Hæstiréttur íslands
Mál nr. 428/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 17. ágúst 2007. |
|
Nr. 428/2007. |
Ákæruvaldið(Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Jón Höskuldsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/199l.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. ágúst 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. ágúst 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 7. september 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Varnaraðili hefur viðurkennt öll þau brot sem honum hafa verið gefin að sök í ákæru 7. ágúst 2007 að einu undanskildu. Brotaferill hans frá mars 2007 er samfelldur. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. ágúst 2007.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 7. september nk. kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí sl. í máli nr. R-335/2007 hafi ákærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til dagsins í dag kl. 16. Þann 7. ágúst sl. hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu höfðað opinbert mál á hendur ákærða með útgáfu ákæru. Í ákæruskjali sé honum gefið að sök fjölmörg auðgunar- og fjármunabrot, auk umferðarlaga- og fíkniefnalagabrota. Brotaferill hans sé samfelldur frá því í október 2006 og í mörgum tilvikum sé um að ræða innbrot inn á heimili fólks og í fyrirtæki. Ákærði hafi viðurkennt flest brotanna og því ljóst að hann á nú yfir höfði sér fangelsisrefsingu. Við rannsókn mála hans hafi komið í ljós að hann sé fíkniefnaneytandi og fjármagni neyslu sína með afbrotum.
Mál hans verði þingfest fyrir héraðsdómi Reykjavíkur þann 21. ágúst nk.
Með vísan til framangreinds sé það mat lögreglustjóra að veruleg hætta sé á að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi verði hann frjáls ferða sinna. Sé þess því krafist, með skírskotun til c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að krafan nái fram að ganga eins og hún sé fram sett.
Með vísan til framgreinds rökstuðnings verður fallist á að veruleg hætta sé á að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi sé hann frjáls ferða sinna. Er krafan því tekin til greina á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, með þeim hætti sem kemur fram í úrskurðarorði.
Úrskurðinn kveður upp Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Ákærði, X skal sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 7. september nk. kl. 16.00.