Hæstiréttur íslands

Mál nr. 87/2001


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Miski
  • Matsgerð


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. október 2001.

Nr. 87/2001.

Dagbjört Inga Olsen

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Ólafi Guðmundssyni

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

og gagnsök

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Miski. Matsgerð.

D krafði Ó um bætur fyrir margs konar tjón, sem hún kvaðst hafa hlotið er Ó vatt sér að henni í stigagangi í fjöleignarhúsi og náði af henni hundi, en skiptum þeirra lauk svo að hundurinn drapst af völdum Ó inni í íbúð hans. Kröfur D voru að verulegu leyti studdar við örorkumat, sem var aflað að tilstuðlan lögmanns hennar, en með því var lagt mat á tímabundna örorku, varanlegan miska og þjáningar D. Í dómi Hæstaréttar segir að við mat á sönnunargildi örorkumatsins verði ekki litið fram hjá því að matsmenn hafi ekki verið dómkvaddir til starfans. D hafi ekki leitað til örorkunefndar um mat eða óskað eftir dómkvaðningu matsmanna þótt Ó hafi mótmælt sönnunargildi matsins. Varanleg örorka hafi ekki verið metin en engu að síður krefðist D bóta fyrir slíkt tjón. Taldi Hæstiréttur að örorkumatið fæli í sér svo ótrausta sönnun um tjón D að á því yrði ekki byggt í málinu. Af þessum sökum yrði að sýkna Ó.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. mars 2001. Hún krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 1.461.217 krónur með 2% ársvöxtum frá 16. maí 1997 til stefnubirtingardags í héraði, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Hún krefst jafnframt málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 16. maí 2001. Hann krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að öðru leyti en því að aðaláfrýjandi verði dæmd til að greiða honum málskostnað í héraði. Hann krefst einnig málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Mál þetta á rætur að rekja til atviks, sem varð 16. maí 1997 í fjöleignarhúsinu nr.1 við Neðstaleiti í Reykjavík, en málsaðilar bjuggu þar við sama stigagang. Var aðaláfrýjandi á leið upp stigann og hafði með sér hund af tegundinni Yorkshire terrier. Mætti hún þá gagnáfrýjanda, sem kom út úr íbúð sinni. Vatt hinn síðarnefndi sér að aðaláfrýjanda og tókst að ná hundinum frá henni. Lauk skiptum þeirra svo að hundurinn drapst af völdum gagnáfrýjanda inni í íbúð hans. Er málavöxtum nánar lýst í héraðsdómi. Var gagnáfrýjandi ákærður vegna þessa atburðar og lauk því máli með dómi Hæstaréttar, sbr. dómasafn réttarins 1998 bls. 2489. Var gagnáfrýjandi sakfelldur fyrir dráp á hundinum, en sýknaður af sakargiftum um líkamsárás á aðaláfrýjanda.

Í máli þessu krefst aðaláfrýjandi bóta fyrir margs konar tjón, sem hún kveðst hafa hlotið vegna háttsemi gagnáfrýjanda. Móðir hennar, Kristín Olsen, stóð að málinu ásamt henni í héraði, en með hinum áfrýjaða dómi voru Kristínu dæmdar skaðabætur að fjárhæð 120.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum úr hendi gagnáfrýjanda fyrir missi hundsins. Sá þáttur málsins sætir ekki endurskoðun fyrir Hæstarétti.

II.

Meðal málsgagna er örorkumat 6. september 1999 fyrir aðaláfrýjanda, sem aflað var að tilhlutan lögmanns hennar. Matið gerðu læknarnir Atli Þór Ólason,  sérfræðingur í bæklunarlækningum, og Grétar Sigurbergsson, sérfræðingur í geðlækningum og réttargeðlækningum. Er í upphafi matsins vísað til heimilda, sem stuðst sé við, og eru þar meðal annars tilgreind vottorð nokkurra nafngreindra sérfræðinga og þrjú vottorð Högna Óskarssonar geðlæknis frá 1997 og 1999. Er niðurstaða matsmannanna sú að við „líkamsárásina og dráp hundsins“ hafi aðaláfrýjandi orðið fyrir 100% tímabundnu atvinnutjóni samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 í einn mánuð, 10% varanlegum miska skv. 4. gr. sömu laga og að bætur fyrir þjáningar skv. 3. gr. laganna beri að meta í 6 mánuði og sé þá miðað við að hún hafi ekki verið rúmliggjandi.

Af hálfu aðaláfrýjanda eru stefnukröfur að verulegu leyti studdar við þetta mat. Telur hún að með því sé sannað að hún hafi orðið fyrir líkamstjóni og andlegum skaða við gerðir gagnáfrýjanda. Hundurinn hafi verið sér og móður sinni mjög kær og í raun sannur vinur og gleðigjafi. Skipti hér engu máli þótt móðir hennar hafi formlega verið skráður eigandi hundsins en ekki aðaláfrýjandi. Gagnáfrýjandi hafi með ofbeldi náð hundinum frá sér og síðan murkað úr honum lífið bak við læstar dyr. Hafi hún mátt þola að heyra ýlfrið í dýrinu meðan gagnáfrýjandi var að ganga frá því án þess að fá að gert. Atlaga gagnáfrýjanda hafi beinst að henni sjálfri og falið í sér beina árás á tilfinningalíf hennar. Sú upplifun, sem hún hafi orðið fyrir við þennan atburð, hafi haft þær afleiðingar fyrir andlega og líkamlega heilsu hennar, sem lýst sé í örorkumati. Viðbrögð tjónþola almennt við misgjörð geti verið ærið mismunandi, en í sínu tilviki hafi afleiðingarnar orðið alvarlegar. Tjónþolar séu misjafnlega sterkir fyrir, en hér sem endranær verði tjónvaldur að bera ábyrgð á gerðum sínum og tjóni, sem af þeim hafi hlotist. Telur aðaláfrýjandi háttsemi gagnáfrýjanda hafa falið í sér ólögmæta meingerð, sem hann beri bótaábyrgð á, meðal annars samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga ásamt öðrum greinum laganna. Tekur aðaláfrýjandi jafnframt fram að hún telji sig í engu hafa brotið gegn skyldum sínum gagnvart húsfélaginu í Neðstaleiti 1 með því að koma þangað með hundinn í heimsókn. Engin ákvæði laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús heimili húsfélagi að ákveða með einfaldri samþykkt að takmarka eignarrétt hundeiganda svo mjög sem gert hafi verið í þessu tilviki með því að banna að koma með hund í heimsókn inn í húsið.

