Hæstiréttur íslands

Mál nr. 469/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Kyrrsetning


Þriðjudaginn 31. ágúst 2010.

Nr. 469/2010.

A

(Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Andri Árnason hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Kyrrsetning.

A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu A hf. Bar A því við að skilyrði 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 væru ekki uppfyllt, en árangurslaus kyrrsetningargerð gæfi ranga mynd af fjárhag hans. Fram kom að við fyrirtöku á beiðni A hf. um kyrrsetningu lýsti A því yfir að hann væri eignalaus. Þá var talið að ekki yrði byggt á mati A sjálfs um verðmæti eigna sem hann taldi sig eiga, en A hf. hafi sýnt fram á að þær væru háðar veðböndum sem geti svarað til alls verðmætis þeirra. Raunvirði hlutabréfa hafi ekki verið metið og bifreið sem A teldi til eigna sinna væri skráð eign annars. Var því hafnað þeirri vörn A að ástæða væri til að ætla að kyrrsetningargerðin gæfi ranga mynd af fjárhag hans. Þá var ekki talið að höfða hefði þurft mál til staðfestingar kyrrsetningargerðinni þar sem henni hafi lokið án árangurs, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 19/1994 og 205/2010. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. júlí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2010, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti verði hafnað. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

I

Með beiðni til sýslumannsins í Reykjavík 4. maí 2010 fór varnaraðili þess á leit að kyrrsettar yrðu eignir sóknaraðila þannig að nægði til tryggingar kröfu samkvæmt samningi 18. júlí 2007 um yfirdráttarlán á tveimur svokölluðum gjaldeyrisveltureikningum sóknaraðila hjá varnaraðila. Samningurinn var upphaflega gerður milli Kaupþings banka hf. og sóknaraðila, en með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda bankans var lánssamningnum ráðstafað til varnaraðila með þeim réttindum sem honum fylgdu. Í kyrrsetningarbeiðni varnaraðila var þess getið að sóknaraðili hafi í september 2008 framselt fasteign sína að [...] til nafngreinds einkahlutafélags þar sem nánustu skyldmenni hans skipuðu stjórn. Taldi varnaraðili framsal eignarinnar til tengds aðila hafa verið gert í þeim tilgangi að rýra líkur kröfuhafa og þar með varnaraðila á fullnustu skulda sóknaraðila. Að því virtu sé unnt að leiða líkum að því að hann muni koma öðrum eignum sínum undan og varnaraðila þess vegna nauðsynlegt að tryggja hagsmuni sína með því að fá kyrrsettar eignir sóknaraðila fyrir kröfu sinni.

Beiðni varnaraðila var tekin fyrir hjá sýslumanni 14. maí 2010, þar sem sóknaraðili var sjálfur viðstaddur ásamt löglærðum aðstoðarmanni sínum. Í endurriti úr gerðabók kemur fram að fulltrúi sýslumannsins taldi lagaskilyrði fyrir kyrrsetningu vera fyrir hendi, andstætt þeirri afstöðu sem sóknaraðili lýsti, og að gerðinni skyldi fram haldið. Þá var bókað: „Aðspurður gerðarþoli um hvort hann geti afstýrt gerðinni með tryggingu þá segir hann svo ekki vera. Aðspurður gerðarþoli um eignir til tryggingar kröfunni segir hann engar eignir eiga.“ Niðurlag bókunarinnar hljóðar svo: „Fulltrúi sýslumanns samþykkir kröfu fyrirsvarsmanns gerðarbeiðanda og ákveður að árangurslaus kyrrsetning skuli framkvæmd.“

Með bréfi varnaraðila til Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2010 krafðist hann þess að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli árangurslausrar kyrrsetningar, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Með hinum kærða úrskuði var krafan tekin til greina.

