Hæstiréttur íslands

Mál nr. 129/2007


Lykilorð

  • Dánarbú
  • Skaðabótamál


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. nóvember 2007.

Nr. 129/2007.

Dánarbú Önnu Tómasdóttur

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

Halldóri Guðbjörnssyni

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

 

Dánarbú. Skaðabótamál.

Dánarbú A krafðist þess að H greiddi dánarbúinu 4.140.000 krónur í skaðabætur, en þá fjárhæð hafði H að beiðni A tekið út af bankareikningum hennar skömmu áður en hún lést. H kvaðst hafa afhent A peningana og lagði fram þrjár kvittanir því til stuðnings þar sem A staðfesti móttöku þeirra. Talið var að H hefði haft fulla heimild A til úttektar af bankareikningunum og að hann hefði afhent henni féð. Þá var ekki fallist á að sú skylda hefði hvílt á H að hindra A í að ráðstafa fénu á þann hátt sem dánarbúið taldi að henni hefði verið óheimilt. Varð skaðabótaábyrgð H því ekki reist á þeirri málsástæðu og kröfum dánarbúsins hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 3. janúar 2007 en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 14. febrúar sama ár. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann málinu öðru sinni 6. mars 2007. Áfrýjandi krefst þess að stefndi greiði sér 4.140.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.000.000 króna frá 30. desember 2002 til 24. mars 2003, af 3.640.000 krónum frá þeim degi til 16. apríl 2003 en af 4.140.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi byggir áfrýjandi kröfur sínar á tveimur málsástæðum. Með vísan til forsenda héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um þá fyrri að stefndi hafi haft fulla heimild Önnu Tómasdóttur til úttektar af bankareikningum hennar og afhent henni féð.

Við flutning málsins fyrir Hæstarétti gaf áfrýjandi þá sérstöku skýringu á síðari málsástæðu sinni að jafnvel þótt sannað teldist að Anna heitin hefði tekið við fénu hafi stefndi brugðist verkskyldu sem á honum hvíldi og laut að því að hindra Önnu í að ráðstafa fénu á þann hátt sem hann telur að henni hafi verið óheimilt. Ekki er fallist á með áfrýjanda að slík verkskylda hafi hvílt á stefnda. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um að skaðabótabyrgð stefnda verði heldur ekki á þessu reist.

Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, dánarbú Önnu Tómasdóttur, greiði stefnda, Halldóri Guðbjörnssyni, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur  Héraðsdóms Suðurlands 11. október 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 13. september s.l., er höfðað með stefnu birtri 14. febrúar s.l.

Stefnandi er dánarbú Önnu Tómasdóttur, kt. 280431-3979, Kringlunni 4-12, Reykjavík.

Stefndi er Halldór Guðbjörnsson, kt. 300161-4489, Stóragerði 5, Vestmannaeyjum.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 4.140.000 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 2.000.000 króna frá 30. desember 2002 til 24. mars 2003, en frá þeim degi af 3.640.000 krónum til 16. apríl sama ár, en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu og stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað samkvæmt reikningi.  Upphaflega krafðist stefndi málskostnaðartryggingar, en fallið var frá þeirri kröfu undir rekstri málsins.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að hjónin Andrea Inga Sigurðardóttir og Guðmundur Ágústsson munu með kaupsamningi dagsettum 23. júní 1998 hafa keypt fasteignina nr. 23 við Túngötu í Vestmannaeyjum af Önnu Tómasdóttur.  Eftir kaupin hafi komið í ljós verulegir gallar á fasteigninni og hafi þau Andrea og Guðmundur höfðað mál á hendur Önnu til heimtu skaðabóta/afsláttar samtals að fjárhæð 4.056.420 króna auk vaxta og kostnaðar.  Anna mun hafa látist 5. maí 2003 og með bréfi dagsettu 8. desember sama ár hafi sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum óskað eftir því að bú hennar yrði tekið til opinberra skipta þar sem erfingjar hefðu lýst því yfir að þeir myndu ekki óska eftir einkaskiptum á því.  Þá komi fram í bréfinu að samkvæmt uppskrift séu eignir dánarbúsins bankainnistæður að fjárhæð 1.389.405 krónur samkvæmt bankayfirlitum dagsettum 6. maí 2003.  Þá hafi erfingjum verið heimilað að taka út 500.000 krónur til að greiða útfararkostnað.  Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands upp kveðnum 7. apríl 2004 hafi dánarbúið verið tekið til opinberra skipta og Vilhjálmur Bergs  hdl. skipaður skiptastjóri þess.  Dómur hafi fallið í ofangreindu máli 13. júlí 2004 þar sem dánarbúinu hafi verið gert að greiða stefnendum 2.999.013 krónur auk dráttarvaxta frá 12. febrúar 2003 og 800.000 krónur í málkostnað.  Hafi kröfunni verið lýst í dánarbúið og hún samþykkt að fjárhæð 4.398.729 krónur í samræmi við niðurstöðu dómsins.  Hafi þetta verið eina krafan sem lýst hafi verið í dánarbúið.

