Hæstiréttur íslands

Mál nr. 612/2016

Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari)
gegn
Andrius Kelpsa (sjálfur)

Lykilorð

  • Umferðarlög
  • Vopnalög
  • Akstur án ökuréttar
  • Ölvunarakstur
  • Frávísunarkröfu hafnað

Reifun

A var sakfelldur fyrir brot gegn umferðar-, vopna- og lögreglulögum með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis, ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu og haft í vörslum sínum fjaðrahníf. Var refsing ákærða ákveðin fangelsi í 75 daga auk þess sem áréttuð var ævilöng ökuréttarsvipting hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Davíð Þór Björgvinsson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. ágúst 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Málatilbúnaður ákærða verður skilinn þannig að hann krefjist frávísunar málsins frá héraðsdómi af þeirri ástæðu að rannsókn þess hafi verið áfátt. Ákæruvaldið hefur metið rannsókn málsins fullnægjandi og á grunni hennar gefið út ákæru. Eins og ítrekað hefur verið slegið föstu í dómaframkvæmd Hæstaréttar sætir slík ákvörðun ekki endurskoðun dómstóla, en sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik honum í óhag hvíla á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt þessu verður kröfunni hrundið.

Svo sem greinir í héraðsdómi fannst fjaðurhnífur á ákærða er hann var handtekinn 29. mars 2014. Verður hann því sakfelldur fyrir það brot á vopnalögum nr. 16/1998, sem honum er gefið að sök og varðar við b. lið 2. mgr. 30. gr., sbr. 36. gr. laganna. Aftur á móti verður ákærði ekki sakfelldur fyrir að reyna að komast undan lögreglu á hlaupum, sbr. 3. mgr. 112. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða. Einnig verður staðfest niðurstaða dómsins um refsingu, sviptingu ökuréttar, upptöku og sakarkostnað.

Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Andrius Kelpsa, greiði áfrýjunarkostnað málsins, 12.814 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 28. júní 2016.

Mál þetta, sem upphaflega var þingfest 19. júní 2014 og dómtekið 22. október sl.,  var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 13. maí 2014, á hendur Andrius Kelpsa, kt. [...] Neshaga 3, Reykjavík, með dvalarstað að Kjarrmóum 24, Kópavogi. Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 453/2015 var héraðsdómur ómerktur og vísað heim í hérað til löglegrar málsmeðferðar á ný.  Fór aðalmeðferð aftur fram þann 6. maí 2016 og var framhald aðalmeðferðar þann 20. júní 2016. Var málið dómtekið að málflutningi loknum en dómurinn fór á vettvang. Er ákærði sakaður um umferðar-, vopna- og lögreglulagabrot í Hafnarfirði með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 29. mars 2014 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,03‰) norður Reykjavíkurveg, ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu heldur aukið hraðann og ekið inn á bifreiðastæði við Snælandsvídeó þar sem hann stöðvaði aksturinn og reyndi að komast undan lögreglu á hlaupum en var handtekinn af lögreglu á bifreiðaplaninu, og haft í vörslum sínum fjaðrahníf sem fannst við öryggisleit og lagt var hald á.

Telst þetta varða við 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997, 19. gr. sbr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og b-lið 2. mgr. 30 gr., sbr. 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006, jafnframt er krafist upptöku á fjaðrahníf sem lagt var hald á skv. 1. mgr. 37. gr. nefndra vopnalaga.

Eins og að ofan er rakið var máli þessu vísað heim í hérað með dómi Hæstaréttar og fór aðalmeðferð fram á ný. Óskaði ákærði eftir því að flytja mál sitt sjálfur. Ákærði neitaði sök. Hófst aðalmeðferð í málinu þann 6. maí sl. og var framhaldið þann 20. júní sl. Fór dómurinn á vettvang á ný og var málið dómtekið að málflutningi loknum.

Málsatvik. 

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu veitti lögregla bifreiðinni [...] athygli þar sem hún mætti bifreiðinni á Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði umrætt sinn. Ákvað lögreglan að kanna ástand ökumanns og sneri við á umferðarljósum Reykjavíkurvegar og Hjallahrauns. Var ökumanni gefið merki, með bláum forgangsljósum lögreglu, um að stöðva bifreiðina en við það hafi ökumaður aukið hraðann og ekið inn á bifreiðastæði við Snælandsvídeó. Þar hafi ökumaður og farþegi stokkið út úr bifreiðinni og hlaupið frá henni. Ökumaðurinn hafi hlaupið að bifreiðaplani bak við Snælandsvídeó og lögreglan ekið á eftir honum. Þegar þeir voru komnir nálægt ökumanninum hafi A, annar lögreglumannanna, stokkið út úr bifreiðinni og hlaupið ökumanninn uppi og handtekið hann. Við öryggisleit á honum hafi hnífurinn fundist. Hafi ökumanninum verið kynnt að hann væri handtekinn vegna gruns um ölvun við akstur og færður á lögreglustöð. Þar hafi blóðsýni verið tekið úr ökumanninum og honum sleppt í framhaldi af því.

