Hæstiréttur íslands
Mál nr. 217/2000
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Fasteign
- Byggingarleyfi
- Sakarskipting
- Skipting sakarefnis
|
|
Fimmtudaginn 18. janúar 2001. |
|
Nr. 217/2000. |
Hilmar Tómas Guðmundsson (Róbert Árni Hreiðarsson hdl.) gegn Tryggingastofnun ríkisins (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Fasteign. Byggingarleyfi. Sakarskipting. Skipting sakarefnis.
H, starfsmaður þvottahússins F, sem starfa síns vegna þurfti að fara um geymsludyr í húsnæði T, rak sig upp undir dyrakarminn og fékk við það högg ofan á höfuðið, en hæð dyranna var einungis 126 cm. Ekkert í málinu þótti benda til annars en að óþægindi H í höfði, hálsi og herðum stöfuðu af þessu atviki. Við úrlausn málsins var til þess litið að ekki höfðu verið gerðar neinar ráðstafanir af hálfu T til að draga úr hættu er fylgja kynni svo óvenjulegum dyraumbúnaði, eða vara við henni. Var því talið að leggja yrði fébótaábyrgð á T vegna þessa vanbúnaðar, sem skapaði hættu meðan ekki var úr bætt. Var T gert að bæta H helming tjóns hans vegna slyssins en H látinn bera helming sjálfur, þar sem talið var að honum hefði verið vel kunnugt um óvenjulega gerð dyraopsins og hefði auk þess sýnt af sér gáleysi í umrætt sinn.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. maí 2000. Hann krefst þess að stefndi verði að fullu dæmdur bótaskyldur vegna tjóns, sem áfrýjandi varð fyrir er hann rak sig upp undir dyrakarm í húsnæði stefnda að Laugavegi 114, Reykjavík, 14. desember 1993. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi eru málavextir þeir að áfrýjandi, sem á þessum tíma var starfsmaður þvottahússins Fannar hf., kom að morgni 14. desember 1993 í mötuneyti stefnda að Laugavegi 114 í Reykjavík þeirra erinda að skila þangað hreinum þvotti og sækja óhreinan. Inn af mötuneytinu er geymsluherbergi undir súð og var hæð á dyrum geymslunar einungis 126 cm. Áfrýjandi, sem þurfti starfa síns vegna að fara um dyr geymslunnar, kveðst hafa rekið sig upp undir dyrakarminn og fengið við það högg ofan á höfuðið. Hafi hann fallið við og vankast en haldið síðan áfram störfum sínum. Í framburði áfrýjanda fyrir héraðsdómi kom fram að hann hafi verið í nokkurri tímaþröng og farið í umrætt sinn í flýti inn í geymsluna. Þá hafði hann derhúfu á höfði, sem hann telur þó ekki hafa byrgt sér sýn. Í framburði hans kemur einnig fram að hann hafi alloft áður farið með þvott á þennan stað og þá stundum lent í vandræðum með að fara um dyrnar og einu sinni eða tvisvar áður rekið sig upp undir dyrakarminn. Ekki hafa verið leidd vitni að atburði þessum og ekki var hann á þessum tíma tilkynntur stefnda. Er frá leið kveðst áfrýjandi hafa farið að finna fyrir óþægindum og af gögnum málsins er ljóst að hann leitaði til heimilislæknis síns 18. janúar 1994 og kvartaði um verki í höfði, hálsi og hægri handlegg. Í framhaldi af því var honum vísað til sérfræðings, sem hóf læknismeðferð 27. janúar 1994.
Mötuneyti stefnda er á 5. hæð Laugavegs 114, sem er þakhæð hússins. Í gögnum málsins kemur fram að þegar stækkun þakhæðarinnar var samþykkt í byggingarnefnd Reykjavíkur 9. febrúar 1984 var ekki gert ráð fyrir umræddri geymslu eða dyragati og var hvort tveggja því gert án vitundar og samþykkis byggingarnefndar. Var geymsla útbúin síðar eftir að mötuneytið var tekið í notkun þegar í ljós kom mikil þörf fyrir geymslurými.
