Hæstiréttur íslands
Mál nr. 283/2003
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Missir framfæranda
- Fordæmi
|
|
Fimmtudaginn 29. janúar 2004. |
|
Nr. 283/2003. |
Kerfóðrun ehf. (Jakob R. Möller hrl.) gegn Ástu Kristínu Siggadóttur (Björn L. Bergsson hrl.) |
Skaðabótamál. Missir framfæranda. Fordæmi.
Á, ekkja V sem látist hafði af áverkum sem hann hlaut í vinnuslysi, deildi við K, vinnuveitanda V, um fjárhagslegt uppgjör samkvæmt reglum skaðabótalaga nr. 50/1993. K taldi að samkvæmt 12. gr. og 13. gr., sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðbótalaga ætti, auk bóta samkvæmt slysatryggingu, að draga frá skaðabótum þær bætur frá öðrum, sem V hefði fengið greiddar ef hann hefði lifað slysið af en hlotið 100% örorku. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 127/2002 var skorið úr ágreiningi um uppgjör bóta fyrir missi framfæranda vegna banaslyss sem varð eftir gildistöku laga nr. 37/1999 um breyting á lögum nr. 50/1993. Talið var að ekki yrði hjá því komist að fallast á með K að sá dómur væri skýrt fordæmi um að áðurnefndar greiðslur skyldu koma til frádráttar við uppgjör bóta fyrir missi framfæranda. Var því fallist á sýknukröfu K og fékk tilvísun Á til 72. gr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar ekki breytt þeirri niðurstöðu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. júlí 2003. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur með þeirri breytingu að frá dómkröfunni dragist 4.572.016 krónur, sem réttargæslustefndi í héraði, Vátryggingafélag Íslands hf., greiddi henni 15. júlí 2003. Hún krefst jafnframt málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eiginmaður stefndu, Vilhjálmur Kristjánsson, lést 27. júní 2001 af áverkum, sem hann hlaut í vinnuslysi 22. sama mánaðar í álverinu í Straumsvík. Var hann starfsmaður áfrýjanda, sem tók að sér tiltekin verkefni í álverinu sem verktaki. Áfrýjandi hafði keypt slysatryggingu hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna starfsmanna sinna í samræmi við ákvæði kjarasamninga og greiddi félagið stefndu samtals 6.294.071 krónu úr þeirri tryggingu 12. september 2001 og 22. nóvember sama árs. Þá varð samkomulag um að starfsemi áfrýjanda væri varin af frjálsri ábyrgðartryggingu Íslenska álfélagsins hf. hjá nefndu tryggingafélagi. Áfrýjandi viðurkennir fulla bótaskyldu sína vegna andláts eiginmanns stefndu, en málsaðilar deila um fjárhagslegt uppgjör samkvæmt reglum skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum.
Svo sem rakið er í héraðsdómi er ágreiningslaust í málinu að heildarörorkubætur til hins látna miðað við 100% örorku að viðbættu 6% framlagi í lífeyrissjóð hefðu orðið 29.801.058 krónur samkvæmt reglum skaðabótalaga. Málsaðilar deila hins vegar um frádrátt frá þeirri fjárhæð og hvernig skýra beri 12. gr. og 13. gr., sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga um það. Heldur áfrýjandi í fyrsta lagi fram að frá áðurnefndri fjárhæð beri að draga bætur samkvæmt slysatryggingu, sem stefnda hefur þegar fengið greidda og áður var getið. Var á það fallist í héraðsdómi, en með því að stefnda hefur ekki gagnáfrýjað dóminum kemur það atriði ekki frekar til álita. Í öðru lagi telur áfrýjandi að samkvæmt áðurnefndum lagagreinum eigi einnig að draga frá skaðabótum þær bætur frá öðrum, sem eiginmaður stefndu hefði fengið greiddar ef hann hefði lifað slysið af en hlotið 100% örorku. Er annars vegar um að ræða bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, 2.000.000 krónur, og hins vegar 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris hans hjá lífeyrissjóði, 6.778.000 krónur. Að þessu gættu og að teknu tilliti til síðari málsliðar 13. gr. skaðabótalaga um lágmarksbætur til maka fyrir missi framfæranda eigi stefnda rétt á 4.091.408 krónum með vöxtum. Stefnda mótmælir því að tveir síðastnefndu liðirnir komi til frádráttar bótum.
Með dómi héraðsdóms var því hafnað að áðurnefndir tveir liðir komi til frádráttar kröfu stefndu. Hinn 15. júlí 2003 greiddi Vátryggingafélag Íslands hf. henni 4.091.408 krónur með vöxtum í samræmi við ákvæði héraðsdóms um vexti, samtals 4.572.016 krónur. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu og eru aðilarnir sammála um að áfrýjandi hafi með þessu gert upp kröfu stefndu ef fallist verður á kröfu hins fyrrnefnda um frádrátt samkvæmt áðursögðu.
II.