Sýknukrafa gagnáfrýjanda er meðal annars studd við það að aðaláfrýjandi hafi brotið alvarlega gegn skyldum sínum við húsfélagið með því að halda hund í húsinu og koma síðan iðulega þangað með hundinn í heimsókn þvert ofan í bann annarra íbúa hússins. Megi kenna sífelldum ögrunum hennar um hvernig fór og á því hljóti hún að bera sjálf ábyrgð. Þá hafi gagnáfrýjandi verið sýknaður með dómi Hæstaréttar af ákæru um líkamsárás. Sé jafnframt sannað með læknisvottorði að ákomur á aðaláfrýjanda eftir atvikið í stigaganginum hafi orðið við atgang hennar sjálfrar eftir að gagnáfrýjandi lokaði dyrum að íbúð sinni. Loks mótmælir gagnáfrýjandi því að aðaláfrýjandi hafi orðið fyrir nokkru líkamlegu eða andlegu tjóni við atvikið á stigaganginum 16. maí 1997. Fram sé komið að hún hafi árið 1992 lent í umferðarslysi og hlotið mikinn heilsubrest við það. Hafi hún ekkert unnið eftir slysið og verið metin 75% örorka. Áðurnefnt örorkumat 6. september 1999 sanni ekki tjón vegna missis hundsins, en á matsgerðinni séu verulegir annmarkar og við gerð hennari hafi verið byggt á röngum upplýsingum aðaláfrýjanda.

III.

Við mat á sönnunargildi örorkumats læknanna Atla Þórs Ólasonar og Grétars Sigurbergssonar verður ekki litið framhjá því að þeir voru ekki dómkvaddir til starfans, heldur unnu þeir verk sitt að tilhlutan aðaláfrýjanda, sem lagði matsgerðina fram við þingfestingu málsins í héraði. Þótt gagnáfrýjandi mótmælti sönnunargildi matsins hefur aðaláfrýjandi ekki leitað til örorkunefndar um mat eða óskað eftir dómkvaðningu matsmanna.

Í málatilbúnaði sínum vísar gagnáfrýjandi meðal annars til vottorðs Sigrúnar Baldursdóttur sjúkraþjálfara, sem hafi verið gert 1995 og þar með fyrir atvikið í stigaganginum. Sé því lýst þar að aðaláfrýjandi hafi farið mjög illa út úr bílslysinu 1992 og smám saman fengið slæma vefjagigt. Hafi hreyfingar stirðnað mjög mikið og hún þróað upp slæma líkamsstöðu. Í vottorði Sigrúnar sé einnig tekið fram að síðustu fjórar vikurnar hafi aðaláfrýjandi ekki getað stundað æfingar þar eð hún sé langt niðri vegna andlegs álags. Hafi hún staðið í stríði út af hundinum sínum, sem eigi að taka af henni, og á þessum tíma hafi henni farið aftur. Gagnáfrýjandi vísar jafnframt til þess að í örorkumatinu hafi verulega verið byggt á vottorðum Högna Óskarssonar geðlæknis. Mótmælir gagnáfrýjandi alveg sérstaklega að nokkuð verði litið til gagna, sem frá lækninum stafa, en hann hafi augljóslega stutt aðaláfrýjanda með útgáfu nokkurra læknisvottorða, sem gætu nýst henni eftir þörfum hverju sinni í langvinnu stríði hennar við gagnáfrýjanda og aðra íbúa hússins nr. 1 við Neðstaleiti. Að auki hafi eitt slíkt vottorð frá lækninum ekki verið lagt fyrir matsmennina þar eð það hafi sýnilega ekki þótt þjóna hagsmunum aðaláfrýjanda nú. Sé það frá 30. október 1995 og hafi verið lagt fram í málinu. Í vottorðinu sé sagt að aðaláfrýjandi hafi leitað til læknisins vegna kvíða og þunglyndis, sem hún hafi átt við að stríða í mörg ár í kjölfar bílslyss 1992. Síðustu þrjár til fjórar vikurnar hafi líðan hennar farið hratt versnandi og tengist það kröfu nágranna hennar í sama húsi og hún býr ásamt móður sinni um að hundur þeirra mæðgna verði fjarlægður úr húsinu. Því sé mjög mikilvægt að aðaláfrýjandi fái að halda hundi sínum og að úr því verði skorið sem fyrst þannig að hún geti unnið ótrufluð áfram að endurhæfingu sinni og bata.

