Hæstiréttur íslands

Mál nr. 352/2012


Lykilorð

  • Lífeyrissjóður


                                     

Fimmtudaginn 31. janúar 2013.

Nr. 352/2012.

Margrét Ingibjörg Svavarsdóttir

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

gegn

Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins

(Þórey S. Þórðardóttir hrl.)

Lífeyrissjóður.

M krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að ákvörðun stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (L) um að hafna umsókn hennar um aðild að A-deild lífeyrissjóðsins væri ólögmæt og að L yrði gert að viðurkenna rétt hennar til aðildar. Hæstiréttur féllst ekki á það með M að ákvæði í samþykktum L, sem takmarkaði aðild að A-deild hans við þá sem ekki ættu kost á að vera í stéttarfélagi, ætti sér ekki viðhlítandi lagastoð eða færi í bága við ákvæði 4. mgr. 3. gr. laga nr. 1/1997. Var það ekki talið ómálefnalegt af hálfu L að takmarka aðildina með þessum hætti. Þá var fallist á það með héraðsdómi að M ætti ekki rétt til aðildar að A-deild L á grundvelli 5. mgr. 3. gr. laga nr. 1/1997 sem og að ákvæði stjórnsýslulaga giltu ekki um ákvarðanir stjórnar L. Var L sýknað af kröfu M.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. maí 2012. Hún krefst þess að viðurkennt verði með dómi að ákvörðun stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins frá 24. september 2008, sem áréttuð var á stjórnarfundi sjóðsins 3. nóvember 2010, um að hafna umsókn áfrýjanda um aðild hennar að A-deild lífeyrissjóðsins sé ólögmæt og að stefnda verði gert að viðurkenna aðild áfrýjanda að sjóðnum frá og með 3. desember 2008. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi hóf áfrýjandi störf hjá Landsvirkjun á árinu 2006. Í nóvember 2008 fór hún þess á leit við vinnuveitanda sinn að lífeyrissjóðsiðgjöld yrðu greidd til stefnda í A-deild sjóðsins. Landsvirkjun varð við þeim óskum en með bréfi stefnda 16. desember 2008 voru iðgjöldin endurgreidd þar sem áfrýjandi ætti ekki aðild að sjóðnum. Bréfaskipti Landsvirkjunar og stefnda í kjölfarið eru rakin í héraðsdómi en þeim lauk með bréfi stefnda 19. nóvember 2010 þar sem Landsvirkjun var tilkynnt um þá ákvörðun stjórnar sjóðsins 3. sama mánaðar að árétta fyrri afstöðu um að hafna aðild áfrýjanda að sjóðnum. 

Í 3. gr. laga nr. 1/1997 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins er mælt fyrir um aðild að A-deild sjóðsins. Samkvæmt 4. mgr. þeirrar greinar er stjórn sjóðsins heimilt að veita öðrum en þeim sem eiga skylduaðild að sjóðnum eða eiga rétt til aðildar að honum heimild til að gerast aðilar, enda beri þeim ekki að greiða í annan lífeyrissjóð og fyrir liggi samþykki viðkomandi launagreiðanda fyrir aðildinni og þeim skuldbindingum sem henni fylgja. Jafnframt segir að nánar skuli kveðið á um aðild að A-deild sjóðsins í samþykktum hans. Í skýringum við þetta ákvæði í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna segir að ákvæðið tilgreini ekki frekari takmarkanir en þær sem leiði af skylduaðild að öðrum sjóði en stjórn sjóðsins eigi að setja ákvæði í samþykktir sínar um hvernig þessu heimildarákvæði verði beitt.

Í 15. gr. samþykkta fyrir Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eru ákvæði um aðild að A-deild sjóðsins. Í h-lið 2. mgr. þeirrar greinar er að finna ákvæði um aðild að sjóðnum að fengnu samþykki stjórnar en þar segir að stjórn sjóðsins geti í sérstökum tilvikum veitt þeim aðild að A-deild sem eigi þess ekki kost að vera í stéttarfélagi eða séu vegna eðlis starfs síns utan stéttarfélaga. Skuli heimild þessari einkum beitt í þeim tilvikum þegar launagreiðandi tryggir verulegan hluta starfsmanna sinna hjá sjóðnum. Eins og greinir í héraðsdómi var þetta ákvæði sett í samþykktirnar með breytingu á þeim sem gerð var árið 2005.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er gert ráð fyrir því í 4. mgr. 3. gr. laga nr. 1/1997 að stjórn lífeyrissjóðsins setji nánari reglur um aðild að A-deild sjóðsins sem skulu vera í samþykktum hans. Á það verður ekki fallist með áfrýjanda að fyrrgreint ákvæði í samþykktum fyrir sjóðinn eigi sér ekki viðhlítandi lagastoð eða fari í bága við 4. mgr. 3. gr. laganna með því að takmarka þá heimild sem þar er að finna. Í þeim efnum verður ekki talið að það hafi verið ómálefnalegt af stefnda að binda aðild að sjóðnum við þá sem ættu ekki kost á að vera í stéttarfélagi. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. 

 Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 31. janúar 2012, var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 17. maí 2011 af Margréti Ingibjörgu Svavarsdóttur, Staðarbakka 4, Reykjavík, á hendur Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins A-deild, Bankastræti 7, Reykjavík.

Kröfur aðila

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að ákvörðun stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins frá 24. september 2008, sem áréttuð var á stjórnarfundi sjóðsins 3. nóvember 2010, um að hafna umsókn stefnanda að A-deild lífeyrissjóðsins  sé ólögmæt og að stefnda verði gert að viðurkenna aðild stefnanda að sjóðnum frá og með 3. desember 2008. Einnig er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins. Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Atvik máls

Stefnandi er starfsmaður Landsvirkjunar og hóf hún störf hjá fyrirtækinu í nóvember árið 2006. Í nóvember 2008 óskaði stefnandi eftir því við Landsvirkjun að færa sig yfir í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og fór þess á leit að samið yrði við sjóðinn um aðild hennar. Í samræmi við ósk hennar var lífeyrissjóðsiðgjaldi hennar og mótframlagi Landsvirkjunar skilað til sjóðsins, með skilagrein Landsvirkjunar til sjóðsins, um mánaðarmótin nóvember-desember 2008. Með tölvupósti stefnda til Landsvirkjunar 3. desember 2008 var fyrirtækinu tilkynnt að stefnandi væri ný á A-deildar skilagrein frá Landsvirkjun. Fram kom að samkvæmt aðildarskilyrðum A-deildar sjóðsins þyrfti að greiða í eitthvert af stéttarfélögum opinberra starfsmanna innan BSRB, BHM eða KÍ af þeim launum, sem greiða ætti af í A-deild sjóðsins.  Stefndi gæti því ekki tekið við iðgjöldum frá Landsvirkjun vegna stefnanda fyrr en staðfesting bærist um greiðslu til stéttarfélags.  Ef ekki væri greitt til stéttarfélags yrðu umrædd iðgjöld endurgreidd. Með bréfi til Landsvirkjunar 16. desember 2008 endurgreiddi stefndi fyrirtækinu framangreindar iðgjaldagreiðslur vegna stefnanda „vegna aðildarleysis“ eins og það er orðað í bréfinu. Stefndi ritaði Landsvirkjun bréf 17. desember 2008, þar sem vakin er athygli fyrirtækisins á reglum um aðild að A-deild sjóðsins og tekið fram að dæmi séu um að skilað sé iðgjöldum í A-deild sjóðsins vegna einstaklinga, sem ekki eigi rétt á að vera sjóðfélagar. Bréfinu fylgdi eintak af 15. gr. samþykkta sjóðsins, sem að sögn stefnda hefðu að geyma aðildarreglur A-deildar sjóðsins. Stefndi ritaði Landsvirkjun bréf 22. desember 2008, þar sem fjallað er um aðild að A-deild sjóðsins.  Í bréfinu segir m.a.:

Á árinu 2005 var gerð breyting á samþykktum LSR þar sem aðildarskilyrði að A-deild voru þrengd frá því sem verið hafði. Iðgjaldadeild sjóðsins hefur haft eftirlit með því að nýir sjóðfélagar uppfylli aðildarskilyrði að sjóðnum. ...

Í bréfinu er rakið að í ljós hafi komið að mistök hafi verið gerð með því að taka við iðgjaldagreiðslum vegna starfsmanna Landsvirkjunar, en þau mistök væri að rekja til þess að starfsmenn iðgjaldadeildar sjóðsins hafi talið að starfsmenn Landsvirkjunar væru opinberir starfsmenn og væru í stéttarfélögum BSRB eða BHM.  Þá er rakið að stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hafi á fundi 24. september 2008 fjallað um þessi mistök og eftirfarandi verið samþykkt:

Gerð var grein fyrir aðild starfsmanna Landsvirkjunar að A-deild LSR.  Samþykkt var að þeir sem hefðu fram til þessa hafið greiðslur ættu rétt til áframhaldandi aðildar að A-deild meðan þeir væru enn í sömu störfum.

Þá er í niðurlagi bréfsins áréttað að ekki verði tekið við iðgjaldagreiðslum til A-deildar sjóðsins vegna nýrra starfsmanna Landsvirkjunar nema að uppfylltum almennum aðildarskilyrðum deildarinnar. Landsvirkjun ritaði stefnda bréf 9. janúar 2009 þar sem m.a. er rakið að Landsvirkjun sé sameignarfélag í fullri eigu íslenska ríkisins, sem beri fulla en einfalda ábyrgð á fyrirtækinu. Þá hafi starfsmenn fyrirtækisins réttarstöðu opinberra sýslunarmanna. Þá er minnst á bréf Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins frá 16. mars 1966, sem byggt hafi verið á síðastliðin rúm 42 ár og varði aðild starfsmanna Landsvirkjunar að sjóðnum, þar sem fram komi að stjórnin samþykki að líta svo á að fastir starfsmenn Landsvirkjunar skuli teljast tryggingarskyldir í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Landsvirkjun telji að í svo mikilvægu máli, er varði einstaklingsbundin réttindi starfsmanna, eigi að gefa fyrirtækinu kost á að koma sjónarmiðum sínum og eða andmælum á framfæri áður en stjórn sjóðsins taki endanlega ákvörðun um aðild starfsmanna Landsvirkjunar að sjóðnum. Þá óskaði Landsvirkjun þess að stjórn sjóðsins drægi til baka ákvörðun sína frá 24. september, sem kynnt hefði verið Landsvirkjun með bréfi 22. desember. Í bréfi stefnda til Landsvirkjunar frá 13. febrúar 2008 er vísað til bréfs Landsvirkjunar frá 9. janúar. Í bréfinu segir:

Stjórn sjóðsins starfar samkvæmt lögum nr. 1/1997 og staðfestum samþykktum. Í 15. gr. samþykktanna eru tilgreind aðildarskilyrði fyrir A-deild. Stjórnin taldi ekki upplýst hvort aðstæður gætu verið með þeim hætti að aðildarskilyrði sem tilgreind eru í g. eða h. lið 15. gr. væru uppfyllt. Vildi stjórnin að sérstök athygli yrði vakin á ákvæðunum þ.e. ef eðli umræddra starfa væri með þeim hætti að viðkomandi starfsmenn væru utan stéttarfélaga.