Skýrslur fyrir dómi.

Ákærði kom fyrir dóminn og neitaði því að hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn. Hann hafi verið farþegi í bifreiðinni og setið aftur í henni. Annar farþegi hafi einnig verið í bifreiðinni auk ökumanns sem ákærða minnti að héti B. Ákærði kvaðst hafa hlaupið í burtu þegar lögreglan kom eins og hinir sem voru í bifreiðinni. Aðspurður hvers vegna hann hafi ekki sagt frá ökumanninum strax þegar lögreglan hafði afskipti af honum, kvaðst ákærði ekki hafa verið spurður um það. Honum hafi heldur ekki verið sagt að hann væri sakaður um að hafa ekið. Ákærði hafi margsinnis spurt lögreglu um það hvað hann væri sakaður um en ekki fengið svör. Aðspurður um það hvers vegna hann hafi ekki sagt frá því hver hafi ekið, þegar hann hafði verjanda við fyrri flutning málsins, kvaðst ákærði ekki hafa viljað hafa þann verjanda, hann hafi ekki spurt ákærða um neitt. Ítrekað spurður hvers vegna hann hafi ekki sagt strax frá því hver hafi ekið, svaraði ákærði því til að hann hafi ekki vitað hvaða refsing lægi við því að hlaupa af vettvangi. Aðspurður hvers vegna ákærði hafi ekki bent á ökumanninn kvaðst ákærði ekki vita hvar B búi og þekkja hann lítið, þetta sé hans mál, því bendi ákærði ekki á hann. Ákærði kvaðst hafa verið að flytja ísskáp þennan dag og notað hnífinn sem verkfæri við flutninga. Aðspurður hvort ákærði hafi ekki getað haft uppi á ökumanninum í gegnum vini hans sem höfðu verið í sama samkvæmi og ákærði kvað ákærði að hægt væri að spyrja C um það. Aðspurður hvort ákærði ætti hnífinn sem fannst á honum, kvaðst ákærði eiga hnífinn og ekki skilja hvers vegna hann væri sakaður um vörslur hans.

Vitnið D lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið við hefðbundið umferðareftirlit umrætt sinn og séð bifreið ákærða koma úr gagnstæðri átt á Reykjavíkurvegi. Lögreglan hafi tekið ákvörðun um að kanna ástand ökumannsins og snúið við og ekið á eftir bifreiðinni. Ákærði hafi gefið í og ekið að Snælandsvídeói og lagt bifreiðinni þar. Ökumaðurinn hafi hlaupið út úr bifreiðinni og á bak við Snælandsvídeó. Aðspurt kvað vitnið að þetta hafi tekið svo stuttan tíma og bifreiðin aldrei farið úr augsýn lögreglunnar svo að útilokað sé að ökumenn hafi getað skipt um sæti á ferð. Farþeginn hafi farið út úr bifreiðinni og ökumaður hafi hlaupið út og á bak við húsið. Vitnið hafi ekið á eftir ökumanninum og lögreglumaður, sem var einnig í bifreiðinni, þá hlaupið á eftir ákærða. Útilokað hafi verið að þriðji maðurinn hafi getað hlaupið líka út úr bifreiðinni, vitnið hefði séð það. Vitnið kvað lögreglunema hafa verið með þeim í bifreiðinni og hefði hún aldrei farið út úr lögreglubifreiðinni. Vitnið kvað aðspurt þriðja mann ekki hafa verið í bifreið ákærða. Vitnið lýsti því að ákærði hefði lagt bifreið sinni hægra megin við hvíta bifreið sem sé á ljósmynd á bls. 4. Aðspurt kvað vitnið ákærða hafa lagt nær hvítu bifreiðinni en ekki hægra megin við ljósastaurinn eins og ákærði haldi fram. Vitnið kvað rangt hjá ákærða að lögreglukonan hafi hlaupið út úr bifreiðinni eins og ákærði sýni á teikningu á dskj. nr. 6, hún hafi aldrei farið út úr lögreglubifreiðinni. Vitnið kvað afstöðuteikningu, sbr. dskj. nr. 6, sýna rétta akstursleið ákærða og lögreglubifreiðarinnar. Vitnið kvaðst aðspurt hafa allan tímann séð inn í bifreið ákærða aftan frá og útilokað sé að skipt hafi verið um bílstjóra á þeirri leið. Vitnið kvaðst aðspurt ekki geta svarað því hversu langt bil hafi verið á milli bifreiðanna þegar lögreglan fór á eftir ákærða en lögreglan hafi allan tímann haft yfirsýn yfir bifreið ákærða. Vitnið kvað aðspurt ekki hægt að ná fingraförum af stýri bifreiða og sé það yfirleitt ekki gert.

