Hæstiréttur íslands
Mál nr. 509/1998
Lykilorð
- Umboðssala
|
|
Fimmtudaginn 27. maí 1999. |
|
Nr. 509/1998. |
Arnarbakki ehf. (Tómas Jónsson hrl.) gegn Snæfellsvikri ehf. (Sigurður Sigurjónsson hrl.) |
Umboðssala.
Félagið V seldi vikur úr landi með atbeina umboðsmannsins J samkvæmt samningi þar um. V varð gjaldþrota en hópur manna sem stóð að V stofnaði félagið S og hóf það sömu starfsemi og seldi sömu kaupendum og V hafði gert. S var stefnt til greiðslu tveggja reikninga á þeim forsendum að S hefði yfirtekið skyldur V samkvæmt umboðssölusamningnum. Talið var ósannað að S hefði yfirtekið skuldbindingar V samkvæmt samningnum. Þar sem ekki tókst að sýna fram á að S bæri af öðrum ástæðum skylda til að greiða reikningana var félagið sýknað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Haraldur Henrysson og Hjörtur Torfason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. desember 1998 og krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.114.436 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. nóvember 1996 til greiðsludags auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í héraðsdómi er greint frá málavöxtum. Fallist er á þá niðurstöðu hans að ósannað sé að stefndi hafi yfirtekið skyldur Vikuriðnaðar hf. samkvæmt samningi þess fyrirtækis og Jóhanns Scheither 12. janúar 1993 og samkomulagi 30. september 1994. Samkvæmt því verður dæmt um kröfur áfrýjanda í máli þessu eftir öðrum þeim gögnum, sem fyrir liggja í málinu og greint er frá í héraðsdómi.
Að því er varðar reikning að fjárhæð 366.875 krónur, þóknun fyrir útvegun skipa á árinu 1995, hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að sérstakt samkomulag hafi verið gert milli sín og stefnda um slíka þóknun. Óumdeilt er að áfrýjandi fékk greiðslur frá hinum þýska kaupanda umræddra skipsfarma á árinu 1995 og dró hann frá þeim þóknun til sín, áður en hann gerði skil til stefnda. Ódagsettum reikningi vegna útvegunar skipanna framvísaði hann löngu síðar. Með hliðsjón af þessu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda af þessari kröfu.
Reikning að fjárhæð 803.186 krónur, sem eiga að vera umboðslaun vegna vikurfarma á árinu 1996, styður áfrýjandi við umboðssölusamninginn frá 12. janúar 1993, sem stefndi verður ekki talinn bundinn við samkvæmt framansögðu. Áfrýjandi lagði ekki fram vinnu vegna endanlegrar sölu þessara farma og gegn mótmælum stefnda hefur hann heldur ekki sannað að hann hafi komið umræddum viðskiptum á. Að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms ber að sýkna stefnda af þessum kröfulið.
Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Ber að dæma áfrýjanda til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður.
Áfrýjandi, Arnarbakki ehf., greiði stefnda, Snæfellsvikri ehf., 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 1998.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 2. september sl., er höfðað af Arnarbakka ehf, kt. 580377-0179, Skeifunni 11A, Reykjavík, með stefnu birtri 9. september 1997 á hendur Snæfellsvikri ehf., kt. 540695-2299, Ennisbraut 55, Ólafsvík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 1.114.436 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla l. nr. 25/1987 frá 2. nóvember 1996 og leggist áfallnir dráttarvextir við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 1. nóvember 1997, allt í samræmi við 12. gr. l. nr. 25/1987. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðu kostnaðaryfirliti.
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði algerlega sýknaður af kröfum stefnanda og dæmdur málskostnaður úr hendi hans að skaðlausu að mati réttarins. Krafizt er vaxta á tildæmdan málskostnað, sbr. III. kafla l. nr. 25/1987.
II.