Með bréfi 20. mars 2009 krafðist Landsvirkjun þess að starfsmenn fyrirtækisins og dótturfélaga þess fengju áfram að greiða til A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, með sama hætti og fyrr, og jafnframt að meðan ágreiningur stefnda og Landsvirkjunar væri til umfjöllunar fengju starfsmenn fyrirtækisins að greiða áfram til A-deildar sjóðsins. Með bréfi 2. júlí 2009 tilkynnti stefndi Landsvirkjun að stjórn stefnda hefði á fundi 24. júní tekið afstöðu til framangreindrar kröfu Landsvirkjunar. Í bréfinu segir m.a.:

Í tilvitnuðu bréfi er m.a. dregið í efa að samþykktir sjóðsins, er varða aðild að A-deild, séu til samræmis við lög sjóðsins. Fram kom við afgreiðslu á erindinu að sjóðnum beri að fylgja samþykktum sínum sem fengið hefðu staðfestingu fjármálaráðuneytisins, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 1/1997. Því taldi stjórnin að synja bæri beiðnum um aðild nýrra starfsmanna Landsvirkjunar nema að uppfylltum aðildarskilyrðum A-deildar, sbr. 15. gr. samþykkta LSR. Stjórnin lagði þó áherslu á að áréttuð yrðu ákvæði g- og h-liðar 15. gr. samþykktanna þar sem aðstæður gætu verið með þeim hætti að heimila bæri aðild nýrra starfsmanna. Þar sem ekki lágu fyrir upplýsingar eða gögn um einstök mál nýrra starfsmanna taldi stjórnin sér ekki fært að taka afstöðu til þess að svo stöddu hvort heimild færi fyrir hendi.

Landsvirkjun ritaði stefnda bréf 28. ágúst 2009 þar sem gerðar voru athugasemdir við svar stefnda frá 2. júlí. Jafnframt sótti Landsvirkjun um aðild að sjóðnum, fyrir stefnanda og tvo aðra nafngreinda starfsmenn, með fyrirvara varðandi tillögur stefnda um vinnulag við umsóknir. Hvað stefnanda varðar er í bréfinu tekið fram að stefnandi sé, vegna eðlis starfs síns í bókhaldsdeild Landsvirkjunar, utan stéttarfélaga og taki laun samkvæmt reglum Landsvirkjunar, en við ákvörðun launakjara sé um margt höfð hliðsjón af kjarasamningum opinberra starfsmanna. Stefndi svaraði síðastgreindu bréfi Landsvirkjunar með bréfi 14. október. Í bréfinu er hvað afstöðu stefnda til aðildar nýrra starfsmanna Landsvirkjunar varðar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins vísað til 15. gr. samþykkta sjóðsins sem eigi lagastoð í 3. gr.  laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þá segir í bréfinu:

Málið var að nýju lagt fyrir stjórn sjóðsins til afgreiðslu þar sem aðild viðkomandi starfsmanna var synjað en umrædd störf veita ekki rétt til aðildar að A-deild sjóðsins, sbr. 15. gr. samþykkta sjóðsins og 3. gr. laga nr. 1/1997. Ekki þótti sýnt að umræddir starfsmenn væru vegna eðlis starfa sinna utan stéttarfélaga.

Þá segir ennfremur í tilvitnuðu bréfi stefnda:

Tekið skal fram að almenna reglan er sú að í kjarasamningi viðkomandi starfsstéttar er tekið á aðild að lífeyrissjóði og er það lögmætt skilyrði til aðildar að tengja aðild starfsmanna við ákveðið kjarasamningsumhverfi, sbr. nánar 2. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Ef umræddir starfsmenn Landsvirkjunar gerast aðildar að stéttarfélögum innan fyrrgreindra bandalaga eða stéttarfélagi sem gerir kjarasamning á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfmanna nr. 94/1986 er þeim opin aðild að A-deild með samþykki launagreiðanda, sbr. e-lið 15. gr. samþykkta LSR.

Lögmaður stefnanda ritaði stefnda bréf 13. október 2010 þar sem þess er krafist að stjórn stefnda taki áðurgreinda ákvörðun frá 24. september 2008 til endurskoðunar og afturkalli hana. Þeirri kröfu var hafnað með bréfi stefnda 19. nóvember 2010 m.a. með vísan til ákvörðunar stjórnar stefnda frá 3. nóvember 2010 en stjórnin hafi á fundi þann dag ítrekað fyrri afstöðu til erindis Landsvirkjunar, sem byggist sem fyrr á 15. gr. samþykkta sjóðsins og eigi sér lagastoð í 3. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda

Stefnandi vísar til þess að lög nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins hafi tekið gildi 1. maí 1997.  Eftir það starfi sjóðurinn í tveimur deildum, A og B-deild, en ein stjórn sé yfir þeim báðum, sbr. 6. gr. laganna. Í 3. gr. laganna séu ákvæði um hverjir séu eða geti verið sjóðfélagar í A-deild sjóðsins. Ákvæðin um þetta séu í 5 málsgreinum. Ákvæðum 1. og 2. mgr. sé það sameiginlegt að þeir sem undir þær reglur falli eigi sjálfkrafa rétt á aðild að sjóðnum. Í 3.–5. mgr. séu síðan heimildarákvæði þar sem réttur til aðildar sé háður því að viðkomandi launagreiðandi samþykki aðildina fyrir sitt leyti. Stefnandi falli ekki undir ákvæði 1. eða 2. mgr. 3. gr., þannig að úrlausn um mögulega aðild hennar verði að ráðast af efni 3.– 5. mgr., en þau séu svohljóðandi:

 [3. mgr.]  Félagsmönnum aðildarfélaga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, aðildarfélaga Bandalags háskólamanna og Kennarasambands Íslands, sem ekki eiga aðild að sjóðnum skv. 1. og 2. mgr., er jafnframt heimilt að greiða iðgjald til A-deildar sjóðsins, enda hafi viðkomandi launagreiðandi samþykkt aðildina og þær skuldbindingar sem henni fylgja.  Nánar skal kveðið á um aðild þessa í samþykktum sjóðsins.

[4. mgr.]  Stjórn sjóðsins er heimilt að veita öðrum en þeim er að framan greinir aðild að A-deild sjóðsins, enda beri þeim ekki að greiða í annan lífeyrissjóð og fyrir liggi samþykki viðkomandi launagreiðanda fyrir aðildinni og þeim skuldbindingum sem henni fylgja. Nánari ákvæði um aðild að A-deild sjóðsins skulu vera í samþykktum hans.

[5. mgr.] Þeir launagreiðendur, sem greiddu iðgjald til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á árinu 1996 fyrir starfsmenn sína, hafa heimild til að tryggja þá starfsmenn hjá A-deild sjóðsins sem ekki eiga aðild að B-deild hans skv. 4. gr. Sama gildir um þá starfsmenn þessara launagreiðenda sem áunnu sér réttindi án iðgjaldagreiðslu á árinu 1996.

Stefnandi telji ljóst að ákvæði 5. mgr. taki beinlínis til þeirra starfsmanna Landsvirkjunar sem starfað hafi hjá fyrirtækinu við gildistöku laga nr. 1/1997.  Starfsmenn Landsvirkjunar, þ. á m. stefnandi, séu almennt ekki félagsmenn í aðildarfélögum þeirra launþegasamtaka sem tilgreind séu í 3. mgr., þannig að sú heimild nýtist þeim ekki í þessu sambandi. Í 4. mgr. sé heimildarákvæði fyrir stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins til að veita „öðrum en að framan greinir“ heimild til að tryggja starfsmenn sína hjá A-deild, ef viðkomandi launagreiðandi samþykki. Í ákvæðinu sé lagt fyrir stjórn sjóðsins að kveða nánar á um aðild að A-deildinni í samþykktum sjóðsins. Viðurkenningarkrafa stefnanda í máli þessu sé á því byggð að stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hafi verið óheimilt að setja í samþykktir sjóðsins ákvæði sem komi í veg fyrir að hún geti verið sjóðfélagi í A-deild sjóðsins. Afstaða stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins til aðildar stefnanda og annarra starfsmanna Landsvirkjunar, sem séu í sömu stöðu og hún, hafi verið rökstudd með því að þessir starfsmenn uppfylli ekki aðildarskilyrði samkvæmt 15. gr. samþykkta sjóðsins. Fram að gildistöku laga nr. 1/1997 hafi starfsmenn Landsvirkjunar verið sjóðfélagar í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins í rúm 30 ár, án þess að nokkurn tíma kæmu fram athugasemdir um að þeir ættu þar ekki heima. Einnig sé ljóst að starfsmenn fyrirtækisins séu ekki útilokaðir frá aðild að sjóðnum sjálfkrafa samkvæmt þessum lögum. Stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hafi gefið út samþykktir fyrir sjóðinn eins og áskilið sé í 4. mgr. 3. gr. laga nr. 1/1997.  Í 15. gr. samþykktanna séu ákvæði um aðild að A-deild.  Í þeirri grein séu skilyrði aðildar rakin í stafliðum a-j. A-liður fjalli um skylduaðild, stafliðir b-d fjalli um rétt til aðildar með skyldu launagreiðanda til að greiða iðgjald, stafliðir e-g fjalli um heimild til aðildar með samþykki launagreiðenda, h-liður fjalli um heimild til aðildar að fengnu samþykki stjórnar og með samþykki launagreiðanda, og stafliðir i-j fjalli um önnur tilvik. H-liður nefndrar 15. gr. samþykktanna sé svohljóðandi:

Stjórn sjóðsins getur auk fyrrgreindra í sérstökum tilvikum veitt þeim aðild að A-deild sem eiga þess ekki kost að vera í stéttarfélagi eða eru vegna eðlis starfs síns utan stéttarfélaga.  Heimild þessari skal einkum beitt í þeim tilvikum þegar launagreiðandi tryggir verulegan hluta starfsmanna sinna hjá sjóðnum.

