Hæstiréttur íslands
Mál nr. 52/2006
Lykilorð
- Óvígð sambúð
- Fjárskipti
- Sameign
|
Fimmtudaginn 19. október 2006. |
Nr. 52/2006. |
M(Halldór H. Backman hrl.) gegn K (Sveinn Sveinsson hrl.) |
Óvígð sambúð. Fjárskipti. Sameign.
K og M höfðu verið í sambúð um nokkurra ára skeið og fest kaup á fasteign. Var M þinglýstur eigandi 70% eignarinnar, en K 30%. Ekki var talið að M hefði tekist að sýna fram á að leggja ætti til grundvallar aðra eignaskiptingu og var því hafnað kröfu hans um að viðurkennt yrði með dómi að hann ætti fasteignina einn.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. janúar 2006. Hann krefst þess að viðurkennt verði með dómi að hann sé einn eigandi þess hluta fasteignarinnar að A í Kópavogi, sem ber fastanúmer [...], ásamt öllu því sem eignarhlutanum fylgir og fylgja ber. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi hefur frá upphafi skýrt kröfu sína þannig, að verði ekki fallist á hana óbreytta felist í henni krafa um að eignarhlutföll málsaðila í íbúðinni verði ákveðin með dómi, þannig að hann teljist eiga í henni meira en 70% og stefnda minna en 30%.
Í stefnu til héraðsdóms lýsti áfrýjandi málsatvikum svo að stefnda hafi flutt inn til hans í íbúð sem hann átti að B í Reykjavík á árinu 1997. Hann vísar nú til þess að hún hafi þá verið áfram með lögheimili hjá foreldrum sínum og ekki flutt það fyrr en þau fluttust í íbúðina að A í Kópavogi á árinu 2001. Telur hann rétt að miða við að sambúðin hafi byrjað við flutning lögheimilisins. Sambúð málsaðila hófst þegar stefnda flutti inn til áfrýjanda og verður því ekki á þetta fallist. Ágreiningslaust er að málsaðilar slitu samvistum í ágúst 2003. Samkvæmt þessu stóð sambúðin í um það bil 6 ár.
Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi festu málsaðilar kaup á íbúðinni að A á fyrri hluta árs 2000 og var kaupsamningur um eignina dagsettur 26. júní það ár. Í honum kom fram að áfrýjandi væri kaupandi að 70% eignarinnar en stefnda 30%. Málatilbúnaði aðila, að því er varðar fjárhag þeirra á árunum 2000 til 2003 og sérstök framlög til kaupa á eigninni og afborgana af lánum, er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Í málflutningi fyrir Hæstarétti hefur stefnda bent sérstaklega á að heildarlántaka hjá Íbúðarlánasjóði vegna íbúðarkaupanna hafi numið 7.714.000 krónum. Þau hafi tekið þessi lán sameiginlega og beri því að líta svo á að hún hafi aflað fjár til kaupanna, sem nemi helmingi lánsfjárhæðarinnar, eða 3.857.000 krónum. Sú upphæð sé nálægt 30% af kaupverði íbúðarinnar, sem var 13.000.000 krónur. Nægi þetta að hennar mati til að skýra réttmæti skiptingar eignarhlutanna sem fram kom í kaupsamningnum.
Aðilar málsins létu ganga frá kaupsamningi um íbúðina á þann hátt sem fyrr greinir. Verður talið að þeir hafi þá samið um að innbyrðis eignarhlutföll þeirra í íbúðinni skyldu vera með þeim hætti sem þar var lýst. Áfrýjandi hefur ekki sannað að þessi samningur hafi verið bundinn forsendu um að stefnda innti af hendi sérstakar greiðslur til hans af væntanlegum bótum vegna umferðarslyss sem hún hafi átt í vændum á þessum tíma.