Með bréfi dagsettu 12. janúar 2004 óskuðu þau Andrea og Guðmundur  opinberrar rannsóknar á ætlaðri refsiverðri háttsemi dætra Önnu heitinnar, þeirra Helgu Ástu Símonardóttur, kt. 130562-2569, eiginkonu stefnda og Líneyjar Símonardóttur, kt. 010566-3989, vegna gruns um að eignum hennar hefði verið skotið undan í því skyni að rýra efnahag hennar svo koma mætti í veg fyrir greiðslu á kröfu þeirra.  Hafi kærendur talið sig hafa rökstuddan grun um að dætur Önnu og eftir atvikum tengdasonur hennar, stefndi í máli þessu, hefðu gerst sek um skilasvik samkvæmt 250. gr. almennra hegningarlaga.

Stefndi mun hafa gefið skýrslu hjá skiptastjóra 19. maí 2004 og 11. október sama ár og minntist hann þess að hafa þrívegis tekið út samtals 4.140.000 krónur út af bankareikningum Önnu samkvæmt beiðni hennar og afhent henni fjármunina.  Hann hafi ekki vitað hvað hún gerði við þá og ekki spurt hana að því.   Við lögreglurannsókn kom í ljós að stefndi tók út 2.000.000 króna 30. desember 2002 af reikningi Önnu nr. 600737 í Íslandsbanka í Vestmannaeyjum, 1.640.000 krónur af sama reikningi 24. mars 2003 og 16. apríl sama ár tók hann út 500.000 krónur af reikningi nr. 100623 í sama banka.  Að fengnum dómsúrskurði var lögreglu heimilað að skoða reikninga stefnda og dætra Önnu heitinnar en ekki var í ljós leitt að umræddar upphæðir hefðu verið lagðar inn á reikninga þeirra.  Starfsmenn Íslandsbanka upplýstu að úttektunum hefði verið háttað þannig að ýmist hafi Anna heitin hringt sjálf eða stefndi og gefið leyfi til að taka út af reikningunum.  Í öllum tilvikum hafi verið tekið út reiðufé og það sett í umslag.  Eiginkona stefnda skýrði svo frá hjá lögreglu að hún hefði vitað að stefndi hefði tekið út fjármuni af reikningum móður sinnar, en viti ekki hvað orðið hafi um peningana, þar sem hún hafi ekki fylgst með fjármálum móður sinnar.  Systir hennar skýrði svo frá hjá lögreglu að hún hafi ekki vitað um umræddar úttektir eða hvað orðið hefði um féð.  Stefndi skýrði svo frá hjá lögreglu að hann hafði tekið féð út í umrædd þrjú skipti að beiðni Önnu og farið með peningana til hennar þar sem hún dvaldi á hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum og afhent henni.  Hafi í öll skiptin verið um reiðufé í umslögum að ræða.  Stefndi framvísaði hjá lögreglu frumrit af þremur kvittunum þar sem Anna heitin staðfestir móttöku á umræddum fjármunum, en þær eru dagsettar 30. desember 2002, en þar kemur fram að hún hafi móttekið kr. 2.000.000 eftir samtal við þjónustufulltrúa Íslandsbanka, 26. mars 2003, sögð gerð í Reykjavík, en þann dag staðfestir hún móttöku á 1.640.000 kr. eftir samtal við við þjónustufulltrúa og að lokum kvittun dagsett 16. apríl 2003, en þar staðfestir hún móttöku á kr. 500.000 vegna úttektar eins og þar greinir.  Fyrri kvittanirnar eru  undirritaðar með fullu nafni Önnu heitinnar en síðasta kvittunin ber einungis upphafsstafina A S og er greinilegt að þeir hafa verið ritaðir með skjálfandi hendi.  Ekki hafa verið bornar brigður á að þessar kvittanir stafi frá Önnu heitinni.

