Hæstiréttur íslands

Mál nr. 497/2014


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Ábyrgð


                                     

Fimmtudaginn 26. febrúar 2015.

Nr. 497/2014.

Edda Hrönn Atladóttir

(Jón Magnússon hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Karl Óttar Pétursson hrl.)

Fjármálafyrirtæki. Ábyrgð.

A hf. höfðaði mál gegn L ehf. og E til heimtu yfirdráttarskuldar samkvæmt tékkareikningi L ehf. sem E hafði gengið í sjálfskuldarábyrgð fyrir í janúar 2010. Í dómi héraðsdóms voru kröfur A hf. teknar til greina að öllu leyti hvað varðaði L ehf. Þá var talið að tengsl E við L ehf. væru slík að ábyrgð hennar félli ekki undir ákvæði laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, auk þess sem engin efni væru til að víkja ábyrgðaryfirlýsingunni til hliðar samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þrátt fyrir að nánar tiltekið samkomulag frá 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem vísað væri til í ábyrgðaryfirlýsingunni, hefði verið sagt upp í apríl 2009, þá tæki samkomulagið ekki eftir efni sínu til þeirrar skuldbindingar sem E gekkst undir. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. júlí 2014. Krefst hún þess að verða sýknuð af kröfu stefnda. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Leðuriðjan ehf. hefur ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti og unir því dóminum.

Stefndi hefur lagt fram hér fyrir dómi bréf sem Neytendasamtökin og Samtök fjármálafyrirtækja rituðu viðskiptaráðuneytinu 28. apríl 2009 þar sem þau sögðu upp áður gerðu samkomulagi frá 1. nóvember 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Samkvæmt því liggur fyrir að umræddu samkomulagi hafði verið sagt upp áður en áfrýjandi undirritaði 29. janúar 2010 yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgðina sem krafa stefnda á hendur henni er reist á. Þrátt fyrir það var í ábyrgðaryfirlýsingunni, sem útbúin var af stefnda, vísað til samkomulagsins sem tók þó ekki eftir efni sínu til þeirrar skuldbindingar er áfrýjandi gekkst undir.

Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Með hliðsjón af atvikum málsins, ekki síst þeim sem að framan greinir, verður málskostnaður milli málsaðila felldur niður á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður, að öðru leyti en því að málskostnaður milli áfrýjanda, Eddu Hrannar Atladóttur, og stefnda, Arion banka hf., fellur niður í héraði.

Málskostnaður fellur niður fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2014.

Mál þetta sem dómtekið var 25. mars sl. er höfðað með stefnu birtri 28. september 2012. Stefnandi er Arion banki hf., Borgartúni, 105 Reykjavík en stefndu eru Leðuriðjan ehf., Súðarvogi 32, 104 Reykjavík og Edda Hrönn Atladóttir, Kambaseli 7, 109 Reykjavík.

             Stefnandi krefst þess að stefnda Leðuriðjan ehf. verði dæmd til að greiða sér 11.105.823 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 3. ágúst 2011 til greiðsludags. Einnig krefst stefnandi þess að stefnda, Edda Hrönn Atladóttir, verði dæmd til að greiða þar af óskipt (in solidum) með stefndu, Leðuriðjunni ehf., 11.000.000 króna með dráttavöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 3. ágúst 2011 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.

             Af hálfu stefndu, Eddu Hrannar Atladóttur, er krafist sýknu af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða henni málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati réttarins.

             Af hálfu stefndu, Leðuriðjunnar ehf., hefur ekki verið sótt þing.

I.

