Hæstiréttur íslands
Mál nr. 18/2009
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 17. september 2009. |
|
Nr. 18/2009. |
Einar Guðlaugsson(Eva B. Helgadóttir hrl.) gegn Hannesi Ragnarssyni (Jóhannes Albert Sævarsson hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Gjafsókn.
H krafði E um bætur vegna líkamstjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir þegar E reyndi að koma H út úr húsnæði í eigu hins fyrrnefnda. Talið var sannað að E hefði veitt H áverka á hægri öxl með saknæmum og ólögmætum hætti og þannig bakað honum tjón sem E bar skaðabótaábyrgð á. Var E gert að greiða H skaðabætur að fjárhæð 2.811.184 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. janúar 2009. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála við meðferð málsins í héraði.
Samkvæmt dagbók lögreglu tilkynnti stefndi 4. júní 2004 að hann hefði marist á líkama og tognað á öxl vegna líkamsárásar áfrýjanda í gistiheimili við Brautarholt 4 í Reykjavík fjórum dögum áður. Eins og rakið er í héraðsdómi leitaði stefndi einnig til læknis tveimur dögum eftir atvik vegna meiðsla á hægri öxl og handlegg og var hann meðhöndlaður með bólgueyðandi og verkjastillandi lyfjum. Mörg læknisfræðileg gögn lágu fyrir héraðsdómi varðandi meiðsli stefnda, auk þess hafa verið lögð fyrir Hæstarétt gögn er staðfesta enn frekar að stefndi var reglulega í sjúkraþjálfun vegna meiðsla sinna frá 11. júní 2004 til 12. september 2007. Lögregla tók skýrslu af nokkrum vitnum 2. júní 2006 þar á meðal af Andrei Kruk og Grétari Þ. Hjaltasyni, sem einnig gaf skýrslu fyrir héraðsdómi. Samkvæmt gögnum málsins eru þeir hinir einu, auk eiginkonu stefnda og stjúpsonar áfrýjanda, sem kváðust hafa verið sjónarvottar að atvikum, en hvorugur þó frá upphafi til enda. Frásögn Grétars um þau atriði sem rakin eru úr framburði hans fyrir héraðsdómi eru í meginatriðum á sömu lund og hjá lögreglu. Andrei kvaðst ekki hafa getað fylgst vel með atvikum þar sem hann hafi staðið á gangstétt fyrir utan húsið en þó séð inn um glugga hvar áfrýjandi ýtti stefnda harkalega á vegg á stigapalli milli hæða. Fyrir Hæstarétti hefur stefndi viljað vísa til frásagnar Andrei um málsatvik. Hennar er hins vegar ekki getið í héraðsdómi en fram er komið að héraðsdómari fór ásamt lögmönnum á vettvang við meðferð málsins. Gegn andmælum áfrýjanda við fullyrðingum stefnda um það hversu vel hafi sést inn um umræddan glugga við vettvangsskoðun verður ekki byggt á frásögn Andrei við úrlausn málsins. Þegar litið er hins vegar til framburðar Grétars um það hvernig áfrýjandi veittist að stefnda, sem fyrst og fremst hafi reynt að verja sig og koma sér undan, og þeirra læknisfræðilegu gagna sem fyrir liggja í málinu og rakin eru í héraðsdómi, er fallist á niðurstöðu héraðsdóms um skaðabótaskyldu áfrýjanda. Ekki er ágreiningur um útreikninga á tjóni stefnda. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Eftir þessum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð en gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, allt eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Einar Guðlaugsson, greiði 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnda, Hannesar Ragnarssonar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 24. september sl., er höfðað 25. október 2007.
Stefnandi er Hannes Ragnarsson, Álftamýri 4, Reykjavík
Stefndi er Einar Guðlaugsson, Tunguvegi 23, 108 Reykjavík
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 6.896.747 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum af 1.294.770 krónum frá 31. maí 2004 til 14. september 2005, en af 4.828.726 krónum frá þeim degi til 1. desember 2007, en ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.
Krafist er málskostnaðar, þ.m.t. kostnaður stefnanda af 24,5% virðisaukaskatti, að mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi. Gjafsókn hefur verið veitt til reksturs þessa máls fyrir héraðsdómi og er krafist málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til vara er krafist lækkunar á kröfum stefnanda. Jafnframt er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.
Málavextir
Málavextir eru þeir að eiginkona stefnanda, Ólöf Kristín Ingólfsdóttir, seldi einkahlutafélaginu Dalfoss ehf., sem er í eigu stefnda og eiginkonu hans, Bóthildar Sveinsdóttur, einkahlutafélagið Sjávarföll ehf. Eina eign hins selda félags var gistiheimilið Pávi að Brautarholti 4, Reykjavík. Kaupsamningur um kaup á félaginu var undirritaður þann 29. apríl 2004. Hið selda var afhent þann 1. maí 2004.
Stefnandi átti eftir að ganga frá endurgreiðslu tryggingar til leigutaka og af þeim sökum hafði hann mælt sér mót við stefnda á gistiheimilinu þann 31. maí 2004 kl. 11.00.
Er stefnandi og stefndi hittust upphófst rifrildi á milli þeirra sem leiddi til ryskinga. Er ósætti aðila hófst voru þeir staddir í herbergi þess leigutaka sem stefnandi kom til að hitta. Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi veist að honum að ófyrirsynju. Stefndi hafi síðan ýtt stefnanda fram á stigagang þar sem hann hafi slengt honum utan í vegg og kveðst stefnandi við það hafa fengið slæmt högg á hægri öxl. Stefnandi kveðst þá hafa gripið í hár stefnda með vinstri hendi og þannig haldið honum frá sér á meðan stefndi hafi reynt að slá og sparka til hans. Eiginkona stefnanda hafi þá gegnið í milli og þá hafi stefnandi reynt að koma sér í burtu. Stefndi hafi hlaupið á eftir honum og hafi náð að hrinda honum út um útidyr hússins þar sem stefnandi lenti á hnjánum. Afleiðingar árásarinnar kveður stefnandi vera sinaslit í hægri öxl sem rekja megi til höggsins sem komið hafi á öxlina þegar stefnanda var kastað á vegginn en síðan hafi stefndi fylgt eftir með líkamsþunga sínum.
