Hæstiréttur íslands
Mál nr. 651/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 30. september 2015. |
|
Nr. 651/2015. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Sigurður Freyr Sigurðsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. september 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. október 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á með héraðsdómi að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við og að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að hann sæti gæsluvarðhaldi svo og einangrun meðan á því stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að kærða, X, fæðingardagur [...] frá [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 2. október 2015 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan hafi nú til rannsóknar nokkur þjófnaðar- og hylmingarbrot kærða og meðkærða [...], fæðingardagur [...]. Við leit lögreglu í máli 007-2015-[...] á dvalarstað kærða og meðkærða [...], að kvöldi 27. september 2015, hafi fundist mjög mikið magn af ætluðu þýfi. Þegar hafi verið borin kennsl á hluta munanna sem vörur stolnar frá verslunum á höfuðborgarsvæðinu en tjónþolar kváðu að mununum hafi verið stolið í síðustu viku.
Lögreglan kveður rannsóknina vera á frumstigi og sé unnið hörðum höndum að því að afla sönnunargagna vegna brotanna. Áætlað verðmæti sé um milljón króna en um sé að ræða m.a. mjög mikið magn af útivistarfatnaði og rakvélarblöðum. Við húsleitina hafi einnig fundist kvittun um póstsendingu til [...] að þyngd 18,5 kg leiki grunur á því að kærðu hafi komið þýfi úr landi með þeim hætti.
Lögregla telur skýringar kærða vegna málsins vera mjög ótrúverðugar og hafi hann borið því við á vettvangi að hafa keypt munina með greiðslukorti föður síns. Við skýrslutöku hafi kærði neitað sök.
Í greinargerðinni kemur fram að kærði og meðkærði, [...], hafi áður komið við sögu lögreglu, sbr. eftirfarandi mál:
Mál nr. 318-2015-[...]
Fimmtudaginn 20. ágúst 2015 Þjófnaður í félagi á snyrtivöru að verðmæti 31.096 krónum úr verslun [...] við [...] á Selfossi. Starfsmaður í öryggisdeild [...] kvaðst bera kennsl á kærðu sem sömu menn og komið hafi við sögu lögreglu í máli 007-2015-[...] þar sem afskipti voru höfð af kærðu báðum og 007-2015-[...].
Mál nr. 007-2015-[...]
Mánudaginn 17. ágúst 2015 afskipti voru höfð af kærðu báðum vegna tilkynningar frá öryggisvörðum í [...] í Kópavogi en öryggisverðirnir hafi grunað kærðu um að klippa á þjófavarnir í verslunum. Lögregla hafi fundið klippur í fórum kærðu.
Mál nr. 007-2015-[...]
Þriðjudaginn 11. ágúst 2015 - Þjófnaður í félagi á matvöru að verðmæti 6.510 krónum úr verslun [...] að [...] í Reykjavík. Meðkærði [...] hafi játað sök en kærði X kvaðst hafa gleymt að hann hafi sett oststykki í töskuna sína. Báðir kváðust vera á framfæri félagsþjónustunnar á Íslandi en X kvaðst einnig fá einhverja aðstoð frá föður sínum.
Mál nr. 007-2015-[...]
Sunnudaginn 2. ágúst 2015 - Þjófnaður á rakvélarblöðum að verðmæti 15.592 krónum úr verslun [...] við [...] í Kópavogi. Kærði hafi játað sök og kvaðst ekki hafa átt pening á þessum tíma.
Samkvæmt upplýsingum frá Europol sé kærði X grunaður og þekktur á hinum Norðurlöndunum vegna þjófnaðarbrota og annarra brota. Verið sé að afla frekari upplýsinga um brot hans og stöðu þar. Grunur leiki á að kærði komi að skipulagðri brotastarfssemi og vísist þá til ferils hans samkvæmt Europol og brota hans hér á landi. Kærði hafi einnig tengsl við aðra brotamenn samkvæmt upplýsingum frá Europol. Kærði og meðkærði séu báðir frá [...] og hafi stöðu hælisleitenda hér á landi. Kærði hafi lagt fram beiðni um hæli í lok júlí 2015 og sé því grunaður um að hafa framið brot strax eftir komu til landsins.
Það sé því mat lögreglu að brýnt sé að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus en veruleg hætta sé talin vera á því að hann kunni að torveldi rannsókn málsins gangi hann laus, svo sem með því að tala við mögulega samverkamenn sína og reyna að hafa áhrif á þeirra framburð og koma undan þýfi.
Sakarefni málsins sé talið varða við 244. gr. og/eða 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðinu geti varðað fangelsi allt að 6 árum ef sök sannist. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu standi sé vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Niðurstaða:
Samkvæmt gögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um brot gegn 244. og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við brotum þessum liggur fangelsisrefsing sannist sök og skilyrðum 1. málsliðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því fullnægt. Rannsókn málsins er á frumstigi og kærði hefur neitað sök við skýrslutöku hjá lögreglu. Fallast ber á þá ályktun lögreglu að verði kærði látinn laus megi ætla að hann geti torveldað rannsókn málsins með því að hafa áhrif á hugsanlega samverkamenn og koma undan meintu þýfi. Skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. er því fullnægt. Að virtum atvikum málsins verður ekki séð að farbann verndi rannsóknarhagsmuni með viðunandi hætti.
Samkvæmt framansögðu ber því að fallast á kröfu lögreglunnar um að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Þess er krafist að kærði sæti gæsluvarðhaldi í fjóra daga og þykir sá tími eðlilegur í ljósi atvika. Þá þykir ástæða til þess að kærði verði látinn vera í einrúmi á meðan gæsluvarðhaldi stendur, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 2. október 2015 kl. 16:00. Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.