Málavextir

Stefnda, Leðuriðjan ehf., stofnaði veltureikning hjá SPRON með heimild til yfirdráttar 18. apríl 2005. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009 um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. var öllum eignum SPRON hf., þar á meðal kröfuréttindum, ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf., nú Arion banka hf., stefnanda máls þessa. Veltureikningurinn tilheyrir nú útibúi stefnanda og ber númerið 0336-26-001958. Stefnda, Edda Hrönn, skrifaði undir yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð 29. janúar 2010 þar sem hún ábyrgðist persónulega að tryggja efndir á skuldbindingum reikningseiganda, Leðuriðjunnar ehf., á tékkareikningi nr. 0336-26-001958. Hámarksfjárhæð sjálfskuldarábyrgðarinnar nam 11.000.000 króna, auk vaxta dráttarvaxta og kostnaðar. Yfirdráttarheimildin rann út án þess að skuld veltureikningsins væri greidd og var reikningnum lokað 3. ágúst 2011. Uppsöfnuð skuld nam þá 11.105.823 krónum. Skuldin hefur ekki verið greidd.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína á því að stefndu beri samkvæmt almennum reglum kröfuréttarins og meginreglu samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða skylda til að efna samninga og greiða kröfuna. Stefnda, Edda Hrönn, hafi ritað undir yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttarheimildar á framangreindum reikningi. Með yfirlýsingunni ábyrgðist hún persónulega að tryggja efndir á skuldbindingum reikningseiganda eins og um eigin skuld væri að ræða. Skuldin hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og því sé nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

             Kröfu sinni til stuðnings vísar stefnandi til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. þeirra laga.

III.

Málsástæður og lagarök stefndu Eddu Hrannar Atladóttur

Stefnda byggir sýknukröfu sína aðallega á því sjálfskuldarábyrgð hennar 29. janúar 2010 sé ógild frá upphafi. Ábyrgðaryfirlýsingin heyri undir lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn sem tekið hafi gildi 2. apríl 2009 og því verið í gildi þegar hún undirgekkst ábyrgðina. Þar sem til ábyrgðarinnar hafi ekki verið stofnað með þeim hætti sem lögin kveði á um, sbr. einkum II. kafla laganna, varðandi stofnun, efni og form ábyrgðarsamninga verði ekki séð að gild sjálfskuldarábyrgð hafi stofnast.

             Stefnandi bendir á að markmiðið með setningu laga nr. 32/2009 hafi verið að setja skýrar reglur um ábyrgðir einstaklinga, draga úr vægi ábyrgða og stuðla að því að lánveitingar yrðu miðaðar við greiðslugetu lántaka og hans eigin tryggingar. Lögin taki til allra lánveitinga þar sem ábyrgðarmaður gangist í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka. Undantekningar frá gildissviði laganna lúti annars vegar að eigin atvinnurekstri ábyrgðarmanns og hins vegar tilvikum þar sem ábyrgðarmaður fái greitt sérstakt gjald fyrir að takast ábyrgðina á herðar. Skýra verði undantekningar frá gildissviði laganna þröngt. Hvergi sé að finna skilgreiningu á því hvað felist í atvinnurekstri í skilningi laganna eða hvert umfang þátttöku einstaklings þurfi að vera til þess að hægt sé að fella hann undir þessa undanþágureglu. Löggjafinn hafi talið mikilvægt að veita frekari leiðbeiningar í lögskýringargögnum um það hvað teljist ábyrgð í þágu atvinnurekstrar. Kemur vilji löggjafans skýrt fram í nefndaráliti viðskiptanefndar sem unnið var á meðan frumvarp til laga um ábyrgðarmenn hafi verið í meðförum þingsins. Þar sé að finna nánari skýringu á því hvað löggjafinn hafi átt við með orðunum „ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns“. Sé með þessu átt við atvinnurekstur þar sem viðkomandi þiggi meginhluta launa sinna. Virðist nefndin leggja upp með þá skilgreiningu að ef aðalskuldari geti ekki greitt laun, sem nægðu til framfærslu ábyrgðarmanns, hafi verið afar áhættusamt fyrir viðkomandi einstakling að gangast í ábyrgð fyrir fyrirtækið. Því yrði að tryggja að áður en til ábyrgðar væri stofnað skyldi lánveitandi áður gæta vandlega að reglum laga um stofnun ábyrgða. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna beri lánveitanda að ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgð. Þegar fyrirtæki séu ekki í stakk búin að greiða starfsmanni laun sé ljóst að rekstur félagsins sé erfiður, a.m.k. óviss, og áhætta ábyrgðarmanns því meiri en ella. Við þessar aðstæður beri lánastofnun að vekja sérstaka athygli ábyrgðarmanns á áhættunni sem í því felst að gangast í ábyrgð og gæta vel að reglum um stofnun ábyrgða. Þrátt fyrir að auðvelt hafi verið fyrir stefnanda sem viðskiptabanka Leðuriðjunnar ehf. að kynna sér rekstur fyrirtækisins og afla sér nauðsynlegra upplýsinga liggi fyrir að stefnandi sinnti í engu kröfum laga um ábyrgðarmenn um vandaðan undirbúning við öflun ábyrgða hjá stefndu vegna yfirdráttarláns Leðuriðjunnar ehf. Fyrir liggi að fyrirtækinu hafi um langt skeið ekki verið unnt að greiða laun vegna mikilla rekstrarerfiðleika. Af þeim sökum hafi stefnda einungis fengið greiddar u.þ.b. 50.000 krónur á mánuði um langt skeið. Þær greiðslur hafi einungis verið til þess ætlaðar að tryggja að stefnda tapaði ekki mögulegum réttindum í lífeyrissjóði sínum. Greiðslurnar hafi því aldrei verið hugsaðar sem launagreiðslur. Stefnandi hafi verið grandsamur um stöðu fyrirtækisins. Þegar lánið hafi verið flutt frá SPRON til stefnanda hafi hann fljótlega gert ríka kröfu um að fleiri einstaklingar en Edda skyldu ábyrgjast lánið auk þess sem stefnandi hafi sett fram kröfu um fasteignatryggingu. Á það hafi ekki verið fallist. Stefnda hafi undirritað ábyrgðarskuldbindinguna að kröfu bankans.

