Hæstiréttur íslands
Mál nr. 64/2003
Lykilorð
- Kaupsamningur
- Skuldajöfnuður
|
|
Fimmtudaginn 16. október 2003. |
|
Nr. 64/2003. |
Þrotabú Friðgerðar Pétursdóttur(Kristján Ólafsson hrl.) gegn þrotabúi Styrmis KE 11 ehf. (Benedikt Ólafsson hdl.) |
Kaupsamningur. Skuldajöfnuður.
F, sem seljandi, rifti kaupsamningi við kaupandann S ehf. Krafðist S ehf. í framhaldi af því endurgreiðslu fjár sem félagið hafði innt af hendi, alls 22.465.728 kr. F andmælti ekki þeirri kröfu, en hafði uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar að fjárhæð 21.320.388 kr. Deilt var um hvort F ætti kröfu á S ehf. umfram þær 8.100.000 kr. sem S ehf. hafði samþykkt að greiða. Héraðsdómur taldi svo ekki vera og var sú niðurstaða staðfest af Hæstarétti með þeirri viðbót að lækkuð dráttarvaxtakrafa F, 3.475.233 kr., var einnig tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. febrúar 2003. Hann krefst þess að krafa hans um skuldajöfnun að fjárhæð 16.505.642 krónur verði tekin til greina á móti kröfu stefnda. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms var bú Friðgerðar Pétursdóttur tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands 14. febrúar 2003. Bú Styrmis KE 11 ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 26. september sama ár. Þrotabúin hafa tekið við aðild til sóknar og varnar.
Með kaupsamningi 12. janúar 2001 seldi Friðgerður Pétursdóttir Styrmi KE 11 ehf. bátinn Snorra Afa ÍS 519, sem er 6,11 brúttólesta plastbátur smíðaður 1992. Aðilar deila um uppgjör í kjölfar riftunar samningsins í mars 2002. Er efni kaupsamnings og málavöxtum að öðru leyti rétt lýst í hinum áfrýjaða dómi. Var með honum fallist á kröfu kaupanda um að seljanda hafi borið að endurgreiða kaupanda 22.465.728 krónur vegna greiðslna sem sá síðarnefndi hafði innt af hendi á grundvelli kaupsamningsins og viðgerðar á bátnum. Áfrýjandi unir þeirri niðurstöðu. Fyrir héraðsdómi var gerð gagnkrafa til skuldajafnaðar að fjárhæð 21.320.388 krónur og hafnaði héraðsdómari þeirri kröfu að hluta.
Málatilbúnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti snýst eingöngu um gagnkröfuna, sem nú nemur 16.505.642 krónum og er hún sett fram í sex liðum. Í héraði laut 1. liður kröfunnar að sölulaunum án virðisaukaskatts, 1.012.500 krónum, 2. liður að leigu á aflaheimildum, 8.573.994 krónum, 3. liður að kostnaði vegna riftunar, 587.500 krónum, og 4. liður að leigu á bátnum, 2.175.000 krónum. Þá var í 5. lið krafist greiðslu á 8.229.979 krónum vegna „dráttarvaxta til 20/3 2002“ og loks í 6. lið 681.415 krónum vegna viðgerðar á bátnum auk 60.000 króna vegna síma. Fyrir Hæstarétti lækkaði áfrýjandi kröfu sína um dráttarvexti úr 8.229.979 krónum í 3.475.233 krónur og féll frá kröfu vegna síma. Stefndi hefur samþykkt að greiða 1. og 3. lið kröfunnar, samtals 1.600.000 krónur, og 6.500.000 krónur vegna 2. og 4. liða hennar, eða samtals 8.100.000 krónur. Að öðru leyti hefur hann hafnað kröfu áfrýjanda um skuldajöfnun.
Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um sölulaun, leigu á aflaheimildum, kostnað vegna riftunar og leigu og viðgerð á bátnum.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi gerði seljandi kröfu um að kaupandi greiddi sér 8.229.979 krónur vegna dráttarvaxta, sem hafi fallið á afborganir kaupsamningsgreiðslna og áhvílandi veðskuldir, sem kaupandi yfirtók við kaupin. Byggðist sú krafa á útreikningi sem var ýmsum annmörkum háður, eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Fyrir Hæstarétt hefur áfrýjandi hins vegar lagt nýjan og endurbættan útreikning á kröfu sinni um dráttarvexti. Ekki er tölulegur ágreiningur um hann, en stefndi hefur mótmælt kröfunni á þeim forsendum að áfrýjandi geti ekki átt rétt á þessum dráttarvöxtum samhliða því að seljandi hafi haldið sig við kaupin og krafist greiðslu fyrir afnotamissi sama tímabil og vaxtakrafan tekur til. Samkvæmt umræddum kaupsamningi 12. janúar 2001 skyldi kaupandi greiða dráttarvexti af tveimur útborgunum, 20. febrúar 2001 og 20. apríl sama ár, ef þær yrðu ekki greiddar á gjalddaga. Óumdeilt er að hvorugar greiðslurnar voru inntar af hendi á umsömdum tíma. Bar kaupanda því að greiða seljanda dráttarvexti af þeim frá ofangreindum gjalddögum. Er jafnframt ljóst að á seljanda féllu dráttarvextir vegna vanskila kaupanda á greiðslu afborgana af lánum á gjalddaga þeirra og þar til kaupsamningi var rift í mars 2002. Verður dráttarvaxtakrafa áfrýjanda, að fjárhæð 3.475.233 krónur, samkvæmt þessu tekin til greina, enda hefur hún sem fyrr segir ekki sætt tölulegum andmælum. Samkvæmt þessari niðurstöðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur, þó þannig að frá kröfu áfrýjanda með þar tilgreindum vöxtum dragist samtals 11.575.233 krónur og málskostnaður skal falla niður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað og það að frá kröfu stefnda, þrotabús Styrmis KE 11 ehf., með þar tilgreindum vöxtum dragist samtals 11.575.233 krónur.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 5. desember 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var 7. f.m., er höfðað 22. maí 2002.
Stefnandi er Styrmir KE 11 ehf., Víkurbraut 4, Reykjanesbæ.
Stefndi er Friðgerður Pétursdóttir, Brautarholti 26 í Snæfellsbæ.
Í málinu gerir stefnandi þá kröfu að stefndu verði gert að greiða honum 22.465.728 krónur ásamt 19,1% ársvöxtum af 8.500.000 krónum frá 12. janúar 2001 til 1. mars sama árs, 19,2% ársvöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 5. sama mánaðar, 19,2% ársvöxtum af 9.500.000 krónum frá þeim degi til 9. sama mánaðar, 19,2% ársvöxtum af 12.500.000 krónum frá þeim degi til 16. sama mánaðar, 19,2% ársvöxtum af 15.311.000 krónum frá þeim degi til 1. maí sama árs, 18,7% ársvöxtum af 15.311.000 krónum frá þeim degi til 29. sama mánaðar, 18,7% ársvöxtum af 15.731.938 krónum frá þeim degi til 1. júní sama árs, 19% ársvöxtum af 15.731.938 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama árs, 18% ársvöxtum af 15.731.838 krónum frá þeim degi til 10. september sama árs, 18% ársvöxtum af 16.027.958 krónum frá þeim degi til 16. október sama árs, 18% ársvöxtum af 22.127.958 krónum frá þeim degi til 1. desember sama árs, 17,5% ársvöxtum af 22.127.958 krónum frá þeim degi til 20. mars 2002, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 22.465.728 krónum frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar, allt að frádregnum 8.100.000 krónum er komi til frádráttar kröfunni 20. mars 2002.
Stefnda krefst þess að kröfu hennar að fjárhæð 21.320.388 krónur verði skuldajafnað við kröfu stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I.