Stefnandi telji að framangreint ákvæði samþykktanna feli í sér þrengri möguleika á aðild að sjóðnum en gert sé ráð fyrir í 3. gr. laga nr. 1/1997. Eins og getið hafi verið í málavaxtalýsingu í stefnu komi fram í bréfi sjóðsins til Landsvirkjunar 22. desember 2008 að stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hafi á árinu 2005 gert breytingu á 15. gr. samþykkta sjóðsins og þrengt aðildarskilyrðin frá því sem áður hafi gilt. Stefnandi telji að stjórn sjóðsins hafi verið óheimilt að þrengja aðildarskilyrðin frá því sem gengið hafi verið út frá við setningu laga nr. 1/1997, en ljóst sé að engin breyting hafi verið gerð á þeim lögum síðar sem réttlætt geti þetta inngrip stjórnarinnar. Í því sambandi bendi stefnandi á, að í frumvarpi sem orðið hafi að lögum nr. 1/1997 segi í athugasemdum við 3. gr.:

Samkvæmt 4. mgr. greinarinnar er stjórn sjóðsins heimilt að veita öðrum en þeim sem ákvæði 1.-3. mgr. ná til aðild að A-deild sjóðsins, svo framarlega sem þeir eigi ekki skylduaðild að öðrum lífeyrissjóði og fyrir liggi að viðkomandi launagreiðandi hafi samþykkt aðildina og þær skuldbindingar sem henni fylgja. Ákvæði greinarinnar tilgreinir ekki frekari takmarkanir en þær sem leiðir af skylduaðild að öðrum sjóði. Samkvæmt málsgreininni á stjórn sjóðsins að setja ákvæði í samþykktir sínar um hvernig þessu heimildarákvæði verði beitt. Meginreglan verður sú að sjóðfélagar séu félagsmenn í aðildarfélögum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bandalags háskólamanna eða í Kennarasambandi Íslands. Skv. 4. mgr. er stjórn sjóðsins hins vegar heimilt að veita öðrum aðild að sjóðnum. Samkvæmt ákvæðum málsgreinarinnar skulu nánari reglur um aðild þessa vera í samþykktum sjóðsins. Stjórn sjóðsins verður síðan hverju sinni að samþykkja aðild samkvæmt þessari málsgrein.

Stefnandi telji að þegar hið tilvitnaða ákvæði 15. gr. samþykkta Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sé borið saman við framangreind ummæli í greinargerð með frumvarpinu sé augljóst að ákvæði samþykktanna feli í sér takmörkun sem ekki hafi verið gert ráð fyrir við setningu laganna. Takmörkunin felist fyrst og fremst í þeim áskilnaði að viðkomandi launþegar eigi þess ekki kost að vera í stéttarfélagi eða séu vegna eðlis starfanna utan stéttarfélaga. Þessar takmarkanir séu augljóslega ekki byggðar á málefnalegum sjónarmiðum, því að hverjum launamanni sé í sjálfsvald sett hvort hann gerist félagi í stéttarfélagi eða ekki og óheimilt sé að beita hann sérstökum viðurlögum fyrir að vilja standa utan slíkra samtaka. Stefnandi byggi kröfur sínar einnig á því að samkvæmt 5. mgr. 3. gr. laga nr. 1/1997 eigi þeir launagreiðendur sem greitt hafi iðgjald til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á árinu 1996 fyrir starfsmenn sína einnig heimild til að tryggja þá starfsmenn hjá A-deild sjóðsins, sem ekki eigi aðild að B-deild hans. Ljóst sé að Landsvirkjun sé launagreiðandi sem uppfylli þetta skilyrði. Stefnandi styðji kröfur sínar einnig þeim rökum, að þegar ákvæði 5. mgr. 3. gr. laganna sé borið saman við ákvæði 4. mgr. sé það deginum ljósara að út frá því hafi verið gengið við setningu laga nr. 1/1997 að engin breyting yrði á aðgengi að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fyrir starfsmenn þeirra fyrirtækja í eigu ríkisins sem greitt hefðu um langt árabil lífeyrissjóðsiðgjöld vegna starfsmanna sinna til sjóðsins. Það eigi beinlínis við um starfsmenn Landsvirkjunar, hvort sem þeir hafi verið starfsmenn þess fyrirtækis við gildistöku laganna eða ráðið sig til fyrirtækisins síðar eins og stefnandi. Stefnandi bendi á, að um árabil eftir setningu laga nr. 1/1997 hafi það viðgengist, árekstra- og ágreiningslaust, að Landsvirkjun skilaði iðgjaldagreiðslum fyrir starfsmenn sína til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, án tillits til þess hvort þeir hefðu verið ráðnir til fyrirtækisins fyrir eða eftir gildistöku laganna.  Það hafi ekki verið fyrr en í desember 2008 sem stjórnendur sjóðsins hafi fundið það út að þessi framkvæmd væri andstæð einhverjum reglum sem þeir hefðu sjálfir sett sjóðnum. Þessi ágreiningslausa framkvæmd hafi verið í fullu samræmi við ákvæði laganna og stjórn sjóðsins hafi ekki haft neina lögmæta ástæðu til að víkja frá henni. Stjórninni beri að fara í einu og öllu eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993 í störfum sínum, þ. á m. við setningu reglna um sjóðinn, og byggja ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum. Stjórninni beri að gæta jafnræðis í ákvörðunum sínum, en stefnandi telji að starfsmönnum fyrirtækja í eigu ríkisins sé mismunað með þeirri lagaframkvæmd sem stjórnin hafi viðhaft í þessu tilviki. Í desember 2010 hafi stjórn sjóðsins samþykkt aðild tveggja nýrra starfsmanna stefnanda, þ. e. forstjóra og skrifstofustjóra, þrátt fyrir að stefnanda hafi áður verið synjað um aðild. Stefnandi byggi kröfu sína í málinu sjálfstætt á því að hún eigi á grundvelli jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, þ. e. 11. gr. laga nr. 37/1993, sbr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sama rétt og aðrir starfsmenn Landsvirkjunar til aðildar að A-deild stefnda. Landsvirkjun hafi ítrekað reynt að koma því til leiðar að stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins félli frá andstöðu gegn því að stefnandi og aðrir starfsmenn fyrirtækisins, sem eins sé ástatt um, fengju aðild að A-deild sjóðsins. 

Um heimild til öflunar viðurkenningardóms um réttarstöðu sína gagnvart stefnda vísi stefnandi til 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um málskostnaðarkröfu sína vísi stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991. Þess sé krafist að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að stefnandi beri kostnað af virðisaukaskatti, sem hún þurfi að greiða til viðbótar lögmannsþóknun.

Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda

Stefndi kveður stefnanda, starfsmanni Landsvirkjunar, hafa verið synjað um aðild að stefnda á árinu 2008 á þeim forsendum að aðildarskilyrði væru ekki uppfyllt, sbr. 15. gr. samþykkta Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, en ákvæðið sæki lagastoð til 3. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Af þeim sökum hafi iðgjöld, eins og fram komi í gögnum málsins verið endurgreidd til launagreiðanda. Á Íslandi sé skylt að greiða lögbundið lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs. Tilgreint sé í 1. mgr. 2. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 að iðgjaldið skuli ákveðið í sérlögum, kjarasamningi, ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti. Um aðild að lífeyrissjóði segir í 2. mgr. 2. gr. laganna:

Um aðild að lífeyrissjóði, greiðslu lífeyrisiðgjalds og skiptingu iðgjaldsins milli launamanns og launagreiðanda fer eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein, eða sérlögum ef við á. Taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs eða séu ráðningarbundin starfskjör ekki byggð á kjarasamningi velur viðkomandi sér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa. Aðild að lífeyrissjóði skal tiltaka í skriflegum ráðningarsamningi.

Samkvæmt framangreindu ákvæði megi sjá að hið almenna sé að samið sé um lífeyrisréttindi viðkomandi starfsstéttar í kjarasamningi og þar með jafnframt um hver sé lífeyrissjóður viðkomandi aðila. Lífeyrisréttindi séu og hafa löngum verið stór hluti af samningsbundum launakjörum launþega og sé ráð fyrir því gert að lífeyrissjóðir setji sér reglur um aðild. Því megi ljóst vera að það þyki lögmætt að skilyrða aðild að tilteknum lífeyrissjóði við ákveðið kjarasamningsumhverfi. Lífeyrissjóðir landsmanna hafi upphaflega verið stofnaðir með samningum milli samtaka launþega og atvinnurekenda og byggi tilvera þeirra á kjarasamningum. Þótt stefndi starfi samkvæmt sérlögum, sem um sjóðinn gildi, séu þau réttindi sem þar séu tilgreind byggð á samningum milli ríkissjóðs og þeirra launþegasamtaka sem að baki sjóðnum standi. Samsetning stjórnar sjóðsins beri þess glöggt merki hverjir standa að baki sjóðnum en hún sé skipuð átta mönnum þar sem fjármálaráðherra skipi fjóra stjórnarmenn, stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja skipi tvo stjórnarmenn, stjórn Bandalags háskólamanna skipi einn stjórnarmann og stjórn Kennarasambands Íslands skipi einn stjórnarmann, sbr. 6. gr. laga nr. 1/1997. Fullyrða megi að lífeyrisréttindi séu hluti af samningsbundnum launakjörum hvort sem um sé að ræða opinbera starfsmenn eða starfsmenn sem starfi á hinum almenna vinnumarkaði. Það að stefndi starfi samkvæmt sérlögum breyti engu hér um. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins starfi í tveimur fjárhagslega aðskildum deildum, A-deild og B-deild, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. A-deild hafi verið stofnuð með lögum nr. 141/1996 en með þeim lögum hafi verulegar breytingar verið gerðar á réttindakerfi sjóðsins. Hinu eldra eftirlaunakerfi hafi verið lokað fyrir nýjum sjóðfélögum og það kallað B-deild en allir nýir sjóðfélagar skyldu gerast aðilar að A-deild. Í A-deild séu réttindi skilgreind í lögum og séu þau óháð ávöxtun sjóðsins á hverjum tíma og það þrátt fyrir að kerfið sé byggt upp sem sjóðsöfnunarkerfi, þar sem eignir sjóðsins eigi að standa undir réttindum. Sjóðfélagar og launagreiðendur beri þó ekki ábyrgð á skuldbindingum nema með iðgjöldum sínum, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 1/1997. Hins vegar beri að endurskoða árlega mótframlag launagreiðanda til þess að sjóðurinn eigi fyrir skuldbindingum sínum, sbr. nánar 4. og 5. mgr. 13. gr. laganna. Því megi segja að áhættan af því að sjóðurinn eigi fyrir lögbundnum réttindum hvíli á launagreiðendum. Nú sé halli á A-deildinni og sé heildarskuldbinding neikvæð um tæpa 47,5 milljarða króna, sem sjá megi á ársreikningi fyrir árið 2010, sem fyrir liggi í málinu. Stefndi sé fyrst og fremst lífeyrissjóður ríkisstarfsmanna og þeirra launþega sem séu aðilar að þeim félögum sem að baki sjóðnum standi, sbr. 6. gr. laga nr. 1/1997. Þetta megi glöggt sjá af 3. gr. laganna þar sem tilgreint sé hverjir eigi aðild að sjóðnum. Samkvæmt 4. mgr. 3. gr. laganna sé stjórninni veitt heimild til að veita öðrum en þeim sem beinlínis séu taldir upp í 1.-3. mgr. 3. gr. aðild að A-deild sjóðsins enda beri þeim ekki að greiða í annan lífeyrissjóð. Tekið sé fram að nánari ákvæði um aðildina skuli vera í samþykktum sjóðsins. Af 3. gr. laganna og lögskýringargögnum, er fylgt hafi frumvarpi því er orðið hafi að lögunum, megi glöggt sjá að vilji löggjafans hafi staðið til þess að aðild að sjóðnum yrði takmörkuð. Ef vilji löggjafans hefði staðið til þess að ekki væri hægt að takmarka aðildarreglurnar hefði 3. mgr. verið með öllu óþörf. Nægilegt hefði verið að tilgreina að öllum væri heimil aðild að sjóðnum með samþykki launagreiðanda enda bæri viðkomandi ekki að greiða í annan lífeyrissjóð. Í 4. mgr. 3. gr. laganna sé heimildarákvæði fyrir stjórn en ekki skyldubundið að veita frekari aðild að sjóðnum. Ljóst megi vera að gert sé ráð fyrir því að aðildin verði takmörkuð með einhverjum hætti í samþykktum. Í 15. gr. samþykkta Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins séu þau ákvæði sem sett hafi verið um aðild að A-deild. Þær takmarkanir sem þar séu tilgreindar séu bæði lögmætar og málefnalegar. Í stefnu sé því haldið fram að h-liður 15. gr. samþykkta stefnda feli í sér ólögmæta takmörkun þar sem ákvæðið byggi ekki á málefnalegum sjónarmiðum. Þessu mótmæli stefndi enda sé það lögmætt skilyrði að tengja lífeyrissjóðsaðild við kjarasamningsumhverfi. Því sé heimilt að setja ákvæði inn í samþykktir þar sem stjórn stefnda sé heimilt að samþykkja aðild að sjóðnum í þeim tilvikum sem störf séu þess eðlis að viðkomandi starfsmenn standi utan stéttarfélaga. Það að binda aðild að lífeyrissjóði við aðild að stéttarfélagi sé ekki ólögmætt enda óeðlilegt að aðili hafi um það frjálst val að velja það sem honum svo sýnist úr kjaraumhverfi opinberra starfsmanna en þess fyrir utan að standa utan við kerfið. Stefnanda sé að sjálfsögðu frjálst að standa utan stéttarfélaga opinberra starfsmanna en samhliða því falli niður réttur til aðilar að lífeyrissjóði sem fylgi kjarasamningsbundnum réttindum opinberra starfsmanna. Stefnandi byggi jafnframt kröfu sína á 5. mgr. 3. gr. laga nr. 1/1997 og telji að ákvæðið nái til starfsmanna Landsvirkjunar, hvort sem þeir hafi verið starfsmenn við gildistöku laga nr. 1/1997 eða ráðið sig til fyrirtækisins síðar, líkt og stefnandi. Stefndi mótmæli þessari lagatúlkun stefnanda enda ljóst af lögskýringar-gögnum að ákvæðinu hafi verið ætlað að tryggja aðild þeirra starfsmanna sem þegar hafi verið starfandi við gildistöku laganna. Í athugasemdum við 5. mgr. 3. gr. í frumvarpi er orðið hafi að lögum nr. 1/1997 segi:

Í 5. mgr. greinarinnar er loks ákvæði, er heimilar þeim launagreiðendum, sem greiddu iðgjald til sjóðsins fyrir starfsmenn sína á árinu 1996, að greiða áfram iðgjald til sjóðsins fyrir þessa sömu starfsmenn. Skv. 5. mgr. 4. gr. hafa þessir launagreiðendur heimild til að greiða iðgjald til B-deildar fyrir þá starfsmenn sem hér um ræðir. Og samkvæmt 5. mgr. þessarar greinar hafa þeir sömu heimild til aðildar að A-deildinni. Þar sem félagsmönnum aðildarfélaga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bandalags háskólamanna og Kennarasambands Íslands er með 3. mgr. þessarar greinar veitt heimild til aðildar að A-deildinni svo framarlega sem launagreiðendur þeirra samþykki aðildina. Þá hefur ákvæði 5. mgr. eingöngu þýðingu gagnvart þeim starfsmönnum launagreiðenda sem aðild áttu að sjóðnum á árinu 1996 og ekki eru í framangreindum bandalögum opinberra starfsmanna. Þetta ákvæði á þannig t.d. við um þá einstaklinga sem greitt hafa iðgjald til sjóðsins af launum sem greidd eru samkvæmt samningi bankamanna, s.s. starfsmenn Byggðastofnunar, Þjóðhagsstofnunar og starfsmenn nokkurra sparisjóða, og um starfsmenn stjórnmálaflokka.

Framangreint ákvæði veiti ekki Landsvirkjun eða öðrum launagreiðendum heimild til að greiða fyrir framtíðar starfsmenn sína án nokkurra skilyrða eins og stefndi vilji halda fram. Þau aðildarskilyrði sem sett hafi verið fyrir aðild að A-deild séu málaefnaleg og lögmæt. Á árinu 2005 hafi verið gerðar breytingar á samþykktum stefnda enda verið talin brýn þörf á að þrengja aðildarskilyrðin að sjóðnum. Sýnt hafi þótt að samþykktirnar væru of rúmar en of opin aðild að sjóðnum gæti ógnað framtíðar lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna. Því hafi verið talið nauðsynlegt að tengja aðildina einkum við starfsmenn sem væru innan þeirra stéttarfélaga sem að baki sjóðnum stæðu og tækju laun samkvæmt launaumhverfi ríkisstarfsmanna, þ.e. laun ákveðin af Kjararáði eða laun sem færu eftir kjarasamningum sem gerðir væru á grundvelli laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Tekið skuli fram að ríkisstarfsmenn sem taki laun samkvæmt kjarasamningum, sem gerðir séu á grundvelli laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938, eigi ekki aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Það að takmarka ekki aðild að sjóðnum veiki undirstöður hans en það séu aðeins ríkisstarfsmenn sem taki laun samkvæmt kjarasamningum sem gerðir séu á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986, sem eigi skylduaðild að sjóðnum. Þeir sem ekki eigi skylduaðild að sjóðnum geti, ef þeim sýnist svo, hætt að greiða í sjóðinn þegar illa ári en eigi engu að síður þegar áunnin lögbundin réttindi í sjóðnum. Eftir standi launagreiðendur og þá einkum ríkissjóður sem þyrfti að greiða upp halla á sjóðnum vegna réttinda sinna starfsmanna auk annarra sem hættir væru að greiða í sjóðinn. Áhættan af stöðu sjóðsins hvíli á ríkissjóði og þeim launþegum sem skylt sé að eiga aðild að sjóðnum. Ef nauðsynlegt reynist að hækka mótframlag launagreiðanda verulega, sbr. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 1/1997, hljóti það óneitanlega að koma niður á heildarsamningsstöðu viðkomandi launþega, þegar komi að því að semja um aðra kjarasamningsbundna þætti. Einnig skuli bent á að almennir lífeyrissjóðir séu nú almennt uppbyggðir í aldurstengdu kerfi þar sem yngri sjóðfélagar fái hærri réttindi en þeir sem eldri séu. Þannig hafi ASÍ og SA gert samkomulag, þann 8. desember 2004, þar sem stefnt hafi verið að upptöku aldurstengds kerfis og að sjóðirnir gerðu slíkt samtímis. Nú liggi fyrir að almennu sjóðirnir starfi í aldursháðu réttindakerfi. Hins vegar sé A-deild stefnda áfram byggð upp á grundvelli jafnrar réttindaávinnslu þar sem allir sjóðfélagar ávinni sér sömu réttindi óháð aldri. Opin aðild hefði það í för með sér að þeir sem ekki ættu skylduaðild að sjóðnum en væri aðildin heimil gætu hagað aðildinni með þeim hætti að þeir hámörkuðu réttindaávinnslu sína með greiðslu í aldurtengda sjóði á yngri árum en til A-deildarinnar á seinni hluta starfsævinnar. Það að hafa A-deild opna, þar sem til staðar séu tvö ólík réttindakerfi, annars vegar aldurstengt og hins vegar með jafnri réttindaávinnslu, myndi opna á tækifæri til misnotkunar. Slíkt hefði í för með sér auknar skuldbindingar sem þeir sem ættu skylduaðild yrðu að standa undir kostnaði af. Þetta sýni glöggt þörfina fyrir það að hafa ekki aðild að deildinni opna og óháða ábyrgð þeirra sem að baki sjóðnum standi. Af framangreindu megi vera ljóst að málefnaleg rök standi að baki því að takmarka aðild að stefnda. Í máli þessu liggi fyrir að stefnandi sé ekki ríkisstarfsmaður og taki ekki laun samkvæmt því launaumhverfi sem gildi um opinbera starfsmenn. Nokkur fjöldi sjóðfélaga í stefnda séu starfsmenn Landsvirkjunar en þeir hafi fengið aðild að sjóðnum eftir eldri samþykktum um sjóðinn. Nokkur fjöldi greiði í B-deild en þeir starfsmenn greiði ekki af öllum launum sínum til deildarinnar, þar sem launakjör þeirra séu utan við launaumhverfi ríkisstarfsmanna. Ákveðin séu viðmiðunarlaun fyrir þessa starfsmenn, sem greitt sé af til B-deildar, sbr. ákvæði í 6. mgr. 23. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Í j-lið 15. gr. samþykkta Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sé tilgreint að þeir sem fengið hafi aðild að A-deild skuli halda aðildinni meðan þeir séu við störf hjá sama launagreiðanda. Meðalhófs hafi því verið gætt við breytingar á samþykktum sjóðsins á árinu 2005. Stefnandi hafi hins vegar haft í hyggju að hefja greiðslur í sjóðinn á árinu 2008 en á þeim tíma hafi verið búið að þrengja aðildarskilyrðin og stefnanda synjað um aðild þar sem hún hafi ekki uppfyllt skilyrðin, sbr. 15. gr. samþykkta sjóðsins. Stefnandi semji um laun sín við launagreiðanda sinn en þau laun taki ekki mið af því launaumhverfi sem gildi um ríkisstarfsmenn. Krafa stefnanda feli það í sér að fá viðurkenndan rétt til að njóta lífeyrisréttinda eins og launþegar sem taki laun samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna. Slík aðild væri þó án nokkurra takmarkana þar sem laun séu greidd með gerólíkum hætti en gildi um ríkisstarfsmenn og fjármálaráðherra komi ekkert að slíkum launaákvörðunum. Hins vegar ætti ríkið og aðrir launagreiðendur, þar sem skylduaðild ríki, að bera áhættuna af tryggingunni vegna ábyrgðar á hugsanlegri hækkun á mótframlagi launagreiðenda, sbr. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 1/1997. Réttindum fylgi almennt skyldur en í þessu tilviki séu það sjóðfélagar sem treysti á kjaraumhverfi opinberra starfsmanna sem skylduaðild hafi að sjóðnum og ríkissjóður, sem launagreiðandi, sem beri áhættuna af breytilegu mótframlagi til hækkunar, ef halli myndist. Afar óeðlilegt sé að aðilar sem ekki beri slíka áhættu geti notið lögbundinna réttinda í sjóðnum og áunnið sér réttindi án nokkurra takmarkana. Slíkir sjóðfélagar greiði iðulega af mun hærri launum en tíðkist meðal ríkisstarfsmanna en geti með frjálsri aðild að sjóðnum hlaupið undan skyldum, ef þeim sýnist svo. Þegar litið sé til uppbyggingar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins verði að telja nauðsynlegt og í raun afar brýnt að takmarka aðild að sjóðnum. Með 15. gr. samþykkta sjóðsins sé leitast við að takmarka aðild að sjóðnum með það að markmiði að tryggja réttindi þeirra sjóðfélaga sem lögunum sé einkum ætlað að veita lögbundin réttindi en þar beri fyrst og fremst að líta til ríkisstarfsmanna og þeirra starfsmanna sem taki laun samkvæmt ákvörðunum Kjararáðs eða lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Líkt og fyrr greini sé almenna reglan sú að í kjarasamningi viðkomandi starfsstéttar sé tekið á aðild að lífeyrissjóði. Það sé lögmætt skilyrði til aðildar að lífeyrissjóði að tengja aðild starfsmanna við ákveðið kjarasamningsumhverfi, sbr. nánar 2. gr. laga um skyldutryggingu lífeyris-réttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Af 3. gr. laga nr. 1/1997 megi jafnframt glöggt sjá að ætlunin sé að aðild að A-deild sé takmörkuð. Stefnanda standi til boða að gerast aðili að stefnda, ef starfsmenn kjósi að vera í þeim félögum sem standi að baki stefnda eða öðrum félögum sem geri kjarasamning á grundvelli laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfmanna, sbr. e.-lið 15. gr. samþykkta stefnda. Samkvæmt framangreindu sé ekkert ólögmætt við það að synja stefnanda um aðild að sjóðnum. Stefnandi taki laun samkvæmt ákvörðunum sem aðilar sem standi að baki stefnda hafi ekkert yfir að ráða. Það væri hreint ábyrgðarleysi, bæði gagnvart ríkissjóði og þeim aðilum sem taki laun samkvæmt ákvörðun Kjararáðs eða kjarasamningum sem gerðir séu á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986, að takmarka ekki aðild að sjóðnum. Í stefnu sé því haldið fram að stefnda beri að fara eftir stjórnsýslulögum, þ.á.m. við setningu reglna um sjóðinn. Í þessu sambandi vilji stefndi taka fram að stjórn sjóðsins sé ekki stjórnvald í skilning laga nr. 37/1993, sbr. 1. gr. laganna, sbr. dóm Hæstaréttar frá 17. janúar 2008 í máli nr. 286/2007. Í desember 2010 hafi verið samþykkt umsókn um aðild tveggja nýrra starfsmanna Landsvirkjunar að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins með vísan í h-lið 15. gr. samþykkta sjóðsins. Stefndi hafni því alfarið að hafa brotið jafnræði í ákvörðunum sínum með því að hafa heimilað umræddum starfsmönnum aðild að sjóðnum enda hafi ákvæði h-liðar 15. gr. samþykktanna átt við um umrædda starfsmenn. Annars vegar hafi verið um forstjóra fyrirtækisins að ræða og hins vegar skrifstofustjóra en vegna eðlis starfa þeirra verði að telja að þeir standi almennt utan stéttarfélaga. Stefnandi hafi synjað fjölda aðila, sem eins sé ástatt um og stefnanda, um aðild að A-deild, þ.e. eftir umrædda breytingu á samþykktum frá árinu 2005 eins og fram komi í stefnu en þar segi á bls. 6: „Landsvirkjun hefur ítrekað reynt að koma því til leiðar að stjórn LSR félli frá andstöðu gegn því að stefnandi og aðrir starfsmenn fyrirtækisins sem eins er ástatt um fengju aðild að A-deild LSR.“ Aðstaða forstjóra og skrifstofustjóra sé með öðrum hætti en þeirra sem synjað hafi verið um aðild að sjóðnum, þótt eflaust megi finna rök með því að eðlilegt kynni að hafa verið að synja þeim einnig um aðild. Hins vegar hafi með vísan til h-liðar 15. gr. samþykkta sjóðsins verið talið eðlilegt að heimila þeim aðild, sem séu í störfum sem standi utan stéttarfélaga, enda enn meirihluti starfsmanna Landsvirkjunar sjóðfélagar í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Starfsmenn Landsvirkjunar hafi kosið að taka laun utan þess launaumhverfis sem gildi um opinbera starfsmenn. Samkvæmt því sé örðugt að finna rök sem  réttlætt geti aðild þessara starfsmanna að stefnda sem sé byggður upp og studdur af þeim bandalögum sem að baki sjóðnum standi auk ríkissjóðs. Það að binda aðild að lífeyrissjóði við ákveðið kjarasamningsumhverfi sé bæði lögmætt og eðlilegt skilyrði. Í 2. málsl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997 segi að óheimilt sé að neita manni um aðild að lífeyrissjóði á grundvelli heilsufars, aldurs, hjúskaparstöðu, fjölskyldustærðar eða kyns. Ekki sé hins vegar tilgreint að óheimilt sé að binda aðild við stéttarfélagsaðild eða kjarasamningsumhverfi. Með vísan í ofangreint byggi stefndi á því að hann hafi verið í fullum rétti, þegar hann breytti samþykktum sínum á árinu 2005 með það að markmiði að standa vörð um réttindi ríkisstarfsmanna og þeirra aðila sem taki laun skv. kjarasamnings-umhverfi opinberra starfsmanna.