II.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að ýmislegt sé óljóst um atvikið, er átti sér stað 14. desember 1993, og ósannað sé að vandamál áfrýjanda verði rakin til umrædds atviks. Enda þótt ekki hafi verið aflað frásagna vitna af umræddum atburði er engin ástæða til að ætla að hann hafi ekki orðið með þeim hætti, er áfrýjandi lýsir. Hann leitaði læknis rúmum mánuði eftir slysið og rakti þá óþægindi þau er hann hafði til umrædds atburðar. Er ekkert fram komið í málinu er bendir til annars en að óþægindi áfrýjanda í höfði, hálsi og herðum stafi af atviki þessu.
Fyrir liggur að umrædd geymsla og dyraop voru útbúin án samþykkis þar til bærra byggingaryfirvalda. Var hæð dyranna einungis 126 cm samkvæmt eftirlitsskýrslu Vinnueftirlits ríkisins í júlí 1996 og um þær stöðugur umgangur. Ekki voru gerðar af hálfu stefnda neinar ráðstafanir til að draga úr hættu, er fylgja kynni svo óvenjulegum dyraumbúnaði, eða vara við henni. Vinnueftirlit ríkisins gerði alvarlegar athugasemdir við gerð dyraopsins og geymslunnar þegar athygli stofnunarinnar var á því vakin á árinu 1996 í tilefni af slysi því, er áfrýjandi varð fyrir. Verður að leggja fébótaábyrgð á stefnda vegna þessa vanbúnaðar, sem skapaði hættu meðan ekki var úr bætt .
Áfrýjandi hafði nokkrum sinnum átt leið í umrædda geymslu áður en atvik það, er mál þetta fjallar um, átti sér stað. Honum var því vel kunnugt um óvenjulega gerð dyraops geymslunnar og hafði raunar áður rekið sig lítillega upp undir í ferðum sínum um opið. Þrátt fyrir þetta er ljóst af framburði hans sjálfs að hann flýtti för sinni um opið í umrætt sinn og bar höfuðfat, sem til þess var fallið að byrgja honum sýn. Með þessari háttsemi sinni þykir hann hafa sýnt gáleysi, sem leiðir til þess að hann verður einnig að bera ábyrgð á slysinu. Að öllu virtu verður niðurstaða málsins sú, að stefndi skal bæta áfrýjanda helming tjóns hans vegna slyssins, en helming skal áfrýjandi bera sjálfur.
Stefnda er gert að greiða málskostnað, sem ákveðinn verður sameiginlega í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Viðurkennt er að stefndi, Tryggingastofnun ríkisins, sé skaðabótaskyld fyrir helmingi þess tjóns, sem áfrýjandi, Hilmar Tómas Guðmundsson, varð fyrir í slysi 14. desember 1993.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2000.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 11. nóvember 1999, að loknum munnlegum málflutningi, var endurupptekið og flutt að nýju hinn 28. febrúar sl. Málið var dómtekið að þeim flutningi loknum. Málið var höfðað af Hilmari Tómasi Guðmundssyni, kt. 270267-4839, Hraunbæ 182, Reykjavík, á hendur Tryggingastofnun ríkisins, kt. 660269-2669, Laugavegi 114, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til greiðslu á kröfu um skaða- og miskabætur að fjárhæð 1.789.754 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.719.754 krónum frá 14. desember 1993 til 1. júní 1997, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum af 54.400 krónum frá 7. júní 1996 til 1. júní 1997 og af 1.789.754 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist að vextir og dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, vextir í fyrsta sinn þann 14. desember 1999 og dráttarvextir í fyrsta sinn hinn 7. júní 1997. Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda eru þær, aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu, að mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess, að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Í þinghaldi hinn 2. september 1999 krafðist stefnandi þess að sakarefninu yrði skipt og fyrst dæmt um bótaskyldu stefnda, en önnur atriði látin bíða. Með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, varð dómari við þeirri kröfu.
Krafa stefnanda á hendur stefnda í þessum þætti málsins er því sú, að stefndi verði dæmdur að fullu bótaskyldur gagnvart stefnanda vegna tjóns, sem rekja megi til höfuðhöggs, sem stefnandi hafi orðið fyrir er hann hafi rekið sig uppundir dyrakarm í húsnæði stefnanda, að Laugavegi 114, Reykjavík, hinn 14. desember 1993. Þá krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndi krafðist sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi, að mati dómsins.