Mál þetta á rætur sínar að rekja til kaupsamnings sem málsaðilar gerðu 12. janúar 2001, en með honum keypti stefnandi af stefndu bátinn Snorra afa ÍS 519, sem er 6,11 brúttórúmlesta plastbátur, smíðaður árið 1992. Kaupverð var 67.500.000 krónur. Samkvæmt kaupsamningnum skyldi stefnandi greiða í peningum 8.500.000 krónur við undirritun kaupsamnings, 6.000.000 krónur 20. febrúar 2001 og 6.651.221 krónu 20. apríl sama árs. Að öðru leyti skyldi kaupverðið greitt með yfirtöku veðskulda. Verður af kaupsamningi ráðið að við það hafi verið miðað að búið yrði að ganga frá yfirtöku veðskulda sama dag og stefnandi greiddi síðustu útborgunargreiðslu sína, enda skyldi afsal þá gefið út. Vanskil urðu á greiðslu kaupverðs, sem samkvæmt stefnu fólust aðallega í því að stefnanda tókst ekki í tíma að semja við lánardrottna um yfirtöku áhvílandi veðskulda. Af þeim sökum ákvað stefnda að endingu að rifta samningi aðila. Málsaðilar deila ekki sérstaklega um þá riftun. Í málinu krefst stefnandi endurgreiðslu á þeim greiðslum sem hann innti af hendi á grundvelli kaupsamnings. Nemur sú krafa hans 22.127.958 krónum. Þá lét stefnandi gera við bátinn og nam viðgerðarkostnaður 337.770 krónum. Krefur hann stefndu að auki um þá fjárhæð. Samtals nemur því krafa stefnanda 22.465.728 krónum. Stefnda andmælir ekki þessari kröfu. Hún hefur hins vegar uppi í málinu kröfu til skuldajafnaðar að fjárhæð 21.320.388 krónur. Þessa kröfu samþykkir stefnandi að hluta. Fellst hann á að til lækkunar á kröfu hans eigi að koma greiðsla stefndu á sölulaunum að fjárhæð 1.012.500 krónur, kostnaður að fjárhæð 587.500 krónur sem á stefndu hefur fallið vegna riftunar og leiga til stefndu fyrir afnot af bátnum og aflaheimildum, samtals að fjárhæð 6.500.000 krónur. Eigi þessar gagnkröfur, sem samtals nema 8.100.000 krónum, að ganga til lækkunar á kröfu stefnanda með þeim hætti sem í kröfugerð hans greinir. Að öðru leyti er skuldajafnaðarkröfu stefndu hafnað. Snýst ágreiningur málsaðila þannig í reynd um það hvort stefnda eigi skuldajafnaðarkröfu á hendur stefnanda umfram það sem samþykkt hefur verið af hans hálfu samkvæmt framansögðu.
II.
Auk fjárkröfu vegna sölulauna og kostnaðar vegna riftunar, sem nemur 1.600.000 krónum og stefnandi hefur samþykkt að fullu, samanstendur skulda-jafnaðarkrafa stefndu af kröfu um leigu fyrir afnot stefnanda af bátnum Snorra afa, en hún nemur 2.175.000 krónum, kröfu um dráttarvexti að fjárhæð 8.229.979 krónur, kröfu um viðgerðarkostnað að fjárhæð 741.4125 krónur og kröfu vegna leigu á aflaheimildum, en hún nemur 8.573.994 krónum. Stefnandi hefur svo sem fram er komið fallist á að auk þeirrar gagnkröfu sem hann hefur samþykkt að fullu komi til frádráttar kröfu hans 6.500.000 krónur, sem þá teljist endurgjald til stefndu fyrir afnot af bátnum og aflaheimildum sem honum fylgdu.
Til stuðnings kröfu sinni um leigugjald fyrir afnot stefnanda á aflaheimildum vísar stefnda til fyrirliggjandi upplýsinga um afla bátsins Snorra afa fiskveiðiárin 2000/2001 og 2001/2002. Meðalverð þorskaflahámarks á tímabilinu 9. janúar til 31. ágúst 2001 hafi numið 77 krónum á hvert kg. Þorskafli bátsins fyrra fiskveiðiárið hafi verið samtals 58.782 kg. Er krafa stefndu vegna leigu á aflaheimildum á því fiskveiðiári margfeldi meðalverðs og afla, eða 4.526.214 krónur. Seinna fiskveiðiárið hafi meðalverð þorskaflahámarks numið 110 krónum á hvert kg og þorskafli bátsins á því tímabili hafi verið 36.798 kg. Krafa um leigu fyrir afnot af aflaheimildum fiskveiðiárið 2001/2002 nemi því 4.047.780 krónum (110 x 36.798).
Að því er varðar kröfu um leigu fyrir afnot stefnanda af bátnum er á því byggt af hálfu stefndu að algengt leigugjald fyrir bát af því tagi sem hér um ræðir sé 150.000 krónur á mánuði. Hefur stefnda þessu til stuðnings lagt fram einn samning, þar sem umsamið endurgjald fyrir leigu á skipi er 150.000 krónur á mánuði fyrir hverja 30 daga leigutímans. Stefnandi hafi haft afnot af bátnum í fjórtán og hálfan mánuð. Þessi leigukrafa hans nemi því 2.175.000 krónum.