II

Samningurinn, sem krafa varnaraðila er reist á, fól í sér lánveitingu til sóknaraðila annars vegar í japönskum jenum og hins vegar svissneskum frönkum. Upphaflegur gjalddagi lánsins var 18. júlí 2008, en síðar var samið um frestun hans til 18. janúar 2009. Lánsfjárhæð var þannig tiltekin í erlendum myntum gjaldeyrisreikninganna tveggja og hún skyldi endurgreidd í sömu myntum. Af hálfu varnaraðila er fram komið að skuld sóknaraðila hafi hinn 17. maí 2010 svarað til 206.004.816 íslenskra króna miðað við tiltekið gengi íslenskrar krónu þann dag gagnvart umræddum myntum. Á gjalddaga lánsins hafi skuldin samsvarað 190.368.061 krónu.

Varnaraðili höfðaði mál með stefnu dagsettri 21. janúar 2010 til innheimtu skuldarinnar þar sem sóknaraðili tók til varna. Í því máli, sem hér er til úrlausnar, hefur hann uppi efnislega samskonar varnir, en þær felast meðal annars í því að Kaupþing banki hf. hafi „með glæfralegri fjárfestingarstefnu sinni og áhættusækni orðið valdur að því að allar forsendur viðskiptanna hafi brostið“. Þá telur hann sig hafa verið „peð í ... ólöglegum og siðlausum leikfléttum“ helstu stjórnenda bankans, en lögreglurannsókn standi nú yfir á háttsemi þeirra. Bankinn hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, en fjárfestingar með fé sóknaraðila hafi falist í því að binda hann við kaup á hlutabréfum í bankanum sjálfum eða félögum tengdum honum, sem hafi orðið einskis eða lítils virði við greiðsluþrot bankans í október 2008. Dómur mun ekki hafa gengið í málinu enn. Þá höfðaði sóknaraðili mál gegn varnaraðila með stefnu dagsettri 10. júní 2010 og krafðist þess að viðurkennt yrði að áðurnefnd kyrrsetningargerð 14. maí 2010 væri fallin úr gildi.

Kæru sóknaraðila til Hæstaréttar fylgdi listi yfir ætlaðar gagnkröfur hans á hendur varnaraðila í átta liðum, sem samtals nema tæplega 197.000.000 krónum. Kröfurnar reisir sá fyrrnefndi einkum á margs kyns atvikum í samskiptum hans við Kaupþing banka hf., en áttundi og síðasti kröfuliðurinn að fjárhæð 25.000.000 krónur er vegna gerða varnaraðila og nefndur „bætur vegna kyrrsetningar á eignum ofl.“ Í greinargerð varnaraðila til Hæstaréttar segir að ekki verði séð af kröfulýsingaskrá á hendur Kaupþingi banka hf. að sóknaraðili hafi lýst neinum kröfum á hendur bankanum við slitameðferð hans. Megi því ætla að slíkar hugsanlegar kröfur séu  fallnar niður fyrir vanlýsingu.

Eins og málið liggur fyrir verður lagt til grundvallar að varnaraðili eigi kröfu á hendur sóknaraðila í samræmi við ákvæði lánssamningsins frá 18. júlí 2007, en sá síðarnefndi hefur á engan hátt sannað að þær ástæður, sem hann ber fyrir sig og áður var getið, haggi þeirri niðurstöðu.