II.
Hinn 24. desember 1993 var stefndi við vinnu sína, sem starfsmaður Þvottahússins Fannar hf.. Var hann að fara með og ná í þvott í starfsstöð stefnda að Laugavegi 114 í Reykjavík. Til að sinna þessu starfi sínu þurfti stefnandi að fara upp á rishæð hússins, en í geymslu þar, sem notuð var fyrir eldhús og mötuneyti stefnda, var geymdur þvottur. Stefnandi kvaðst hafa verið með fangið fullt af hreinum þvotti, sem hann hafi ætlað með inn í geymsluna. Kvaðst hann hafa rekið höfuðið af miklu afli í efri brún hurðaropsins, sem sé 126 cm að hæð. Við það hafi hann kastast aftur og vankast. Síðan hafi stefnandi fundið fyrir miklum stirðleika í hálsi og þrátt fyrir læknismeðferð og sjúkraþjálfun hafi hann ekki fengið fullan bata.
Stefnandi fór í röntgenrannsókn hinn 20. janúar 1994 vegna slyssins hinn 27. janúar 1994, samkvæmt framlögðu vottorði Torfa Magnússonar, læknis, sem annaðist hann. Jafnframt var stefnandi sendur í sjúkraþjálfun vegna áverka á hálsi og hreyfiskerðingar, fyrst í mars 1994, samkvæmt framlögðu vottorði Andrésar Kristjánssonar, sjúkraþjálfara.
Hinn 24. júní 1996 ritaði lögmaður stefnanda Vinnueftirliti ríkisins bréf, þar sem hann fór fram á að aðstæður á vettvangi yrðu skoðaðar með tilliti til þess hvort aðbúnaður teldist forsvaranlegur. Samkvæmt skýrslu vinnueftirlitsins, dagsettri 1. júlí 1996, var talið, eins og segir í skýrslunni:„Þetta telst óforsvaranlegar vinnuaðstæður og notkun hans bönnuð, sem slík.” Var dagsetningin, 1. ágúst 1996, sett fyrir aftan tilvitnað orðalag. Með bréfi, dagsettu 17. september 1996, veitti Vinnueftirlit ríkisins stefnda undanþágu frá banni á notkun umræddrar geymslu með eftirfarandi skilyrðum: „Nýtanlegur gólfflötur geymslunnar verði minnkaður um helming, þannig að hilluraðir verði ekki undir súð með minni lofthæð en 1.5 m.
1. Hurðarop verði fært þannig að það verði fyrir miðjum mæni þannig að mesta mögulega hæð náist á hurðaropi.
2. Við eða á hurðina skal sett upp aðvörunarmerking sem varar þá við sem erindi eiga í geymsluna um óeðlilega lága hurðarhæð og lága lofthæð.
3. Undanþága þessi gildir eingöngu varðandi rekstur mötuneytis Tryggingastofnunar ríkisins.”
Sigurjón Sigurðsson, læknir, mat örorku stefnanda vegna slyssins 5%, hinn 5. maí 1995. Hinn 1. apríl 1996 mat sami læknir örorku stefnanda hins vegar 10% af völdum slyssins. Örorkumat læknisins í samræmi við skaðabótalög nr. 50/1993 lá fyrir hinn 18. desember 1996. Var örorka samkvæmt 5. gr. laganna metin 10% og varanlegur miski samkvæmt 4. gr. laganna 10%.