Gagnáfrýjandi vísar jafnframt til þess að í matinu komi fram lýsing matsmannanna á skapsmunum aðaláfrýjanda, minni hennar og fleiru, sem hafi versnað í kjölfar atviksins í stigaganginum. Um þetta og annað hafi matsmennirnir lagt frásögn hennar til grundvallar niðurstöðu sinni. Aðspurð fyrir dómi um þessi sömu atriði hafi hún hins vegar svarað því til að ekki hafi orðið röskun á andlegu atgervi hennar að þessu leyti.

Með örorkumatinu var lagt mat á tímabundna örorku, varanlegan miska og þjáningar aðaláfrýjanda vegna atviksins 16. maí 1997. Varanleg örorka var ekki metin, en engu að síður krefur aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda um bætur fyrir slíkt tjón. Samkvæmt framanröktu er ljóst að matið var ekki gert af dómkvöddum mönnum og á því eru annmarkar. Aðaláfrýjandi hefur sönnunarbyrði fyrir því að tjón hafi hlotist af háttsemi gagnáfrýjanda. Að öllu virtu verður fallist á með hinum síðastnefnda að örorkumatið feli í sér svo ótrausta sönnun um tjón að á því verði ekki byggt í málinu. Verður samkvæmt því ekki komist hjá að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu gagnáfrýjanda af öllum kröfum í málinu.

Niðurstaða héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Rétt þykir að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Ólafur Guðmundsson, er sýkn af kröfum aðaláfrýjanda, Dagbjartar Ingu Olsen, í málinu.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2000.

I

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 10. janúar 2000 og dómtekið 13. þ.m.

Stefnendur eru Dagbjört Inga Olsen, kt. 010256-3729, Fellasmára 7, Kópavogi og Kristín Olsen, kt. 250632-2909, til heimilis sama stað.

Stefndi er Ólafur Guðmundsson, kt. 210127-3219, Neðstaleiti 1, Reykjavík.

Stefnandinn Dagbjört Inga Olsen krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.461.217 krónur auk 2% vaxta frá 16. maí 1997 til stefnubirtingardags og höfuðstólsfærist vextirnir á 12 mánaða fresti, fyrst 16. maí 1998.  Þá gerir hún kröfu um dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og almennra vaxta frá stefnubirtingardegi til greiðsludags.

Stefnandinn Kristín Olsen krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 750.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá stefnubirtingardegi til greiðsludags.

Stefnendur krefjast hvor um sig málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnenda og málskostnaðar úr hendi þeirra.

II

Stefnendur, sem eru mæðgur, krefja stefnda um skaðabætur vegna atviks sem varð 16. maí 1997 í fjöleignarhúsinu Neðstaleiti 1 í Reykjavík þar sem aðilarnir áttu heima.  Í húsinu eru níu íbúðir og var íbúð stefnenda á þriðju hæð.  Íbúð stefnda er á annarri hæð.  Hann hafði flust í húsið 1995 og var formaður húsfélagsins (og er enn) þegar atvik það varð sem um ræðir í málinu.  

Bótakröfur stefnenda eru einkum raktar til þess að stefndi hafi í umrætt sinn orðið hundi stefnanda, Kristínar, að bana.  Eins og nánar verður greint síðar var höfðað opinbert mál á hendur stefnda sem lyktaði með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 1998 (mál nr. 927/1997) en hann sætti áfrýjun og gekk dómur í Hæstarétti 18. júní 1998 (mál nr. 70/1998).

Í greindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir að með bréfi húsfélagsins að Neðstaleiti 1, dags. 17. október 1995, til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hafi verið óskað eftir því að leyfishafi hundsins yrði sviptur leyfi til hundahalds í húsinu og tilgreindar ýmsar ástæður þess, svo sem margvíslegt ónæði og kvartanir, skriflegar og munnlegar sem borist hafi þáverandi formanni húsfélagsins.  Borgarstjórn Reykjavíkur hafi samþykkt 19. september 1996 tillögu um að afturkalla undanþágu stefnanda Kristínar frá banni við hundahaldi.

Um forsögu og aðdraganda segir í stefnu að á árinu 1991 hafi stefnandi, Kristín, fengið  heimild til að halda hund að þáverandi heimili sínu að Neðstaleiti 1, Reykjavík.  Það hafi verið m.a. að læknisráði enda hafi hún verið orðinn alger sjúklingur.  Dóttir hennar, stefnandi Dagbjört Inga, hafi tekið að sér að hjúkra henni nótt sem dag alla daga vikunnar og hætt störfum sínum sem flugfreyja.  Hundur, tík,  þessi hafi verið af tegundinni Yorkshire terrier og borið nafnið Lady Queen (Queenie).  Stefnendur hafi eignast tíkina þegar hún var lítill hvolpur og hafi hún orðið þeim náinn ástvinur, hjálparhella í erfiðum félagslegum aðstæðum og einmanaleika og gleðigjafi.  Eftir að æðri stjórnvöld hafi staðfest málsmeðferð borgarstjórnar við afturköllun undanþágunnar hafi stefnendur hlýtt banninu og tíkin eftir þetta verið haldin í Kópavogi af frænku þeirra, Ingu Guðmundsdóttur.

