Hæstiréttur íslands

Mál nr. 291/1998


Lykilorð

  • Ábyrgð


Héraðsdómur Reykjavíkur 6

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999.

Nr. 291/1998.

Fiskafurðir hf.

(Helgi Jóhannesson hrl.)

gegn

Landsbanka Íslands hf.

(Reinhold Kristjánsson hrl.)

                                                             

Ábyrgð.

F samdi við Þ um kaup á frystum fiski. Skyldi Þ greiða kaupverðið við afhendingu auk kostnaðar vegna losunar fisksins. L tók á sig ábyrgð á greiðslu Þ með ábyrgðaryfirlýsingu sem rituð var á kaupsamninginn. F afhenti umsamið magn af fiski og var þá gerður reikningur fyrir kaupverð fisksins auk virðisaukaskatts og losunarkostnaðar og virðisaukaskatts af losunarkostnaði. Barst F greiðsla frá L á kaupverði fisksins án virðisaukaskatts. Deilt var um hversu víðtæk ábyrgð L hafi verið og hvort að L hafi tekið á sig ábyrgð á allri greiðslu kaupanda samkvæmt sölusamningnum eða aðeins á greiðslu fyrir fiskinn, án virðisaukaskatts. Í samningnum var ekki vikið að greiðslu virðisaukaskatts og upplýst var að L hafði ekki greitt virðisaukaskatt í fyrri tilvikum þar sem hann greiddi F kaupverð fisks fyrir Þ í sams konar viðskiptum. Niðurstaða héraðsdóms um að F hafi ekki sýnt fram á að ábyrgð L tæki til greiðslu á virðisaukaskatti var staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. júlí 1998. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.803.316 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. ágúst 1996 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti.

I.

Málið á rætur að rekja til samnings, sem áfrýjandi gerði 19. júní 1996 við Fáfni hf. Með samningnum skuldbatt sá fyrrnefndi sig til að selja þeim síðarnefnda um 100 tonn af heilfrystum, hausuðum og slægðum þorski, sem yrði veiddur á rússneskum skipum og frystur þar um borð, en síðan fluttur hingað til lands með flutningaskipi. Í samningnum var sérstakur liður, sem bar fyrirsögnina „verð og greiðsluskilmálar“. Þar sagði eftirfarandi: „Þorskur 1-2 kg 1.475 USD tonnið CIF, Þingeyri. Kaupandi greiðir kaupverðið við afhendingu.“ Síðar í samningnum var tekið fram að kaupandi ætti að greiða kostnað af losun farmsins. Neðst á samningnum var svohljóðandi áritun, dagsett 25. júní 1996: „Viðskiptabanki Fáfnis hf., Landsbanki Íslands á Ísafirði ábyrgist greiðslu kaupanda, skv. ofangreindum samningi.“

Áfrýjandi gaf út reikning 2. júlí 1996 á hendur Fáfni hf. vegna viðskipta þeirra. Var þar krafist greiðslu fyrir 20.220 kg af þorski á 1.290 bandaríkjadali fyrir hvert tonn, 55.770 kg af þorski á 1.450 bandaríkjadali fyrir hvert tonn og 57.870 kg af þorski á 1.475 bandaríkjadali á hvert tonn, eða samtals 192.308,55 bandaríkjadali, sem voru sagðir svara til 12.880.827 króna. Þá var jafnframt krafist greiðslu á 14% virðisaukaskatti af þeirri fjárhæð, eða 1.803.316 krónum, 83.832 krónum vegna losunarkostnaðar og virðisaukaskatt af þeirri fjárhæð, 20.539 krónum. Óumdeilt er að stefndi greiddi inn á bankareikning áfrýjanda 3. júlí 1996 áðurnefnda 192.308,55 bandaríkjadali, en frekari greiðslur hefur stefndi ekki innt af hendi vegna reiknings áfrýjanda, sem áður var lýst.

