Hæstiréttur íslands

Mál nr. 359/2012


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Ávana- og fíkniefni
  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Upptaka
  • Ökuréttarsvipting
  • Skilorðsrof


                                     

Fimmtudaginn 14. febrúar 2013.

Nr. 359/2012.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Gísla Styff

(Jón Egilsson hrl.)

Þjófnaður. Ávana- og fíkniefni. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Upptaka. Ökuréttarsvipting. Skilorðsrof.

G var auk fíkniefnalagabrots sakfelldur fyrir þjófnað og umferðarlagabrot með því að hafa, í félagi með öðrum, farið í heimildaleysi á bifreið inn í bifreiðakjallara og stolið þaðan verkfærum, en G var ófær um að stjórna bifreiðinni vegna áhrifa ávana- og fíkniefna. Með brotunum rauf G skilorð samkvæmt fyrri dómi. Með vísan til 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár og 3 mánuði. Var G að auki sviptur ökuréttindum í 2 ár og honum gert að sæta upptöku á fíkniefnum og fjármunum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. maí 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing hans verði milduð. Í báðum tilvikum krefst hann þess að hafnað verði kröfu um upptöku á 418.000 krónum.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verða staðfestar niðurstöður hans um sakfellingu ákærða, refsingu, upptöku og sviptingu ökuréttar, svo og um sakarkostnað. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var refsing ákærða ákveðin meðal annars með tilliti til þess að hann hafi með þeirri háttsemi, sem hann er sakfelldur fyrir, rofið skilorð samkvæmt dómi Hæstaréttar 2. október 2008 í máli nr. 53/2008. Í þeim dómi var ákveðið að kæmi til fullnustu refsingarinnar, sem ákærða var þar gerð, skyldi dragast frá henni gæsluvarðhald, sem hann sætti 16. til 22. desember 2005. Að teknu tilliti til þess verður héraðsdómur staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.

Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur er óraskaður að öðru leyti en því að frá refsingu ákærða, Gísla Styff, dregst gæsluvarðhald, sem hann sætti 16. til 22. desember 2005.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 401.070 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 3. apríl 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var að aflokinni aðalmeðferð 7. mars sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 6. desember 2011, á hendur Gísla Styff, kt. [...], [...], og X, kt. [...], [...], [...], „á hendur báðum fyrir eftirtalin brot:

I.

Fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 2. janúar 2011, í félagi farið í heimildarleysi inn í bifreiðakjallara að [...] í [...], með því að ákærði X fór inn um ólæstar dyr og opnaði bílskúrshurð kjallarans innan frá þangað sem ákærði Gísli ók bifreiðinni [...] og í kjölfarið stolið þaðan verkfærum samtals að verðmæti kr. 600.000, sem fundust við leit í bifreiðinni.

Þetta telst varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, sunnudaginn 2. janúar 2011, að [...] í [...], haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 85,14 g af amfetamíni, 2,07 g af hassi og 1 kannabisplöntu sem lögregla fann við leit.

Þetta telst varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Á hendur Gísla Styff:

III.

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, sunnudaginn 2. janúar 2011, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökuréttindum og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 1200 ng/ml af amfetamíni) um [...] í [...].

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr. og 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Einnig er þess krafist að Gísli Styff verði dæmdur til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006. Þá er þess krafist að gerð verði upptæk 85,14 g af amfetamíni, 2,07 g af hassi og 1 kannabisplanta sem hald var lagt á, samkvæmt 6. og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Þá er krafist upptöku á kr. 418.000 sem lagt var hald á í málinu, sbr. 7. mgr. 5. gr. sömu laga.“

Af hálfu ákærða Gísla er aðallega krafist sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er þess krafist að upptöku á 418.000 krónum verði hafnað. Loks er krafist málsvarnarlauna.

Af hálfu ákærða X er krafist sýknu af því ákæruefni, samkvæmt II. lið ákæru, að fíkniefnin hafi verið í vörslum ákærða í sölu- og dreifingarskyni, en að öðru leyti er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er þess krafist að sakarkostnaður verði lagður að hluta til á ríkissjóð, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun.

I.

Í frumskýrslu lögreglu, dags. 2. janúar 2011, kemur fram að kl. 06:55 þann sama dag hafi borist tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra um innbrotsboð frá bílakjallara að [...]. Einnig hafi komið fram í tilkynningunni að öryggisvörður frá [...] væri á leið á vettvang. Í skýrslunni segir að kl. 05.50 hafi lögregla einnig verið send á þennan sama vettvang vegna innbrotsboða, en þá hefði ekkert grunsamlegt komið í ljós.

Í skýrslunni segir að þegar lögreglumenn hafi verið á vettvangi fyrir framan bílskúrshurðina inn í bílakjallarann ásamt áðurgreindum öryggisverði hafi bílskúrshurðin opnast og fyrir innan hana hafi staðið ákærði X og verið að opna hurðina fyrir bifreið með skráningarmerkið [...], en henni hafi ekið ákærði Gísli. Hafi þeir verið spurðir að því hvaða erindi þeir ættu í bílakjallarann, en þeir hafi ekki getað svarað því. Hafi þeir því verið handteknir kl. 07:15 grunaðir um innbrot. Í skýrslunni segir að fundist hafi megn kannabislykt af ákærða X. Síðan segir að ákærðu hafi verið fluttir á lögreglustöðina í [...] í sitt hvorri lögreglubifreiðinni og þar hafi þeir verið vistaðir í fangaklefa. Í þágu rannsóknar málsins var samdægurs gerð leit í bifreiðinni [...] og á heimili ákærða, Gísla Styff, að [...], í bæði skiptin með heimild ákærða Gísla.

Í skýrslu lögreglu um húsleit að [...] segir að við upphaf leitarinnar hafi ákærði Gísli framvísað poka með pósti úr viðkomandi húsnæði og talsverðu magni af bréfum og öðrum pósti, sem legið hafi á borði í stofunni.

