Hæstiréttur íslands
Mál nr. 40/2001
Lykilorð
- Skip
- Kaupsamningur
- Skaðabótamál
- Veiðiheimildir
- Sératkvæði
- Fiskveiðistjórn
|
|
Fimmtudaginn 21. júní 2001. |
|
Nr. 40/2001. |
Stálskip ehf. (Gísli Baldur Garðarsson hrl.) gegn Otto Wathne ehf. (Garðar Garðarsson hrl.) |
Skip. Kaupsamningur. Skaðabótamál. Veiðiheimildir. Fiskveiðistjórnun. Sératkvæði.
O seldi S skipið OW árið 1994. Á árunum 1997 og 1999 fékk S úthlutað hlutdeild í úthafskarfa og þorskafla í Barentshafi. Var sú úthlutun að hluta byggð á veiðireynslu skipsins á árinu 1993, er það var enn í eigu O. Á þeim tíma voru slíkar veiðar ekki háðar leyfi íslenskra stjórnvalda. Taldi O að sér bæri sú hlutdeild sem rakin yrði til veiðireynslu á árinu 1993. Hann átti þó ekkert skip er hér var komið sögu en úthlutun var bundin við skipseign. Engin réttindi höfðu verið tengd veiðireynslu utan fiskveiðilögsögunnar þegar skipið var selt og var ósannað að þess hefði þá mátt vænta innan skamms tíma. Verðmæti, sem rekja mátti til veiðireynslu O, sköpuðust fyrst tæpum þremur árum eftir undirritun kaupsamnings. Þar sem O glataði þannig engum réttindum við úthlutunina sjálfa var ekki talið að áfrýjandi hefði auðgast á kostnað hans við hana. Þá var ekki fallist á að O ætti einkaréttarlegt tilkall til hlutdeildar í þeim réttindum, sem S var úthlutað, enda var ekki á það minnst í kaupsamningnum hvernig með skyldi fara ef til kæmu önnur réttindi en vitað var um á þeim tíma og bundin væru aflahlutdeild O. Var talið að S hefði haft réttmæta ástæðu til að ætla að með efndum sínum á ákvæðum kaupsamningsins og afsals væri lögskiptum aðila lokið. Var S því sýknaður af kröfu O.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. janúar 2001. Krefst hann sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Með kaupsamningi 5. febrúar 1994 seldi stefndi áfrýjanda skipið Otto Wathne NS-90, sem er 598 rúmlesta skuttogari, smíðaður á Spáni 1990. Skipið ber nú nafnið Rán HF-42. Skipið hafði ekki veiðileyfi í íslenskri lögsögu þegar kaupin voru gerð og var kveðið svo á um í kaupsamningnum að áfrýjandi skyldi leggja „til nægjanlega rúmlestatölu í skipum til úreldingar á móti skipinu, svo það fái að veiða innan íslenzkrar landhelgi.“ Ennfremur sagði að engar aflaheimildir fylgdu skipinu. Afsal var gefið út 29. mars 1994 og var skipið afhent áfrýjanda þann dag.
Af gögnum málsins þykir verða ráðið að Otto Wathne NS-90 hafi, síðasta árið er skipið var í eigu stefnda, þ.e. 1993, einkum verið haldið til úthafsveiða. Samkvæmt gögnum Fiskistofu hafði skipið veitt 1.618.823 kg af úthafskarfa á Reykjaneshrygg á því ári og 1.536.785 kg af þorski í Barentshafi. Áður en til sölu þess kom virðist hafa verið búið að færa af því allar aflaheimildir á grundvelli laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, en ekkert liggur fyrir um hverjar þær voru. Af hálfu áfrýjanda er fullyrt að stefndi hafi verið að hætta í útgerð og hafi ekki frá afhendingardegi haft yfir skipi að ráða. Hefur þeirri fullyrðingu ekki verið hnekkt.
Óumdeilt er að áfrýjandi keypti tvö fiskiskip til úreldingar til að hið nýkeypta skip fengi veiðileyfi í íslenskri fiskveiðilögsögu.
Þegar ofangreind kaup voru gerð voru úthafskarfaveiðar á Reykjaneshrygg og þorskveiðar í Barentshafi ekki háðar leyfi íslenskra stjórnvalda. Liggur fyrir í málinu að skipinu var af hálfu áfrýjanda næstu ár haldið til slíkra veiða. Samkvæmt gögnum Fiskistofu veiddi skipið á árinu 1994 561.458 kg af úthafskarfa á Reykjaneshrygg og 1.016.067 kg af þorski í Barentshafi. Samsvarandi tölur fyrir árið 1995 voru 363.189 kg og 1.152.411 kg og fyrir árið 1996 1.514.255 kg og 466.468 kg.
Í árslok 1996 tóku gildi lög nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Segir þar í 4. gr. að öllum íslenskum skipum séu heimilar veiðar utan lögsögu Íslands með þeim takmörkunum sem leiðir af lögum og reglum settum með stoð í þeim. Í 1. mgr. 5. gr. segir að um veiðar utan lögsögu úr stofnum, sem veiðast bæði innan og utan hennar, skuli gilda ákvæði laga um stjórn fiskveiða eftir því sem við geti átt, sbr. þó ákvæði greinarinnar. Í 2. mgr. segir að sé tekin ákvörðun um að takmarka heildarafla úr slíkum stofni sem samfelld veiðireynsla er á skuli aflahlutdeild einstakra skipa ákveðin á grundvelli veiðireynslu þeirra miðað við þrjú bestu veiðitímabil þeirra á undangengnum sex veiðitímabilum. Í 1. mgr. 6. gr. segir að verði ákveðinn heildarafli úr öðrum stofnum en þeim sem um ræðir í 5. gr., á grundvelli samnings sem Ísland er aðili að, skuli ráðherra setja reglur um veiðar íslenskra skipa á þeim hluta heildaraflans sem kemur í hlut Íslands. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal skipting veiðiheimilda miðast við veiðireynslu, ef hún er fyrir hendi, á sama hátt og mælt er fyrir um í 2. mgr. 5. gr. Í 2. gr. laganna segir, að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögunum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.
Með reglugerð nr. 27/1997, er tók gildi 28. janúar 1997, ákvað sjávarútvegsráðherra að frá þeim tíma skyldi íslenskum fiskiskipum óheimilt að stunda flotvörpuveiðar á úthafskarfa án sérstaks leyfis Fiskistofu, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar, en í 1. gr. hennar segir að ákvæði hennar taki til flotvörpuveiða á úthafskarfa utan fiskveiðilandhelgi Íslands og einnig til úthafskarfaveiða fiskiskipa, sem leyfi hafi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands, er þau stunda flotvörpuveiðar þar utan línu, sem tiltekin er í greininni. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar skal hverju íslensku fiskiskipi reiknuð aflahlutdeild í úthafskarfa og skuli aflahlutdeild hvers skips reiknuð í hlutfalli við afla þess, miðað við þrjú bestu veiðiár skipsins almanaksárin 1991-1996. Þó skuli 5% heildarkvótans úthlutað til þeirra skipa einna, sem úthafskarfaveiðar stunduðu á árunum 1989, 1990 og 1991 og skal miðað við afla allra áranna. Í 5. gr. reglugerðarinnar segir að úthlutun aflahlutdeildar samkvæmt henni sé bundin því skilyrði að útgerð skips afsali sér aflahlutdeild, sem úthlutað er á grundvelli laga nr. 38/1990, sem nemi 8% af þeirri úthafskarfahlutdeild, sem þeim er úthlutað á árinu 1997. Þau skip, sem ekki hafi veiðiheimildir innan lögsögunnar skuli sæta 8% skerðingu í úthlutun aflahlutdeildar í úthafskarfa.
Hinn 10. maí 1999 var með stoð í lögum nr. 151/1996 sett reglugerð nr. 306/1999 um úthlutun þorskaflahlutdeildar í Barentshafi. Var í 1. gr. hennar kveðið á um að úthluta skuli aflahlutdeild í þorski til skipa á grundvelli veiðireynslu miðað við þrjú bestu ár þeirra á síðustu sex árum frá og með 1993 að telja.
II.
Í héraðsdómi er greint frá úthlutun Fiskistofu á aflaheimildum í úthafskarfa á Reykjaneshrygg til áfrýjanda og bréfaskiftum í því sambandi. Í bráðabirgðaúthlutun 7. febrúar 1997 var miðað við veiðireynslu áranna 1994, 1995 og 1996, eða samtals 2.438.902 kg. Áfrýjandi gerði athugasemd við þetta og óskaði þess að miðað yrði við árin 1993, 1994 og 1996, en á fyrstnefnda árinu hafði skipið verið í eigu stefnda eins og áður er fram komið. Féllst Fiskistofa á þetta og leiddi þetta til hækkunar á viðmiðunartölu, sem nam 1.618.944 kg og varð hún 4.057.846 kg. Er krafa stefnda í málinu miðuð við að honum hafi borið 43,82% af þessari úthlutun, en um þá hlutfallstölu er ekki ágreiningur.
Á árinu 1999 var áfrýjanda úthlutuð aflahlutdeild í þorski í Barentshafi á grundvelli reglugerðar nr. 306/1999. Var við úthlutunina miðað við veiðireynslu áranna 1993, 1994 og 1995. Miðar stefndi kröfu sína við að honum hafi borið 41,48% af þeirri úthlutun, þ.e. vegna veiðireynslu á árinu 1993 og er heldur ekki ágreiningur um þá hlutfallstölu.
