Hæstiréttur íslands
Mál nr. 4/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Kæra
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Mánudaginn 19. janúar 2009. |
|
Nr. 4/2009. |
Ákæruvaldið(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari) gegn A (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) B(Kristinn Bjarnason hrl.) C(Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Kærumál. Kæra. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Ákæruvaldið skaut til Hæstaréttar úrskurði héraðsdóms þar sem meðal annars var vísað frá dómi máli ákæruvaldsins gegn A, B, og C. Í yfirlýsingu ákæruvaldsins til héraðsdóms var greint frá því að tekin hefði verið ákvörðun um að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar. Í yfirlýsingunni var hvorki greint frá dómkröfum ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti né í hvaða skyni kært væri, eins og áskilið er í 3. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar 19. desember 2008 og bárust réttinum málsgögn 7. janúar 2009. Sóknaraðili leitar endurskoðunar á úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 2008, þar sem meðal annars var vísað frá dómi máli ákæruvaldsins að því er varnaraðila varðar. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til a. liðar 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðilar krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að úrskurðurinn verði staðfestur. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar. Varnaraðilinn A krefst þess að auki að málsvarnarlaun verjanda hans vegna meðferðar málsins í héraði verði hækkuð.
I
Samkvæmt bókun í þingbók var úrskurður héraðsdóms kveðinn upp á dómþingi 17. desember 2008 að viðstöddum sækjanda og verjendum varnaraðila. Hinn 19. sama mánaðar barst héraðsdómi svofelld orðsending í tölvupósti frá sækjandanum: „Hjálagt er afrit af bréfi til dómsins þar sem RLS lýsir yfir að hann kæri frávísunarúrskurðinn frá 17.12.2008. Vinsamlegast staðfestu móttöku bréfsins og hvort þessi háttur sé fullnægjandi á tilkynningunni. Frumritið er á leið til ykkar. Undirritaður mun, til viðbótar, skila greinargerð til Hæstaréttar vegna málsins.“ Mynd af undirrituðu bréfi, sem fylgdi þessari orðsendingu í tölvupósti, mun hafa verið prentuð út á skrifstofu héraðsdómsins og var það bréf áritað um móttöku 19. desember 2008. Framangreindri orðsendingu sækjandans var síðan svarað sama dag í tölvupósti frá skrifstofu dómsins á eftirfarandi hátt: „Tilkynningin hefur verið móttekin. Að höfðu samráði við dómara málsins telst hún vera fullnægjandi.“
Texti bréfsins, sem barst héraðsdómi á þennan hátt og dagsett er 19. desember 2008, er svohljóðandi: „Tilkynning um kæru til Hæstaréttar á frávísunarúrskurði í máli S-953/2008. Hér með tilkynnist yður með vísan til 3. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991, að Ríkislögreglustjórinn hefur tekið ákvörðun um að kæra til Hæstaréttar úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. desember sl. um frávísun máls S-953/2008 að hluta. Kæruheimild er í a. lið 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991.“ Greinargerð sóknaraðila, sem boðuð var í fyrrgreindri orðsendingu til héraðsdóms, barst Hæstarétti 8. janúar 2009.
II
Samkvæmt 232. gr. og 233. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála tóku þau gildi 1. janúar 2009 og féllu þá um leið niður lög nr. 19/1991. Frestur til að kæra úrskurð héraðsdóms leið undir lok meðan lög nr. 19/1991 voru enn í gildi og tóku því ákvæði þeirra meðal annars til heimildar til að kæra úrskurðinn og yfirlýsingar um kæru, sbr. einnig 2. mgr. V. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 88/2008. Heimild til að kæra úrskurð héraðsdóms um frávísun opinbers máls, sem aðalmeðferð var ekki byrjuð í, var í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991. Það varðar ekki frávísun málsins frá Hæstarétti þótt sóknaraðili vísi ranglega til kæruheimildar í málatilbúnaði sínum.
