Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-306

STV ehf. (Eiríkur Gunnsteinsson lögmaður)
gegn
Samherja fiskeldi ehf. (Gísli Baldur Garðarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Lóðarleigusamningur
  • Brostnar forsendur
  • Uppgjör
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Með beiðni 31. október 2019 leitar STV ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 4. sama mánaðar í málinu nr. 787/2018: STV ehf. gegn Samherja fiskeldi ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samherji fiskeldi ehf. leggst gegn beiðninni.

Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta á hendur gagnaðila og krafðist þess aðallega að viðurkennt yrði að nánar tilgreindur lóðarleigusamningur um fiskeldisstöð og tengdan rekstur, ásamt mannvirkjum í landi Vatnsleysu við Vatnsleysuvík, væri ekki í gildi en til vara að hann yrði ógiltur með dómi. Leyfisbeiðandi, sem var leigusali samkvæmt fyrrnefndum samningi, byggði annars vegar á að skilyrðum leigusamningsins fyrir framlengingu hefði ekki verið fullnægt og hins vegar að forsendur fyrir áframhaldandi leigusamningi hefðu brostið þegar gagnaðili, sem leigutaki, gerðist jafnframt eigandi að 40% eignarhlut í fiskeldisstöðinni. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila á þeim grunni að sá síðarnefndi hefði fullnægt skilyrðum samningsins til framlengingar á leigutímanum. Var einkum vísað til þess að gagnaðili hefði greitt áhvílandi veðlán að fullu fyrir lok upphaflegs leigutíma og að leigugreiðslur hefðu ekki verið í vanskilum á sama tímamarki. Þá var ekki fallist á að ógilda samninginn á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eða reglna samningaréttar um brostnar forsendur.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem í málinu reyni á afleiðingar þess að réttindi og skyldur sameiganda og leigjanda renni saman. Telur hann að forsendur leigusamningsins hafi brostið þegar gagnaðili eignaðist hlut í fiskeldisstöðinni enda hafi hagsmunir gagnaðila orðið of samofnir hagsmunum leigjanda sem rýri ýmis réttindi leyfisbeiðanda samkvæmt samningnum. Í því sambandi geti reynt á reglur um sérstaka sameign og ákvæði fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 um ákvarðanatöku við tilgreindar aðstæður. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Loks vísar hann til þess að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 3. málslið 1. mgr. sömu greinar. Er beiðninni því hafnað.