Í 12. gr. skaðabótalaga er kveðið á um bætur fyrir missi framfæranda og í 13. gr. er sérstaklega fjallað um bætur til maka og sambúðarmaka. Samkvæmt síðarnefnda ákvæðinu skulu bætur til maka fyrir missi framfæranda vera 30% af þeim bótum, sem ætla má að hinn látni mundi hafa átt rétt á fyrir 100% örorku, sbr. 5. 8. gr. laganna. Í 4. mgr. 5. gr. segir að til frádráttar skaðabótakröfu vegna líkamstjóns komi meðal annars bætur frá almannatryggingum og 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði og í 2. mgr. 12. gr. segir að um greiðslur frá þriðja manni fari eftir ákvæðum 4. mgr. 5. gr. Reisir áfrýjandi kröfu sína á því að orðalag 12. gr. og 13. gr. um bætur fyrir missi framfæranda og vísun í þeim til 4. mgr. 5. gr. taki af öll tvímæli um það að umræddir liðir skuli koma til frádráttar, hvort sem um er að ræða uppgjör bóta vegna örorku eða missis framfæranda. Bótafjárhæð til maka samkvæmt 13. gr. sé leidd af þeirri fjárhæð, sem framfærandi hefði átt rétt á fyrir 100% örorku, og skuli nema 30% bótanna eftir lækkun vegna áðurnefndra frádráttarliða. Vísar áfrýjandi loks til dóms Hæstaréttar 26. september 2002 í máli nr. 127/2002 sem fordæmis, sem hljóti að verða fylgt við úrlausn málsins.
Stefnda mótmælir því að áðurnefndir tveir liðir komi til frádráttar bótum til sín úr hendi áfrýjanda fyrir missi framfæranda. Þótt eiginmaður hennar hefði átt rétt á þessu fé miðað við að hann hefði hlotið 100% örorku eigi hún sjálf ekki þann rétt þar eð hann hafi látist í slysinu. Það sé með öllu órökrétt að bótaliðir, sem hún fái ekki greidda, komi engu að síður til frádráttar kröfunni. Áfrýjandi krefjist hins vegar ekki að makabætur frá Tryggingastofnun ríkisins og makalífeyrir frá lífeyrissjóði, sem hún hafi þó sannanlega fengið, komi til frádráttar. Hún mótmælir því ennfremur að líta beri til dóms Hæstaréttar í máli nr. 127/2002 sem fordæmis, enda hafi ummæli í dóminum, sem áfrýjandi vísi sérstaklega til, ekki tengst því álitaefni, sem var til úrlausnar í málinu. Þá telur hún frádrátt, sem áfrýjandi krefst, ekki standast gagnvart vernd þess eignarréttar, sem felist í aflahæfi samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar, enda yrði þá ekki um fullar bætur að ræða. Slíkt uppgjör bóta væri einnig andstætt 65. gr. stjórnarskrár, enda væri þá raskað jafnræði við uppgjör bóta eftir því hvort í hlut ætti stefnda vegna missis framfæranda eða eiginmaður hennar hefði hann lifað slysið af en hlotið örorku.
III.
Eftir gildistöku skaðabótalaga árið 1993 hefur efni þeirra þrívegis verið breytt og þá einkum með lögum nr. 37/1999. Voru þá gerðar verulegar breytingar á lögunum, þar á meðal á 5. 9. gr. þeirra um bætur fyrir varanlega örorku. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skulu nú greiðslur, sem tjónþoli fær frá þriðja manni, í fleiri tilvikum en áður koma til frádráttar skaðabótum frá þeim, sem ber skaðabótaábyrgð á líkamstjóni. Þrátt fyrir þetta var ákvæðum 12. gr. og 13. gr. um bætur fyrir missi framfæranda ekki breytt utan þess að felld var niður 2. mgr. 13. gr. um lækkun bóta við hækkandi aldur tjónþola. Vísun 2. mgr. 12. gr. til ákvæðis 4. mgr. 5. gr. stendur því óbreytt.
Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 127/2002 var skorið úr ágreiningi um uppgjör bóta fyrir missi framfæranda vegna banaslyss, sem varð eftir gildistöku laga nr. 37/1999. Verður ekki hjá því komist að fallast á með áfrýjanda að dómurinn sé skýrt fordæmi um að þær greiðslur úr almannatryggingum og 40% örorkulífeyris, sem áður hefur verið getið um, skuli koma til frádráttar við uppgjör bóta fyrir missi framfæranda. Verður samkvæmt því fallist á sýknukröfu áfrýjanda og fær tilvísun stefndu til 72. gr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar ekki breytt þeirri niðurstöðu. Er þá litið til þess að með gildistöku skaðabótalaga var verulega breytt reglum um bætur fyrir missi framfæranda, svo sem ítarlega var skýrt í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til laganna. Samkvæmt því voru ákvæði um dánarbætur í aðalatriðum staðlaðar og um leið einfaldaðar að mun í samanburði við eldri reglur. Þáttur í stöðlun bótanna var að þær skyldu ekki nema lægri fjárhæð en 3.000.000 krónum og jafnframt litið framhjá því hvort tjónþoli í einstökum tilvikum væri sjálfur fær um að afla vinnutekna, hvort hann gerði það í raun og hve háður hann hafi annars verið framfærslu af hálfu hins látna. Hefur áður verið hafnað í nokkrum dómum Hæstaréttar að með setningu skaðabótalaga hafi verið brotið í bága við vernd aflahæfis manna samkvæmt stjórnarskrá á þeim grundvelli að lögin tryggi ekki fullar bætur, sbr. til dæmis dóm réttarins í máli nr. 311/1997 í dómasafni 1998, bls. 1976.
