Hæstiréttur íslands
Mál nr. 537/2015
Lykilorð
- Lífeyrisréttur
- Samningur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. ágúst 2015. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 27. október 2015. Hún krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms að öðru leyti en því að til viðbótar verði viðurkennt að makalífeyrir hennar skuli greiddur mánaðarlega og réttur til hans falli ekki niður nema hún gangi í hjónaband að nýju. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur eins og greinir í dómsorði.
Verður aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að viðurkenndur er réttur gagnáfrýjanda, Helgu Rakelar Stefnisdóttur, til mánaðarlegs makalífeyris frá aðaláfrýjanda, Stöfum lífeyrissjóði, sem nemi 60% af 340.000 krónum verðtryggðum með vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 181,4 stig.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2015.
Mál þetta höfðaði Helga Rakel Stefnisdóttir, Espigerði 2, Reykjavík, með stefnu birtri í desember 2014 á hendur Stöfum lífeyrissjóði, Stórhöfða 31, Reykjavík. Málið var dómtekið 21. maí sl.
Stefnandi gerir þessar kröfur:
1. Að stefndi greiði stefnanda 4.743.169 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 470.864 krónum frá 15. apríl 2014 til 15. maí sama ár, af 942.853 krónum frá þeim degi til 15. júní sama ár, af 1.416.304 krónum frá þeim degi til 15. júlí sama ár, af 1.890.093 krónum frá þeim degi til 15. ágúst sama ár, af 2.365.568 krónum frá þeim degi til 15. september sama ár, af 2.840.256 krónum frá þeim degi til 15. október sama ár, af 3.316.068 krónum frá þeim degi til 15. nóvember sama ár, af 3.791.319 krónum frá þeim degi til 15. desember sama ár, en af 4.743.169 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum samtals að fjárhæð 488.459 krónur, en greiddar voru 162.434 krónur þann 31. júlí 2014, 81.535 krónur þann 31. ágúst 2014, 81.400 krónur þann 30. september 2014, 81.593 krónur þann 31. október 2014 og 81.497 krónur þann 30. nóvember 2014.
2. Að felldur verði úr gildi úrskurður stefnda um lífeyrisréttindi stefnanda, sem stefndi birti með bréfi dagsettu 17. júlí 2014.
3. Að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til greiðslu makalífeyris frá stefnda mánaðarlega sem nemur 60% af eftirlaunum, sem eru að fjárhæð 340.000 krónur, verðtryggðum miðað við vísitölu neysluverðs, með grunnvísitölu í janúar 1998, 181,4 stig, þannig að áhrif verðtryggingar skuli reikna mánaðarlega og að réttur til þessa lífeyris falli ekki niður nema stefnandi gangi í hjónaband að nýju.
4. Að stefndi greiði stefnanda málskostnað að skaðlausu.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar.
Stefnandi og Hermann Þorsteinsson bjuggu saman, að sögn stefnanda frá því í janúar 1997, og gengu síðar í hjúskap. Hermann lést 5. maí 2014.
Hermann hafði starfað hjá Sambandi Íslenskra samvinnufélaga í 50 ár, frá 1935 til 1985, er hann lét af störfum. Síðustu 25 árin var hann framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs S.Í.S.
Hermann gerði samning við Lífeyrissjóð S.Í.S. um eftirlaun þann 7. október 1985. Í samningnum var ákveðið að hann skyldi njóta eftirlauna sem næmu 90% af launum framkvæmdastjóra hjá Sambandinu. Félli hann frá skyldi greiða eftirlifandi maka makalífeyri sem næmi 60% af þeim lífeyri sem Hermanni hefði borið. Réttur til makalífeyris félli niður ef eftirlifandi maki gengi í hjúskap að nýju. Þá var ákveðið að áunnin réttindi Hermanns hjá sjóðnum rynnu til sjóðsins, þ.e. að lífeyrir yrði ekki greiddur til viðbótar við eftirlaunin.
Nafni Lífeyrissjóðs S.Í.S. var síðar breytt í Samvinnulífeyrissjóðurinn, en árið 2005 var hann sameinaður Lífeyrissjóðnum Lífiðn. Sameinaður sjóður er stefndi í máli þessu, Stafir lífeyrissjóður.
Í stefnu segir að Hermann hafi tekið lífeyri samkvæmt áðurnefndum eftirlaunasamningi frá 1. janúar 1987. Nokkrum árum síðar dró mjög úr starfsemi Sambandsins og fór svo að viðmiðun um laun framkvæmdastjóra hjá Sambandinu varð óviss. Var gert sérstakt samkomulag þann 22. maí 1998 um að í stað þess að greiða hlutfall af launum framkvæmdastjóra, skyldi greiða 340.000 krónur á mánuði, vísitölutryggt. Í samkomulaginu sagði að efnisatriði eldri samninga um eftirlaunaréttindi Hermanns skyldu falla úr gildi, að því leyti sem þau stönguðust á við samkomulagið. Makalífeyrir er ekki nefndur í þessu samkomulagi.
