Hæstiréttur íslands
Mál nr. 425/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Húsleit
- Hald
- Aðild
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Þriðjudaginn 24. september 2002. |
|
Nr. 425/2002. |
Ríkislögreglustjóri(Jón H. Snorrason saksóknari) gegn Baugi Group hf. (Hreinn Loftsson hrl.) |
Kærumál. Húsleit. Hald. Aðild. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.
Héraðsdómari féllst á kröfu ríkislögreglustjóra um að honum yrði heimilað að gera leit í húsnæði B hf. og A hf. til að handtaka þar tvo menn, formann stjórnar B hf. og forstjóra, og finna muni og gögn, sem hald yrði lagt á vegna rannsóknar á ætluðu broti gegn ákvæðum almennra hegningarlaga, laga um bókhald og laga um tekjuskatt og eignarskatt. Á grundvelli úrskurðar héraðsdómara gerði ríkislögreglustjóri húsleit hjá B hf. þar sem lagt var hald á nokkurn fjölda skjala, tölvudisklinga og ljósmynda, auk farsíma og fartölvu. Jafnframt voru tekin afrit gagna úr nánar tilgreindum hlutum tölvukerfis félagsins. Leitaði B hf. í kjölfarið úrlausnar héraðsdóms um lögmæti aðgerða lögreglu við umrædda húsleit, svo og um lögmæti haldlagningar gagna við hana. Héraðsdómari hafnaði kröfum B hf. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að þegar leit hafi verið lokið í húsakynnum félagsins hafi fallið niður heimild þess til að kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdóms um heimild til húsleitarinnar. Samkvæmt þeim rökum sem búi að baki 3. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála geti félagið ekki nú beitt ákvæðum 75. gr. eða 79. gr. sömu laga til að leita úrlausnar dómstóla um atriði, sem snúi að því hvort ríkislögreglustjóri hafi undirbúið nægilega rannsókn sína áður en húsleitar var krafist eða hvort þörf hafi í raun verið á húsleit. Af sömu ástæðu geti B hf. ekki beitt síðastnefndum tveimur lagaákvæðum til að fá leyst í málinu úr atriðum, sem varði framkvæmd húsleitarinnar, þar með talið hvort nægilega hafi verið greint á vettvangi frá tilefni húsleitar og heimild fyrir henni áður en aðgerðir við hana hófust, hvort farið hafi verið út fyrir heimild héraðsdóms við framkvæmd leitarinnar eða hvort meðalhófs hafi þar verið gætt. Að öllu þessu athuguðu verði að vísa frá héraðsdómi þeirri dómkröfu félagsins að „úrskurðað verði um ... lögmæti aðgerða lögreglu varðandi húsleit í höfuðstöðvum [B hf.], dags. 28. ágúst 2002“, svo sem komist sé að orði í kæru til Hæstaréttar. Í málinu gerði B hf. jafnframt kröfu um að úrskurðað yrði um lögmæti haldlagningar gagna við umrædda húsleit. Var ríkislögreglustjóri með haldlagningunni ekki talinn hafa farið út fyrir þá heimild sem honum hafði verið veitt með úrskurði héraðsdóms
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. september 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2002, þar sem hafnað var kröfum varnaraðila, sem lutu að lögmæti aðgerða sóknaraðila við leit í húsakynnum varnaraðila 28. ágúst 2002 og haldlagningar þar á gögnum. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að athafnir sóknaraðila verði dæmdar ólögmætar.
Sóknaraðili kærði úrskurðinn fyrr sitt leyti 12. september 2002. Hann krefst þess aðallega að vísað verði frá héraðsdómi kröfu varnaraðila, sem snýr að lögmæti aðgerða sóknaraðila við húsleitina, en hafnað þeirri kröfu, sem snýr að lögmæti haldlagningar á gögnum. Til vara krefst sóknaraðili þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
I.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði krafðist sóknaraðili þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 28. ágúst 2002 að sér yrði heimilað að gera leit í húsnæði Baugs hf. og Aðfanga hf. að Skútuvogi 7 í Reykjavík til að handtaka þar tvo menn, formann stjórnar varnaraðila og forstjóra, og finna muni og gögn, sem hald yrði lagt á vegna rannsóknar á ætluðu broti gegn 247. gr. og 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 36. gr., sbr. 37. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald og 107. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Rannsókn þessari væri beint að fyrrnefndum tveimur mönnum ásamt öðrum stjórnarmanni varnaraðila. Vísaði sóknaraðili til þess að nafngreindur maður, sem reki útflutningsfyrirtæki í Bandaríkjunum, hafi borið í lögregluskýrslu að hann hafi gefið út í nafni fyrirtækisins 33 reikninga á hendur Baugi hf. á árunum 2000 til 2002 fyrir samtals 491.691,43 bandaríkjadölum. Reikningarnir hafi verið búnir til samkvæmt fyrirmælum stjórnarformanns og forstjóra varnaraðila og hljóðað á greiðslu fyrir þjónustu, sem Baugi hf. hafi verið látin í té. Þetta efni reikninganna hafi verið rangt, því þeir hafi í raun verið gerðir vegna nánar tiltekinna persónulegra útgjalda þessara manna. Þá hafi sami maður borið að forstjóri varnaraðila hafi óskað eftir að hann gerði í nafni fyrirtækis síns svokallaðan kreditreikning á hendur Baugi hf. að fjárhæð 589.890 bandaríkjadalir vegna afslátta, vörutjóns og rýrnunar á vörusendingum frá miðju ári 2000 til jafnlengdar á næsta ári, en þessi reikningur hafi verið tilbúningur og engin viðskipti búið að baki honum. Maður þessi hafi afhent sóknaraðila gögn um framangreint efni, þar á meðal útskrift orðsendinga, sem gengið hafi milli hans og forráðamanna varnaraðila í tölvupósti. Sóknaraðili hygðist kanna með húsleit hvort og þá hvernig reikningar þessir hafi verið færðir í bókhaldi Baugs hf., svo og að leita staðfestingar á þeim samskiptum, sem borið hafi verið um í umræddri lögregluskýrslu, meðal annars í tölvukerfi félagsins og á skrifstofum þess að öðru leyti. Héraðsdómari veitti sóknaraðila umbeðnar heimildir með úrskurði, sem kveðinn var upp 28. ágúst 2002.
