Hæstiréttur íslands
Mál nr. 431/2010
Lykilorð
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Kærumál
|
|
Þriðjudaginn 6. júlí 2010. |
|
Nr. 431/2010. |
Lögreglustjórinn
á höfuðborgarsvæðinu (Stefán Eiríksson lögreglustjóri) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til
Hæstaréttar með kæru 2. júlí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5.
sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2010, þar sem
varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 9. júlí 2010
klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í
l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili
krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2010.
Lögreglustjórinn
á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X f. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til
föstudagsins 9. júlí 2010 kl. 16.
Þá
er þess krafist að kærðu verði gert að sæta einangrun á meðan á
gæsluvarðhaldinu stendur.
Í
greinargerð lögreglustjóra kemur fram að með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur
18. júní sl. hafi kærðu verið gert að sæta gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar
málsins. Úrskurðurinn hafi verið
staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 398/2010.
Lögreglan
á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar stórfellt fíkniefnabrot. Við tolleftirlit 17. júní sl. hafi tollverðir
og lögregla fundið mikið magn fíkniefna, sjá nánar meðfylgjandi efnaskýrslu og
matsgerð lyfjafræðistofnunar, í bifreiðinni [...], við komuna til Seyðisfjarðar
með Norrænu.
Kærða,
sem hafi verið farþegi bifreiðarinnar, neiti allri aðild að málinu.
Rannsókn
málsins sé á frumstigi. En málið sé nú unnið með aðstoð þýskra
lögregluyfirvalda, sjá nánar réttarbeiðni, dags. 25. júní sl. Teknar hafi verið skýrslur af aðilum búsettum
í Þýskalandi, jafnframt sem framkvæmdar hafi verið húsleitir þar í landi, þar
sem lagt hafi verið hald á ýmis gögn og skjöl, sem talin eru hafa þýðingu við
rannsókn málsins. Í ljósi ofangreindra
lögregluaðgerða í Þýskalandi, sjá nánar samantekt, dags. í dag, verði ekki hjá
því komist að taka frekari skýrslu af kærðu.
Þá sé að finna misræmi í framburði kærðu og meðkærðu Y, sjá nánar
yfirheyrsluskýrslur.
Kærða
sé undir sterkum rökstuddum grun um að eiga aðild að innflutningi á gífurlegu
magni hættulegra fíkniefna og hafa þannig brotið gegn 173. gr. a. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940. Þá sé rannsókn málsins á mjög viðkvæmu stigi og því
afar brýnt að krafa lögreglustjóra verði tekin til greina, þannig að kærða fái
ekki tækifæri til að torvelda
rannsókninni, s.s. með því að koma undan munum, hafa áhrif á aðra samseka eða
vitni.
Með
vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr.
88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Samkvæmt
framansögðu er kærða undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn 173. gr. a.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað getur allt að 12 ára fangelsi.
Verður fallist á það með lögreglu að hætta kunni að vera á því að hún muni
spilla fyrir rannsókn málsins, s.s. með því að hafa áhrif á samseka eða vitni,
verði henni sleppt úr gæslu. Verður krafa lögreglustjórans í Reykjavík því
tekin til greina eins og hún er sett fram með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr.
laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Ásgeir
Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kærða
X f. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. júlí 2010,
kl. 16.
Kærða
skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.