             Stefnda telur ljóst að yfirlýsing hennar um sjálfskuldarábyrgð sé ekki undanþegin gildissviði laga nr. 32/2009 samkvæmt 2. mgr. 2. gr. þeirra. Stefnda hafi ekki þegið meginhluta launa sinna frá meðstefnda og því ekki um það að ræða að ábyrgðin hafi verið veitt í þágu atvinnurekstrar stefndu í skilningi laganna og eins og ákvæðið er skýrt í lögskýringargögnum. Ábyrgðin falli því undir lögin. Í II. kafla ábyrgðarmannalaganna sé fjallað á ítarlegan hátt um það hvernig staðið skuli að stofnun ábyrgða og um efni og form ábyrgðarmannasamninga. Þar sé að finna ítarlegar reglur um þann undirbúning sem þurfi að eiga sér stað, svo ábyrgðarskuldbinding geti stofnast. Ef skilyrði laganna um form og efni eru ekki uppfyllt stofnist ábyrgð ekki. Í 4. – 6. gr. laganna sé kveðið á um skýlausa skyldu lánveitanda til að meta greiðslugetu lántaka með öflun greiðslumats og nauðsyn þess að gera sérstakan ábyrgðarsamning þar sem öll atriði sem talin eru upp í 5. gr. komi fram. Slíkur samningur skuli vera skriflegur. Óumdeilt sé að stefnandi sinnti ekki ofangreindum skilyrðum með nokkrum hætti í tilfelli stefndu. Stefnandi hafi sem lánastofnun haft yfirburðastöðu gagnvart stefndu bæði hvað varðar fjárhagslegan styrk og þekkingu, auk þess sem öll skjalgerð og undirbúningur varðandi stofnun ábyrgðarinnar stafaði frá stefnanda. Stefnda hafi mátt sín lítils gagnvart kröfu stefnanda um sjálfskuldarábyrgð hennar á yfirdráttarheimild meðstefndu Leðuriðjunnar ehf. undir hótunum stefnanda um að það félag yrði keyrt í þrot. Allan vafa um hvort ábyrgð hafi stofnast beri að túlka stefnanda í óhag.