Húsleit var gerð síðastgreindan dag hjá varnaraðila á grundvelli úrskurðar héraðsdómara. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum stóðu aðgerðir við hana yfir frá kl. 16.20 til 23.54. Var forstjóri varnaraðila jafnframt handtekinn og færður til skýrslutöku hjá sóknaraðila, en stjórnarformaður félagsins var staddur erlendis. Við húsleitina var lagt hald á nokkurn fjölda skjala, tölvudisklinga og ljósmynda, auk farsíma og fartölvu, sem getið var í sérstakri skýrslu lögreglunnar um þá aðgerð. Jafnframt voru tekin afrit gagna úr nánar tilgreindum hlutum tölvukerfis varnaraðila.
Með bréfi 29. ágúst 2002 leitaði varnaraðili úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um lögmæti aðgerða lögreglu við framangreinda húsleit, svo og um lögmæti haldlagningar gagna við hana, en um heimild til þessa vísaði varnaraðili til 75. gr. og 79. gr. laga nr. 19/1991. Af því tilefni var mál þetta þingfest í héraði 2. september 2002.
II.
Áðurgreind krafa sóknaraðila um heimild Héraðsdóms Reykjavíkur til leitar beindist að húsakynnum varnaraðila. Að fenginni þeirri heimild lét sóknaraðili verða af húsleitinni og lagði við framkvæmd hennar hald á gögn og muni, sem voru í vörslum varnaraðila. Að því leyti, sem lögmæti þessara aðgerða verður að þeim loknum borið undir dómstóla eftir ákvæðum 75. gr. og 79. gr. laga nr. 19/1991, getur varnaraðili átt aðild að slíku máli í ljósi þeirra aðstæðna, sem hér var getið.
III.
Samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 verður úrskurður héraðsdómara ekki kærður til Hæstaréttar ef athöfn, sem kveðið er á um í úrskurðinum, hefur þegar farið fram eða ástand, sem leitt hefur af ákvæðum hans, er þegar um garð gengið. Eins og sérstaklega hefur verið tekið fram í fyrri dómum Hæstaréttar, meðal annars í dómi 3. maí 2002 í máli nr. 178/2002, taka þessar reglur mið af því að þótt heimild til að kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdómara líði undir lok þegar ákvæðum hans hefur verið hrundið í framkvæmd, þá geti sá, sem hefur orðið að þola rannsóknaraðgerð samkvæmt úrskurðinum, allt að einu fengið leyst úr atriðum varðandi lögmæti heimildar til hennar eða aðferðir við framkvæmd hennar í opinberu máli, sem kann að verða höfðað um sakarefnið, eða með því að höfða einkamál til heimtu skaðabóta á grundvelli XXI. kafla laga nr. 19/1991. Þótt varnaraðili sé ekki hafður fyrir sökum við þá lögreglurannsókn, sem málið varðar, og því ekki viðbúið að opinbert mál verði höfðað gegn honum, verður framangreindum reglum allt að einu beitt um hann, enda stendur honum opin leið til að krefjast í einkamáli eftir almennum reglum skaðabóta vegna aðgerða sóknaraðila, sem fyrr er getið, ef hann telur efni standa til þess.
