Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-17
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Nauðgun
- Sönnun
- Refsiákvörðun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 2. janúar 2025 leitar Aron Már Aðalsteinsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 5. desember 2024 í máli nr. 780/2023: Ákæruvaldið gegn Aroni Má Aðalsteinssyni. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sakfella leyfisbeiðanda fyrir nauðgun samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa með ólögmætri nauðung og án samþykkis haft endaþarmsmök við brotaþola og ekki sinnt því þó brotaþoli hefði margsinnis beðið hann um að hætta. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi dæmdur til að sæta fangelsi í tvö ár en frestað var fullnustu 21 mánaðar af refsingunni skilorðsbundið. Með dómi Landsréttar var refsing hans ákveðin fangelsi í tvö ár en ekki voru talin efni til að binda hana skilorði.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur og refsing hans verulega of þung auk þess sem hana hafi átt að skilorðsbinda að fullu í ljósi eðlis málsins, ungs aldurs og dráttar á rannsókn og meðferð málsins. Þá varði niðurstaða málsins sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans auk þess sem áfrýjun lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu sem mjög mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um. Leyfisbeiðandi vísar til þess að sakfelling virðist einungis byggjast á framburði hans hjá lögreglu sem stangist verulega á við meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa sönnunarfærslu. Þá hafi ekki tekist að sanna ásetning og því hafi með dómi Landsréttar í verulegum atriðum verið vikið frá saknæmisskilyrðum 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 18. gr. laganna. Leggja verði til grundvallar að leyfisbeiðandi hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að brotaþoli væri samþykkur kynmökum og hafi ákæruvaldið því ekki axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvíli eftir 108. gr. laga nr. 88/2008.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.