Við leit í ísskáp hafi fundist lítil Adidas-íþróttataska í frystihólfinu, sem í hafi verið mikið magn lyfja, veski með peningum í og ætluð fíkniefni, þ.e. amfetamín og hass. Í veskinu hafi verið skilríki ákærða Gísla og þá hafi hluta lyfjanna í töskunni verið ávísað á hann. Í ísskápnum sjálfum hafi m.a. fundist skál með hvítu dufti í, ætlað íblöndunarefni. Þá hafi þar verið flaska með hvítu dufti í, einnig ætlað íblöndunarefni.

Á borði í stofu, undir fatnaði, hafi fundist kannabisplanta í glærum, litlum potti. Engin lýsing hafi verið á plöntunni, en hún hafi verið vel lifandi og nýlega vökvuð.

Þá segir í skýrslunni að mikið dót hafi verið um alla íbúðina. Inn af stofunni hafi verið lítið herbergi með rúmi Gísla, en aðeins hafi verið svefnaðstaða fyrir einn í íbúðinni. Enginn fatnaður eða aðrir munir frá ákærða X hafi fundist í íbúðinni. Í lok skýrslunnar segir að lögreglumenn hafi við framhaldsrannsókn málsins farið með ákærða x og gert leit á [...] og fengið staðfest að þar byggi ákærði X.

Að morgni sunnudagsins 2. janúar 2011 var tekið blóðsýni úr ákærða Gísla og þá lét ákærði í té þvagsýni. Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði mældist amfetamín og kódein í þvagsýninu. Í blóði mældist 1200 ng/ml af amfetamíni, en kódein var hins vegar ekki í mælanlegu magni í blóðinu.

Á meðal gagna málsins er einnig matsgerð sömu rannsóknastofu vegna rannsóknar á þremur efnissýnum úr þeim fíkniefnum, sem haldlögð voru við rannsókn málsins. Þar kemur fram að efnissýni hafi innhaldið amfetamín og að styrkur amfetamínsbasa í sýninu hafi verið 8,6% og 9,1%, sem samsvari 12% af amfetamínsúlfati.

Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dóminum og hjá lögreglu eftir því sem þurfa þykir:

Ákærði Gísli neitaði alfarið sök í málinu. Aðspurður um atvik samkvæmt I. kafla ákæru sagði ákærði að meðákærði X hefði hringt í hann og beðið hann um að koma og hitta sig, en ákærði sagðist búa þarna skammt frá. Sagðist ákærði hafa farið og hitt meðákærða við [...], en ákærði hefði opnað fyrir honum dyrnar inn í bílageymsluna. Hann sagði að meðákærði hefði verið á bifreiðinni og í raun verið að fara út. Sagðist ákærði hafa haldið að meðákærði hefði verið í heimsókn þarna í húsinu og væri á leiðinni heim til sín og sagðist ákærði hafa ætlað að fara með honum. Ákærði sagðist ekki hafa séð neitt dót í bifreiðinni, enda ekkert verið að velta því fyrir sér. Sagðist ákærði ekki hafa haft hugmynd um að meðákærði hefði verið að stela einhverju þarna. Þegar þeir hefðu verið að aka út úr kjallaranum hefði meðákærði farið út úr bifreiðinni og opnað bílskúrshurðina, en sjálfur sagðist ákærði hafa setið farþegamegin í bifreiðinni. Hann sagði að ekki hefði verið hægt að opna hurðina þeim megin að innan því læsingin hefði verið biluð. Ákærði sagði að þegar meðákærði hefði opnað bílskúrshurðina hefði lögreglan komið beint inn í kjallarann eins og hún hefði staðið fyrir utan hurðina. Aðspurður sagðist ákærði ekki hafa séð nein verkfæri í bifreiðinni.

Aðspurður af verjanda sínum sagðist ákærði eiga við geðræn vandamál að stríða. Hann sagði að raunveruleika- og tímaskyn sitt væri laskað og þá sagði hann að stundum færi tal hans út í eintómt rugl án þess að hann áttaði sig á því. Einnig sagðist ákærði vera bæði með rangskynjanir og ofskynjanir. Sagðist ákærði hafa verið illa haldinn af þessum einkennum á þeim tíma sem um ræðir í málinu. Ákærði sagðist vera á örvandi lyfjum, sem væru amfetamínskyld. Hann sagðist hafa tekið meðákærða undir sinn verndarvæng því hann væri afar illa upplýstur og hefði verið að umgangast fólk, sem væri í rugli. Hann sagði að meðákærði byggi einn og héldi sitt eigið heimili, en væri þó með lyklavöld að heimili ákærða. Hann sagði að meðákærði hefði dvalist mikið hjá honum, sérstaklega á þeim tíma sem um ræðir í ákæru. Ákærði sagði að meðákærði hefði fengið bifreiðina [...] lánaða hjá [...].

Ákærði var því næst spurður út í misræmi, sem væri á skýrslu hans hjá lögreglu og hér fyrir dómi. Ákærða var bent á að í lögregluskýrslu hefði hann sagt að hann hefði farið með meðákærða niður í kjallarann í umrætt sinn. Sagðist ákærði hafa sagt þetta hjá lögreglu til að verja meðákærða. Ákærða var þá bent á að í lögregluskýrslu hefði hann samt sagt að meðákærði hefði stolið verkfærunum. Sagði ákærði þá að þessi verkfæri hefðu verið honum óviðkomandi.

Ákærði var þá inntur eftir því af hverju hann hefði breytt framburði sínum nú og væri hættur að verja meðákærða og svaraði ákærði því svo til að það væri vegna þess að málið væri farið að bitna á honum sjálfum. Sagðist ákærði ekki hafa gert sér grein fyrir því að það myndi verða raunin þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu.

Ákærða var því næst bent á það að í lögregluskýrslunni hefði hann lýst því hvernig þeir meðákærðu hefðu farið inn í kjallarann. Sagðist ákærði ekki muna eftir því að hafa sagt þetta hjá lögreglu. Þá sagði hann að lögreglan hefði umorðað hlutina í skýrslunni.

