Hæstiréttur íslands

Mál nr. 369/2008


Lykilorð

  • Hjón
  • Skilnaðarsamningur
  • Fjárskipti
  • Meðlag


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. febrúar 2009.

Nr. 369/2008.

M

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

gegn

K

(Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)

 

Hjón. Skilnaðarsamningur. Fjárskipti. Meðlag.

M krafðist þess að samningur hans við K um skilnaðarkjör yrði felldur úr gildi. Var krafa M reist á því að samningurinn hefði verið bersýnilega ósanngjarn auk þess sem ákvæði hans um meðlag í formi eingreiðslu væri í andstöðu við ákvæði barnalaga nr. 76/2003. Hvorki var talið að lög bönnuðu að kveða á í samningi milli hjóna að meðlag umfram einfalt meðlag skyldi greiðast með fúlgufé né að aðstæður hefðu verið með þeim hætti að ógilda bæri samninginn á grundvelli 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 eða 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júlí 2008. Hann krefst þess að samningur málsaðila um skilnaðarkjör vegna lögskilnaðar, sem undirritaður var hjá Sýslumanninum í Reykjavík 19. júní 2006, verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og nánar er rakið í héraðsdómi réðu aðilar til lykta fjárskiptum sínum vegna lögskilnaðar með samningi undirrituðum hjá sýslumanni 19. júní 2006. Krafa áfrýjanda er á því reist að samningurinn hafi verið bersýnilega ósanngjarn auk þess sem ákvæði hans um meðlag í formi eingreiðslu sé í andstöðu við ákvæði barnalaga nr. 76/2003. Telur hann útreikninga í samningnum óskýra og beinlínis ranga og tengir það meðferð á eingreiðslu meðlags í tölulegri útfærslu skiptanna eins og hún birtist í samningnum. Leiði þetta til þeirrar niðurstöðu að í hlut áfrýjanda komi eignir að verðmæti 3.102.994 krónur en stefndu 17.925.610 krónur. Telur áfrýjandi að þessi mismunur eigi einkum rót sína að rekja til þess að eignarhluti hans hafi verið lækkaður um þá fjárhæð sem hann hafi tekið á sig vegna eingreiðslu viðbótarmeðlags og eignarhluti stefndu hækkaður að sama skapi.

Í 2. gr. samnings málsaðila var kveðið svo á að áfrýjandi skyldi greiða „tvöfalt lágmarksmeðlag“ með börnum þeirra til fullnaðs 18 ára aldurs þeirra. Þá segir: „Framangreint viðbótarmeðlag, (meðlag sem greitt er umfram eitt lágmarksmeðlag) með börnunum, allt fram til 18 ára aldurs þeirra, telst að fullu greitt með eingreiðslu að fjárhæð kr. 4.933.214,- sem tekið verður tillit til í fjárskiptum aðila. Fjárhæð viðbótarmeðlags miðast við kr. 17.249,- eins og það ákvarðast nú af Tryggingastofnun ríkisins og reiknast til 18 ára aldurs þeirra.“ Ekki er ágreiningur um útreikning á fjárhæð eingreiðslunnar. Í hinum áfrýjaða dómi er tekin upp töluleg útfærsla á skiptum í skilnaðarsamningnum. Þar kemur fram að framangreind fjárhæð 4.933.214 krónur er tekin af eignarhluta áfrýjanda og færð í eignarhluta stefndu. Þannig er áfrýjandi látinn inna þessa greiðslu af hendi með því að eftirláta stefndu samsvarandi verðmæti við eignaskiptinguna. Er ekkert við þessa reikningslegu útfærslu að athuga en til úrlausnar kemur hér síðar hvort taka beri til greina málsástæður áfrýjanda fyrir því að ógilda beri þessa ráðstöfun.

Í 6. gr. samningsins er vísað til 110. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og sagt að samkomulag sé um að „víkja frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga með þeim hætti að konan fær kr. 2.478.094,- meira í sinn hlut.“ Ennfremur segir að maðurinn geri sér grein fyrir þessum mun á eignaskiptum og samþykki hann með undirritun sinni á samninginn en með því sé hann að horfa til hagsmuna barna sinna. Í tölulegri útfærslu á þessu samningsákvæði hafa orðið þau mistök að fjárhæðinni er með fullri krónutölu bætt við eignarhluta stefndu en jafnframt dregin frá eignarhluta áfrýjanda með sömu fjárhæð. Þetta veldur því að mismunurinn á milli þeirra við eignaskiptinguna verður tvöföld fjárhæðin eða 4.956.188 krónur en ekki sú fjárhæð sem um var samið. Áfrýjandi hefur ekki sérstaklega nefnt þessa skekkju til stuðnings kröfu sinni um að samningurinn verði felldur úr gildi, heldur einungis vísað með almennum hætti til þess að niðurstaða eignaskiptingar í honum sé ósanngjörn.

