Hæstiréttur íslands

Mál nr. 184/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Föstudaginn 15

 

Föstudaginn 15. júní 2001.

Nr. 184/2001.

Gunnar Þorláksson

(Jóhann Halldórsson hrl.)

gegn

Skinney-Þinganesi hf.

(enginn)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísun felld úr gildi.

G kærði til Hæstaréttar ákvæði í héraðsdómi um að vísa frá dómi hluta dómkrafna hans. Ekki varð af gögnum málsins ráðið að tölulegur ágreiningur væri með aðilum um þá kröfuliði, sem vísað var frá dómi, heldur einungis hvort G ætti rétt til þeirra greiðslna sem þar um ræddi. Var ekki fallist á með héraðsdómara að kröfugerð G væri í þessum liðum svo vanreifuð að vísa bæri henni frá dómi. Hið kærða ákvæði héraðsdóms var því fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að leggja efnisdóm á kröfur G.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. maí 2001. Kært er ákvæði í dómi Héraðsdóms Austurlands 3. maí 2001 í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila um að vísa frá dómi hluta dómkrafna þess fyrrnefnda. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að þetta ákvæði héraðsdóms verði fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að leggja efnisdóm á kröfur hans. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Ágreiningur málsaðila varðar nokkra þætti í launauppgjöri fyrir sóknaraðila vegna starfa hans sem háseti og stýrimaður á fiskiskipi varnaraðila, Húnaröst SF 550, á tímabilinu frá september til desember 1999 að báðum mánuðum meðtöldum. Með héraðsdómi var fallist á þann hluta kröfu sóknaraðila, sem laut að greiðslu aflahlutar fyrir september og október 1999, en öðrum liðum hennar vísað frá dómi vegna vanreifunar. Lutu þeir liðir að greiðslu kauptryggingar fyrir tímabilið frá 21. desember til loka ársins 1999, hlífðarfatapeninga og starfsaldursálags vegna sama tímabils og mismunar á fæðispeningum, sem varnaraðili greiddi fyrir október og desember 1999, og því, sem sóknaraðili telur að  hann með réttu hefði átt að greiða.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að tölulegur ágreiningur sé með aðilum um þá kröfuliði, sem vísað var frá dómi, heldur einungis hvort sóknaraðili eigi rétt til þessara greiðslna. Lýtur deilan ýmist að því hvort þær skuli inna af hendi fyrir daga, sem sóknaraðili átti frí meðan ráðningarsamningur var enn í gildi, eða við hvaða ákvæði í kjarasamningi skuli miða greiðslur. Verður ekki fallist á með héraðsdómara að kröfugerð sóknaraðila sé í þessum liðum svo vanreifuð að vísa beri henni frá dómi. Verður hið kærða ákvæði því fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

 

Dómsorð:

Fellt er úr gildi hið kærða ákvæði í dómi Héraðsdóms Austurlands 3. maí 2001 um að vísa frá dómi hluta kröfu sóknaraðila, Gunnars Þorlákssonar, á hendur varnaraðila, Skinney-Þinganesi hf. Lagt er fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar að því leyti.

Kærumálskostnaður fellur niður.