Stefndi lýsir atvikum þannig að þegar málsaðilar hittust þann 31. maí 2004 hafi komið í ljós að stefnandi hafi ekki haft meðferðis fé til þess að endurgreiða leigutökum eins og til stóð. Stefndi hafi orðið ósáttur við það og spurt hvers vegna hann væri þá kominn. Stefnandi hafi engu svarað og hafi stefndi þá beðið hann um að yfirgefa staðinn samstundis. Stefnandi hafi ekki orðið við því heldur hafi hann orðið mjög ögrandi í garð stefnda. Komið hafi til rifrildis milli þeirra sem báðir málsaðilar hafi tekið fullan þátt í. Stefndi neitar því alfarið að hann hafi ýtt stefnanda harkalega upp við vegg. Stefndi telur að vart sé hægt að telja samskipti eða stympingar málsaðila til áfloga heldur einfaldlega til orðaskaks sem stefnandi hafi átt upptökin að með því að neita að yfirgefa húsnæði stefnda. Það hafi komið stefnda því mjög á óvart þegar hann var boðaður í skýrslutöku til rannsóknardeildar lögreglu þann 10. nóvember 2005, rúmlega sautján mánuðum síðar, vegna kæru stefnanda á hendur honum vegna líkamsárásar. Hjá lögreglu kveðst stefndi hafi greint frá því að lýsing stefnanda á samskiptum þeirra væri alröng og hafi hann hafnað skaðabótakröfu sem hafði verið sett fram fyrir hönd stefnanda.
Málið var fellt niður hjá lögreglu með vísan til 112. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Sú ákvörðun var kærð til ríkissaksóknara af hálfu stefnanda. Lögreglan tók skýrslur af nafngreindum vitnum og rannsóknargögn voru yfirfarin að nýju og málið var í kjölfarið aftur fellt niður með vísan til sama ákvæðis.
Stefnandi leitaði til heimilislæknis síns tveimur dögum eftir umræddan atburð, eða 2. júní 2004. Í læknisvottorði Guðmundar Elíassonar, heimilislæknis stefnanda, dags. 5. janúar 2005, kemur fram að stefnandi hafi haft verki í hægri öxl og handlegg. Við skoðun hafi komið í ljós að hreyfingar í öxl, bæði activar og passívar, væru sársaukafullar og takmarkaðar vegna sársauka. Við þreifingu voru eymsli yfir allri öxlinni og niður eftir hægra upphandlegg. Stefnandi hafi verið meðhöndlaður með bólgueyðandi- og verkjastillandi lyfjum.
Samkvæmt framlögðum vottorðum Brynjólfs Y. Jónssonar læknis leitaði stefnandi til hans 4. nóvember 2004. Við skoðun þá reyndist hreyfigeta í hægri öxl eðlileg nema við fráfærslu. Skuggaefnisrannsókn af öxlinni sýndi að sinar voru rifnar. Því hafi verið ákveðið að gera aðgerð á öxlinni sem fram fór 14. mars 2005. Í aðgerðinni hafi komið í ljós talsvert stór rifa, í sin hægri axlar. Sinin sjálf hafi verið heilleg. Hægt hafi verið að loka rifunni með því að sauma sinina aftur inn við bein. Í kjölfar aðgerðarinnar hafi stefnandi stundað endurhæfingu. Aðgerðin og afturbati ásamt tilheyrandi þjálfun hafi haft í för með sér óvinnufærni í um þrjá mánuði.
Í síðasta vottorði Brynjólfs Y. Jónssonar læknis, dags. 22.10.2006, segir í samantekt að um sé að ræða mann sem var 55 ára þegar umræddur atburður átti sér stað. Áverkinn hafi verið þess eðlis að telja megi líklegt að samband sé á milli rofs í sinum í hægri öxl og upphafs áverkans. Aðgerð var gerð á hægri öxl um níu mánuðum síðar. Upp frá því endurhæfing. Við síðasta mat verulegur bati, samt sem áður umtalsverð óþægindi, bæði við leik og störf, svo og í hvíld. Við skoðun greinileg rýrnun á svokölluðum supraspinatus vöðva og minnkuð hreyfigeta við fráfærslu og færslu fram á við í öxlinni. Nú sé komið hálft annað ár frá aðgerð og því óraunhæft að búast við frekari bata en orðinn er.
Til þess að meta meint tjón stefnanda vegna hins umrædda atburðar voru, að beiðni stefnda, dómkvaddir tveir hæfir og óvilhallir matsmenn, þeir Magnús Páll Albertsson læknir og Ingvar Sveinbjörnsson hrl. Matsgerð þeirra er dags. 19. júlí 2007.
Niðurstöður matsmanna vegna tjónsatburðar 31. maí 2004 eru eftirfarandi:
Tímabundin óvinnufærni stefnanda frá 31. maí 2004 til 14. september 2005, ekki hafi verið að vænta frekari bata hjá stefnanda eftir 14. september 2005, þjáningarbótartímabil stefnanda var 470 dagar án þess að hann væri rúmfastur, en þó veikur, og einn dagur þar sem hann var veikur og rúmfastur, varanlegur miski stefnanda 12 % og varanleg örorka stefnanda 12%.
Stefndi hafnar því að hafa valdið stefnda því tjóni sem að framan er lýst.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi reisir kröfur sínar á því að stefndi hafi, hinn 31. maí 2004, veist að stefnanda að ófyrirsynju og hafi með ásetningi eða stórkostlegu gáleysi orðið valdur að alvarlegum áverka á hægri öxl hans. Árásin hafi verið tilefnislaus með öllu og afar fólskuleg. Stefndi beri ábyrgð á þessari háttsemi sinni og þeim afleiðingum sem af henni hlutust.
Það hafi verið harður ásetningur stefnda að koma stefnanda út úr húsi að Brautarholti 4. Með árásinni hafi stefndi hætt á að af gæti hlotist líkamstjón. Vitni staðfesti að stefndi hafi beitt stefnanda fólskulegu líkamlegu ofbeldi við að koma stefnanda út úr húsi. Í þeim atgangi hafi hann ýtt harkalega á bak stefnanda á stigapalli í stigahúsi milli annarrar og þriðju hæðar að Brautarholti 4, en gistiheimilið Pávi sé á þriðju hæð hússins. Stefnandi hafi lent af afli með hægri öxl upp við vegg og hafi hlotið skaða af. Þá hafi stefnandi lagst með líkamsþunga sínum á líkama stefnanda þannig að hægri öxlin hafi fengið enn frekara högg við það.