Þegar leit var lokið í húsakynnum varnaraðila 28. ágúst 2002 féll niður heimild hans til að kæra til Hæstaréttar úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp sama dag. Samkvæmt framangreindum rökum að baki 3. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 getur varnaraðili ekki nú beitt ákvæðum 75. gr. eða 79. gr. sömu laga til að leita úrlausnar dómstóla um atriði, sem snúa að því hvort sóknaraðili hafi undirbúið nægilega rannsókn sína áður en húsleitar var krafist eða hvort þörf hafi í raun verið á húsleit. Af sömu ástæðu getur varnaraðili heldur ekki beitt síðastnefndum tveimur lagaákvæðum til að fá leyst í málinu úr atriðum, sem varða framkvæmd húsleitarinnar, þar með talið hvort nægilega hafi verið greint á vettvangi frá tilefni húsleitar og heimild fyrir henni áður en aðgerðir við hana hófust, hvort farið hafi verið út fyrir heimild héraðsdóms við framkvæmd leitarinnar eða hvort meðalhófs hafi þar verið gætt. Að öllu þessu athuguðu verður að vísa frá héraðsdómi þeirri dómkröfu varnaraðila að „úrskurðað verði um ... lögmæti aðgerða lögreglu varðandi húsleit í höfuðstöðvum kæranda, dags. 28. ágúst 2002“, svo sem komist var að orði í kæru hans til Hæstaréttar.
IV.
Í málinu hefur varnaraðili gert kröfu, sem hann orðar þannig í málatilbúnaði sínum fyrir Hæstarétti að „úrskurðað verði um ... lögmæti haldlagningar gagna í umræddri húsleit.“ Líta verður svo á að með þessu sé varnaraðili í raun að leita úrlausnar dómstóla um hvort sóknaraðila hafi verið heimilt að leggja hald á gögn og muni, sem hann tók í vörslur sínar við húsleitina 28. ágúst 2002, og hvort honum beri eftir atvikum að skila þeim aftur til varnaraðila að því leyti, sem það hefur ekki þegar verið gert. Með þessari skýringu á kröfu varnaraðila er unnt að taka efnislega afstöðu til hennar á grundvelli 79. gr. laga nr. 19/1991.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða héraðsdómara um þann þátt í dómkröfum varnaraðila, sem að framan er getið.
Dómsorð:
Vísað er frá héraðsdómi kröfu varnaraðila, Baugs Group hf., sem varðar lögmæti aðgerða sóknaraðila, ríkislögreglustjóra, við leit í húsakynnum varnaraðila 28. ágúst 2002.
Að öðru leyti er hinn kærði úrskurður staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2002.
I
Mál þetta var tekið til úrskurðar hinn 6. september sl. að loknum munnlegum málflutningi. Með beiðni, dagsettri 28. ágúst sl., beiddist sóknaraðili, sem er Baugur Group hf., kt. 480798-2289, Skútuvogi 7, Reykjavík, úrlausnar um lögmæti aðgerða lögreglu svo og lögmæti haldlagningar gagna og muna, sem lagt var hald á í leit, sem framkvæmd var í húsakynnum Baugs Group hf., hinn 28. ágúst 2002. Um heimild fyrir beiðni þessari vísaði sóknaraðili til 75. gr., sbr. 1. mgr. 79. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.
Kröfur varnaraðila, ríkislögreglustjóra, eru þær aðallega, að vísað verði frá dómi kröfu samkvæmt a-lið í kröfugerð, en kröfu samkvæmt b-lið verði hafnað. Til vara er þess krafist að hafnað verði kröfu kæranda.
Hinn 28. ágúst 2002, var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur heimiluð leit í húsnæði Baugs hf., að Skútuvogi 7, Reykjavík, í því skyni að handtaka þar sakborninga Tryggva Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson og finna muni og gögn sem hald skyldi lagt á í þágu rannsóknar á meintum brotum þeirra. Leitarheimildin náði til læstra hirslna.
Ríkislögreglustjóri kvað tilefni kröfu sinnar um húsleit og haldlagningu hafa verið þá, að verið væri að rannsaka meint brot Tryggva Jónssonar, kt. 140755-2739, forstjóra Baugs hf, og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, kt. 270168-4509, stjórnarformanns Baugs hf., gagnvart Baugi hf. Grundvöllur rannsóknarinnar komi fram í kæru og framburði Jóns Geralds Sullenberger hjá lögreglu, en hann sé fyrrum viðskiptafélagi sakborninga og Baugs hf. og reki félagið Nordica Inc. í Miami í Florida, auk gagna sem Jón Gerald hafi afhent lögreglu. Rannsókn lögreglu byggi á því að rökstuddur grunur sé um að 33 reikningar, samtals að fjárhæð $ 491.691.43, útgefnir af Nordica Inc. til Baugs hf. á árunum 2000, 2001 og 2002, sem gögn og upplýsingar bendi til að gefnir séu út vegna reksturskostnaðar og afborgana af lánum af skipinu Thee Viking, eign Jóns Geralds, Jón Ásgeirs og Jóhannesar Jónssonar, hafi verið greiddir af Baugi hf. og gjaldfærðir í bókhaldi félagsins. Auk þess hafi þurft að afla gagna á skrifstofum sakborninga, úr tölvum þeirra og af heimasvæðum á netþjóni Baugs hf. sem varðað geti samskipti þeirra á milli og við Jón Gerald, bréflega og með tölvupósti. Reikningarnir beri með sér að vera vegna „Contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work”, en ekki kostnaðar við skipið. reikningarnir beri ekki með sér að vera vegna Thee Viking og kveður Jón Gerald það hafa verið gert í þeim tilgangi að leyna raunverulegu innihaldi greiðslnanna. Það hafi því verið ljóst frá upphafi rannsóknar að fullnægjandi upplýsinga yrði ekki að finna í bókhaldi Baugs hf. einu sér heldur yrði að leita annarra sönnunargagna á starfsstöð Baugs hf.