III.
Stefndi telur að áfrýjandi hafi einungis keypt af honum skipið sjálft en ekki þá aflareynslu sem það hafði áunnið sér meðan það var í hans eigu. Því eigi áfrýjandi að greiða honum bætur sem svari matsverði þeirrar aflahlutdeildar og þess aflamarks sem hann hafi notið umfram það sem hann hafði sjálfur áunnið sér. Heldur stefndi því fram að kröfur sínar styðjist við fordæmi Hæstaréttar í dómum hans, sbr. H.1996.126, H.1998.799,1724 og H.1999.262. Mál þessi fjölluðu öll um veiðar innan íslensku efnahagslögsögunnar og voru háðar heildarstjórnunarkerfi fiskveiða þegar þau skipakaup urðu, sem voru tilefni þessara mála. Við þau skipakaup varð því að hafa þetta stjórnunarkerfi í huga. Mál það sem hér er til úrlausnar varðar hins vegar veiðar utan efnahagslögsögunnar sem voru öllum frjálsar þegar kaupin voru gerð og lutu ekki heildarstjórnun stjórnvalda fyrr en með lögum nr. 151/1996, en það varð nær þremur árum eftir að stefndi seldi áfrýjanda skip sitt. Verða áminnstir dómar ekki taldir hafa fordæmisgildi í máli þessu.
Eins og áður er rakið var mælt fyrir um það í lögum nr. 151/1996 og reglugerðum nr. 27/1997 og nr. 306/1999 að miða skyldi aflahlutdeild einstakra skipa við veiðireynslu þrjú bestu veiðitímabilin á undangengnum sex árum. Var hér um að ræða aðferð, sem stjórnvöld skyldu hafa við þessa úthlutun. Verður ekki litið á veiðireynslu sem eign útgerðar í þessu samhengi, enda hefðu lög allt eins getað mælt fyrir um aðra og öðruvísi viðmiðun. Í greindum ákvæðum var ekkert á það minnst hvort við úthlutunina skyldi líta til þess hvort viðkomandi skip væri í eigu og útgerð sömu lögaðila og áttu skipið og gerðu það út á viðmiðunarárunum. Undantekningarlaust var mælt fyrir um það að aflahlutdeild skyldi úthlutað til skips. Stefndi átti er hér var komið sögu ekkert skip sjálfur, sem hann gat vísað á. Er ekki annað fram komið en að hann hafi hætt úthafsveiðum við sölu skipsins.
Samkvæmt ósk áfrýjanda var við úthlutanir aflahlutdeildar til hans meðal annars miðað við veiðireynslu ársins 1993, en á því ári hafði skipið verið í eigu stefnda. Má um það deila hvaða rétt áfrýjandi átti til þessa að lögum, en ekki er um það ágreiningur að þessi hafi framkvæmdin almennt verið. Þessi úthlutun stjórnvalda þykir þó ekki leiða sjálfkrafa til þess að stefndi geti byggt rétt á henni. Til þess að svo geti orðið verður hann annað hvort að hafa átt einhvern rétt til úthlutunar frá stjórnvöldum eða á hendur áfrýjanda til að hann yfirfærði þau réttindi sem honum hlotnuðust til sín, í heild eða að hluta.
Stefndi hafði selt skip, sem engan veiðirétt átti í íslenskri lögsögu, en gat veitt utan hennar þar sem veiðar voru öllum frjálsar og voru ekki háðar úthlutunum stjórnvalda hér á landi. Engin réttindi höfðu verið tengd veiðireynslu utan fiskveiðilögsögunnar þegar skipið var selt og er ósannað að þess hafi þá mátt vænta innan skamms tíma, enda liðu nær þrjú ár eftir kaupin þar til það var gert. Þá fyrst sköpuðust einhver verðmæti sem rekja mátti til úthlutunar aflahlutdeildar á grundvelli veiðireynslu. Stefndi átti ekkert skip er að úthlutun aflahlutdeildar kom 1996. Leit Fiskistofa svo á að engin lagaheimild væri til þess að verða við kröfu hans um aflahlutdeild á grundvelli veiðireynslu meðan skipið var í hans eigu. Verður á það sjónarmið að fallast.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið glataði stefndi engum réttindum við úthlutunina sjálfa. Áfrýjandi auðgaðist þannig ekki á hans kostnað við hana.
IV.
Af því sem að framan er sagt leiðir, að úrlausn málsins ræðst af skýringu á því, hvort stefndi gat á grundvelli kaupsamnings aðila og með hliðsjón af aðstæðum við samningsgerðina, átt kröfu á hendur áfrýjanda um að hann yfirfærði til hans hluta þeirrar aflahlutdeildar, sem Fiskistofa hafði reiknað honum.
Svo sem áður er getið var skipið Otto Wathne NS-90 án aflaheimilda og veiðileyfis er áfrýjandi keypti það af stefnda. Af gögnum málsins verður ekki séð að stefndi hafi hugað að áframhaldandi útgerð til fiskveiða utan fiskveiðilögsögunnar eða haft yfir veiðiheimildum að ráða innan hennar eftir að salan átti sér stað.
Þegar kaupsamningur var gerður sættu veiðar úthafskarfa á Reykjaneshrygg og þorski í Barentshafi ekki takmörkunum af hálfu íslenskra stjórnvalda og þurfti ekki sérstakt veiðileyfi til þeirra veiða. Þegar til þessa er litið, svo og ákvæðis í kaupsamningi um að áfrýjandi þyrfti að útvega skip til úreldingar á móti hinu nýkeypta skipi, þykir ljóst að vísun til aflaheimilda í samningnum var miðuð við hugsanlegar aflaheimildir á þeim tíma innan fiskveiðilögsögunnar.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er ljóst að áfrýjandi keypti skipið við þær aðstæður að hann þurfti sjálfur að koma sér upp heimildum fyrir það til að veiða innan fiskveiðilögsögunnar. Veiðar utan lögsögunnar voru hins vegar öllum frjálsar og voru ekki takmarkaðar eða bundnar við skip að boði laga. Um réttindi til úthlutunar aflahlutdeildar í þeim veiðum var þá ekki að ræða, heldur komu þau til tæpum þremur árum eftir gerð kaupsamningsins og leiddu af skerðingu á því frelsi sem áður ríkti. Ekkert liggur fyrir um það að komið hafi til umræðu við samningsgerðina að til slíkrar skerðingar kynni að koma. Var ekkert á það minnst í samningnum hvernig með skyldi fara ef til skjalanna kæmu önnur réttindi en vitað var um á þeim tíma, og bundin væru aflareynslu stefnda. Þegar litið er til málsatvika og aðstæðna við samningsgerðina verður að telja að áfrýjandi hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að með efndum sínum á ákvæðum kaupsamningsins og afsals væri lögskiptum aðila lokið, svo sem almennast er. Verður ekki fallist á að stefndi eigi á grundvelli samningsins einkaréttarlegt tilkall til hlutdeildar í þeim réttindum, sem áfrýjanda var úthlutað vegna skerðingar á úthafsveiðum á árunum 1997 og 1999.
V.
Niðurstaða málsins verður samkvæmt því sem áður er sagt sú að stefndi geti ekki á grundvelli kaupsamnings aðila byggt rétt til skaðabóta á því að áfrýjandi hafi með óréttmætum hætti haldið fyrir honum aflahlutdeild og aflamarki því sem áfrýjandi fékk úthlutað vegna skerðinga á úthafsveiðum á árunum 1997 og 1999. Þá verði krafa ekki heldur reist á því að áfrýjandi hafi auðgast á kostnað stefnda vegna þess að veiðireynsla stefnda árið 1993 nýttist honum við úthlutun vegna þessarar skerðingar, þar sem stefndi átti ekki rétt á úthlutun stjórnvalda lögum samkvæmt og tapaði því engum rétti við nýtingu áfrýjanda. Áfrýjandi er vegna þessa sýknaður af kröfum stefnda.
Eftir framangreindum úrslitum þykir rétt að stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Stálskip ehf., skal sýkn af kröfum stefnda, OttoWathne ehf.
Stefndi greiði áfrýjanda 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Garðars Gíslasonar og
Markúsar Sigurbjörnssonar
Við erum sammála öðrum dómendum um það, sem greinir í I. og II. kafla dómsins. Varðandi niðurstöðu málsins teljum við á hinn bóginn óhjákvæmilegt að líta til þeirra atriða, sem nú greinir nánar.
Málsaðilarnir deila ekki um að fyrrgreind úthlutun stjórnvalda á aflaheimildum hafi farið að réttum reglum, þar á meðal ákvörðun um að miða aflahlutdeild í úthafskarfa á Reykjaneshrygg og þorski í Barentshafi við veiðireynslu á nánar tilteknu árabili án tillits til þess hver hafi átt fiskiskipið Otto Wathne, síðar Rán, á hverjum tíma. Ræðst þannig úrlausn málsins af því hvort litið verði svo á að veiðireynsla, sem stefndi aflaði skipinu fyrir kaup aðilanna á árinu 1994, hafi að réttu lagi fylgt því án þess að stefndi geti kallað til aflaheimilda á grundvelli hennar eða endurgjalds fyrir þær.