Stefnda hefur ekki gagnáfrýjað héraðsdómi og kemur því ákvæði hans um upphaf dráttarvaxta ekki til endurskoðunar. Með greinargerð sinni í héraði krafðist áfrýjandi sýknu af kröfu stefndu, en breytti síðan kröfugerð sinni við aðalmeðferð málsins í það horf, sem rakið var í I. kafla að framan. Að því virtu verður ákvæði héraðsdóms um málskostnað staðfest.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Kerfóðrun ehf., er sýkn af kröfu stefndu, Ástu Kristínar Siggadóttur.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2003.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 30. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ástu Kristínu Siggadóttur, kt. 250957-5489, Álakvísl 18, Reykjavík, með stefnu birtri 21. febrúar 2002 á hendur Kerfóðrun ehf., kt. 421291-1449, Breiðvangi 32, Hafnarfirði, og Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, til réttargæzlu.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 8.940.317, með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 22. júní 2001 til 3. febrúar 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafizt, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 7.052.096, með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 22. júní 2001 til 3. febrúar 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara er þess krafizt, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 4.418.696, með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 22. júní 2001 til 3. febrúar 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Í öllum tilvikum er krafizt málskostnaðar, auk álags, er nemi virðisaukaskatti, að mati dómsins.
Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda gegn greiðslu á kr. 4.091.408, með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 22. júní 2001 til dómsuppsögudags, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafizt, að kröfur stefnanda verði lækkaðar mjög verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Af hálfu réttargæzlustefnda eru engar kröfur gerðar, enda engar kröfur gerðar á hendur honum.
II.
Málavextir:
Málsatvik eru þau, að eiginmaður stefnanda, Vilhjálmur Kristjánsson, kt. 190356-5749, varð fyrir vinnuslysi í Álverinu í Straumsvík þann 22. júní 2001, sem leiddi til dauða hans þann 27. sama mánaðar (í stefnu er hann ranglega sagður hafa látizt 27. júní 2002). Vilhjálmur var þar við vinnu sína sem starfsmaður stefnda, Kerfóðrunar ehf., sem er sjálfstæður verktaki. Tildrög slyssins voru þau, að Vilhjálmur var, ásamt Daníel K. Kristianssyni, að vinna við að fjarlægja millitengingar milli rafskauta í keri í kerskála. Staðið mun hafa verið ranglega að þessu verki með þeim afleiðingum, að skammhlaup varð í rafskautunum og skall rafblossi á mönnunum báðum, þannig að þeir brenndust báðir alvarlega, og lézt Vilhjálmur nokkrum dögum síðar, svo sem fyrr greinir.
Stefndi var með starfsemi sína tryggða hjá réttargæzlustefnda. Þann 12. september 2001 greiddi réttargæzlustefndi bætur úr slysatryggingu launþega til stefnanda, kr. 6.079.500, og aftur sams konar bætur þann 22. nóvember sama ár, kr. 214.571, eða samtals kr. 6.294.071. Var síðari greiðslan leiðrétting á hinni fyrri, þar eð láðst hafði að taka tillit til hækkunar vísitölu við útreikninginn.
Í upphafi árs 2002 krafði stefnandi vátryggingafélagið um bætur með vísan til 13. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Félagið viðurkenndi fulla bótaskyldu, en taldi nauðsynlegt, svo bótauppgjör gæti farið fram, að reiknaðar yrðu út bætur, sem hinn látni hefði fengið, ef hann hefði hlotið 100% örorku og stefnanda yrðu reiknuð 30% af þeirri fjárhæð. Þyrfti þá að líta til greiðslna, sem hinn látni hefði fengið úr lífeyrissjóði sínum og almannatryggingum, hefði hann lifað slysið af en hlotið 100% örorku. Var stefnanda gert að útvega þær upplýsingar.
Stefnandi hafnaði þessari kröfu réttargæzlustefnda og taldi þær málinu óviðkomandi.
Ágreiningur í máli þessu snýst um útreikning bóta.
III.
Málsástæður stefnanda:
Krafa stefnanda um bætur vegna missis framfæranda er byggð á 13. gr. laga nr. 50/1993 og nemur 30% af ætluðum bótum, sem Vilhjálmur hefði átt rétt á fyrir algera örorku á grundvelli 5. - 8. gr. laganna.