Vitnið A lögreglumaður kom fyrir dóminn og lýsti atvikum á sama hátt og vitnið D. Vitnið kvað lögreglubifreiðina hafa snúið strax við og elt ákærða þegar þeir mættu honum. Ákærði hafi beygt inn á bílaplan og lagt fyrir utan bygginguna þar sem Snælandsvídeó er í. Tveir menn hafi stokkið út úr bifreiðinni og hlaupið burt. Vitnið hafi séð ökumanninn þegar þeir mættu bifreiðinni og sé það visst um að það hafi verið ökumaður bifreiðarinnar sem vitnið hljóp á eftir niður fyrir húsið en vitnið minnti að ákærði hafi skilið bifreiðina eftir í gangi. Lögreglan hafi lagað bifreið ákærða til á bílastæðinu áður en þeir yfirgáfu vettvang. Vitnið kvað þá ekki hafa elt farþegann uppi og ekki vita hvert hann hljóp. Þá kvað vitnið þriðja mann ekki hafa verið í bifreiðinni eins og ákærði haldi fram. Vitnið kvað lögreglunema hafa verið með þeim í bifreiðinni alla tíð. Vitnið kvaðst aðspurt ekki geta sagt til um það hversu margir metrar hafi verið á milli lögreglubifreiðarinnar og bifreiðar ákærða. Vitnið kvað aðspurt að ökumaðurinn hafi lagt bifreiðinni skáhallt í bílastæði fyrir utan húsið og hlaupið í burtu. Því taldi vitnið líklegt að lögreglan hafi rétt bifreið ákærða af áður en lögreglan yfirgaf vettvang. Aðspurt kvað vitnið að ákærða hafi verið kynnt á staðnum að hann væri handtekinn grunaður um ölvunarakstur. Það hafi einnig verið gert á lögreglustöðinni.

Vitnið E, kt. [...], [...], Hafnarfirði, kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst hafa verið með ákærða umrætt sinn og setið í farþegasæti frammi í. Þá hafi einnig verið bílstjóri, B. Hann sé kunningi en ákærði viti ekki hvar hægt sé að ná í hann né finna hann. Vitnið kvað aðspurt ákærða og vitnið vera vini. Aðspurt um afstöðu bifreiðarinnar þegar henni var lagt kvað vitnið lögreglubifreiðina hafa verið fjær en teikningin sýni. Vitnið kvaðst hafa séð ljós á lögreglubifreiðinni þegar þeir óku framhjá strætóskýlinu. Vitnið kvað að þegar þeir stöðvuðu eða lögðu bifreiðinni og fóru út úr henni hafi vitnið séð lögreglubifreiðina, það hafi verið á móts við Snælandsvídeó, þvert á bifreiðastæði. Aðspurt hvers vegna vitnið hafi hlaupið af vettvangi kvað það hina hafa hlaupið burt svo að vitnið hafi gert það líka.

Vitnið F, kt. [...], [...],, Hafnarfirði, kom fyrir dóminn. Kvaðst vitnið hafa sótt bifreiðina daginn eftir á Reykjavíkurveg fyrir utan Snælandsvídeó. Vitninu var sýnd ljósmynd af húsinu þar sem Snælandsvídeó er til húsa við Reykjavíkurveg og kvað það bifreiðina hafa verið undir ljósaskiltinu „Snæland“ á framhlið hússins þegar það sótti bifreiðina.

Vitnið G lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið lögreglunemi í starfskynningu umrætt sinn og verið í lögreglubifreiðinni þegar lögreglan hafði afskipti af ákærða. Vitnið kvaðst muna að lögreglumennirnir hafi farið á eftir bifreið með forgangsljósum. Þeir hafi ekið inn á bifreiðaplan fyrir framan Snælandsvídeó á Reykjavíkurvegi. Ökumaður og farþegi í bifreiðinni hafi hlaupið út úr bifreiðinni og lögreglan hafi ekið á eftir ökumanninum sem hafi hlaupið bak við Snælandsvídeó. Kvað vitnið bifreið ákærða hafa verið um það bil á móts við innganginn að Snælandsvídeói. Aðspurt kvaðst vitnið eingöngu muna eftir tveimur aðilum sem fóru út úr bifreiðinni. Afstöðumynd, sem stafar frá ákærða, var lögð fyrir vitnið. Vitnið kvaðst ekki geta svarað því hvort hlutföll og fjarlægðir á teikningunni væru réttar. Vitnið kvað afstöðu bifreiðanna ekki vera rétta á teikningunni því að lögreglubifreiðin hafi verið komin nær bifreið ákærða, en vitnið hafi séð ákærða og farþegann hlaupa út úr bifreiðinni. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna að rætt hafi verið um það hversu margir hafi verið í bifreið ákærða en vitnið hafi séð tvo menn hlaupa út úr bifreiðinni.