Stefndi vísi til ákvæða laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sérstaklega 3. gr. og 13. gr., og laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997, sérstaklega 2. gr. laganna. Jafnframt sé vísað til samþykkta stefnda, einkum 15. gr. Einnig sé vísað til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 og laga um Kjararáð nr. 47/2006. Varðandi málskostnaðarkröfuna vísist til 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 129. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Bent skuli á að stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og krafa um greiðslu er jafngildi virðisaukaskattsgreiðslu af málflutningsþóknun byggi á lögum nr. 50/1988.

Niðurstaða

Í máli þessu er um það deilt hvort stjórn stefnda, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, hafi á grundvelli heimildarákvæðis í 4. mgr. 3. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og h-liðar 15. gr. samþykkta sjóðsins, verið heimilt að hafna umsókn stefnanda um aðild að A-deild sjóðsins í nóvember-desember 2008 með vísan til ákvörðunar stjórnar sjóðsins frá 24. september 2008. Tilvitnað ákvæði 4. mgr. 3. gr. laga nr. 1/1997 er svohljóðandi:

Stjórn sjóðsins er heimilt að veita öðrum en þeim er að framan greinir aðild að A-deild  sjóðsins, enda beri þeim ekki að greiða í annan lífeyrissjóð og fyrir liggi samþykki viðkomandi launagreiðanda fyrir aðildinni og þeim skuldbindingum sem henni fylgja. Nánari ákvæði um aðild að A-deild sjóðsins skulu vera í samþykktum hans.

Tilvitnað ákvæði h-liðar 15. gr. samþykktanna er svohljóðandi:

Stjórn sjóðsins getur auk fyrrgreindra í sérstökum tilvikum veitt þeim aðild að A-deild sem eiga þess ekki kost að vera í stéttarfélagi eða eru vegna eðlis starfs síns utan stéttarfélaga. Heimild þessari skal einkum beitt í þeim tilvikum þegar launagreiðandi tryggir verulegan hluta starfsmanna sinna hjá sjóðnum.

Stefnandi byggir á því að framangreint ákvæði h-liðar 15. gr. samþykktanna feli í sér þrengri aðildarskilyrði en gert sé ráð fyrir í 4. mgr. 3. gr. laga nr. 1/1997 og gengið hafi verið út frá við setningu laganna. Synjun stjórnar stefnda á umsókn stefnanda um aðild að stefnda hafi verið rökstudd með því að hún uppfyllti ekki aðildarskilyrði 15. gr. samþykkta sjóðsins og því hafi synjunin verið ólögmæt. Þá byggir stefnandi á því að framangreint skilyrði samþykktanna fyrir aðild þess efnis að launþegar eigi þess ekki kost að vera í stéttarfélagi eða séu vegna eðlis starfanna utan stéttarfélaga sé ekki byggt á málefnalegum sjónarmiðum enda sé hverjum launþega í sjálfsvald sett hvort hann gerist félagi í stéttarfélagi eða ekki og óheimilt að beita hann sérstökum viðurlögum fyrir að vilja standa utan slíkra félaga.

Stefndi byggir á því að lögmætt sé að skilyrða aðild að tilteknum lífeyrissjóði við ákveðið kjarasamningsumhverfi. Fullyrða megi að lífeyrisréttindi séu hluti af samningsbundnum launakjörum, hvort sem um sé að ræða opinbera starfsmenn eða starfsmenn sem starfi á hinum almenna vinnumarkaði. Það að stefndi starfi samkvæmt sérlögum breyti engu hér um. Í stefnu sé því haldið fram að h-liður 15. gr. samþykkta stefnda feli í sér ólögmæta takmörkun þar sem ákvæðið byggi ekki á málefnalegum sjónarmiðum. Þessu mótmæli stefndi enda sé það lögmætt skilyrði að tengja lífeyrissjóðsaðild við kjarasamningsumhverfi. Því sé heimilt að setja ákvæði inn í samþykktir þar sem stjórn stefnda sé heimilt að samþykkja aðild að sjóðnum í þeim tilvikum sem störf séu þess eðlis að viðkomandi starfsmenn standi utan stéttarfélaga. Það að binda aðild að lífeyrissjóði við aðild að stéttarfélagi sé ekki ólögmætt enda óeðlilegt að aðili hafi um það frjálst val að velja það sem honum sýnist úr kjaraumhverfi opinberra starfsmanna en þess fyrir utan að standa utan við kerfið. Stefnanda sé að sjálfsögðu frjálst að standa utan stéttarfélaga opinberra starfsmanna en samhliða því falli niður réttur til aðilar að lífeyrissjóði, sem fylgi kjarasamningsbundnum réttindum opinberra starfsmanna. Þegar litið sé til uppbyggingar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins verði að telja nauðsynlegt og í raun afar brýnt að takmarka aðild að sjóðnum. Með 15. gr. samþykkta sjóðsins sé leitast við að takmarka aðild að sjóðnum með það að markmiði að tryggja réttindi þeirra sjóðfélaga sem lögunum sé einkum ætlað að veita lögbundin réttindi en þar beri fyrst og fremst að líta til ríkisstarfsmanna og þeirra starfsmanna sem taki laun samkvæmt ákvörðunum Kjararáðs eða lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Með vísan í ofangreint byggi stefndi á því að hann hafi verið í fullum rétti, þegar hann breytti samþykktum sínum á árinu 2005 með það að markmiði að standa vörð um réttindi ríkisstarfsmanna og þeirra aðila sem taki laun skv. kjarasamningsumhverfi opinberra starfsmanna.