Í greinargerð stefnda segir að eftir þetta, þ.e. afturköllun undanþágunnar og vistun  tíkarinnar hjá Ingu Guðmundsdóttur, hafi hún verið iðulega á heimili stefnenda að Neðstaleiti 1 í óþökk flestra íbúa hússins en þær hafi virt mótmælin að vettugi og deilur sprottið af því milli þeirra og ýmissa annarra íbúa hússins.  Þá segir í greinargerðinni að mótmæli íbúa hússins gegn hundahaldi stefnenda hafi verið byrjuð löngu áður en stefndi fluttist þangað.  Tveir fyrrverandi formenn húsfélagsins hafi staðið í bréfaskriftum og reynt að fá hundinn fjarlægðan úr húsinu.  Þegar stefndi hafi verið orðinn formaður húsfélagsins hafi hann tekið við því máli og honum borið að sjá til þess að íbúar hússins virtu húsreglur.

Frammi liggur leyfi Heilbrigðiseftirliti Kópavogs, útgefið 1996, til handa Ingu Guðmundsdóttur til að halda hundinn (tíkina) Lady Queen, fædda 1991.

Í framangreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir að upplýst sé að hundurinn hafi verið í húsinu  hjá eigendum sínum a.m.k. langtímum saman eftir að undanþágan var afturkölluð.

Í framlagðri aðalfundargerð húsfélagsins Neðstaleiti 1 frá 28. mars 1996 segir að tekið hafi verið fyrir svokallað “hundamál”.  Haukur (væntanlega formaður) hafi lesið bréf frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og umræður verið gefnar frjálsar.  Síðan segir:  “Inga Guðmundsdóttir umboðsm. Kristínar Olsen tjáði fundinum að hundurinn yrði ekki fjarlægður nema með valdi.  Meirihluti fundarmanna telur hundamálinu lokið af hálfu hússtjórnar, nema að hundurinn er ennþá í húsinu.  Haukur mælti eindregið (svo) að hundurinn yrði fjarlægður með góðu.”

Í 11. gr. húsreglna fjöleignarhússins Neðstaleiti 1 er hunda- og kattahald með öllu bannað nema með sérstöku leyfi allra íbúa hússins.  Á framangreindum aðalfundi húsfélagsins 28. mars 1996 var samþykkt (með sex atkvæðum gegn einu) sú viðbót að óheimilt væri að koma með hunda og ketti sem gesti í húsið.

Stefnendur höfðuðu mál á hendur stefnda og kröfðust þess að hann yrði borinn út úr íbúð sinni að Neðstaleiti 1.  Áður en málið gengi til dóms höfðu þær flust úr húsinu og var það því fellt niður.

Frásagnir stefnanda, Dagbjartar Ingu, og stefnda eru ósamhljóða um atvik það föstudagsmorguninn 16. maí 1997 sem mál þetta snýst um.

Í stefnu segir að Dagbjört Inga hafi verið á leiðinni upp stigann að íbúð sinni og haft með sér Queenie sem hafi verið í stuttri heimsókn.  Þá hafi stefndi komið út úr íbúð með svarta hanska á höndum, ráðist á hana með því að kýla hana í magann og tekið af henni tíkina.  Hún hafi reynt að ná tíkinni en ákærði tekið í ól á veski hennar, sem hún hafi haft um hálsinn.   Hún hafi losað sig með því að fara úr úlpunni og þá hafi stefndi hrint henni svo að hún féll í gólfið.  Stefndi hafi haldið um hálsinn á tíkinni og barið með krepptum hnefa í höfuð hennar að stefnanda ásjáandi og lamið henni utan í vegg.  Stefnandi hafi reynt að ná til Queenie en þá hafi stefndi farið inn í íbúð sína með tíkina og lokað á eftir sér.  Stefnandi hafi reynt að komast inn í íbúðina en ekki tekist.  Hún hafi heyrt hljóðin í Queenie fyrir innan hurðina þar til þau þögnuðu er stefndi hafði drepið hana.

Í greinargerð stefnda segir að er hann hafi verið að fara út úr íbúð sinni í göngutúr hafi hann mætt stefnanda, Dagbjörtu Ingu og tíkinni, sem hafi verið að fara upp stigann, og stefnandi haldið í ól tíkarinnar sem hafi trítlað á undan.  Stefndi hafi þegar í stað ákveðið að framfylgja húsreglunum og ætlað að koma tíkinni út úr húsinu.  Þegar hann hafi tekið þessa ákvörðun hafi hann ekki verið búinn að loka dyrunum inn í íbúð sína.  Hann hafi gripið í ól tíkarinnar og rykkt í tvisvar, þrisvar sinnum en stefnandi hafi neitað að láta tíkina af hendi.  Stefndi hafi þá danglað eða slegið á þá hönd hennar, sem hélt í ólina, og hafi hún þá látið af takinu.  Tíkin hafi þá losnað og hlaupið inn í íbúð stefnda.  Stefndi hafi ætlað inn í íbúðina á eftir tíkinni og verið kominn í dyrnar þegar stefnandi hafi ráðist á hann og sparkað í hann.  Hann hafi ýtt henni frá og lokað dyrunum.  Stefnandi hafi látið sem óð væri, barið og sparkað í hurðina og brotið gler yfir gægjugati á henni.  Við þessi læti hafi tíkin tryllst.  Stefndi hafi reynt að hemja hana, m.a. með því að stíga fæti ofan á hana, en hann hafi sem minnst viljað nota hendurnar af ótta við að tíkin biti hann.  Að lokum hafi hann getað bundið hana við hurðarhún.  Hann hafi hringt á lögregluna og ætlað að fá hana til að fjarlægja tíkina úr húsinu en þegar hún hafi komið hafi tíkin verið dauð vegna köfnunar.  Í æðiskasti sínu hafi stefnandi hent sér niður stigann en hún hafi kvaðst hafa látið sig “rúlla niður stigann” þegar hún var orðin örmagna vegna látanna.