Áfrýjandi kveður bú Fáfnis hf. hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta 4. júní 1997. Hann hefur lagt fram úr bókhaldi sínu viðskiptayfirlit fyrir félagið vegna tímabilsins frá 1. janúar til 30. nóvember 1996, en samkvæmt því stóð það í skuld við áfrýjanda síðastnefndan dag að fjárhæð 1.306.732 krónur.

Í málinu krefur áfrýjandi sem fyrr segir stefnda um greiðslu á 1.803.316 krónum, en það er fjárhæðin, sem greiða átti í virðisaukaskatt af verði selds fisks samkvæmt reikningi áfrýjanda á hendur Fáfni hf. 2. júlí 1996. Kröfuna reisir áfrýjandi á því að ábyrgð stefnda hafi meðal annars náð til þess þáttar í viðskiptum hans við umrætt félag.

II.

Samkvæmt fyrrgreindri áritun stefnda náði ábyrgð hans til „greiðslu kaupanda, skv. ofangreindum samningi.“ Í samningnum var hvergi vikið að greiðslu virðisaukaskatts. Eins og greinir í héraðsdómi greiddi stefndi ekki virðisaukaskatt í fyrri tilvikum, þar sem hann stóð áfrýjanda skil á kaupverði fisks fyrir Fáfni hf. í sams konar viðskiptum. Hefur áfrýjandi því ekki sýnt fram á að ábyrgð stefnda hafi tekið til umrædds liðar í viðskiptum þess fyrrnefnda við Fáfni hf. samkvæmt samningi þeirra 19. júní 1996. Þegar af þeirri ástæðu verður stefndi sýknaður af kröfu áfrýjanda.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður óraskað, enda hefur stefndi ekki áfrýjað dóminum fyrir sitt leyti. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Fiskafurðir hf., greiði stefnda, Landsbanka Íslands hf., 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.                                                           

Héraðsdómur Reykjavíkur 6. maí 1998.

Mál þetta, sem dómtekið var 8. f.m., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Fiskafurðum hf., kt. 520581-0499, Skipholti 17, Reykjavík, á hendur Landsbanka Íslands, aðalbanka, kt. 710169-3819, Austurstræti 11, Reykjavík, vegna útibús Landsbanka Íslands á Ísafirði, kt. 710169-1799, Pólgötu 1, Ísafirði, með stefnu, sem birt var 14. ágúst 1997.

Dómkröfur stefnanda eru: Að stefnda verði gert að greiða stefnanda 1.803.316 kr. með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá 2. ágúst 1996 til greiðsludags. Þá er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 2. ágúst 1997.

Dómkröfur stefndu eru: Að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu, auk þess sem stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins auk virðisaukaskatts.

Lögmaður stefnda gerði grein fyrir því í málflutningi að þann 1. janúar 1998 hafi Landsbanki Íslands hf. tekið við öllum réttindum og skyldum Landsbanka Íslands sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1997.

Málavextir eru þessir: Stefnandi kveðst vera fyrirtæki sem sérhæfi sig m.a. í umboðs­söluviðskiptum með fisk. Þann 19. júní 1996 hafi tekist samningar milli stefnanda og Fáfnis hf. á Þingeyri um að Fáfnir hf. keypti af stefnanda u.þ.b. 100 tonn af heilfrystum, hausuðum og slægðum fiski með klumbubeini. Um hafi verið að ræða svokallaðan „rússafisk“, þ.e. fiskurinn hafi verið veiddur og frystur af rússneskum veiðiskipum og fluttur hingað til lands með flutningaskipi.

Samkvæmt 4. gr. samningsins hafi söluverð verið 1.475 USD tonnið, CIF Þingeyri, og skyldi kaupandi greiða kaupverðið við afhendingu. Landsbanki Íslands á Ísafirði hafi tekið á sig ábyrgð á greiðslu Fáfnis hf. til stefnanda með ábyrgðaryfirlýsingu sem rituð var á sölusamninginn. Ábyrgðaryfirlýsingin hljóðar svo: „Viðskiptabanki Fáfnis hf., Landsbanki Íslands á Ísafirði, ábyrgist greiðslu kaupanda skv. ofangreindum samningi.“

Stefnandi hafi staðið við sinn hluta af samningnum við Fáfni hf. og afhent umsamið magn af fiski, sem kaupandi hafi samþykkt. Reikningur hafi verið gerður vegna viðskiptanna 2. júlí 1996 og hann hafi hljóðað á 192.308,55 USD, auk 1.803.316 ÍKR vegna virðisaukaskatts, 83.832 ÍKR vegna losunarkostnaðar, auk virðisaukaskatts af losunarkostnaði, 20.539 ÍKR.