             Til vara byggir stefnda á því að ef dómurinn fellst ekki á að ábyrgðarskuldbindingin falli undir lög um ábyrgðarmenn þá falli hún engu að síður undir samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 2001. Í ábyrgðaryfirlýsingunni sem stefnandi hafi samið einhliða sé vísað til samkomulagsins um stofnun ábyrgðarskuldbindingarinnar og sérstaks upplýsingabæklings stefnanda um sjálfskuldarábyrgð. Þar segi jafnframt að stefndu hafi verið kynntar reglur um gerð greiðslumats. Þrátt fyrir að samkomulagið taki almennt ekki til ábyrgða gagnvart fyrirtækjum hindri það ekki að aðilar geti samið sig undir gildissvið þess í slíkum tilvikum. Í umræddu samkomulagi megi finna skilyrði og skyldur sem fjármálafyrirtæki þurfi að uppfylla svo að gild ábyrgð stofnist og séu þau skilyrði um margt sambærileg þeim er lögfest voru með lögum um ábyrgðarmenn. Séu þau ekki uppfyllt er ábyrgðin ógildanleg. Umrætt samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklega sé eiginlegur þriðjamannslöggerningur. Það liggi fyrir að aðilar sömdu samkvæmt hinu staðlaða eyðublaði um stefnanda varðandi yfirlýsingu stefndu um sjálfskuldarábyrgð að samkomulagið ætti við um lögskipti aðila. Þrátt fyrir að aðilar hafi samið sig undir ákvæði samkomulagsins hafi stefnandi í engu sinnt þeim skyldum sem á honum hvíldu við stofnun ábyrgða samkvæmt samkomulaginu og vísar stefnda til fyrri umfjöllunar um vanefndir stefnanda á að sinna þeim skyldum, en skyldur stefnanda við stofnun ábyrgða samkvæmt samkomulaginu séu um margt sambærilegar við þær kröfur sem lögin gera til stofnunar ábyrgða. Leiði vanefndir stefnanda við þessar aðstæður því til þess að ábyrgðarskuldbinding stefndu sé ógildanleg. Krefst stefnda því sýknu af kröfum stefnanda, enda skuli fella ábyrgðaryfirlýsinguna úr gildi með vísan til umrædds samkomulags, einkum 1.-4. gr. þess og 36. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

             Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, einkum I. og II. kafla laganna. Þá vísar stefnandi til Samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 2001 og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

Niðurstaða

Í máli þessu krefur stefnandi stefndu, Leðuriðjuna ehf., um yfirdráttarskuld samkvæmt tékkareikningi ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 3. ágúst 2011 er reikningnum var lokað. Nam skuldin þá 11.105.823 krónum. Ekki er sótt þing í málinu af hálfu Leðuriðjunnar ehf. en félaginu er þó réttilega stefnt. Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 verður málið gagnvart félaginu því dæmt eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda að því leyti sem það er samrýmanlegt framkomnum gögnum. Þar sem framlögð gögn eru í samræmi við kröfur stefnanda á hendur stefndu Leðuriðjunni ehf. ber að taka kröfur stefnanda til greina að öllu leyti hvað félagið varðar.

             Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefndu, Eddu Hrönn, á yfirlýsingu hennar um sjálfskuldarábyrgð vegna greiðslu yfirdráttar á tékkareikningi meðstefndu Leðuriðjunnar ehf., sem stefnda undirritaði 29. janúar 2010. Samkvæmt henni ábyrgðist stefnda sem sjálfskuldarábyrgðaraðili greiðslu skuldar Leðuriðjunnar ehf. við stefnanda og nam hámarksfjárhæð sjálfskuldarábyrgðarinnar 11.000.000 króna. Stefnandi krefst þeirrar fjárhæðar úr hendi stefndu óskipt með stefndu Leðuriðjunni ehf. á grundvelli meginreglna um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga. Krefst stefnandi dráttarvaxta af umstefndri fjárhæð frá 3. ágúst 2011, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, er reikningnum var lokað. Stefnda undirritaði einnig yfirlýsinguna fyrir hönd reikningseiganda en hún er fyrirsvarsmaður félagsins og er henni jafnframt stefnt í málinu fyrir hönd þess.