Gangur málsins
Rétt þykir að rekja gang málsins í aðalatriðum. Það var þingfest 25. september 1997 og fékk undirritaður dómari það til meðferðar 1. desember sama ár. Þar sem lögmaður stefnda vefengdi umboð lögmanns stefnanda var málinu frestað til gagnaöflunar og aftur til yfirheyrslu í því skyni að lögmaðurinn gæti sannað umboðið. Að því búnu var málinu frestað einu sinni til gagnaöflunar. Í næsta þinghaldi var málið flutt munnlega um framkomna frávísunarkröfu stefnda, sem var hafnað með úrskurði uppkveðnum 6. apríl 1998. Því næst var málinu frestað til aðalmeðferðar, sem ákveðin var 10. júní 1998. Þann dag féll niður þingsókn af hálfu stefnda án þess að forföll væru boðuð og krafðist lögmaður stefnanda dómtöku. Var málinu frestað svo lögmaðurinn gæti lagt fram sókn. Í því þinghaldi kom fram beiðni frá lögmanni stefnda um endurupptöku og var fallizt á kröfu hans. Aðalmeðferð hófst síðan þann 15. júní 1998 en var frestað vegna forfalla eins vitnis til 31. ágúst 1998. Þann dag féll niður þingsókn af hálfu stefnda, án þess að forföll væru boðuð. Lögmaður stefnanda skilaði sókn þann 2. september og var málið þá dómtekið og verður það dæmt á grundvelli framkominna gagna.
III.
Málavaxtalýsing stefnanda
Stefnandi kveður skuldina vera samkvæmt tveimur framlögðum reikningum stefnanda, en reikningarnir séu gerðir vegna starfa Jóhanns Scheithers, sem á þessum tíma hafi verið einn eigenda Arnarbakka hf. og allir reikningar því gerðir í nafni þess félags.
Þann 12. janúar 1993 hafi Jóhann Scheither gert umboðssölusamning við Vikuriðnað hf. um sölu á vikri. Fyrir hans tilstilli hafi náðst sölusamningar við þýzka fyrirtækið Gebr. Zieglowski GmbH. Meðan Vikuriðnaður starfaði, hafi það félag selt framleiðslu sína einungis til þessa þýzka fyrirtækis. Stjórnarformaður Vikuriðnaðar hf. hafi verið Jón Valdi Valdimarsson og meðal stjórnarmanna hafi verið Gunnar Geir Gunnarsson. Fyrst hafi framkvæmdastjóri félagsins verið Árni Þormóðsson, en þegar hann lét af störfum muni Sigurður Sigurjónsson hrl. hafa gegnt starfi framkvæmdastjóra, alltént með óformlegum hætti. Þann 8. maí 1996 hafi Vikuriðnaður hf. verið úrskurðaður gjaldþrota.
Tæplega ári fyrir gjaldþrot Vikuriðnaðar hf., eða þann 14. júní 1995, hafi Sigurður Sigurjónsson hrl. sent gögn til hlutafélagaskrár um stofnun Snæfellsvikurs ehf. Stjórn hins nýja félags hafi skipað m.a. áðurnefndir Gunnar Geir og Jón Valdi, stjórnarmenn í Vikuriðnaði. Hið nýja félag hafi yfirtekið alla starfsemi gamla félagsins, þ.á.m. viðskiptasamböndin við Gebr. Zieglowski GmbH. Hafi félagið yfirtekið og hagnýtt sér þann umboðssölusamning, sem fyrr sé um getið. Jóhann Scheither hafi þannig haldið áfram störfum við umboðsmennskuna og hafi aldrei verið tilkynnt um neinar breytingar á samstarfsaðila eða samstarfi. Hafi það komið bæði honum og hinum erlenda viðskiptaaðila á óvart, þegar reikningar tóku að berast frá hinu nýja félagi stefnda þessa máls. Þann 8. júlí 1995 hafi stefndi óskað eftir því við stefnanda, að hann breytti nafni seljanda vikurfarms á flutningspappírum, en þá hafi farmur verið á leið út til Þýzkalands. Stefnandi hafi unnið samkvæmt samningnum árið 1995 án ágreinings við forráðamenn stefnda og með nákvæmlega sama hætti og áður, enda um það samkomulag milli Jóhanns Scheithers og stjórnarformanns stefnda. Samtals 32.252,25 tonn vikurs hafi verið flutt frá 8. júlí 1995 til 28. október s.á. að f.o.b. söluverði, kr. 38.617.826. Þann 15. febrúar 1996 hafi stefndi sagt upp samningnum við stefnanda.