III

Sóknaraðili ber fyrir sig að skilyrði samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt fyrir því að krafa varnaraðila geti náð fram að ganga. Þannig fari því fjarri að ekki sé ástæða til að ætla að kyrrsetningargerðin gefi ranga mynd af fjárhag hans, sbr. niðurlag ákvæðisins. Þvert á móti kveðst sóknaraðili ekki eiga í neinum fjárhagsvandræðum. Þessu til sönnunar hefur hann lagt fyrir Hæstarétt yfirlit í fimm liðum um helstu eignir sínar, þar sem samanlagt áætlað matsverð er 178.327.266 krónur. Það skiptist þannig að áætlað verðmæti fasteignarinnar [...] er 42.000.000 krónur, fasteignarinnar [...] 39.000.000 krónur, bifreiðar 5.500.000 krónur, hlutabréfa [...] 91.627.556 krónur og bankainnistæða er nemur 199.710 krónum. Ekki verður annað ráðið af málatilbúnaði sóknaraðila en að um mat hans sjálfs sé að ræða á verðmæti eignanna. Virði hlutabréfa telur hann jafnt nafnverði bréfanna, en mat hans á fasteignum er töluvert hærra en fasteignamat þeirra sem er samtals 56.800.000 krónur. Ekki er nánar skýrt hvað liggi að baki verðmatinu. Varnaraðili mótmælir þessari varnarástæðu sóknaraðila og telur yfirlit hans um eignir og verðmæti þeirra marklaust. Þannig komi þar ekkert fram um þinglýstar veðskuldir sem hvíli á fasteignunum, sem samkvæmt yfirlitum um veðbönd hafi upphaflega numið 46.000.000 krónum og að auki sé áhvílandi tryggingabréf að fjárhæð 22.000.000 krónur, eða samtals 68.000.000 krónur. Umrædd bifreið sé ekki skráð eign sóknaraðila heldur fjármögnunarfélags og nafnverð hlutabréfa sóknaraðila gefi enga vísbendingu um raunvirði þeirra. Hugsanlegar eignir sóknaraðila dugi sýnilega hvergi til fullnustu kröfunnar, sem um ræðir.

Að framan var rakið að við fyrirtöku á beiðni varnaraðila um kyrrsetningu 14. maí 2010 lýsti sóknaraðili yfir að hann væri eignalaus. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. bar honum að segja satt og rétt frá öllu, sem sýslumaður krafði hann svara um við framkvæmd gerðarinnar og máli skipti um framgang hennar. Án tillits til þess hvort yfirlýsing sóknaraðila um að hann væri eignalaus kunni að baka honum refsiábyrgð kemur það ekki í veg fyrir að vörn hans um fullnægjandi eignir komist að í málinu. Ekki verður byggt á mati sóknaraðila sjálfs á verðmæti áðurnefndra fasteigna, en varnaraðili hefur sýnt fram á að þær eru háðar veðböndum, sem að virtum upphaflegum veðskuldum, fjárhæð tryggingabréfs og fasteignamati eignanna geta svarað til alls verðmætis þeirra. Sóknaraðila var í lófa lagið að skýra þetta nánar sem hann hefur þó ekki gert. Raunvirði hlutabréfa hefur ekki verið metið og bifreið, sem sóknaraðili telur til eigna sinna, er skráð eign annars. Samkvæmt þessu verður hafnað þeirri vörn sóknaraðila að ástæða sé til að ætla að árangurslaus kyrrsetningargerð 14. maí 2010 gefi ranga mynd af fjárhag hans.

Sóknaraðili heldur fram að bókun fulltrúa sýslumanns í gerðabók við fyrirtöku á beiðni um kyrrsetningu og ákvörðun hans um að „árangurslaus kyrrsetning skuli framkvæmd“ feli ekki annað í sér en fyrirætlun um að framkvæma gerð, sem ekki sé lokið. Í bókuninni kom skýrlega fram að sóknaraðili gat ekki bent á neinar eignir til tryggingar kröfu varnaraðila og að hann ætti engar eignir. Niðurlag bókunarinnar verður ekki skýrt á annan veg en þann að gerðinni hafi verið lokið án árangurs.