Samkvæmt gögnum málsins námu heildartekjur áfrýjanda árin 2000 til og með 2003 liðlega 13 milljónum króna. Á sama tímabili aflaði stefnda launatekna sem námu rúmlega 6 milljónum króna. Að mati dómsins verður samningi aðila um skiptingu eignarhluta í fasteigninni ekki hnekkt með því að tekjur áfrýjanda hafi fremur en tekjur stefndu á þessu tímabili farið í að greiða kaupverð og afborganir lána af íbúðinni. Verður að ætla að stefnda hafi á þessu tímabili varið aflafé sínu til útgjalda í þágu sameiginlegs heimilis málsaðila, þó að féð hafi ekki í öllum tilvikum gengið inn á sameiginlegan reikning sem þau stofnuðu í þessu skyni.
Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á með áfrýjanda að hnekkja beri því samkomulagi sem málsaðilar gerðu um skiptingu íbúðarinnar við kaup á henni 23. júní 2000. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, M, greiði stefndu, K, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2005.
I
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 7. september, var höfðað fyrir dómþinginu af M, [heimilisfang], á hendur K, [heimilisfang], með stefnu áritaðri um birtingu hinn 6. janúar 2005.
Dómkröfur stefnanda voru þær, að viðurkennt yrði með dómi að stefnandi sé einn eigandi allrar (100%) fasteignarinnar að A, Kópavogi, fastanúmer [...] (eignarhluti 02-01), ásamt öllu því sem eigninni fylgir og fylgja ber. Jafnframt var þess krafist að stefnda yrði dæmd til þess að greiða stefnanda málskostnað, að skaðlausu, ásamt virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda voru þær, að hún yrði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og stefnanda gert að greiða henni málskostnað, að mati dómsins.
II
Málsaðilar hófu sambúð á árinu 1997 fljótlega eftir að þau byrjuðu að vera saman. Lauk sambúð þeirra á árinu 2004. Á þeim tíma er aðilar hófu sambúðina átti stefnandi litla íbúð við B í Reykjavík, og hófu þau sambúð sína þar. Hinn 23. júní árið 2000 keyptu málsaðilar saman íbúð að A í Kópavogi. Samkvæmt kaupsamningi var stefnandi kaupandi að 70% eignarinnar en stefnda að 30%. Kaupverð eignarinnar var 13.000.000 króna sem greitt var á eftirgreindan hátt samkvæmt því sem stefnandi hefur greint frá í stefnu:
1. Við undirritun kaupsamnings |
kr. 1.500.000 |
2. Með framsali húsbréfa til seljanda |
kr. 1.855.077 |
3. Með útgáfu fasteignaveðbréfs |
kr. 7.714.000 |
4. Við afhendingu íbúðarinnar |
kr. 1.200.000 |
5. Þann 3. desember 2000 |
kr. 730.000 |
Alls |
kr. 13.000.000 |
Stefnandi kveðst einn hafa greitt kaupverðið. Greiðslu við undirritun hafi hann innt af hendi með því að gefa út ávísun. Þá hafi hann framselt húsbréf, sem hann hafi fengið við sölu eignar sinnar að B. Greiðsla samkvæmt 4. lið hafi verið innt af hendi með millifærslu stefnanda af reikningi sínum inn á reikning viðkomandi fasteignasölu. Greiðsla samkvæmt 5. lið hafi verið innt af hendi með því að stefnandi hafi tekið lán hjá lífeyrissjóðnum [...] og hafi andvirði lánsins að mestu verið varið til greiðslunnar. Þá hafi stefnandi verið einn útgefandi fasteignaveðbréfs, samkvæmt lið 3, og hafi hann einn greitt allar afborganir, vexti og verðbætur af bréfinu. Jafnframt hafi hann einn greitt af lífeyrissjóðsláninu.
Stefnda kveður að 7.714.000 krónur hafi verið greiddar með láni frá Íbúðalánasjóði og hafi þau bæði farið í greiðslumat vegna þess. Hafi þau skipt lánunum á nöfn sín og bæði notið vaxtabóta vegna þeirra. Stefnda kveður, að við gerð kaupsamnings hafi hún, í samráði við föður sinn, talið að ekki væri eðlilegt að eignarhlutur þeirra skyldi skiptast til helminga og hafi talið sanngjarnt og eðlilegt að skiptingin yrði 70% í hlut stefnanda og 30% í hennar hlut. Hafi þetta verið rætt þeirra á milli og bæði orðið sátt við þessa niðurstöðu og talið hana raunhæfa miðað við lántökur og viðbótarkostnað við standsetningu íbúðarinnar. Hafi þau sótt saman um lán til Íbúðalánasjóðs og hafi stefnda verið skráð fyrir 4.723.491 krónu af láninu frá sjóðnum. Komi það fram á skattframtali hennar árið 2001, þar sem greint er frá eignum og skuldum hennar í árslok árið 2000.