Höfuðstóll aðalkröfunnar nemur kr. 8.940.317 og kveður stefnandi hann byggðan á meðaltali tekna Vilhjálms þrjú síðustu almanaksárin fyrir slys hans, leiðrétt samkvæmt launavísitölu, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Þannig sé lögð til grundvallar vísitala janúarmánaðar vegna ársins 2001 og laun þannig framreiknuð með vísitölu júnímánaðar 2001. Þannig reiknað séu árstekjur árið 1998 kr. 2.612.616, árið 1999 kr. 2.911.067 og árið 2000 kr. 3.643.993. Samtals nemi framreiknuð laun Vilhjálms vegna þessara þriggja ára kr. 9.167.676, eða kr. 3.055.892 að meðaltali.
Fjárhæð aðalkröfu, án alls frádráttar, er því þannig fundin:
Meðaltalslaun þriggja ára lögð til grundvallar, kr. 3.055.892. Við bætist 6% lífeyrissjóðsframlag. Margföldunarstuðull er 9,2:
3.055.892x6%x9,2x100% kr. 29.801.058
Alger örorka þannig reiknuð kr. 29.801.058
30% bætur skv. 1. mgr. 13. gr. f. missi framfæranda kr. 8.940.317
Varakrafa, þar sem tekið er tillit til frádráttar vegna slysatryggingar launþega, er þannig fundin:
Meðaltalslaun þriggja ára lögð til grundvallar, kr. 3.055.892. Við bætist 6% lífeyrissjóðsframlag. Margföldunarstuðull er 9,2:
3.055.892x6%x9,2x100 kr. 29.801.058
- Slysatrygging launþega kr. 6.294.071
kr. 23.506.987
30% bætur skv. 1. mgr. 13. gr. f. missi framfæranda kr. 7.052.096
Þrautavarakrafa, þar sem tekið er tillit til frádráttar vegna bóta úr slysatryggingu launþega og bóta úr almannatryggingum og lífeyrissjóði, er þannig fundin:
Alger örorka kr. 29.801.058
-Slysatrygging launþega kr. 6.294.071
-Bætur úr almannatr. og lífeyrissjóði kr. 8.778.000
kr. 14.728.987
30% bætur skv. 1. mgr. 13. gr. f. missi framfæranda kr. 4.418.696
Stefnandi kveður réttargæzlustefnda virðast byggja afstöðu sína á því, að heimilt sé, með hliðsjón af 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaganna, að draga frá fjárkröfu stefnanda reiknað eingreiðsluverðmæti ætlaðs örorkulífeyris og ætlaðs lífeyris úr lífeyrissjóði Vilhjálms til framtíðar litið, ef hann hefði lifað við algera örorku.
Stefnandi geti ekki unað við þessa afstöðu, enda eigi hún hvorki við lög né rök að styðjast.
Stefnandi kveðst byggja málatilbúnað sinn á því, að réttargæzlustefndi hafi með ólögmætum hætti hafnað greiðslu á bótum fyrir missi framfæranda til maka samkvæmt 13. gr. laga nr. 50/1993, þrátt fyrir að hafa viðurkennt með ótvíræðum hætti, að banaslys Vilhjálms Kristjánssonar, eiginmanns stefnanda, sé að fullu bótaskylt.
Á því sé í fyrsta lagi byggt, að ráðagerð réttargæzlustefnda eigi sér enga stoð í 13. gr. laga nr. 50/1993, eða öðrum ákvæðum laganna. Tilvísun 13. gr. til 5. til 8. gr. laganna lúti fyrst og fremst að útreikningsaðferð, sbr. t.d. framsetningu á dómkröfu stefnanda, er niðurstaða um bætur fyrir missi framfæranda sé fundin. Með þeirri vísan sé ekki verið að vísa til ákvæða um frádrátt frá bótum til þeirra, sem lifi alvarleg slys af. Það skortir enda á grundvallarskilyrðið fyrir frádrætti samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laganna, en markmið ákvæðisins sé að koma í veg fyrir, að tjón sé tvíbætt, þ.e. tjónþoli sé betur settur fjárhagslega eftir slys, en ef slysið hefði ekki borið að höndum. Forsenda löggjafans fyrir setningu 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaganna hafi verið, að lifandi tjónþoli fengi ekki óskertar skaðabætur samkvæmt skaðabótalögunum og einnig óskertar bætur úr almannatryggingum og úr lífeyrissjóði. Slíkt myndi, að mati löggjafans, leiða til þeirrar niðurstöðu, að tjónþolinn væri hugsanlega búinn að fá greiðslur frá þremur aðilum, sem næmu samtals hærri fárhæð en reiknað tjón hans samkvæmt skaðabótalögunum, í stað þess að vera jafnsettur og ef slys hefði ekki átt sér stað.