Stefnandi telur sannað að stefndi hafi veitt honum þá axlaráverka sem að framan sé lýst og metnir hafi verið stefnanda til varanlegs miska og örorku. Þá telur stefnandi orsakasamband sannað á milli áverkans og líkamsárásarinnar, bæði í tíma og samkvæmt fyrirliggjandi læknisfræðilegum gögnum. Stefnandi hafi leitað til Guðmundar Elíassonar tveimur dögum eftir árásina vegna einkenna frá hægri öxl og tognunar í hægri handlegg. Hreyfingar í handlegg hafi verið sársaukafullar og takmarkaðar. Þá hafi stefnandi haft samband við sameiginlega kunningjakonu stefnanda og stefnda, Helgu L. Leifsdóttur, skömmu eftir líkamsárásina, eða um hálfri klukkustund síðar og hafi sagt henni frá því sem gerst hafði. Þá hafi Brynjólfur Y. Jónsson bæklunarsérfræðingur upplýst að sinar hafi rofnað í hægri öxl stefnanda og skýring stefnanda á tjónsatvikinu teljist mjög sennileg.
Stefnandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir verulegu líkamstjóni vegna líkamsárásar stefnda þann 31. maí 2004. Þau einkenni sem rekja megi til tjónsatviksins hafi, af dómkvöddum matsmönnum, þeim Magnúsi Páli Albertssyni lækni og Ingvari Sveinbjörnssyni hrl., verið metin til 12 % varanlegs miska og 12% varanlegrar örorku, auk tímabundins atvinnutjóns og þjáningar. Það mat staðfesti einnig að rekja megi núverandi ástand hægri axlar stefnanda til tjónsatburðar sem stefndi beri ábyrgð á.
Þá byggir stefnandi á því að stefndi hafi valdið honum líkamstjóni af ásetningi eða stórfelldu gáleysi og krefst miskabóta á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Það hafi verið harður ásetningur stefnanda að koma stefnda út af gistiheimilinu að Brautarholti 4 án þess að skeyta um hvort þær aðfarir hefðu í för með sér hættu á líkamstjóni fyrir stefnanda. Stefndi hafi átt eða hafi mátt gera sér grein fyrir því að líkamstjón gæti hlotist af, en hann hafi ekki látið það sig neinu varða. Af háttsemi stefnda hafi skapast mikil hætta. Af henni hafi hlotist líkamstjón sem miklar líkur hafi verið á og á því verði stefndi að bera bótaábyrgð, einkum samkvæmt a. lið 26. gr.
Þá feli árás stefnda í sér meingerð gagnvart frelsi, friði, æru og persónu stefnanda, þar sem hann hafi verið staddur í friðsamlegum erindagjörðum á gistiheimilinu Páva að Brautarholti 4. Ekkert geti réttlætt líkamsárás stefnda á stefnanda. Það að ráðast að stefnanda og fleygja honum út úr húsi eftir að hafa hrakið hann niður af þriðju hæð hússins með pústrum, líkamsmeiðingum og óskammfeilnu ofbeldi, telur stefnandi að sé brot á b. lið 26. gr. laga nr. 50/1993. Í þessu felist ofbeldi gegn frelsi, friði og persónu stefnanda og hafi æru hans verið verulega misboðið af árás stefnda sem gerð hafi verið af ásetningi.
Kröfur stefnanda séu reistar á ólögfestri meginreglu skaðabótaréttar um að sá sem valdur sé að tjóni af ásetningi eða með gáleysi beri á því bótaábyrgð. Þá sé byggt á skaðabótalögum nr. 50 frá 1993.
Stefnandi styður kröfur um málskostnað við lög nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr.
Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað sé reist á l. nr. 50/1988, sbr. og reglugerð nr. 562/1989. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé honum því nauðsyn að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnda. Gjafsóknarleyfi liggi fyrir í málinu.
Fjárkrafa samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993:
|
Annað fjártjón skv. 1. gr. |
kr. 68.021 |
|
Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. |
kr. 2.265.651 |
|
Þjáningarbætur skv. 3. gr. (1.300*5463/3282*1 dags rúmlega) |
kr. 2.164 |
|
Þjáningarbætur skv. 3. gr. (700*5463/3282*470 daga fótaferð) |
kr. 547.632 |
|
Varanlegur miski skv. 4. gr. (3.729.644*5463/3282*12/100) |
kr. 744.974 |
|
Varanleg örorka skv. 5-7. gr. (1.755.759*6,020*12/100) |
kr. 1.268.305 |
|
Varanleg miski skv. 26. gr. |
kr. 2.000.000 |
|
Samtals |
kr. 6.896.747 |
Annað fjártjón sé samkvæmt framlögðum reikningum, sbr. yfirlitsblað.
Tímabundið atvinnutjón sé metið 100% frá 31. maí 2004 til 14. september 2005, eða í 471 dag. Stefnandi hafi ekki getað aflað sér tekna samfellt í 471 dag vegna axlarmeiðsla. Tekjuviðmiðun sé hin sama og lögð sé til grundvallar varðandi varanlega örorku, eða árstekjur að fjárhæð 1.755.759 krónur, (1.755.759 * 471 dagar / 365 dögum).
Tímabil þjáningar sé metið 471 dagur þar af hafi stefnandi verið rúmliggjandi í 1 dag. Varanlegur miski sé metinn 12%. Viðmiðunarfjárhæðir þjáningarbóta (kr. 700 þegar tjónþoli hefur fótaferð og kr. 1.300 þegar tjónþoli er rúmliggjandi, sbr. 3. gr. skbl.) og miska (kr. 3.729.644,- skv. 2. mgr. 4. gr. skbl., en stefnandi var 55 ára og 277 daga að aldri við slys (3.760.000-(3.760.000-3.720.000)*277 d. /365 d.)) eru uppfærðar miðað við breytingar á grunnvísitölu skbl. í maí 1993 (3282 stig) til þingfestingarmánaðar (október 2007), sem er 5463 stig.