Skuldajafnaðarkrafa stefndu að því er tekur til dráttarvaxta er grundvölluð á því að stefnandi hafi ekki greitt afborganir af lánum, sem hann samkvæmt kaupsamningi aðila skuldbatt sig til að yfirtaka, á gjalddaga þeirra. Afborganirnar hafi safnað á sig dráttarvöxtum sem stefndu beri nú að standa lánardrottnum skil á. Þá hafi stefnda orðið fyrir óbeinu tjóni vegna þessara vanskila stefnanda sem felist í því að hún geti ekki vegna þeirra notið eðlilegrar fyrirgreiðslu í þeim lánastofnunum sem hér áttu hlut að máli. Að því er varðar fjárhæð dráttarvaxtakröfu sinnar vísar stefnda til útreiknings Sveinbjörns Sveinbjörnssonar löggilts endurskoðanda og fylgigagna sem hann er sagður styðjast við.
Stefnda heldur því fram að þá er hún fékk umráð bátsins að nýju í kjölfar riftunar hennar á kaupsamningi aðila hafi ástand hans verið vægast sagt hörmulegt. Nauðsynlegt hafi verið að ráðast í viðgerðir á bátnum og nemi kostnaður við þær viðgerðir sem teljast verði á ábyrgð stefnanda 681.415 krónum. Styðst þessi krafa stefndu við fimm reikninga. Þá fellur undir þennan kröfulið krafa að fjárhæð 60.000 krónur sem stefnda gerir á hendur stefnanda vegna NMT síma sem fylgt hafi bátnum þegar hann var afhentur stefnanda en ekki verið til staðar þar þegar stefnda fékk bátinn afhendan að nýju.
III.
Í greinargerð stefndu voru gerðar vissar athugasemdir við kröfu stefnanda og óskað eftir því að frekari gögn yrðu lögð fram í málinu þar að lútandi. Við þessu brást stefnandi í þinghaldi 1. október sl. Að þeim gögnum fram komnum hefur endanleg kröfugerð stefnanda ekki sætt andmælum af hálfu stefndu. Í ljósi þessa verður tekin til greina sú krafa stefnanda að stefndu verði gert að greiða honum 22.465.728 krónur. Krafa stefnanda um vexti til 1. júlí 2001 styðst við 5. gr. þágildandi vaxtalaga nr. 25/1987. Ljóst er að frá þeim degi til 20. mars 2002 er krafist vaxta samkvæmt fyrri málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu að teknu tilliti til 1. mgr. I. ákvæðis til bráðabirgða sömu laga. Dráttarvaxta samkvæmt III. kafla þeirra er síðan krafist frá 20. mars 2002 til greiðsludags. Vaxtakrafa stefnanda hefur ekki sætt sérstökum andmælum af hálfu stefndu. Verður hún því tekin til greina svo sem í dómsorði greinir.
IV.
Svo sem fram er komið hefur stefnandi að fullu samþykkt gagnkröfu stefndu vegna sölulauna og kostnaðar vegna riftunar, en hún nemur 1.600.000 krónum. Kemur sú fjárhæð því til lækkunar á kröfu stefnanda.
Gagnkrafa stefndu vegna leigu á bátnum Snorra afa og aflaheimildum sem honum fylgdu nemur samtals 10.748.994 krónum. Í kröfugerð stefnanda felst að samþykkt sé af hans hálfu að stefnda eigi kröfu á hendur honum vegna þessa að fjárhæð 6.500.000 krónur. Þann hluta þessarar gagnkröfu sem snýr að leigu á aflaheimildum, en hún nemur 8.573.994 krónum, byggir stefnda á útreikningum sem stefnandi hefur alfarið mótmælt. Af hálfu stefndu hefur ekki verið leitast við að afla gagna, eftir atvikum matsgerðar, sem renni stoðum undir gagnkröfu hennar að þessu leyti. Að svo stöddu og þrátt fyrir að gengið yrði út frá því að þær tölur um afla og meðalverð þorskaflahámarks, sem liggja til grundvallar þessum útreikningi, fái staðist, eru ekki næg efni til að taka þessa kröfu stefndu til greina. Þá hefur stefnda gegn andmælum stefnanda ekki heldur fært viðhlítandi sönnur fyrir því að réttmæt krafa hennar á hendur stefnanda fyrir afnot hans af bátnum geti numið 150.000 krónum á mánuði og ekki getur komið til þess að dómurinn ákveði aðra og lægri fjárhæð að álitum. Samkvæmt þessu hefur stefnda ekki sýnt fram á það í þessu máli að hún eigi frekari leigukröfu á hendur stefnanda en hann hefur samþykkt og kröfugerð hans felur í sér.
Tölulega og svo sem áður er fram komið er gagnkrafa stefndu að því er tekur til vaxta byggð á útreikningi Sveinbjörns Sveinbjörnssonar löggilts endurskoðanda. Nemur hún 8.229.979 krónum. Með vitnisburði Sveinbjörns fyrir dómi er í ljós leitt að í útreikningi hans felst að reiknaðir eru dráttarvextir af þeim greiðslu sem stefnandi skuldbatt sig til að inna af hendi þegar kaupsamningur var undirritaður frá gjalddaga þeirra til 20. mars 2002 án tillits til greiðslna sem stefnandi stóð skil á. Er í útreikningi endurskoðandans gengið út frá því að greiðslur sem stefnanda hafi borið að inna af hendi samkvæmt kaupsamningi frá undirritun hans 12. janúar 2001 til 20. mars 2002 hafi samtals numið 36.616.107 krónum. Eru dráttarvextir síðan reiknaðir af hverri greiðslu frá gjalddaga hennar til 20. mars 2002 óháð því hvort greiðsla hafi borist frá stefnanda. Sem dæmi má taka að í útreikningnum felst að gerð er krafa um dráttarvexti af 8.500.000 krónum, sem stefnandi í samræmi við kaupsamning stóð skil á við undirritun hans 12. janúar 2001, frá gjalddaga til 20. mars 2002 eða í rúma fjórtán mánuði.
Ljóst þykir að á stefndu hafa fallið dráttarvextir vegna vanskila á greiðslu afborgana af lánum frá gjalddaga þeirra og þar til kaupsamningi aðila var rift. Fráleitt er að framangreindur útreikningur skapi grundvöll að gagnkröfu sem stefnda geti með réttu haft uppi vegna þessa og hugsanlegra vanskila stefnanda að öðru leyti. Þá hefur ekki með öðrum hætti verið sýnt fram að hvaða marki mætti taka kröfu þessa til greina. Samkvæmt þessu telst sú gagnkrafa stefndu sem hér um ræðir ekki þannig úr garði gerð að á hana verði nú lagður dómur.
Loks þarf hér að taka afstöðu til gagnkröfu sem stefnda hefur uppi í málinu vegna viðgerðarkostnaðar að fjárhæð 681.415 krónur og bóta vegna NMT síma að fjárhæð 60.000 krónur. Til stuðnings fyrri kröfu sinni hefur stefnda lagt fram afrit fimm reikninga og skýrslu starfsmanns Siglingastofnunar um skoðun sem framkvæmd var á bátnum Snorra afa 24. maí 2002. Samkvæmt skýrslunni leiddi skoðun eftirfarandi í ljós: „1. Mikil tæring hefur verið í bátnum með þeim afleiðingum að stýrishællinn var laus frá kjöljárninu. Kjöljárnið undir skrúfunni var mikið tært og þarf að endurnýja. Talsverð tæring hefur verið á skrúfu og stýri. 2. Lagfæra þarf skemmdir, eftir nudd, á [stjórnborðshlið] aftan við stýrishús. Einnig þarf að lagfæra skemmdir á „Goggbretti” undir línurúllu. 3. Lagfæra þarf innréttingu í stýrishúsi og lúkar.” Framlagðir reikningar bera það með sér að ráðist var í að lagfæra þá hluti sem athugasemdir voru gerðar við í skoðunarskýrslunni. Hins vegar er það líka ljóst að þeir taka til fleiri atriða. Hvað sem þessu líður hefur af hálfu stefndu ekki verið leitast við að varpa ljósi á þann ágreining aðila hvort og þá að hvaða marki þessi kostnaður sé til kominn vegna atvika sem séu á ábyrgð stefnanda. Er að svo stöddu ekki unnt að taka afstöðu til þessarar gagnkröfu stefndu. Þá þykja ekki heldur vera næg efni til þess í ljósi andmæla stefnanda að fella á hann skyldu til að greiða stefndu 60.000 krónur eða lægri fjárhæð í bætur vegna þess símtækis sem hún staðhæfir að hafi fylgt bátnum við sölu hans til stefnanda en hún hafi ekki endurheimt.