Með gildistöku laga nr. 9/1974 um starfskjör launþega o.fl. var mælt svo fyrir að öllum launþegum væri rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Jafnframt var kveðið svo á um að yrði ágreiningur um það til hvaða lífeyrissjóðs iðgjöld skyldu greidd, úrskurðaði fjármálaráðuneytið um þann ágreining, að fenginni umsögn Vinnuveitendasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands. Lög nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda leystu lög nr. 9/1974 af hólmi. Samkvæmt 2. gr. laganna var mælt svo fyrir að öllum launamönnum og þeim sem stunduðu atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi væri rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps, enda starfaði lífeyrissjóðurinn samkvæmt sérstökum lögum eða reglugerð sem staðfest hefði verið af fjármálaráðuneytinu og var ákvæðið þannig í aðalatriðum óbreytt frá 2. gr. laga nr. 9/1974. Þá var mælt svo fyrir í 3. gr. laganna að tryggingaskyldu samkvæmt 2. gr. skyldi inna af hendi með þátttöku í lífeyrissjóðum samkvæmt 2. gr. eftir því sem kostur væri og samkvæmt reglum einstakra sjóða. Ætti maður ekki sjálfsagða aðild að sjóði samkvæmt 2. gr. skyldi hann velja sér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfðu en væri tryggingaskyldu ekki fullnægt með þessum hætti skyldi henni fullnægt með iðgjaldagreiðslum til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda, sem starfaði samkvæmt sérstökum lögum. Núgildandi lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 129/1997, sem tóku gildi 1. júlí 1998, leystu lög nr. 55/1980 af hólmi. Samkvæmt 4. mgr. 1. gr. laganna er öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára aldri til 70 ára aldurs. Samkvæmt 3. mgr. laganna felur skyldutrygging lífeyrisréttinda í sér skyldu til aðildar að lífeyrissjóði og til greiðslu iðgjalds til lífeyrissjóðs og eftir atvikum annarra aðila samkvæmt samningi um viðbótar tryggingarvernd. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laganna fer um aðild að lífeyrissjóðum eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein eða sérlögum ef við á. Í ákvæðinu er jafnframt kveðið á um að taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs eða séu ráðningarbundin starfskjör ekki byggð á kjarasamningi velji viðkomandi sér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfi. Í athugasemdum er fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 129/1997 segir til skýringar á efni 2. mgr. 2. gr.:

Í 2. mgr. er kveðið á um aðild að lífeyrissjóðum. Samkvæmt gildandi lögum er öllum launamönnum og sjálfstæðum atvinnurekendum skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Þessi skipan tekur mið af því að lífeyrissjóðir eru yfirleitt starfstengdir og voru stofnaðir með kjarasamningum. Sjóðirnir voru framan af mjög margir og að sama skapi litlir en hefur fækkað verulega síðustu árin. Skilgreining á aðild fylgir í höfuðdráttum ákvæðum í kjarasamningum þar sem samið er um iðgjaldsskiptingu og eiga einstök stéttarfélög aðild að tilteknum lífeyrissjóði sem kjarasamningurinn vísar til. Sjóðirnir eru ýmist bundnir við tiltekna starfsgrein eða greinar og þá yfirleitt á öllu landinu, við tiltekna landshluta eða fyrirtæki og hóp fyrirtækja. Síðustu árin hefur komið upp ágreiningur um þessa skipan, t.d. varðandi stöðu sjálfstætt starfandi manna sem samkvæmt gildandi lögum hefur verið skylt að greiða iðgjald til lífeyrisjóðs tiltekinnar starfsstéttar. Almennt má segja að aðildarskyldan hafi verið gagnrýnd þegar um er að ræða menn sem ekki byggja kjör sín á kjarasamningum. Þótt viðurkennt sé að hóptrygging lífeyrissjóðanna sé mikilvæg forsenda núverandi réttindaávinnslu og að vandséð er hvern veg henni yrði náð með einstaklingsbundinni aðild að sjóðunum er grundvöllur að starfsemi lífeyrissjóðanna ekki við það bundinn að þvinga menn til aðildar að tilteknum sjóði. Hitt er ljóst að lífeyrismál hafa verið á samningsforræði aðila vinnumarkaðarins og ekki eru forsendur til að hlutast til um þá skipan. Því þykir eðlilegt að staðfesta að meginlínur aðildar verði áfram starfstengdar og í samræmi við þann kjarasamning sem ákvarðar lágmarkskjör í viðkomandi starfsgrein. Þetta er nokkur breyting á aðildarskyldu frá því sem felst í gildandi lögum og miðar að því að fækka ágreiningsefnum. Breytingin frá gildandi lögum er sú að draga fram að aðildarskylda samkvæmt kjarasamningi getur ekki tekið til annarra starfssviða en hlutaðeigandi samningur tekur til. Hún nær þannig almennt til launþega en á hinn bóginn er ljóst að kjarasamningar taka að jafnaði ekki til stjórnenda í atvinnufyrirtækjum sem eru utan stéttarfélaga. Þá leiðir orðalag ákvæðisins einnig til þess að aðild verður ekki þvinguð fram á þeim grundvelli að einstaklingur hafi lokið tilteknu námi. Loks er ákveðið að starfi einstaklingur án þess að í ráðningarbundnum starfskjörum hans sé vísað til kjarasamnings er hann óbundinn aðild að tilteknum lífeyrissjóði. Allt er þetta í eðlilegu samhengi við þá almennu afstöðu að lífeyriskjör og þar með aðild að lífeyrissjóði séu hluti starfskjara og séu þau byggð á kjarasamningi þá fari um lífeyrissjóðsaðild samkvæmt honum. Í þessu sambandi er þó vert að árétta að venjur tengjast framkvæmd kjarasamninga og þótt ekki séu t.d. skýr ákvæði í kjarasamningi um aðild að tilteknum lífeyrissjóði verða ákvæði um greiðsluskyldu atvinnurekanda skýrð í samræmi við fyrri framkvæmd. Gildir þetta ekki síst um lífeyrissjóði sem starfsmenn sveitarfélaga hafa greitt til. Í lok 2. mgr. er síðan kveðið á um að tiltaka skuli aðild að lífeyrissjóði í skriflegum ráðningarsamningi. Í 3. mgr. er sjóðfélagahugtakið skilgreint og lagt til að óheimilt verði að neita manni um aðild að lífeyrissjóði vegna aðstæðna viðkomandi einstaklings. Með hjúskaparstöðu er átt við hvort viðkomandi eigi maka, sbr. 3. mgr. 16. gr., og það leiðir af 1. gr. að heimilt væri að neita þeim sem orðnir eru sjötíu ára að stofna til aðildar að lífeyrissjóði.

Með lögum nr. 51/1921 var settur á stofn hér á landi lífeyrissjóður fyrir embættismenn og ekkjur þeirra. Lögin frá 1921 um Lífeyrissjóð embættismanna og ekkna þeirra voru í gildi fram að gildistöku laga nr. 101/1943, en með þeim lögum var nafni sjóðsins breytt í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Með lögunum frá 1943 var gerð veruleg breyting á lífeyrisréttindum starfsmanna ríkisins. Fyrir gildistöku laganna höfðu einungis þeir sem tóku laun eftir lögum um laun embættismanna greitt í Lífeyrissjóð embættismanna og ekkna þeirra. Eftir lagabreytinguna varð aðild að sjóðnum hins vegar mun víðtækari. Meginreglan varð að allir ríkisstarfsmenn, sem uppfylltu ákveðin ráðningarskilyrði, urðu sjóðfélagar í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Þá var stjórn sjóðsins heimilað að taka í tölu sjóðfélaga starfsmenn við ríkisstofnanir, sem höfðu sérstakan fjárhag, starfsmenn bæjar, sýslu eða sveitarfélaga, starfsmenn við sjálfseignarstofnanir er störfuðu í almenningsþarfir enda fullnægðu þeir því almenna skilyrði fyrir aðild að sjóðnum að vera ekki ráðnir til skemmri tíma en eins árs eða með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Á næstu árum eftir gildistöku laganna frá 1943 voru gerðar ýmsar breytingar á lögunum, sem skipta ekki máli varðandi mál það sem hér er til úrlausnar, en næstu heildarlög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins voru lög nr. 64/1955. Samkvæmt þeim var meginreglan að aðild að sjóðnum væri háð því skilyrði að viðkomandi tæki laun úr ríkissjóði. Þó var stjórn sjóðsins heimilt að taka í tölu sjóðfélaga starfsmenn bæjar- sýslu- og hreppsfélaga  og stofnana sem þeim tilheyrðu, sbr. 4. gr. laganna. Lög nr. 64/1955 voru leyst af hólmi með lögum nr. 29/1963 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Hvað aðild að sjóðnum varðaði var gerð sú breyting frá eldri lögum að starfsmenn ríkisstofnana, sem sérstakan fjárhag höfðu, fengu skylduaðild að sjóðnum en að öðru leyti var aðildin óbreytt. Með lögum nr. 141/1996 um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins voru gerðar umtalsverðar breytingar á lögum nr. 29/1963 m.a. á réttindakerfi sjóðsins. Þannig var því réttindakerfi sem gilt hafði til gildistöku laganna lokað fyrir nýjum sjóðfélögum og var það kerfi nefnt B-deild en samhliða sett upp nýtt réttindakerfi fyrir nýja starfsmenn og þá sem kynnu að óska þess að færa sig úr eldra réttindakerfi í það nýja, svonefnd A-deild. Í 3. gr. laganna eru ákvæði um hverjir skuli eiga aðild að A-deild sjóðsins, hverjir eigi rétt til aðildar að deildinni, þótt  ekki sé um skylduaðild að ræða og um heimild stjórnar til að veita öðrum aðild að A-deild en þeim sem eigi skylduaðild eða sé sjálfkrafa heimil aðild að sjóðnum. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 141/1996 segir um efni 3. gr.:

Í 1. mgr. 3. gr. eru ákvæði um aðild starfsmanna ríkisins að A-deildinni. Samkvæmt greininni skulu allir þeir starfsmenn ríkisins, sem náð hafa 16 ára aldri og fá greidd laun á grundvelli kjarasamninga eða launaákvarðana samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna eða lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd, vera sjóðfélagar í A-deild sjóðsins, sbr. þó 2. og 4. mgr. 4. gr. Þó er heimilt samkvæmt ákvæðum greinarinnar að semja svo um í kjarasamningi að tilteknir hópar starfsmanna ríkisins, sem uppfylla skilyrði til aðildar að sjóðnum, geti greitt í aðra lífeyrissjóði. Þetta síðastnefnda getur t.d. átt við um lækna, verkfræðinga og tæknifræðinga sem þannig geta samið svo um í kjarasamningi að þeir greiði til annars lífeyrissjóðs en Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Ákvæði 1. mgr. verður síðan að skoða með hliðsjón af 2.-4. mgr. 4. gr. Þar kemur fram sú meginstefna að þeir sem áttu skylduaðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins fyrir breytinguna geti áfram átt aðild að B-deild sjóðsins, sem að mestu leyti byggir á óbreyttu réttindakerfi. Kjósi þeir hins vegar að greiða fremur iðgjald til A-deildarinnar er þeim það þó heimilt. Samkvæmt 3. gr. gildandi laga um lífeyrissjóðinn nr. 29/1963, er aðild starfsmanna ríkisins að sjóðnum takmörkuð vegna ákvæða um ráðningartíma og ráðningarkjör. Aðild að sjóðnum hafa þannig átt þeir starfsmenn ríkisins sem skipaðir eru, settir eða ráðnir með föstum launum til ekki skemmri tíma en eins árs eða með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti, enda sé starf þeirra aðalstarf hlutaðeigandi og a.m.k. hálft starf. Þessi takmörkun verður ekki lengur til staðar hjá A-deild skv. 3. gr. frumvarpsins. Eftir breytinguna hafa t.d. lausráðnir starfsmenn ríkisins, þeir starfsmenn ríkisins sem fá greidd laun samkvæmt tímakaupi og þeir sem eru í minna en hálfu starfi rétt til aðildar að sjóðnum. Á móti kemur að í 3. gr. eru skýrari ákvæði en í gildandi lögum um að aðild að sjóðnum verður takmörkuð við þá starfsmenn ríkisins sem fá greidd laun á grundvelli kjarasamninga eða launaákvarðana samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna eða lögum um Kjaradóm og kjaranefnd. ...