             Ágreiningur máls þessa lýtur að gildi ábyrgðaryfirlýsingar stefndu Eddu Hrannar. Heldur stefnda því fram að sjálfskuldarábyrgð hennar sé ógild frá upphafi þar sem stefnandi hafi við stofnun hennar ekki farið að ákvæðum laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn eins og honum hafi borið að gera. Ekkert greiðslumat hafi farið fram á lántakanda, Leðuriðjunni ehf., enginn skriflegur ábyrgðarsamningur hafi verið gerður við stefndu auk þess sem henni hafi ekki verið gerð grein fyrir hvað fólst í raun í ábyrgð hennar í ljósi bágrar fjárhagsstöðu lántakanda. Stefnandi heldur því aftur á móti fram að lög nr. 32/2009 eigi ekki við um ábyrgð stefndu og vísar þar um til 2. mgr. 2. gr. laganna sem undanþiggi gildissviði laganna ábyrgð sem gefin sé í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans. Ljóst sé að ábyrgðin hafi verið veitt í þágu atvinnurekstrar stefndu þar sem hún hafi verið fyrirsvarsmaður, prókúruhafi, hluthafi og stjórnarmaður í fyrirtækinu og sem slík hafi hún haft fjárhagslegan ávinning af því að ábyrgðin var gefin svo fyrirtækið gæti haldið áfram rekstri. Stefnda vísar um skýringu ákvæðisins til nefndarálits viðskiptanefndar Alþingis þar sem fram komi að með eigin atvinnurekstri sé átt við „atvinnurekstur þar sem viðkomandi þiggur meginhluta launa sinna.“ Stefnda hafi á tímabilinu desember 2009 til ágúst 2011 haft um 50.000 krónur í laun frá fyrirtækinu. Greiðslurnar hafi ekki verið hugsaðar sem launagreiðslur enda dugi þeir fjármunir skammt til framfærslu og geti því aldrei verið meginhluti tekna viðkomandi einstaklings. Þá eigi seinni hluti ákvæðisins við um það þegar ábyrgðarmaður þiggur greiðslu fyrir að veita ábyrgð en það eigi ekki við um stefndu.

             Stefnda, Edda Hrönn, var á þeim tíma er ábyrgðin var veitt hluthafi og stjórnarmaður í Leðuriðjunni ehf. auk þess sem hún sat í framkvæmdastjórn félagsins, var fyrirsvarsmaður þess og prókúruhafi. Í aðilaskýrslu hennar fyrir dóminum kom fram að hún hefði á þessum tíma ekki haft aðrar tekjur en umræddar 50.000 krónur og að þær hefðu verið hugsaðar til þess að hún héldi lífeyrisréttindum sínum. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa haft tekjur annars staðar frá. Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 segir að með ábyrgðarmanni samkvæmt ákvæðum laganna sé átt við einstakling sem gengst persónulega í ábyrgð eða veðsetur tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans. Dómurinn telur að í ljósi stöðu stefndu hjá félaginu og sökum þess að hún hafði allar sínar tekjur frá fyrirtækinu verði að telja að ábyrgð hennar hafi verið veitt í þágu atvinnurekstrar hennar í skilningi áðurnefnds ákvæðis. Verður því að fallast á með stefnanda að tengsl stefndu við félagið geri það að verkum að ábyrgð hennar falli ekki undir ákvæði laga nr. 32/2009. Verður stefnda því ekki sýknuð á þeim grundvelli að stefnandi hafi ekki farið að ákvæðum laganna varðandi stofnun ábyrgðarinnar.