Þann 3. júlí 1996 hafi stefnanda borist greiðsla frá Landsbanka Íslands, samtals 192.308,55 USD eða 12.880.827 ÍKR. Framangreind fjárhæð hafi verið greiðsla fyrir fiskinn sem stefnandi hafi selt Fáfni hf., án virðisaukaskatts.

Í samræmi við reglur virðisaukaskattslaga nr. 50/1988 hafi stefnandi skilað virðisaukaskatti vegna reikningsins á Fáfni hf. Um hafi verið að ræða 1.803.316 kr. svo sem áður greinir. Fjárhæð þessa hafi stefnandi ekki fengið greidda, hvorki frá Landsbanka Íslands sem ábyrgðaraðila á sölusamningnum, né beint frá Fáfni hf.

Með bréfi stefnanda til stefnda dags. 27. janúar 1997 hafi stefnandi krafið stefnda um greiðslu á viðskiptaskuld Fáfnis hf. við stefnanda, sem þá hafi verið 1.306.732 kr., vegna vangreidds virðisaukaskatts af nefndum reikningi vegna viðskiptanna við Fáfni hf., að frádreginni inneign Fáfnis hf. hjá stefnanda.

Stefndi hafi svarað kröfubréfi stefnanda með bréfi dags. 4. febrúar 1997, þar sem hann hafi hafnað kröfunni. Stefndi hafi talið sig hafa staðið að fullu við ábyrgðarskuldbindingu sína vegna ofangreinds samnings. Stefnandi hafi ítrekað kröfu sína með bréfi til stefnda, dags. 11. júní 1997. Svar hafi ekki borist við bréfinu og stefnandi hafi því leitað til lögmanns vegna málsins. Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 25. júní 1997, hafi krafan verið ítrekuð. Með svarbréfi stefnda, dags. 4. júlí 1997, hafi kröfunni verið hafnað.

Fáfnir hf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota af Héraðsdómi Vestfjarða þann 4. júní 1997.

Stefndi kvaðst sem viðskiptabanki Fáfnis hf., hafa ábyrgst greiðslur félagsins skv. sölusamningi milli þess og stefnanda. Ábyrgð bankans hafi verið rituð á samninginn og í samræmi við hana hafi stefndi greitt 192.308,95 USD þann 3. júlí 1997 vegna sölu á 133,86 tonnum af „rússaþorski“ skv. reikningi stefnanda. Með þessari greiðslu telji stefndi að hann hafi að fullu staðið við greiðsluábyrgð sína á samningnum.

Á reikningi stefnanda, sem stílaður hafi verið á Fáfni hf., hafi einnig verið krafið um virðisaukaskatt og losunarkostnað. Stefndi hafi einungis greitt þá fjárhæð sem sett hafi verið upp vegna hinnar seldu vöru, þar sem hann hafi ekki tekist á hendur ábyrgð á greiðslu skattsins. Sá háttur sé venjubundinn í viðskiptum af þessu tagi, þ.e. að kaupandi og seljandi geri skattinn upp sérstaklega sín á milli án afskipta bankans.

Málsálstæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að stefndi hafi tekið á sig ábyrgð á allri greiðslu kaupanda samkvæmt sölusamningnum milli stefnanda og Fáfnis hf. Órjúfanlegur hluti af reikningnum sé virðisaukaskattur sem bætist ofan á vöruverðið. Virðisaukaskattinn hafi Fáfnir hf. þegar getað nýtt sér í rekstri sínum, en stefnandi þurft að standa skil á honum, án þess að fá hann greiddan.

