kennarafundi og þær hafi hlotið umfjöllun þar til bærra aðila, sbr. 2. mgr. 8. gr. og 9. gr. laga nr. 80/1996. Einnig hafi þær verið vel þekktar frá fyrri önnum. Stéttarfélag stefnanda hafi ekki þurft að fjalla um málið áður, enda eigi það sér enga stoð í lögum eða kjara­samningum. Ákvörðun um breytingu á kennslufyrirkomulagi hafi verið byggð á ákvæðum laga um framhaldsskóla og námskrá fyrir framhaldsskóla og varði sem slík ekki réttindi kennara.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að ákvæði IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eigi við í málinu en ekki hafi verið um að ræða ákvarðanir, sem falli undir gildissvið stjórnsýslu­laga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 1. gr. þeirra. Ákvarðanirnar sem um ræði lúti að innra skipulagi skólans eða skipan kennslu í tilteknum námsgreinum og áföngum en slíkar ákvarðanir teljist ekki til stjórnvaldsákvarðana. Þær hafi verið teknar á grundvelli laga um framhaldsskóla og snúist um framkvæmd kennslunnar. Jafnvel þótt litið yrði svo á að ákvörðun um fækkun kennslustunda hafi verið ákvörðun um rétt eða skyldu stefnanda, sem falli undir gildissvið stjórnsýslulaga, hafi henni sem slíkri í engu verið áfátt að formi til eða efni. Fækkun kennslustunda hafi verið til umræðu og til staðar á fyrra kennsluári. Áform um færri kennslustundir hafi verið kynnt á kennarafundi. Stefnanda hafi einnig verið gert ljóst með afhendingu stundatöflu að fækkun yrði. Hvorki hafi því verið um að ræða brot á 13. gr. stjórnsýslulaga né öðrum ákvæðum laganna, verði á annað borð lagt til grundvallar að lögin eigi við hér. Eigi geti þó stofnast krafa til greiðslu launa fyrir yfirvinnu vegna brota á stjórnsýslulögunum og ekki sé fyrir að fara bótarétti á grundvelli þeirra.

Upphafstíma dráttarvaxta er mótmælt með vísan til 4. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, en til 15. gr. sömu laga verði sakarefni málsins talið á sviði bótaréttar. Um máls­kostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstöður

Samkvæmt e lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála skal greina í stefnu málsástæður, sem stefnandi byggir málsókn sína á, með eins glöggum hætti og unnt er, en óheimilt er samkvæmt 2. mgr. 111. gr. sömu laga að byggja niðurstöðu dómsmáls á málsástæðu sem hefði mátt koma fram en gerði ekki við meðferð málsins. Af þessu leiðir að ljóst verður að vera hverjar málsástæður stefnanda eru. Þegar litið er til málatilbúnaðar stefnanda verður að telja að fram komi með nægilega skýrum hætti hverjar þær málsástæður eru sem kröfur hennar í málinu eru byggðar á. Verður ekki annað séð en að sakarefnið hafi verið lagt fyrir dóminn í samræmi við réttarfarsreglur þannig að unnt verði að taka málið til efnismeðferðar og leysa úr því á þeim grundvelli. Eru því ekki skilyrði til að vísa málinu frá dómi án kröfu vegna ófullnægjandi málatilbúnaðar stefnanda að þessu leyti.

Stefnandi heldur því fram að hún hafi verið ráðin til að kenna náms­greinina RAF115 við Iðnskólann í Reykjavík. Fjölda kennslu­stunda í þeirri grein hafi ekki mátt skerða, en það hafi verið gert þrátt fyrir þá viðmiðun að hver náms­eining samsvaraði að jafnaði tveimur kennslustundum á viku, sem hafi verið forsenda kjarasamningsins frá 7. júní 1997, og án samráðs við stefnanda, þá deild sem námsgreinin heyri undir og stéttarfélag stefnanda.