Samkvæmt vottorði Friðriks Sigurbergssonar, læknis á slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur, dags. 31. maí 1997 segir að stefnandi Dagbjört Inga hafi leitað þangað kl. 12.18 þ. 16. maí 1997 og gefið eftirfarandi sögu:  “Rétt fyrir komu hingað á Slysadeild var hún að koma úr matvöruverslun og hafði poka í sitthvorri hendinni og hund með sér.  Þessi hundur mun hafa (svo) deilumál lengi í sambýlishúsi.  Þegar hún kom inn í stigaganginn á þessu sambýlishúsi segir hún að maður sem þar býr hafi ráðist að henni.  Hún lýsir atburðarás þannig að hann hafi slegið í  kvið hennar, einhverjar ryskingar farið fram og hún reynt að verja sig.  maðurinn hafi síðan þvingað hana upp að vegg með hné sitt í kvið hennar.  Hann hafi síðan tekið af henni hundinn sem síðar drapst.”  Læknirinn kveður engin áverkamerki hafa verið utan töluvert af litlum hruflsárum á báðum höndum og töluvert stórt skrapsár aftan til á hægri framhandlegg.  Þá hafi verið eymsli í handleggjum og höndum og stefnandi hafi kvartað um verki neðarlega í kvið þar sem þó hafi ekki verið þreifieymsli.  Stefnandi hafi komið aftur þ. 22. maí 1997 og kvartað yfir óþægindum í hálsi, baki og í höfði.  Sést hafi dálítið skert hreyfigeta í hálsi og hún hafi verið með stífa vöðva í herðum og hálsi og verið aum yfir hálsvöðvum og vöðvum við herðablað hægra megin.  Hún sé þá áfram í dálitlu andlegu ójafnvægi, líði illa að sögn og sé því sett í samband við deildarlækni á geðdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur.  Niðurstaða:  “Skoðun bæði þann 16.05.97 og 22.05.97 leiða í ljós greinileg merki þess að konan gæti hafa lent í ryskingum og geta áverkamerki sjúklings samrýmst ofangreindri atburðarás.  Þessir áverkar virðast ekki vera alvarlegs eðlis og eru allar líkur á því að hún eigi eftir að ná sér að fullu hvað varðar líkamsáverka.  Það er ekki fyrirhugað nánara eftirlit á vegum Slysadeildar.”

Í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar segir að ákærða, þ.e. stefnda í máli þessu, sé í fyrri lið ákæru gefið að sök að hafa ráðist á Dagbjörtu Ingu Olsen og slegið hana í vinstri handlegg með þeim afleiðingum að hún hafi hlotið mar og eymsli á handleggnum.  Er komist að þeirri niðurstöðu að ósannað sé, gegn eindreginni neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um líkamsárás með þeim hætti sem í ákæru greini.  Var hann því sýknaður af sakargiftum um brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Þá segir í dóminum að í síðari lið ákæru sé ákærði borinn sökum um eignaspjöll og brot á lögum um dýravernd með því að veita hundinum áverka sem hafi leitt hann til dauða.  Er komist að þeirri niðurstöðu að sannað sé að hundurinn hafi drepist af völdum áverka sem ákærði hafi veitt honum.  Ákærða hafi ekki getað dulist að atlaga hans að hundinum gæti leitt hann til dauða.  Með þessu hafi ákærði því brotið gegn 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga, svo og 2. gr., sbr. 19. gr. laga nr. 15/1994 um dýravernd.  Við ákvörðun refsingar var meðal annars höfð hliðsjón af því að hundurinn hafi verið hafður í húsinu að Neðstaleiti 1 í óleyfi og að mæðgurnar Kristín og Dagbjört Inga Olsen hefðu ítrekað ögrað ákærða og ýmsum öðrum íbúum hússins með brotum á banni við hundahaldi þar.

III

A

Af hálfu stefnenda er lýst yfir að byggt sé á þeirri grundvallarreglu íslensks réttar að brotaþoli refsiverðar háttsemi eigi ætíð rétt til skaðabóta og að samhliða sé byggt á almennu skaðabótareglunni en báðar þessar réttarreglur, sem séu skyldar, leiði til þeirrar sömu niðurstöðu að taka beri kröfur stefnenda til greina.

Um þýðingu framangreinds dóms Hæstaréttar segir að sönnunargildi hans sé algert að því er varðar þau atriði sem stefndi hafi verið sakfelldur fyrir.  Í einkamáli þessu verði hins vegar að leggja til grundvallar að hann hafi valdið stefnanda Dagbjörtu Ingu líkamstjóni. Í málinu verði lögð fram gögn og upplýsingar, sem sýni að stefnendur hafi ekki brotið gegn banni við hundahaldi eða ögrað íbúum fjöleignarhússins, og ekki sé um að ræða eigin sök sem geti orðið bótakröfum til lækkunar.