Þá hafi lögregla haft upplýsingar frá Jóni Gerald um að hann hefði að ósk Tryggva Jónssonar gefið út tilhæfulausan reikning í nafni Nordica Inc. á Baug hf. að fjárhæð $ 589.890 um eða eftir 30. ágúst 2001. Texti reikningsins hafi, að sögn Jóns Geralds, verið „Discount on purchased goods and reimbursement for Damage or Shortages shipments to Adfong from July 01.2000 til June 30, 2001”. Jón Gerald hafi talið að reikningur þessi hefði verið notaður til gjaldfærslu í bókhaldi Baugs hf. Endurskoðandi Baugs hf. hefur nú upplýst að reikningur þessi hafi verið tekjufærður í bókhaldi Baugs hf. og sé dagsettur 8. september 2001 og kvaðst hann hafa gert það strax við úsleitina.
II
Sóknaraðili telur aðgerðir lögreglu vera alltof umfangsmiklar og upplýsinga sem lögregla hafi leitað eftir hafi mátt afla með mun vægari aðgerðum. Þá hafi rannsókn lögreglu áður en krafa um húsleit hafi verið sett fram verið verulega ábótavant. Bendir sóknaraðili þar á að tilgreindur reikningur hafi verið gjaldfærður í bókhaldi Baugs hf. eigi ekki við rök að styðjast. Telur kærandi að eðlilegra hefði verið að rannsaka ásakanir á hendur forsvarsmönnum Baugs frekar áður en farið hafi verið í jafn viðamikla aðgerð sem leit í húsakynnum fyrirtækisins.
Eins og fram komi í kröfu ríkislögreglustjóra til Héraðsdóms Reykjavíkur, byggist grunsemdir lögreglu á framburði fyrrum viðskiptafélaga hinna grunuðu, Jóns Geralds Sullenberger, sem sé íslenskur ríkisborgari og eigi og reki útflutningsfyrirtækið Nordica Inc. í Bandaríkjunum. Fyrirtæki þetta hafi verið stofnað árið 1991 og hafi Baugur Group hf. átt í viðskiptum við fyrirtækið, sem Nordica Inc. hafi viljað auka en Baugur Group hf. viljað draga úr þeim viðskiptum og sé þeim nú að fullu slitið. Hafi forráðamaður Nordica Inc. tjáð forsvarsmönnum Baugs að viðskipti við Baug væru meginhluti allra viðskipta Nordica Inc. Í ljósi þessa sé líklegra að málið tengist frekar uppgjöri viðskipta milli félaga og hefði því lögreglu borið að ganga ítarlega úr skugga um hvort ásakanir annars aðila á hendur forsvarsmönnum hins um saknæmt athæfi, ætti við rök að styðjast.
Lögregla byggi kröfu um leit og handtöku einvörðungu á framburði og gögnum er Jón Gerald Sullenberger hafi látið henni í té. Þar á meðal séu reikningur að fjárhæð USD 589.890 sem Jón Gerald segi vera tilbúning og að hann hafi enga greiðslu fengið vegna reikningsins. Umræddur reikningur sé kreditreikningur, sem gefinn hafi verið út af Nordica Inc. til Baugs vegna afsláttar, en eðli slíkra reikninga sé að þeir séu tekjufærðir hjá því fyrirtæki sem þeir séu gefnir út á, í þessu tilviki Baugur Group hf., en ekki gjaldfærðir. Einfalt hefði verið fyrir lögreglu að ganga úr skugga um réttmæti þessarar ávirðingar Jóns Geralds án þess að til húsleitar og handtöku þyrfti að koma. Rannsóknir lögreglu sé því verulega ábótavant, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en stjórnvaldi beri m.a. að staðreyna hvort upplýsingar sem það byggi á séu réttar. Aðgerðir lögreglu í framhaldinu séu því ólögmætar. Sá háttur lögreglu að fara fram á leit í starfsstöð Baugs Group hf., án þess að fram færi frekari rannsókn á sakargiftum sem bornar hafi verið á stjórnarformann og forstjóra Baugs, sé brot á meðalhófreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 2. málsl. 14. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, þar sem segi að aldrei megi ganga lengra í beitingu valds en þörf sé á hverju sinni.
Sóknaraðili heldur því og fram að athafnir lögreglu á vettvangi hafi verið í engu samræmi við markmið rannsóknarinnar eins og það hafi verið kynnt í kröfu til Héraðsdóms Reykjavíkur. Lögregla hafi lagt hald á umtalsvert magn gagna sem ekki verði með neinu móti séð að tengist efni rannsóknarinnar og þannig hafi haldlagning gagna farið úr hófi.
