Hæstiréttur íslands

Mál nr. 643/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof
  • Fullnusta refsingar


                                     

Miðvikudaginn 3. desember 2008.

Nr. 643/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X, sem veitt hafði verið reynslulausn, á grundvelli 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, skyldi afplána 1080 daga eftirstöðvar refsingar, sem hann hafði hlotið með dómi Hæstaréttar 7. desember 2006, enda taldist kominn fram sterkur grunur um að X hefði framið fíkniefnalagabrot sem varðað gæti allt að 12 ára fangelsi.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. nóvember 2008, þar sem varnaraðila var gert að afplána 1080 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem hann hlaut með dómi Hæstaréttar í máli nr. 410/2006. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. 

Með dómi Hæstaréttar 7. desember 2006 í máli nr. 410/2006 var varnaraðili dæmdur til sex ára fangelsisvistar, en með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 15. september 2008 var honum veitt reynslulausn á 1080 daga eftirstöðvum refsingarinnar.

Samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 getur dómstóll að kröfu ákæranda úrskurðað að maður, sem hlotið hefur reynslulausn, skuli afplána eftirstöðvar refsingar ef hann á reynslutíma rýfur gróflega almennt skilyrði reynslulausnar, enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi framið nýtt brot sem varðað getur sex ára fangelsi. Í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála eru taldir upp þeir aðilar sem fara með ákæruvald í landinu. Sóknaraðili máls þessa er einn þeirra aðila, en hann annast nú rannsókn á því ætlaða broti varnaraðila sem liggur til grundvallar kröfu þeirri sem hér er til meðferðar, þótt hann fari ekki með ákæruvald í málinu komi til þess að varnaraðili verði ákærður fyrir brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. mgr. 27. gr. laga nr. 19/1991. Hugtakið ákærandi í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 verður að skýra til samræmis við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1991 þannig að sóknaraðili er bær til að fara með mál þetta. Samkvæmt því verður ekki fallist á með varnaraðila að vísa beri málinu frá héraðsdómi. Þá er að gögnum málsins virtum nægilega fram kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi tekið þátt í broti er varðar við 173. gr. a. almennra hegningarlaga. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. nóvember 2008.

Með beiðni lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri í dag, er þess krafist að X, kt. [...], verði gert að afplána 1080 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar af 6 ára fangelsisrefsingu, sem honum hafi verið gerð með dómi Hæstaréttar í máli nr. 410/2006, en reynslulausn hafi verið veitt af Fangelsismálastofnun hinn 15. september 2008, skilorðsbundið í 3 ár.

Í greinargerð lögreglustjórans segir að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi að undanförnu haft til rannsóknar ætlaða stórfellda framleiðslu og dreifingu fíkniefna á höfuðborgarsvæðinu. Talið sé að kærði standi að framleiðslu fíkniefna ásamt A. Hafi kærði ásamt A verið með aðstöðu í iðnaðarhúsnæði á tveimur stöðum, að Y og Z, í Hafnarfirði og sé talið að framleiðslan hafi farið fram þar. Hafi lögreglan fylgst með greindum stöðum og hafi kærði og A sést á báðum stöðum og fara þar inn.

Hinn 16. október sl. hafi lögregla farið inn í bæði framangreind iðnaðarhúsnæði og sama morgun hafi kærði, X, verið handtekinn. Inni í húsnæðinu að Z hafi verið mikið magn ætlaðra sterkra fíkniefna á framleiðslustigi, auk þess sem þar hafi verið uppsett tæki, sem sérfræðingum beri saman um að unnt sé að nota við framleiðslu sterkra fíkniefna og hafi framleiðsla verið þar í gangi. Tekin hafi verið sýni úr efnum á staðnum og fyrsta svörun verið methamfetamine, en efnin hafi verið send til frekari greiningar. Sérfræðingar hafi verið fengnir á vettvang til að meta umfang framleiðslunnar og ætlaða almannahættu, sem kunni að hafa verið samfara framleiðslunni. Samkvæmt upplýsingum þeirra kunni sprengihætta að fylgja efnaframleiðslu þeirri, sem talið sé að hafi farið fram í húsnæðinu. Sérfræðingar frá Europol, sem farið hafi á vettvang, hafi talið verksmiðjuna hafa mjög mikla framleiðslugetu og að fagmannlega hafi verið að verki staðið. Miðað við þau efni og þann tækjabúnað sem hafi verið í húsnæðinu, hafi þeir talið að mögulegt hafi verið að framleiða þar amfetamín, methamfetamín og MDMA. Í húsnæðinu að Y hafi fundist rúmlega 700 g af amfetamíni og í húsnæðinu að Z hafi fundist rúmlega 18 kg af hassi í ferðatösku.