II

Í 1. mgr. 19. gr. eldri barnalaga nr. 20/1992 var kveðið sérstaklega á um að inna mætti af hendi fúlgu til þess að fullnægja framfærsluskyldu með börnum og skyldi þá varðveita fúlguféð með þeim hætti sem fyrir var mælt almennt um fé ófjárráða í lögræðislögum eða í verðtryggðum ríkisskuldabréfum. Slíkt ákvæði er hins vegar ekki að finna í núgildandi barnalögum, en í athugasemdum með frumvarpi að þeim kom fram að samkvæmt mati sifjalaganefndar samrýmdist það ekki því markmiði sem meðlagsgreiðslur hafa að þær væru inntar af hendi með fúlgu. Því væri ákvæðið fellt úr lögum. Var í athugasemdunum talið í samræmi við þessi sjónarmið að foreldrum væri óheimilt við fjárskipti sín á milli að semja svo um að það foreldri sem barn býr hjá fái aukinn hlut í eignum í stað meðlags með barni. Með sama hætti væri foreldrum óheimilt að semja svo um að eign færist á nafn barns í stað þess að með því sé greitt meðlag.

Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. barnalaga er eigi heimilt að semja um lægra meðlag en barnalífeyri nemur eins og hann er ákveðinn á hverjum tíma samkvæmt lögum um almannatryggingar. Nefnist það einfalt meðlag í lögunum. Þá segir í 1. mgr. 63. gr. laganna að meðlag skuli greiða mánaðarlega fyrir fram nema annað sé löglega ákveðið. Ákvæði 14. gr. og 17. gr. eldri barnalaga höfðu að geyma sams konar reglur. Í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, áður 59. gr. laga nr. 117/1993, er svo að finna ákvæði um skyldu Tryggingastofnunar ríkisins til að annast greiðslu einfalds meðlags. Samkvæmt þessu verður talið að lögin kveði á um skyldu til mánaðarlegrar fjárgreiðslu einfalds meðlags. Barnalög banna ekki ótvírætt samninga um að greiðsla viðbótarmeðlags verði innt af hendi í einu lagi. Í ljósi meginreglunnar um samningsfrelsi hjóna til að ráðstafa eignum sínum við fjárslit vegna skilnaðar hefði þurft að kveða á um slíka reglu í lögum hafi ætlunin verið að taka hana upp. Athugasemdir með frumvarpi að lögunum geta ekki talist banna slíka samninga. 

III

Samkvæmt framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður talið að aðilar hafi mátt semja um fyrirkomulag meðlagsgreiðslna eins og þau gerðu með 2. gr. umþrætts samnings. Ákvæði 67. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 um varðveislu og ávöxtun eigna ófjárráða manns breyta ekki þessari niðurstöðu um gildi samnings aðila.

Við mat á ákvæðum 6. gr. samnings aðila um tölulega útfærslu fjárskipta milli þeirra verður auk framanritaðs að líta til þess að skipting eigna er þar tilgreind í tölum þannig að skýrt er hvaða fjárhæð kom í hlut hvors aðila um sig. Þá verður einnig haft í huga að við samningsgerðina gerði stefnda ekki kröfu samkvæmt 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga til hlutdeildar í lífeyrisréttindum áfrýjanda, en fram er komið að þau voru umtalsverð, þó að útreikningur á þeim liggi ekki fyrir með skýrum hætti.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sýknu stefndu af kröfu áfrýjanda og um málskostnað.

Eftir þessum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, M, greiði stefndu, K, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl 2008.

Mál þetta sem dómtekið var 11. mars sl., er höfðað með birtingu stefnu 6. júní 2007.

Stefnandi er M, búsettur í […].

Stefnda er K, […]götu […], Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að samningur um skilnaðarkjör vegna lögskilnaðar sem undirritaður var hjá fulltrúa sýslumannsins í Reykjavík 19. júní 2006, verði felldur úr gildi að öllu leyti.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaður úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Málavextir.

Aðilar máls þessa gengu í hjúskap 22. júní 1996. Þau eignuðust tvo drengi á hjúskapartíma, annan fæddan árið 1995 og hinn fæddan árið 2005.

Stefnda óskaði eftir skilnaði við stefnanda í apríl 2006. Fyrir liggur í málinu að stefnandi leitaði til lögmanns, Bryndísar Guðmundsdóttur hdl., til að gera samning vegna skilnaðarkjara. Einnig liggur fyrir að stefnda leitaði ekki sjálf til lögmanns vegna þessa.