Þá var ákærða bent á að í lögregluskýrslu hefði hann borið um það að hafa farið þarna inn með meðákærða fyrr um nóttina og að þá hefði meðákærði tekið einhvern poka með bréfum í. Sagði ákærði þá að ekkert væri að marka þetta þar sem skýrslan væri ekki rétt. Þá sagði hann að ekki væri rétt að verjandi hans hefði verið viðstaddur skýrslutökuna.

Loks var ákærða bent á að í lögregluskýrslu hefði hann borið um það að hafa skutlað meðákærða á staðinn. Endurtók ákærði þá að ekkert væri að marka þetta því lögregluskýrslan væri ekki rétt. Sagðist ákærði ekki hafa átt neinn þátt í neinu þarna.

Ákærði var því næst spurður út í málsatvik að því er varðar II. kafla ákæru. Sagðist ákærði ekki hafa átt umrædd fíkniefni og sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir að þau væru geymd á heimili hans. Ákærða var þá bent á að fíkniefnin hefðu fundist í tösku í frystihólfi ísskápsins, en í töskunni hefðu einnig verið skilríki ákærða, lyf, sem ávísað hafði verið á hann, og peningar. Var ákærði beðinn um skýringar á þessu. Ákærði sagðist þá eiga töskuna og sagðist hann hafa geymt hana í skúffu í eldhúsinu. Sagðist hann hafa séð hana þar daginn áður en húsleitin fór fram. Meðákærði hlyti að hafa tekið töskuna og sett hana í frystinn, en ákærði sagðist ekki vita af hverju. Ákærði sagðist hafa átt peningana, sem fundust í töskunni, skilríkin og lyfin, en ekki fíkniefnin. Ákærði sagðist ekkert nota frystihólfið á ísskápnum og sagði að þessi fíkniefni hefðu algjörlega farið fram hjá sér. Ákærði var inntur eftir því hvernig hann hefði aflað þessara peninga og svaraði ákærði því til að hann væri öryrki. Sagðist hann fá 200.000 krónur í bætur frá Tryggingastofnun á mánuði og ekki veita sér mikið og því hefð hann getað lagt peninga fyrir. Sagðist hann m.a. gera það til að styrkja [...], sem búsett væri í [...]. Þá staðfesti ákærði að hann byggi hjá [...] og væri jafnframt í fæði hjá þeim. Hann sagðist hafa geymt peningana á heimili sínu þar sem hann treysti ekki bönkunum fyrir þeim.

Ákærði sagði að meðákærði hefði verið með lykla að heimili hans og hann hefði getað komið og farið hvenær sem hann vildi allt frá því skömmu fyrir jólin 2010. Ákærða var þá bent á að í lögregluskýrslu hefði hann borið um það að meðákærði væri búinn að dvelja heima hjá honum meira og minna allt síðasta ár. Ákærði gaf ekki skýringu á því. Hann sagði hins vegar að ákærði hefði gist hjá honum af og til. Ákærða var þá bent á að samkvæmt gögnum málsins væri einungis svefnaðstaða fyrir einn í herbergi ákærða og að fatnaður eða munir frá meðákærða hefðu ekki fundist á heimili hans. Ákærði sagði þá að þarna væri stór hornsófi sem hægt væri að sofa á og þá sagði ákærði að mikið væri af fatnaði í vaskahúsi á heimili foreldra hans.

Ákærða var bent á að í ísskápnum hefðu fundist 320 g af hvítu efni og plastflaska með 130 g af sams konar efni, en meðákærði hefði borið um það að þetta hefðu verið íblöndunarefni. Ákærði sagði að um hefði verið að ræða mjólkursykur, sem hann hefði átt frá árinu 2005. Sagðist ákærði nota hann sem hægðalosandi lyf. Þá sagðist hann halda að meðákærði hefði sett mjólkursykurinn inn í ísskáp.

Ákærði sagði að meðákærði hefði átt kannabisplöntuna, sem haldlögð var á heimili hans, en ákærði sagðist ekki hafa vitað af henni í stofunni.

Ákærði var því næst spurður út í málsatvik samkvæmt III. kafla ákæru. Ákærða var bent á að í lögregluskýrslu kæmi fram að hann hefði verið undir stýri á bifreiðinni þegar lögregla kom að þeim meðákærða. Sagði ákærði þá að hann hefði ekki setið undir stýri á bifreiðinni, heldur hefði hann setið farþegamegin. Þegar lögreglan hefði komið þarna að hefði hann hins vegar farið út úr bifreiðinni bílstjóramegin þar sem ekki hefði verið hægt að opna hurðina að innanverðu farþegamegin. Sagðist ákærði hins vegar hafa játað fyrir lögreglu að hafa ekið bifreiðinni til að verja meðákærða, en lögreglan hefði ásakað meðákærða um að vera undir áhrifum fíkniefna þar sem af honum hefði verið kannabislykt. Sagðist ákærði ekki gera sér grein fyrir af hverju hann ákvað að verja ákærða og taka brotið á sig. Ákærða var þá bent á að að minnsta kosti tveir lögreglumenn hefðu orðið vitni að akstri hans samkvæmt lögregluskýrslum. Sagði ákærði þá að bifreiðin hefði ekki verið á ferð heldur stopp fyrir framan dyrnar.

Ákærða var bent á að samkvæmt blóðrannsókn hefði fundist amfetamín í blóði hans. Sagði ákærði þá að þetta tengdist lyfinu Ritalin Uno, sem hann tæki að læknisráði og væri amfetamínskylt.