Stefnandi hefur haldið því fram, að forsenda skiptingarinnar hafi verið sú að hugsanlegar slysabætur, sem stefnda hafi átt von á, færu til íbúðarkaupanna. Þessu hefur stefnda mótmælt.
Stefnandi hefur lýst því svo að aðilar hafi ekki haft sameiginlegan fjárhag á sambúðartímanum. Þau hafi ekki talið saman fram til skatts og með þeim hafi ekki verið fjárhagsleg samstaða. Allar afborganir af lánum hafi verið greiddar beint af bankareikningi stefnanda og með hans fjármunum. Hins vegar hafi aðilar stofnað sérstakan bankareikning í Íslandsbanka hf., til að halda utan um sameiginleg útgjöld vegna neyslu heimilisins. Stefnandi kveðst einn hafa greitt fasteignagjöld, tryggingaiðgjald og að stærstum hluta staðið straum af kostnaði við að fullklára íbúðina.
Stefnda lauk stúdentsprófi árið 1999. Kveðst hún hafa verið í fullri vinnu hjá [...] frá því í maí árið 1999 og fram til janúar árið 2001. Hún hafi verið við nám í [...] frá janúar og fram til maí árið 2001, en verið í fullri vinnu frá þeim tíma og fram til október árið 2001, er hún hafi hafið nám í [...] og verið í því námi fram til marsmánaðar 2002. Frá þeim tíma hafi hún verið í fullri vinnu. Stefnda kveðst hafa unnið við skúringar hjá [...] með námi sínu.
Á sambúðartímanum voru launatekjur stefnanda samtals 13.161.000 króna, en launatekjur stefndu 6.122.000 krónur.
Stefnda kveðst árlega hafa fengið greiddar vaxtabætur af láni Íbúðalánasjóðs fram til ársins 2004. Hefur stefnda gefið þá skýringu, að stefnandi, sem annast hafi framtalsgerðina fyrir hana með rafrænum hætti, hafi fellt lánið niður að henni forspurðri.Er aðilar hófu sambúðina áttu þau hvort sína bifreiðina, en á árinu 1998 seldu þau þær bifreiðar og festu sameiginlega kaup á bifreið.
Stefnda kveður íbúð stefnanda að Bi hafa verið selda með kaupsamningi dagsettum 8. júní 2000 og verið afhenta 15. júlí sama ár. Hafi þá málsaðilar flutt heim til foreldra stefndu og búið þar leigulaust fram í febrúar árið 2001. Á þessum tíma hafi þau bæði verið í fullri vinnu og því getað lagt fyrir dágóða fjárhæð, eða nærri einni milljón króna. Sú fjárhæð hafi verið lögð inn á reikning á nafni stefnanda. Þessir peningar hafi verið notaðir til kaupa á gólfefni og breytinga á innréttingum í íbúð þeirra að A. Þá kom fram við aðalmeðferð málsins að faðir stefndu aðstoðaði stefnanda við að leggja gólfefni á íbúðina. Stefnda heldur því fram að þau hafi verið með sameiginlegan fjárhag, sem m.a. hafi falist í því, að þau hafi millifært af launareikningum sínum inn á sameiginlegan reikning í Íslandsbanka og hafi þau notað þann reikning jöfnum höndum.
Stefnda kveður þau hafa gert tilraun til þess að eignast barn saman og hafi hún orðið ófrísk í júní árið 2002, og aftur árið 2003, en misst fóstur í bæði skiptin.
