Hæstiréttur íslands

Mál nr. 456/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Tilhögun gæsluvarðhalds


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. október 2005.

Nr. 456/2005.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Tilhögun gæsluvarðhaldsvistar.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að skilyrði væru til þess að X sætti í gæsluvarðhaldi takmörkunum samkvæmt e. lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.  

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. október 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2005, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að fyrirkomulag gæsluvarðhalds yrði ekki með takmörkunum samkvæmt e. lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að fyrrgreindum takmörkunum verði aflétt.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

         

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2005.

         Samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 24. október 2005 sætir kærði X, [kt. og heimilisfang], gæsluvarðhaldi á grundvelli a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 um meðferð opinberra mála, allt til föstudagsins 28. október 2005 kl. 16.00.   Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins er enn margt óupplýst um aðild annarra að málinu og rannsókn þess ekki lokið.  Í ljósi þess og þar sem fyrir liggur að fréttaflutningur og umræða hefur verið af málinu í fjölmiðlum, sem lögreglan hefur fullyrt að sé að sumu leyti rangur og geti haft áhrif á framhald rannsóknarinnar, er fallist á að rannsóknar­nauðsyn réttlæti, að svo stöddu, að kærði sæti takmörkunum skv. e- lið 1. mgr. 108 gr. laga nr. 19,1991.

         Verður kröfu kærða því hafnað.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

             Kröfu kærða, X, um að takmörkunum skv. e lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 verði aflétt, er hafnað.