Við lögreglurannsókn kom í ljós að stefndi var með bankahólf í Íslandsbanka í Vestmannaeyjum og kom í ljós að hann gerði sér ferð hólfið 30. desember 2002 og svo aftur 16. apríl 2003.  Stefndi skýrði svo frá hjá lögreglu að hann hefði sett kvittanirnar frá Önnu í hólfið.

Með bréfi dagsettu 21. júlí 2005 tilkynnti sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum kærendum að með vísan til 112. gr. laga um meðferð opinberra mála væri af hálfu embættisins ekki krafist frekari aðgerða á hendur kærðu þar sem málið þætti ekki líklegt til sakfellis og rannsókn hefði ekki leitt neitt í ljós um afdrif fjárins og ekkert áþreifanlegt hefði komið fram um að kærðu ættu þar hlut að máli.

Í stefnu er því haldið fram að síðustu ár ævi sinnar hafi Anna heitin verið fársjúk og muni hún m.a. hafa þjáðst af Parkinsonveiki.  Stefndi mótmælir þessari fullyrðingu og segir rétt að hún hafi átt við umrædda veiki að stríða í mörg ár og hafi hún átt erfitt með hreyfingar, en hugur hennar hafi ávallt verið í fullkomnu lagi eða þar til um viku fyrir andlát hennar.  Hafi andlát hennar komið öllum að óvörum, hún hafi fengið skyndilegt og óvænt slag u.þ.b. þremur vikum fyrir andlát sitt, en hún hafi þá verið stödd í endurhæfingu í Reykjavík.  Fram að þeim tíma hafi hún verið eins og hún hafi átt að sér mörg undanfarin ár.  Eftir slagið hafi hún verið með fulla meðvitund og vitað vel af sér, en tæpri viku fyrir andlátið hafi hún hlotið líknandi meðferð.  Stefndi tekur fram í greinargerð að hann hafi oft annast ýmis viðvik fyrir Önnu heitna, þ.á.m. bankaviðskipti, en hún hafi ein séð um og borið ábyrgð á fármálum sínum.  Hún hafi hins vegar þurft á aðstoð að halda þar sem hún hafi átt erfitt með hreyfingar eins og gang og skrift.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi telur frásögn stefnda af meðferð fjárins með ólíkindum og fullyrðingar hans um að hann hafi afhent fársjúkri rúmfastri konunni á fimmtu milljón króna í reiðufé, án þess að vilja  nokkuð af því vita til hvers það væri gert, vera ótrúverðugar, m.a. í ljósi þess að engir starfsmenn hjúkrunarheimilisins kannist við að Anna heitin hafi nokkru sinni verið með slíka fjármuni í vörslum sínum.  Stefnandi byggir á því að telja verði ósannað að stefndi hafi afhent Önnu heitinni þá fjármuni sem hann tók út af reikningum hennar og því beri honum að endurgreiða þá til dánarbúsins.  Eins og málatilbúnaði hans sé háttað verði að telja að hann beri sönnunarbyrðina um að umræddir fjármunir hafi nokkru sinni skilað sér til Önnu heitinnar.  Stefndi hafi kosið að standa að málum með framanlýstum hætti og ekki séð ástæðu til að tryggja sér sönnun um afdrif þeirra fjármuna sem hann leysti út.  Hann hafi ekki sinnt þeirri skyldu, sem á hann hafi mátt leggja, að tryggja að umræddir fjármunir færu ekki forgörðum.  Lýsi meðferð stefnda á peningum Önnu heitinnar stórfelldu hirðuleysi og stórfelldu gáleysi af hans hálfu.  Hafi mátt gera þá kröfu til hans að hann fylgdist með meðferð fjármunanna og hafi honum hlotið að vera ljóst að athugasemdalausar úttektir hans og hirðuleysi um afdrif fjárins hafi verið líklegt til þess að valda dánarbúinu, kröfuhöfum þess og erfingjum tjóni.  Hafi sú skylda hvílt á honum að hafa eftirlit með þessum miklu fjármunum sem honum hafi verið treyst fyrir, en ekki láta sér örlög þeirra í léttu rúmi liggja.