Samkvæmt öllu framansögðu er það niðurstaða dómsins að stefnda hafi ekki sýnt fram á að stefnandi þurfi að sæta frekari lækkun á endurkröfu sinni en felst í dómkröfu hans.
V.
Með vísan til alls þess sem nú hefur verið rakið er endurgreiðslukrafa stefnanda að fullu tekin til greina ásamt vöxtum, svo sem í dómsorði greinir, og á það fallist með honum að stefnda eigi að svo stöddu ekki gagnkröfu á hendur honum í meira mæli en hann býður fram í stefnu. Eftir þessum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndu gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.
Í dómi þessum er ekki tekin afstaða til þess hvernig standa eigi að endanlegu uppgjöri á kröfu stefnanda. Er þar um til þess að líta að fyrir því er langvarandi venja að í dómi um peningakröfu, sem greidd hefur verið að hluta, sé látið við það sitja að kveða á um skyldu skuldara til að greiða upphaflegan höfuðstól kröfunnar með nánar tilgreindum vöxtum, án þess að mælt sé berum orðum fyrir um af hvaða fjárhæð þeir skuli reiknast á hverjum tíma, og til að greiða málskostnað, en allt að frádreginni einni eða fleiri innborgunum, sem hafi verið inntar af hendi á tilteknum dögum. Er þá gengið út frá því að við endanlegt uppgjör kröfunnar verði að öðru jöfnu farin sú leið að reikna út stöðu kröfunnar eins og hún var hverju sinni þegar innborganir voru inntar af hendi og þeim ráðstafað til að greiða fyrst áfallinn kostnað og vexti, en að þeim liðum frágengnum gangi þær til lækkunar á höfuðstól kröfunnar, sem borið geti vexti upp frá því. Má um þetta vísa til dóms Hæstaréttar frá 17. október sl. í máli nr. 230/2002. Samkvæmt þessu og í samræmi við kröfugerð stefnanda verður látið við það sitja að mæla fyrir um það í dómsorði að gagnkrafa stefndu að fjárhæð 8.100.000 krónur gangi til lækkunar á endurgreiðslukröfu stefnanda, að meðtöldum vöxtum og málskostnaði, miðað við stöðu hennar 20. mars 2002, en af hálfu stefndu hefur því ekki verið sérstaklega andmælt að gagnkrafa hennar hafi stofnast þann dag.
Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari dæmir mál þetta.
D ó m s o r ð :
Stefnda, Friðgerður Pétursdóttir, greiði stefnanda, Styrmi KE 11 ehf., 22.465.728 krónur ásamt 19,1% ársvöxtum af 8.500.000 krónum frá 12. janúar 2001 til 1. mars sama árs, 19,2% ársvöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 5. sama mánaðar, 19,2% ársvöxtum af 9.500.000 krónum frá þeim degi til 9. sama mánaðar, 19,2% ársvöxtum af 12.500.000 krónum frá þeim degi til 16. sama mánaðar, 19,2% ársvöxtum af 15.311.000 krónum frá þeim degi til 1. maí sama árs, 18,7% ársvöxtum af 15.311.000 krónum frá þeim degi til 29. sama mánaðar, 18,7% ársvöxtum af 15.731.938 krónum frá þeim degi til 1. júní sama árs, 19% ársvöxtum af 15.731.938 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama árs, 18% ársvöxtum af 15.731.838 krónum frá þeim degi til 10. september sama árs, 18% ársvöxtum af 16.027.958 krónum frá þeim degi til 16. október sama árs, 18% ársvöxtum af 22.127.958 krónum frá þeim degi til 1. desember sama árs, 17,5% ársvöxtum af 22.127.958 krónum frá þeim degi til 20. mars 2002, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 22.465.728 krónum frá þeim degi til greiðsludags, og 800.000 krónur málskostnað, allt að frádregnum 8.100.000 krónum er gangi til lækkunar á kröfu stefnanda miðað við stöðu hennar 20. mars 2002.