Í málinu hefur komið fram að áfanginn RAF115 var kenndur sem hraðferð. Það hafi komið til af því að nemendum með góðan undirbúning hafi í um það bil 20 ár verið gefinn kostur á að stytta iðnnám sitt í rafiðnum, meðal annars með því að fækka kennslustundum og koma á hraðferðum. Af hálfu stefnda hefur enn fremur komið fram að árangur þessara hópa hafi verið góður og aldrei hafi komið fram athugasemd við þessa tilhögun. Hún hafi verið mótuð af kennurum skólans, ýmist við kennslu­stjórn, deildarstjórn eða kennslu við deildina. Stefnandi hefur upplýst að hún hafi fengið að vita um stundafjölda á viku haustönn 1999 þegar hún fékk stundaskrá í hendur eftir kennarafund sem haldinn var 19. ágúst það ár. Hún hefur einnig upplýst að áfanginn sé ætlaður sem hraðferð fyrir nemendur með stúdentspróf. Ekki hafi þó alltaf verið farið eftir því þar sem nemendur hafi ekki haft stúdentspróf í öllum tilvikum. Hún hafi kennt þennan hraðáfanga haustið áður og hafi þá verið sami stundafjöldi á viku. Sigurður Pétur Guðnason deildarstjóri í grunndeild rafiðna skýrði svo frá við aðalmeðferð að áfanginn RAF115 hafi verið hraðferð frá árinu 1979 en í upphafi hafi skóla­stjórnendur skipulagt hann þannig. Það hafi komið til af því að skólinn hafi tekið inn stúdenta og hafi stúdentspróf verið skilyrði fyrir því að nemendur fengju að fara í hraðferð. Síðar hafi orðið fleiri og fleiri undantekningar á því og nemendur, sem ekki höfðu stúdentspróf, hafi fengið að vera í hraðferðar­áföngum. Haustið 1999 hafi kennarar gert fyrirvara um réttmæti þess að skerða kennslu­stunda­fjölda og hafi þetta komið til tals innan deildarinnar. Á fundi með kennurum hafi verið rætt að ósanngjarnt væri að þeim væri ætlað að kenna sama námsefni á styttri tíma. Engin formleg niðurstaða hafi orðið af því tilefni og deildin hafi ekki sett fram neinar tillögur um breytingar á þessu fyrirkomulagi. Í fundargerð frá kennarafundi þann 19. ágúst 1999 var gerð fyrirspurn varðandi skertan kennslustundafjölda. Áfangastjóri svaraði henni þannig að sinna mætti fáum nemendum betur á styttri tíma en mörgum og gerði þá tillögu að skertur tímafjöldi yrði ræddur á deildafundum. Í gögnum málsins kemur fram að rætt var um skertan tímafjölda á fundum skólaráðs 6. september 1999 og 22. sama mánaðar en engar ákvarðanir voru þó teknar á þessum fundum eða ályktanir samþykktar í því sambandi.

Framhaldsskólakennarar fá greidd föst mánaðarlaun samkvæmt launatöflu eins og fram kemur í kjarasamningnum, sem stefnandi vísar til í rökstuðningi fyrir kröfum sínum í málinu. Yfirvinna er greidd með tímakaupi samkvæmt 1. kafla samningsins. Í 2. kafla er fjallað um vinnutíma kennara og segir þar meðal annars hverjar vinnu­skyldur þeirra eru og hvernig kennslustundir eru reiknaðar. Vinnuframlag er samkvæmt grein 2.1.6 miðað við kennslustundir og aðrar tímaviðmiðanir. Af kjarasamningnum verður ekki ráðið að réttur kennara til launagreiðslu sé tengdur námsefni eða náms­einingum og stefnandi hefur ekki sýnt fram á að sú viðmiðun sé forsenda samningsins. Nægir í því sambandi ekki að vísa til afstöðu menntamála­ráðuneytisins enda verður sá skilningur ekki lagður í bréf þess frá 7. júlí 1999 að slík viðmiðun hafi verið forsenda kjara­samningsins.

Í áfanga RAF115 voru færri kennslustundir á viku en í sambærilegu námi sem ekki var skipulagt sem hraðferð. Samkvæmt því sem fram hefur komið var ákvörðun um það tekin af stjórnendum skólans á árinu 1979. Almennur kennarafundur fjallar um stefnumörkun í starfi framhaldsskóla, námsskipan, kennsluhætti og aðra starfsemi og kemur tillögum sínum á framfæri við skólanefnd og skólaráð samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um framhaldsskóla nr. 79/1996, en hlutverk skólanefndar og skólaráðs er skilgreint í IV. kafla laganna. Eins og hér að framan hefur verið lýst var fjallað um skertan kennslustundafjölda á kennarafundum og á fundum skólanefndar án þess að ákvarðanir væru teknar af því tilefni. Verður með vísan til þessa ekki fallist á að ekki hafi verið haft samráð við stefnanda eða innan skólans um fjölda kennslustunda í þessum áfanga. Sú staðhæfing stefnanda að óheimilt hafi verið að skerða kennslustundir eins og gert var án samráðs við stéttarfélag hennar er órökstudd og eru því ekki efni til að fjalla um hana frekar hér.

Í máli þessu er deilt um réttmæti krafna stefnanda sem byggðar eru á vinnu­réttar­sambandi málsaðila. Ekki hefur verið sýnt fram á að ákvarðanir um skipulag námsins, þar með taldar ákvarðanir um fjölda kennslu­stunda á viku í einstökum námsgreinum, skipti máli í þeim lögskiptum. Teljast þær í því samhengi sem hér um ræðir því ekki stjórnvaldsákvarðanir í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til þess er því hafnað að um brot á þeim lögum geti verið að ræða.

Þá verður að hafna því að ákvarðanir um kennslustunda­fjölda hafi verið ólögmætar þannig að til bótaskyldu leiði gagnvart stefnanda enda hefur hvorki verið sýnt fram á af hennar hálfu að lög eða aðrar reglur hafi verið brotnar í því sambandi né að þessar ákvarðanir hafi verið ólögmætar af öðrum ástæðum.

Samkvæmt þessu verður ekki fallist á að stefnandi eigi rétt á þeim greiðslum sem hún krefst í málinu, hvorki með vísan til þess að rétturinn verði leiddur af kjara­samningnum né að stefndi hafi með ólögmætum aðgerðum svipt hana þeim rétti. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað að kröfum stefnanda, Guðnýjar Láru Petersen, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.