Forsendur og niðurstöður.

Ákærði neitaði því að hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn og kvað „B“ hafa ekið henni. Ákærði krafðist sýknu á þeim forsendum að annar aðili hefði ekið bifreiðinni.

Fyrir dóminum fullyrtu tveir lögreglumenn að þeir hafi aldrei misst sjónar á bifreið ákærða né ökumanninum eftir að þeir veittu bifreiðinni athygli og eftir að bílstjórinn hljóp út úr bifreiðinni og var handsamaður. Þá kom þriðji lögreglumaðurinn nú fyrir dóminn, sem var í lögreglubifreiðinni sem lögreglunemi, og staðfesti að eingöngu hefðu tveir aðilar verið í bifreið ákærða. Þá staðfestu allir lögreglumennirnir að ákærði hafi aukið hraðann og reynt að koma sér undan þegar lögreglan gaf ökumanninum merki um að stöðva bifreiðina. Dómurinn fór á vettvang. Telur dómurinn sannað að lögreglumennirnir hafi verið í það miklu návígi við bifreiðina, frá því að þeir veittu henni fyrst athygli og ökumanninn, eftir að hann hljóp út úr henni, að vafalaust sé að það hafi verið ákærði sem ók bifreiðinni. Ekki verður byggt á ljósmyndum sem ákærði lagði fram undir rekstri málsins af vettvangi þar sem þær eru sannanlega teknar löngu eftir atvikið og tré laufguð, sem ekki var í marsmánuði. Þá hefur ákærði ekki leitt fyrir dóminn þann sem hann segir hafa ekið bifreiðinni og er frásögn hans og vitnisins E ótrúverðug og verður ekki byggt á henni.  Er framburður ákærða ótrúverðugur. Telur dómurinn hafið yfir allan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.

Ekki er ágreiningur um matsgerð, sem liggur fyrir í málinu, um alkóhólmagn í blóði ákærða. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi að aka undir áhrifum áfengis auk þess að aka sviptur ökurétti. Þá hefur ákærði ekki gefið trúverðuga skýringu á vörslum hans á fjaðrahníf og verður hann einnig sakfelldur fyrir þá háttsemi. Þá viðurkenndi ákærði að hafa hlaupið í burtu þegar lögreglan hafði afskipti af honum.  Að auki telur dómurinn sannað að ákærði hafi ekki sinnt stöðvunarmerki lögreglu þar sem hann jók hraðann, lagði bifreiðinni og reyndi að komast undan á hlaupum.

Ákærði gekkst undir viðurlagaákvörðun þann 14. janúar 2009 fyrir ölvunarakstur og var gert að greiða 250.000 krónur í sekt til ríkissjóðs auk þess að vera sviptur ökurétti í tuttugu mánuði. Ákærði gekkst undir sátt þann 5. ágúst 2009 fyrir að aka undir áhrifum áfengis og að aka sviptur ökurétti. Var honum þá gert að greiða 280.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og sviptur ökurétti í fjögur ár frá 14. janúar 2010. Ákærði var dæmdur í fjörutíu daga fangelsi fyrir ölvunarakstur og auk þess sviptur ökurétti ævilangt 26. nóvember 2009. Hafa ofangreindar refsingar ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar nú. Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir að aka í fjórða sinn undir áhrifum áfengis auk þess að vera gerð refsing brot á vopnalögum og lögreglulögum. Er brot ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Með vísan til dómaframkvæmdar og þeirra brota sem ákærði er sakfelldur fyrir er refsing ákærða ákveðin fangelsi í sjötíu og fimm daga. Þá er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða áréttuð. Ákærði sæti upptöku á fjaðrahníf. Að auki verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað sem er samkvæmt yfirliti og ákvörðun dómara um ferðakostnað vitnis samtals 67.635 krónur.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð.

Ákærði, Andrius Kelpsa, sæti fangelsi í sjötíu og fimm daga.

Áréttuð er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða.

Ákærði sæti upptöku á fjaðrahníf.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, 67.635 krónur.