Hæstiréttur íslands
Mál nr. 699/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Afhending gagna
- Kröfugerð
|
|
Fimmtudaginn 27. janúar 2011. |
|
Nr. 699/2010. |
Sveinn Óskar Sigurðsson og Samsidanith Chan (Gísli Guðni Hall hrl.) gegn Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. (Bjarki Már Baxter hdl.) |
Kærumál. Afhending gagna. Kröfugerð.
Kærður var úrskurður héraðsdóms í máli S og S gegn F hf. þar sem hafnað var kröfu S og S um að slitastjórn S hf. yrði gert skylt að afhenda skýrslur F hf., S hf. og SR um gjaldeyrisjöfnuð og varakröfu þeirra um að stjórn SÍ og seðlabankastjóra yrði gert skylt að afhenda skjölin. Kröfðust þau þess fyrir Hæstarétti að lagt yrði fyrir héraðsdóm að kveðja fulltrúa F hf., slitastjórn S hf. og SÍ fyrir dóm til að tjá sig um kröfu þeirra. Í dómi Hæstaréttar segir m.a. að samkvæmt málatilbúnaði S og S sé óumdeilt að F hf. hafi undir höndum gögnin sem þau krefjist að fá afhent frá þriðja manni. Samkvæmt ákvæðum X. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verði sönnur með skjölum og öðrum sýnilegum sönnunargögnum að meginreglu færðar í einkamáli með því að aðilarnir leggi fram gögn af þessum toga sem þeir hafi sjálfir undir höndum en heimildum 3. mgr. 67. gr. og 2. og 3. mgr. 68. gr. laganna til að leggja á þriðja mann skyldu til að afhenda gögn verði því aðeins beitt að hjá því verði ekki komist. Var talið að 1. mgr. 68. gr. laganna ætti við í málinu og héraðsdómari gæti því brugðist við neitun F hf. um að leggja fram gögnin með því að telja hann samþykkja staðhæfingar S og S um efni þeirra. Þau hafi í engu rökstutt að sú leið fullnægði ekki þörfum þeirra við sönnunarfærslu að þessu leyti. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 8. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um „að slitastjórn SPRON hf. verði gert skylt að afhenda allar skýrslur Frjálsa Fjárfestingabankans hf., SPRON hf. og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis um gjaldeyrisjöfnuð allt frá ársbyrjun 2000 til ársloka 2009“, svo og varakröfu þeirra um að „stjórn Seðlabanka Íslands eða seðlabankastjóra, Má Guðmundssyni, verði gert skylt að afhenda skjölin.“ Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. d. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að „kveðja fulltrúa varnaraðila, slitastjórnar SPRON hf. og Seðlabanka Íslands fyrir dóm til að tjá sig um“ framangreindar kröfur þeirra.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti. Krafa hans um málskostnað í héraði kemst því ekki að í málinu.
Samkvæmt gögnum málsins mun varnaraðili hafa verið tekinn til slita 23. júní 2009 og honum skipuð slitastjórn, sem fékk birta innköllun til kröfuhafa 22. júlí sama ár með þriggja mánaða kröfulýsingarfresti. Sóknaraðilar lýstu tveimur kröfum á hendur varnaraðila 22. október 2009 um greiðslu á samtals 3.338.394 krónum að meðtöldum vöxtum og kostnaði. Í kröfulýsingunum og gögnum, sem þeim fylgdu, kom meðal annars fram að sóknaraðilar hafi 29. ágúst 2006 gefið út tvö veðskuldabréf til varnaraðila fyrir „jafnvirði“ samtals 60.300.000 króna í svissneskum frönkum og japönskum yenum, að helmingi í hvorum gjaldmiðli, en vextir af þessum skuldum hafi átt að vera „þriggja mánaða LIBOR“ með 2,95% álagi. Teldu sóknaraðilar að samningarnir, sem fólust í skuldabréfunum, væru um lán í íslenskum krónum og hafi því varnaraðila verið óheimilt samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu að tengja fjárhæð skuldanna við gengi erlendra gjaldmiðla. Ef ekki yrði á það fallist litu sóknaraðilar svo á að varnaraðila hafi verið óheimilt að hækka höfuðstól skuldanna í íslenskum krónum, þar sem tiltekið væri í skuldabréfunum að þau „skuldi bankanum „jafnvirði“ ofangreindrar fjárhæðar í íslenskum krónum“, en lækkun á gengi krónunnar hlyti þá að valda því að þau skuldi varnaraðila „lægri fjárhæð hinna erlendu mynta“. Virðist mega skilja þessar kröfulýsingar svo að sóknaraðilar telji sig hafa ofgreitt varnaraðila sem svarar fjárhæð krafna sinna í afborgunum af skuldabréfunum, sem varnaraðili hafi hverju sinni reiknað út með tilliti til gengistryggingar á fjárhæð höfuðstóls skuldanna. Slitastjórn hafnaði að viðurkenna kröfur sóknaraðila í skrá, sem hún gerði um lýstar kröfur á hendur varnaraðila, og mótmæltu þau þeirri afstöðu á kröfuhafafundi 19. nóvember 2009. Með því að ekki tókst að jafna ágreining um viðurkenningu þessara krafna vísaði slitastjórnin honum til héraðsdóms 18. desember sama ár og var mál þetta þingfest af því tilefni 27. janúar 2010. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði báru sóknaraðilar upp í þinghaldi 23. nóvember 2010 áðurnefndar kröfur um afhendingu gagna til framlagningar í málinu, sem hafnað var með úrskurðinum.