Eins og fram kemur í dómi meiri hlutans var skipið án veiðileyfis og aflahlutdeildar til veiða innan íslenskrar fiskveiðilögsögu þegar aðilarnir gerðu kaup sín, en fram að því hafði stefndi einkum nýtt það til sóknar í fiskistofna utan lögsögunnar, sem engar slíkar heimildir þurfti þá til. Að þessu leyti var áfrýjandi eins settur við kaupin og ef hann hefði keypt hvert annað fiskiskip, sem aldrei fyrr hefði verið nýtt til veiða á hafsvæði, sem íslenska ríkið gæti látið sig varða. Þegar kom til takmarkana á sókn íslenskra fiskiskipa í stofna utan lögsögunnar á grundvelli laga nr. 151/1996 hefði áfrýjandi þannig að öðru óbreyttu ekki mátt vænta þess að njóta aflaheimilda á grundvelli annars en veiðireynslu, sem fengist hefði af skipinu í hans eigin útgerð. Sú varð á hinn bóginn ekki raunin, enda kallaði áfrýjandi sjálfur eftir auknum aflaheimildum í skjóli þeirra veiða, sem stefndi hafði stundað á skipinu meðan það tilheyrði honum. Með því tók áfrýjandi til sín ávinning af því hvernig stefnda hafði tekist til um veiðar á sínum vegum. Við kaup aðilanna var í engu getið að áfrýjanda yrði þetta heimilt ef á síðari stigum kæmi til takmarkana á sams konar veiðum og stefndi hafði áður lagt stund á. Óhjákvæmilegt er að líta svo á að slík heimild handa áfrýjanda hafi ekki sjálfkrafa fylgt í kaupum hans á skipi án veiðileyfis eða aflaheimilda, sbr. dóma Hæstaréttar í dómasafni 1996, bls. 126, og 1998, bls. 799. Að þessu gættu teljum við að stefnda beri endurgjald fyrir þau verðmæti, sem hann hafði myndað með veiðireynslu á skipinu og áfrýjandi nýtti sér án heimildar hans við úthlutun áðurgreindra aflaheimilda til úthafsveiða, en engu getur breytt í því sambandi hver fyrirætlan stefnda kunni að hafa verið við kaupin um útgerð fiskiskipa á sínum vegum í framtíðinni.
Svo sem í héraðsdómi greinir er endurgjaldið, sem stefndi krefst úr hendi áfrýjanda, miðað við niðurstöður í matsgerð dómkvaddra manna, en fyrir Hæstarétti tekur stefndi í þessu efni tillit til þess, sem fjárhæð endurgjaldsins var lækkuð með hinum áfrýjaða dómi. Þar var fallist á með áfrýjanda að til frádráttar þeim hluta aflahlutdeildar í úthafskarfa, sem stefndi krefst endurgjalds fyrir, verði að koma þau 8%, sem um ræðir í 5. gr. reglugerðar nr. 27/1997. Því til samræmis verður að lækka um sama hlutfall kröfu stefnda um endurgjald fyrir aflamark, sem úthlutað var í skjóli þessarar aflahlutdeildar fyrir árin 1997, 1998 og 1999, en til þess var ekki litið í hinum áfrýjaða dómi. Nemur sú lækkun 3.158.738 krónum eða sem svarar 8% af samanlögðu matsverði aflamarks umrædd ár, 39.484.226 krónum. Röksemdir áfrýjanda, sem lúta að því að lækka beri þetta endurgjald að auki með tilliti til ýmissa útgjalda, sem óhjákvæmilega hafi fylgt nýtingu aflamarksins, fá ekki staðist, enda er í matsgerð að réttu lagi tekið mið af gangverði aflahlutdeildar og aflamarks í viðskiptum, en ekki hugsanlegum ábata áfrýjanda af því að hafa nýtt sér þessi gæði. Í héraðsdómi er gerð grein fyrir öðrum athugasemdum áfrýjanda við einstaka liði í niðurstöðum matsmanna. Ekki eru efni til að fallast á þær athugasemdir, enda hefur áfrýjandi hvorki aflað yfirmats né hnekkt matsgerðinni á annan hátt. Með því að andmæli áfrýjanda gegn fjárhæð kröfu stefnda lúta ekki að öðru en hér um ræðir teljum við að staðfesta eigi niðurstöðu hins áfrýjaða dóms með þeirri lækkun, sem að framan er getið, og dæma þannig áfrýjanda til að greiða stefnda 177.190.946 krónur með sömu vöxtum og dæmdir voru í héraði, þegar tillit hefur verið tekið til lækkunar á höfuðstól kröfunnar. Við teljum jafnframt að staðfesta eigi niðurstöðu héraðsdóms um málskostnað og dæma áfrýjanda til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 19. desember 2000.
I.
Þetta mál, sem dómtekið var 30. nóvember sl., er höfðað af Otto Wathne ehf., kt. 661184-0789, Árstíg 7, Seyðisfirði, á hendur Stálskipum ehf., kt. 580271-0149, Trönuhrauni 6, Hafnarfirði, með stefnu þingfestri 7. júní 2000.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 192.313.240, auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 11.531.478 frá 1. júní 1997 til 1. júní 1998, af kr. 21.898.721 frá þeim degi til 1. júní 1999, af kr. 39.484.226 frá þeim degi til 1. ágúst 1999, af kr. 40.283.536 frá þeim degi til 4. apríl 2000 og loks af kr. 192.313.240 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist endurgreiðslu matskostnaðar að fjárhæð kr. 137.250 og málskostnaðar samkvæmt gjaldskrá Landslaga ehf.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar. Til vara krefst stefndi þess að kröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði látinn niður falla.
II.
Málavextir.
Ágreiningur er ekki um málavexti en árið 1994 keypti stefndi af stefnanda skuttogarann Otto Wathne NS 90, skipaskrárnúmer 2182. Kaupin áttu sér nokkurn aðdraganda og höfðu aðilar skipst á tilboðum áður en kaupsamningur var loks gerður þann 29. mars 1994.
Þegar kaupin voru gerð lá fyrir að skipið hafði ekki veiðileyfi í íslenskri lögsögu og segir um það í kaupsamningi: „Kaupandi leggur til nægilega rúmlestatölu í skipum til úreldingar á móti skipinu, svo það fái að veiða innan íslenzkrar landhelgi.” Þá segir ennfremur í kaupsamningi: „Engar aflaheimildir fylgja með í kaupunum.”
Með bréfi Fiskistofu til stefnda, dags. 7. febrúar 1997, var honum tilkynnt að Fiskistofa hyggðist úthluta skipinu, sem nú heitir Rán HF 42, aflahlutdeild í úthafskarfa í samræmi við reglugerð 27/1997 um úthlutunarveiðiheimild í úthafskarfa á Reykjaneshrygg. Reglugerð þessi var sett með stoð í lögum nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Skyldi úthlutun til einstakra skipa byggja á veiðireynslu þeirra á árunum 1991, 1992, 1993, 1994, 1995 og 1996 og skyldu þrjú bestu árin ráða. Þó átti að taka tillit til svokallaðs frumherjaréttar, sem var sérstök úthlutun til þeirra sem stunduðu þessar veiðar á árunum 1989, 1990 og 1991 og voru 5% tekin sérstaklega til hliðar í því skyni. Þá skyldi einnig skerða annað hvort úthafskarfa eða kvóta innan landhelginnar um 8% eftir nánari reglum. Í tilkynningunni til stefnda voru talin upp þau þrjú ár sem Fiskistofa taldi að ætti að taka mið af við úthlutun til hans, en jafnframt var gefinn kostur á að gera athugasemdir við þau viðmiðunarár svo og aflatölur. Skyldu athugasemdir berast fyrir 18. febrúar 1997. Með bréfinu var stefnda jafnframt tilkynnt um bráðabirgðaúthlutun en sagt að stefnt yrði að lokaúthlutun fyrir 10. mars 1997.
Stefnanda barst einnig bréf frá Fiskistofu vegna þessarar úthlutunar. Af því tilefni krafðist hann þess í bréfi til Fiskistofu, dags. 14. febrúar 1997, að úthlutun í úthafskarfa yrði skipt milli aðila þannig að það sem kæmi í hlut skipsins og byggði á veiðireynslu frá því að stefnandi átti skipið yrði flutt á skip sem hann tilnefndi. Fiskistofa synjaði kröfunni þann 3. mars 1997 með þeirri skýringu, að aflaúthlutun skyldi undantekningalaust vera til skipa en ekki útgerða og því væri ekki lagaheimild til að verða við þessari kröfu.
Stefndi sendi einnig bréf til Fiskistofu þann 17. febrúar 1997. Segir þar m.a.: „Geri athugasemdir við úthlutun yðar þar sem Rán HF 42 sknr. 2182 fær úthlutað vegna áranna 1994, 1995, 1996, en 1993 fellur niður. Það ár hét skipið Otto Wathne sknr. 2182, ég tel að það ár eigi að telja með í útreikningum fyrir Rán ex Otto Wathne. Okkar val yrði því árin 1993, 1994 og 1996. Biðjum við því um leiðréttingu á þessu....”
Fiskistofa tók erindi stefnda til greina og byggði úthlutun til skipsins m.a. á veiðireynslu þess árið 1993, en það ár átti stefnandi skipið og gerði það út til veiða. Var stefnda tilkynnt um þetta með bréfi dags. 6. mars 1997 og daginn eftir var honum síðan send tilkynning um úthlutunina. Nam aflahlutdeild stefnda samtals 2,8117024%, að teknu tilliti til skerðingar samkvæmt framangreindum reglum. Aflamark ársins 1997, á grundvelli þessarar aflahlutdeildar, var 1.265.266 kg. af úthafskarfa. Sé miðað við forsendur Fiskistofu fyrir úthlutuninni þá telur stefnandi að honum beri 43,82% af þessari úthlutun, þ.e. 1,2319946% af heimildaraflahlutdeild í úthafskarfa og 554.398 kg. af aflamarkinu.