Í greinargerð sóknaraðila fyrir héraðsdómi, sem hann vísar til í kæru sinni til Hæstaréttar, er því haldið fram að varnaraðili hefði þurft að höfða mál til staðfestingar á áðurnefndri kyrrsetningargerð og sameina það málinu, sem höfðað var með stefnu 21. janúar 2010, sbr. 1. og 3. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990. Þetta hafi varnaraðili ekki gert og sé gerðin því fallin niður og gagnist varnaraðila ekki sem grundvöllur fyrir kröfu hans í málinu. Samkvæmt dómum Hæstaréttar í málum nr. 19/1994 í dómasafni réttarins það ár bls. 104 og 205/2010, sem kveðinn var upp 7. maí 2010, liggur fyrir að staðfestingarmál skuli höfða ef gerð lýkur með því að eign er kyrrsett til tryggingar kröfu, en sú skylda sé ekki fyrir hendi ef kyrrsetningargerð er lokið án árangurs. Þessi málsástæða sóknaraðila er því haldlaus.

Samkvæmt öllu framanröktu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, Arion banka hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2010.

Með bréfi dags. 20. maí 2010 krafðist Arion banki hf., kt. 581008-0150, Borgartúni 19, Reykjavík, þess að bú A, kt. [...],[...], yrði tekið til gjaldþrotaskipta.  Krafan var þingfest 16. júní og komu þá fram andmæli við kröfunni.  Var ágreiningsmál þetta þingfest og var það tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 6. þessa mánaðar. 

Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.  Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins. 

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.  Til vara krefst hann þess, verði krafa sóknaraðila tekin til greina, að réttaráhrifum úrskurðar verði frestað þar til dómur hefur gengið í málinu í Hæstarétti.  Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að mati dómsins. 

Í beiðni kemur fram að sóknaraðili innheimtir hjá varnaraðila skuld samkvæmt lánssamningi dags. 18. júlí 2007.  Segir sóknaraðili að skuld varnaraðila nemi 750.346 svissneskum frönkum, 76.081.629 japönskum jenum og 10.501.070 íslenskum krónum.  Eru fjárhæðir þessar nánar sundurliðaðar í beiðni. 

Sóknaraðili vísar til þess að árangurslaus kyrrsetningargerð hafi farið fram hjá varnaraðila þann 14. maí 2010.  Samkvæmt endurriti af gerðinni krafðist sóknaraðili þar kyrrsetningar á eignum varnaraðila fyrir kröfu að fjárhæð 738.303 svissneskum frönkum, 74.857.1559 japönskum jenum og 5.263.178 íslenskum krónum.  Við gerðina var varnaraðili mættur ásamt lögfræðingi.  Var framgangi gerðarinnar mótmælt, en fulltrúi sýslumanns ákvað að gerðin skyldi fara fram.  Síðan er bókað:  „Aðspurður gerðarþoli um hvort hann geti afstýrt gerðinni með tryggingu þá segir hann svo ekki vera.  Aðspurður gerðarþoli um eignir til tryggingar kröfunni segir hann engar eignir eiga.  Aðspurður fyrirsvarsmaður gerðarbeiðanda um eignir til tryggingar kröfunni segir hann ekki vita um neinar eignir.  …  Fulltrúi sýslumanns samþykkir kröfu fyrirsvarsmanns gerðarbeiðanda og ákveður á árangurslaus kyrrsetning skuli framkvæmd.“ 

Umræddur lánasamningur aðila ber fyrirsögnina Samningur um yfirdráttarlán á veltureikningi Kaupþings.  Varnaraðili gerði samninginn við Kaupþing banka hf., en samningurinn hefur verið framseldur til sóknaraðila.  Í samningnum er mælt fyrir um að varnaraðila sé veitt skammtímafjármögnun í formi yfirdráttarláns á veltureikningum lántaka í bankanum.  Síðan eru nánari skilmálar um útborganir og gjalddagi ákveðinn ári eftir undirritun samningsins, 18. júlí 2008.  Samningurinn mælir fyrir um lán í svissneskum frönkum og japönskum jenum.  Segir að endurgreitt skuli í þeim gjaldmiðlum. 