Með hliðsjón af yfirtöku stefnda á umboðssamningnum hafi stefnandi ítrekað reynt að innheimta reikninga þá, sem gefnir voru út á stefnda. Engin viðbrögð hafi heldur verið við innheimtubréfum Lögheimtunnar ehf.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að stefndi, Snæfellsvikur ehf., hafi yfirtekið samning þann, sem Jóhann Scheither, síðar fyrirsvarsmaður stefnanda, gerði við Vikuriðnað hf. um umboðssölu á vikri til Þýzkalands. Sé það í fyrsta lagi grundvallað á samkomulagi aðila um að svo skyldi vera, í öðru lagi á því, að stefnandi hélt áfram störfum fyrir stefnanda, án nokkurra athugasemda, og í þriðja lagi á því, að stefndi hafi sérstaklega bréfleiðis sagt upp samningi við stefnanda.
Með hliðsjón af þeirri staðreynd, að stefndi hafi yfirtekið umboðssölusamninginn af Vikuriðnaði hf. sé kröfugerð fram sett með vísan til þess, að samningurinn framlengdist um tvö ár frá 1. desember 1995 að telja, þar sem honum var ekki sagt upp fyrir 1. september 1995.
Stefnufjárhæðin samanstandi af tveimur reikningum útgefnum af stefnanda. Varðandi lægri reikninginn, þá beri hann með sér, að gerður hafi verið reikningur af hálfu stefnanda fyrir þóknun vegna afgreiðslu skipa á árinu 1994, samtals kr. 125.000 og hafi verið búið að greiða inn á skuldina kr. 100.000. Þær kr. 25.000, sem standi eftir vegna skipa á árinu 1994 séu stefnda Snæfellsvikri ehf. óviðkomandi og sé því ekki gerð krafa um greiðslu. Á því sé hins vegar vakin athygli, að þóknun að fjárhæð kr. 250.000 sé vegna skipaafgreiðslna á árinu 1995. Staðfesti framlögð gögn þessa leiðréttingu. Stefnufjárhæðin sé því kr. 250.000 auk vsk. og kr. 803.186 með vsk. eða samtals kr. 1.114.436.
Varðandi kröfugerðina vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Sérstaklega er vísað til l. nr. 103/1992, sbr. 7. og 8. gr.
Varðandi vexti vísar stefnandi til III. kafla l. nr. 25/1987.
Varðandi málskostnað vísar stefnandi til 130. gr. l. nr. 91/1991.
Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 1. mgr. 36. gr. l. nr. 91/1991.
Í sókn ítrekar stefnandi málsástæður sínar og mótmælir atriðum og fullyrðingum í greinargerð stefnda. Ekki þykir ástæða til að rekja efni hennar hér.
Málavaxtalýsing stefnda
Stefndi kveður fyrirtækið Snæfellsvikur ehf. hafa verið stofnað í júní 1995, en félagið stundi vikurvinnslu og útflutning á vikri. Hluthafar séu tveir, Gunnar Geir Gunnarsson og Jón Valdimarsson. Félagið hafi flutt út vikur á árunum 1995 og 1996 á eigin vegum, að mestu til eins aðila í Þýzkalandi.
Jóhann Scheither muni hafa starfað með Vikuriðnaði hf., einkum Árna Þormóðssyni framkvæmdastjóra félagsins, að útflutningi á vikri samkvæmt samningi þeirra aðila, dags. 12. janúar 1993, sbr. dskj. nr. 3. Vikuriðnaður hf. hafi hætt starfsemi vegna sjóðþurrðar hjá félaginu í febrúar 1995 og hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta síðar á árinu 1995. Af hálfu stefnanda sé lagður fram samningur samkvæmt dskj. nr. 3 á milli Jóhanns Scheithers annars vegar og Vikuriðnaðar hf. hins vegar. Varði sá samningur í engu viðskipti aðila máls þessa.