Krafa stefnanda, Dagbjartar Ingu Olsen, er þannig sundurliðuð:

Þjáningarbætur skv. 3. gr. skaðabótalaga                                             kr.149.960,00

Varanlegur miski                                                                                        kr.465.000,00

Miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga                                                 kr.350.000,00

Varanleg örorka skv. 8. gr. skaðabótalaga                                            kr.520.800,00

Töpuð lífeyrisréttindi vegna varanlegra örorku                                     kr.31.248,00

Lækkun bóta vegna aldurs                                                                       kr.-88.328,00

Tjón án útlagðs kostnaðar                                                                   kr.1.428.680,00

Útlagður kostnaður annar en málskostnaður                                         kr.32.537,00

Samtals                                                                                                    kr.1.461.217,00

Í stefnu segir að um þjáningarbætur og bætur vegna varanlegrar örorku (svo) vísist til 3. og 4. gr. skaðabótalaga og til 8. gr. þeirra um bætur fyrir varanlega örorku en tekjur stefnanda séu þess eðlis að þær verði ekki reiknaðar á öðrum grundvelli.

Varðandi miskabótakröfu samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga er bent á það að áhrif umrædds atburðar á stefnanda séu varanleg og hroðaleg og um það vísað til lokavottorðs Högna Óskarssonar geðlæknis frá 15. mars 1999 (sjá síðar).

Krafa stefnanda, Kristínar Olsen, er þannig sundurliðuð:

Verðmæti hundsins                                                                                   kr.400.000,00

Miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga                                                 kr.350.000,00

Samtals                                                                                                       kr.750.000,00

Í stefnu segir að verðmæti hundsins miðist við framlagt bréf Elvars Freys Jónsteinssonar þar sem segir:  “. . . Miðað við þá möguleika sem í Queenie bjuggu, m.a. til undaneldis, tel ég ekki stætt að meta hana fyrir lægri fjárhæð en kr. 300.000 og tek ég þá ekkert tillit til tilfinningalegra þátta.  Ef það ætti að fá nýjan hvolp með ættartölu, með álíka vonir og Queenie gaf tilefni til, þá gæti verðið verið á bilinu kr. 300 – 500.000 með kostnaði við að koma hvolpum til landsins.  Kostnaður við að halda hund sem þennan gæti verið um kr. 25.000 á ári auk þess sem það kostar eitthvað að þjálfa hann og setja á námsekið.  Hundar sem þessi geta hæst náð 18 ára aldri.”

Miskabótakrafa er á því reist að missir hundsins hafi valdið stefnanda miklum miska, m.a sorg, niðurlægingu, vanmáttarkennd, ástvinamissi og sársauka auk þess sem um hafi verið að ræða brot á friðhelgi heimilisins.

B

Krafa stefnda um sýknu af kröfum stefnanda, Kristínar,  er í fyrsta lagi reist á því að hún hafi ekki verið eigandi hundsins og beri að sýkna sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.  Að auki hafi stefnendur verið búnir að misbjóða svo þeim, sem bjuggu í fjöleignarhúsinu að Neðstaleiti 1 með  því að hafa hundinn í húsinu þrátt fyrir að reglur bönnuðu það að ekki hafi annað legið fyrir en að yfirvöld tækju hann af þeim og aflífuðu.  Af þeim sökum eigi stefnandinn, Kristín, engan rétt á skaðabótum vegna missis hundsins.  Þá er verðmati Elvars Freys Jósteinssonar mótmælt.  Með vísun til þess að verðmat hans byggist aðallega á möguleikum til undaneldis er bent á að fram hafi komið í sjónvarpsviðtali við stefnandann Kristínu að leg tíkarinnar hefði verið fjarlægt.

Miskabótakröfu stefnanda, Kristínar, er í fyrsta lagi mótmælt þar sem engin  sönnun sé fyrir því að hún hafi orðið að líða vegna missis  hundsins.  Í öðru lagi telur stefndi 26. gr. skaðabótalaga ekki leiða til þess að greiða beri miskabætur þeim sem haldið hefur í óleyfi hund sem drepinn sé af ásetningi eða gáleysi.  Í þriðja lagi falli það tjón, sem stefnandi krefjist miskabóta fyrir, ekki innan þess sem telja megi sennilega afleiðingu af dauða hundsins.

Sýknukrafa stefnda af miskabótakröfu stefnandans Dagbjartar Ingu byggist á sömu rökum og greint hefur verið frá um samsvarandi kröfu stefnandans Kristínar.

Ekki liggi fyrir neinar sannanir fyrir því að stefndi hafi gerst sekur um líkamsmeiðingar gagnvart stefnanda, Dagbjörtu Ingu. Hann hafi lýst því yfir að hann hafi slegið á hönd hennar en það högg geti ekki hafa leitt til varanlegrar örorku eða miska en sé svo beri  hann þrátt fyrir það ekki ábyrgð á tjóninu þar sem það falli ekki innan þess sem talist geti sennileg afleiðing af verknaði.

Því er mótmælt að um varanlega örorku stefnanda, Dagbjartar Ingu, sé að ræða af völdum umrædds atvik og bent á að hún hafi verið metin 75% öryrki eftir bílslys árið 1992.  Einnig sé það tilbúningur að  hún hafi liðið þjáningar vegna verka stefnda og kostnaður, sem hún krefjist að fá endurgreiddan, sé honum óviðkomandi.

Þá er á því byggt af hálfu stefnda að í læknisvottorðum, sem lögð séu fram af hálfu stefnanda, Dagbjartar Ingu, sem og örorkumati séu fjölmörg ósannindi höfð eftir henni en ekkert virðist vera um sjálfstæðar rannsóknir.  Hún hafi lengi átt við verulega andlega og líkamlega kvilla að etja sem sjáist af vottorði Högna Óskarssonar dags. 30. október 1995.