Engu slíku "tvígreiðslusjónarmiði" sé til að dreifa, þegar bætur séu reiknaðar og greiddar á grundvelli 13. gr. skaðabótalaganna. Eftirlifandi maki fái ekki greiddar bætur úr almannatryggingum og frá lífeyrissjóði, sem nemi bótum fyrir algera örorku hins látna. Slíkar bótagreiðslur komi einvörðungu til álita til þeirra tjónþola, sem lifi slys af, en búi við algera örorku. Við útreikning bóta til eftirlifandi maka sé engin hætta á tvígreiðslu. Afleiðing þess, að eingreiðsluverðmæti ætlaðra bóta frá almannatryggingum og lífeyrissjóði sé dregið frá, leiði einvörðungu til þess, að bætur til eftirlifandi maka skerðist þannig, að þær nemi ekki 30% af 100% bótum, í andstöðu við 13. gr. Bótaréttur stefnanda myndi skerðast, án þess að nokkuð kæmi í staðinn frá þriðja aðila. Jafnframt sé raunhæf hætta á því, að stefnandi, sem eftirlifandi maki, ætti ekki rétt á neinum bótum úr hendi tjónvalds, ef hugleiðingar réttargæzlustefnda ættu við rök að styðjast. Fjárhæðir reiknaðs eingreiðsluverðmætis geti hæglega numið hærri fjárhæð en bætur fyrir algera örorku samkvæmt skaðabótalögunum. Í því tilfelli fengi eftirlifandi maki engar bætur, þrátt fyrir ráðagerð laganna um að bæta honum tjón vegna missis framfæranda. Sýni slík niðurstaða í hnotskurn, hve órökrétt og röng afstaða réttargæzlustefnda sé.
Í annan stað styðji stefnandi mál sitt þeim rökum, að frádráttur þessi eigi sér ekki stoð í nefndri 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaganna, en þar sé beinlínis um það fjallað, að frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns dragist greiðslur frá almannatryggingum og lífeyrissjóði. Þar sé hvergi vikið að frádrætti vegna bóta fyrir missi framfæranda.
Þá sé, að mati stefnanda, afstaða réttargæzlustefnda í andstöðu við ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Orðskýring ákvæðisins bjóði ekki upp á þá túlkun, sem réttargæzlustefndi haldi fram. Ákvæðið feli í sér undantekningu frá þeirri almennu reglu skaðabótaréttar, að tjónþoli eigi rétt á fullum bótum, og beri því að skýra það þröngri lögskýringu. Hefði það verið vilji löggjafans að draga reiknað eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris samkvæmt almannatryggingalögum að fullu frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns, hefði það verið tekið skýrt fram. Í sama lagaákvæði sé kveðið á um, að draga beri frá skaðabótakröfu ákveðið hlutfall af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði. Hvergi sé hins vegar vikið að reiknuðu eingreiðsluverðmæti bóta úr almannatryggingum. Afstaða réttargæzlustefnda eigi sér því ekki lagastoð.
Jafnvel þótt svo yrði litið á, að frádráttur eingreiðsluverðmætis örorkulífeyris frá almannatryggingum samrýmdist 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, og að hann eigi að koma til, þegar reiknaðar séu bætur til eftirlifandi maka samkvæmt 13. gr. skaðabótalaganna, sé á því byggt af hálfu stefnanda, að frádrátturinn sé ólögmætur. Á því sé byggt, að regla 4. mgr. 5. gr. sé í andstöðu við meginreglu skaðabótaréttar um ákvörðun bótafjárhæðar. Í máli þessu sé ekki um það deilt, að stefndi beri skaðabótaábyrgð á slysi Vilhjálms Kristjánssonar og því öll skilyrði til staðar til greiðslu skaðabóta, sbr. 1. gr. laga nr. 50/1993. Stefnandi eigi þannig lögvarinn rétt til að fá bætt það fjártjón, sem hún varð fyrir. Bæturnar eigi að gera hana jafnsetta fjárhagslega, og ef slysið hefði ekki orðið. Ótvírætt sé, að verði ætlaðar greiðslur, sem Vilhjálmur hefði fengið við algera örorku, dregnar frá, náist ekki nefnt markmið skaðabótalaganna, þar sem stefnandi muni ekki fá þær greiðslur, sem réttargæzlustefndi krefjist, að verði reiknaðar út og dregnar frá réttmætum bótum til stefnanda. Að auki myndi stefndi njóta í raun í tvígang reiknaðs eingreiðsluhagræðis til lækkunar á bótakröfu stefnanda. Við útreikning varanlegra skaðabóta Vilhjálms miðað við algera örorku, sem liggi til grundvallar greiðslu bóta fyrir missi framfæranda samkvæmt 13. gr., hafi verið tekið tillit til eingreiðsluhagræðis. Margfeldisstuðull 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga taki mið af eingreiðslu og feli í sér lækkun um þriðjung frá því, sem ella væri. Með því að leggja síðan til grundvallar frádrátt eingreiðsluverðmætis lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun og úr lífeyrissjóði sé fundin fjárhæð, sem eigi sér litla stoð í veruleikanum, enda lífeyrir nefndra aðila ekki greiddur í einu lagi, heldur yfir langt árabil. Slík rök ættu þó tæpast að koma til skoðunar við úrlausn um fjárkröfu stefnanda, enda óumdeilt, að stefnandi muni ekki fá bætur fyrir varanlega örorku Vilhjálms Kristjánssonar greiddar úr almannatryggingum og frá lífeyrissjóði.