Stefndi hafi ekki staðið við ábyrgðarskuldbindingu sína, fyrr en hann hafi greitt stefnanda virðisaukaskattinn og gildi þar einu þó að staðið hafi í sölusamningnum dollaraverð vörunnar án virðisaukaskatts. Stefnda hafi mátt vera ljóst að við það verð myndi bætast virðisaukaskattur svo sem lög geri ráð fyrir, auk þess sem ábyrgðaryfirlýsingin sé mjög afdráttarlaust orðuð, þ.e. stefndi taki á sig ábyrgð á greiðslu Fáfnis hf. skv. sölusamningnum. Virðisaukaskatturinn hafi þar hvergi verið undanskilinn. Hafi verið meiningin að undanskilja hann, hafi stefnda verið í lófa lagið að takmarka ábyrgð sína með skýrum hætti í ábyrgðaryfirlýsingunni.

Stefnandi vísar til meginreglu samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga og almennra reglna kröfuréttarins. Vaxtakrafan sé gerð á grundvelli vaxtalaga nr. 25/1987. Málskostnaðarkrafa sé gerð á grundvelli 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að grundvöllur kröfugerðar stefnanda sé alls ekki ljós. Í bréfum til stefnda hafi ýmist verið krafist greiðslu á eftirstöðvum skuldar Fáfnis hf. samkvæmt viðskiptamannabókhaldi eða ógreidds virðisaukaskatts vegna fisksölu. Ekki sé samræmi milli fjárhæða virðisaukaskatts skv. reikningi dags. 2. júlí 1996 að fjárhæð 1.803.316 kr. og stöðu Fáfnis hf. í bókhaldi stefnanda frá 30. nóvember 1996 að fjárhæð 1.306.732 kr.

Í stefnu komi fram að þann 27. janúar 1997 hafi viðskiptaskuld Fáfnis hf. við stefnanda verið 1.306.732 kr. Stefnufjárhæð máls þessa sé hins vegar 1.803.316 kr. Mismunurinn, 496.584 kr., sé óútskýrður. Í bréfi lögmanns stefnanda, dags. 9. júlí 1997, komi fram að þessi munur verði leiðréttur með því að krefja stefnda um virðisaukaskatt samkvæmt reikningi, dags. 2. júlí 1996. Síðan eigi að endurgreiða Fáfni hf. mismuninn. Eins og fram komi í stefnu hafi Fáfnir hf. verið úrskurðaður gjaldþrota þann 4. júní 1997.

Með kröfu sinni ætli stefnandi því að fá dæmda úr hendi ábyrgðarveitanda hærri fjárhæð en skuldinni nemi. Hann ætli síðan að endurgreiða þrotabúi skuldarans mismuninn á raunverulegri skuld og því sem innheimtist. Þar að auki sé alls ekki ljóst hvort sú skuld sem stefnandi telji sig eiga útistandandi hjá Fáfni hf. sé vegna virðisaukaskatts á fisksölu þá sem sölusamningur aðila hljóðaði um. Ekki sé upplýst hvaða greiðsla hafi borist frá Fáfni hf. að fjárhæð 1.800.000 kr. þann 4. júlí 1996 skv. viðskiptamannabókhaldi stefnanda. Kröfugerðin sé með þeim hætti að hún hljóti að leið til sýknu.

Stefnandi byggi málsókn sína á því að stefndi hafi tekið á sig ábyrgð á greiðslu virðisaukaskatts af fisksölu hans til Fáfnis hf. Þetta sé ekki rétt. Ábyrgðaryfirlýsinguna á sölusamningi aðila beri að túlka með hliðsjón af samningnum sjálfum. Í honum komi fram að verð ákveðinnar vöru sem tilgreind er sé 1.475 USD tonnið CIF, Þingeyri.

Með loforði sínu hafi stefndi ábyrgst að kaupandi greiddi þetta verð fyrir afhentan „rússafisk“, en engar aðrar greiðslur kaupandans, svo sem skatta, aðflutningsgjöld, tolla eða skaðabætur. Hefði ábyrgðin átt að taka til slíkra fylgikrafna, hefði seljanda vörunnar verið í lófa lagið að láta það koma fram í samningnum.