Í greinargerð varnaraðila er það rakið hvernig til umræddra viðskipta aðila stofnaðist.  Lagði varnaraðili fram 10 milljónir króna, en fékk lán eða lánsheimild fyrir 50 milljónum og ráðstafaði sóknaraðili fénu í skjóli fjárvörslusamnings.  Var féð nýtt til fjárfestinga til hagsbóta fyrir varnaraðila.  Segir varnaraðili að lítil samskipti hafi verið á milli aðila allt fram til þess að sóknaraðili höfðaði má hendur honum í janúar 2010.  Um fjárvörsluna segir að sóknaraðili hafi einbeitt sér að fjárfestingum í bankanum sjálfum og eigendum bankans, þar á meðal Exista og Bakkavör. 

Varnaraðili byggir á því að ekki hafi verið höfðað mál til staðfestingar á umræddri kyrrsetningargerð, sbr. 1. og 3. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990.  Gerðin og allar lögfylgjur hennar séu því fallnar niður.  Hafi borið að höfða staðfestingarmál og sameina áðurgreindu skuldamáli sem sóknaraðili hafði þegar höfðað.  Hefði varnar­aðili þá getað komið að vörnum, bæði um kröfuna sjálfa og kyrrsetningargerðina.  Þessi málsástæða varnaraðila er síðan útskýrð í löngu máli og verður hér að duga að endurtaka tilvísun hans til 70. og 60. gr. stjórnarskrárinnar.  Hver aðili eigi rétt til til þess að fá úrlausn fyrir dómi um réttindi sín og skyldur.  Þá eigi dómstólar úrlausn um ágreining um embættistakmörk yfirvalda.  Telur hann að ef fylgt yrði fordæmum í dómum Hæstaréttar í málum nr. 19/1994 og 205/2010 yrði brotið gegn stjórnarskrár­vörðum rétti sínum samkvæmt framangreindum ákvæðum. 

Varnaraðili segir að kyrrsetningargerðin gefi ranga mynd af fjárhag sínum.  Bendir hann á að samkvæmt lögum nr. 31/1990 þurfi ekki að sýna fram á réttmæti kröfu gerðarbeiðanda.  Hins vegar skuli sameina staðfestingarmál málið sem til með­ferðar sé fyrir dómi.  Varnaraðili segir að sóknaraðili hafi með ólögmætum hætti farið á svig við gerða samninga.  Honum hafi ekki verið tilkynnt um veðkall þegar tryggingar hafi farið niður fyrir umsamin mörk.  Með slíku veðkalli hefði auðveldlega mátt takmarka tjón beggja aðila.  Þá hafi sóknaraðili með glæfralegum fjárfestngum vísvitandi verið að verja eigin hagsmuni á kostnað varnaraðila.  Bendir hann á að helstu stjórnendur bankans bíði nú ákæru, m.a. vegna markaðsmisnotkunar.  Þá hafi sóknaraðili þráast við að leggja fram gögn í máli því er hann hafi höfðað, þrátt fyrir áskoranir.  Kveðst hann því telja að gerðin gefi ekki raunhæfa mynd af fjárhag sínum, en hann eigi eignir til að mæta skuldum, þótt þær næðu ekki fjárhæð kyrrsetningar­beiðninnar.  Skera verði úr um réttmæti kröfu sóknaraðila áður en hann geti með réttu krafist gjaldþrotaskipta. 

Þá segir varnaraðili að krafa sóknaraðila sé bæði óljós og röng.  Beiðnin sé ekki rökstudd og ekki bent á að mál um kröfuna sé rekið fyrir dóminum.  Þá sé tilgreindur fjárnámskostnaður að fjárhæð rúmlega 5 milljónir króna.  Fjárnám hafi hins vegar aldrei verið gert vegna kröfunnar. 

