Hæstiréttur íslands
Mál nr. 72/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Gæsluvarðhaldskröfu hafnað
|
|
Mánudaginn 4. febrúar 2013. |
|
Nr. 72/2013.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Gæsluvarðhaldskröfu hafnað.
Hafnað var kröfu ákæruvaldsins um að X yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. febrúar 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 27. febrúar 2013 klukkan 16.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 27. febrúar 2013 kl. 16.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 3. janúar sl. í máli nr. 1/2013 hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag til kl. 16 á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi unnið að rannsóknum mála þar sem kærði sé grunaður um líkamsárás, hótanir og tilraun til ráns. Nú sé rannsókn málanna lokið og í dag, 30. janúar, hafi verið gefin út ákæra af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu á hendur kærða. Jafnframt hafi, þann 17. janúar sl., verið gefin út ákæra af ríkissaksóknara.
Auk þess hafi lögregla enn til rannsóknar mál númer 007-2012-62381 þar sem kærði er undir rökstuddum grun um líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 4. nóvember sl. að [...], læst systur sína á táningsaldri og móður sína inn í þvottahúsi og síðar veist að þeim með ofbeldi.
Kærði eigi að baki mikinn sakaferil frá árinu 2003 og hann hafi hlotið dóma m.a. fyrir ítrekuð brot gegn valdstjórn, ránstilraun auk þess sem kærði hafi gengist undir lögreglustjórasáttir, nú síðast í byrjun desember sl. Kærði hafi síðast verið dæmdur með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...] , [...], fyrir brot gegn 106. gr. almennra hegningarlaga. Kærði hafi hlotið reynslulausn á þeim dómi í 1 ár frá 15. nóvember 2011. Kærði hafi aftur verið dæmdur fyrir brot gegn 106. gr. almennra hegningarlaga með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...] og rofið reynslulausn á árunum 2009, 2010 og 2011. Kærði hafi verið dæmdur með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...] fyrir tilraun til ráns, sérstaklega hættulega líkamsárás er varðaði við 2. mgr. 218. gr. sömu laga, auk hótana og þjófnað.
Við rannsókn mála kærða hjá lögreglu hafi komið í ljós að hann sé í mikilli neyslu fíkniefna, án atvinnu og hafi ekki fasta búsetu.
Með vísan til brotaferils kærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Tvær ákærur hafa verið gefnar út á hendur varnaraðila, annars vegar ákæra ríkissaksóknara, dags. 17. þessa mánaðar, og hins vegar ákæra sóknaraðila, dags. 30. þessa mánaðar. Í fyrrnefndri ákæru er varnaraðili sakaður um tilraun til ráns 30. desember sl. með því að hafa veist að eiganda netkaffihúss, hótað honum lífláti og ofbeldi og krafið hann um 5.000 krónur, því næst tekið slökkvitæki og haldið því á lofti og ógnað honum og starfsmanni staðarins. Í síðarnefndri ákærunni er varnaraðili sakaður um tvær hótanir í garð skyldmenna, sem eiga að hafa átt sér stað 24. júní 2012 og í lok nóvember 2012, og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna í tvö skipti, 24. júní 2012 og 19. nóvember 2012. Sóknaraðili kveðst einnig hafa til rannsóknar ætlaða líkamsárás varnaraðila á móður hans og systur með því að hafa aðfararnótt 4. nóvember 2012 læst þær inni í þvottahúsi og „síðar veist að þeim með ofbeldi“. Engin kæra hefur verið lögð fram af hálfu mæðgnanna í tilefni af síðastnefnda atvikinu og virðast atvik nokkuð óljós af rannsóknargögnum að dæma. Af þeirri einu lögregluskýrslu sem liggur fyrir um atvikið er ekki lýst neinum sjáanlegum áverkum á móður varnaraðila og í engu getið að hann hafi lagt hendur á systur sína.
Þegar litið er til þess að þau mál, sem gefið hafa tilefni til ákæru á hendur varnaraðila, eru ekki mörg og nokkuð langur tími sem líður á milli þeirra þá fær dómurinn trauðla séð að af þeim sé unnt að draga þá ályktun að ætla megi að hann muni halda áfram brotum fari hann frjáls ferða sinna, sbr. c-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá er til þess að líta að með gæsluvarðhaldi eru skert mikilsverð réttindi manna sem njóta verndar 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki má beita því ef ná má markmiðum varðhalds með öðru og vægara móti. Nokkur þeirra brota sem varnaraðili er undir rökstuddum grun um að hafa framið beinast að tilteknum skyldmennum hans og er ljóst að þau óttast að hann láti verða af hótunum sínum í garð þeirra. Ekki hefur hins vegar verið látið á það reyna hvort efni sé til að beita úrræðum laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Að teknu tilliti til þess og með vísan til þeirra brota sem varnaraðili hefur verið ákærður fyrir verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að efni sé til þess að úrskurða hann í gæsluvarðhald á grundvelli þess ákvæðis sem krafan er reist á. Upplýsingar um sakarferil varnaraðila og fíkniefnaneyslu breyta ekki þeirri ályktun. Kröfunni er því hafnað.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila um að varnaraðila, X, verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi.