Hæstiréttur íslands
Mál nr. 291/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Þriðjudaginn 8. maí 2012. |
|
Nr. 291/2012.
|
Kristjón Benediktsson (sjálfur) gegn Landsbankanum hf. (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Nauðungarsala. Frávísunarúrskurður staðfestur.
K mótmælti því að fasteign í hans eigu yrði seld nauðungarsölu að kröfu L. Sýslumaður tók ákvörðun um að halda nauðungarsölunni á fasteigninni áfram og lýsti K því yfir að hann bæri málið undir héraðsdóm. Talið var að L hefði mótmælt því að K fengi að leita úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun sýslumanns, sbr. 4. mgr. 22. gr. laga nr. 90/1991. Var kröfu K því vísað frá dómi með vísan til 1. mgr. 74. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. apríl 2012, sem barst héraðsdómi sama dag, og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 3. apríl 2012, þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila um að hrundið yrði ákvörðun sýslumannsins á Hvolsvelli 14. mars sama ár um að nauðungarsala fari fram á nánar tiltekinni fasteign hans. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Af endurriti úr nauðungarsölubók sýslumannsins á Hvolsvelli frá 14. mars 2012, þar sem tekin var fyrir krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila, má ráða að gerðarbeiðandi hafi andmælt því að gerðarþoli fengi að leita úrlausnar héraðsdóms um þá ákvörðun sýslumanns að nauðungarsölu á fasteign gerðarþola skyldi fram haldið. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilar beri hvor sinn kærumálskostnað.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 3. apríl 2012.
Mál þetta barst dóminum þann 27. mars 2012.
Sóknaraðili er Kristjón Benediktsson, kt. 230256-7649, eigandi jarðarinnar Efri-Þverár, Rangárþingi eystra. Varnaraðili er Landsbankinn, kt. 471008-0280, Austurstræti 11, Reykjavík.
Með bréfi sýslumannsins á Hvolsvelli, dags. 26. mars sl., framsendi sýslumaður dóminum bréf sóknaraðila, dags. 21. mars sl., sem móttekið var hjá sýslumanni þann 23. sama mánaðar. Í áðurgreindu bréfi sóknaraðila til dómsins kemur fram að málið varði nauðungarsölu á fasteign hans Efri-Þverá í Rangárþingi eystra. Í því máli var Landsbankinn gerðarbeiðandi en gerðarþoli Kristjón Benediktsson. Í áðurgreindu bréfi segir að við fyrirtöku nauðungarsölumálsins hjá sýslumanni þann 14. mars. sl., hafi ekki verið mætt af hálfu gerðarþola vegna lögmætra forfalla en bréfleg mótmæli gerðarþola hafi legið frammi þar sem krafist var frávísunar málsins. Sýslumaður hafi hafnað þeirri kröfu gerðarþola og krafist sé úrskurðar héraðsdómara um þá afgreiðslu sýslumanns.
Í endurriti úr nauðungarsölubók sýslumannsins á Hvolsvelli frá 14. mars sl., þar sem tekin er fyrir krafa varnaraðila gegn sóknaraðila máls þessa, segir: „Gerðarþoli er ekki mættur og enginn fyrir hans hönd, en hann hefur lagt fram kröfu um frávísun málsins sbr. skjal nr. 7. Uppboðsbeiðandi gerir kröfu um að málið haldi áfram, [ ]. Sýslumaður tekur ákvörðun um að halda uppboði áfram. Að kröfu gerðarbeiðanda er ákveðið að uppboð byrji á eigninni á skrifstofu [sic] sýslumanns miðvikudaginn 9. maí nk. kl. 10.30.“ Verður að skilja kröfu sóknaraðila svo að hann krefjist úrlausnar héraðsdóms á þeirri ákvörðun sýslumannsins á Hvolsvelli að halda nauðungarsölu á fasteigninni Efri-Þverá áfram, þrátt fyrir framkomin mótmæli sóknaraðila.
Mál þetta varðar fyrstu aðgerðir sýslumanns við nauðungarsölu og gilda ákvæði IV. kafla laga nr. 90/1991 um þær aðgerðir. Málið lýtur að ákvörðun sýslumannsins á Hvolsvelli þann 14. mars sl., um að nauðungarsala skuli, að kröfu gerðarbeiðanda, byrja á fasteign gerðarþola og kemur því 4. mgr. 22. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu sérstaklega til skoðunar. Samkvæmt lagagreininni geta aðrir en gerðarbeiðendur leitað úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun sýslumanns eftir ákvæðum XIII. kafla ef gerðarbeiðendur eru allir samþykkir því eða ef ákvörðun varðar aðeins einn gerðarbeiðanda, þá hann fyrir sitt leyti. Þó er öðrum en gerðarbeiðendum jafnan heimilt að fá leyst úr sínum kröfum um ákvörðun sýslumanns, ef gerðarbeiðandi leitar úrlausnar um hana samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar. Samkvæmt því sem fram kemur í endurriti úr nauðungarsölubók sýslumanns 14. mars sl., liggur ekkert slíkt samþykki gerðarbeiðanda fyrir og í gögnum málsins er ekki að finna skjal er sýni að slíkt samþykki liggi fyrir. Þá verður ekki séð að varnaraðili hafi leitað úrlausnar héraðsdómara um ákvörðun sýslumanns og eru skilyrði 4. mgr. 22. gr. nauðungarsölulaga, nr. 90/1991, því ekki uppfyllt.
Samkvæmt XIII. kafla laga nr. 90/1991, nánar tiltekið 1. mgr. 73. gr., má leita úrlausnar héraðsdómara samkvæmt nánari fyrirmælum laganna um tiltekinn ágreining sem rís við nauðungarsölu. Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laganna kannar héraðsdómari, þegar honum hafa borist gögn varðandi nauðungarsöluna, hvort skilyrðum laganna til að leita úrlausnar hans sé fullnægt. Ef svo er ekki vísar hann málinu frá dómi með úrskurði án þess að kveðja til aðila þess eða taka það að öðru leyti fyrir á dómþingi. Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem skilyrði 4. mgr. 22. gr. laga nr. 90/1991 eru ekki uppfyllt, ber þegar af þeirri ástæðu að vísa máli þessu án kröfu frá dómi.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.