Krafa stefnanda sé samkvæmt tveimur reikningum, annars vegar ódags. reikningi nr. 00161 að fjárhæð kr. 1.052.186, að frádregnum kr. 249.000, og hins vegar ódags. reikningi með ólæsilegu númeri að fjárhæð kr. 466.875, að frádreginni innborgun kr. 100.000 þann 20.01.1995. Stefndi, Snæfellsvikur ehf., hafi aldrei fengið umrædda reikninga í hendur eða séð þá fyrr en í ljósriti í máli nr. E-6399/1996. Reikningarnir séu ódagsettir, rangir og alger tilbúningur. Rétt sé að fjalla um þá nánar. Reikningur nr. 00161 sé orðaður svo:
"Umsamin þóknun vegna sölu á vikri til Gebr. Zieglowski frá Ólafsvík maí/júlí 1996
|
17.786.58 kg. á DM 21.50. DM 382.411.47 |
|
|
á gengi 44,20 - kr. 16.902.586 |
kr. 845.129 |
|
Vsk. 24,5% |
kr.207.057 |
|
Samtals þóknun |
kr. 1.052.186" |
Engin viðskipti hafi átt sér stað milli Arnarbakka ehf. og Snæfellsvikurs ehf. á árinu 1996. Sé því umræddur reikningur rangur og hreinn tilbúningur. Rétt sé að benda á, að útskýringar á reikningi séu engar, hvorki varðandi þóknun né meinta sölusamninga. Neðanmáls á reikningi þessum sé svofelldur texti: "Þóknun v. útflutnings frá Vikri hf. kr. 249.000."
Engin skýring eða útlistun sé á þessum frádráttarlið. Rétt sé að upplýsa, að Snæfellsvikur ehf. hafi gert samning við Vikur hf. um þóknun vegna útflutnings á vikri og sé sá samningur Arnarbakka ehf. óviðkomandi. Hugsanlegt sé að skilja það svo, að Arnarbakki ehf. hafi dregið sér þóknun Snæfellsvikurs ehf. frá Vikri hf. og sé umrædd reikningsfærsla tilefni til að kanna það sérstaklega hjá Vikri hf.
Hinn reikningurinn, sem sé forsenda kröfugerðar stefnanda, sé orðaður svo:
|
"Umsamin þóknun v. skipa 1994 5x25000.... |
kr.125.000 |
|
" " " " 10x25.000 |
kr.250.000 |
|
Vsk 24,5% |
kr.91.875 |
|
|
kr.466.875 |
|
Innborgun skv. kvittun 20.02.1995 |
kr.100.000 |
|
Eftirstöðvar |
kr.366.875" |
Reikningur þessi sé augljóslega falsaður, hann sé rangur efnislega, ódagsettur og fullyrða megi, að af hvorugum framlagðra reikninga hafi verið greiddur virðisaukaskattur, svo sem tilgreint sé á reikningunum.
Fyrirtækið Snæfellsvikur ehf. hafi verið stofnað í júní 1995, svo sem kennitala félagsins beri með sér, og hafi alls engin viðskipti átt við Arnarbakka ehf. eða aðra á árinu 1994. Félagið hafi hafið formlega starfsemi í júní 1995. Ókunnugt sé um tilgreinda innborgun 20.02.1995, en ljósrit af kvittun liggi frammi í málinu sem dskj. nr. 24. Ljóst sé hins vegar, að Snæfellsvikur ehf. hafi alls ekki greitt hina meintu greiðslu, en hins vegar hugsanlega Vikuriðnaður, sbr. áritun á kvittun. Kvittunin sé sögð vegna innborgunar sölulauna, en framlagður reikningur á dskj. nr. 4 sé hins vegar vegna meintrar umsaminnar þóknunar vegna skipa 1994.
Málsástæður stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að engin viðskipti hafi verið milli aðila málsins á grundvelli framlagðra gagna. Snæfellsvikur ehf. hafi hvorki átt viðskipti við stefnanda á árinu 1994 né á árinu 1996. Þá sé ljóst, að dómsskjal nr. 3, sem sé umboðssamningur milli aðila, varði í engu aðila máls þessa. Sé því um að ræða aðildarskort, sem leiða eigi til sýknu samkvæmt 2. tl. 16. gr. l. nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá sé ljóst af dskj. nr. 27, að heimild til málshöfðunar og umboð Sveins Andra Sveinssonar hdl. frá Arnarbakka ehf. sé ekki til staðar. Kröfuútlistun sé óljós og reynt sé að hagræða efni reikninganna með nýrri túlkun í stefnu.