Ákærði Gísli gaf skýrslu hjá lögreglu 2. janúar 2011. Í skýrslunni kvaðst ákærði hafa farið með meðákærða X í kjallarann og kvaðst hafa ekið meðákærða á staðinn. Meðákærði hefði farið inn um ólæstar dyr og opnað stóru hurðina innan frá. Þá sagði ákærði að þeir meðákærði hefðu tekið þarna eitthvert dót, sem hann kvaðst ekki hafa skoðað, en meðákærði hefði sett dótið í bifreiðina. Þá viðurkenndi ákærði að hafa farið með meðákærða í kjallarann áður þessa sömu nótt og að þá hefði meðákærði tekið einn eða tvo poka með bréfum í.

Að því er fíkniefnalagabrotið varðaði bar ákærði um það að meðákærði hefði átt öll fíkniefnin, sem fundist hefðu á heimili hans, og sagði að meðákærði hefði dvalið á heimili hans meira og minna allt síðastliðið ár.

Ákærði viðurkenndi hins vegar að hafa ekið bifreiðinni þegar lögreglan hafði afskipti af honum, en sagðist ekki hafa vitað að hann væri ekki með ökuréttindi. Hann vildi hins vegar ekkert tjá sig um það hvort hann hefði ekið bifreiðinni undir áhrifum fíkniefna og neitaði því að hafa neytt fíkniefna fyrir aksturinn.

Ákærði X játaði sök í málinu að því undanskildu að hann sagðist ekki hafa verið með fíkniefni samkvæmt II. kafla ákæru í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni.

Ákærði sagði að meðákærði Gísli hefði ekkert komið að innbrotinu í bifreiðakjallarann á [...]. Sagðist hann hafa vitað af umræddum verkfærum í kjallaranum og sagðist hafa fengið bifreið lánaða hjá [...] og farið og hlaðið hana af alls konar verkfærum úr bílakjallaranum. Ákærði sagðist hafa átt fíkniefni á heimili meðákærða og sagðist hann ekki hafa viljað að meðákærði kæmist að því. Hann hefði því hringt í meðákærða og beðið hann um að koma til sín í bílakjallarann. Sagðist ákærði hafa ætlað að fara með verkfærin heim til sín og setja þar í geymslu. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa verið búinn að hugsa út í hvað hann ætlaði að gera í framhaldinu. Þegar meðákærði hefði komið til hans í bílakjallarann hefði hann verið búinn að hlaða bifreiðina. Þegar þeir hefðu verið á leiðinni út, þ.e. hann að aka bifreiðinni, hefði lögreglan verið beint fyrir utan kjallarann Aðspurður sagðist ákærði hafa komið fíkniefnunum fyrir á heimili meðákærða fyrr um daginn.

Ákærði sagðist hafa farið inn í bílakjallarann fyrr sömu nótt, en hann sagðist hafa verið í partíi í blokkinni við hliðina á umræddu húsi. Hann sagðist þá hafa tekið póst úr bílageymslunni og farið með heim til meðákærða. Sagði ákærði að engin rökrétt hugsun hefði ráðið þessum gerðum hans. Ákærði tók fram að meðákærði væri búinn að reynast honum mjög vel og hjálpa sér mikið. Þá væri meðákærði búinn að standa sig mjög vel og því vildi hann alls ekki að hann lenti í einhverju klandri vegna sín.

Ákærða var bent á að í lögregluskýrslu kæmi fram að meðákærði hefði verið að aka bifreiðinni í umrætt sinn. Ákærði sagði þá að farþegahurðin á bifreiðinni hefði verið biluð. Þegar lögregla hefði komið að þeim hefði hann sjálfur staðið við takkann, sem ýtt væri á til að opna bílahurðina. Einn lögreglumannanna hefði strax komið til hans og talað um að það væri kannabislykt af honum. Meðákærði hefði þá stokkið út úr bifreiðinni bílstjóramegin þar sem hann hefði ekki komist út farþegamegin. Lögreglan hefði af þessum sökum haldið að meðákærði hefði verið að aka bifreiðinni.

Að því er varðar II. kafla ákæru sagði ákærði að hann hefði átt umrædd fíkniefni. Sagðist ákærði hafa verið nýkominn með þessi efni og sagðist hann hafa ætlað að borga fyrir fíkniefnin með verkfærunum. Sagðist hann hafa hent efnunum ofan í buddu frá meðákærða og síðan inn í ísskáp, en ákærði sagði að þau geymdust best í kæli. Aðspurður sagðist ákærði hafa ætlað að selja fíkniefnin. Nánar aðspurður sagðist hann hafa fengið fíkniefnin afhent áður en hann borgaði þau. Aðspurður sagði ákærði að fíkniefnin hefðu verið vafin inn í sellófan og í mörgum pokum. Til að halda efnunum saman sagðist ákærði hafa hent þeim ofan í budduna frá meðákærða, en ofan í henni hefðu einnig verið skilríki og lyf frá meðákærða. Ákærði sagðist einnig hafa átt kannabisplöntuna.

Ákærði sagðist hafa verið með lykla að heimili meðákærða og sagðist hafa dvalið mikið á heimili meðákærða frá því í desember. Sagðist hann hafa dvalið meira og minna á heimili ákærða yfir jólin þar sem hann væri utan af landi. Ákærði sagðist hins vegar búa á [...] í [...]. Þegar ákærði var spurður hvar hann hefði gist heima hjá meðákærða sagði ákærði að um væri að ræða stórt hús á þremur hæðum.

Ákærða var bent á að skömmu eftir að hann var handtekinn hefði hann lítið viljað tjá sig um málsatvik hjá lögreglu. Hann hefði hins vegar komið á lögreglustöð nokkrum vikum síðar og játað þetta á sig. Var hann inntur eftir skýringum á þessu. Sagðist hann hafa þá reynslu að ekki væri gott að játa allt strax hjá lögreglu. Síðar hefði hann hins vegar viljað greina rétt frá málsatvikum.