Stefnandi vísar til reglna skaðabótaréttar um ábyrgð vinnuveitanda á vanbúnaði á vinnustað, sem og ófullnægjandi eftirliti. Enn fremur til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Fjárkrafa stefnanda grundvallist á skaðabótalögum nr. 50/1993 ásamt síðari breytingum, einkum 13., sbr. 5. - 7. gr. Þá byggist málatilbúnaður stefnanda á því, að hugleiðingar réttargæzlustefnda fyrir hönd stefnda á varanlegum örorkubótum látins maka stefnanda eigi sér ekki lagastoð. Frádrátturinn fái ekki staðizt almennar lögskýringarreglur. Enn fremur séu nefndar hugleiðingar andstæðar grundvallarsjónarmiðum og meginreglum skaðabótaréttar um ákvörðun bótafjárhæðar.
Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðjist við lög nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyld og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
Aðilar hafi samið um það að leggja mál þetta fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur, sbr. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda:
Stefndi vísar til þess, að þegar skaðabótalög tóku upphaflega gildi þann 1. júlí 1993 hafi hluti 4. mgr. 5. gr. þeirra verið svohljóðandi:
"Greiðslur, sem tjónþoli fær frá þriðja manni vegna líkamstjóns, svo sem almannatryggingum, lífeyrissjóði eða vátryggingafélagi, dragast ekki frá skaðabótakröfu. Greiðslur frá samnings- eða lögbundinni atvinnuslysatryggingu launþega skulu þó dregnar frá skaðabótakröfu hans á hendur vinnuveitanda þeim sem slysatrygginguna keypti."
Fyrir utan bætur samkvæmt bótaákvæðum umferðarlaga, hafi þetta verið einu greiðslurnar, sem dregnar voru frá bótum vegna örorkutjóns.
Með breytingu á skaðabótalögum með lögum nr. 37/1999 hafi orðið verulegar breytingar á 4. mgr. 5. gr. laganna og hljóði hún nú svo:
"Frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns dragast greiðslur sem tjónþoli fær frá almannatryggingum, bætur frá slysatryggingu ökumanns eftir umferðarlögum og bætur frá sams konar slysatryggingu manns er slasast sem farþegi í eigin ökutæki. Greiðslur frá samnings- eða lögbundinni atvinnuslysatryggingu launþega dragast frá skaðabótakröfu hans á hendur vinnuveitanda þeim sem slysatrygginguna keypti. Jafnframt skal draga frá skaðabótakröfu 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði og skal við útreikninginn miðað við 4,5% ársafvöxtun. Aðrar greiðslur sem tjónþoli fær frá þriðja manni vegna líkamstjóns, svo sem lífeyrissjóði eða vátryggingafélagi, dragast ekki frá skaðabótakröfu."
Þrátt fyrir þessa veigamiklu breytingu á 4. mgr. 5. gr., hafi 13. gr. skaðabótalaga verið látin óbreytt og hljóði hún því nú eins og fyrr:
"Bætur fyrir missi framfæranda til maka eða sambúðarmaka skulu vera 30% af bótum þeim sem ætla má að hinn látni mundi hafa átt rétt á fyrir algera (100%) örorku, sbr. 5.-8. gr. Bætur skulu þó nema ekki minni fjárhæð en 3.000.000 kr. nema sérstaklega standi á."
Stefndi telji, að samkvæmt þessu eigi að reikna út þá bótafjárhæð, sem hinn látni hefði fengið við 100% örorku samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga, að teknu tilliti til 4. mgr. greinarinnar, og stefnandi eigi síðan að fá 30% þeirrar fjárhæðar í bætur vegna missis framfæranda, en stefndi deili ekki um það, að Vilhjálmur heitinn hafi, í skilningi 12. og 13. gr. skaðabótalaga, talizt hafa verið framfærandi stefnanda.
Í athugasemdum með 13. gr. hins upphaflega frumvarps til skaðabótalaga sé sérstaklega vitnað til ummæla með 12. gr. frumvarpsins, þegar fjallað sé um bætur frá þriðja manni, með þessum orðum:
"Um greiðslur, sem tjónþoli fær frá þriðja manni, sjá athugasemdir við 12. gr."
Hinar tilvitnuðu athugasemdir við 12. gr. hafi verið svohljóðandi:
"Tilteknar greiðslur þriðja manns ber þó að draga frá skaðabótakröfu, sbr. 2.-4. málsl. 4. mgr. 5. gr. Um frádrátt greiðslna þriðja manns vísast að öðru leyti til athugasemda með 5. gr. og kafla 4.8. í almennum athugasemdum við frumvarpið."