             Stefnda heldur því einnig fram að ábyrgð hennar sé ógild frá upphafi þar sem ekki hafi verið farið að ákvæðum Samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sem stefnandi hafi verið aðili að og er frá árinu 2001. Samkvæmt ákvæðum þess hafi stefnanda borið að meta greiðslugetu fyrirtækisins og tryggja að stefnda sem ábyrgðarmaður hafi kynnt sér niðurstöðu þess áður en hún gekkst í ábyrgðina. Stefnandi heldur á hinn bóginn fram að ákvæði samkomulagsins geti ekki átt við um stefndu þar sem það eigi samkvæmt orðalagi sínu og efni einungis við um þau tilvik er einstaklingur gangist í ábyrgð vegna skulda einstaklings. Þá hélt stefnandi því fram í munnlegum málflutningi að samkomulaginu hefði verið sagt upp er lög um ábyrgðarmenn tóku gildi. Tilvísun til samkomulagsins í yfirlýsingu stefndu um sjálfskuldarábyrgð geti því enga þýðingu haft og hafi í raun verið mistök. Stefnda mótmælti þessari málsástæðu stefnanda sem of seint fram kominni. Ekki er gert ráð fyrir því að í stefnu sé fjallað um hugsanlegar málsástæður sem stefndi kann að bera fyrir sig í greinargerð taki hann til varna í máli heldur svarar stefnandi slíku í síðasta lagi við munnlegan flutning máls. Verður því ekki fallist á að málsástæða þessi sé of seint fram komin. Á hinn bóginn er ekkert í gögnum málsins sem styður þessa málsástæðu stefnanda. Er hún því með öllu órökstudd og verður henni því hafnað.

             Í umræddri ábyrgðaryfirlýsingu sem stefnda undirritaði segir: „Ég undirrituð/aður sjálfskuldarábyrgðaraðili hef kynnt mér efni ábyrgðaryfirlýsingarinnar, skilmála og upplýsingabækling bankans um sjálfskuldaábyrgð. Jafnframt hafa mér verið kynntar reglur um gerð greiðslumats hjá reikningshafa, allt í samræmi við „Samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga“ sem Arion banki hf. er aðili að. Ábyrgðarmaður lýsir því yfir að, eignir hans standi vel fyrir þeim skuldbindingum sem á hann kunna að falla vegna ábyrgðarinnar. Um leið lýsir hann því yfir að greiðsluskyldan muni ekki raska fjárhagslegri stöðu hans að neinu marki.“ Þá segir þar fyrir neðan „Greiðslugeta reikningseiganda hefur verið metin og hafa undirritaðir sjálfskuldarábyrgðaraðilar kynnt sér það greiðslumat með hans samþykki.“ Fyrir framan þennan texta er reitur en í hann hefur ekki verið hakað.

             Stefnda byggir á því í greinargerð sinni að í ljósi þess að stefnandi hafi ekki farið að ákvæðum títtnefnds samkomulags er ábyrgð stefndu var fengin beri að víkja henni til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Ekki er í greinargerðinni nánar vikið að því hvernig þau sjónarmið sem fram koma í 2. mgr. 36. gr. og áhrif eiga að hafa á sanngirnismatið eigi við í tilviki stefndu. Gerði lögmaður stefndu nokkra grein fyrir því við munnlegan flutning málsins. Þótt telja verði að fullt tilefni hafi verið til þess af hálfu stefndu að reifa nánar þessa málsástæðu í greinargerð sinni verður að telja nægilega fram komið að byggt sé á því að vegna atvika við samningsgerðina og aðstöðumunar sem verið hafi með aðilum beri að víkja ábyrgð stefndu til hliðar þar sem það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hana fyrir sig, sbr. 1. mgr. 36. laganna.