Tekin var skýrsla af ákærða X hjá lögreglu 2. janúar 2011 og neitaði ákærði þá að tjá sig um málsatvik. Hinn 23. febrúar 2011 kom ákærði á lögreglustöð að eigin frumkvæði til að gefa skýrslu í málinu. Kvaðst hann hafa átt dótið, eins og ákærði orðaði það, sem fundist hefði í ísskápnum hjá meðákærða. Um hefði verið að ræða 70-100 g af spítti, sem hann hefði keypt um áramótin. Hann sagði að efnið hefði verið í „plastpoka og selló utan um, svona venjulegur innkaupapoki“. Hann kvaðst ekki vera viss hversu margar einingar um var að ræða eða hvort um blandað efni var að ræða. Aðspurður sagðist hann hafa ætlað að selja efnið í einum skammti, en það hefði klikkað. Að því er þjófnaðarbrotið varðaði sagðist ákærði hafa brotist inn í kjallarann og síðan hringt í meðákærða. Sagðist ákærði hafa verið á röltinu og séð verkfærin þegar hann hefði gengið í gegnum bílageymsluna.

Jón Gunnar S. Sigurgeirsson lögreglumaður sagðist hafa komið að málinu þegar búið hefði verið að handtaka ákærðu og færa þá á lögreglustöð. Kvaðst hann hafa yfirheyrt ákærðu og í kjölfarið framkvæmt húsleit vegna rannsóknar málsins, en við leitina hefðu fundist fíkniefni, kannabisplanta og lyf. Einnig kvaðst hann hafa verið viðstaddur leit í bifreið þeirri sem ákærðu voru á við handtöku. Vitnið staðfesti að ákærði X hefði komið á lögreglustöðina 23. febrúar 2011 til að gefa skýrslu og sagði vitnið að augljóst hefði verið að hann hefði með henni verið að taka á sig alla sökina í málinu. Í fyrsta lagi hefði ákærði X komið svona löngu síðar til að gefa skýrslu og í öðru lagi hefði hann verið stressaður og ekki getað lýst atvikum nákvæmlega. Sagði vitnið að útskýringar ákærða X hefðu ekki verið trúverðugar, en hann hefði t.d. ekki getað lýst því nákvæmlega hvar fíkniefnin voru geymd í íbúðinni eða í hvernig umbúðum þau voru. Á heimili ákærða Gísla hefðu einnig fundist íblöndunarefni og dót til að vigta fíkniefni og pakka þeim inn.

Daníel Örn Davíðsson lögreglumaður sagði að tilkynning um innbrot á [...] hefði borist lögreglu í umrætt skipti og hefði hann verið sendur þangað ásamt fleiri lögreglumönnum. Hann sagði að önnur tilkynning um innbrot á sama stað hefði borist fyrr um nóttina og hefði lögregla þá farið á staðinn, en þá hefði verið talið að um falsboð væri að ræða. Þegar þeir komu á staðinn hefði starfsmaður frá viðkomandi öryggisfyrirtæki verið á staðnum. Starfsmaðurinn hefði ekki verið með lykla að bílakjallaranum og hefðu þeir staðið fyrir framan bílskúrshurðina á bílakjallaranum þegar hurðin hefði skyndilega opnast. Ákærði X hefði staðið við hurðina og verið að opna hana, en ákærði Gísli hefði setið í ökumannssæti bifreiðarinnar og verið á leið út úr kjallaranum á bifreiðinni, en bifreiðin hefði verið í gangi. Vitnið sagði að þeir lögreglumennirnir hefðu þekkt ákærðu af fyrri afskiptum og hefðu þeir spurt ákærðu hvaða erindi þeir ættu þarna, en þeir hefðu ekki getað skýrt það. Við nánari skoðun hefði vaknað grunur um að ákærðu hefðu brotist þarna inn í þeim tilgangi að stela verðmætum, en þarna hefði verið mikið af verkfærum þar sem framkvæmdir stóðu yfir í húsinu. Ákærðu hefðu því verið handteknir vegna gruns um innbrot. Við leit í bifreiðinni hefði síðan komið í ljós að í henni var ætlað þýfi. Í kjölfarið hefði verið framkvæmd húsleit á heimili ákærða Gísla, en þar hefðu m.a. fundist fíkniefni.

Nánar aðspurt sagði vitnið að þegar hann og aðrir lögreglumenn hefðu staðið fyrir framan bílskúrshurðina á bílakjallaranum hefðu þeir orðið varir við að bifreið var ekið að hurðinni áður en hurðin opnaðist. Hann sagði að miðað við tímann sem leið frá því að þeir heyrðu bifreið ekið að hurðinni og þar til hurðin opnaðist væri ólíklegt að sá sem opnaði hurðina hefði setið í ökumannssæti bifreiðarinnar, stigið út úr henni, gengið að hurðinni og opnað hana. Hann staðfesti hins vegar að ákærði Gísli hefði setið í ökumannssæti bifreiðarinnar, sem hefði verið í gangi, og sagði hann að bílstjórahurðin hefði verið lokuð. Vitnið sagðist hafa gengið að ákærða X og rætt við hann, en lögreglumaðurinn Gissur hefði gengið að ákærða Gísla og rætt við hann. Hann sagði að bifreiðin hefði verið í lélegu ástandi, en sagðist ekki muna hvort læsing að innan hefði verið biluð.

Gissur Guðmundsson lögreglumaður sagðist hafa farið á vettvang á [...], en tilkynnt hafði verið um innbrot í kjallara hússins í tvígang þessa sömu nótt. Ekkert hefði komið í ljós í fyrra skiptið, en í síðara skiptið hefðu þeir hinkrað í góða stund fyrir framan bílahurðina á kjallaranum og heyrt bílhljóð færast nær hurðinni. Hurðin hefði síðan opnast og fyrir innan hefði bifreiðin verið og undir stýri á henni ákærði Gísli, en vitnið kvaðst hafa þekkt hann af fyrri afskiptum. Annar maður hefði staðið við hurðina og verið að opna hana. Vitnið sagðist hafa gengið beint að bifreiðinni og talað við ákærða Gísla. Vitnið sagði að bifreiðin hefði verið í gangi og bílstjórahurðin lokuð. Ekki hefði því farið á milli mála hver stjórnaði bifreiðinni. Ekki hefði komið fram hjá ákærða Gísla á vettvangi að hann hefði ekki verið að aka bifreiðinni, enda hefði verið augljóst að hann var undir stýri á henni. Þá hefði ekki komið fram hjá ákærða Gísla á vettvangi að hann hefði verið á leiðinni út úr bifreiðinni bílstjóramegin þar sem læsingin farþegamegin hefði verið biluð.