Lagðar hafa verið fram í málinu vaktaskrár stefnanda vegna maí og júní 2006, þar sem fram koma fjarvistir stefnanda frá vinnu þá mánuði, en stefnandi starfar sem flugstjóri og er búsettur í […]. Einnig liggur frammi vottorð Snorra Ingimarssonar um andlegt ástand stefnanda á þeim tíma er samningur um skilnaðarkjör var gerður.

Aðilar lögðu fram samning um skilnað og skilnaðarkjör hjá sýslumanninum í Reykjavík 19. júní 2006 og undirrituðu hann að fulltrúa sýslumanns viðstöddum. Var leyfi til lögskilnaðar gefið út í framhaldi af því en stefnandi krafðist lögskilnaðar vegna hjúskaparbrots stefndu, á grundvelli 39. gr. laga 31/1993. Samkvæmt skilnaðarsamningi skyldi forsjá barnanna vera sameiginlega í höndum beggja en lögheimili þeirra vera hjá stefndu. Í sérstöku ákvæði um meðlagsgreiðslur segir að faðir greiði móður tvöfalt lágmarksmeðlag með börnunum A og B frá 1. júní 2006 til fullnaðs 18 ára aldurs þeirra. Viðbótarmeðlag þetta með börnunum teljist að fullu greitt með eingreiðslu að fjárhæð 4.933.214 krónur, sem tekið verði tillit til í fjárskiptum aðila. Fjárhæð viðbótarmeðlags miðist við 17.249 krónur, eins og það ákvarðist við undirritun samningsins, af Tryggingastofnun ríkisins og reiknist til 18 ára aldurs barnanna. Þá segir í ákvæði þessu að þar sem einfalt viðbótarmeðlag með börnunum sé að fullu greitt með greiðslu þessari, geti móðir ekki sótt um aukið meðlag síðar meir úr hendi föðurins án þess að tekið sé tillit til þess að hann hafi þegar greitt einfalt viðbótarmeðlag til framfærslu barnanna til 18 ára aldurs þeirra. Einnig segir þar að faðir geti ekki gert tilkall til endurgreiðslu á viðbótarmeðlagi þó svo að aðstæður hans kunni að breytast, s.s. vegna launalækkunar, atvinnuleysis, náms, veikinda eða annarra atriða. Um eignaskipti er ákvæði í 6. gr. samningsins. Þar segir:

Eignir umfram skuldir skv. ofangreindu eru kr. 21.028.604 kr., sbr. 4. og 5. gr. samningsins og helmingur af því er kr. 10.514.302, sbr. ákvæði 6. og 103. gr. hjskl. nr. 31/1993. Með vísan til 110. gr. hjskl. nr. 31/1993 er samkomulag um að víkja frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga með þeim hætti að konan fær kr. 2.478.094 meira í sinn hlut. Maðurinn gerir sér grein fyrir þessum mun á eignarskiptum og samþykkir hann með undirritun sinni á samninginn en með því er hann að horfa til hagsmuna barna sinna.

Aðilar eru sammála um skiptingu á innbúi. Hvor aðili tekur utan skipta persónulega muni og gjafir sem hafa persónulegt gildi fyrir viðkomandi.

Aðilar eru sammála um að skipting eigna og skulda sé eftirfarandi:

1)      M afsalar sér 50% hlut í eigninni […]götu […], Reykjavík til K. K mun taka að sér og ábyrgjast greiðslu áhvílandi veðskulda.

2)      Bifreiðin […] kemur í hlut mannsins. Hann yfirtekur áhvílandi lán á bifreiðinni.

3)      Inneign hjá Agli Árnasyni kemur í hlut konunnar.

4)      Eignarhlutir í fyrirtækjunum […] ehf. og […] ehf. koma í hlut M.

5)      Hestar og búnaður vegna þeirra koma í hlut konunnar.

6)      Innbú kemur í hlut konunnar að mestu leyti

7)      Hlutabréf í Avion Group koma í hlut konunnar

8)      Bankareikn. í […] kemur í hlut mannsins

9)      Konan ábyrgist greiðslu yfirdráttarláns á reikn. […]

10)   Maðurinn ábyrgist greiðslu lána í […].

11)   Konan ábyrgist greiðslu yfirdráttarláns á reikn. […]

12)   Maðurinn ábyrgist greiðslu yfirdráttarláns í Sparisjóði Kópavogs.

13)   Profit Share og endurgreiðsla frá skatti í […] kemur í hlut mannsins.