             Eins og rakið er hér að framan skrifaði stefnda, Edda Hrönn, undir yfirlýsingu um að hafa kynnt sér reglur um gerð greiðslumats í samræmi við Samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Þótt fallist yrði á það með stefndu að með tilvísun til samkomulagsins hafi efni þess þar með orðið hluti yfirlýsingar stefndu um sjálfskuldarábyrgð verður ekki fram hjá því litið að stefnda var og er fyrirsvarsmaður fyrirtækisins og skrifaði sem slík undir yfirlýsinguna fyrir hönd Leðuriðjunnar ehf. sem reikningseiganda. Þá liggur fyrir, eins og áður hefur komið fram, að stefnda var á þessum tíma hluthafi og stjórnarmaður í Leðuriðjunni ehf. auk þess sem hún sat í framkvæmdastjórn félagsins, var fyrirsvarsmaður þess og prókúruhafi. Aðspurð fyrir dómi hvernig fjárhagsstaða Leðuriðjunnar ehf. hafi verið er hún ritaði undir ábyrgðina sagði stefnda að hún hefði verið „alveg afleit“. Stefnda hafði því stöðu sinnar vegna upplýsingar og yfirsýn yfir afkomu fyrirtækisins og var kunnugt um laka fjárhagsstöðu þess. Verður því að ætla að henni hafi verið ljós sú áhætta sem hún tók með því að skrifa undir ábyrgðaryfirlýsinguna. Stefnda gekkst allt að einu í ábyrgð fyrir fyrirtækið. Verður að telja að við þessar aðstæður hafi greiðslumat á fyrirtækinu verið þýðingarlaust. Þá liggur ekkert fyrir í málinu um að hún hefði ekki gengist í ábyrgð hefði reikningseigandinn, fyrirtækið sem hún var í forsvari fyrir, verið greiðslumetið. Kvaðst stefnda ekki hafa getað hugsað sér að koma starfsmönnum fyrirtækisins „á vonarvöl“ sem yrði raunin „ef ég ekki berðist alveg eins og ég gæti“ eins og fram kom í aðilaskýrslu hennar fyrir dómi. Hún hefði haft þá valkosti að skrifa undir ábyrgðaryfirlýsinguna eða borga skuldina upp. Það hefði hún ekki getað og „þetta hefði verið það eina í stöðunni“. Þá verður ekki framhjá því litið að með undirritun sinni lýsti stefnda því yfir sem ábyrgðarmaður að eignir hennar stæðu vel fyrir þeim skuldbindingum sem á hana kynnu að falla vegna ábyrgðarinnar og að greiðsluskyldan myndi ekki raska fjárhagslegri stöðu hennar að neinu marki. Engin gögn í málinu styðja þá fullyrðingu stefndu að hún hafi verið beitt þrýstingi af hálfu starfsmanna stefnanda til að gangast í ábyrgð vegna skulda fyrirtækisins. Með hliðsjón af atvikum við samningsgerðina, stöðu stefndu hjá fyrirtækinu og þeim upplýsingum sem hún bjó yfir um fjárhagsstöðu þess þykir stefnda ekki hafa sýnt fram á að þau tilvik sem tilgreind eru í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 eigi að leiði til þess að það sé ósanngjarnt af stefnanda eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera ábyrgðaryfirlýsingu hennar fyrir sig. Eru því að mati dómsins engin efni til að víkja ábyrgðaryfirlýsingunni til hliðar á grundvelli 1. mgr. 36. gr. samningalaga. Verður stefnda því ekki heldur sýknuð á þessum grundvelli. Þá er með engu móti hægt að fallast á þá málsástæðu stefndu fyrir sýknukröfu sinni að í áðurnefndu samkomulagi hafi falist þriðjamannslöggerningur til hagsbóta fyrir stefndu sem ábyrgðarmann. Samkvæmt ofansögðu er stefnda skuldbundin samkvæmt yfirlýsingu sinni um sjálfskuldarábyrgð á yfirdráttarskuld stefndu Leðuriðjunnar ehf. við stefnanda.

             Að öllu þessu virtu verður krafa stefnanda tekin til greina eins og hún er fram sett, en ekki er tölulegur ágreiningur í málinu og upphafstíma dráttarvaxta hefur ekki verið mótmælt af hálfu stefndu.

                Eftir þessum málsúrslitum verður stefndu gert að greiða stefnanda óskipt málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

                Hólmfríður Grímsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan. Settur dómari tók við meðferð málsins 6. mars sl.

D Ó M S O R Ð:

             Stefndi, Leðuriðjan ehf., greiði stefnanda, Arion banka hf., 11.105.823 krónur með dráttavöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. ágúst 2011 til greiðsludags. Þar af greiði stefnda, Edda Hrönn Atladóttir, óskipt með stefnda, Leðuriðjunni ehf., stefnanda 11.000.000 króna með dráttarvöxtum frá 3. ágúst 2011 til greiðsludags.

             Stefndu greiði stefnanda óskipt 500.000 krónur í málskostnað.