[2.-4. málsliður 4. mgr. 5, gr. hafi verið svohljóðandi:
Greiðslur frá samnings- eða lögbundinni atvinnuslysatryggingu launþega skulu þó dregnar frá skaðabótakröfu hans á hendur vinnuveitanda þeim sem slysatrygginguna keypti. Bætur frá slysatryggingu ökumanns eftir umferðarlögum skal einnig draga frá skaðabótakröfu. Sama gildir um bætur frá sams konar slysatryggingu manns er slasast sem farþegi í eigin ökutæki.]
Samkvæmt þessu sé ljóst, að frá upphaflegri setningu skaðabótalaga, hafi átt að draga frá bótum vegna missis maka bætur vegna greiðslu úr samnings- eða lögbundinni atvinnuslysatryggingu launþega. Eftir breytingu með lögum nr. 37/1999 eigi einnig, samkvæmt berum orðum í 13. gr., sbr. 4. mgr. 5, gr. skaðabótalaga, að draga frá í því tilviki, sem hér um ræði: "greiðslur sem tjónþoli fær frá almannatryggingum og greiðslur frá samnings- eða lögbundinni atvinnuslysatryggingu launþega dragast frá skaðabótakröfu hans á hendur vinnuveitanda þeim sem slysatrygginguna keypti. Jafnframt skal draga frá skaðabótakröfu 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði og skal víð útreikninginn miðað við 4,5% ársafvöxtun." Stefndi telji, að stefnandi eigi síðan rétt á 30% af höfuðstól bóta þannig reiknuðum.
Aðalkrafa stefnda:
Í greinargerð sinni krafðist stefndi aðallega sýknu af kröfum stefnanda. Við aðalmeðferð breytti hann kröfugerð sinni, svo sem hún er endanlega fram sett. Var upphaflega við það miðað að greiðsla dánarbóta úr slysatryggingu launþega, að fjárhæð kr. 6.294.071, þýddi, að stefnandi hefði fengið þær bætur fyrir missi framfæranda, sem hún ætti rétt á úr hendi stefnda. Stefndi telur hins vegar, að rétt útreiknaðar bætur til stefnanda séu eftirfarandi:
Heildarörorkubætur til hins látna miðað við 100% örorku kr. 29.801.058
Frádregnar reiknaðar bætur úr slysatryggingu launþega við 100% örorku kr. 15.562.024
Frádregnar reiknaðar bætur frá Tryggingast. kr. 2.000.000
Frádregnar reiknaðar bætur frá lífeyrissjóði kr. 6.778.000
Samtals frádráttur kr. 24.340.024
kr. 5.461.034
30% af kr. 5.461.034 = 1.638.310.
Í 2. málslið 1. mgr. 13. gr. skaðabóta laga segi, að bætur skuli þó ekki nema minni fjárhæð en kr. 3.000.000, nema sérstaklega standi á. Þessi fjárhæð hafi verið miðuð við 1. júlí 1993, en samsvarandi fjárhæð nú sé kr. 4.091.408. Í ljósi orðalags 13. gr. telji stefndi sér skylt að greiða þá fjárhæð, sem hefði staðið stefnanda til boða, ef gengið hefði verið til uppgjörs. Komi þessi fjárhæð í stað hinnar reiknuðu.
Lögmaður stefnda lýsti því yfir við aðalmeðferð, að ekki sé krafizt frádráttar í aðalkröfu vegna greiðslu úr slysatryggingu launþega, að fjárhæð kr. 6.294.071 í aðalkröfu stefnda. Hins vegar komi sú fjárhæð til frádráttar í varakröfu hans.
Varakrafa stefnda:
Þessi krafa stefnda sé við það miðuð, að héraðsdómur komist að þeirri niðurstöðu, að ekki eigi að draga frá kröfu stefnanda þær greiðslur þriðja manns, sem tilgreindar séu í 1. og 3. málslið 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Standi þá eftir að draga eigi frá greiðslur á dómskjölum 14 og 15, sbr. 2. málslið 4. mgr. 5. gr.
Meginmálsástæður stefnanda sýnist vera þær, að tilvísun í 13. gr. skaðabótalaga til 5. gr. geti ekki þýtt það, sem hún geri samkvæmt orðanna hljóðan. Líti stefnandi hér fram hjá skýrum athugasemdum með hinu upphaflega frumvarpi til skaðabótalaga, að því er varði bætur frá þriðja manni, sem þá hafi verið greiðslur úr samningsbundinni atvinnuslysatryggingu launþega. Viðurkenna verði, að við setningu laga nr. 37/1999 hafi 13. gr. skaðabótalaga ekki verið breytt, þrátt fyrir breytingu á 5. gr., og njóti engra skýringa um það atriði í lögskýringargögnum.