Kristín Magnúsdóttir, deildarstjóri hjá Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, sagði að í þvagi hefði fundist amfetamín og kódein. Hún sagði að í blóði hefði mælst 1200 ng/ml af amfetamíni, en kódein hefði hins vegar ekki verið í mælanlegu magni í blóði þótt það hefði verið staðfest og mælt í þvagi. Um hefði verið að ræða óvenju hátt magn amfetamíns í blóði og með því hærra sem starfsmenn rannsóknastofunnar hefðu séð. Benti magnið til mikillar og nýlegrar neyslu á amfetamíni. Vitnið sagði að beitt væri mjög sérhæfðum mælingum við rannsóknina og væri aðferðin það sérhæfð að hún aðgreindi öll amfetamínskyld efni. Eingöngu væri því um að ræða mælingu á amfetamíni. Aðspurt af verjanda sagði vitnið að virka efnið í lyfinu Ritalin Uno væri metylfenidat og hefði það ekki mælst í blóðinu, en taka yrði mikið magn af því lyfi til að það mældist í blóði. Hún sagði að ef lyfið hefði verið til staðar í blóðinu hefði það komið fram við leit rannsóknastofunnar, þótt leitin hefði beinst að amfetamíni í blóðinu.

Ákærði Gísli kom aftur fyrir dóminn. Hann sagði að þegar hann hefði stigið út úr bifreiðinni og gengið fram hjá lögreglumanninum Gissuri, sem hann sagðist þekkja, hefði Gissur sagt og virst brugðið: „Nei, ert þetta þú?“

Ákærði X kom einnig aftur fyrir dóminn og var inntur eftir því af hverju hann hefði ekki geymt fíkniefnin heima hjá sér. Sagðist ákærði hafa verið nýbúinn að fá fíkniefnin og því hefðu þau verið heima hjá meðákærða. Ákærða var bent á að í lögregluskýrslu hefði hann borið um það að hafa verið á röltinu þarna og þá séð verkfærin. Hér fyrir dómi hefði hann hins vegar borið um það að hafa farið á bifreiðinni í kjallarann. Ákærði gat ekki skýrt þetta misræmi.

Ákærði sagðist vera öryrki. Hann sagðist ekki vera í neinni neyslu og sagðist vera að vinna í sínum málum.

III.

Ákæruliður I.

Í ákærulið I er ákærðu gefið að sök að hafa í félagi farið í heimildarleysi inn í áðurgreindan bifreiðakjallara og stolið þaðan verkfærum að verðmæti 600.000 krónur.

Ákærði X hefur játað sök að því er þennan ákærulið varðar, en ákærði Gísli hefur neitað því að hafa átt nokkurn þátt í umræddu þjófnaðarbroti. Bar hann um það hér fyrir dómi að meðákærði hefði hringt í hann og beðið hann að hitta sig í bifreiðakjallaranum og hefði meðákærði opnað fyrir honum dyrnar inn í bifreiðageymsluna. Hann sagði að meðákærði hefði verið á bifreiðinni og verið á leið út. Sagðist ákærði ekki hafa haft hugmynd um að meðákærði hefði verið að stela einhverju í bifreiðakjallaranum.

Í skýrslu sinni hjá lögreglu sagðist ákærði hins vegar hafa farið með meðákærða í kjallarann og kvaðst hafa ekið meðákærða á staðinn. Lýsti ákærði því hvernig þeir meðákærði hefðu farið inn í kjallarann, þ.e. með því að meðákærði hefði farið inn um ólæstar dyr og opnað stóru hurðina innan frá. Einnig viðurkenndi ákærði að hafa farið með meðákærða í kjallarann áður þessa sömu nótt og þá hefði meðákærði tekið einn eða tvo poka með bréfum í. Framvísaði ákærði þessum pokum við húsleit á heimili sínu sama dag og skýrslutakan fór fram. Loks sagði ákærði að þeir meðákærði hefðu tekið eitthvert dót þarna í kjallaranum, sem hann hefði ekki skoðað sjálfur, en meðákærði hefði sett það í bifreiðina.

Eins og að framan greinir er talsvert ósamræmi á framburði ákærða Gísla hér fyrir dómi og hjá lögreglu. Ákærði hefur skýrt framburð sinn hjá lögreglu með þeim hætti að hann hafi verið að verja meðákærða, en ekki áttað sig á því að framburður hans kynni að bitna á honum sjálfum. Þykja þessar skýringar ákærða ekki trúverðugar, sérstaklega í ljósi þess að í máli þessu hefur ákærði leitast við að fella alla sök í málinu á meðákærða.

Meðákærði X hefur borið um það hér fyrir dómi að ákærði Gísli hafi ekkert komið að innbrotinu í bifreiðakjallarann. Hefur ákærði gefið afar ósannfærandi skýringar á því af hverju hann hringdi í meðákærða á meðan hann var staddur í bifreiðakjallaranum og bað hann um að hitta sig þar árla morguns. Þá þykir ljóst að skýrsla sú, sem meðákærði X gaf hjá lögreglu að eigin frumkvæði tæpum tveimur mánuðum eftir að innbrotið átti sér stað, var gefin í því skyni að meðákærði tæki á sig alla sök í málinu.