Stefndi hafi áður gengist í sams konar ábyrgð vegna viðskipta stefnanda og Fáfnis hf. Í þau skipti, og raunar alltaf þegar bankinn taki á sig greiðsluábyrgð með þeim hætti sem hér um ræðir, greiði bankinn, sé hann um það krafinn, verð þeirrar vöru sem ábyrgð er veitt fyrir, samkvæmt sölusamningi aðila. Venjan hafi verið sú að stefnandi hafi sent Fáfni hf. reikninginn og Fáfnir hf. framvísað honum í bankanum, sem hafi síðan greitt samningsfjárhæðina, en ekki virðisaukaskattinn, enda ekki tekin ábyrgð á honum. Skattinn hafi Fáfnir hf. greitt sjálfur til stefnanda. Engar athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu stefnanda við þetta, enda hafi stefnandi vitað að stefndi tók einungis ábyrgð á samningsgreiðslunni. Í reikningi frá stefnanda komi þannig fram að USD-upphæðarinnar sé krafist sérstaklega og ÍKR-upphæðarinnar sérstaklega. Sérstakur innheimtuseðill hafi verið sendur vegna íslensku upphæðarinnar beint til Fáfnis hf.

Af hálfu stefnda sé það ekki dregið í efa að um virðisaukaskattskyld viðskipti hafi verið að ræða milli stefnanda og Fáfnis hf. Hins vegar telji stefndi að ábyrgð hans hafi einungis tekið til greiðslu söluverðsins eins og það hafi verið tilgreint í samningnum. Meginregla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 sé sú að sé ekkert tekið fram um virðisaukaskatt í samningi teljist hann hluti kaupverðs og að í uppgefnu verði skuli koma greinilega fram, ef skatturinn er ekki innifalinn. Þetta komi m.a. fram í 1. mgr. 20. gr. og 4. mgr. 22. gr. laganna. Eigi að bregða út frá þessum meginreglum sé það einungis heimilt að um fasta venju á tilteknu sviði viðskipta sé að ræða. Stefndi hafi því litið svo á að verð það sem uppgefið hafi verið í samningi aðilanna væri endanlegt og gengist í ábyrgð fyrir greiðslu þess. Stefnandi hafi ekki reynt að sýna fram á tilvist fastrar venju á sviði viðskipta með fisk, sem víki til hliðar meginreglu laga um virðisaukaskatt, enda beri hann sönnunarbyrði um hana.

Orðalag ábyrgðar stefnda sé með þeim hætti að ljóst hljóti að vera að það sé einungis sú fjárhæð á hvert tonn sem fram komi í sölusamningi, sem ætlunin hafi verið að stefndi væri í ábyrgð fyrir. Fyrri viðskipti aðilanna með ábyrgð stefnda bendi einnig eindregið til þessarar niðurstöðu. Stefndi hafi sýnt fram á þá venju sem viðhöfð sé um greiðslu skv. ábyrgðum stefnda með framlagningu gagna í málinu.

Með vísan til þess sem að framan greinir telji stefndi sig að fullu hafa staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt greiðsluábyrgð á sölusamningi stefnanda og Fáfnis hf. og því beri að sýkna hann af öllum kröfum í máli þessu.

Kröfu um málskostnað styðji stefndi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða.

Það er óumdeilt að stefndi gekk í ábyrgð þegar Fáfnir hf. keypti u.þ.b. 100 tonn af „rússafiski“ af stefnanda samkvæmt samningi aðila í júní 1996. Aðilar deila hins vegar um hve víðtæk ábyrgð stefnda hafi verið.

Í 4. grein sölusamnings stefnanda og Fáfnis hf. er greint frá verði, tegund vöru og greiðsluskilmálum. Þar kemur fram að fisktegundin sé þorskur og verðið 1.475 USD tonnið. Þá er tilgreint að kaupandi greiði kaupverð við afhendingu. Í 6. gr. kemur fram að kaupandi greiði kostnað við losun. Undir samninginn skrifa fulltrúar stefnanda og Fáfnis hf. Þá segir: „Viðskiptabanki Fáfnis hf., Landsbanki Íslands á Ísafirði, ábyrgist greiðslu kaupanda, skv. ofangreindum samningi“. Síðan er undirskrift tveggja fulltrúa frá bankanum.