Þá segir í athugasemdunum:

Eins og greint er frá hér að framan á 2. mgr. einungis við um þá starfsmenn sem gegna tilteknum störfum og aðild eiga að sjóðnum við árslok 1996. Um kennara og skólastjórnendur grunnskóla og hjúkrunarfræðinga, sem ráðnir verða til starfa eftir árslok 1996, gilda hins vegar bráðabirgðaákvæði I í gildistökukafla þessara laga. Það er sameiginlegt með ákvæðum 1. og 2. mgr. að sjóðfélagar, sem þar um ræðir, eiga sjálfkrafa rétt á aðild að A-deild lífeyrissjóðsins. Á launagreiðendum þeirra hvílir því sú skylda að greiða iðgjald þeirra vegna til sjóðsins, nema um annað sé samið. Heimild til aðildar skv. 3.-5. mgr. er hins vegar alltaf háð samþykki viðkomandi launagreiðanda. Samkvæmt 3. mgr. er félagsmönnum aðildarfélaga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, aðildarfélaga Bandalags háskólamanna og Kennarasambands Íslands, sem ekki eiga aðild að sjóðnum skv. 1. og 2. mgr., heimilt að greiða iðgjald til A-deildar sjóðsins ef launagreiðendur þeirra samþykkja aðildina og þær skuldbindingar sem henni fylgja. Þetta ákvæði á þannig m.a. annars við um félagsmenn í þessum samtökum sem starfa hjá sveitarfélögum, fyrirtækjum í eigu ríkisins, félagasamtökum og sjálfseignar-stofnunum. Heimildir skv. 3. mgr. eru nokkuð breyttar frá því sem er í gildandi lögum sjóðsins. Skv. 4. gr. laga sjóðsins, nr. 29/1963, er stjórn hans heimilt að taka í tölu sjóðfélaga starfsmenn hjá þar tilgreindum launagreiðendum. Meðal launagreiðenda, sem taldir eru upp í greininni, eru sveitarfélög og uppeldis- og heilbrigðisstofnanir sem reknar eru af sjálfstæðum styrktar- og líknarfélögum. Skv. 4. gr. gildandi laga leggur stjórn sjóðsins því hverju sinni mat á það hvort heimila skuli viðkomandi launagreiðanda að greiða iðgjald til sjóðsins fyrir starfsmenn sína. Eftir reglu 3. mgr. geta félagsmenn í aðildarfélögum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, aðildarfélögum Bandalags háskólamanna og Kennarasambandi Íslands samið um það við launagreiðendur að iðgjöld fyrir starfsmennina verði greidd til sjóðsins. Þarf þá ekki samþykki stjórnar sjóðsins fyrir aðildinni eins og nú er. Félagsmenn í framangreindum samtökum opinberra starfsmanna starfa í dag hjá fleiri launagreiðendum en þeim sem taldir eru upp í 4. gr. gildandi laga. Þannig starfa sumir t.d. hjá einkaaðilum. Þessir einstaklingar hafa ekki, að óbreyttum lögum, heimild til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Sama gildir um starfsmenn sem ráðast til starfa hjá fyrirtækjum eða stofnunum ríkisins eftir að þeim hefur verið breytt í hlutafélög. Eftir reglu 3. mgr. geta einnig þessir launagreiðendur greitt iðgjald til sjóðsins fyrir þá starfsmenn sína sem eru í áðurnefndum samtökum opinberra starfsmanna. Breyting þessi á heimildum til aðildar að sjóðnum er möguleg í ljósi þeirra breytinga sem með frumvarpi þessu eru gerðar á iðgjaldagreiðslum launagreiðenda til samræmis við þær skuldbindingar sem stofnað er til á hverjum tíma. Iðgjald, sem greitt er til sjóðsins samkvæmt gildandi lögum, dugar hins vegar hvergi til greiðslu lífeyris. Því hafa verið settar þröngar skorður varðandi það hverjir hafa haft heimild til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Um 4. mgr. 3. gr. frumvarpsins segir í athugasemdunum:

Samkvæmt 4. mgr. greinarinnar er stjórn sjóðsins heimilt að veita öðrum en þeim sem ákvæði 1.-3. mgr. ná til aðild að A-deild sjóðsins, svo framarlega sem þeir eigi ekki skylduaðild að öðrum lífeyrissjóði og fyrir liggi að viðkomandi launagreiðandi hafi samþykkt aðildina og þær skuldbindingar sem henni fylgja. Ákvæði greinarinnar tilgreinir ekki frekari takmarkanir en þær sem leiðir af skylduaðild að öðrum sjóði. Samkvæmt málsgreininni á stjórn sjóðsins að setja ákvæði í samþykktir sínar um hvernig þessu heimildarákvæði verði beitt. Meginreglan verður sú að sjóðfélagar séu félagsmenn í aðildarfélögum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bandalags háskólamanna eða í Kennarasambandi Íslands. Skv. 4. mgr. er stjórn sjóðsins hins vegar heimilt að veita öðrum aðild að sjóðnum. Samkvæmt ákvæðum málsgreinarinnar skulu nánari reglur um aðild þessa vera í samþykktum sjóðsins. Stjórn sjóðsins verður síðan hverju sinni að samþykkja aðild samkvæmt þessari málsgrein.

Þá segir í athugasemdunum um 5. mgr. 3. gr.:

Í 5. mgr. greinarinnar er loks ákvæði, er heimilar þeim launagreiðendum, sem greiddu iðgjald til sjóðsins fyrir starfsmenn sína á árinu 1996, að greiða áfram iðgjald til sjóðsins fyrir þessa sömu starfsmenn. Skv. 5. mgr. 4. gr. hafa þessir launagreiðendur heimild til að greiða iðgjald til B-deildar fyrir þá starfsmenn sem hér um ræðir og samkvæmt 5. mgr. þessarar greinar hafa þeir sömu heimild til aðildar að A-deildinni. Þar sem félagsmönnum aðildarfélaga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bandalags háskólamanna og Kennarasambands Íslands er með 3. mgr. þessarar greinar veitt heimild til aðildar að A-deildinni svo framarlega sem launagreiðendur þeirra samþykki aðildina þá hefur ákvæði 5. mgr. eingöngu þýðingu gagnvart þeim starfsmönnum launagreiðenda sem aðild áttu að sjóðnum á árinu 1996 og ekki eru í framangreindum bandalögum opinberra starfsmanna. Þetta ákvæði á þannig t.d. við um þá einstaklinga sem greitt hafa iðgjald til sjóðsins af launum sem greidd eru samkvæmt samningi bankamanna, s.s. starfsmenn Byggðastofnunar, Þjóðhagsstofnunar og starfsmenn nokkurra sparisjóða, og um starfsmenn stjórnmálaflokka.

Lög nr. 141/1996 um breytingu á lögum nr. 29/1963 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins voru endurútgefin sem lög nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sbr. 34. gr. laga nr. 141/1996.

Ljóst er að ákvæði h-liðar 15. gr. samþykkta Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sem áður hefur verið rakið, felur í sér takmörkun á heimild stjórnar til að veita aðild að sjóðnum í samanburði við ákvæði h-liðar eins og það var fyrir breytinguna 2005 en samkvæmt eldra ákvæðinu var stjórn sjóðsins heimilt að veita öðrum aðild að A-deild hans enda bæri þeim ekki að greiða í annan lífeyrissjóð, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997. Samkvæmt núgildandi ákvæði sem lagt var til grundvallar, þegar stefnanda var synjað um aðild að sjóðnum, er heimildin hins vegar bundin því skilyrði að viðkomandi eigi þess ekki kost að vera í stéttarfélagi eða sé vegna eðlis starfs síns utan stéttarfélaga. Er ljóst eins og áður sagði að síðarnefnda skilyrðið er til muna þrengra og takmarkar möguleika á aðild að sjóðnum verulega miðað við fyrra skilyrðið.  

Í ræðu framsögumanns meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, þegar hann mælti fyrir áliti meirihluta nefndarinnar við meðferð frumvarpsins sem varð að lögum nr. 141/1996 um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins kom m.a. fram að megintilgangurinn með 4. mgr. 3. gr. frumvarpsins væri að tryggja sömu aðild að sjóðnum og áður var og koma í veg fyrir misræmi innan stofnana sem hefðu verið aðilar að sjóðnum. Þær takmarkanir sem málsgreinin setti gerðu það að verkum að ekki ætti að vera hætta á að skörun yrði á aðildarrétti gagnvart lífeyrissjóðum almennu stéttarfélaganna. Samkvæmt lögum um starfkjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 væri félögum í þeim skylt að vera í lífeyrissjóði innan sinnar starfsstéttar. Málsgreinin útiloki þannig aðild að lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins fyrir einstaklinga úr stéttarfélögum með lögbundna lífeyrissjóðsaðild. Þá áskilji greinin samþykki viðkomandi launagreiðanda. Með því mætti telja ljóst að málsgreinin breytti ekki núverandi aðildarrétti að neinu marki.

Fyrir liggur og er óumdeilt að stefnandi á ekki skylduaðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins samkvæmt 1.-2. mgr. 3. gr. laga nr. 1/1997. Þá verður aðild hennar að sjóðnum ekki reist á 3. mgr. 3. gr. enda er hún ekki félagi í þeim stéttarfélögum opinberra starfsmanna, sem tilgreind eru í ákvæðinu.

Þegar tekin er afstaða til þess hvort ákvæði h-liðar 15. gr. samþykkta Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins brjóti í bága við 4. mgr. 3. gr. laga nr. 1/1997 telur dómurinn rétt að hafa eftirfarandi í huga.

2. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda tengir á skýran hátt skylduaðild og heimild til aðildar að lífeyrissjóði við þá starfsgrein sem launþegi starfar við og þann kjarasamning sem ákvarðar lágmarkskjör í starfsgreininni. Þetta meginsjónarmið um aðild að lífeyrissjóði er í samræmi við þá lagaþróun sem ákvæðið hvílir á og rakin hefur verið.