Örorkunefnd mat örorku stefnanda og er skýrsla hennar dagsett 11. maí 1999. Í niðurstöðu segir svo:„Tjónþoli, Hilmar Tómas Guðmundsson, hefur í slysi er varð 14. desember 1993 hlotið hálstognun. Varð slysið með þeim hætti að tjónþoli er var við störf sín hjá þvottahúsinu Fönn við að sækja og afhenda þvott og var staddur í Tryggingastofnun ríkisins. Þurfti tjónþoli að fara í gegnum mjög lágar dyr (140 cm á hæð ) og rak sig harkalega í dyrakarm með höfuðið þannig að hann féll við og vankaðist. Hefur tjónþoli í kjölfar þessa verið með viðvarandi óþægindi í hálsi og af og til út í vinstri griplim. Þó virðist sem einkenni hafi í byrjun verið út í hægri griplim (sbr. greinargerð Torfa Magnússonar ) og seinna í báða griplimi (sbr. örorkumöt Sigurðar Sigurjónssonar). Röntgenrannsóknir hafa sýnt minniháttar slitbreytingar í hálshrygg neðanverðum en ekki áverkamerki. Tjónþoli kveðst í dag hafa fremur lítil einkenni en þau aukast mjög við álag, einkum átök og langar setur. Skoðun leiðir í ljós lítilsháttar hreyfiskerðingu í hálshrygg (og mun minni en fram kemur í örorkumati Sigurjóns Sigurðssonar þar sem snúningshreyfing var aðeins um 40° til beggja átta ) og eymsli í vöðvum og vöðvafestingum. Þá virtist mögulega örlítil minnkun á snertiskyni ölnart í vinstri hendi.
Örorkunefnd telur að eftir 1. janúar 1995 hafi tjónþoli ekki getað vænst frekari bata af afleiðingum slyssins 14. desember 1993. Að öllum gögnum virtum metur nefndin varanlegan miska tjónþola vegna afleiðinga slyssins 7%-sjö af hundraði-.
Tjónþoli var á slysdegi 26 ára gamall. Örorkunefnd telur að afleiðingar slyssins hafi ekki verið þess háttar að þær hafi áhrif á getu tjónþola til öflunar vinnutekna í framtíðinni. Samkvæmt því telst hann ekki hafa hlotið varanlega örorku vegna afleiðinga slyssins.”
III.
Stefnandi byggir kröfu sína á því, að stefndi beri ábyrgð á tjóni sem hann hafi orðið fyrir hinn 14. desember 1993 sökum vanbúnaðar og ólögmæts ástands húsnæðis stefnda.
Stefndi hafi breytt húsnæði sínu án tilskilinna leyfa og samþykkis opinberra eftirlitsaðila og hafi því verið með öllu óheimilt að nýta viðbótarhúsnæði í húsinu nr. 114 við Laugaveg. Stefndi hafi með þessu brotið lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og þágildandi reglugerð nr. 493/1987, um húsnæði vinnustaða, sbr. núgildandi reglugerð nr. 581/1995, sem settar hafi verið með heimild í 43. gr. fyrrgreindra laga.
Stefnandi bendir sérstaklega á 13. og 42. gr. laganna og greinar 3.2 og 4.1 í reglugerðunum. Stefnandi telur stefnda og hafa brotið gegn fyrrgreindum lögum með samskiptum sínum við Vinnueftirlit ríkisins. Heldur stefnandi því fram að athæfi stefnda sé refsivert samkvæmt 99. gr. laga nr. 46/1980 og sé stefndi jafnframt bótaskyldur gagnvart stefnanda vegna tjóns, sem rekja megi til þeirrar refsiverðu háttsemi hans.
Stefnandi bendir og á að áðurgreindar reglur séu settar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir slys af því tagi, sem stefnandi hafi orðið fyrir.
Stefnandi kveður stefnda hafa með breytingu og nýtingu á húsnæði sínu, frá því sem upphaflega hafi verið ætlað, skapað viðvarandi hættuástand, sem erfitt hafi verið fyrir stefnanda að varast. Stefnandi hafi í raun verið í hættu í hvert sinn sem hann hafi gengið um dyrabúnaðinn inn í geymsluhúsnæði stefnda og því oftar sem stefnandi hafi gengið þar um því meira hafi líkur aukist á því að hann yrði fyrir slysi. Viðbrögð Vinnueftirlits ríkisins sýni og að hætta á slysi var mikil. Stefnandi telur stefnda, samkvæmt framanrituðu, því eiga alla sök á slysinu.
Um lagarök í þessum þætti málsins vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttarins, einkum sakarreglunnar (culpa).
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra laga.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert skylt að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni.
IV.