Stefnandi hafi sönnunarfærslu um kröfur sínar á hendur stefnda. Af framlögðum gögnum sé ljóst, að kröfur stefnanda séu eigi á rökum reistar. Að gefnu tilefni sé rétt að upplýsa að Snæfellsvikur ehf. greiddi Arnarbakka ehf. þóknun fyrir umsýslu og aðstoð við sölu á vikri á árinu 1995. Séu engar kröfur gerðar þar að lútandi af hálfu Arnarbakka ehf. í máli þessu, enda engri skuld til að dreifa. Að gefnu tilefni beri nauðsyn til að upplýsa, að við athugun endurskoðanda á bókhaldi Snæfellsvikurs ehf. í nóvember 1996 hafi komið í ljós, að starfsmenn Arnarbakka ehf. höfðu dregið sér hluta af söluandvirði Snæfellsvikurs ehf. á vikri og muni skil eigi enn hafa farið fram. Muni starfsmenn Arnarbakka ehf. hafa látið hinn erlenda aðila greiða inn á reikning Arnarbakka ehf. og persónulega reikninga, en síðan skilað seint eða ekki andvirði útflutningsvöru. Snæfellsvikur ehf. hafi tilkynnt Arnarbakka ehf. munnlega og skriflega, sbr. dskj. nr. 8, að meðan skil á fjármunum hefðu eigi farið fram, yrðu engin frekari viðskipti milli aðila. Hafi borið nauðsyn til að tilkynna erlendum viðskiptavinum um þessa tilhögun og hafi svo verið gert. Engum viðskiptum hafi þannig verið til að dreifa milli aðila á árinu 1996 eða 1997.
Stefndi telji, að framsett kröfugerð í nafni stefnanda sé ófyrirleitin tilraun til ólögmætrar fjáröflunar og geri þá kröfu, að til þess verði litið við dómsúrlausn í málinu.
Af hálfu stefnda er vísað til reglna samninga- og kröfuréttar. Af hálfu stefnanda sé vísað í stefnu til l. nr. 103/1992 um umboðssöluviðskipti. Stefndi bendir á, að engum umboðssölusamningi sé til að dreifa, sbr. 13. gr. l. nr. 103/1992. Óhjákvæmilegt sé að benda á 1. mgr. 3. gr., 1. mgr.4. gr. og 1. mgr. 18. gr. sömu laga. Vaxtakröfu í stefnu er mótmælt sem ódómtækri en engin tilgreining er á til hvaða tíma krafist sé vaxta af stefnufjárhæð. Um málskostnað er vísað til 1. og 2. tl. 130. gr. og 131. gr. l. nr. 91/1991.
Af hálfu stefnda sé talið óhjákvæmilegt að leiðrétta eftirfarandi rangfærslur í stefnu:
1. Jóhann Scheither sé sagður hafa verið einn eigenda Arnarbakka ehf. og einar eða aðrar gerðir hafi við það miðazt. Það sé rangt, að Jóhann hafi verið eða sé hluthafi í Arnarbakka ehf.
2. Sigurður Sigurjónsson hrl. sé sagður hafa gegnt starfi framkvæmdastjóra Vikuriðnaðar hf. Það sé alrangt. Hvorki sé það með formlegum né óformlegum hætti.
3. Sigurður Sigurjónsson hrl. sé sagður hafa sent gögn um stofnun Snæfellsvikurs ehf. til Hlutafélagaskrár. Það sé rangt, en rétt sé, að gögnin voru samin á skrifstofu lögmannsins fyrir hluthafa.
4. "Hið nýja félag (Snæfellsvikur ehf.) yfirtók alla starfsmenn gamla félagsins (Vikuriðnaðar hf.) þ.á m. viðskiptasamband við Gebr. Zieglowski GmbH. Yfirtók félagið og hagnýtti sér þann umboðssölusamning sem fyrr um getur." Þetta sé allt alrangt. Engin starfsemi hafi verið yfirtekin af Snæfellsvikri ehf., en erlendir aðilar, þ.á m. Zieglowski hafi sótzt eftir vikurkaupum af Snæfellsvikri ehf.