Við leit í húsakynnum sóknaraðila hafi lögregla tekið afrit af öllum tölvugögnum Baugs Group hf þar á meðal fjárhagsupplýsingar og tölvupóst starfsmanna. Auk þess hafi verið numið á brott mikið af gögnum sem á engan hátt tengist máli því sem liggi til grundvallar kröfu um húsleit. Hafa beri í huga að Baugur Group hf. sé skráð félag í Kauphöll Íslands og aðgerðir sem þessar geti hæglega haft skaðleg áhrif á gengi hlutabréfa og þá um leið hagsmuni hinna fjölmörgu hluthafa í félaginu. Umboðsmenn sóknaraðila hafi verið í algerri óvissu um að hverju rannsókn lögreglu beindist og þ.a.l. hafi verið erfitt að halda uppi vörnum. Sé þetta brot á a-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en þar segi að hver sá sem borinn sé sökum um refsiverða háttsemi skuli fá, án tafar, vitneskju í smáatriðum um eðli og orsök þeirrar ákæru sem hann sæti. Í framkvæmd hafi verið talið að réttindi þau sem sakborningur njóti samkvæmt þessu eigi einnig við um aðra þá aðila sem eigi verulegra hagsmuna að gæta.
Samkvæmt kröfu lögreglu til héraðsdóms hafi verið kynnt að rannsókn lögreglu myndi beinast að því að leita í bókhaldi Baugs Group hf. hvort og þá hvernig reikningar hafi verið færðir til gjalda auk þess að leita staðfestingar á samskiptum kærðu við Jón Gerald. Lögreglan hafi hins vegar notað þessa heimild til þess að ná viðkvæmum upplýsingum úr tölvukerfi fyrirtækisins um alla þætti starfsemi þess og öll persónuleg samskipti starfsmanna. Með því hafi gróflega verið brotið gegn stjórnarskrárvörðum réttindum sóknaraðila og starfsmanna hans um friðhelgi einkalífs, sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en ákvæðið um friðhelgi einkalífs taki einnig til starfsstöðva lögaðila.
Krefst sóknaraðili þess að dómurinn úrskurði um réttmæti þessara aðgerða lögreglunnar jafnframt því sem úrskurðað verði að öllum gögnum sem gerð hafi verið upptæk og tengist ekki sakargiftum á hendur forstjóra og formanni stjórnar með beinum hættti verði þegar í stað skilað, bæði skjölum og tölvugögnum, þ.á m. öllum upplýsingum úr fjárhagsbókhaldi félagsins.
Þá telur sóknaraðili að framganga lögreglu á vettvangi hafi verið ámælisverð. Umboðsmönnum Baugs hafi lengi verið haldið í óvissu um efni og tilgang rannsóknarinnar og aldrei verið gerð grein fyrir réttindum félagsins þannig að unnt væri að halda uppi réttum vörnum. Lögreglan hafi birst eingöngu með ljósrit af úrskurðarorði héraðsdóms og gefið mjög takmarkaðar upplýsingar um efni sakargifta og tilgang húsleitar og ekki fyrr en húsleitinni hafi u.þ.b. verið að ljúka. Lögreglan hafi ekki upplýst umboðsmenn sóknaraðila um lögvarinn rétt þeirra til að bera undir dómara lögmæti ákvörðunar um haldlagningu einstakra muna, sbr. 79. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Húsleitin hafi því verið ólögmæt og krefst sóknaraðili að öllum gögnum sem fjarlægð hafi verið úr húsakynnum sóknaraðila verði þegar í stað skilað.
Um lagarök vísar sóknaraðili til 75. gr. og 79. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands, dagsettan 30. september 1999, í málinu nr. 391/1999. Einnig vísar sóknaraðili til 71. gr. stjórnarskrárinnar sem og 6. gr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá vísar sóknaraðili til 10. gr. og 12. gr. stjórnsýslulaga og 14. gr. lögreglulaga.
III
Í greinargerð ríkislögreglustjóra hefur framkvæmd leitarinnar verið lýst með þeim hætti að hún hafi verið framkvæmd að Skútuvogi 7, að kvöldi 28. ágúst sl. Við leitina hafi verið beitt vægustu úrræðum sem lögreglu hafi verið möguleg. Valið hafi verið að hefja leitina skömmu fyrir lokun skrifstofu Baugs hf. til að trufla sem minnst starfsemi félagsins. Tryggva Jónssyni, forstjóra félagsins, hafi verið gerð grein fyrir sakarefninu á hendur sér strax í upphafi leitar, á fundi með þremur starfsmönnum efnahagsbrotadeildar. Hafi honum þar verið gerð grein fyrir að hverju rannsókn beindist og hvar leit þyrfti að fara fram. Aðrir sem tekið hafi þátt í leitinni hafi ekki komið inn í húsnæði Baugs hf. fyrr en Tryggva hafi verið gerð grein fyrir tilefninu. Tryggvi og Jón Ásgeir hafi báðir haft verjendur sínar viðstadda við leitina. Auk þess hafi lögmenn félagsins, Hreinn Loftsson hrl. og Þórður Bogason hdl., komið á vettvang nokkru eftir að leit byrjaði og verið viðstaddir hana. Lögmönnum félagsins hafi verið gerð grein fyrir tilefni húsleitarinnar í tíma til þess að þeir gætu tekið ákvörðun um tilkynningu til Kauphallarinnar daginn eftir.