III
Stefnandi byggir kröfu sína á því, að hann hafi lagt til alla fjármuni við kaupin á eigninni A, Kópavogi, eignarhluta 01-01. Auk þess hafi hann einn greitt allar afborganir, vexti og verðbætur af áhvílandi lánum. Stefnandi hafi því einn staðið að eignamyndun sem orðið hafi á sambúðartímanum auk þess sem hann hafi lagt til verulega meira til heimilishaldsins en stefnda. Sambúðartími aðila hafi verið skammur, en stefnda hafi verið í námi hluta af sambúðartímanum og hafi stefnandi því einn orðið að fjármagna rekstur heimilisins. Stefnandi hafi haft góðar tekjur og hafi stefnda notið góðs af því, enda hafi tekjur stefndu verið mun lægri en tekjur stefnanda í þann tíma sem stefnda hafi verið á vinnumarkaði. Hafi stefnda þannig ekkert fjárhagslegt bolmagn haft til að kaupa fasteignina. Stefnandi hafi átt fasteign fyrir og hafi söluandvirði hennar runnið nær óskipt til kaupa á hinni umdeildu eign að A. Engin fjárhagsleg samstaða hafi verið með aðilum á sambúðartímanum og þau hafi ekki talið fram saman til skatts.
Stefnandi byggir á því að sú eignaskipting sem ákveðin hafi verið er eignin var keypt og fram komi í þinglýsingabókum hafi byggst á munnlegu samkomulagi milli aðila þess efnis að stefnda myndi greiða stefnanda fyrir hinn þinglýsta eignarhluta er hún fengi skaðabætur vegna umferðarslyss sem hún varð fyrir á árinu 1999. Aldrei hafi orðið af þeirri greiðslu. Stefnandi heldur því fram að það sé af og frá að hann hafi við kaupin á eigninni ákveðið að gefa stefndu téðan eignarhluta.
Ef ekki verði fallist á kröfur stefnanda í málinu muni stefnda auðgast með óréttmætum hætti á kostnað stefnanda. Eigi þetta einkum við þegar horft sé til þess að sambúðartími aðila hafi verið verulega stuttur auk þess sem þau hafi ekki átt börn saman og bæði verið útivinnandi fyrir utan þann tíma sem stefnda hafi verið í námi.
Til vara byggir stefnandi á því að meintur eignarhluti stefndu sé mun lægri en þau 30% sem fram komi í þinglýstum gögnum.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna kröfu-, samninga- og eignarréttar. Þá vísar stefnandi til laga nr. 20/1991 og laga nr. 31/1993.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988.
IV
Stefnda vísar til þess, kröfu sinni til stuðnings, að sambúð málsaðila hafi varað á sjöunda ár og allan þann tíma hafi fjárfélag þeirra verið sameiginlegt. Þau hafi lagt laun sín inn á sameiginlegan bankareikning og hafi bæði greitt af þeim reikningi fyrir nauðsynjar heimilisins. Þau hafi bæði greitt inn á reikninginn eins og efni hafi verið til og hvort um sig hafi haft getu til.
Þá hafi þau átt saman bifreið, notað hana saman, og reksturskostnaður þeirra hafi verið greiddur úr sameiginlegum sjóðum þeirra.
Fasteignina að A hafi þau átt saman og greitt sameiginlega þann kostnað sem þau hafi haft af henni, bæði standsetningu íbúðarinnar, afborganir af lánum og almennan reksturskostnað auk greiðslu útborgunar, en stefnandi hafi haft rúmlega helmingi meiri tekjur en stefnda á sambúðartímanum í A, eða rúmar 13 milljónir á móti rúmum 6 milljónum. Stefnda vísar til þess að á sambúðartímanum hafi reikningar aldrei verið gerðir upp á milli aðila, en hvort um sig hafi lagt til heimilisins eins og þau hafi getað.