Þetta samkomulag varð ágreiningsefni á meðan Hermann var á lífi. Taldi hann að hann hefði ekki samþykkt samkomulagið, en það finnst ekki undirritað af honum. Ágreiningi aðila um þetta var lokið með dómi Hæstaréttar 6. júní 2013, en þar var talið að samkomulagið væri bindandi um skipti aðila. Nánar þarf ekki að gera grein fyrir þeirri niðurstöðu, en báðir aðilar byggja nú á þessu samkomulagi.
Eftir að Hermann Þorsteinsson lést sótti stefnandi um lífeyri samkvæmt eftirlaunasamningnum. Stefndi hafnaði þeirri kröfu, en ákvað henni lífeyri í samræmi við áunnin réttindi Hermanns og samþykktir sjóðsins. Er ástæðulaust að rekja nánar samskipti aðila vegna þessa. Ákvörðun stefnda virðist hafa verið tekin í formi úrskurðar, en bréf sjóðsins dags. 17. júlí 2014 er nefnt tilkynning um úrskurð. Að því er séð verður er hér vísað til útprentunar vélræns útreiknings lífeyrisréttinda, sem ekki er undirritaður.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir rétt sinn til makalífeyris á samningi eiginmanns síns heitins, Hermanns Þorsteinssonar, og Lífeyrissjóðs S.Í.S., dags. 7. október 1985. Þetta sé í þessu tilviki þriðjamannslöggerningur sem veiti henni sem þriðjamanni beinan og sjálfstæðan rétt til að krefjast efnda. Samningurinn sé bindandi fyrir stefnda sem loforðsgjafa gagnvart stefnda. Stefnandi byggi enn á því að stefnda hafi verið óheimilt að ákveða einhlið að virða ekki samninginn og skerða um leið eignarréttindi stefnanda, án nokkurrar lagastoðar eða málefnalegra ástæðna.
Stefnandi segir að stefndi hafi tekið við öllum skyldum Lífeyrissjóðs S.Í.S. og sé skuldbundinn samkvæmt eftirlaunasamningi Hermanns. Gerða samninga skuli efna. Stefnandi vísar einnig til niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 58/2013, sem Hermann rak á hendur stefnda. Þar hafi verið viðurkennt að Hermann hafi verið bundinn af samkomulaginu. Á sama hátt sé stefndi bundinn af því, enda hafi hann greitt Hermanni eftirlaun samkvæmt samningunum.
Stefnandi byggir á því að samkomulag aðila frá 22. maí 1998 hafi einungis falið í sér ákveðnar breytingar á eftirlaunasamningnum. Ítrekað hafi verið með 4. gr. samkomulagsins að breytt væri þeim atriðum í eftirlaunasamningnum sem stönguðust á við nýja samkomulagið. Ákvæðum eftirlaunasamningsins hafi ekki verið breytt í öðru en því sem sérstaklega hafi verið tekið fram. Í 3. gr. eftirlaunasamningsins sé mælt fyrir um makalífeyri. Greiða skuli eftirlifandi maka Hermanns 60% þeirra eftirlauna sem hann hefði fengið. Ekki hafi verið haggað við þessu ákvæði.
Stefnandi segir lífeyrisréttindi sín varin af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá séu þessi réttindi hennar virk. Engin heimild sé til þess að skerða þau. Þá geti hvorki lög nr. 129/1997 né samþykktir stefnda komið í veg fyrir að stefnandi fái notið réttinda samkvæmt eftirlaunasamningnum.
Stefnandi segir að réttindi sín séu ákveðin í eftirlaunasamningnum frá 7. október 1985, en réttindin skuli reiknuð samkvæmt samkomulaginu frá 22. maí 1998. Makalífeyrir sinn skuli nema 60% af þeim eftirlaunum sem Hermann hefði fengið.
Í samkomulaginu hafi verið ákveðið að mánaðarleg eftirlaun skyldu nema 340.000 krónum. Tvenn mánaðarlaun skyldu greidd í desember hvert ár. Eftirlaun þessi skyldu verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs og miðað hafi verið við grunnvísitölu í janúar 1998, 181,4 stig.