IV

Frammi liggur örorkumat Grétars Sigurbergssonar geðlæknis og Atla Þórs Ólasonar dr. med. samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993, dags. 6. september 1999, sem þar er sagt vera gert  að beiðni lögmanns stefnenda á varanlegum miska stefnanda, Dagbjartar Ingu Olsen, vegna líkamsárásar sem hún hafi orðið fyrir 16. maí 1997 og dráp á hundi hennar sem fylgt hafi í kjölfarið.  Um heimildir er, auk viðtala og skoðunar á stefnanda vísað m.a. til lögregluskýrslu og læknisvottorða Högna Óskarssonar geðlæknis, dags. 23. júní 1997, 29. september 1997 og 15. mars 1999.

Um málsatvik segir í matsgerðinni að stefnandi hafi verið á ferð upp stiga fjöleignarhússins þegar maður hafi komið  út úr einni íbúðinni og ráðist á hana, þrifið af henni hundinn, sparkað í kvið hennar, barið hundinn og tekið hann inn í íbúð sína, læst að sér og murkað úr honum lífið.  Á meðan maðurinn hafi verið að drepa hundinn hafi stefnandi stöðugt barið á hurð íbúðar hans og heyrt ýlfur hundsins sem hafi fjarað smám saman út.  Eftir henni er haft að eftir árásina hafi árásarmaðurinn og kona hans haldið áfram að áreita hana á ýmsan hátt og hafi það viðhaldið hjá henni miklum ótta.  Hafi hún m.a. þurft að leita til lögreglu til að fá fylgd til að komast ferða sinna um húsið. 

Í matsgerðinni segir að stefnandi kvarti m.a. um viðvarandi kvíða sem magnist í köstum og óttist hún mjög að mæta árásarmanninum.  Vísað er til þess að í vottorði frá Högna Óskarssyni komi fram að stefnandi hafi gengið í gegnum mikið álag vegna aðgerða á brjósti en komist yfir það á eðlilegan hátt.  Aftur á móti hafi haldið áfram mikill sálrænn vandi sem tengist árás nágrannans og drápi hundsins.  Segi Högni að þrátt fyrir stöðuga meðferð með geðdeyfðarlyfi og kvíðastillandi lyfi hafi ekki ráðist við síðkomin einkenni eftir árásina.  Hún sé þannig enn með veruleg kvíðaeinkenni sem tengist árásinni. Þá séu enn til staðar sorgareinkenni í verulegum mæli þrátt fyrir úrvinnslu og stuðning.  Loks hafi skelfingareinkenni og margra daga kvíða- og fælnieinkenni fylgt í kjölfar þess að hún hafi rekist á árásarmanninn á förnum vegi.

Sjúkdómsgreining samkvæmt matinu er : “Viðvarandi kvíði og kvíðaköst, fælni og þunglyndi.  Sjúkleg sorgarviðbrögð.”

Kaflinn “Samantekt og álit” er svohljóðandi:

“Í kjölfar slyssins 1992 þjáðist D. af geðrænum einkennum sem hún hafði þó komist yfir að langmestu leyti með viðeigandi geðlæknismeðferð.

Í kjölfar árásarinnar og dráps á  hundi hennar 1997 virðast einkenni hennar taka sig upp á ný og eru þá mun verri en áður var.  Virðist framkoma sú, sem D. lýsir af hendi árásarmannsins, hafa viðhaldið og magnað einkenni hennar.

Einkenni  hennar nú samræmast í flestu s.k. áfallaviðbrögðum. Þrátt fyrir viðvarandi meðferð hefur ekki tekist að ráða bót á þeim.

Greining krabbameins í brjósti hjá D. fyrir ári síðan virðist ekki hafa aukið á áðurnefnd einkenni.

Horfur D. teljast óvissar en ólíklegt verður að teljast að hún nái sér að fullu þrátt fyrir áframhaldandi meðferð.  Varanlegur miski sem leiðir af líkamsásásinni og drápi hundsins er metinn 10%.

Dagbjört var illfær um að sinna móður sinni um mánaðartíma og miðast tímabundið atvinnutjón við það.

Þjáningartímabil er 6 mánuðir og taka mið af mikilli meðferðar- og umönnun­ar­þörf eftir atburðinn."

Niðurstaða matsins er að tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. gr. sé 100% í einn mánuð.  Þjáningabætur samkvæmt 3. grein:  Rúmliggjandi ekkert og batnandi, án þess að vera rúmliggjandi, 6 mánuðir.  Varanlegur miski samkvæmt 4. grein: 10%.

Matsmennirnir staðfestu matið fyrir dómi.

Um frásögn þá í heild sinni af umræddu atviki, sem fram kemur í matinu, sem og áreitni eftir það skal fram tekið um hið fyrra atriði að það hlýtur ekki fullnægjandi stoð af gögnum málsins og um hið síðara að það er engum gögnum stutt.

Í vottorði Högna Óskarssonar geðlæknis 30. október 1995, sem lögmaður stefnda lagði fram, segir að stefnandi máls þessa, Dagbjört Inga, hafi leitað til hans vegna mikils kvíða og þunglyndis sem hún hafi átt við að stríða í mörg ár í kjölfar bílslyss sem hún hafi orðið fyrir.  Undanfarandi þrjár til fjórar vikur hafi líðan hennar farið hratt versnandi og tengist það kröfu nágranna í sama húsi og hún búi í ásamt móður sinni um að hundur þeirra mæðgna verði fjarlægður úr húsinu.  Telur læknirinn mjög mikilvægt að hún fái að halda hundi sínum og að úr því verði skorið sem fyrst þannig að hún geti unnið ótrufluð áfram að endurhæfingu sinni og bata.