Í samræmi við framangreint verða skipti því eins og hér segir

Hlutur K:

Fasteignin […]götu […]..............................kr.    41.500.000

Inneign hjá Agli Árnasyni...................................kr.       462.393

Hestar og búnaður..............................................kr.        500.000

Innbú...................................................................kr.      1.000.000

Hlutabréf í Avion Group....................................kr.           48.706

Áhvílandi lán á […]götu..........................(kr.   24.285.931)

Yfirdráttarlán....................................................(kr.         999.558)

Viðbótarmeðlagsgreiðsla.................................(.kr.      4.933.214)

Yfirdráttarlán reikn. […].................(kr.         300.000)

Samtals.............................................................kr.       12.992.396

K  fær umfram M.............................. (kr.         2.478.094)

Samtals...........................................................      kr.         10.514.302

Hlutur M.

Vegna hluta af hans eignarhluta,

gr. viðbótarmeðlag....................................... kr.          4.933.214

Bifreiðin […].......................................... kr.          3.083.000

Bílalán v/ […] .........................................(kr.        1.678.414)

Eignarhlutar í […] ehf. og

[…] ehf.................................................kr.        4.300.000

Bankareikn. í […].........................................kr             285.719

Yfirdr.lán í […]...........................................(kr.         1.335.795)

Lán í […]................................................... (kr.          2.120.867)

Lán í […]...................................................(kr.              848.159)

Yfirdráttarlán í Sparisj. Kópavogs...........(kr.              200.000)

Profit Share (13.000 Eur).........................kr.            1.236.690

Inneign hjá skatti í […] (4.000 Eur)         kr.               380.820

Samtals                                                     kr.             8.036.208

Það sem K  fær umfram M........kr.               2.478.094

Samtals..................................................kr.              10.514.302

Skuld stefnanda við LÍN var haldið utan skipta.

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort stefnandi geti krafist ógildingar á framangreindum samningi þar sem hann hafi verið bersýnilega ósanngjarn þegar til hans var stofnað.

Stefnandi, M, kom fyrir dóm og kvaðst hafa leitað til tveggja annarra lækna vegna vanlíðunar á þeim tíma er skilnaðarsamningur var gerður, en hafi ekki viljað að svo komnu máli gera mikið úr veikindum sínum, þar sem flugskírteini hans hafi verið í húfi. Hann kvaðst hafa leitað eftir aðstoð Bryndísar Guðmundsdóttur lögmanns vegna eignaskipta í kjölfar skilnaðarins, en stefnda hafi sagt að þau þyrftu enga aðstoð.

Spurður um tildrög þess að farin var sú leið að stefnandi gerði upp viðbótarmeðlag með eingreiðslu kvað stefnandi að eina leiðin fyrir stefndu til að halda íbúðinni hefði verið sú  að stefnandi gerði upp viðbótarmeðlagið með þessum hætti.

Stefnda, K, kom fyrir dóm og kvað þau bæði hafa borið hag drengjanna fyrir brjósti við ákvörðun um skiptingu eigna.

Hún kvaðst hafa fengið send drög að skiptingu eigna frá lögmanni stefnanda, Bryndísi, en eftir að hún hefði sent stefnanda í tölvupósti einstakar óskir varðandi skiptingu, hefði hann beðið hana að vera í beinu sambandi við lögmanninn.

Hún kvað stefnanda hafa komið fram með þá hugmynd að greiða viðbótarmeðlag í eingreiðslu og hefði Bryndís sett ákvæði þess efnis inn í samning um skilnaðarkjör. Hún kvaðst líta svo á að með þessu ákvæði tæki hún á sig að tryggja framfærslu drengjanna sem næmi viðbótarmeðlagi.

Hún kvað sérstaklega hafa verið rætt um ákvæði þetta hjá sýslumanni og hefði fulltrúi sýslumanns gert þeim grein fyrir að þetta væri ekki hefðbundið, en væri leyfilegt þar sem um viðbótarmeðlag væri að ræða.

Vitnið, Snorri Ingimarsson geðlæknir, kvað stefnanda hafa borið hag barna aðila mjög fyrir brjósti við skilnaðinn. Hann kvað að stefnanda hefði ekki liðið vel í kjölfar skilnaðarins, en hann hefði komið eðlilega fyrir, verið málefnalegur og skýr í hugsun. Hann kvaðst ekki minnast þess að stefnandi hafi sagt að stefnda hefði í hótunum við hann eða beitti hann þrýstingi. Þá kvað vitnið að sér hefði ekki þótt nein ástæða til að hvetja stefnanda til að taka sér veikindaleyfi, þar sem hann hafi verið fullkomlega rauntengdur og rólegur, en augljóslega viðkvæmur, þar sem skilnaðurinn hefði reynst honum erfiður.