Lögregla kveður að afla hafi þurft gagna úr bókhaldi Baugs hf. og hafi lögregla haft sér til aðstoðar tvo löggilta endurskoðendur í því skyni. Hafi þurft að afrita tölvugögn á netþjóni til að tryggja sönnunargögn sem þar kynnu að finnast, svo sem gögn á heimasvæði sakborninga, sem varpað gætu ljósi á sakarefnið. Hafi komið í ljós að framangreind gögn hafi verið að finna á útstöðvum netkerfisins, þ.e.a.s. í tölvum hvers starfsmanns, og hafi því verið lagt hald á tölvu Tryggva. Eini tölvupósturinn sem lögregla hafi lagt hald á hafi verið í tölvu Tryggva. Tölvu þessari hafi nú verið skilað eftir að harði diskur hennar hafi verið afritaður í þágu rannsóknarinnar. Auk þessa hafi lögregla tekið afrit af svæðum á netþjóni sem sakborningar hafi haft aðgang að auk afrita af heimasvæðum tveggja lykilstarfsmanna Baugs hf. Þá hafi lögregla fengið afhent afritunarband með afriti af bókhaldi Aðfanga hf. frá nóttinni áður og lögregla tekið afritunarband af bókhaldi Baugs hf. því til viðbótar. Daginn eftir hafi lögmaður Baugs afhent annað afritunarband með bókhaldi Aðfanga hf., en hann kvað starfsmenn Baugs hf. hafa gert mistök þegar afritunarbandið hefði verið afhent kvöldið áður. Auk framangreindra hafi sjö starfsmenn efnahagsbrotadeildar tekið þátt í leitinni. Hafi það verið gert til að tryggja að hægt væri að ljúka leitinni sem fyrst og á þann hátt að fara yfir gögnin á staðnum, en leggja hald á sem fæst gögn af skrifstofum sakborninga.
Varnaraðili kveður að ekki hafi verið unnt að fresta aðgerðum án þess að eiga á hættu sakarspjöll. Þegar ákveðið hafi verið að hefja leitina hafi vofað yfir umfjöllun um málið í fjölmiðlum. T.d. hafi tímaritið Séð og heyrt birt frétt um skipið Thee Viking daginn eftir leitina. Lögreglu hafi verið kunnugt um þetta og að lögmaður Jóns Geralds væri að byrja lögsókn á hendur Baugi hf. Hafi og komið í ljós þegar lögregla kom á vettvang að Tryggvi Jónsson hafi verið búinn að taka til í möppu gögn um viðskipti Baugs hf. við Nordica Inc.
Ekki hafi komið til greina að lögregla óskaði eftir því við félagið að það hefði milligöngu um afhendingu gagna þar sem fyrirsvarsmenn Baugs hf. séu sakborningar í málinu. Slíkri ósk verði ekki beint til undirmanna sakborninga án þess að þeir fái fregnir af því og með því skapast hætta á sakarspjöllum. Leit á starfsstöð Baugs hf. hafi einkum beinst að skoðun á bókhaldi félagsins og hafi starfsmenn Baugs veitt aðstoð á staðnum við afhendingu gagna, sem hafi bæði gengið hratt og vel fyrir sig.
Varnaraðili kveður að farið hafi verið yfir öll gögn sem haldlögð hafi verið. Hafi tölvu Tryggva Jónssonar verið skilað hinn 29. ágúst sl. auk þess sem gögnum sem númeruð hafa verið A-2, A-3 og A-4 í haldlagningarskýrslu hafi verið skilað til lögmanns Baugs hf. hinn 30. ágúst sl., eftir að yfirferð yfir gögnin hafi leitt í ljós að þau vörðuðu ekki rannsókn málsins. Ástæða þess að þessi gögn, sem fundist hafi á skrifstofu Tryggva Jónssonar, hafi verið tekin til frekari skoðunar sé sú að þau hafi verið merkt „anaconda” og „op topgun” sem reyndust vera dulnefni og því ekki á staðnum hægt að gera sér grein fyrir þýðingu þeirra fyrir rannsóknina. Hvað varði önnur gögn sem handlögð hafi verið kveðst lögregla ekki nú geta tekið afstöðu til þýðingu þeirra fyrir rannsóknina og ekki fyrr en að þau hafi verið skoðuð frekar.
Gögn sem hafi verið afrituð úr bókhaldi Baugs hf. og útprentanir af bókhaldi þess hafi verið afrituð af starfsmönnum Baugs hf. og félagið jafnóðum fengið afrit af þeim gögnum. Þessi gögn varði öll framangreinda 33 reikninga, færslu á þeim í bókhaldi og fylgiskjöl úr bókhaldinu, svo sem afrit af reikningum og greiðslugögnum. Þessar færslur séu listaðar upp í kröfugerð lögreglu vegna húsleitarinnar. Varnaraðili mótmælir því að tekin hafi verið afrit af öllum tölvugögnum Baugs Group hf. og kveður afritun gagna hafa verið bundin við sakborninga og tvo aðra starfsmenn sem talið sé að hafi komið að viðskiptum Nordica Inc. og Baugs hf. Þá hafi lögmenn sakborninga verið viðstaddir er hald hafi verið lagt á gögn á skrifstofum þeirra.