Í stefnu er fjárkrafan samkvæmt fyrsta lið stefnukröfu sundurliðuð. Er þar krafist þess makalífeyris er stefnandi telur að greiða hafi átt á hverjum mánuði frá og með aprílmánuði 2014 til ársloka það ár. Dregin er frá sú greiðsla sem stefnanda barst frá stefnda í samræmi við úrskurð sjóðsins. Telur stefnandi að greiða hafi átt 4.743.169 krónur, en einungis voru greiddar 488.459 krónur. Stefnandi telur að greiða hafi átt 470.864 krónur fyrir apríl og 471.989 krónur fyrir maí.
Stefnandi telur sér heimilt að hafa uppi kröfu um viðurkenningu réttinda samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefnandi telur að forsendur fyrir eftirlaunasamningnum frá 1985 hafi brostið er Sambandið hætti starfsemi og ekki var lengur unnt að miða við laun framkvæmdastjóra. Hafi þá verið gert nýtt samkomulag við Hermann og þar sé ekki vikið neitt að makalífeyri. Ákvæði eftirlaunasamningsins um makalífeyri hafi verið samofið ákvæðum um eftirlaun Hermanns. Því hafi ákvæðið um makalífeyri fallið niður vegna brostinna forsendna um leið og forsendur fyrir ákvörðun fjárhæðar eftirlauna Hermanns brustu. Því fari réttur stefnanda eftir samþykktum sjóðsins.
Þá byggir stefndi á því að ákvæði eftirlaunasamningsins um makalífeyri hafi fallið brott með samkomulaginu frá 1998. Þetta styður hann við orðalag í dómi Hæstaréttar frá 6. júní 2013, en þar segir um samkomulagið að það hafi komið í stað upphaflegs samnings um eftirlaun.
Stefndi bendir á að í 4. gr. samkomulagsins segi að ákvæði eftirlaunasamningsins falli niður að því leyti sem þau séu í ósamræmi við ákvæði samkomulagsins. Samkomulagið hafi falið í sér nýja og mikið breytta ákvörðun um eftirlaun og ekkert hafi verið getið um makalífeyrisrétt í samkomulaginu, hafi ákvæði fyrri samnings um viðbótarmakalífeyrisrétt ekki getað staðið áfram og því fallið úr gildi. Hafi það enda verið óvenjulegt. Segir stefndi að í raun sé ljóst að 4. gr. samkomulagsins hafi átt að taka til 3. gr. eftirlaunasamningsins um makalífeyri, enda verði ekki séð hvaða efnisatriði önnur gætu stangast á við nýja samkomulagið.
Stefndi segir að horfa verði til þess hvernig aðstæður voru þegar umræddir samningar voru gerðir. Þegar eftirlaunasamningurinn var gerður hafi Hermann verið kvæntur, en fyrri kona hans hafi látist 1993. Hann hafi því verið ekkill þegar samkomulagið var gert 1998. Í munnlegum málflutningi hélt stefndi því fram að ósannað væri að stefnandi og Hermann heitinn hefðu tekið upp sambúð á árinu 1998, en stefnandi sagði í aðilaskýrslu sinni að þau hefðu hafið sambúð á árinu 1997. Þetta styðji það að vilji samningsaðila hafi ekki staðið til þess að semja sérstaklega um viðbótarmakalífeyri. Forsendur hafi verið aðrar en þegar eftirlaunasamningurinn var gerður.
Þá rekur stefndi í greinargerð sinni forsendur fyrir þeim makalífeyri sem stefnanda hafi verið greiddur. Um sé að ræða helming af áunnum rétti til ellilífeyris. Frekari rétt eigi stefnandi ekki.
Loks krefst stefndi þess að þær greiðslur sem hann hafi þegar innt af hendi komi að fullu til frádráttar kröfu stefnanda. Þá segir hann að krafa um ógildingu úrskurðar sé ekki rökstudd neitt í stefnu, en hún felist í öðrum stefnukröfum.
Niðurstaða
Ágreiningur aðila snýst um það eitt hvort stefnandi geti krafist makalífeyris af stefnda samkvæmt eftirlaunasamningi Hermanns Þorsteinssonar frá 1985. Stefndi mótmælir ekki útreikningum stefnanda og stefnandi hefur ekki reifað nein mótmæli við forsendum útreiknings á makalífeyri samkvæmt samþykktum stefnda.
Ekki er deilt um það að samkvæmt eftirlaunasamningi Hermanns frá 1985 var reglan sú að eftirlifandi maki rétt á makalífeyri svo lengi sem hann lifði, ef Hermann félli frá. Stefndi telur að þetta ákvæði hafi fallið brott með samkomulaginu frá 1998.