Varanleg örorka sé metin 12%. Tekjuviðmiðun sé samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skbl., verðbætt samkvæmt 2. mgr. 15. gr. skbl. Viðmiðunartekjur séu uppfærðar miðað við breytingar á grunnvísitölu skbl. í maí 1993 (3282 stig) til vísitölu september mánaðar 2005, þegar ekki hafi verið að vænta frekari bata hjá stefnanda eða stöðugleika hafði verið náð. Nánar sundurliðist verðbættar tekjur stefnanda þannig: Viðmiðunartekjur kr. 1.200.000 * 4802/3282 = 1.755.759.
Tjónþoli hafi verið 57 ára og 18 daga að aldri þegar stöðugleika var náð þann 14. september 2005 og því verði stuðull til margföldunar samkvæmt 6. gr. skbl. 6,020, (6,037-(6,037-5,687)*18/365).
Krafa um bætur fyrir varanlegan miska samkvæmt 26. gr. skbl. sé í samræmi við kröfugerð í opinberu máli sem hafi verið til rannsóknar hjá lögreglunni í Reykjavík í máli nr. 010-2004-29250.
Vaxta samkvæmt 16. gr. skbl. nr. 50/1993 sé krafist frá tjónsdegi af þjáningar- og miskatjóni til 1. desember 2007, en frá stöðugleikapunkti 14. september 2005 af tímabundnu atvinnutjóni og varanlegri örorku og áfram til 01. desember 2007, en þá sé krafist dráttarvaxta af stefnufjárhæðinni eða frá því að mánuður er liðinn frá þingfestingu málsins, en þá hafi stefndi sannanlega fengið vitneskju um kröfuna, sbr. lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, og sé miðað við að sú vitneskja hafi átt sér stað á þingfestingardegi.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi byggir kröfu um sýknu á sakarreglu skaðabótaréttar sem kveður á um að maður beri skaðabótaábyrgð á tjóni sem hann veldur með saknæmum og ólögmætum hætti enda sé tjónið sennileg afleiðing af hegðun hans. Öll skilyrði sakarreglunnar þurfi að vera uppfyllt þannig að skaðabótaábyrgð skapist á hendur tjónvaldi. Stefndi byggir á því að ekkert skilyrði sakarreglunnar sé uppfyllt í máli þessu og sé kröfu stefnanda hafnað á þeim grunni. Er því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að stefndi hafi með ólögmætum eða saknæmum hætti veist að stefnanda og allra síst þannig að tjón hafi af hlotist. Þá mótmælir stefndi því að tjón það sem stefnandi telur að verði rakið til hinnar meintu líkamsárásar geti talist sennileg afleiðing í skilningi sakarreglunnar. Séu því hin hlutlægu skilyrði sakarreglunnar á engan hátt uppfyllt í máli þessu þannig að bótaábyrgð stefnda geti talist vera til staðar.
Hin meinta líkamsárás, sem stefnandi kærði, hafi verið rannsökuð ítarlega af hálfu lögreglunnar í Reykjavík og hafi málið verið fellt niður, ekki aðeins einu sinni heldur tvívegis með vísan til 112. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, þrátt fyrir öll þau rök sem stefnandi hafi vísað til í kæru sinni á fyrri niðurfellingu málsins og hann byggi nú á í máli á hendur stefnda. Á því sé ekki byggt af hálfu stefnanda að lögregla hafi ekki sinnt starfi sínu við að vinna að uppljóstran málsins og eftir atvikum fylgja eftir með ákæru, enda hafi lögreglan sinnt starfi sínu af kostgæfni og hafi m.a. yfirheyrt fjölda vitna. Þrátt fyrir þá ítarlegu rannsókn hafi það orðið niðurstaða lögreglunnar að ekkert hefði komið fram sem þætti nægilegt eða líklegt til sakfellis fyrir það brot sem kært var. Stefndi hafi þannig ekki einu sinni verið sóttur til saka í málinu. Því sé harðlega mótmælt að stefndi beri á einhvern hátt ábyrgð á því tjóni sem stefnandi telur rakið til samskipta málsaðila.
Vottorðum lækna sem stefnandi hafi lagt fram sé mótmælt sem sönnunargögnum um raunverulega atburði máls enda sé þeirra aflað algjörlega án aðkomu stefnda og byggi því einvörðungu á framburði stefnanda sjálfs á atburðum. Séu vottorð lækna því engin staðfesting um að þau mein sem stefnandi búi við séu afleiðing af meintri líkamsárás og því síður að stefndi eigi einhvern hlut að máli. Sanni þau ekki orsakatengsl milli hegðunar stefnda og meina stefnanda á nokkurn hátt. Niðurstaða dómkvaddra matsmanna byggi síðan á þessum vottorðum lækna og frásögnum stefnanda sjálfs á matsfundi. Það sé hins vegar hvorki hlutverk né á færi dómkvaddra matsmanna að meta hvort skilyrði sakarreglu um orsakatengsl milli atburðar og tjóns séu uppfyllt enda lögfræðilegt álitaefni sem dómari skeri úr um í kjölfar milliliðalausrar sönnunarfærslu fyrir dómi.
Þá vísar stefndi sérstaklega til þess að hin meinta líkamsárás eigi að hafa átt sér stað þann 31. maí 2004. Stefnandi hafi, þrátt fyrir meintan alvarleika málsins, ekki lagt fram kæru fyrr en sjö mánuðum síðar eða þann 30. desember 2004. Engin haldbær skýring sé gefin á því af hverju kæra hafi ekki verið lögð fram án ástæðulauss dráttar. Sé það máli stefnanda ekki til framdráttar og þar að auki rýri það sönnunargildi framburða vitna hjá lögreglu, sem lagðir hafi verið fram í málinu, málatilbúnaði stefnanda til stuðnings. Frásögn stefnanda sjálfs af atburðarásinni sé til að mynda nokkuð á annan veg á matsfundi dómkvaddra matsmanna, þar sem stefnandi segi að hann hafi fallið og stefndi ofan á hann. Þessi framburður stefnanda á matsfundi fái hvergi stoð í öðrum gögnum málsins, þar á meðal í hans eigin skýrslu hjá lögreglu.