Eins og að framan greinir hefur framburður ákærða Gísla verið óstöðugur, óljós og misvísandi. Þykir framburður hans ekki trúverðugur. Með framburði þeirra lögreglumanna, sem komu fyrir dóminn, er í ljós leitt að lögregla kom að ákærðu báðum á vettvangi þar sem þeir voru á leið út úr bifreiðakjallaranum á umræddri bifreið með þýfið innanborðs. Með vísan til þess, játningar ákærða X og alls framangreinds þykir sannað, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærðu hafi í félagi gerst sekir um háttsemi þá sem greinir í I. lið ákærunnar. Er háttsemi þeirra réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákæruliður II.

Í ákærulið II er ákærðu gefið að sök að hafa í félagi haft fíkniefni í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni, en fíkniefnin fundust á heimili ákærða Gísla.

Ákærði X hefur viðurkennt að hafa átt umrædd fíkniefni og að hafa verið með þau í vörslum sínum á heimili meðákærða Gísla. Í skýrslu sinni hér fyrir dómi, sem og hjá lögreglu, viðurkenndi ákærði að hafa ætlað að selja fíkniefnin. Er því ljóst að ákærði hefur játað að hafa verið með fíkniefnin í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni.

Ákærði Gísli hefur neitað sök og bar um það hér fyrir dómi og hjá lögreglu að fíkniefnin hefðu verið í eigu og vörslum meðákærða X, en sjálfur hefði hann ekki vitað að fíkniefnin væru geymd á heimilinu. Bar ákærði Gísli um það hér fyrir dómi að meðákærði hefði gist af og til hjá honum og verið með lyklavöld að heimili hans frá því skömmu fyrir jólin 2010. Hjá lögreglu bar ákærði hins vegar um það að meðákærði hefði dvalið á heimili hans meira og minna allt síðastliðið ár. Talsverðs ósamræmis gætir því í framburði ákærða um þetta atriði hér fyrir dómi og hjá lögreglu. Fram er komið að umrædd fíkniefni fundust á heimili ákærða, nánar tiltekið í lítilli tösku sem geymd var í frystihólfi í kæliskápnum. Þá er fram komið að í töskunni var einnig mikið magn lyfja, en hluta þeirra hafði verið ávísað á ákærða. Einnig er fram komið að í töskunni var peningaveski með skilríkjum ákærða og 418.000 krónur í reiðufé, sem hann kveðst eiga. Þá er fram komið að í íbúð ákærða var aðeins svefnaðstaða fyrir einn og þá var þar ekki að finna fatnað eða aðra muni frá meðákærða. Einnig er fram komið að meðákærði bjó og býr enn í [...]. Samkvæmt gögnum málsins fannst einnig nokkurt magn íblöndunarefna í skál og flösku í kæliskápnum, en skýringar ákærða á því hvers vegna það var að finna í ísskápnum þykja ótrúverðugar. Þá þykir ákærði hafa gefið ótrúverðugar skýringar á því hvers vegna hann var með 418.000 krónur í reiðufé í fórum sínum á heimilinu, en fram er komið að féð var geymt með fíkniefnunum í töskunni í frystihólfinu. Fram er einnig komið að ákærði er öryrki og einu tekjur hans eru örorkubætur.

Eins og að framan greinir hefur framburður ákærða um dvöl meðákærða á heimili hans verið óstöðugur og ótrúverðugur með hliðsjón af aðstæðum og ummerkjum á heimili hans. Þá þykir framburður ákærða um að hann hafi ekki vitað af kannabisplöntunni, sem stóð á borði í stofunni, mjög ótrúverðugur. Með hliðsjón af öllu framangreindu og því sérstaklega að fíkniefnin fundust á heimili ákærða, annars vegar kannabisplantan á borði í stofunni og amfetamín og hass í tösku, sem í voru einnig lyf, skilríki og peningar frá ákærða, í frystihólfi í ísskápnum, þykir sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að umrædd fíkniefni hafi einnig verið í vörslum ákærða Gísla. Með hliðsjón af því magni, sem haldlagt var á heimilinu, og framburði meðákærða X um að efnin hafi verið ætluð til sölu, þykir sannað að ákærðu hafi í félagi haft í frammi þá háttsemi, sem greinir í II. ákærulið, og er háttsemi þeirra réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákæruliður III.

Í ákærulið III er ákærða Gísla gefið að sök að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Eins og fram hefur komið játaði ákærði hjá lögreglu að hafa ekið bifreiðinni [...] umrædda nótt. Hér fyrir dómi neitaði ákærði því hins vegar að hafa ekið bifreiðinni og kvaðst hafa setið í farþegasætinu. Þegar lögregla hefði komið að þeim meðákærða í bifreiðakjallaranum hefði hann verið á leið út úr bifreiðinni bílstjóramegin þar sem læsingin farþegamegin hefði verið biluð og hann ekki komist út úr bifreiðinni þeim megin. Kvaðst ákærði hafa játað fyrir lögreglu að hafa ekið bifreiðinni til að verja ákærða. Eins og að framan greinir þykja þessar skýringar ákærða á breyttum framburði ekki trúverðugar í ljósi alls annars sem fram hefur komið í málinu.