Þeim tilmælum var beint til stefnda, með bréfi dags. 9. apríl 1997, að hann hlutaðist til um að færa umrædda aflahlutdeild (og aflamark byggt á henni) til stefnanda. Þessu hafnaði stefndi með bréfi dags. 16. apríl 1997.
Samhliða því að senda bréf til stefnda kærði stefnandi ákvörðun Fiskistofu til Sjávarútvegsráðuneytisins, með bréfi dags. 10. apríl 1997. Ráðuneytið úrskurðaði þann 21. apríl 1997 að ákvörðun Fiskistofu skyldi vera óbreytt.
Stefnandi ítrekaði kröfu sína um framsal með bréfi 29. maí 1997, en stefndi hafnaði kröfunni 7. júlí 1997.
Þann 10. maí 1999 gaf sjávarútvegsráðuneytið út reglugerð nr. 306/1999 um úthlutun þorskaflahlutdeildar í Barentshafi. Samkvæmt gögnum frá Fiskistofu var skipinu úthlutað aflahlutdeild í þorski í Barentshafi á grundvelli veiðireynslu áranna 1993, 1994 og 1995. Samanlagður þorskafli skipsins þessi ár var 3.705.263 kg. og þar af voru 1.536.785 kg. eða 41,48 % heildarinnar veidd meðan skipið var í eigu stefnanda. Á grundvelli heildaraflareynslu skipsins á viðmiðunarárunum var því úthlutað 3.8395021% af heildarþorskafla íslenskra fiskiskipa í Barentshafi, bæði í norskri og rússneskri fiskveiðilögsögu. Stefnandi telur að 41,48 % umræddra réttinda eða 1.5924617% af aflahlutdeild íslenskra skipa í Barentshafi og aflamarkið sem henni fylgja, sé hans eign. Stefndi fékk úthlutað á skipið aflamarki í þorski árið 1999. 1.5924617 % aflahlutdeild leiddi til þess að stefnda var úthlutað 60.055 kg. af þorski í norskri fiskveiðilögsögu og 37.531 kg. af þorski í rússneskri fiskveiðilögsögu eða samtals 97.586 kg. af þorski í Barentshafinu, sem stefnandi telur að með réttu hafi tilheyrt sér.
Stefnda var sent kröfubréf þann 1. september 1999, þar sem hann var krafinn um bætur fyrir aflahlutdeildina og aflamarkið í úthafskrafanum og boðið upp á viðræður um það hvernig réttindi í þorski í Barentshafi yrðu flutt til stefnanda eða eftir atvikum viðræður um að stefndi keypti þessi réttindi af stefnanda. Gefinn var ákveðinn frestur til þeirra viðræðna. Stefndi óskaði eftir lengri fresti og tilnefndi síðan lögmann af sinni hálfu til viðræðna um málið. Niðurstaðan varð síðan sú, að stefndi hafnaði hvoru tveggja; að greiða bætur og að flytja réttindin. Þessi niðurstaða var kynnt stefnanda munnlega. Í framhaldi af synjun stefnda óskaði stefnandi eftir því að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta tjón hans.
Í matsbeiðinni var þess óskað að matsmenn mætu:
a)Aflamark til úthafskarfa, 554.398 kg. fyrir árið 1997
b)Aflamark til úthafskarfa, 554.398 kg. fyrir árið 1998
c)Aflamark til úthafskarfa, 554.398 kg. fyrir árið 1999
d)Aflamark í þorski í norskri lögsögu, 60.055 kg. fyrir árið 1999
e)Aflamark í þorski í rússneskri lögsögu, 37.531 kg. fyrir árið 1999
f)1,2319946 % aflahlutdeild í úthafskarfa
g)1,5924617 % aflahlutdeild í þorski í rússneskri lögsögu í Barentshafi
h)1,5924617 % aflahlutdeild í þorski í norskri lögsögu í Barentshafi
Ennfremur sagði í matsbeiðni: „Hvað varðar aflamarkið, þá telur matsbeiðandi ásættanlegt að notuð séu meðaltalsverð viðkomandi fiskveiðitímabila, þar sem verðið getur hafa sveiflast frá degi til dags. Aflahlutdeildin miðist við ætlað markaðsverð þegar matið er framkvæmt.”
Til matsins voru kvaddir þeir Björn Jónsson, forstöðumaður kvótamiðlunar LÍÚ, og Jónas Haraldsson hdl. Matsgerð þeirra er dagsett 18. febrúar 2000.
Niðurstaða matsmann er eftirfarandi:
„Mat á lið a
Á árinu 1997 var aflamark í úthafskarfa selt á 30,00 kr/kg til 10,00 kr/kg hjá Kvótamiðlun LÍÚ.
Vegið aflaverð á aflamarki í úthafskarfa fyrir árið 1997 varð 20,80 kr/kg. Úthafskarfi 554.398 kg. x 20,80 kr./kgkr. 11.531.478
Mat á lið b
Á árinu 1998 var aflamark í úthafskarfa selt á 14,50 kr/kg til 30,50 kr/kg hjá Kvótamiðlun LÍÚ og á Kvótaþingi Íslands.
Vegið meðalverð á aflamarki í úthafskarfa fyrir árið 1998 varð 18,70 kr/kg.
Úthafskarfi 554.398 kg. x 18,70 kr/kgkr. 10.367.243
Mat á lið c
Á árinu 1999 var aflamark í úthafskarfa að mestu selt á 21,00 kr/kg til 32,00 kr/kg þó fóru nokkur tonn í lok ársins á 5,00 kr/kg. Upplýsingar frá Kvótaþingi Íslands.
Vegið meðalverð á aflamarki í úthafskarfa fyrir árið 1999 varð 31,72 kr/kg.
Úthafskarfi 554.398 kg. x 31,72 kr/kgkr. 17.585.505
Mat á lið d
Aflamark sem Ísland fékk við Noreg 1999 var 3.771 tonn af þorski, sem var úthlutað á 70 skip. Ekki tókst að afgreiða veiðileyfi við Noreg fyrr en í lok júlí. Til veiða fóru aðeins 13 skip og gekk veiðin illa því aðeins tókst að veiða 1.934 tonn af þorski í norskri lögsögu. Í upphafi voru leigð nokkur tonn (55 tonn) á 37,73 kr/kg, en þar sem veiðin var mjög dræm varð ekkert meira um leigu. Eitt skip fór til veiða um haustið og fékk til sín töluvert af kvóta sem sumir gáfu en aðrir áttu að fá 5 kr/kg ef tækist að nýta þeirra kvóta, sem ekki gerðist.
Í ljósi framansögðu og að ekki tókst að nýta nema 51% af kvóta Íslands við Noreg er matsgerð á aflamarki í lögsögu Noregs 60.055 kg. x 0,00 kr/kg
kr. 0
Mat á lið e
Aflamark sem Ísland fékk við Rússland 1999 var 2.357 tonn af þorski, sem var úthlutað á 70 skip. Ekki tókst að afgreiða veiðileyfi við Rússlands fyrr en í september. Til veiða í lögsögu Rússlands fóru aðeins 2 skip og gekk veiðin mjög illa því aðeins tókst að veiða 36 tonn af þorski í rússneskri lögsögu. Eitt skip fór til veiða um haustið og fékk til sín töluvert af kvóta sem sumir gáfu en aðrir áttu að fá 5 kr/kg ef tækist að nýta þeirra kvóta, sem ekki gerðist.
Í ljósi framansögðu og að ekki tókst að nýta nema 1,5% af kvóta Íslands við Rússland er matsgerð á aflamarki í lögsögu Rússlands 37.531 kg. x 0,00 kr/kg
kr. 0
Mat á lið f
Síðasta sala á aflahlutdeild í úthafskarfa hjá Kvótamiðlun LÍÚ var 220 kr/kg. Þessi sala fór fram á síðasta ári. Þar sem ekki er búið að úthluta úthafskarfa til Íslands árið 2000 verður að notast við heildarúthlutun fyrir árið 1999 í þessu mati.
Matsverð á aflahlutdeild í úthafskarfa í dag verður því:
45.000 tonn x 1.2319946 %=554.398 kg x 220.00 kr/kgkr. 121.967.560
Matsverð á aflamarki 554.398 kg x 31.72 kr/kgkr. 17.585.504
Samtals matsverð á aflahlutdeild ásamt aflamarkikr. 139.553.064
Mat á lið g
Það er okkar álit að mjög mikil áhætta er í því að kaupa varanlegan kvóta við Rússland. Fiskifræðingar lögðu til að heildarafli færi ekki yfir 110 þús. tonn.
Rússar komu þá með hótun um að ef ekki yrði gefinn út stærri kvóti myndu þeir veiða frjálst. Samkomulag varð síðan milli stjórnvalda í Noregi og Rússlandi að gefa út 390 þús tonn. Ef úthlutun á heildarafla fer niður fyrir 350 þús. tonn fær Ísland ekkert.