Með samkomulaginu frá 1998 var leyst vandamál sem upp var komið um efndir eftirlaunasamningsins. Laun framkvæmdastjóra hjá Sambandinu voru ekki nothæf viðmiðun lengur, þar sem þær stöður höfðu allar verið lagðar niður og rekstri Sambandsins hætt. Þessi breyting leiðir ekki til þess að forsendur fyrir eftirlaunasamningnum hafi brostið, eins og stefndi vill byggja á.
Samkomulagið frá 1998 er að formi og efni breyting á tilteknum atriðum í eftirlaunasamningnum. Annar liður samkomulagsins segir hverju sé breytt, þ.e. hvernig eftirlaun skuli reiknuð. Öðru var ekki breytt með samkomulaginu. Önnur ákvæði eftirlaunasamningsins giltu því óbreytt áfram. Höfðu aðilar komið sér saman um breytingu á samningnum, þannig að auðvelt var að efna hann eftir efni sínu.
Ekki þarf að leysa úr því hvenær stefnandi og Hermann tóku upp sambúð. Það sem máli skiptir við úrlausn málsins er sú óumdeilda staðreynd að þau voru í hjúskap þegar Hermann lést. Þótt sannað þætti að þau hefðu ekki tekið upp sambúð áður en samkomulagið frá 1998 var gert, hefði það ekki nein áhrif á niðurstöðu málsins. Hefði það verið ætlun aðila að fella niður rétt eftirlifandi maka til lífeyris, hefði þurft að taka það fram í samkomulaginu.
Ekki var fjallað um makalífeyri í dómi Hæstaréttar frá 6. júní 2013. Þá verður ekki lesin nein vísbending um niðurstöðu þessa máls úr orðalagi dómsins.
Samkvæmt framansögðu verður fallist á málatilbúnað stefnanda, þ.e. að hún eigi rétt á makalífeyri samkvæmt eftirlaunasamningnum frá 1985, sem reiknast sem hlutfall af eftirlaunum Hermanns samkvæmt samkomulaginu frá 1998.
Stefnandi afhenti stefnda umsókn um lífeyri þann 1. júlí 2014. Í gögnum málsins koma fram misvísandi upplýsingar um dánardag Hermanns Þorsteinssonar. Óyggjandi sýnist þó að hann hafi látist 5. maí 2014. Á stefnandi því rétt til eftirlauna frá og með 6. maí 2014, en ekki fyrir aprílmánuð. Reiknast lífeyrir hennar fyrir maí 2014 26/31 hlutar af 471.989 krónum, eða 395.862 krónur. Fallist er á kröfu stefnanda í fyrsta lið að öðru leyti. Dráttarvextir reiknast þó fyrst frá 1. ágúst 2014, í samræmi við meginreglu 2. mgr. 5. gr. vaxtalaga. Í samkomulaginu frá 1998 var samið um að gjalddagi eftirlauna væri 15. hvers mánaðar . Fjárkrafa stefnanda samkvæmt 1. lið verður dæmd með 4.196.177 krónum, en um er að ræða lífeyrisgreiðslur til ársloka 2014.
Viðurkenndur verður réttur stefnanda til makalífeyris eins og hún krefst í þriðja lið stefnukrafna. Ekki er þörf á því í dómsorði að útlista nánar þann rétt og skilyrði þess að hann falli niður.
Krafa um að úrskurður stefnda verði felldur úr gildi er óþörf. Stefndi fer ekki með opinbert vald og viðurkenning dómsins á rétti stefnanda er bindandi fyrir stefnda, hvað sem líður þeirri ákvörðun sem hann hafði tekið í úrskurðarformi.
Stefnda verður gert að greiða stefnanda 995.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Stefndi, Stafir lífeyrissjóður, greiði stefnanda, Helgu Rakel Stefnisdóttur, 4.196.177 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 1.343.101 krónu frá 1. ágúst 2014 til 15. sama mánaðar, af 1.818.576 krónum frá þeim degi til 15. september sama ár, af 2.293.264 krónum frá þeim degi til 15. október sama ár, af 2.769.077 krónum frá þeim degi til 15. nóvember sama ár, af 3.244.327 krónum frá þeim degi til 15. desember sama ár, en af 4.196.177 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum samtals að fjárhæð 488.459 krónur, en greiddar voru 162.434 krónur þann 31. júlí 2014, 81.535 krónur þann 31. ágúst 2014, 81.400 krónur þann 30. september 2014, 81.593 krónur þann 31. október 2014 og 81.497 krónur þann 30. nóvember 2014.
Viðurkenndur er réttur stefnanda til makalífeyris frá stefnda, sem nemur 60% af 340.000 krónum, verðtryggðum með vísitölu neysluverðs, grunnvísitölu janúar 1998, 181,4 stig.
Stefndi greiði stefnanda 995.000 krónur í málskostnað.