5. Snæfellsvikur ehf. hafi verið útflytjandi á vikri, en Arnarbakki ehf. hins vegar aldrei, svo sem fullyrt sé í stefnu.
6. "Þann 25. febrúar 1996 sagði stefndi upp samningum við stefnanda." Þetta sé rangt. Enginn samningur hafi verið á milli aðila, heldur samstarf, sem stefndi treysti sér ekki til að viðhalda, m.a. vegna óheimillar og ólögmætrar meðferðar starfsmanns eða starfsmanna stefnanda á fjármunum stefnda.
IV.
Forsendur og niðurstaða
Rétt þykir að rekja gang málsins.
Fyrir dóminum gáfu skýrslu Gunnar Geir Gunnarsson stjórnarformaður Snæfellsvikurs, Jóhann Scheither, Árni Þormóðsson, Sigurður Sigurjónsson hrl. og Albert Rútsson.
Kröfu sína byggir stefnandi á samningi á dskj. nr. 3, dags. 12. janúar 1993, milli Jóhanns Scheithers, kt. 270640-2739, og fyrirtækisins Vikuriðnaðar hf, um umboðssölu þess fyrrnefnda fyrir þann síðarnefnda á vikri. Jóhann Scheither gerði síðan sölusamning við þýzka fyrirtækið Gebr. Zieglowski GmbH. um kaup á vikri. Í stefnu kemur fram, að Jóhann Scheither hafi á þessum tíma verið einn eigenda Arnarbakka hf., stefnanda máls þessa. Á öðrum stað í stefnu er Jóhann Scheither sagður hafa orðið fyrirsvarsmaður stefnanda síðar. Segir þar jafnframt, að allir reikningar vegna viðskiptanna hafi verið gerðir í nafni stefnanda.
Gunnar Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri Snæfellsvikurs ehf., skýrði svo frá fyrir dómi, að Arnarbakki hefði fengið greitt frá Snæfellsvikri þóknun fyrir vinnuna, sem byggðist á útfluttu magni. Arnarbakki hafi gert reikninga á Snæfellsvikur vegna þóknunar á árinu 1995 vegna sölu á vikri á sama ári. Peningar frá Zieglowski hafi farið gegnum Arnarbakka, sem gerði Snæfellsvikri reikning vegna þóknunar. Hann gat ekki svarað því, hvort sú þóknun hafi verið í samræmi við samning Jóhanns Scheithers við Vikuriðnað hf., en hann hafi litið svo á, að Jóhann hafi verið að vinna fyrir Arnarbakka á þeim tíma, sem Vikuriðnaður var með samninginn við Jóhann. Eftir að fyrirtækið Snæfellsvikur var stofnað hafi Jóhann unnið fyrir það, m.a. séð um að útvega skip og séð um pappírsvinnu. Sú vinna hafi hins vegar ekki verið á grundvelli áðurnefnds samnings Jóhanns og Vikuriðnaðar, heldur á grundvelli munnlegs samkomulags, en um hafi verið að ræða sams konar viðskipti og fyrir Vikuriðnað. Sérstaklega aðspurður kvaðst Gunnar Geir alltaf hafa talið, að Arnarbakki væri með samninginn á dskj. nr. 3 og að Jóhann Scheither hefði verið í vinnu hjá Arnarbakka. Hann talaði fyrst um, að samningurinn við Snæfellsvikur hefði verið verktakasamningur, en dró þá fullyrðingu til baka og kvað einungis hafa verið greitt samkvæmt munnlegu samkomulagi.