Þessi samningur var gerður til 4 ára og ekki er vitað hvað tekur við að honum loknum. Ekki er vitað til að aflahlutdeild hafi verið seld, en útgerðarmaður línubáts er tilbúinn að borga fyrir aflahlutdeild við Noreg og Rússland allt að 100 kr/kg í meðalverð og í ljósi þess að leiguverð við Rússland er í dag 20 kr/kg en 30 kr/kg við Noreg, verður matsverð á aflahlutdeild í þorski 100 kr/kg við Rússland ef notuð eru sömu hlutföll og eru á leigukvóta.
1.915 tonn x 1.5924617% = 30.496 kg x 100.00 kr/kgkr. 3.049.600
Matsverð á aflamarki 30.496 kg x 20.00 kr/kgkr. 609.920
Samtals matsverð á aflahlutdeild ásamt aflamarkikr. 3.659.520
Mat á lið h
Það er okkar skoðun að mjög mikil áhætta er í því að kaupa varanlegan kvóta við Noreg. Fiskifræðingar lögðu til að heildarafli færi ekki yfir 110 tonn.
Rússar komu þá með hótun um að ef ekki yrði gefinn út stærri kvóti myndu þeir veiða frjálst. Samkomulag varða síðan milli stjórnvalda í Noregi og Rússlandi að gefa út 390 þús tonn. Ef úthlutun á heildarafla fer niður fyrir 350 þús. tonn fær Ísland ekkert.
Þessi samningur var gerður til 4 ára og ekki er vitað hvað tekur við að honum loknum. Ekki er vitað til að aflahlutdeild hafi verið seld, en útgerðarmaður línubáts er tilbúinn að borga fyrir aflahlutdeild við Noreg og Rússland allt að 100 kr/kg í meðalverð og í ljósi þess að leiguverð við Rússland er í dag 20 kr/kg en 30 kr/kg við Noreg, verður matsverð á aflahlutdeild í þorski 150.00 kr/kg við Noreg ef notuð eru sömu hlutföll og eru á leigukvóta.
3.076 tonn x 1.5924617% = 48.984 kg x 150.00 kr/kgkr. 7.347.600
Matsverð á aflamarki 48.984 kg x 30.00 kr/kgkr. 1.469.520
Samtals matsverð á aflahlutdeild ásamt aflamarkikr. 8.817.120”
Samtals er matsfjárhæð 191.513.930 krónur. Í stefnu segir að varðandi matsliði f), g) og h) að þeir taki einnig til úthlutaðs aflamarks árið 2000, sem hafi verið úthlutað eftir að matsbeiðni hafi verið lögð fram. Þetta hafi ekki sætt andmælum af hálfu lögmanns stefnda enda til flýtis í málinu.
Stefnandi kveðst sætta sig við niðurstöður matsmanna að frátöldum liðum d) og f) enda hafi niðurstöður þeirra um að stefnda hefði ekki fénýst þetta aflamark ekki verið í samræmi við staðreyndir málsins, þar sem botnveiðiskipið Rán hafi verið á þorskveiðum í Barentshafi sumarið 1999 og hafi þá veitt, að því er ætla megi með sanngirni, 21.185 kg af aflamarki stefnanda í þorski. Söluandviði þess magns nemi samtals kr. 779.310 (þ.e. 21.185 x 37,73 kr), sé margfeldisstuðlum matsgerðarinnar beitt.
Enn var stefnda sent bréf þann 4. apríl s.l., þar sem niðurstaða matsins var kynnt honum og hann jafnframt krafinn bóta að fjárhæð kr. 192.313.240 (þ.e. kr. 191.513.930 + 799.310), auk dráttarvaxta, matskostnaðar og innheimtukostnaðar. Heildarkrafa stefnanda þann 4. apríl nam kr. 210.731.302. Stefndi tilkynnti stefnanda munnlega að hann myndi ekki verða við greiðslutilmælum né heldur myndi hann flytja aflahlutdeild í karfa og þorski til stefnanda. Stefndi telur það vera í höndum hins opinbera að úthluta og flytja til afla en ekki einkaaðila. Tilkall stefnanda til þess að fá ofangreindar aflaheimildir styðjist ekki við nein rök enda sé með kvótanum verið að takmarka aðgengi að afla en ekki að auka það.
Þar sem flutningi aflahlutdeildar verði ekki við komið nema með atbeina stefnda telur stefnandi að nauðsynlegt sé að höfða mál á hendur stefnda til greiðslu skaðabóta fyrir andvirði þeirrar aflahlutdeildar sem hann haldi fyrir stefnanda og auk þess bóta fyrir það aflamark sem stefndi hafi nýtt sér eða hafi getað nýtt sér.
III.
Málsástæður og rök stefnanda.
Stefnandi heldur því fram að kaupsamningur um skipið og önnur gögn vegna kaupanna sýni glögglega að það hafi bara verið skipið eitt sem stefndi hafi keypt, en ekki þau réttindi sem síðar hafi fallið skipinu í skaut. Gögn málsins beri með sér, að kaupandi þ.e. stefndi hafi átt að leggja til „rúmmetra” til að skipið gæti fengið veiðileyfi, eins og þá tíðkaðist. Það sé einnig ljóst, af kauptilboðum sem gengu milli aðila og svo kaupsamningnum sjálfum, að hvergi var gert ráð fyrir öðru en því að stefndi væri að kaupa eingöngu skipið sjálft en engar veiðiheimilidir, hverju nafni sem slíkar heimildir kunni að vera nefndar. Að mati stefnanda sé því óumdeilanlegt, að skriflegt samkomulag sé um það að aflahlutdeild skipsins hafi ekki fylgt því, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða.
Stefndi hafi borið fyrir sig 18. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Umrædd grein verði hins vegar ekki skilin frá 1. gr. sömu laga, en þar segi að ákvæðum laganna skuli þá aðeins beitt, er ekkert annað sé um samið berum orðum eða verði álitið fólgið í samningi eða leiði af verslunartísku eða annarri venju. Með öðrum orðum segi ákvæðið að þegar samningar séu túlkaðir beri að líta til atvika allra við samningsgerðina.
Ágreiningur um það hvort aflahlutdeild, sem sé úthlutað eftir afhendingu skips eða báts, skuli falla til seljanda eða kaupanda hafi oft komið til kasta dómstóla.
Megi þar nefna H 1996.126, H 26. febrúar 1998 í máli Flóa ehf. gegn Ými ehf., H 7. maí 1998 í máli Jóns Gunnars Björgvinssonar gegn Grétari V. Pálssyni og H 28. janúar 1999 í máli Básafells hf. gegn Barða ehf.
Af þessum dómum megi draga þá ályktun að aflahlutdeild, sem falli til eftir afhendingu skips, skuli falla til seljanda, að því marki sem hún byggi á veiðireynslu sem seljandi hefur aflað sér, nema um annað hafi verið samið berum orðum. Stefnandi telur að stefndi hafi einungis keypt af honum skipið eitt og sjálft en ekki þá aflareynslu sem það hafði áunnið sér meðan það var í eigu stefnanda. Því eigi að greiða honum umkrafðar bætur.
Að frátöldu einu atriði byggir stefnandi kröfu sína á niðurstöðu matsmanna um tjón hans. Fyrst tekur hann til matsliði a), b) og c), sem fjalla um bætur fyrir aflamark í úthafskarfa sem stefndi fénýtti sér eða hafði tækifæri til að fénýta sér á árunum 1997, 1998 og 1999, 554.398 kg á hverju ári. Fiskveiðiárið í úthafskarfa fylgi almanaksárinu en sé ekki frá 1. september til 31. ágúst næsta árs eins og venjulegt er. Veiðar á úthafskarfa séu stundaðar frá því snemma vors og fram á haust. Því þyki rétt að gera vaxtakröfu sem taki mið af um það bil miðju veiðitímabilinu. Til viðmiðunar hafi verið valinn 1. júní ár hvert 1997, 1998 og 1999 og sé vaxta krafist frá þeim dögum.
Óljóst hafi verið, þegar matsgerðin hafi verið samin, hver úthlutun í úthafskarfa yrði fyrir árið 2000 og hafi matsmenn byggt niðurstöðu sína varðandi matslið f) á úthlutun fyrra árs, sem var 45.000 tonn í heildina. Stjórnvöld hafi nú úthlutað aflamarki ársins 2000 og sé það óbreytt frá fyrra ári eða 45.000 tonn í heildina en sé skipt í karfa sem heldur sig annarsvegar neðan við og hinsvegar ofan við 500 metra dýpi, sbr. rglg. nr. 175/2000. Botnveiðiskipið Rán hafi þegar hafið veiðar úr þessum stofnum, þ.e. hafi enn eitt árið, tekið að nýta sér aflamark sem stefnanda beri með réttu án þess að stefnandi hafi fengið nokkra greiðslu.