Kröfu sína um sýknu byggir stefndi á því að hann eigi enga sök á tjóni stefnanda. Óhapp stefnanda verði ekki rakið til vanbúnaðar eða ólögmæts ástands, sem stefndi beri ábyrgð á. Meginorsök óhapps stefnanda sé óvarkárni hans sjálfs og óhappatilviljun. Þá séu ósönnuð orsakatengsl á milli óþæginda stefnanda og umrædds óhapps. Geti óþægindi stefnanda með engu móti talist sennileg afleiðing af óhappinu.
Stefndi kveður sakarábyrgð sína ekki vera fyrir hendi. Mótmælir stefndi því að hafa breytt húsnæði sínu án tilskilinna leyfa. Á teikningum, samþykktum 9. febrúar 1984, sé gert ráð fyrir rými því, sem á umræddum tíma hafi verið nýtt sem geymsla. Telur stefndi að bæði eðlilegt og sjálfsagt hafi verið að hafa op inn í þetta rými.
Er mötuneyti hafi verið sett á fót hafi verið þörf fyrir geymslurými nær mötuneytinu, en matarbúr sé í kjallara hússins. Þar sem talið hafi verið óforsvaranlegt að starfsmenn mötuneytisins þyrftu að sækja þangað aðföng var geymsla sett upp í áðurgreindu rými, án þess að breyta húsnæðinu.
Stefndi mótmælir því að geymsluop hafi verið vanbúið og í andstöðu við ákvæði laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eða í andstöðu við reglugerðarákvæði, settu með heimild í þeim lögum. Ákvæði laganna, sem stefnandi vísi til, séu almenns eðlis og veiti því enga leiðsögn um sakarmat í máli þessu. Þá sé ekki að finna í reglugerð leiðbeiningu um dyraútbúnað eða geymsluop.
Stefndi mótmælir því og, að skýrsla eftirlitsmanns Vinnueftirlits ríkisins geti haft áhrif á mat á því hvort dyraumbúnaðurinn hafi verið vanbúinn. Í skýrslu hans sé hvorki að finna rökstuðning fyrir því hvers vegna vinnuaðstæður séu óforsvaranlegar né sé vísað til lagaákvæða eða reglugerðarákvæða, sem brotið sé gegn. Þá sé þess ekki getið í margnefndri skýrslu hvaða notkun sé bönnuð og engar viðvaranir gefnar eins og skylt sé samkvæmt 84. gr. laga nr. 46/1980. Telur stefndi stjórnsýsluhætti þessa vera ótraustvekjandi og ekki til þess fallna að sýna fram á hvort húsnæðið sé vanbúið í skilningi skaðabótaréttar.
Stefndi telur aðgang að geymslunni einungis hafa verið heimilan örfáum starfsmönnum. Engum hafi getað dulist að nauðsynlegt hafi verið að beygja sig til að komast inn um opið og hafi stefndi mátt ætlast til þess að þeir, sem um áðurgreint op færu, gættu sín á hæðinni.
Stefndi telur stefnanda ekki hafa sýnt fram á orsakatengsl á milli óhapps, sem stefnandi kveður sig hafa orðið fyrir hinn 14. desember 1993, og þeirra óþæginda sem hann nú finni fyrir í hálsi. Tildrög slyssins séu óljós og stefnandi sé einn til frásagnar um þau. Stefnandi hafi ekki látið starfsmenn stefnda vita af óhappi sínu og virðist stefnandi ekki hafa leitað sér læknis fyrr en einum og hálfum mánuði eftir slysið. Þá hafi stefnandi fyrst tilkynnt stefnda um slysið í desember 1994.
Ástæður óþæginda stefnanda geti verið margar og þurfi ekki að stafa af því að hann hafi rekið sig í hurðarkarm.
Stefndi kveðst hafa greitt stefnanda bætur samkvæmt almannatryggingalögum nr. 117/1993. Hins vegar beri ekki að líta svo á, að með því hafi stefndi viðurkennt orsakatengsl milla óhapps stefnanda og einkenna sem hann finni nú fyrir. Bætur samkvæmt almannatryggingalögum séu alltaf greiddar, þó svo að vafi sé um orsakatengsl, þar sem vafinn sé ætíð metinn bótaþega í vil.