Varnaraðili byggir aðalkröfu sína, um að vísa frá dómi kröfu sóknaraðila, um lögmæti aðgerða lögreglu, á aðildarskorti. Úrræði 75. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, séu eingöngu heimild til handa lögreglu, sakborningi eða verjanda hans sem þriðji aðili, brotaþoli, geti ekki beitt fyrir sig. Í greinargerð með 75. gr. segi að það þyki „nauðsynlegt að aðilar (rannsóknari, sakborningur eða verjandi hans) geti borið undir dómara ágreiningsefni er kunna að geta risið við rannsóknina”. Athugasemdir þessar séu í samræmi við orðalag ákvæðisins og geri lögin ekki ráð fyrir að þriðji aðili, sem þurfi að þola húsleit, geti borið rannsóknaraðgerðir lögreglu undir dómstóla á grundvelli þess eins að hann hafi þurft að þola húsleit.
Varakröfu sína byggir varnaraðili á því að eina úrræði laga um meðferð opinberra mála til að fá endurskoðun dóms á lögmæti húsleitarúrskurðar héraðsdóms sé með kæru til Hæstaréttar. Er húsleitin hafi verið um garð gengin, að kvöldi 28. ágúst sl., hafi sú heimild að kæra úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur til Hæstaréttar Íslands fallið niður. Sóknaraðili hafi því ekki önnur úrræði en að láta reyna á lögmæti heimildar húsleitarinnar og atriði við framkvæmd hennar í opinberu máli, sem kunni að verða höfðað í framhaldi af rannsókninni, eða með því að höfða skaðabótamál á grundvelli XXI. kafla laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili geti því ekki beitt ákvæðum 75. gr. og 79. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, til þess að fá úrskurð dómstóla um hvort rétt hafi verið að úrskurða heimild til húsleitar hjá félaginu eða fá úrlausn dóms um atriði er varði framkvæmd húsleitar sem þegar sé lokið, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 178/2002. Þá sé einnig til þess að líta að 75. gr. eigi við um úrræði sem lögregla framkvæmi án atbeina dómstóla, en hér sé verið að bera undir dómstóla aðgerðir sem framkvæmdar séu á grundvelli úrskurðar dómstóls.
Varnaraðili byggir kröfu sína um að hafna beri kröfu sóknaraðila byggða á 79. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, á því, að ekki hafi verið lagt hald á önnur gögn en þau sem tengst gætu rannsókn lögreglu á sakarefninu.
Varnaraðili telur kröfu sóknaraðila um að fá lista yfir alla tölvupóstsendingar sem haldlagaðar hafi verið í tölvu Tryggva Jónssonar vera fráleita og ekki í samræmi við tilgang 81. gr. laga nr. 19/1991, auk þess sem Tryggva hafi verið afhent tölvan aftur. Í skýrslu lögreglu til lögmanna Baugs hf. komi fram hvaða gögn hafi verið tekin. Gögn sem afrituð hafi verið úr bókhaldi félagsins hafi ekki enn verið skráð sérstaklega af endurskoðendum, sem nú vinni að rannsókn þeirra, auk þess sem ekki sé þörf á skráningu þeirra sérstaklega þar sem þau hafi ekki verðgildi heldur séu einungis hluti af sönnunargögnum málsins og það aðeins í ljósriti. Þá hafi starfsmenn Baugs hf. haldið eftir ljósritum af öllum þessum gögnum svo að lögmönnum félagsins megi vera ljóst hvaða gögn hafa verið afrituð.
Varnaraðili mótmælir því og sérstaklega að sóknaraðili málsins, sem sé þriðji aðili og brotaþoli, geti borið fyrir sig a-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Mikilvægt sé að yfirvöld taki til rannsóknar mál er varði ætluð brot stjórnenda gegn félagi eins og Baugi hf. sem sé skráð á markaði og í eigu margra, svo sem annarra hlutafélaga, lífeyrissjóða og einstaklinga, sem verði að geta treyst því að yfirvöld bregðist við er grunur um misferli beinist að stjórnendum félagsins. Félagið þurfi ekki að verja sig rannsókn eða halda uppi vörnum. Jafnvel þótt tölvupóstur starfsmanna eða aðrar viðkvæmar upplýsingar frá félaginu eða starfsmönnum þess hafi verið teknar sé það hvorki brot á 71. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem þar greind réttindi megi skerða með dómsúrskurði, né 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem sæti sambærilegum takmörkunum.