Í matsgerðinni sé byggt á því varðandi matsliði d) og e), að ekkert hafi veiðst af þeim kvóta sem Íslendingum hafi verið úthlutað í norskri lögsögu á árinu 1999. Þetta eigi ekki við um Rán HF, áður Otto Wathne. Samkvæmt upplýsingum Fiskistofu hafi afli skipsins til aflamarks fiskveiðiárið 1999 verið samtals 67.917 kg. af þorski úr þessum stofni. Heildarúthlutun til skipsins hafi verið 144.795 kg. Þar af telji stefnandi sig eiga rétt til 41,48 % eða 60.061 kg. Til að gæta allrar sanngirni gagnvart stefnda sé rétt að geta þess að hann hafi flutt samtals 47.750 kr. á Rán HF af öðru skipi sínu. Hafi Rán HF þannig samtals haft rétt til veiða á 192.545 kg. Sé gengið út frá því að afla skipsins sé skipt hlutfallslega milli þess sem úthlutað var á það og þess sem flutt var til þess, þá hafi Rán HF veitt 75,2% af afla skipsins úr kvóta Ránar HF eða 51.074 kg. Þar af telur stefnandi sig eiga rétt á greiðslu fyrir 41,48% eða fyrir 21.185 kg. og við það sé kröfugerðin miðuð. Lögð sé til grundvallar sú fjárhæð pr. kg sem matsmenn hafi gefið upp sem söluverð á þorskkvóta í lið d) og e) eða kr. 37,73 kr. pr. kg. Heildarkrafa skv. þessum lið sé því kr. 799.310 eins og áður er greint.
Kröfur samkvæmt matsliðum f), g) og h) byggi á því að bæta eigi stefnanda það tjón hans að stefndi haldi varanlega fyrir honum aflahlutdeild í úthafskarfa og þorski, sem stefnandi ella gæti nýtt sér. Hafi stefndi reynst ófáanlegur til að skila þessari aflahlutdeild til stefnanda. Í þessum matsliðum sé einnig metið aflamark fyrir árið 2000 í úthafskarfa og þorski í Barentshafi. Aflamarki í Barentshafi hafi áður verið gerð skil en rétt sé að geta þess að sömu rök og sömu atvik eigi við um þorsk í Barentshafi og um úthafskarfann; þar sé úthlutunin gerð fyrir (almanaksárið) 2000, en ekki hið hefðbundna „fiskveiðiár.” Kröfur um dráttarvexti skv. þessum liðum miðist við 4. apríl sl. en þá hafi stefnda verið send krafa um greiðslu, svo sem áður er rakið. Að öðru leyti er um vaxtakröfur vísað til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
IV.
Málsástæður og rök stefnda.
Stefndi vísar til þess að afla sé úthlutað til skipa en ekki útgerða svo og þess að úthlutunin sé í höndum hins opinbera en ekki einkaaðila. Stefndi byggir sýknukröfu sína á þeirri málsástæðu, að hann hafi á engan hátt orðið valdur að því hugsaða tjóni, sem stefnandi hafi orðið fyrir. Ef talið yrði, að um tjón væri að ræða, yrði það einungis rakið til synjunar stjórnvalda um að úthluta stefnanda veiðiheimildum. Engin samningaleg skuldbinding liggi fyrir um flutning veiðiheimilda frá stefnda til stefnanda. Reglur laga um aðild að dómsmálum leiði því til sýknu.
Verði ekki falist á framangreinda málsástæðu byggir stefndi á því, að ákvæði laga og reglna, eðli máls og dómafordæmi leiði til sýknu.
Kvótaúthlutunin hafi falið í sér skerðingu á aflaheimildum, en hafi ekki verið ívilnandi gerningur. Stjórnvöld hafi verið að hverfa frá frjálsum veiðum. Þetta hafi hvorki verið viðbótarúthlutun, sem kæmi í stað skerðingar né viðbót við áður fengna aflahlutdeild.
Það liggi ljóst fyrir, að með ákvörðun um að setja kvóta á úthafsveiðar hafi markmiðið verið að takmarka aðgang að veiðunum. Jafnframt hafi aflamark verið takmarkað. Þau skip sem hafi stundað þessar veiðar, hafi fengið aðgang að þeim áfram, en hafi ekki mátt veiða umfram þau mörk, sem úthlutaðar veiðiheimildir hafi kveðið á um. Fram að því hafi öllum íslenskum skipum verið heimilt að veiða utan lögsögunnar á þeim hafsvæðum sem um ræðir, án takmarkana.
Það sé öldungis fráleitt að ætla, að jafnframt því sem heimildir til veiða hafi verið skertar frá því sem var við gerð kaupsamningsins milli stefnanda og stefnda, skapist bótaskylda, sem einungis sé hægt að líta á sem hækkum kaupverðs. Verið sé hverfa frá frjálsum veiðum til takmarkaðra, og það hafi verið stefndi sem hafi orðið fyrir þeirri takmörkun og fjártjóni er af því leiddi, en ekki stefnandi.
Það hafi legið ljóst fyrir við gerð kaupsamnings, að skipið hafi ekki haft veiðileyfi samkvæmt ákvæðum laga um stjórn fiskveiða. Það hafi því ekki haft neinar veiðiheimildir í skilningi þeirra laga. Kaupandi hafi því þurft að leggja til „rúmmetra” til úteldingar á móti, svo skipið fengi veiðileyfi og reyndar einnig svokallað fullvinnsluleyfi. Í því skyni hafi útgerðin keypt til úreldingar skipin Birting NK, á 90 milljónir króna og Gunnar Bjarnason ÓF, á 35 milljónir króna. Ákvæði í kaupsamningi um að engar aflaheimildir fylgi með skipinu verði að skýra með það í huga, að skipið hafi ekki haft veiðileyfi og engar aflaheimildir. Ennfremur verði að hafa í huga, að stefnandi hafi verið að hætta í útgerð, og hafi frá afhendingardegi samkvæmt kaupsamningi um Otto Wathne til dagsins í dag ekki haft yfir skipi að ráða.
Í kaupsamningnum segi ekkert um, hvernig fara skuli með aflareynslu skipsins. Þó hafi verið uppi umræður um að búast mætti við takmörkunum á veiðiheimildum. Ljóst hafi verið að úthlutun veiðiheimilda yrði að einhverju leyti miðuð við aflareynslu, en samkvæmt gildandi lögum um stjórn fiskveiða hafi verið, og sé enn, einungis gert ráð fyrir að aflahlutdeild kæmi í hlut skipa. Hafi stefnandi ætlað að gera fyrirvara um að aflareynsla skipsins fylgdi ekki með því við söluna, og hann hefði hug á að færa hana á annað skip, hefði honum borið að kveða skýrt á um það í kaupsamningi. Það hefði þá væntanlega breytt forsendum kaupsamnings.
Að mati stefnda var kaupsamningur um skipið fullefndur þegar til úthlutunar kom. Vandséð sé hvernig eigi að skýra ákvæði kaupsamningsins um fiskveiðiréttindi á þann veg, að þau taki til annarra réttinda en þeirra sem tengdust hinu selda skipi við samningsgerðina. Í stefnu sé því haldið fram að skriflegt samkomulag hafi verið gert milli aðila um það að aflahlutdeild skipsins fylgdi því ekki, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1999 um stjórn fiskveiða. Þetta sé ekki rétt. Ekkert sé minnst á aflahlutdeild. Ef ætlun aðila hefði verið að semja um að framtíðarúthlutun aflahlutdeildar fylgdi ekki skipinu, m.a. með hliðsjón af þessu lagaákvæði, hefði orðið að kveða skýrt á um það.
Þar sem ekki hafi verið sérstaklega rætt um aflaheimildir sem úthlutað yrði á skipið um ókomna framtíð gildi meginregla kauparéttarins um að kaupandi beri arð af hinu selda frá afhendingardegi.
Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt 5. gr. l. nr. 151/1996 hafi verið með þeim hætti, að aflahlutdeild einstakra skipa hafi verið ákveðin á grundvelli veiðireynslu þeirra miðað við þrjú bestu veiðitímabil þeirra á undangengnum sex veiðitímabilum. Hér sé einungis um að ræða viðmiðun, sem tryggja eigi skipi að litið verði til samfelldrar veiðireynslu á sex ára tímabili og bestu aflatímabilin yrðu látin ráða. Leiða megi að því hugann, hver staðan væri ef bestu aflaárin hefðu verið 1991, 1992 og 1993. Þá teldi stefnandi sig væntanlega eiga tilkall til allrar aflahlutdeildarinnar. Slík niðurstaða væri bersýnilega röng og í andsöðu við þann tilgang laganna að stýra fiskveiðum þeirra skipa, sem veiðarnar stunda. Á sama hátt megi benda á, að ef stefndi hefði lagt niður úrgerðarfyrirtæki sitt fyrir árið 1997 og jafnvel selt skipið úr landi, hefðu umræddar veiðiheimildir komið til skipta annarra skipa, sem úthlutun fengu. Hvorki stefnandi né stefndi hefðu átt tilkall til úthlutunar. Þetta sé nefnt í því skyni að sýna fram á hve langsótt það sé fyrir stefnanda að forma bótakröfu á þann veg sem gert sé.
Í 2. gr. laga nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands komi fram að úthlutun afla myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir aflaheimildum. Ákvæði þeirra sé sett til samræmis við 3. málslið 1. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða og eigi að undirstrika að hagnýting fiskistofna sé á hverjum tíma háð ákvörðunum í löggjöf og fyrirmælum stjórnvalda.
Um þann hluta stefnu er varðar aflahlutdeild í þorski í Barentshafi sem úthlutað hafi verið á árinu 1999 vísar stefndi til ofangreindra málsástæðna þar sem við á. Að auki nefnir hann að ákveðinn munur virðist vera á eðli úthlutunar í úthafskarfa á Reykjaneshrygg og úthlutunar í þorski í norskri og rússneskri lögsögu í Barentshafi. Með úthlutun veiðiheimilda í úthafskarfa sé verið að úthluta veiðiheimildum vegna skerðingar á heildarafla. Með úthlutun þorskafla í Barentshafi sé hins vegar um að ræða nýjar aflaheimildir innan lögsögu annarra ríkja, sem ekki voru til staðar áður, en viðmiðun af fyrri afla á nærliggjandi hafsvæðum, þar sem ekki höfðu gilt takmarkanir á veiðiheimildum.
