Hæstiréttur íslands
Mál nr. 48/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Fimmtudaginn 20. janúar 2011. |
|
|
Nr. 48/2011. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Páll Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. janúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. janúar 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 15. febrúar 2011, klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann „kærumálskostnaðar, að mati dóms, fyrir meðferð máls fyrir héraðsdómi og fyrir Hæstarétti Íslands.“
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Skilja verður kröfugerð varnaraðila svo að hann krefjist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Samkvæmt 38. gr. og 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 eru ekki skilyrði fyrir því að fallast á slíka kröfu.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. janúar 2011.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess með vísan til 2. mgr. 95. gr. og b-lið 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 15. febrúar 2011 kl. 16.00.
Kærða mótmælir kröfunni. Til vara krefst hún þess að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist sé af hálfu lögreglu.
Í greinargerð með kröfunni kemur fram að skömmu eftir miðnætti aðfaranætur 14. janúar 2011 hafi lögregla og slökkvilið verið kölluð að [...] í [...] vegna eldsvoða. Þegar lögreglumenn hafi komið á vettvang hafi íbúar í húsinu verið búnir að slökkva eld, sem kviknað hafði í íbúð nr. [...] á jarðhæð í umræddu fjölbýlishúsi. Íbúðin hafi verið full af reyk og hafi lögreglumönnum á vettvangi verið tjáð að kona væri inni í íbúðinni. Að sögn vitna hefði umrædd kona komið út úr íbúðinni eftir að eldurinn kviknaði, en farið á ný inn í íbúðina. Í greinargerðinni segir að lögreglumenn hafi kallað til konunnar sem hafi komið út um síðir. Hafi lögreglumennirnir strax þekkt kærðu í máli þessu, X. Um sama leyti og hún kom út úr íbúðinni að beiðni lögreglumanna hafi eldur blossaði á ný upp í íbúðinni, sem hafi í kjölfarið verið slökktur af slökkviliðinu.
Í skýrslu A rannsóknarlögreglumanns um málið komi fram að samkvæmt vitnisburði tveggja slökkviliðsmanna hafi talsverður eldur verið í þriggja sæta sófa inni í stofu í umræddri íbúð. Einnig komi fram í skýrslunni að við vettvangsskoðun hafi mátt sjá að eldfimum vökva hafði verið hellt í sófann, sem stóð upp við timburvegg. Brunaferlar í gólfi hafi gefið til kynna að eldur hafi logað þar en parket sé á gólfinu. Á gólfi í holi íbúðarinnar hafi verið tómur bensínbrúsi og hafi lokið af brúsanum verið á gólfinu inni í stofu. Loft og veggir við eldsupptökin hafi verið nokkuð brunnin og sót um alla íbúðina.
Þá segir í greinargerðinni að á vettvangi í nótt hafi verið rætt við B, sem hafi sagst vera eigandi umræddrar íbúðar. Hafi hún upplýst að hún að hún og eiginmaður hennar, C, hefðu búið í íbúðinni en flutt úr henni á síðasta ári. Eiginmaður hennar hefði á ný flutt í umrædda íbúð fyrir stuttu. Samkvæmt vitnisburði eiginmannsins, C, sem einnig hafi verið á vettvangi, hafi vinur hans fengið að gista hjá honum í íbúðinni og umræddur vinur hefði boðið kærðu að gista þar einnig. Samkvæmt vitnisburði C á vettvangi fór hann að heiman frá sér kl. 15.00 í gær. Um kvöldið hefði kærða hringt í hann og sagst ætla að kveikja í íbúðinni. Hann hefði ekki tekið mark á orðum hennar.
Fram kemur í gögnum málsins að kvartað hafði verið undan hávaða og heimilisófriði úr íbúðinni nokkru áður en eldurinn kviknaði. Þegar lögregla kom á staðinn hefði ástandið róast og í kjölfarið hefði einhver farið úr íbúðinni. Stuttu eftir að lögreglan fór af vettvangi hefði hávaði frá kærðu magnast á ný og skömmu síðar hefði heyrst í reykskynjara og hefðu nágrannar þá orðið varir við eld í íbúðinni og ráðist til atlögu við hann með slökkvitækjum.
Í greinargerðinni segir að kærða hafi verið handtekin á vettvangi í þágu rannsóknar málsins. Lögregla hafi innt hana eftir því á vettvangi hvað gerst hefði og hafi fyrstu viðbrögð hennar verið án samhengis en fram hafi komið hjá henni að hún hafi verið með bensínbrúsa í íbúðinni og kviknað hafi í út frá kertum sem hún hafi verið að færa til.
Þá segir í greinargerðinni að rannsókn málsins sé vel á veg komin. Samkvæmt ummerkjum á vettvangi liggi fyrir í málinu að kveikt hafi verið í þriggja sæta sófa í íbúð á jarðhæð í fjölbýlishúsinu við [...] í [...]. Jafnframt sé fyrirliggjandi sterkur grunur um að kærða í máli þessu, X, beri ábyrgð á þeim verknaði. Hún hafi verið í íbúðinni þegar eldurinn kom upp, í íbúðinni hafi fundist bensínbrúsi sem að mati lögreglu hafi verið notaður til að kveikja eldinn, auk þess sem vitni í málinu beri að kærða hafi hótað að kveikja í íbúðinni í símtali nokkrum klukkustundum áður en eldurinn kviknaði.
Til rannsóknar í máli þessu sé ætlað brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kveikt hafi verið í sófa í íbúð á neðstu hæð í fjölbýlishúsi þar sem fjöldi einstaklinga búi og hafi hlotist af því töluverður eldur. Í því hafi falist mikil hætta fyrir fjölda fólks. Nágrannar og í kjölfarið slökkvilið hafi að lokum ráðið niðurlögum eldsins. Kærðu hafi mátt vera ljóst að brotið væri þess eðlis að það hefði í för með sér almannahættu. Þá hafi henni mátt vera ljóst að bersýnilegur lífsháski væri búinn af verkinu og/eða gríðarleg eignaspjöll gætu af því hlotist. Samkvæmt 2. mgr. 64. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sé refsilágmark tveggja ára fangelsi, en brotið geti varðað ævilöngu fangelsi.
Með vísan til þess sem að framan er rakið og gagna málsins að öðru leyti þyki brýna nauðsyn bera til þess að kærðu verði með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 gert að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 15. febrúar 2011 kl. 16:00. Lögreglustjóri telji brotið vera í eðli sínu svo svívirðilegt að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með vísan til almannahagsmuna.
Með vísan til framangreinds og rannsóknargagna er fallist á það með lögreglustjóra að kærða sé undir sterkum grun um brot sem varðað getur ævilöngu fangelsi, sbr. 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hlaut ákærðu að vera ljóst að brotið gat haft í för með sér almannahættu og að augljós hætta var á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum annarra manna. Þykir brotið þess eðlis að nauðsynlegt sé með tilliti til almannahagsmuna að kærða sæti áframhaldandi varðhaldi á grunvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærða, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 15. febrúar nk. kl. 16.00.