Jóhann Scheither skýrði svo frá m.a., að samningurinn við Vikuriðnað hefði verið gerður við sig persónulega að ósk forsvarsmanna Vikuriðnaðar, en hins vegar hefði hann unnið að samningnum sem starfsmaður Arnarbakka. Þegar Snæfellsvikur kom inn í málið hafi það gerzt þannig, að einhverju sinni, þegar hann var að senda farm út, þá var hann beðinn um að breyta nafni sendanda vikursins, þannig að hann væri á nafni Snæfellsvikurs en ekki Vikuriðnaðar. Annað hafi ekki breytzt og hafi viðskiptin að öðru leyti haldið óbreytt áfram. Sérstaklega aðspurður kvaðst hann ekki eiga umdeilda kröfu, heldur Arnarbakki. Hann staðfesti jafnframt að greiðslum hefði verið háttað á þann hátt sem Gunnar Geir Gunnarsson lýsti í framburði sínum, þ.e., að greiðslur hefðu borizt frá Þýzkalandi inn á reikning Arnarbakka, sem yfirfærði fjárhæðina til Snæfellsvikurs, að frádreginni þóknun Arnarbakka.
Með hliðsjón af framangreindum framburði Gunnars Geirs Gunnarssonar og Jóhanns Scheithers þykir upplýst, að efndir samkvæmt samningi þeim, sem gerður var á sínum tíma milli Vikuriðnaðar og Jóhanns Scheithers fóru fram af hálfu Jóhanns Scheithers í nafni og á vegum fyrirtækisins Arnarbakka hf. Enda þótt reikningsviðskipti hafi farið fram í nafni stefnanda, meðan Jóhann var einn eigenda þess fyrirtækis, verður ekki dregin sú ályktun, að fyrirtækið hafi yfirtekið réttindi og skyldur Jóhanns samkvæmt samningum hans við samningsaðila sinn. Ósannað er, að sérstakur samningur hafi verið gerður milli Arnarbakka og Snæfellsvikurs, eftir að síðarnefnda fyrirtækið yfirtók starfsemi Vikuriðnaðar hf., en þegjandi samkomulag virðist hafa verið um að Arnarbakki ehf. starfaði áfram fyrir hið nýja fyrirtæki og fengi greitt fyrir þjónustu sína í samræmi við áðurnefndan samning Jóhanns Scheithers og Vikuriðnaðar. Því til stuðnings eru óumdeildar staðhæfingar þess efnis, að stefnandi hafi þjónustað stefnanda og fengið greitt fyrir á árinu 1995. Stefnandi telst því réttur aðili málsins og á kröfur á hendur stefnda vegna sannanlega veittrar þjónustu fyrir fyrirtækið.
Reikningar þeir, sem krafið er greiðslu á, eru báðir ódagsettir. Verður nú fjallað um þá hvorn í sínu lagi:
Reikningur að fjárhæð kr. 366.875:
Í reikningi þessum kemur fram, að um sé að ræða umsamda þóknun vegna skipa á árinu 1994, 5x25.000, samtals kr. 125.000 og 10x25.000, samtals kr. 250.000, eða alls kr. 375.000 auk virðisaukaskatts kr. 91.875. Frá þessari fjárhæð dregst innborgun kr. 100.000, sem greidd var 20. febrúar 1995. Um þennan reikning segir í stefnu, að fyrri fjárhæðin og innborgunin sé vegna skipa á árinu 1994 og stefnda því óviðkomandi, en síðari fjárhæðin sé vegna skipa á árinu 1995, sem staðfest sé með framlögðum gögnum.
Af hálfu stefnda er reikningi þessum mótmælt sem fölsuðum og efnislega röngum.
Jóhann Scheither skýrði svo frá fyrir dómi, að þessi reikningur væri umsamin þóknun, sem ákveðin var strax á árinu 1994, þegar í ljós hafi komið að skipaumsýslan var meiri en menn höfðu gert sér grein fyrir. Þetta hafi verið samningur, sem gerður hafi verið við framkvæmdastjóra Vikuriðnaðar og stjórnarmann fyrir umsýslu á skipunum, en hans hafi aldrei verið getið í upprunalegum samningi.