Stefndi telur dómareifanir í stefnu misvísandi. Dómar um kvótaúthlutun sem uppbót vegna afnáms á línutvöföldun marki ekki fordæmi um það álitamál, sem stefnandi og stefndi deila um. Þar sé fjallað um ákveðna tilfærslu í veiðileyfum í takmörkuðum veiðum en ekki frjálsum. Þeir sem hafi nýtt regluna um línutvöföldun hafi í hennar stað fengið úthlutað uppbótarkvóta. Eðlilegt sé að sá kvóti tilheyri þeim sem varð fyrir skerðingu vegna afnámsins. Úthlutun kvóta í tegund innan fiskveiðilögsögunnar, sem einungis hafði tímabundið verið utan kvóta, sé allt annars eðlis en úthlutun samkvæmt nýjum lögum um fiskveiðar utan lögsögu.
Varakröfu sína um lækkun bótafjárhæða byggir stefndi m.a. á því að kröfugerð stefnanda sé ófullnægjandi. Í kröfugerð stefnanda sé ekkert tillit tekið til þess að hefði honum verið úthlutað aflahlutdeild í úthafskarfa við Reykjaneshrygg í samræmi við reglugerð nr. 27/1997 sé ljóst að hann hefði óhjákvæmilega haft kostnað af því að geta fullnægt skilyrðum reglugerðarinnar skv. 5. gr. hennar.
Í 5. gr. komi fram það skilyrði, að útgerð skips afsali sér aflahlutdeild, sem úthlutað sé á grundvelli laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, er nemi 8% af þeirri úthafskarfahlutdeild, sem henni var úthlutað á árinu 1997. Til þess að fullnægja þessu skilyrði hefði því verið nauðsynlegt fyrir stefnanda í máli þessu að verða sér úti um aflahlutdeild sem hægt væri síðan að afsala á móti úthlutun. Ekki sé tekið tillit til slíks kostnaðar í kröfugerð.
Stefndi vísar til þess að hann hafi afsalað sér viðeigandi aflahlutdeild samkvæmt reglugerðinni. Hafi það verið 54.255 þorskígildi og aflamark fyrir sama magn, sbr. dskj. nr. 41 og 42. Ef verðgildi þessa afla sé miðað við viðskipti á Kvótaþingi þann 16. maí sl. sé verðmæti hans kr. 55.449.695,10, sbr. dskj. nr. 43 og 44.
Þar sem stefnandi hafi gert kröfu um það, að umræddum aflaheimildum yrði úthlutað á skip, sem hafi veiðileyfi innan íslensku fiskveiðilögsögunnar, eigi lokamálsgrein 5. gr. ekki við.
Einnig sé rétt að geta þess að stefndi í máli þessu hafi greitt gjöld vegna veiðieftirlits og gjald í Þróunarsjóð vegna aflahlutdeildar Ránar HF-42 í úthafskarfa við Reykjaneshrygg og í þorski í Barentshafi og sú fjárhæð nemi hundruðum þúsunda króna. Þar sem í kröfugerð stefnanda sé farið fram á bætur vegna aflahlutdeildar á þessum árum hlóti að verða að taka tillit til kostnaðar sem stefnandi í máli þessu óumdeilanlega hafi komist hjá að greiða og hefði þurft að greiða hefði honum verið úthlutað þessum afla.
Af þessum sökum liggi fyrir með viðhlítandi hætti hversu mikið meint tjón stefnanda gæti hugsanlega hafa orðið. Slíkt hljóti að leiða til verulegrar lækkunar frá því sem dómkröfur standi til, ef dómur gangi stefnanda í vil.
Stefndi byggir varakröfu sína ennfremur á því að matsgerð sé ófullnægjandi. Fyrst nefnir hann f) lið matsgerðarinnar sem varðar mat á verðmæti aflahlutdeildar í úthafskarfa. Í honum miði matsmenn við „síðustu sölu” á aflahlutdeild í úthafskarfa hjá Kvótamiðlun LÍÚ og sé hún sögð vera á kr. 220,00 fyrir hvert kg. Í matsgerð segi einnig að þessi sala hafi farið fram á „síðasta ári.” Verðið sé þannig miðað við einu sölu ársins 1999 ár aflahlutdeild í úthafkarfa. Aðrar tilfærslur ársins hafi verið milli skipa í eigu sömu aðila
Í f) lið sé einnig fjallað um aflamark í úthafskarfa árið 2000. Þar sé miðað við heildarúthlutun fyrir árið 1999 og notast við meðalverð það ár þar sem ekki hafi verið búið að úthluta fyrir árið 2000. Úthlutun hafi nú farið fram samkvæmt reglugerð nr. 175/2000 en samkvæmt henni er íslenskum skipum heimilt að veiða 13 þúsund lestir úr stofninum sem heldur sig grynnra en á 500 metra dýpi en 32 þúsund lestir úr þeim stofni sem heldur sig dýpra. Heildaraflinn, 45 þúsund lestir, haldist þannig óbreyttur milli ára en samkvæmt þessu sé þó ljóst, að afli minnki í raun milli ára enda hafi heildaraflinn undanfarin ár allur veiðst úr stofninum sem heldur sig dýpra en á 500 metra dýpi. Lítið sé um viðskipti með kvóta í úthafskarfa en samkvæmt yfirliti á Kvótaþingi yfir viðskipti í júlímánuði hafi verið um að ræða sölu á 1000 kílóum og hafi verðið á þeim verið kr. 19,65 fyrir hvert kíló, sbr. dskj. nr .45. Í júní mánuði hafi ekki verið nein viðskipti, sbr. dskj. nr. 46. Samkvæmt þessu þyki bæði aflamark og verð fyrir hvert kíló allt of hátt í þessum lið matsgerðarinnar.
Verðmæti aflahlutdeildar í þorski í Barentshafi sé metið í g) og h) lið matsgerðar og sé þar miðað við verð það sem „útgerðarmaður línubáts er tilbúinn að borga fyrir aflahlutdeild við Noreg og Rússland.” Ekki sé miðað við meðalverð við sölu aflahlutdeildar enda hafi slík sala ekki farið fram. Stefndi mótmælir því harðlega að verðgildi aflahlutdeildar sé miðað við ofangreind viðmið enda séu engin gögn sett fram þessu til stuðnings. Þessum matsliðum mótmælir stefndi því sérstaklega enda segi í matsgerð að mikil áhætta sé fólgin í því að kaupa varanlega kvóta við Rússland og við Noreg.
Fjárhæðum skv. f), g) og h) liðum matsgerðarinnar mótmælir stefndi sem órökstuddum, ósönnuðum og ófullnægjandi í alla staði.
Varðandi liði d) og e) í matsgerð er stefndi sammála niðurstöðu í matsgerð og mótmælir kröfu stefnanda er grundvallast á lið d) þar sem með öllu sé látið hjá líða að taka tillit til kostnaðar við veiðarnar. Aflamarkið hafi verið einkis virði eins og fram komi í matsgerðinni, enda hefði tap af þessum veiðum verið verulegt, ef einungis hefði verið veitt samkvæmt þessum veiðiheimildum. Þrátt fyrir að komist yrði að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi átt rétt á ákveðnum hluta af þessari aflahlutdeild sé ljóst að stefnandi hafi ekki getað fengið fyrir þá aflahlutdeild nema þá að halda til veiða sjálfur en ljóst sé að stefndi hafi ekki átt skip á þessum tíma.
Til stuðnings varakröfu sinni bendir stefndi ennfremur á það sem áður var rakið að stefnda var í byrjun febrúar 1997 tilkynnt að honum yrði úthlutað aflahlutdeild í úthafskarfa við Reykjaneshrygg á grundvelli áranna 1994, 1995 og 1996 en þá hafi skipið verið í eigu stefnda. Samkvæmt þessari úthlutun hafi stefndi átt rétt til að nýta sér þá aflahlutdeild, sem hefði fengist ef miðað hefði verið við árið 1995 í stað ársins 1993. Ekki sé unnt að líta á það sem skyldu, að miða við aflatölur ákveðinna ára, ef úthlutunarþegi óskar eftir lægri viðmiðun. Aflatölur frá árinu 1995 gefi til kynna að aflamark sem byggt sé á því ári nemi 90.000 kg og miðað við ofangreindar staðreyndir ætti því sú tala að koma til frádráttar kröfugerð stefnanda.
Varðandi aflahlutdeildina sé ljóst að aflatölur fyrir árið 1995 leiði til 0,2% aflahlutdeildar og eigi sú tala því að koma til frádráttar kröfugerð stefnanda. Þannig yrði niðurstaða sú, að stefnandi fengi í sinn hlut einungis þann hluta veiðiheimilda, sem umfram væru þá veiðireynslu, sem stefndi hafði unnið til, og miðað var við í upphaflegri úthlutun.
Til frekari rökstuðnings fyrir kröfum sínum bendir stefndi á, að krafa um bætur, sem byggi á matsverði á seldum aflaheimildum, og taki mið af verðlagi á afar takmörkuðu magni aflaheimilda, fái ekki staðist. Þær aflaheimildir, sem hafi verið seldar, hafi verið viðbót við aflaheimildir, sem kaupendur hafi átt fyrir og sé því ekki reiknað með kostnaði við útgerðina á sama hátt og væri ef hinar keyptu aflaheimildir væru einu aflaheimildir skipsins.