Eins og ráðið verður af því, sem áður segir um dómkröfur sóknaraðila, kröfðust þau þess fyrir héraðsdómi aðallega að slitastjórn SPRON hf. en til vara stjórn eða bankastjóra Seðlabanka Íslands yrði gert að afhenda nánar tiltekin gögn. Fyrir Hæstarétti krefjast þau á hinn bóginn að héraðsdómara verði gert að kveðja fyrir dóm „fulltrúa“ varnaraðila, slitastjórnar SPRON hf. og Seðlabanka Íslands til að tjá sig um kröfur þeirra um afhendingu gagna. Í 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 eru fyrirmæli um hvernig aðili geti leitast við að fá fullnægt skyldu þriðja manns til að láta af hendi skjal til afnota í máli. Í því skyni verður aðilinn fyrst í stað að beina til héraðsdóms skriflegri kröfu um að sú skylda verði með úrskurði lögð á vörslumann skjals, sbr. 1. málslið ákvæðisins, en telji dómari ekki útilokað að það hafi þýðingu í málinu ber honum samkvæmt 2. málslið sama ákvæðis að kveðja aðilanna og vörslumanninn fyrir dóm til að tjá sig um kröfuna. Engar skýringar hafa komið fram af hendi sóknaraðila á ástæðu þess að þau hafi að þessu leyti kosið að breyta orðalagi dómkrafna sinna frá því, sem gert var í héraði. Fram hjá því verður á hinn bóginn ekki litið að héraðsdómari hefði óhjákvæmilega þurft að fara svo að, sem um ræðir í 2. málslið 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991, hefði hann tekið til greina aðalkröfu eða varakröfu sóknaraðila, svo sem þær voru orðaðar þar fyrir dómi. Efnislega kemur því í sama stað niður hvort dómkröfur sóknaraðila séu settar fram í þeim búningi, sem gert var í héraði, eða orðalagi hagað eins og gert er fyrir Hæstarétti. Að þessu virtu er unnt að fella dóm á kröfur sóknaraðila eins og þær liggja nú fyrir, þótt ekkert tilefni verði séð fyrir þeim breytingum, sem hér um ræðir. Vegna þessa verður hafnað aðalkröfu varnaraðila um að málinu verði vísað frá Hæstarétti.
Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila er óumdeilt að varnaraðili hafi undir höndum gögnin, sem sóknaraðilar krefjast hér að fá afhent frá þriðja manni. Sóknaraðilar lögðu fram á dómþingi í héraði 6. október 2010 áskorun til varnaraðila um að leggja þessi gögn fram, sbr. 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991, sem hann virðist ekki hafa brugðist við fyrr en með bréfi 19. nóvember sama ár, þar sem þeirri skoðun var lýst að þessi sönnunarfærsla væri tilgangslaus, sbr. 3. mgr. 46. gr. sömu laga, og yrði hann því ekki við áskoruninni. Samkvæmt ákvæðum X. kafla laga nr. 91/1991 verða sönnur með skjölum og öðrum sýnilegum gögnum að meginreglu færðar í einkamáli með því að aðilarnir leggi fram gögn af þessum toga, sem þeir hafa sjálfir undir höndum, en heimildum 3. mgr. 67. gr. og 2. og 3. mgr. 68. gr. sömu laga til að leggja á þriðja mann skyldu til að afhenda gögn verður því aðeins beitt að hjá því verði ekki komist. Að fram kominni þeirri afstöðu, sem varnaraðili lýsti í bréfinu 19. nóvember 2010, var orðið svo ástatt, sem um ræðir í 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991. Héraðsdómari getur því brugðist við neitun varnaraðila um að leggja gögnin fram með því að telja hann samþykkja staðhæfingar sóknaraðila um efni þeirra, hafi það á annað borð eitthvert gildi í málinu. Sóknaraðilar hafa í engu rökstutt að sú leið fullnægi ekki þörfum þeirra við sönnunarfærslu að þessu leyti. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.
Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Sveinn Óskar Sigurðsson og Samsidanith Chan, greiði í sameiningu varnaraðila, Frjálsa Fjárfestingarbankanum hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2010.
I
Mál þetta er rekið samkvæmt XXIII. og XXIV. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og lýtur að ágreiningi um kröfur sem sóknaraðilar lýstu við slit varnaraðila. Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfum sóknaraðila. Ekki tókst að jafna ágreining aðila og var málinu í kjölfarið vísað til úrlausnar héraðsdóms.
Í þinghaldi í málinu í gær, 23. nóvember, lagði lögmaður sóknaraðila fram beiðni þess efnis að dómurinn úrskurðaði að slitastjórn SPRON hf. yrði gert skylt að afhenda allar skýrslur Frjálsa fjárfestingabankans hf., SPRON hf. og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis um gjaldeyrisjöfnuð allt frá ársbyrjun 2000 til ársloka 2009. Til vara krafðist hann þess að stjórn Seðlabanka Íslands eða seðlabankastjóra, Má Guðmundssyni, yrði gert skylt að afhenda skjölin. Fram kemur að beiðnin tengist umfjöllun um stöðutöku með eða á móti íslensku krónunni, en sóknaraðilar hafi haft spurnir af því að varnaraðili og móðurfélag hans hafi tekið stöðu gegn krónunni. Svar við þeirri spurningu kunni að skipta máli varðandi málsástæður aðila í máli þessu, m.a. um forsendubrest og mögulega beitingu 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Tekið er fram að bæði varnaraðili og Seðlabanki Íslands hafi hafnað beiðni sóknaraðila um umbeðin gögn, en slitastjórn SPRON hf. hafi engu svarað. Kröfunni til stuðnings vísa sóknaraðilar til 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Varnaraðili mótmælti fram kominni beiðni sóknaraðila. Telur hann að umbeðin gögn hafi enga þýðingu fyrir úrlausn málsins og með öllu óljóst hvað þau eigi að sanna.
Lögmenn beggja aðila gerðu frekari grein fyrir kröfum sínum, en að því búnu var krafan tekin til úrskurðar.
II
Samkvæmt 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, getur aðili krafist þess að fá afhent skjal sem er í vörslum manns, sem ekki er aðili að máli, til framlagningar í máli. Heimildin er þó bundin því skilyrði að vörslumanni skjalsins sé skylt að afhenda það aðilanum án tillits til málsins eða að efni skjalsins sé slíkt að vörslumanni sé skylt að bera vitni um það í málinu. Verði vörslumaður ekki við kröfu aðila um láta skjal af hendi, getur aðili lagt fyrir dómara skriflega beiðni um að vörslumaðurinn verði skyldaður með úrskurði til að afhenda skjalið fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 68. gr. sömu laga.
Fyrir liggur að varnaraðili hefur sjálfur hafnað áskorun sóknaraðila um að leggja umbeðin gögn fram, þar sem hann telur þau enga þýðingu hafa fyrir úrlausn málsins. Í 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um hvaða afleiðingar það geti haft, verði aðili ekki við áskorun gagnaðila um framlagningu skjala, svo fremi að talið verði að efni þeirra geti haft þýðingu við úrlausn málsins. Á hinn bóginn fær dómurinn með engu móti séð að eftir höfnun varnaraðila við áskorun sóknaraðila geti sóknaraðilar beint slíkri kröfu að öðrum, sem kunni að hafa sömu gögn undir höndum en eru ekki aðilar að málinu, án þess að færa fyrir því rök að umbeðin gögn séu þess eðlis að þeim aðilum sé skylt að verða við slíkri kröfu. Þegar af þeirri ástæðu verður kröfu sóknaraðila hafnað.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Sveins Óskars Sigurðssonar og Samsidanith Chan, þess efnis að slitastjórn SPRON hf., og til vara Seðlabanka Íslands eða seðlabankastjóra, verði gert skylt að afhenda allar skýrslur Frjálsa fjárfestingabankans hf., SPRON hf. og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis um gjaldeyrisjöfnuð allt frá ársbyrjun 2000 til ársloka 2009.