Vitnið, Bryndís Guðmundsdóttir héraðsdómslögmaður, kvað aðdraganda að samningi um skilnaðarkjör hafa verið þann að stefnandi hafi óskað eftir aðstoð vegna hjónaskilnaðar. Þau hafi farið yfir málin í sameiningu og hafi vitnið gert drög að samningi og sent til stefnanda. Upphaflega hafi vitnið verið eingöngu í samskiptum við stefnanda, en fljótlega hafi hún farið að hafa samskipti við stefndu. Vitnið kvað að sig rámaði í að stefnda hefði sent henni póst að beiðni stefnanda.  

Hún kvað tildrög þess að eingreiðsla viðbótarmeðlags hafi verið sett inn í skilnaðarsamning hafa verið þau, að upphaflega hafi stefnandi viljað að allt meðlag yrði greitt með eingreiðslu. Hún hafi tjáð stefnanda að einungis væri unnt að semja um eingreiðslu viðbótarmeðlags, en ekki skyldumeðlags. Vilji stefnanda hafi verið að stefnda héldi fasteign þeirra, með hagsmuni barna aðila í huga og hafi því verið fundin sú leið sem farin var, að viðbótarmeðlag yrði greitt með eingreiðslu og kæmi inn í uppgjör vegna fjárskipta. Vitnið kvað tillögu um eingreiðslu viðbótarmeðlags hafa komið frá stefnanda sjálfum og hann hafi haft ákveðnar hugmyndir að skiptingu eignanna. Vitnið kvað stefnanda upphaflega hafa leitað til hennar sem lögmanns, en hún hefði sent drög samningsins til beggja aðila. Þá kvað vitnið reikning vegna lögmannsaðstoðar hafa verið sendan á stefnanda. Vitnið kvað samkomulag hafa verið milli aðila að LÍN lánum yrði haldið utan skipta.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að fjárskiptasamningur hafi verið bersýnilega ósanngjarn þegar til hans var stofnað. Stefnandi hafi verið undir miklu andlegu álagi þegar samningur var gerður vegna aðdraganda skilnaðar og mikils þrýstings af hálfu stefndu. Hafi hann leitað til geðlæknis vegna vanlíðunar sinnar á tímabilinu en stefnandi hafi verið óvinnufær allan maímánuð.

Telji stefnandi að verulega hafi hallað á sig við fjárskipti aðila á milli og að hann hafi ekki haft neina yfirsýn yfir málið vegna andlegs álags og þrýstings af hálfu stefndu.

Það sem valdi skekkju í samningnum og geri hann bersýnilega ósanngjarnan sé að viðbótarmeðlagsgreiðsla sé tekin inn í fjárskipti milli aðila sem skuld stefndu, til lækkunar á hennar hlut við skiptin, og samningi stillt þannig upp að hún fái í sinn hlut umfram stefnanda 2.478.094,00 krónur, en viðbótarmeðlag sé talið sem eign stefnanda. Sé  þessi niðurstaða augljóslega röng enda muni miklum mun meira á útkomu fjárskipta aðila á milli, þannig að sé ekki litið til meðlagsgreiðslna fái stefnandi í sinn hlut hreina eign 3.102.994,00 krónur en stefnda 17.825.610,00 krónur. Stefnda fái því í sinn hlut 14.822.616,00 krónur umfram stefnanda. Hugsanlega sé talan hærri þar sem ekki sjáist af samningi hvort hlutabréf í Avion Group séu á nafnverði eða markaðsverði, enda ekkert gengi gefið upp. Að auki kveði samningur á um ýmsar frekari greiðslur stefnanda til stefndu.

Í reynd fái stefnandi í sinn hlut bifreið, hlutabréf í einkahlutafélagi, bankareikning og skuldir en stefnda fái einbýlishús, innbú, hesta, hlutabréf o.fl. Halli því verulega á stefnanda í fjárskiptum aðila. Er upptalning eigna og skulda í samningnum óskiljanleg þar sem meðlagsgreiðslur stefnanda til stefndu teljast eign hans en sami liður teljist til skuldar hjá stefndu, til lækkunar eignarhluta hennar. Kveður stefnandi að þessi háttur sé ekki í samræmi við ákvæði barnalaga um að meðlag teljist eign barns og að ekki eigi að fjalla um meðlög með börnum í tengslum við fjárskipti aðila á milli.

Þá telji stefnandi að ógilda beri samninginn vegna ákvæða hans um meðlagsgreiðslur en óheimilt sé að ákveða meðlag með börnum í formi eingreiðslu til stefndu með þeim hætti sem samningur segi til um. Sé tilgangur meðlagsgreiðslna að tryggja framfærslu barna og því beri að greiða þau mánaðarlega fyrir fram og skuli meðlagi varið í þágu barns.           