Stefndi telur að aðstæður í stigagangi hússins séu með þeim hætti að sumir framburðir vitna geti ekki staðist, enda gæti gífurlegs innbyrðis ósamræmis í framburðum þeirra vitna sem stefnandi byggi málatilbúnað sinn á. Geti það til að mynda vart talist trúverðugur framburður vitnis um atburði á milli annarrar og þriðju hæðar í stigagangi húss, sem ber fyrst um að hann sé staddur fyrir utan húsið á jarðhæð, sbr. lögregluskýrslu af Andrei Kruk. Að öðru leyti sé framburður Andreis ekki sjálfstæð frásögn hans af atburðum heldur sé framburður stefnanda borinn undir hann og hann beðinn um að taka afstöðu til hans. Gefi framburður Andreis því mjög ótrúverðuga mynd af atburðum. Þá fái málatilbúnaður stefnanda ekki stoð í framburði Grétars Þ. Hjaltasonar, þar sem hann kveði hvergi á um að stefndi hafi hent stefnanda út í vegg, en stefnandi reki tjón sitt einvörðungu til axlarmeins sem hann telur sig hafa hlotið af því að stefndi hafi kastað honum út í vegg. Framburðir annarra vitna séu síst til þess fallnir að styðja framburð stefnanda og þar með málatilbúnað hans. Málatilbúnaður stefnanda styðjist því einvörðungu við framburð eiginkonu hans sem geti vart talist hafa ríkt sönnunargildi í málinu. Jafnvel þótt það teldist sannað að til einhverra líkamlegra ryskinga hefði komið telur stefndi að skaðabótaábyrgð hans geti ekki talist vera til staðar á grundvelli eigin sakar stefnanda. Stefnandi hafi ekki aðeins átt upptökin að rifrildi málsaðila, að mati stefnda, heldur hafi einnig tekið fullan þátt því og hafi meðal annars greint frá því í lögregluskýrslu að hann hafi rifið í hár stefnda, enda eigi sjaldnast einn sök er tveir deila.
Með vísan til ofanritaðs sé kröfum stefnanda alfarið hafnað. Varðandi varakröfu um lækkun sé byggt á sömu sjónarmiðum og varðandi aðalkröfu. Vísað sé sérstaklega til eigin sakar stefnanda, sem hafi ekki aðeins tekið fullan þátt í rifrildi við stefnda heldur hafi í raun átt upptökin að þeim með látalætum og að neita að yfirgefa hús stefnda. Þá geri stefndi eftirfarandi athugasemdir við kröfugerð stefnanda.
Heildarkrafa stefnanda sé að fjárhæð 6.896.747 krónur og sé sögð byggja á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi geri kröfu um tímabundið atvinnutjón að fjárhæð 2.265.651 krónur þrátt fyrir að hann hafi ekki misst af launatekjum vegna slyssins, sbr. bls. 10 í matsgerð dómkvaddra matsmanna. Telur stefndi þversögn vera í forsendum niðurstöðu matsmanna og niðurstöðunnar þar sem vinnutap stefnanda hafi ekki verið raunverulegt enda hafi stefnandi ekki haft launatekjur um árabil og því augljóslega ekki verið á vinnumarkaði. Þá mótmæli stefnandi þessum kröfulið einnig með vísan til meginreglu skaðabótaréttar um að tjónþoli eigi að vera eins settur og slysið hefði ekki átt sér stað. Verði fallist á kröfu stefnanda að þessu leyti sé hann að hagnast á slysinu á kostnað stefnda. Það fái ekki staðist að mati stefnda og sé kröfu um greiðslu bóta vegna tímabundins atvinnutjóns mótmælt á þeim grunni.
Stefnandi geri kröfu um þjáningarbætur annars vegar rúmliggjandi að fjárhæð 2.164 krónur, og hins vegar batnandi að fjárhæð 547.632 krónur og varanlegs miska að fjárhæð 744.974 krónur. Stefndi geri athugasemdir við útreikning stefnanda að því leyti að miðað sé við breytingar á lánskjaravísitölu þingfestingarmánaðar í stað þess mánaðar þegar niðurstaða matsmanna lá fyrir og sé ekki námundað í samræmi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá geri stefnandi einnig kröfu um bætur fyrir miska samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 2.000.000 króna án þess að nokkuð tillit hafi verið tekið til kröfu um varanlegan miska. Stríði það gegn dómafordæmum.
Málsvörn stefnda byggist á meginreglum skaðabótaréttar og ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá byggi stefndi á meginreglum réttarfars og vísar til ákvæða laga nr. 91/1991. Vísar stefnandi til ákvæðis 112. gr. laga nr. 19/1991
Jafnframt vísast til 130. gr. laga nr. 91/1991 til stuðnings kröfu um málskostnað
Niðurstaða
Málsaðila greinir á um málsatvik er þeir hittust á gistiheimilinu að Brautarholti 4, Reykjavík 31. maí 2004.
Stefnandi bar fyrir dómi að hann hefði eignast gistiheimilið að Brautarholti 4 árið 2003. Hann hafi rekið það ásamt eiginkonu sinni til aprílloka 2004 er Dalfoss ehf, fyrirtæki í eigu stefnda og eiginkonu hans, keypti gistiheimilið. Hafi stefndi fengið gistiheimilið afhent 1. maí 2004.
Hinn 31. maí 2004, á annan í hvítasunnu, kveðst stefnandi hafa verið staddur á gistiheimilinu ásamt eiginkonu sinni, en þar hafi hann mælt sér mót við stefnda kl. 11.00. Erindið hafi verið taka út eina íbúð og endurgreiða tryggingu til leigutaka ef allt var í lagi. Stefnandi lýsir atvikum svo að þegar þau hjónin voru að ræða við leigutakann hafi stefndi komið þar að með látum og hafi viljað skipta sér af því sem þau voru að gera og hafi þau beðið hann kurteislega að fara út. Hann hafi ekki verið á því, heldur hafi hann viljað koma stefnanda út. Stefndi hafi reynt að ýta stefnanda út og komið hafi til smá stimpinga. Stefnandi kveðst hafa reynt að losa sig undan honum og hafi komist fram á ganginn og hafi ætlað niður. Stefndi hafi náð honum á stigapallinum á milli 2. og 3. hæðar og hafi slengt honum í vegginn. Þar hafi hann náð að snúa sér við og halda honum frá sér með vinstri hendi því hann hafi orðið alveg máttlaus strax öðru megin. Þá hafi eiginkona hans komið að og slegið í bakið á stefnda og þá hafi hann komist undan stefnda. Stefndi hafi komið á eftir honum og náð því að fleygja honum út á endanum. Hann kveður stefnanda hafa bögglað sér út í gegnum dyrnar og kastað sér út eins og vanur útkastari. Stefnandi kveðst hafa orðið alveg máttlaus öðru megin.