Framangreint samkomulag er að finna í ljósriti á dskj. nr. 6 og er það dagsett 30. september 1994. Samkomulags þessa er í engu getið í stefnu og ekki á því byggt þar. Krafa þessi á sér ekki stoð í samningi Vikuriðnaðar og Jóhann Scheithers frá 12. janúar 1993. Því er ekki haldið fram í stefnu, að stefnandi hafi yfirtekið aðild Jóhanns Scheithers að þessu samkomulagi, eða að Snæfellsvikur hafi yfirtekið skyldur Vikuriðnaðar samkvæmt því. Þegar af þessum sökum ber að sýkna stefnda vegna aðildarskorts af þessari kröfu, en stefndi byggir sýknukröfu sína m.a. á aðildarskorti. Það er athugavert við málatilbúnað stefnanda, hvað varðar þennan lið kröfunnar, að í stefnu er ekki gerð grein fyrir þeim skipaferðum, sem þarna er verið að krefja þóknunar fyrir. Þá er tilvísun til stuðningsgagna óljós í stefnu, þótt unnt sé að glöggva sig á þeim með yfirlegu. Dómskjal nr. 23 sýnir farmskírteini vegna 10 skipaferða til Zieglowski á árinu 1995, sem munu vera grundvöllur þessa hluta kröfugerðarinnar. Eru átta þeirra á vegum Snæfellsvikurs hf., en tvær þeirra á vegum Vikuriðnaðar hf. Ekkert liggur fyrir um það í málinu, að Snæfellsvikur hafi yfirtekið skuldbindingar Vikuriðnaðar hf. gagnvart stefnanda eða Jóhanni Scheither.
Reikningur að fjárhæð kr. 803.186:
Umfjöllun um þennan kröfulið er af skornum skammti í stefnu. Samkvæmt reikningnum er um að ræða sölu á 17.786,58 kg af vikri til Þýzkalands í maí/júlí 1996, samtals að andvirði DEM 382.411,47 eða ísl. kr. 16.902.586 á gengi 44,20. Þóknun sú sem stefnandi reiknar sér er 5% af andvirði vörunnar, eða kr. 845.129. Ofan á þá fjárhæð leggst virðisaukaskattur, kr. 207.057. Frá heildarreikningsfjárhæðinni eru dregnar kr. 249.000, sem er þóknun frá Vikri hf. Er engin skýring á því í sóknargögnum, hvers vegna blandað er saman þóknun frá Vikri hf. og kröfu um þóknun á hendur Snæfellsvikri hf. á sama reikningi. Samkvæmt framburði Jóhanns Scheithers fyrir dómi, er krafan byggð á dskj. nr. 10, sem sýni, undir töluliðum 1-5, skipaferðir á vegum stefnda. Gunnar Geir Gunnarsson kannaðist við þessar skipaferðir fyrir dómi sem og farminn. Enn fremur kannaðist hann við að hafa verið staddur á fundi á Hótel Holti í nóvember 1995 ásamt þýzka aðilanum Ziegowski, Jóhanni Scheither og fleiri aðilum. Þar voru vikurmál rædd, léleg gæði o.fl. og jafnframt áframhaldandi sölumál.
Jóhann Scheither staðfesti að hafa verið á þessum fundi, og í framhaldi af honum hafi verið farið vestur á Snæfellsnes og gengið þar frá kaupum á farmi, sem þar var. Kvað hann farminn síðan hafa verið sendan utan á árinu 1996.
Gegn andmælum stefnda er ósannað, að umdeildur reikningur sé vegna sölu á farmi, sem stefnandi hafi komið á fyrir Snæfellsvikur hf., en fram kemur í gögnum málsins, að stefnandi sagði upp samstarfinu við stefnda þann 15. febrúar 1996. Ekki liggur fyrir, hver hlutur Vikurs hf. er í farminum. Engir samningar liggja fyrir eða gögn, sem sýna að stefnandi hafi komið að frágangi útflutningsskjala fyrir stefnda, sem var hluti af verkefnum þeim, sem umkrafin þóknun tók til, sbr. samning Jóhanns Scheithers og Vikuriðnaðar. Er því ekki hjá því komizt að sýkna stefnda jafnframt af þessum þætti dómkröfunnar.
Þar sem útivist varð af hálfu stefnda undir rekstri málsins dæmist málskostnaður ekki.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Snæfellsvikur ehf. skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Arnarbakka ehf. Málskostnaður fellur niður.