Högni Óskarsson staðfesti framangreind vottorð sín fyrir dómi.

V

Í málinu hefur ekki sannast að stefndi hafi valdið stefnanda, Dagbjörtu Ingu, líkamstjóni.  Þá  hafa ekki verið lögð fram gögn og upplýsingar, eins og boðað er í stefnu, sem sýni að stefnendur hafi ekki brotið bann gegn hundahaldi eða ögrað íbúum hússins, sbr. tilvitnaðan dóm Hæstaréttar.

Kröfuliðir stefnanda, Dagbjartar Ingu, aðrir en krafa um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga og, að því er virðist, útlagðan kostnað, eru reistir á ákvæðum I. kafla skaðabótalaga nr. 50/1993 sem samkvæmt efnisinnihaldi hefur að fyrirsögn:  “Bætur fyrir líkamstjón. – Líkamstjón sem veldur ekki dauða -.”  Þegar af þeirri ástæðu að tjón hennar er ekki sannað ber að sýkna stefnda af kröfunum.  Krafa um útlagðan kostnað lýtur að kaupum á lyfjum og fatnaði, greiddum sjúkrahúss­reikningi og ferðakostnaði með leigubifreiðum, einkum milli heimilis stefnanda og Borgarspítala.  Ekki hafa verið leidd í ljós atvik sem leiði til ábyrgðar stefnda á kostnaðinum og verður ekki fallist á kröfulið þennan.

Krafa stefnanda, Dagbjartar Ingu, um miskabætur á grundvelli 26. greinar skaðabótalaga nr. 50/1993 hlýtur ekki stoð af efni ákvæðisins, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.

Inga Guðmundsdóttir hefur borið að hún hafi aldrei verið eigandi Lady Queen.  Ekkert er fram komið, sem hrekur þann framburð, og er ekki fallist á kröfu stefnda um sýknu af kröfum stefnanda, Kristínar, á grundvelli aðildarskorts.

Stefndi varð valdur að því að hundurinn beið bana og ber að dæma hann til að bæta stefnanda, Kristínu, tjón hennar sem svarar verðgildi hundsins.

 Sem fyrr greinir er kröfugerð stefnanda reist á áliti Elvars Freys Jónsteinssonar og er endanleg dómkrafa óbreytt frá stefnu.  Undir rekstri málsins, eða 17. maí 2000, var dómkvaddur matsmaður að beiðni stefnanda, Kristínar, til að meta eftirfarandi:  “1.  Kostnað við að kaupa hund sambærilegan við Lady Queen sem var fædd 1.8.1990 og við að ala slíkan hvolp upp, en matsbeiðandi tók við uppeldi hennar þ. 5.10.1990.  2.  Söluverðmæti Lady Queen í maí 1997.”

Tímaviðmiðun varðandi síðari lið matsbeiðninnar var eftir framlagningu hennar breytt af lögmanni stefnanda í það horf, sem að framan greinir, úr “í apríl 1996”.   Lögmanninum hefur, eins og fram kemur hér á eftir, láðst að breyta jafnframt afriti matsbeiðninnar, sem hann fékk dómkvöddum matsmanni, Klöru Guðrúnu Haf­steins­dóttur, í hendur.  Niðurstaða matsgerðar, dags. 20. júní 2000, sem matsmaðurinn staðfesti fyrir dóminum, er þannig varðandi fyrri lið matsbeiðni að kaupverð hvolps sömu tegundar og Lady Queen sé á matsdegi um 150.000 krónur og kostnaður við að ala hann upp um 61.682 krónur á ári.  Um síðari lið matsbeiðni er niðurstaða sú að söluverðmæti Lady Queen  hafi verið 120.000 krónur í apríl 1996 og jafnframt er sett fram það mat að söluverðmætið sé u.þ.b. 150.000 krónur á matsdegi.

Elvar Freyr Jónsteinsson kom ekki fyrir dóminn til skýrslugjafar og framangreint bréf hans hefur ekki að geyma marktækt mat. Verðmæti hundsins Lady Queen verður með hliðsjón af matsgerð Klöru Guðrúnar Hafsteinsdóttur ákvarðað 120.000 krónur á tjónsdegi.  Áætlaður kostnaður við að halda hund hefur enga þýðingu við úrlausn málsins.

Krafa stefnanda, Kristínar, um miskabætur á grundvelli 26. greinar skaðabótalaga nr. 50/1993 hlýtur ekki stoð af efni ákvæðisins, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.

Samkvæmt framangreindu er niðurstaða dómsins sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda, Dagbjartar Ingu Olsen, og að dæma beri hann til að greiða stefnanda, Kristínu Olsen, 120.000 krónur ásamt vöxtum eins og greinir í dómsorði en vaxtakröfu er ekki andmælt sérstaklega.  Ákveðið er að málskostnaður falli niður milli stefnanda, Dagbjartar Ingu Olsen, og stefnda sem og milli stefnanda, Kristínar Olsen, og stefnda.

Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Ólafur Guðmundsson, er sýknaður af kröfum stefnanda, Dagbjartar Ingu Olsen.  Málskostnaður þeirra á milli fellur niður.

Stefndi greiði stefnanda, Kristínu Olsen, 120.000 krónur með 2% ársvöxtum frá 16. maí 1997 til 10. janúar 2000, sem höfuðstólsfærist á tólf mánaða fresti, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og vaxta frá þeim degi til greiðsludags.  Málskostnaður þeirra á milli fellur niður.