Stefnandi kveðst hafa verið í sjokki yfir því sem gerðist. Æsingurinn í stefnda hafi verið svo mikill. Hann kvaðst ekki hafa farið á slysavarðstofuna en hann hafi leitað til læknis tveimur dögum síðar. Hafi hann talið að um tognun gæti verið að ræða sem myndi ganga til baka. Hann hafi ekki rennt í grun að meiðslin væru svona mikil. Læknirinn hafi sent hann í sjúkraþjálfun og hafi hann verið í henni í 3 mánuði en hafi ekki fengið bata. Þá hafi hann leitað til Brynjólfs Y. Jónssonar læknis. Fyrir þennan umrædda atburð hafi öxlin verið í lagi og engar sjúkraskrár um annað.
Stefnandi kveðst hafa farið á lögreglustöð 4. júní 2004 og þar hafi verið bókað eftir honum hvað gerðist en kæra ekki sett fram. Lögreglumaðurinn hafi ráðlagt honum að bíða með að kæra og sjá hverju fram yndi einkum með hliðsjón af því að stefndi hafi ekki verið búinn að borga nema einn fjórða af kaupverði gistiheimilisins og myndi þá kannski ekki greiða meira. Hann hafi talið að áverkinn myndi lagast og að hann myndi stofna þessum viðskiptum í hættu með því að kæra kaupandann fyrir líkamsárás. Hafi ekki verið ljóst í byrjun hvað þetta voru alvarleg meiðsl.
Stefndi bar fyrir dómi að stefnandi hefði komið á gistiheimilið til að greiða tryggingar sem hann átti eftir að greiða. Komið hafi í ljós að stefnandi ætlaði einungis að endurgreiða einum leigutaka en stefnandi taldi, af viðtölum sínum við leigutaka, að stefnanda bæri að endurgreiða fleirum. Fannst honum þetta koma sér við. Þegar stefnandi kom hafi orðið ljóst að hann ætlaði ekki að endurgreiða þessu fólki. Hann hafi því beðið stefnanda að fara strax því þá hefði hann ekkert þarna að gera. Hafi hann ekki gert það með offorsi en stefnandi hafi ekki orðið við beiðni hans. Þeir hafi lent í heljar rifrildi. Stefndi kvaðst hafa orðið reiður. Stefnandi hafi tekið fullan þátt í rifrildinu og eiginkona hans einnig. Hvorki hafi verið um slagsmál né handalögmál að ræða. Aðspurður um það hvort hann hefði tekið stefnanda hálstaki eða ýtt honum harkalega upp að vegg kannaðist stefndi ekki við það. Þá mótmælti hann því að hann hefði hent stefnanda út. Hann kveðst hafa opnaði útidyrahurðina og þrýst honum út. Hann hafi fylgt honum fast og ákveðið út.
Ólöf Kristín Ingólfsdóttir, eiginkona stefnanda, bar fyrir dómi, að um leið og stefndi kom til að hitta þau hjónin hafi verið læti í honum. Fljótlega hafi orðaskak upphafist milli stefnanda og stefnda. Hafi stefndi sagt við stefnanda að hann ætti ekkert í gistiheimilinu og ætti hann að koma sér út. Hafi stefndi ýtt stefnanda út úr herberginu með hótunum. Hafi stefnandi náð að komast niður stigann en hún hafi reynt að króa stefnda og son hans af með því að halda í handrið stigans og styðja sig við vegginn. Stefndi og sonur hans verið eins og vígamenn. Sonurinn hafi svipt sig bolnum sem hann var í og þá hafi henni orðið svo um að stefndi komst í gegn og hljóp á eftir stefnanda niður stigann og hafi hent honum út í horn á stigapallinum. Kveðst Ólöf hafa slegið á milli herðablaðana á stefnda. Stefnandi hafi náð að halda í hárið á stefnda með vinstri hendi og hafi þannig haldið honum frá sér. Stefnandi hafi síðan náð að sleppa og hafi þau komist út í bíl. Hafi þau bæði verið í miklu sjokki. Nánar aðspurð kvaðst Ólöf ekki hafa séð stefnda henda stefnanda út í vegg en kveðst hafa séð stefnanda liggja utan í veggnum og halda í hárið á stefnda.
Vitnið Grétar Þ. Hjaltason var staddur á gistiheimilinu þennan umrædda dag. Fyrir dómi lýsti hann því sem fyrir augu bar. Kvaðst hann hafa setið í eldhúsinu og hafi séð Hannes og Ólöfu koma. Einar hafi einnig komið og hafi hann farið inn í herbergi þar sem stefnandi og eiginkona hans voru fyrir. Hann hafi heyrt stefnda öskra og síðan upphófust þar læti og stympingar. Stefnandi og stefndi hafi síðan komið fram á ganginn fyrir framan eldhúsið þar sem hann sat. Hafi þessar stimpingar milli þeirra haldið áfram og niður í stigagang. Kvaðst Grétar ekki hafa orðið vitni að því hvernig þessu lauk. Stefndi hafi hins vegar sagt að hann hefði hent Hannesi út. Sonur Einars hafi blandað sér í málið. Virtist Grétari að stefndi hefði haft yfirhöndina enda stærri maður, yngri og hraustari. Hann hafi verið í því að reyna að koma stefnanda út úr húsinu. Aðspurður um það hvernig stefndi hafi borið sig að kvaðst hann muna að stefndi hafi tekið stefnanda hálstaki. Hann kvaðst hafa beðið þá að haga sér eins og menn en það hafi ekki borið árangur. Grétar kvaðst ekki hafa skipt sér af þessu. Stimpingarnar hafi borist niður stigaganginn. Þá hafi sonur stefnda farið að blanda sér í málið og hjálpa til við að koma stefnanda út. Hann hafi rifið í handlegginn á stefnanda og lagt hendur á hann. Kvaðst Grétar síðan hafa heyrt að þetta barst niður stigaganginn. Stefndi hafi verið að reyna að koma stefnanda út með því að ýta honum og toga í hann. Stefnandi hafi tekið á móti eins og hann gat til að verja sig en stefndi hafi haft undirtökin.