4. mgr. 3. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna heimilar stjórn sjóðsins að setja reglur um aðild annarra en þeirra sem eiga skylduaðild að sjóðnum skv. 1.-2. mgr. 3. gr. eða lögmælta heimild til aðildar að sjóðnum samkvæmt 3. mgr. 3. gr.

Ljóst er af þeim lögskýringargögnum, sem rakin hafa verið, að lög nr. 1/1997 eru reist á því meginsjónarmiði að aðild að sjóðnum sé og verði takmörkuð við þá starfsmenn ríkisins og aðra opinbera starfsmenn sem fái greidd laun á grundvelli kjarasamninga eða launaákvarðana samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna eða lögum um Kjaradóm og kjaranefnd, sbr. nú lög nr. 47/2006 um Kjararáð. Þá var það, eins og rakið hefur verið, yfirlýstur tilgangur löggjafans við setningu laga nr. 141/1996, að setja bæri þröngar skorður fyrir aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins m.a. af þeirri ástæðu að iðgjöld sem greidd væru til sjóðsins samkvæmt gildandi lögum dygðu hvergi til greiðslu lífeyris úr sjóðnum.

Með vísan til alls framanritaðs er það niðurstaða dómsins að stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hafi verið heimilt að þrengja skilyrði fyrir aðild að sjóðnum með þeim hætti sem gert var með breytingu á h-lið 15. gr. samþykkta sjóðsins á árinu 2005 og takmarka heimild til aðildar við að viðkomandi ætti þess ekki kost að vera í stéttarfélagi eða væri vegna eðlis starfs síns utan stéttarfélaga. Fyrir liggur og er óumdeilt að stefnandi uppfyllir ekki þessi skilyrði, þegar af þeirri ástæðu að hún er ekki útilokuð frá aðild að stéttarfélagi. Verður því ekki fallist á kröfur stefnanda að því marki sem þær eru byggðar á umræddri málsástæðu. Þá er með sömu rökum hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að synjun stefnda á aðild stefnanda að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins byggi ekki á málefnalegum rökum.

Í öðru lagi byggir stefnandi á því að samkvæmt 5. mgr. 3. gr. laga nr. 1/1997 eigi þeir launagreiðendur sem greitt hafi iðgjöld til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á árinu 1996, fyrir starfsmenn sína, einnig heimild til að tryggja þá starfsmenn hjá A-deild sjóðsins, sem ekki eigi aðild að B-deild hans. Ljóst sé að Landsvirkjun sé launagreiðandi sem uppfylli þetta skilyrði. Þá byggir stefnandi einnig á þeim rökum, að þegar ákvæði 5. mgr. 3. gr. laganna sé borið saman við ákvæði 4. mgr. sé það deginum ljósara að út frá því hafi verið gengið við setningu laga nr. 1/1997 að engin breyting yrði á aðgengi að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fyrir starfsmenn þeirra fyrirtækja í eigu ríkisins sem greitt hefðu um langt árabil lífeyrissjóðsiðgjöld vegna starfsmanna sinna til sjóðsins. Það eigi beinlínis við um starfsmenn Landsvirkjunar, hvort sem þeir hafi verið starfsmenn þess fyrirtækis við gildistöku laganna eða ráðið sig til fyrirtækisins síðar eins og stefnandi. Stefnandi bendi á, að um árabil eftir setningu laga nr. 1/1997 hafi það viðgengist, árekstra- og ágreiningslaust, að Landsvirkjun skilaði iðgjaldagreiðslum fyrir starfsmenn sína til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins án tillits til þess hvort þeir hefðu verið ráðnir til fyrirtækisins fyrir eða eftir gildistöku laganna. Það hafi ekki verið fyrr en í desember 2008 sem stjórnendur sjóðsins hafi fundið það út að þessi framkvæmd væri andstæð reglum, sem þeir hefðu sjálfir sett sjóðnum. Þessi ágreiningslausa framkvæmd hafi verið í fullu samræmi við ákvæði laganna, og stjórn sjóðsins hafi ekki haft neina lögmæta ástæðu til að víkja frá henni.

Stefndi mótmælir framangreindri lagatúlkun stefnanda og byggir á því að ljóst sé af lögskýringargögnum að ákvæði 5. mgr. 3. gr. laga nr. 1/1997 hafi eingöngu verið ætlað að tryggja aðild þeirra starfsmanna, sem þegar hafi verið starfandi við gildistöku laganna. Ákvæði 5. mgr. veiti ekki Landsvirkjun eða öðrum launagreiðendum heimild til að greiða fyrir framtíðar starfsmenn sína án nokkurra skilyrða eins og stefndi vilji halda fram. Vísar stefndi þessu til stuðnings til athugasemda við 5. mgr. 3. gr. í frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 1/1997.

Athugasemdir þær sem fylgdu 5. mgr. 3. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 141/1996, sbr. síðar lög nr. 1/1997, hafa þegar verið raktar hér að framan en í þeim kemur skýrt fram að heimild 5. mgr. 3. gr. til að greiða áfram iðgjald til sjóðsins á grundvelli ákvæðisins sé takmörkuð við þá starfsmenn sem iðgjald hafi verið greitt fyrir á árinu 1996. Ekki eru rök fyrir því að að þessi heimild, sem byggir á undantekningarákvæði, sem rétt er með hliðsjón af þeim meginsjónarmiðum sem aðildarákvæði laga nr. 1/1997 hvíla á og áður hafa verið rakin að skýra þröngt, sé talin ná til stefnanda, sem hóf störf hjá Landsvirkjun eins og áður hefur verið rakið í nóvember 2006. Er því þessari málsástæðu stefnanda hafnað. Þá verður með sömu rökum ekki fallist á það með stefnanda að frávik frá 5. mgr. 3. gr., sem að sögn stefnda er að rekja til mistaka starfsmanna stefnda, hafi rýmkað efni ákvæðisins umfram orðalag þess og tilgang.    

Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hafi borið að gæta jafnræðis í ákvörðunum sínum, en stefnandi telji að starfsmönnum fyrirtækja í eigu ríkisins hafi verið mismunað með þeirri lagaframkvæmd sem stjórnin hafi viðhaft í tilviki starfsmanna Landsvirkjunar.  Í desember 2010 hafi stjórn sjóðsins samþykkt aðild tveggja nýrra starfsmanna stefnanda, þ. e. forstjóra og skrifstofustjóra, þrátt fyrir að stefnanda hafi áður verið synjað um aðild.  Stefnandi byggi kröfu sína í málinu sjálfstætt á því að hún eigi á grundvelli jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, þ. e. 11. gr. laga nr. 37/1993, sbr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sama rétt og aðrir starfsmenn Landsvirkjunar til aðildar að A-deild stefnda en stjórn stefnda hafi í störfum sínum borið að fara í einu og öllu eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Stefndi byggir á því að stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sé ekki stjórnvald í skilningi laga nr. 37/1993, sbr. 1. gr. laganna, sbr. dóm Hæstaréttar frá 17. janúar 2008 í máli nr. 286/2007. Í desember 2010 hafi verið samþykkt umsókn um aðild tveggja nýrra starfsmanna Landsvirkjunar að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins með vísan í h-lið 15. gr. samþykkta sjóðsins. Stefndi hafni því alfarið að hafa brotið jafnræði í ákvörðunum sínum með því að hafa heimilað umræddum starfsmönnum aðild að sjóðnum enda hafi ákvæði h-liðar 15. gr. samþykktanna átt við umrædda starfsmenn. Annars vegar hafi verið um forstjóra fyrirtækisins að ræða og hins vegar skrifstofustjóra en vegna eðlis starfa þeirra verði að telja að þeir standi almennt utan stéttarfélaga. Stefnandi hafi synjað fjölda aðila sem eins sé ástatt um og stefnanda um aðild að A-deild, þ.e. eftir umrædda breytingu á samþykktum frá árinu 2005 eins og fram komi í stefnu en þar segi: „Landsvirkjun hefur ítrekað reynt að koma því til leiðar að stjórn LSR félli frá andstöðu gegn því að stefnandi og aðrir starfsmenn fyrirtækisins sem eins er ástatt um fengu aðild að A-deild LSR.“ Aðstaða forstjóra og skrifstofustjóra sé með öðrum hætti en þeirra sem synjað hafi verið um aðild að sjóðnum. Talið hafi verið eðlilegt með vísan til h-liðar 15. gr. samþykkta sjóðsins að heimila þeim aðild að sjóðnum enda enn meirihluti starfsmanna Landsvirkjunar sjóðfélagar í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilda þau þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Stefndi er lífeyrissjóður og gilda um starfsemi hans, eins og áður hefur verið rakið, ákvæði laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Verður ekki séð að framangreind lög setji stefnda annan ramma um starfsemina en gildir um lífeyrissjóði almennt. Stjórn sjóðsins er samkvæmt 6. gr. laga nr. 1/1997 skipuð átta fulltrúum. Fjármálaráðherra skipar fjóra stjórnarmenn, stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja tvo, stjórn Bandalags háskólamanna einn og stjórn Kennarasambands Íslands einn. Verður að þessu virtu ekki litið svo á að ákvæði stjórnsýslulaga gildi um ákvarðanir stjórnar stefnda, sbr. áður tilvitnaðan dóm Hæstaréttar í máli nr. 286/2007. Framangreind niðurstaða breytir því hins vegar ekki  að samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar og grunnrökum laga nr. 1/1997 og laga nr. 129/1997 ber stjórn stefnda við allar ákvarðanir um aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins að gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Fyrir liggur að stjórn stefnda heimilaði forstjóra og skrifstofustjóra Landsvirkjunar aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins á árinu 2010 með þeim rökum að umræddir starfsmenn ættu ekki vegna starfa sinna aðild að lífeyrissjóði, sbr. h-lið 15. gr. samþykkta sjóðsins. Verður ekki séð að sú ákvörðun stefnda hafi byggst á ómálefnalegum rökum eða falið í sér brot gegn framangreindum grundvallarréttindum stefnanda, þegar af þeirri ástæðu að ekki verður séð að stefnanda, sem starfar í bókhaldsdeild Landsvirkjunar, hafi vegna eðlis starfs síns verið rétt að standa utan stéttarfélags eins og átt getur sér stað og rök verið fyrir, þegar um æðstu stjórnendur fyrirtækja er að ræða. Því hafi sú ákvörðun stjórnar stefnda að heimila forstjóra og skrifstofustjóra Landsvirkjunar aðild að sjóðnum ekki falið í sér ósamræmi hvað stefnanda varðar eða brot á jafnræði gagnvart henni.

Með vísan til alls framanritaðs er það niðurstaða dómsins að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Með vísan til atvika málsins og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Þórður S. Gunnarsson, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A-deild, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Margrétar Ingibjargar Svavarsdóttur, í máli þessu. Málskostnaður milli aðila fellur niður.