Lögreglumennirnir Daníel Örn Davíðsson og Gissur Guðmundsson, sem báðir þekktu ákærðu af fyrri afskiptum, hafa báðir borið um það að hafa staðið fyrir framan bílskúrshurðina á bílakjallaranum þegar þeir hefðu orðið varir við að bifreið var ekið að hurðinni. Skömmu síðar hefði hurðin opnast og hefði ákærði X þá staðið við hurðina og verið að opna hana, en ákærði Gísli hefði setið í ökumannssæti bifreiðarinnar og verið á leið út úr kjallaranum á bifreiðinni. Báru þeir báðir um það að bifreiðin hefði verið í gangi og bílstjórahurðin lokuð. Þá báru þeir báðir um það að ekkert hefði komið fram um það á vettvangi að læsingin farþegamegin væri biluð og því hefði ákærði Gísli verið á leið út úr bifreiðinni bílstjóramegin, enda hefði verið augljóst á vettvangi að ákærði Gísli var undir stýri á bifreiðinni. Með vísan til þessa framburðar og alls framangreinds þykir í ljós leitt að ákærði ók bifreiðinni í greint sinn. Með framlagðri matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði og framburði Kristínar Magnúsdóttur, deildarstjóra hjá rannsóknastofunni, þykir sannað að ákærði var undir áhrifum fíkniefna þegar hann ók bifreiðinni. Þá er fram komið að ákærði ók bifreiðinni sviptur ökurétti. Er því komin fram lögfull sönnun um að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá sem greinir í ákærulið III og er háttsemi hans réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákærði Gísli er fæddur 1966. Samkvæmt sakavottorði nær sakarferill ákærða allt aftur til ársins 1991 er hann hlaut dóm fyrir fíkniefnalagabrot, en næst sætti ákærði refsingu á árinu 2001 fyrir umferðarlagabrot. Þessi brot hafa ekki áhrif á ákvörðun refsingar í málinu. Hinn 2. október 2008 var ákærði í Hæstarétti Íslands dæmdur í 22 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í fjögur ár, fyrir fíkniefnalagabrot, vopnalagabrot, hylmingu og hraðakstur. Dómurinn var bundinn almennu skilorði og því að dómfelldi neytti ekki áfengis eða deyfilyfja á skilorðstímanum. Hinn 9. júlí 2010 var ákærði dæmdur til greiðslu 200.000 króna sektar fyrir hraðakstur og akstur undir áhrifum fíkniefna. Jafnframt var ákærði sviptur ökurétti í 12 mánuði frá 2. desember 2010. Hinn 4. apríl 2011 gekkst ákærði undir greiðslu 130.000 króna sektar hjá lögreglustjóra fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og akstur sviptur ökurétti. Jafnframt var ákærði sviptur ökurétti í fjóra mánuði. Hinn 1. september 2011 gekkst ákærði undir greiðslu 100.000 króna sektar hjá lögreglustjóra fyrir akstur sviptur ökurétti.

Ákærði X er fæddur [...]. Hinn 24. maí 2006 gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun, sektargreiðslu, fyrir þjófnað. Hinn 12. júní 2008 var ákærði dæmdur til greiðslu 240.000 króna sektar fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og fíkniefnalagabrot. Jafnframt var ákærði sviptur ökurétti í 18 mánuði. Loks gekkst ákærði hinn 4. nóvember 2008 undir greiðslu 268.000 króna sektar hjá lögreglustjóra fyrir fíkniefnalagabrot.

Með brotum sínum nú hefur ákærði Gísli í fjórða sinn rofið skilorð dómsins frá 2. október 2008. Ber með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga að taka dóminn upp og gera ákærða refsingu í einu lagi fyrir bæði málin og tiltaka refsinguna í samræmi við ákvæði 77. gr. sömu laga. Brot ákærða voru framin áður en ákærði gekkst undir lögreglustjórasáttir vegna ölvunar- og sviptingaraksturs hinn 4. apríl og 1. september 2011, en eftir að dómurinn frá 9. júlí 2010 gekk og hefur ákærði því með broti sínu í ákærulið III ítrekað brot sitt gegn 45. gr. umferðarlaga. Við ákvörðun refsingar er einnig litið til þess að ákærði hefur áður gerst sekur um fíkniefnalagabrot og auðgunarbrot, sbr. 255. gr. almennra hegningarlaga. Þá er litið til þess að ákærði framdi brot sín í ákærulið I og II í félagi með öðrum. Með vísan til alls framangreinds þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og þrjá mánuði. Í málinu hefur verið lagt fram læknisvottorð um geðhagi ákærða, dags. 5. mars 2012. Getur það ekki haft neina þýðingu við ákvörðun refsingar í málinu, enda hefur verjandi ekki haldið því fram að ákærði sé ósakhæfur og ekkert sem komið hefur fram í málinu eða framlögðum gögnum bendir til þess. Í ljósi þess að ákærði hefur margsinnis rofið skilorð dómsins frá 2. október 2008 þykir skilorðsbinding refsingarinnar ekki koma til greina að neinu leyti.

Þá ber að svipta ákærða ökurétti í tvö ár frá birtingu dómsins að telja.

Við ákvörðun refsingar ákærða X er litið til játningar hans og þess að áðurgreind verkfæri komust öll til skila. Er þetta virt ákærða til refsimildunar. Til refsiþyngingar er hins vegar að ákærði framdi brot sín í félagi með öðrum og hann hefur áður gerst sekur um þjófnað. Í ljósi framangreinds þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði. Í ljósi atvika málsins þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið eins og í dómsorði greinir.

Ákærðu sæti upptöku á 85,14 g af amfetamíni, 2,07 g af hassi og einni kannabisplöntu. Ákærðu hafa verið sakfelldir fyrir að hafa haft umrædd fíkniefni í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni og er því fallist á upptökukröfu ákæruvalds að því er varðar 418.000 krónur í reiðufé, sem haldlagðar á heimili ákærða Gísla, en ljóst þykir að umræddir fjármunir voru ágóði af fíkniefnasölu.

Ákærði Gísli greiði sakarkostnað að fjárhæð 492.980 krónur, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin 238.450 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði X greiði sakarkostnað að fjárhæð 304.170 krónur, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 188.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.

Dómsorð:

Ákærði Gísli Styff sæti fangelsi í tvö ár og þrjá mánuði.

Ákærði X sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fullnustu refsingarinnar er frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði Gísli er sviptur ökurétti í tvö ár frá birtingu dómsins að telja.

Ákærðu sæti upptöku á 85,14 g af amfetamíni, 2,07 g af hassi, einni kannabisplöntu og 418.000 krónum.

Ákærði Gísli greiði 492.980 í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar hrl., 238.450 krónur.

Ákærði X greiði 304.170 í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 188.250 krónur.