Stígur Már Karlsson, stjúpsonur stefnda, bar fyrir dómi að hann hefði verið á gistiheimilinu umræddan dag. Hann kvaðst hafa séð þegar stefnandi og stefndi komu út á stigapallinn. Hafi þeir verið að rífast en svo hafi rifrildið færst niður á stigapallinn fyrir neðan. Hann hafi verið þar í smá tíma en svo hafi þeir allir farið niður. Stefnandi og stefndu hafi staðið þarna og rifist. Ekki hafi verið um handalögmál að ræða allavega ekki slagsmál. Vitnið neitaði aðspurt að hafa verið með hótanir, hann hafi ekki sé stefnda hrinda eða slengja stefnanda harkalega upp við vegg. Kvaðst hann ekki hafa séð stefnda hrinda stefnanda. Hafi þessi uppákoma fremur verið rifrildi en slagsmál. Hafi þetta komið til af því að stefnandi hafi ekki farið þegar stefndi bað hann að fara. Bar Stígur að stefndi hafi eitthvað snert stefnanda en ekki hrint honum eða ýtt honum. Hafi stefndi einungis fylgt stefnanda eftir og þeir hafi hnakkrifist á meðan. Einhver orðaskipti hafi orðið milli hans og Ólafar, hins vegar hafi hann ekki farið úr að ofan eins og Ólöf heldur fram.
Stefnandi heldur því fram í málinu að hann hafi í átökum við stefnda þennan umræddan dag hlotið áverka á hægri öxl sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á.
Með hliðsjón af framburði stefnanda fyrir dómi, sem fær stuðning í framburði vitnisins Grétars Þ. Hjaltasonar og Ólafar Kristínar Ingólfsdóttur, eiginkonu stefnanda, þykir sýnt fram á að stefndi hafi ráðist að stefnanda og til handalögmála hafi komið milli þeirra umræddan dag. Telst sýnt fram á að það hafi verið ásetningur stefnda að koma stefnanda út úr húsinu og til þess hafi hann neytt aflsmunar, sbr. framburð Grétars. Þykir ekki sýnt fram á að það hafi verið nauðsynlegt við þær aðstæður sem þarna voru eða að stefnandi hafi átt frumkvæðið að þessum handalögmálum en samkvæmt framburði Grétars reyndi stefnandi að verja sig með því að taka á móti stefnda.
Fyrir liggur að stefnandi leitaði til heimilislæknis síns tveimur dögum eftir umræddan atburð vegna sársauka í hægri öxl sem hann, samkvæmt framlögðu læknisvottorði, rakti til átaka við stefnda. Var hann meðhöndlaður með bólgueyðandi og verkjastillandi lyfjum. Þegar líðan hans batnaði ekki leitaði hann til Brynjólfs Y. Jónssonar læknis. Gekkst hann síðan undir aðgerð hjá Brynjólfi, 14. mars 2005,vegna rifu í lyftuhulsu hægri axlar, eins og rakið er hér að framan.
Að beiðni stefnanda voru dómkvaddir tveir matsmenn, þeir Magnús Páll Albertsson læknir og Ingvar Sveinbjörnsson hrl., til þess að meta meint tjón stefnanda. Í matsgerð þeirra segir að þeir telji að einkenni stefnanda, sé að rekja til umrædds atburðar. Ekkert hafi komið fram, hvorki á matsfundi, í framlögðum gögnum né þeim gögnum er matsmenn öfluðu að eigin frumkvæði, sem geti bent til þess að stefnandi hafi haft einhver einkenni frá hægri öxl fyrir umræddan tjónsatburð. Staðfestu matsmenn þetta álit sitt fyrir dómi.
Þegar framanritað er virt þykir sýnt fram á að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti veitt stefnanda áverka á hægri öxl þann 31. maí 2004 sem hafi bakað stefnanda tjón, sem stefndi ber skaðabótaábyrgð á, enda hefur stefndi ekki getað sýnt fram á að tjón stefnanda hafi hlotist með öðrum hætti
Enda þótt kæra stefnanda til lögreglu hafi ekki leitt til saksóknar og málið hafi verið fellt niður á grundvelli 112. gr. laga nr. 19/1991 stendur það ekki í vegi fyrir því að stefnandi geti sótt rétt sinn í einkamáli.
Stefnandi krefst skaðabóta úr hendi stefnda að fjárhæð 6.896.747 krónur og er krafa hans sundurliðuð hér að framan.
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á matsgerð dómkvaddra matsmanna. Hefur matsgerðinni ekki verið hnekkt og verður hún lögð til grundvallar niðurstöðu í málinu.
Stefnandi krefst bóta vegna tímabundins atvinnutjóns að fjárhæð 2.265.651 króna. Er þeirri kröfu mótmælt af hálfu stefnda.
Fyrir liggur að stefnandi hefur ekki misst af launatekjum vegna slyssins, sjá matsgerð og framlagðar skattskýrslur. Telja verður að 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1991 byggist á því að tjónþoli hafi verið í launaðri vinnu og geti ekki sinnt henni vegna tjóns sem hann hefur orðið fyrir. Er á því byggt að um raunverulegt tjón sé að ræða en ekki áætlað tjón. Þar sem stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir slíku raunverulegu tjóni ber að hafna kröfu hans um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns.
Krafa stefnanda vegna varanlegs miska nemur 744.974 krónum og byggist útreikningur kröfunnar á 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Dómkvaddir matsmenn meta varanlega miska stefnanda 12%. Við mat sitt líta matsmenn til þess að stefnandi hlaut við umræddan tjónsatburð áverka á hægri öxl þegar lyftihulsan slitnaði og gera þurfti við með aðgerð. Varanlegar afleiðingar eru daglegur verkur í öxlinni sem versnar við átök og áreynslu og heftir stefnanda við ýmsar athafnir í daglegu lífi. Stefndi mótmælir ekki miskastigi en gerir athugasemd við útreikning stefnanda á kröfunni þar sem miða eigi við lánskjaravísitölu þegar niðurstaða matsmanna lá fyrir en ekki miða við lánskjaravísitölu þingfestingarmánaðar eins og stefnandi geri. Stefndi hefur ekki lagt fram útreikning sem hann telur réttan að þessu leyti, en með vísan til 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga ber að fallast á þessa athugasemd stefnda. Teljast bætur til stefnda vegna varanlegs miska hæfilega ákveðnar 733.519 krónur og er þá í útreikningi miðað við lánskjaravísitölu júlímánaðar 2007, 5379 stig.