Niðurstaða þessarar nálgunar á því hversu arðbærar þessar veiðar hafi verið, virðist sú, að krafa stefnanda um bætur nemi sem svarar allri framlegð af þessum veiðum í 12 ár, ef miðað sé við það hlutfall, sem krafa stefnanda kveður á um. Þannig sé meðaltalsframlegð 35,7 milljónir króna af öllum úthafsveiðum á ári. Stefnandi miði við 43% af aflaheimildum í kröfu sinni, sem svari þá til rúmlega 15 milljóna króna af meðaltalsársframlegð.
V.
Niðurstaða.
Skuttogarinn Otto Wathne NS 90 hafði ekki veiðileyfi í íslenskri lögsögu er stefndi keypti hann 29. mars 1994. Veiðar voru þá frjálsar í Barentshafi og á Reykjaneshrygg. Í kaupsamningi segir að engar aflaheimildir fylgi með í kaupunum. Togarinn fékk nafnið Rán HF-42 eftir eigendaskiptin.
Þann 27. desember 1996 voru sett lög nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Með stoð í þeim lögum var jafnframt sett reglugerð nr. 27/1997 um úthlutun veiðiheimilda í úthafskarfa á Reykjaneshrygg. Í 3. og 5. gr. reglugerðarinnar er nánar kveðið á um úthlutunarreglur, er miða skyldi við þrjú bestu veiðiár skipsins, almanaksárin 1991-1996.
Þann 10. maí 1999 var ennfremur sett reglugerð nr. 306/1999 um úthlutun þorskaflahlutdeildar í Barentshafi. Í 1. gr. hennar er kveðið á um að úthluta skuli aflahlutdeild í þorski til skipa á grundvelli veiðireynslu þeirra miðað við þrjú bestu ár þeirra á undangengnum sex árum frá og með 1993 að telja.
Á grundvelli reglugerðar um úthlutun veiðiheimilda á Reykjaneshrygg, fékk stefndi úthlutað aflahlutdeild í úthafskarfa. Nam aflahlutdeild stefnda samtals 2,8117024% og aflamark ársins 1997 var 1.265.266 kg. af úthafskarfa. Úthlutun þessi byggðist á veiðireynslu áranna 1993, 1994 og 1996. Stefnandi telur að honum beri 43,82% af þessari úthlutun, þ.e. 1.2319946% af heildaraflahlutdeild í úthafskarfa og 554.398 kg. af aflamarkinu.
Á sama hátt fékk skip stefnda úthlutað aflahlutdeild í þorski í Barentshafi sem úthlutað var á árinu 1999. Sú úthlutun byggðist á veiðireynslu skipsins árin 1993, 1994 og 1995. Samanlagður þorskafli skipsins þessi ár var 3.705.263 kg. Á grundvelli þessarar reynslu var skipinu úthlutað 3.8395021% af heildarþorskafla íslenskra fiskiskipa í Barentshafi, bæði í norskri og rússneskri landhelgi. Stefnandi telur að 41,48% þessara réttinda sé hans eign. Þannig telur stefnandi að 60.055 kg. af þorski í norskri fiskveiðilögsögu og 37.531 kg. af þorski í rússneskri fiskveiðilögsögu eða samtals 97.586 kg. af þorski í Barentshafi tilheyri stefnanda með réttu.
Af hálfu aðila er ekki deilt tölulega um ofangreinda útreikninga á aflahlutdeild og aflamarki Ránar HF- 42. Þá er ekki heldur deilt um prósentuútreikninga stefnanda sem raktir eru hér að framan, en þeir byggjast á forsendum Fiskistofu.
Stefnandi krafðist þess 14. febrúar 1997 með bréfi til Fiskistofu að úthlutun á úthafskarfa yrði skipt milli aðila eftir veiðireynslu og það sem í hans hlut kæmi yrði flutt á skip er hann tilnefndi. Fiskistofa synjaði þeirri beiðni með þeim rökum að lagaheimild væri ekki fyrir hendi. Stefnandi beindi þeim tilmælum í öndverðu til stefnda að hann veitti atbeina sinn til þess að aflahlutdeild í úthafskarfa, og aflamark byggt á henni, yrði flutt til stefnanda. Stefndi synjaði þessari beiðni og óskaði reyndar sérstaklega eftir því við Fiskistofu með bréfi 17. febrúar 1997 að úthlutun til hans tæki mið af afla skipsins 1993, en það ár var skipið í eigu stefnanda.
Í kaupsamningi aðila segir að engar aflaheimildir fylgi með í kaupunum. Skýra verður þetta ákvæði þannig að stefnanda beri þær aflaheimildir sem Rán HF-42 var úthlutað á grundvelli veiðireynslu skipsins meðan það var í eigu stefnanda. Stefndi hefur ekki ljáð máls á því að veita stefnanda atbeina sinn til þess að hann fengi úthlutað þessum aflaheimildum. Stefndi hefur því ekki efnt kaupsamninginn að þessu leyti. Samkvæmt því og með vísan til dóms Hæstaréttar 26. febrúar 1998 í máli nr. 305/1997, sbr. einnig dóm 7. maí sama ár í máli nr. 346/1997, verður litið svo á að umræddar aflaheimildir, byggðar á veiðireynslu stefnanda, hafi með réttu átt að koma í hlut stefnanda. Samkvæmt dómi Hæstaréttar 28. janúar 1999 í máli nr. 241/1998 skiptir ekki máli þó að stefnandi hafi ekki átt fiskiskip á þessum tíma. Verður því talið að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem svarar til gangverðs hinna umdeildu aflaheimilda í viðskiptum.
Matsmenn komu fyrir dóm og staðfestu matsgerð sína. Niðurstaða þeirra byggist á markaðsverði kvóta á hverjum tíma. Þykir mega leggja hana til grundvallar í málinu.
Stefndi hefur mótmælt matsgerð. Málsástæður hans lúta einkum að því að draga eigi frá matsfjárhæð ýmsan kostnað útgerðar við að stunda veiðar. Ekki þykir hald í þessum málsástæðum stefnda, þar sem skaðabótakrafa stefnanda er efndabótakrafa, byggð á því hvað stefnandi hefur farið á mis við, ef hann hefði sjálfur fengið úthlutað umræddum aflaheimildum.
Hins vegar ber að taka tillit til ákvæða 5. gr. reglugerðar nr. 27/1997 um úthlutun veiðiheimilda í úthafskarfa á Reykjaneshrygg. Segir þar að úthlutun aflahlutdeildar, skv. reglugerðinni, sé bundin því skilyrði, að útgerð skips afsali sér aflahlutdeild, sem úthlutað sé á grundvelli laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sem nemi 8% af þeirri úthafskarfahlutdeild, sem þeim sé úthlutað á árinu 1997.
Fyrir liggur í málinu að stefndi afsalaði sér aflahlutdeild samkvæmt reglugerðinni. Þykir rétt að taka til greina lækkunarkröfu hans, þannig, að til frádráttar komi 8% af umdeildri úthafskarfa aflahlutdeild. Samkvæmt matslið f) er matsverð á aflahlutdeild í úthafskarfa 139.553.064 krónur. Koma 8% af þeirri fjárhæð til frádráttar eða 11.164.245 krónur.
Matmenn meta aflamark í þorski í norskri og rússneskri lögsögu einskis virði, sbr. d) og e) liði matsgerðar. Ber að fallast á það, enda réðist afstaða matsmanna varðandi þessa matsliði á sömu sjónarmiðum og mat þeirrra varðandi aðra matsliði, þ.e. að mat þeirra endurspegli gangverð aflaheimilda í viðskiptum.
Matsgerð verður að öðru leyti lögð til grundvallar, enda hefur henni ekki verið hnekkt með yfirmati eða á annan hátt.
Niðurstaða málsins verður því sú, að dómkröfur verða teknar til greina samkvæmt matsliðum a), b), c), d), e), g) og h). Matsliður f) verður lækkaður um 8% eins og áður segir og verður því tekin til greina með 128.388.819 krónum. Samtals verður stefndi dæmdur til greiðslu 180.349.684 krónur. Vaxtakrafa stefnanda verður tekin til greina, enda hefur henni ekki verið mótmælt. Verður stefndi því dæmdur til þess að greiða stefnanda 180.349.684 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25//1987 af 11.531.478 krónum frá 1. júní 1997 til 1. júní 1998, af 21.898.721 króna frá þeim til 1. júní 1999, af 39.484.226 krónum frá þeim degi til 4. apríl 2000, en af 180.349.684 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Eftir þessari niðurstöðu verður stefndi dæmdur til greiðslu málskostnaðar sem þykir hæfilega ákveðinn 5.000.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til kostnaðar vegna öflunar matsgerðar.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
Dómsorð:
Stefndi, Stálskip ehf., greiði stefnanda, Otto Wathne ehf., 180.349.684 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 11.531.478 krónum frá 1. júní 1997 til 1. júní 1998, af 21.898.721 króna frá þeim til 1. júní 1999, af 39.484.226 krónum frá þeim degi til 4. apríl 2000, en af 180.349.684 krónum frá þeim degi til greiðsludags og 5.000.000 krónur í málskostnað.