Í greinargerð segir að kærði hafi borið svo um í skýrslutöku hjá lögreglu að hann hafi komið að framleiðslu á fenýlaseton í því iðnaðarhúsnæði, sem áður greinir, en ekki kannast við frekari framleiðslu. Kærði hafi ekki getað gert grein fyrir tilgangi þess að framleiða fenýlaseton, en að hann hafi komið að framleiðslunni að beiðni A. Fenýlaseton sé á lista í fylgiskjali II við reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, en samkvæmt reglugerðinni sé um að ræða efni, sem nota megi við ólöglega ræktun, framleiðslu eða tilbúning ávana- og fíkniefna og annarra eftirlitsskyldra efna og skráð séu í listum I - II í alþjóðasamningi gegn ólöglegri verslun með ávana- og fíkniefni 1988, (United Nations Convention against Illicit Traffic in Narcotic Drugs and Psychotropic Substances 1988).

Í greinargerðinni segir að áður en til handtöku kærða hafi komið hafi lögreglan farið inn í húsnæðið að Y í þágu rannsóknar málsins til að setja upp upptökubúnað og til að taka sýni úr efnum á staðnum. Sýni hafi m.a. verið tekin úr kristölluðum efnum, samsvarandi útlits og efnunum er fundist hafi að Z. Þau kristölluðu efni hafi reynst vera 1-phenyl-2-nitro-1-propene (P-2-NP), en efnið muni samkvæmt matsgerð rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði vera þekkt milliefni í framleiðslu amfetamíns og metamfetamíns. Þá hafi vökvi, sem sýni hafi verið tekið úr, reynst innihalda benzýl metýl ketón, sem muni vera sama efni og fenýlaseton. Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði borið svo um að við framleiðsluna hafi fyrst verið framleitt 1-fenyl-2-nitropropane og síðan fenýlaseton. Hafi kærði lýst greindu ferli ítarlega.

Í greinargerðinni segir og að kærði hafi ekki getað gefið skýringar á því hvers vegna framangreind efni og tæki fundust í húsnæðinu að Y, þ.e. efni og tæki, sem geri það mögulegt að fullvinna amfetamín, metamfetamín eða MDMA. Fram kemur í greinargerðinni að niðurstaða efnarannsóknar vegna efna, sem fundist hafi að Z, liggi ekki fyrir.

Loks segir í greinargerðinni að rannsókn lögreglu miði vel áfram, en meðal annars sé enn beðið endanlegra skýrslna frá Europol og frá rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði.

Kærði hafi í þágu rannsóknar málsins sætt gæsluvarðhaldi frá 16. október sl. með vísan til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Litið sé svo á að kærði hafi með háttsemi sinni gróflega rofið skilyrði reynslulausnar og á þann hátt að tilefni sé til að honum sé gert að afplána eftirstöðvar refsingar. Sterkur rökstuddur grunur sé um stórfellda framleiðslu kærða á fíkniefnum, þ.e. ætlað brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað geti allt að 12 ára fangelsi. Er vísað til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005.

Kærði hefur mótmælt framkominni kröfu lögreglustjóra um að honum verði gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem hann hlaut með dómi Hæstaréttar í máli nr. 410/2006, og hefur krafist þess að henni verði hafnað.

Að öllu framanrituðu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður að fallast á það með lögreglustjóra að fyrir liggi sterkur grunur um að kærði gerst sekur um brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga, en slíkt brot getur varðað allt að 12 ára fangelsi, og þannig rofið gróflega skilyrði reynslulausnar. Eru því uppfyllt skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga til að fallast á kröfu ákæruvaldsins um að kærða verði gert að afplána 1080 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem honum var gerð með dómi Hæstaréttar í máli nr. 410/2006.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Kærði, X, afpláni 1080 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem hann hlaut með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 410/2006.