Þá sé ekki gengið fá meðlagsgreiðslunni í samræmi við þá grundvallarreglu að meðlag sé eign barnsins, þannig að það nýtist börnunum, og ekki gengið frá því sem eign barna og þar með í samræmi við reglur um vörslu á fé ólögráða einstaklinga. Beri að aðskilja meðlagsgreiðslur frá öðrum ákvæðum skiptasamnings enda lúti meðlagsgreiðslur öðrum lögmálum en fjárskipti aðila að öðru leyti.

Ákvæði í samningnum um að stefnandi geti ekki krafist endurgreiðslu meðlags standist ekki lög og beri því að fella það úr gildi þegar af þeirri ástæðu. Slíkar yfirlýsingar hafi ekkert skuldbindingargildi í sifjarétti.          

Stefnandi byggir kröfu sína á 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 en frestur samkvæmt ákvæðinu hafi tekið að líða við útgáfu lögskilnaðarleyfis þar sem skilnaður að borði og sæng hafi ekki verið undanfari lögskilnaðar. Telur stefnandi skilyrðum greinarinnar fullnægt þegar samningur er skoðaður í heild sinni, auk þess sem meðlagsþáttur samningsins sé í andstöðu við barnalög nr. 76/2003.

Hljóti ólögmætur samningur að teljast bersýnilega ósanngjarn þegar til hans var stofnað auk þess sem líta verði til aðdraganda skilnaðar og ástands stefnanda þegar samningur var gerður.

Til vara byggir stefnandi á 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Málskostnaðarkrafa stefnanda byggir á XXI. kafla laga 91/1991, sérstaklega 130. gr., en krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggir á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðisaukaskatt vegna þjónustu sinnar. Stefnandi máls þessa er ekki virðisaukaskattskyldur og er honum því nauðsyn að fá skattinn tildæmdan úr hendi stefndu.

Málsástæður og lagarök stefndu.

Stefnda mótmælir því að fjárskiptasamningur aðila hafi verið bersýnilega ósanngjarn þegar til hans var stofnað auk þess sem stefnandi hafi verið undir miklu andlegu álagi þegar samningurinn var gerður vegna aðdraganda skilnaðarins. Fyrirliggjandi séu gögn í málinu sem staðfesta andlegt ástand stefnanda. Samningur hafi að öllu leyti verið eins og gera megi ráð fyrir og tíðkast hjá hjónum sem skilja. Aðdragandi hafi verið að skilnaðinum eins og stefnda hafi lýst fyrir stefnanda í bréfi þegar að skilnaði kom. Snorri Ingimarsson geðlæknir lýsi andlegu ástandi stefnanda í vottorð sínu og staðfesti að hann hafi verið ágætlega á sig kominn. Stefnandi hafi haft frumkvæði að því að leita til lögmanns. Hann hafi haft lögmanninn sér við hlið þegar skilnaðarsamningur var gerður. Eins og komi fram í tölvupóstum hafi samningur um fjárskipti verið settur á blað með aðstoð lögmanns stefnanda í júnímánuði 2006. Í þeim mánuði hafi stefnandi verið við vinnu allan mánuðinn samkvæmt vaktaplani.

Ákvæði 95. gr. hjúskaparlaga eigi ekki við í tilviki aðila enda hafi stefnandi ekki sýnt fram á að fjárskiptasamningur aðila hafi verið ,,bersýnilega ósanngjarn“ á þeim tíma er til hans var stofnað. Fullyrðingar stefnanda í stefnu séu órökstuddar og vanreifaðar og hafi stefnandi því ekki sýnt fram á með nokkru móti að skilyrði framangreinds lagaákvæðis séu til staðar. Allur útreikningur í stefnu sé óskiljanlegur. Þá séu beinlínis rangfærslur í stefnu, svo sem að stefnda hafi fengið einbýlishús þeirra í sinn hlut. Um var að ræða íbúð og bílskúr og var verðmæti hennar metið af fasteignasala áður en uppgjör fór fram. Upplýst er að hlutabréf sem nefnd eru í Avion group eru talin upp á markaðsverði og var báðum aðilum það ljóst við gerð samningsins. Skipti aðila í fjárskiptasamningi hafi verið jöfn og sanngjörn. Aðilar leituðust við að haga skiptum þannig að hvort tæki í sinn hlut við skiptin þær eignir sem þjónuðu hagsmunum hvors um sig. Þá hafi stefnda enga kröfu gert um greiðslu frá stefnanda samkvæmt 104. gr. hjúskaparlaga vegna uppsafnaðra gríðarlegra réttinda hans í lífeyrissjóði sem honum safnaðist á meðan þau voru í hjónabandi. Slíkt sé þó ekki óalgengt hjá hjónum í sömu stöðu og aðilar máls þessa. Bæði stefnandi og stefnda höfðu hagsmuni barnanna að leiðarljósi þegar þau gengu frá skilnaðarsamningi sínum eins og bersýnilega komi í ljós við lestur hans. Stefnandi sé verulega tekjuhærri en stefnda og hafi dvalið langdvölum erlendis allan hjúskapartíma aðila.