Eins og að framan er rakið sendi sækjandi mynd af bréfi með áðurgreindu erindi um kæru til héraðsdóms með tölvupósti. Skilja verður fyrirspurn sækjandans, sem kom fram í orðsendingunni til héraðsdóms 19. desember 2008, og svar dómsins sama dag á þann hátt að þau samskipti hafi lotið að því einu hvort aðferð sem þessi til að koma á framfæri yfirlýsingu um kæru væri fullnægjandi, en samkvæmt 3. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991 skyldi slík yfirlýsing annaðhvort koma fram í bréfi til héraðsdóms eða munnlega á dómþingi, þar sem bókað yrði um hana í þingbók. Ekki verður séð að áðurgreint svar héraðsdóms við fyrirspurn sækjandans hafi snúið að efni erindis hans, enda var ekki á færi héraðsdómara að taka afstöðu til þess. Héraðsdómur prentaði bréf sækjandans í framhaldi af því að tölvupóstsending hans barst og var það skjal síðan áritað um móttöku. Líta verður svo á að þessi aðferð til að koma á framfæri kæru sé fullnægjandi, sbr. hins vegar til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 9. nóvember 2004 í máli nr. 427/2004, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 4225.
Samkvæmt 2. mgr. og 3. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991 fólst málskot í þeirri athöfn að lýst væri kæru, munnlega eða bréflega. Í bréfi sækjandans til héraðsdóms 19. desember 2008 var tekið svo til orða að héraðsdómara væri tilkynnt að ríkislögreglustjóri „hefur tekið ákvörðun um að kæra til Hæstaréttar úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. desember sl.“ Bókstaflega skilin fólu þessi orð ekki í sér yfirlýsingu um kæru, heldur tilkynningu um ákvörðun, sem ætla mætti að enn hafi átt eftir að hrinda í framkvæmd. Meiru skiptir þó að samkvæmt 3. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991 bar að tiltaka í yfirlýsingu um kæru í hvaða skyni kært væri og hvaða kröfur væru gerðar, svo og aðrar athugasemdir og skýringar sem kæranda þætti ástæða til. Ljóst er að efni framangreinds bréfs er engan veginn í samræmi við þær kröfur, sem ákvæði þetta fól í sér. Þess verður að gæta að í málatilbúnaði sóknaraðila fyrir Hæstarétti hefur réttilega verið vísað til dæma úr dómaframkvæmd, þar sem látið hefur verið átölulaust að varnaraðili hafi munnlega lýst yfir kæru við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdóms um þvingunarúrræði gagnvart honum og ekki hafi verið greint frá öðru en þeirri yfirlýsingu í bókun í þingbók, en í engu getið í hvaða skyni kært væri eða hvaða dómkröfur væru gerðar. Tilvik, sem sóknaraðili hefur vísað til í þessu sambandi, eiga það sammerkt að úrskurður eða ákvörðun hefur verið bundin við eitt efnisatriði og aðeins snúið að lögreglustjóra eða ákæranda sem eina gagnaðila sakbornings sem kærði, en þegar svo er ástatt getur enginn vafi verið um í hvaða skyni kært sé. Úrskurður héraðsdómara, sem hér er til meðferðar, gekk á hinn bóginn í máli ákæruvaldsins á hendur fjórum mönnum, þar á meðal varnaraðilunum þremur. Í úrskurðinum var efnislega kveðið á um tvö atriði varðandi hvern varnaraðila, annars vegar frávísun málsins að því er hann varðar og hins vegar ákvörðun málsvarnarlauna skipaðs verjanda hans, en kæra hefði þar með getað lotið að einhverju einu þessara sex atriða, fleiri þeirra eða þeim öllum. Fullt tilefni var því til að handhafi ákæruvalds í þessu máli fylgdi einföldum en nauðsynlegum formkröfum 3. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991 með því að taka fram í hvaða skyni væri kært og hvaða kröfur gerðar. Að þessu öllu gættu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti.
Eftir þessum úrslitum málsins verður að fella allan kærumálskostnað á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda varnaraðila, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, en ákvörðun málsvarnarlauna skipaðs verjanda varnaraðilans A getur ekki komið til endurskoðunar fyrir Hæstarétti, enda kærði hann ekki úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Allur kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun hæstaréttarlögmannanna Ragnars Aðalsteinssonar, Ragnars Halldórs Hall og Kristins Bjarnasonar, skipaðra verjenda varnaraðilanna A, B og C, 311.250 krónur í hlut hvers.