Stefnandi telur að hafa verði í huga að stefndi hafi komið fram fyrir hönd Önnu heitinnar í áðurnefndum fasteignaviðskiptum og þeim málaferlum sem af þeim hafi spunnist.  Hann hafi haft milligöngu um að útvega  henni lögmann, hann hafi mætt á matsfund fyrir hana og borið vitni fyrir dómi ásamt eiginkonu sinni, dóttur hinnar látnu.  Hafi stefnda því verið fullkomlega kunnugt um þær kröfur sem uppi hafi verið vegna fasteignaviðskiptanna.  Hinar stórfelldu úttektir hans af reikningum fársjúkrar aldraðrar tengdamóður sinnar hefðu átt að vera honum tilefni til sérstakrar athugunar.  Sé ljóst að hann hafi í engu látið sig varða afdrif fjármuna, sem honum hafi verið treyst fyrir og hann vitað að hafi átt að koma í hlut kröfuhafa og erfingja við andlát Önnu.  Hafi tengsl hans við þessa hagsmuni verið slík að líta megi svo á að þeir hafi lotið forsjá hans.  Verði því ekki hjá því komist að telja stefnda eiga sök á því að umræddir fjármunir hafi horfið eftir úttektir hans og að hann beri ábyrgð á því að þeir hafi ekki verið til reiðu í dánarbúinu til greiðslu upp í kröfur lánardrottna og erfingja.  Ef hann hefði hegðað sér af ábyrgð og staðið öðru vísi að verki hefðu fjármunir þessir aldrei átt að glatast.  Verði því að líta svo á að stefndi hafi með saknæmum hætti, með aðgerðum sínum og aðgerðaleysi, valdið dánarbúinu, og þar með kröfuhöfum og erfingjum, tjóni sem honum beri að bæta samkvæmt almennu skaðabótareglunni.

Telur stefnandi ljóst af framansögðu að stefndi geti ekki verið í góðri trú um gjaldfærni Önnu heitinnar og verði þvert á móti að telja að þegar hann hafi leyst fjármunina út hafi hann vitað eða mátt vita að með því væri verið að ívilna öðrum á kostnað kröfuhafa.  Hafi stefndi því í raun verið þátttakandi í refsiverðu undanskoti eigna hinnar látnu.

Stefnandi byggir á almennum reglum skaðabótaréttar, sérstaklega sakarreglunni og reisir dráttarvaxtakröfur á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.  Málskostnaðarkrafa er studd við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda.

 Stefndi byggir á því að fullsannað sé að hann hafi afhent Önnu heitinni fjármuni þá sem hann hafi tekið út af reikningi hennar.  Hafi stefndi tryggt sér skriflegar kvittanir fyrir því að hún hafi móttekið fjármunina og hafi þessar kvittanir verið lagðar fram við lögreglurannsókn.  Hafi þessar kvittanir ekki verið vefengdar, s.s. að um fölsun undirskriftar væri að ræða.  Þá liggi fyrir að úttektir stefnda hafi verið gerðar að undirlagi og með fullu samþykki Önnu heitinnar og sé það staðfest í lögreglurannsókn.  Anna heitin hafi haft samband við starfsmenn bankans símleiðis sem þekkt hafi til hennar og heimilað úttektirnar.  Hafi Anna heitin aldrei gert neinar athugasemdir við úttektirnar eða afdrif fjármunanna.  Þá sé ekki byggt á því í málinu að stefnda hafi skort umboð til úttekta.  Stefndi mótmælir því alfarið að ósannað sé að hann hafi afhent Önnu heitinni fjármunina.

Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda að á honum hafi hvílt sérstök umsjónarskylda gagnvart Önnu heitinni, sem virðist eiga að fela það í sér að stefndi hafi átt að fara með fjárforræði hennar.  Stefndi mótmælir sérstaklega þeim staðhæfingum í stefnu að hann hafi átt að gæta hagsmuna dánarbúsins sem algerlega órökstuddum og ósmekklegum, enda ekki um dánarbú að ræða fyrr en að Önnu látinni, en allar úttektir hafi átt sér stað í lifanda lífi hennar.

Stefndi fær ekki séð að á honum hafi hvílt lagaskylda til að annast sérstaklega um fjármuni Önnu heitinnar.  Hún hafi haft fullt fjárforræði og því ein verið bær til þess að ráðstafa fjármunum sínum.  Hafi öðrum verið óheimil slík ráðstöfun og hefði stefndi auðveldlega getað bakað sér bótaábyrgð með slíkri heimildarlausri ráðstöfun.  Samkvæmt lögræðislögum hafi Anna heitin ein haft heimild til þessarar ráðstöfunar, sbr. t.d. 2. og 3. gr. laganna.  Telur stefndi ljóst að á hann verði ekki lagðar neinar skyldur vegna ráðstafana Önnu heitinnar á fjármunum sínum án skýrra lagafyrirmæla, sbr. m.a. 3. gr. lögræðislaga, en ekki sé vísað til neinna slíkra lagafyrirmæla í stefnu.