Stefnda kveður að aldrei hafi farið fram umræða á milli þeirra um að breyta eignarhlutföllum þeirra í íbúðinni í A frá því að samkomulag varð um kaupin á íbúðinni. Vísar stefnda til þess að við gerð tilboðs í íbúðina hafi verið ákveðið að eignarhlutur þeirra væri jafnskiptur. Fyrir tilstuðlan föður stefndu og stefndu sjálfrar hafi verið skipt í 70% og 30% eignarhluta við gerð kaupsamnings og sé skiptingin þannig í dag. Hafi þessi skipting á fasteigninni sem og skipting á lánum frá Íbúðalánasjóði ítrekað komið fram á skattframtölum hvors þeirra. Hafi þetta því verið vilji stefnanda. Aldrei hafi komið fram athugasemdir frá stefnanda allan þennan tíma um skiptingu eignarhlutans eða lánanna. Þá vísar stefnda til þess að hún hafi fengið greiddar vaxtabætur vegna þeirra lána sem á henni hafi hvílt og fram séu talin á skattframtali hennar.
Stefnda kveðst byggja á því að hún hafi lagt sálu sína í standsetningu íbúðarinnar og hafi aldrei hugsað svo um hana að hún væri ekki eigandi hennar að hluta. Stefnandi hafi viljað hafa það þannig að hún væri ákvörðunaraðili um flest er viðkom íbúðinni og hafi hann orðað það svo að það væri „hennar deild“. Þá hafi hún sinnt meira um dagleg störf á heimilinu og vegna þess eigi hún að njóta þess í einhverju.
Stefnda vísar og til þess að þau hafi markvisst getað safnað sér innistæðum meðan þau hafi notið þess að búa hjá foreldrum hennar. Foreldrarnir hafi gert þeim þetta kleift og telur stefnda að hún eigi alfarið að njóta þess þegar og ef framlög þeirra til íbúðarinnar skipti þar máli. Stefnda fullyrðir að þau hafi safnað um einni milljón króna inn á bankareikning, sem notaður hafi verið m.a. til standsetningar íbúðarinnar.
Þá telur stefnda að hún eigi að njóta þess kostnaðar sem þau hafi sparað við það að búa hjá foreldrum hennar í um sjö mánuði og telur þær fjárhæðir nema um 630.000 krónum. Hún eigi einnig að njóta þeirrar vinnu sem faðir hennar hafi lagt í íbúðina.
Stefnda fullyrðir að ákvörðun beggja aðila, við kaup á eigninni, um að skrá stefndu fyrir 30% eignarhluta, hafi verið tekin til þess að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði stefndu.
Stefnda vísar til þess að stefnandi hafi strax við kaupin vitað að stefnda hygðist fara í frekara nám sem gæti tekið nokkur ár, en minna hafi orðið úr námi hennar en til hafi staðið.
Stefnda vísar einnig til þess að engar settar lagareglur séu til um skipti þegar óvígðri sambúð sé slitið. Líta verði á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og við fjárslit þeirra verði að taka tillit til fjárhagslegrar samstöðu þeirra í gegnum tíðina, hve lengi sambúðin hafi varað, sameiginlegra nota þeirra af eigninni, framtíðaráætlanir og hugmynda um barneignir og fleira.
Um lagarök vísar stefnda til meginreglna kröfuréttar, samningaréttar og eignaréttar svo og til laga um sambúðarslit nr. 20/1991 og laga nr. 31/1993.
Kröfu um málskostnað byggir stefnda á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Eins og að framan hefur verið rakið voru málsaðilar í sambúð frá árinu 1997 fram til ársins 2004. Bæði höfðu atvinnutekjur meðan á sambúðinni stóð, en stefnda var þó í námi hluta af sambúðartímanum. Samkvæmt því sem fram er komið í málinu voru tekjur stefndu á umræddum tíma um helmingur tekna stefnanda. Áður en sambúð aðila hófst átti stefnandi litla íbúð og bjuggu aðilar þar saman uns þau festu kaup á fasteign að A í Kópavogi. Stefnandi seldi þá fasteign sína á B fyrir 7.600.000 krónur og notaði andvirði sölunnar til kaupa á íbúðinni að A, sem var að fjárhæð 13.000.000 króna. Útborgunargreiðslur af íbúðinni voru 5.286.000 krónur. Íbúðinni var þinglýst á nafn þeirra beggja, 70% eignarhluta á nafn stefnanda en 30% eignarhluta á nafn stefnda. Fluttu þau út úr íbúðinni að B um miðjan júlí árið 2000 og bjuggu hjá foreldrum stefndu fram til þess að þau fluttu saman í íbúðina að A í febrúar árið 2001. Þau sóttu bæði um lán hjá Íbúðalánasjóði og fengu lán úr sjóðnum til íbúðakaupanna, að fjárhæð 7.714.000 krónur. Samkvæmt framlögðum skattframtölum var stefnda skráð fyrir láni hjá sjóðnum að fjárhæð 4.723.491 krónu.
