Hæstiréttur íslands

Mál nr. 554/2002


Lykilorð

  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Kærumál


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. desember 2002.

Nr. 554/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Þuríður Halldórsdóttir hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. og b. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

          Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. desember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 9. janúar nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að varnaraðili hafi lýst kæru sinni fyrir héraðsdómara 12. desember 2002. Samkvæmt því liðu tæplega fimm dagar frá því að héraðsdómara barst kæran þar til hann sendi Hæstarétti hana ásamt eftirriti þinghalda og öðrum gögnum málsins. Er þetta aðfinnsluvert, en meðferð málsins bar að hraða lögum samkvæmt.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2002.

          Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess, að X verði með vísan til a og b liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 9. janúar 2003, kl. 16.00.

          [...].

          Samkvæmt því sem fram kemur í málavaxtalýsingu hér að framan svo og með vísan til rannsóknargagna er rökstuddur grunur fyrir hendi um að kærði hafi gerst sekur um mörg brot sem varðað geta hann fangelsisrefsingu ef sönnuðust.  Í [...] bifreiðinni, sem kærðu voru á, fundust munir sem raktir voru til innbrots að [...].  Kærði hefur neitað sakargiftum í málinu. Skýringar hans hjá lögreglu um ferðir og tilvist þýfis, sem fannst í vörslum hans og félaga hans eru mjög ótrúverðugar. Rannsókn málsins stendur yfir en er ólokið. Frá því að kærðu voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald hafa komið upp fleiri tilvik sem rökstuddur grunur er um að þeir tengist. Munir sem hjá þeim fundust við húsleit að [...] tengjast innbrotum víða um land, eða allt frá Snæfellsnesi til Suðurlands. Er þar um að ræða innbrot á sex stöðum og tengsl við a.m.k. tvö önnur. Telja verður að vegna rannsóknarhagsmuna sé fullnægt skilyrði a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um áframhaldandi gæsluvarðhald kærða. 

          Kærðu eru allir ríkisborgarar í Póllandi, sem er utan Schengensvæðisins. Kærði Y á að baki brotaferil og dóma í Bandaríkjunum auk þess sem hann er eftirlýstur af Pólskum yfirvöldum. Þá var Z á árinu 2001 vísað frá Danmörku m.a. vegna auðgunarbrota. Er beðið eftir nánari upplýsingum um sakarferil kærðu erlendis. Margt bendir til að þeir hafi komið hingað til lands gagngert í þeim tilgangi að stunda hér þjófnaði og síðan hafi þeir ætlað sér að yfirgefa landið. Nauðsynlegt er að tryggja nærveru kærða vegna rannsóknar málsins og fyrirhugaðrar dómsmeðferðar þess.  Ekki verður talið að farbann samkvæmt. 110. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægjandi úrræði til þess að hefta ferðafrelsi hans. Telja verður því að einnig sé fullnægt skilyrði b liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um áframhaldandi gæsluvarðhald kærða. 

          Með vísan til þessa og rannsóknargagna málsins er fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um gæsluvarðhald kærða eins og nánar greinir í úrskurðarorði. 

          Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

          Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 9, janúar 2003, kl. 16.00.