Í áðurnefndu bréfi stefndu til stefnanda sem hún sendi honum þann 18. apríl 2006 lýsi hún því að stefnandi eigi sitt heimili í […] og hafi næga peninga. Stefnda hafi verið mun tekjulægri en stefnandi á því tímamarki. Augljóst sé af tölvupósti stefnanda til lögmanns hans að honum var í mun að reyna að ganga þannig frá hlutum að hann gerði mál sem mest upp við stefndu og lyki öllum greiðslum til hennar, en í tölvupóstinum megi ráða að hann hafði lagt til við lögmanninn að allt meðlag hans í framtíðinni vegna barna aðila yrði gert upp um leið og aðrir fjárhagslegir þættir. Lögmaður hans lýsi því hins vegar fyrir honum að ekki sé heimilt að greiða lágmarksmeðlag í eingreiðslu fyrir fram. Niðurstaða þessa hafi verið sú að stefnda hafi fallist á að taka inn í fjárskiptasamning aðila fjárhæð sem reiknuð var út eins og stefnandi væri að greiða henni viðbótarmeðlag til 18 ára aldurs barna þeirra. Með því að samþykkja það að taka fjárhæðina inn í útreikning uppgjörs tók stefnda ábyrgð á framfærslu barnanna sem nam viðbótarmeðlagi frá föður. Með þessu fyrirkomulagi gátu aðilar tryggt að stefnda og börn aðila gætu búið í húsnæði sem hentaði fjölskyldustærð þeirra eins og íbúðin sem þau bjuggu í á þessu tímamarki og búa enn í. Þá hafi það fyrirkomulag verið mun hentugra heldur en að hún hefði hugsanlega þurft að taka lán til að greiða stefnanda fjárhæðina.

Allur útreikningur í stefnu sé óskiljanlegur og honum mótmælt sem slíkum og þar með órökstuddum. Sérstaklega er mótmælt fullyrðingu stefnanda um að skilnaðarsamningur aðila sé ekki í samræmi við ákvæði barnalaga um að meðlag teljist eign barns. Það hafi alla tíð legið ljóst fyrir af hálfu stefndu að við skilnað hafi hún tekið að sér ábyrgð á framfærslu barnanna fyrir stefnanda.

Að síðustu sé rétt að tiltaka að í samningi sé ákvæði um að stefnandi skuli greiða helming leikskólagjalds vegna yngra barns aðila en stefnandi hafi aldrei greitt nokkuð af þessu frá því að barnið hætti á einkareknum leikskóla. Stefnandi hafi greitt samkvæmt þessu ákvæði samningsins í byrjun en stefnda hafi ekki gert kröfu til að hann greiddi það frá framangreindu tímamarki. Stefnda hafi því greitt þetta sjálf.

Stefnda mótmælir því að forsendur 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 séu til staðar eða að mögulegt sé að beita ákvæðinu til ógildingar á skilnaðarsamningi aðila. Fullyrðing stefnanda sé með öllu órökstudd.

Málskostnaðarkröfu stefnanda er mótmælt en málskostnaðarkrafa stefndu styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum númer 50/1988. Stefnda er ekki virðisaukaskattskyld og ber henni því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda.

Niðurstaða.

Aðilar máls þessa gerðu með sér samning um fjárskipti vegna skilnaðar, sem undirritaður var í viðurvist fulltrúa sýslumannsins í Reykjavík 19. júní 2006. Í kjölfar þess var gefið út leyfisbréf til skilnaðar.

Stefnandi hefur krafist þess að samningur um skilnaðarkjör verði ógiltur að öllu leyti og heldur því fram að verulega halli á hann við fjárskipti vegna skilnaðarins og að hann hafi ekki haft neina yfirsýn yfir málið vegna álags og þrýstings af hálfu stefnda.

Ljóst er af gögnum málsins að stefnandi hefur borið nokkru minna úr býtum en stefnda við skiptin og að um nokkurt frávik frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga að ræða, enda er sérstakt ákvæði um það í 6. gr. samningsins, að vikið sé frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga á tiltekinn hátt og að stefnandi hafi gert sér grein fyrir því.

Við mat á því hvort samningur vegna fjárskipta við skilnað hjóna teljist bersýnilega ósanngjarn og því unnt að fella hann úr gildi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga, verður þó ekki eingöngu litið til hlutlægs mælikvarða um verðmæti þess búshluta sem hvort hjóna ber úr býtum, heldur verður jafnframt að horfa til annarra atvika, svo sem aðdraganda að gerð samningsins og stöðu aðila.