Í máli þessu krefst stefnandi þess aðallega að viðurkennt verði að hann eigi einn og óskipt íbúðina að A. Hann hafi notað söluandvirði íbúðar sinnar að B til að greiða kaupverð eignarinnar að A og hafi einnig greitt afborganir og útgjöld hennar vegna. Tekjur hans hafi verið mun hærri en stefndu. Kveður hann meginforsenduna fyrir skráningu íbúðarinnar á nafn þeirra beggja hafa verið þá, að slysabætur, sem stefnda hafi þá átt í vændum, rynnu til íbúðarkaupanna, en það hafi ekki orðið. Til vara krefst hann þess, að eignarhluti stefndu verði lægri og í samræmi við fjárframlag hennar til íbúðarkaupanna.
Stefnda krefst hins vegar sýknu. Telur hún að hún hafi lagt sitt af mörkum til íbúðarkaupanna, bæði með eigin fjárframlögum, aðstoð foreldra sinna ásamt því að hún hafi tekið lán hjá Íbúðalánasjóði til kaupanna. Fjárfélag hafi verið með þeim meðan á sambúð stóð þó tekjur hennar hafi verið lægri. Á sambúðartímanum hafi þau reynt að eignast barn saman og hún tvisvar orðið ófrísk en misst fóstur í bæði skiptin og orðið mjög veik í annað skiptið, þar sem um utanlegsfóstur hafi verið að ræða.
Þinglýsing íbúðarinnar að A á nöfn beggja aðila veitir líkindi fyrir því að hvort um sig hafi átt fasteignina í þeim eignarhlutföllum sem þar er tilgreint, svo sem stefnda heldur fram, þó svo að þinglýsing eignarheimildar leiði hins vegar ekki þegar til þeirrar niðurstöðu og líta beri til framlags hvors um sig til eignarmyndunarinnar. Eins og rakið hefur verið var útborgun á íbúðinni að mestu fjármögnuð með því sem fékkst fyrir sölu á eign stefnanda að B og fyrir liggur að hann tók lífeyrissjóðslán vegna kaupanna, auk þess sem hann hafði hærri launatekjur en stefnda. Hins vegar verður að líta til þess að sambúð aðila stóð í nærri sjö ár og á þeim tíma virðist fjárhagur þeirra hafa verið sameiginlegur og bæði hafi þau lagt sitt af mörkum til heimilisins og útgjalda vegna þess, án þess að reikningar væru gerðir upp milli þeirra á sambúðartímanum. Þá verður einnig til þess að líta að bæði tóku þau lán vegna íbúðarinnar og virðast hafa strax við kaupin ákveðið að eignaskiptingin skyldi vera með áðurgreindum hætti, þar sem stefnandi legði meira til kaupanna. Er ósönnuð sú fullyrðing stefnanda að forsenda eignarskiptingarinnar hafi verið væntanlegar og hugsanlegar skaðabótagreiðslur til handa stefndu. Þegar allt framangreint er virt þykir ekki ástæða til að hrófla við þeirri skiptingu á eigninni sem aðilar höfðu komið sér saman um. Ber því að hafna kröfu stefnanda og sýkna stefndu af kröfum hans.
Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnanda til þess að greiða stefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur, og hefur þá ekki verið litið til virðisaukaskattsskyldu.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Hafnað er kröfu stefnanda, M, um að viðurkennt verði að hann sé einn eigandi fasteignarinnar A, Kópavogi, fastanúmer [...] (eignarhluti 02-01), ásamt öllu því sem eigninni fylgir og fylgja ber.
Stefnandi, M, greiði stefndu, K, 200.000 krónur í málskostnað.