Stefndi vísar til hinna almennu reglna skaðabótaréttar, þ.m.t. sakarreglan.  Þá vísar hann til almennra reglna samninga- og kröfuréttar og lögræðislaga nr. 71/1997.  Málskostnaðarkrafa stefnda er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.          

Niðurstaða.

Á því er m.a. byggt í stefnu í máli þessu að ósannað sé að stefndi hafi afhent Önnu heitinni umrædda fjármuni.  Eins og áður hefur verið rakið fór fram umfangsmikil lögreglurannsókn þar sem leitast var við að upplýsa hvað orðið hefði um fjármuni þá sem óumdeilt er að stefndi tók út af reikningum Önnu heitinnar og var í því skyni aflað dómsúrskurðar svo staðreyna mætti hvort eitthvað af fénu hefði verið lagt inn á reikninga stefnda, eiginkonu hans eða mágkonu.  Ekkert varð upplýst um afdrif fjárins við rannsókn þessa og þá var í ljós leitt við lögreglurannsóknina og við skýrslutökur hér fyrir dómi að stefndi hefði haft fulla heimild Önnu heitinnar til úttektanna.  Þá lagði stefndi fram hjá lögreglu þrjú frumrit kvittana þar sem fram kemur að Anna heitin kvittar fyrir móttöku fjárins.  Hefur ekki verið dregið í efa að þessar kvittanir stafi frá Önnu heitinni og því raunar ekki haldið fram í málinu að þær séu falsaðar.   Ber því að hafna þeirri málsástæðu stefnanda að ósannað sé að stefndi hafi afhent Önnu heitinni umrædda fjármuni og verður á því byggt að hún hafi fengið þá í hendur og ráðstafað þeim með ókunnum hætti.

Kemur þá til skoðunar hvort á stefnda hafi að lögum eða með öðrum hætti hvílt skylda til að tryggja sér sönnun um afdrif fjármunanna og vanræksla hans að því leyti því fellt á hann bótaábyrgð þegar í ljós hafi komið að fjármunirnir voru ekki til reiðu í dánarbúinu til greiðslu upp í kröfur lánardrottna og erfingja.  Ber í því sambandi að gæta að því að Anna heitin var fjár síns ráðandi og virðist aldrei hafa komið til álita að svipta hana fjárræði.  Þá var upplýst fyrir dómi að starfsfólk hjúkrunarheimilis þess, þar sem Anna dvaldi síðustu æviár sín, fylgdist ekki með fjármálum hennar.  Þá var einnig upplýst að andlát hennar hafi borið nokkuð brátt að, en hún var haldin Parkinsonveiki sem hafði áhrif á hreyfigetu hennar og skriftarhæfileika.  Ekki er annað í ljós leitt í málinu en að hún hafi verið andlega heil nánast til hinstu stundar.  Ber af þeim sökum að hafna þeirri fullyrðingu í stefnu að Anna heitin hafi verið fársjúk síðustu ár ævi sinnar og því liggur ekki annað fyrir í málinu en að hún hafi haft alla burði til þess að ráðstafa fjármunum sínum sjálf.  Eins og rakið hefur verið hér að framan lést Anna heitin 5. maí 2003 en dómur í umræddu gallamáli féll 13. júlí 2004, eða rúmum 14 mánuðum eftir lát hennar.  Umræddar úttektir áttu sér allar stað í lifanda lífi Önnu heitinnar og var hún að lögum ein bær til þess að ráðstafa þeim fjármunum sem stefndi tók út samkvæmt fyrirmælum hennar og afhenti henni.   Ekki verður á það fallist að nokkur þau atvik hafi þá verið fyrir hendi sem lagt hafi þá skyldu að viðlagðri skaðabótaábyrgð á herðar stefnda að gera ráðstafanir til að tryggja að fjármunirnir yrðu til reiðu eftir andlát Önnu heitinar vegna ótilgreindra krafna lánardrottna og erfingja á hendur henni eða dánarbúinu í framtíðinni.  Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda 400.000 krónur í málskostnað.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Halldór Guðbjörnsson, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, dánarbús Önnu Tómasdóttur í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.