Að því er varði ummæli í stefnu um, að regla 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga sé í andstöðu við meginreglu skaðabótaréttar um ákvörðun bótafjárhæðar, verði að gæta að því, að bætur samkvæmt 13. gr. séu staðlaðar. Það þýði, að á tjónþola sé ekki lögð skylda til þess að sýna fram á, í hverju tjón hans sé nákvæmlega fólgið, heldur fái allir tjónþolar bætur, án þess að þess sé krafizt, að þeir sýni fram á, að tjón þeirra, einstaklingsákveðið, nemi fjárhæð bóta. Í öðrum tilvikum hafi Hæstiréttur talið slíka stöðlun bóta heimila, enda byggist hún á málefnalegum sjónarmiðum, þar á meðal að jafnræðis sé gætt. Verði ekki séð, að öðru gegni um þá stöðlun, sem í 13. gr. felist.
Vextir og upphaf dráttarvaxta.
Í stefnu sé vaxta krafizt samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga fram til 3. febrúar 2002, þ.e. mánuði eftir kröfubréf á dómskjali nr. 7, en dráttarvaxta frá þeim tíma. Stefndi krefjist þess, að dráttarvextir verði ekki lagðir á fyrr en frá uppsögudegi endanlegs dóms í málinu, enda liggi ekki enn fyrir nauðsynlegar upplýsingar af hendi stefnanda, svo krafa hennar verði réttilega reiknuð.
Málskostnaður
Krafa stefndu um málskostnað sé reist á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr., báðar greinar í l. nr. 91/1991.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Heimild til heimtu skaðabóta vegna missis framfæranda er að finna í 12. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum. Segir þar í 2. málslið 1. gr., að sá, sem skaðabótaábyrgð beri á dauða annars manns, skuli greiða þeim, sem misst hafi framfæranda, bætur fyrir tjón það, sem ætla megi, að af því leiði fyrir hann. Í 13. gr. sömu laga er síðan að finna reglur, sem beita skal til þess að finna tjón tjónþola. Tjónþoli samkvæmt skaðabótalögunum er í þessu tilviki hinn eftirlifandi maki. Verður það bæði lesið út úr lögunum sjálfum, auk þess sem það er sérstaklega tekið fram í greinargerð með frumvarpi til laganna.
Í 13. gr. laganna segir m.a., að bætur fyrir missi framfæranda til maka skuli vera 30% af bótum þeim, sem ætla megi, að hinn látni myndi hafa átt rétt á fyrir algera, 100% örorku, sbr. 5-8. gr. Í 4. mgr. 5. gr. er að finna reglur, sem beita skal, þegar bætur vegna líkamstjóns eru reiknaðar út. Frádráttarreglur frá útreiknuðu heildartjóni, sem þar er beitt, lúta að útreikningi vegna bóta til hins slasaða og er ætlað að koma í veg fyrir að tjón hans verði eð einhverju leyti eða öllu tvíbætt. Þær reglur leiða hins vegar ekki til skerðingar bóta til hins slasaða, þar sem eðli málsins samkvæmt koma bætur í stað frádráttarins, svo heildartjón hans verður alltaf hið sama. Verði þeim frádráttarreglum hins vegar beitt, þegar um bætur vegna missi framfæranda er að ræða, svo sem stefndi heldur fram, að beri að gera í máli þessu, þannig að frá útreiknuðu heildartjóni hins látna, verði dregnar bætur, sem hann hefði fengið við 100% örorku, en sem eftirlifandi maki fær ekki greiddar, er ljóst, að tjónþoli, þ.e. stefnandi, fær tjón sitt ekki bætt nema að hluta. Er slík niðurstaða í andstöðu við 2. málslið 1. mgr. 12. gr. skaðabótalaga, sem og reglur 13. gr. og megintilgang skaðabótalaga, sem er sá, að tjónþoli fái tjón sitt bætt.
Samkvæmt 13. gr. laganna ber stefnanda 30% af bótum þeim, sem ætla má, að hinn látni hefði fengið við 100% örorku, svo sem fyrr er rakið. Aðilar eru sammála um, að útreiknað heildartjón hans hefði numið kr. 29.801.058. Frá þeirri fjárhæð ber hins vegar að draga kr. 6.294.071, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, en þessa fjárhæð hefur tjónþoli, stefnandi, þegar fengið greidda úr slysatryggingu hins látna, en með hliðsjón af aðalkröfu stefnda, er ljóst, að aðilar eru sammála um, að draga beri frádráttarskyldar bótagreiðslur frá útreiknuðu heildartjóni hins slasaða, áður en hlutfallstala eftirlifandi maka er reiknuð. Er sú aðferð einnig í samræmi við hugleiðingar í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 127/2002 frá 26. september 2002. Ber stefnda því að greiða stefnanda 30% af mismuninum, kr. 23.506.987, eða kr. 7.052.096, eins og varakrafa stefnanda byggir á. Eftir atvikum dæmast vextir af þeirri fjárhæð samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga til dómsuppsögudags, en dráttarvextir frá þeim degi til greiðsludags. Þá ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 900.000.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Kerfóðrun ehf., greiði stefnanda, Ástu Kristínu Siggadóttur, kr. 7.052.096, með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 22. júní 2001 til 15. maí 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og kr. 900.000 í málskostnað.