Krafa vegna varanlegrar örorku nemur 1.268.305 krónum. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna segir að við mat á varanlegri örorku sé litið til læknisfræðilegra afleiðinga slyssins og aðstæðna stefnanda. Matsmenn telja nægilega upplýst að þrátt fyrir að matsbeiðandi sé metinn til 75% örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins hafi hann haft nokkra starfsgetu fyrir slysið. Telja matsmenn að stefnandi hafi getað sinnt léttum störfum fyrir slysið auk heimilisstarfa en að afleiðingar slyssins hafi skert þá starfsgetu sem fyrir var en hann geti enn sinnt léttum heimilisstörfum. Öll vinna þar sem reyni á styrk hægri handar sé nú miklum mun erfiðari en áður og eigi stefnandi erfitt um vik að sinna viðhaldi á eigin húsnæði. Teljist varanleg örorka hans 12%.
Eins og áður segir hefur mati hinna dómkvöddu matsmanna ekki verið hnekkt. Þá hefur stefndi ekki mótmælt tölulega þessari kröfu. Byggist útreikningur stefnanda á matsgerð dómkvaddra matsmanna og ákvæðum skaðabótalaga. Ber því að taka kröfuna til greina.
Samkvæmt matsgerð telja matsmenn stefnanda hafa verið óvinnufæran frá því að tjónsatburður varð, 31. maí 2004, fram til þess að liðnir voru sex mánuðir frá aðgerð á öxl hans, eða fram til 14. september 2005. Þrátt fyrir að þetta sé langur tími telja matsmenn að málið hafi verið í eðlilegum farvegi hvað stefnanda varðar, enda hafi hann fljótlega leitað til læknis og verið lengi vel í meðferð hjá sjúkraþjálfara. Ekki verði lagt stefnanda til lasts að hann gekkst ekki undir aðgerðina fyrr en í marsmánuði 2005. Telja matsmenn ekki óeðlilegt að það taki stefnanda sex mánuði að ná vinnufærni eftir aðgerðina. Telja þeir að tímabil þjáningabóta eigi að miðast við áætlaða óvinnufærni og telja því tímabil óvinnufærni ná yfir tímabilið 31. maí til 14. september 2005 eða vera 471 dag. Af því teljist stefnandi hafa verið rúmfastur í einn dag, aðgerðardaginn, en í 470 daga veikur án þess að vera rúmfastur.
Krafa stefnanda um þjáningabætur vegna eins dags rúmlegu nemur 2.164 krónum en krafa vegna þjáningabóta vegna veikinda án þess að vera rúmfastur nemur 547.632 krónum. Af hálfu stefnda eru gerðar athugsemdir við útreikning stefnanda að því leyti að stefnandi miðar við lánskjaravísitölu þingfestingarmánaðar en ekki vísitölu þess mánaðar er niðurstaða matsmanna lá fyrir. Með vísan til þess sem áður er rakið ber að miða við lánskjaravísitölu júlímánaðar 2007 og ber samkvæmt því að taka kröfu stefnanda til greina þannig að þjáningabætur fyrir 1 dags rúmlegu dæmast 2.131 krónu en bætur fyrir veikindi án rúmlegu 539.208 krónur.
Stefnandi gerir kröfu um bætur vegna varanlegs miska á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993 að fjárhæð 2.000.000 króna.
Eins og rakið er hér að framan þykir sýnt fram á að stefndi veittist af tilefnislausu að stefnanda og veitti honum áverka. Gerðist hann með því sekur um ólögmæta meingerð gegn persónu hans. Er þannig fullnægt skilyrðum 26. gr. laga nr. 50/1993 til þess að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda miskabætur sem eftir atvikum þykja hæfilega ákveðnar 200.000 krónur.
Krafa stefnanda um bætur vegna annars fjártjóns nemur 68.021 krónu. Er þar um að ræða útlagðan kostnað stefnanda vegna lækniskostnaðar, kostnaðar við sjúkraþjálfun og lyf. Hefur stefnandi lagt fram kvittanir fyrir greiðslu þessa kostnaðar sem tekur yfir tímabilið júní 2004 til ágúst 2007. Hefur þessari kröfu ekki verið andmælt sérstaklega af hálfu stefnda. Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á annað en að um kostnað sé að ræða sem rætur á að rekja til þess tjóns sem stefnandi varð fyrir vegna umrædds atviks verður þessi kröfuliður tekinn til greina.
Samkvæmt framansögðu ber stefnda að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 2.811.184 krónur. Vaxtakröfu er ekki mótmælt og dæmast því umkrafðir vextir, 4.5% ársvextir, af 1.274.858 krónum frá 31. maí 2004 til 14. september 2005 en af 2.543.163 krónum frá þeim degi til 1. desember 2007 en frá þeim degi dæmast dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 2.811.184 krónum til greiðsludags.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað, þar með talinn matskostnað og útlagðan kostnað vegna málsins, sem ákveðst 995.000 krónur og greiðist hann í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. matskostnaður 527.750 krónur, vottorð Brynjólfs Jónssonar læknis, 17.250 krónur, og þóknun lögmanns stefnanda, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl., 450.000 krónur, eða samtals 995.000 krónur greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Einar Guðlaugsson, greiði stefnanda, Hannesi Ragnarssyni, 2.811.184 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.274.858 krónum frá 31. maí 2004 til 14. september 2005, en af 2.543.163 frá þeim degi til 1. desember 2007 en frá þeim degi dæmast dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 2.811.184 krónum til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 995.000 krónur í málskostnað sem greiðist í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. matskostnaður, 527.750 krónur, vottorð Brynjólfs Jónssonar læknis, 17.250 krónur, og þóknun lögmanns stefnanda, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl., 450.000 krónur, eða samtals 995.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.