Varnaraðili bendir á að gjaldþrotaskipti myndu leiða til þess að hann glataði atvinnuréttindum sínum.  Hann sé löggiltur endurskoðandi og fjármálastjóri stórs fyrirtækis.  Þá geti krafan ein og sér vegið að mannorði sínu og, viðskiptahagsmunum og stefni því fjölskylduhagsmunum sínum og friðhelgi einkalífs í hættu. 

Varakröfu styður varnaraðili við það að úrskurður um gjaldþrotaskipti hefði mikil áhrif á líf hans og fjölskyldunnar.  Slíkri röskun yrði vart snúið við þó kröfunni yrði hafnað í Hæstarétti.  Hann yrði að fara í langt og torsótt mál til heimtu skaðabóta. 

Niðurstaða

Árangurslaus kyrrsetningargerð fór fram hjá varnaraðila þann 14. maí sl.  Þar er bókað eftir varnaraðila að hann eigi ekki eignir.  Þessa yfirlýsingu hans er ekki hægt að skilja svo að hann eigi eignir, þó ekki nægar til að tryggja alla þá kröfu sem höfð var uppi við gerðina.  Honum bar samkvæmt 11. gr. laga nr. 31/1990 að segja frá þeim eignum sínum sem unnt hefði verið að kyrrsetja, en hann benti ekki á neinar.  Fullyrðingar hans í greinargerð um að hann eigi eignir eru ósannaðar og er ekki fram komið að gerðin gefi ranga mynd af fjárhag hans. 

Eins og varnaraðili skýrir í greinargerð sinni er örugg dómvenja fyrir því að árangurslausar kyrrsetningargerðir þurfi ekki að staðfesta með dómi.  Er enda ekki tekin ákvörðun um réttindi og skyldur með slíkri gerð.  Slík gerð hefur sönnunargildi samkvæmt 65. gr. laga nr. 21/1991.  Er því nærtækast að andmæli við því gildi gerðarinnar séu höfð uppi á þeim vettvangi.  Er rétt að taka fram að það er ekki takmarkað í lögum hvaða varnir verða hafðar uppi í ágreiningsmálum eins og því sem hér er rekið.  Er ekki brotið gegn stjórnarskrárvörðum réttindum varnaraðila með þessari tilhögun málsmeðferðar. 

Varnaraðili mótmælir því ekki að hann skuldi sóknaraðila fé.  Hann hefur gert athugasemd við kostnað sem sóknaraðili reiknar sér, en það haggar ekki stærstum hluta kröfunnar.  Þá hefur hann reifað skýrlega hvaða áhrif hann telur að sú vanræksla sem hann telur sóknaraðila hafi gerst sekan um á að hafa.  Hann fullyrðir að fé sínu hafi verið sólundað með sviksamlegum hætti, en reynir samt ekki að setja upp skaðabótakröfu og hafa uppi sem gagnkröfu til skuldajafnaðar.  Eru þessi andmæli hans ekki reifuð nægilega og verður að hafna þeim. 

Ekki er unnt að líta sérstaklega til þess að taka bús varnaraðila til gjaldþrotaskipta leiði til þess að hann missi tiltekin réttindi.  Krafa sóknaraðila er einföld og skýrlega fram sett, svo og málsástæður hans. 

Ekki er heimild til þess í lögum nr. 21/1991 að fresta gildistöku úrskurðar, eða mæla fyrir um að hann öðlist ekki réttaráhrif fyrr en tiltekið atvik er komið fram.  Er mælt fyrir um það í lögunum hvernig með skal farið ef úrskurður um töku bús til gjaldþrotaskipta er kærður til Hæstaréttar.  Verður að hafna varakröfu varnaraðila. 

Fullnægt er skilyrðum 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 og verður bú varnaraðila tekið til gjaldþrotaskipta. 

Rétt er að málskostnaður falli niður. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Bú A, kt. [...],[...], er tekið til gjaldþrotaskipta. 

Kröfu um að því verði frestað að úrskurður þessi hafi réttaráhrif er hafnað. 

Málskostnaður fellur niður.