Vitnið, Snorri Ingimarsson geðlæknir, sem stefnandi leitaði til um það leyti er aðilar gengu í gegnum skilnað og sömdu um skilnaðarkjör, kvað stefnanda hafa verið rólegan, málefnalegan og rauntengdan í viðtölum við lækninn. Hann kvaðst hafa merkt það að stefnandi bæri mjög hag drengjanna fyrir brjósti og vildi að sem minnst röskun yrði á þeirra högum í kjölfar skilnaðarins. Þá kvað hann að sér hefði ekki þótt ástæða til að leggja að stefnanda að hann tæki sér veikindafrí. Jafnframt kvaðst hann ekki minnast þess að stefnandi hefði sagt stefndu hafa beitt sig þrýstingi við fjárskiptin, eða hafa haft í hótunum við hann.

Samkvæmt framangreindum vitnisburði læknisins, sem og framlögðu læknisvottorði, verður ekki fallist á að sönnur hafi verið færðar fyrir því að andlegt ástand stefnanda hafi verið með þeim hætti að hann hafi ekki gert sér grein fyrir efnisatriðum samningsins. Vaktaskrá sem stefnandi hefur lagt fram til stuðnings fullyrðingum um að hann hafi þurft að taka sér veikindafrí í maí og júní 2006, rennir heldur ekki fullnægjandi stoðum undir fullyrðingar stefnanda um að hann hafi verið frá vinnu á þessum tíma vegna bágs andlegs ástands á þeim tíma.

Þá er fram komið í málinu að stefnandi leitaði til lögmanns, Bryndísar Guðmundsdóttur, vegna gerðar samnings um skilnaðarkjör og naut aðstoðar hennar við gerð samningsins. Samkvæmt framburði hennar fyrir dómi komu tillögur að fjárskiptum frá stefnanda og voru tillögurnar bornar undir stefndu, sem jafnframt bar fram ákveðnar óskir og gerði ákveðnar kröfur varðandi fjárskiptin. Kvað hún samkomulag hafa verið með aðilum um endanleg ákvæði samningsins. Þá hafi tillaga um viðbótarmeðlag sem stefnandi greiddi með eingreiðslu komið frá stefnanda og samkomulag orðið um að ganga frá samningi með þessum hætti, til að tryggja að sem minnst röskun yrði á stöðu og högum barna aðila. Tölvupóstskeyti frá lögmanninum til stefnanda staðfesta og að vilji stefnanda stóð til að gera upp allt meðlag í formi eingreiðslu. Jafnframt staðfesti lögmaðurinn að samkomulag hefði orðið með aðilum um að haldið væri utan skipta láni sem stefnandi tók hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Það er mat dómsins að þótt fallast megi á að óvenjulegt sé að ákveða greiðslu viðbótarmeðlags með þeim hætti sem aðilar gerðu í samningi sínum, sé það ekki óheimilt í ljósi þess samningafrelsis sem hjón hafa til að ráðstafa eignum sínum og skuldum við fjárslit vegna skilnaðar. Um viðbótarmeðlag er að ræða og ósk um að greiða það með þeim hætti sem gert var kom frá stefnanda sjálfum og má ráða af gögnum málsins og framburði aðila og vitna að stefnandi hafi valið þessa leið til þess að létta undir með stefndu, svo að sem minnst röskun yrði á búsetu hennar og barna aðila. Stefnda samþykkti þessa ráðstöfun og virðist fullur einhugur hafa ríkt með aðilum um þessa ráðstöfun á þeim tíma er samningur var undirritaður.

Þegar allt framangreint er virt og einkum litið til þess að tillaga um eingreiðslu viðbótarmeðlags kom frá stefnanda sjálfum og hann naut aðstoðar lögmanns við skiptin, er ekki talið að stefnandi hafi sýnt fram á að samningur aðila um fjárskipti vegna skilnaðar hafi bersýnilega verið ósanngjarn á þeim tíma sem til hans var stofnað, sbr. 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga. Þá hefur stefnandi ekki heldur sýnt fram á að skilyrði séu til þess að víkja samningi aðila til hliðar á grundvelli 36. gr. samningalaga.

Samkvæmt framansögðu verður stefnda sýknuð af kröfu stefnanda um að samningur aðila um fjárskipti vegna skilnaðar frá 19. júní 2006 verði felldur úr gildi.

Í ljósi atvika málsins er rétt að málskostnaður falli niður milli aðila.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

Dómsorð:

Stefnda, K, er sýknuð af kröfu stefnanda, M.

Málskostnaður fellur niður.