IV
Samkvæmt gögnum málsins leitaði varnaraðili eftir heimild Héraðsdóms Reykjavíkur til þess að mega gera húsleit hjá sóknaraðila vegna gruns um að Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs hf., og Tryggvi Jónsson, forstjóri Baugs hf., hafi brotið gegn 247. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa dregið sér fé hjá Baugi hf., sem kunni að nema rúmlega einni milljón USD, eða um eða yfir 90 milljónum ÍKR, og brot á bókhaldslögum með því að þeir hafi gjaldfært ranglega í bókhaldi Baugs hf. reikninga vegna einkaneyslu og 107. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt með því að þeir hafi lækkað tekjuskatt félagsins með óheimilum gjaldfærslum sem ekki vörðuðu rekstur þess. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. ágúst 2002 var fallist á beiðni varnaraðila og tekið þar fram, eins og hann hafði krafist, að heimild hans næði til leitar og haldlagningar á munum og gögnum í húsnæði og læstum hirslum sóknaraðila.
Húsleit samkvæmt framangreindri heimild fór fram hjá sóknaraðila síðdegis sama dag og lauk henni þá um kvöldið. Samkvæmt gögnum málsins var Tryggva Jónssyni, forstjóra sóknaraðila, í upphafi aðgerða gerð grein fyrir sakarefni á hendur honum, að hverju rannsókn beindist og hvar leit þyrfti að fara fram. Þá hafi verið viðstaddir leitina lögmenn Tryggva Jónssonar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og einnig hafi síðar komið þar að og verið viðstaddir lögmenn sóknaraðila. Í framlagðri lögregluskýrslu um rannsóknina er gerð grein fyrir hvaða gögn var lagt hald á. Auk þess afrituðu starfsmenn sóknaraðila fjölda gagna úr bókhaldi sóknaraðila og fékk Baugur hf. afrit af þeim gögnum jafnóðum.
Fyrrgreind krafa var um leit í húsnæði sóknaraðila og fór leitin fram í húsakynnum hans, þar sem m.a. var lagt hald á gögn í hans eigu. Í ljósi þess verður að telja að sóknaraðili geti verið aðili máls samkvæmt 75. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Ber því að hafna kröfu varnaraðila um frávísun þeirrar hluta kröfugerðar sóknaraðila, er byggir á 75. gr. laga nr. 19/1991.
Með því að héraðsdómari hefur með fyrrgreindum úrskurði, dagsettum 28. ágúst sl., heimilað varnaraðila húsleit, verður réttmæti þess úrskurðar ekki borinn undir héraðsdómara á grundvelli 75. gr. laga nr. 19/1991 eða með öðrum hætti. Samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991, verður úskurður héraðsdómara ekki kærður til Hæstaréttar Íslands, ef athöfn sem kveðið er á um í úrskurðinum, hefur þegar farið fram eða ástand, sem leitt hefur af ákvæðum hans, er þegar um garð gengið. Af sömu ástæðu getur sóknaraðili ekki beitt ákvæðum 75. gr. eða 79. gr. fyrrgreindra laga til þess að fá leyst úr atriðum er varða framkvæmd húsleitar, sem þegar er lokið. Vegna þessa geta ekki komið til skoðunar í máli þessu röksemdir sóknaraðila hvort annmarki hafi verið á stjórn húsleitarinnar eða hvort meðalhófs hafi verið gætt við leitina. Ber því að hafna kröfu sóknaraðila um að aðgerðir lögreglu við húsleit í höfuðstöðvum sóknaraðila hinn 28. ágúst 2002 verði úrskurðuð ólögmæt.
Sóknaraðili hefur og krafist þess annars vegar að öllum gögnum sem hald var lagt á við umrædda leit verði skilað, þar sem húsleitin hafi verið ólögmæt, og hins vegar að skilað verði þeim gögnum, sem hald hafi verið lagt á og tengist ekki sakargiftum á hendur forstjóra og formanni stjórnar sóknaraðila. Eigi þetta við um skjöl og tölvugögn, þ.á m. upplýsingar úr fjárhagsbókhaldi félagsins.
Samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur var veitt heimild til þess að leita að og finna gögn, sem hald skyldi lagt á í þágu rannsóknar á meintum brotum þeirra Tryggva Jónssonar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Var varnaraðila því rétt vegna rannsóknar sinnar og í skjóli húsleitarheimildar að taka afrit af gögnum í tölvubúnaði sóknaraðila í þágu rannsóknar á meintum brotum og leggja hald á gögn í þágu rannsóknarinnar. Umdeild húsleit fór fram fyrir viku síðan og kveðst lögregla ekki hafa lokið skoðun allra þeirra gagna sem afrituð voru og því ekki geta gert sé grein fyrir þýðingu þeirra fyrir rannsókn málsins. Þó svo að ekki verði horft fram hjá því að varnaraðili kunni að hafa tekið í vörslur sínar gögn sem í ljós gæti komið að ekki varða rannsókn hans hefur ekki verið sýnt fram á að svo sé og að með haldlagningu hafi varnaraðili farið út fyrir þá heimild sem honum var veitt með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 28. ágúst sl.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu sóknaraðila, Baugs Group hf., hafnað.
Úrskurðinn kvað upp Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu sóknaraðila, Baugs Group hf., er hafnað.