Stefndi telur og að óþægindi stefnanda nú geti með engu móti talist sennileg afleiðing af háttsemi stefnda. Nær óþekkt sé að afleiðingar þess að reka sig í hurðarkarm séu varanleg örorka. Háttsemi stefnda hafi því með engu móti aukið hættuna á að stefnandi yrði fyrir slysi.
Ljóst sé, af lýsingu á aðdraganda slyssins í stefnu, að stefnandi hefur gengið hröðum skrefum í átt að opinu án þess að stoppa. Enginn vafi sé á því að stefnandi hafi verið á mikilli ferð, þar sem hann hafi rekið sig í hurðarkarminn af miklu afli og kastast afturábak. Stefnandi hafi í umrætt sinn sýnt af sé mikla ógætni. Stefnandi hafi augljóslega áttað sig á hættunni og beygt sig til að komast inn um opið. Stefnandi hafi og gjörþekkt aðstæður, þar sem hann hafi lengi unnið við þau störf, sem hann var að sinna, er atvik hafi átt sér stað. Stefnanda hafi því borið að sýna aðgæslu og stöðva för sína, er hann hafi komið að opinu, leggja frá sér byrðar sínar og beygja sig nægjanlega.
Stefndi telur meginorsök óhappsins koma fram í vottorði Torfa Magnússonar, læknis, dagsettu 27. janúar 1994, þar sem fram komi að stefnandi hafi verið með derhúfu á höfði umrætt sinn. Augljóst sé að der húfunnar hafi skyggt á útsýnið og hafi stefnandi sýnt af sér vítavert kæruleysi að gæta ekki betur að sér. Af því sem fram sé komið sé ljóst að eigin sök stefnanda megi um slys hans að kenna.
Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna skaðabótaréttarins, svo sem regna um sakarábyrgð, eigin sök, orsakatengsl og sennilega afleiðingu.
Þá vísar stefndi til skaðabótalaga nr. 50/1993, laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefndi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
V.
Stefnandi hefur haldið því fram, að hann hafi orðið fyrir tjóni af völdum vanbúins húsnæðis stefnda að Laugavegi í Reykjavík. Tjónið hafi orðið með þeim hætti, eins og áður hefur komið fram, að stefnandi hafi rekið sig í hurðarkarm í lágri dyragætt í rishæð hússins. Ekki voru vitni að slysinu og tilkynnti stefnandi stefnda fyrst sannanlega um atburðinn ári síðar. Hins vegar liggur frammi læknisvottorð, vegna heimsóknar stefnanda til læknis rúmum mánuði eftir að atburðir áttu að hafa átt sér stað. Þá liggur fyrir að stefndi greiddi stefnanda bætur vegna þessa, úr almannatryggingakerfinu. Verður að telja það nægilega fram komið, að umrætt atvik hafi átt sér stað, enda greiddi stefndi stefnanda bætur úr almannatryggingakerfinu, vegna atburðarins.
Þá kemur til skoðunar sú málsástæða stefnanda að vanbúnaði hússins sé um slysið að kenna. Eins og stefnandi hefur lýst atburðum, var honum vel kunnugt um og gerði sér grein fyrir að dyragætt sú, sem hann hugðist fara inn um var mjög lág, enda beygði hann sig til að komast inn um dyrnar. Samkvæmt framburði stefnanda fyrir dómi var hann að flýta sér við vinnu sína, þar sem mikið var að gera. Lýsing stefnanda á för sinni umrætt sinn, þrátt fyrir vitneskju hans um aðstæður, bendir til þess að stefnandi hafi ekki sýnt þá varúð sem ætlast mátti til af honum við þessar aðstæður. Stefnandi hefur og ekki sýnt fram á að það hafi verið á ábyrgð stefnda, að hann þyrfti að haga för sinni eins og hann gerði. Samkvæmt því er það álit dómsins að stefnda verði ekki kennt um slysið, enda þótt dyragættin í húsi hans hafi verið lág, en stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda á sakarreglunni. Þegar af þeirri ástæðu, að ekki verður talið að stefndi hafi með saknæmum hætti valdið slysi stefnanda, ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt, með hliðsjón af atvikum öllum, að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Tryggingastofnun ríkisins, er sýkn af kröfum stefnanda, Hilmars Tómasar Guðmundssonar.
Málskostnaður fellur niður.