Stefnandi afhenti fiskinn og sendi Fáfni hf. sundurliðaðan reikning, dags. 2. júlí 1996. Reikningurinn hljóðaði upp á 192.308,55 USD fyrir fiskinn, virðisaukaskatt af fisksölu 1.803.316 kr., losunarkostnað 83.832 kr. og virðisaukaskatt af losunarkostnaði 20.539 kr., samtals 1.907.687 kr. Neðanmáls á reikningnum var óskað eftir að USD-upphæðin yrði lögð inn á reikning stefnanda við Sparisjóðabanka Íslands og íslenska fjárhæðin inn á annan reikning stefnanda við Sparisjóð Kópavogs. Fáfnir hf. framvísaði reikningnum hjá stefnda sem greiddi USD-upphæðina inn á umsaminn reikning þá eins og áður þegar hann hafði gengið í ábyrgð fyrir Fáfni hf. Í janúar 1997 krafði stefnandi stefnda um virðisaukaskatt af fisksölunni, en hvorki um losunarkostnað né virðisaukaskatt af honum. Stefndi hafnaði greiðslu.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að hann hafi skilað virðisaukaskattinum, en hins vegar hvorki fengið hann greiddan hjá Fáfni hf. né stefnda, sem ábyrgðaraðila að samningum.

Í 4. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988 er gert ráð fyrir að það skuli koma greinilega fram ef uppgefið verð á vöru eða þjónustu sé ekki með virðisaukaskatti.

Í málinu liggja frammi reikningar vegna fyrri viðskipta stefnanda og Fáfnis hf. og yfirlit yfir erlendar yfirfærslur frá stefnda. Á eldri reikningum frá stefnanda sem stílaðir eru á Fáfni hf. er óskað eftir að USD-upphæðin sé lögð inn á reikning stefnanda við Sparisjóðabanka Íslands. Þá segir: „Sendur verður innheimtuseðill frá Sparisjóði Kópavogs vegna íslensku upphæðarinnar“. Á yfirlitunum kemur fram að USD-fjárhæðin hefur verið millifærð og í skýringu á greiðslu kemur fram að hún sé vegna tilgreinds magns af rússaþorski. Af hálfu stefnanda hefur ekki verið sýnt fram á að innheimtuseðlarnir, sem m.a. voru sendir til að innheimta virðisaukaskatt á fisksölu, hafi verið sendir stefnda og að hann hafi annast greiðslu þeirra.

Í sölusamningnum sem stefndi tók ábyrgð á er hvergi fjallað um virðisaukaskatt á fisksölu, þar er einungis fjallað um verð á tonni í USD. Stefndi hefur lagt fram gögn vegna ábyrgða sem hann gekk í fyrir Fáfni hf. vegna sambærilegra viðskipta þar sem fram kemur að hann hafi einungis greitt þá upphæð sem tilgreind er í USD. Stefnandi hefur ekki lagt fram gögn sem sýna að stefndi hafi greitt virðisaukaskatt eða aðrar greiðslur í íslenskum fjárhæðum vegna viðskipta aðila. Þá hefur stefndi ekki sýnt fram á að það hafi verið venja að stefndi annaðist aðrar greiðslur en þær í USD. Með vísan til 4. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988 og þess sem hér að framan er rakið þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að ábyrgð stefnda hafi átt að ná til virðisaukaskatts af fisksölunni heldur einungis til greiðslu kaupverðsins í USD eins og það er tilgreint í samningi aðila, enda er hvergi í samningi aðila minnst á virðisaukaskatt á fisksölu og er stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Málskostnaður fellur niður.

Halla Bachmann Ólafsdóttir settur héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndi, Landsbanki Íslands hf., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Fiskafurða hf.

Málskostnaður fellur niður.