Hæstiréttur íslands

Mál nr. 37/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Endurupptaka
  • Samaðild
  • Málsóknarumboð
  • Vanreifun


Fimmtudaginn 4

 

Fimmtudaginn 4. mars 2004.

Nr. 37/2004.

Þrotabú Útgáfufélags DV ehf. og

Höfundarréttarsamtök DV

(Jóhannes R. Jóhannsson hrl.)

gegn

Frétt ehf. og

Gunnari Smára Egilssyni

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

Kærumál. Endurupptaka. Samaðild. Málsóknarumboð. Vanreifun.

Þrotabú Ú ehf. og H kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á endurupptöku máls, sem Ú ehf. og H höfðuðu gegn F ehf. og G og lauk með dómi héraðsdóms þar sem þeim síðarnefndu var gert að greiða óskipt bætur vegna óheimillar notkunar á ljósmyndum í Fréttablaðinu auk þess að vera dæmd refsing fyrir brot á höfundalögum. Í Hæstarétti var tekið var fram að gengið hefði verið út frá því að Ú ehf. væri eigandi að filmu- og myndasafni DV og að ljósmyndarar DV, sem tóku myndirnar ættu höfundarétt að þeim. Þar sem ekkert lá fyrir um framsal þessara réttinda til H eða hvernig samningi Ú ehf. og H hefði verið háttað var ekki talið að sýnt hefði verið fram á að skilyrði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hafi verið uppfyllt. Þá varð ekki séð að H hefðu rekið málið í skjóli umboðs frá ljósmyndurunum. Auk þessa átti umþrætt birting sér að langmestu leyti stað áður en F ehf. hóf að gefa út blaðið en ekki hafði verið gerð fullnægjandi grein fyrir því hvaða óheimilar myndbirtingar um væri að ræða eftir það. Þá var leitað dóms um staðfestingu á riftun á samkomulagi Ú ehf. og Fréttablaðsins ehf. en ekkert hafði komið fram í málinu sem benti til þess að H hefði verið aðili að samkomulaginu. Auk annarra annmarka á málatilbúnaðinum var málið talið svo vanreifað að einnig þess vegna hafi borið að vísa því sjálfkrafa frá dómi. Var því talið að skilyrði b. liðar 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til endurupptöku á máli aðila væri uppfyllt og úrskurður héraðsdóms staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Málið dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 2. janúar 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2003, þar sem fallist var á endurupptöku máls, sem Útgáfufélag DV ehf. og sóknaraðilinn Höfundarréttarsamtök DV höfðuðu gegn varnaraðilum og lauk með dómi héraðsdóms 30. apríl 2003. Kæruheimild er í q. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og hafnað verði kröfu varnaraðila um endurupptöku málsins. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.  

I.

Útgáfufélag DV ehf. og sóknaraðilinn Höfundarréttarsamtök DV höfðuðu mál á hendur varnaraðilum og jafnframt Jónasi Kristjánssyni og Fréttablaðinu ehf. með stefnu 12. júlí 2002, sem þingfest var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 5. september sama árs. Var krafa þeirra í því máli í sjö liðum. Í fyrsta lið hennar var þess krafist að staðfest yrði riftun 21. apríl 2001 á óformlegu samkomulagi Útgáfufélags DV ehf. og Fréttablaðsins ehf. um birtingu og notkun þessa stefnda á ljósmyndum í eigu stefnenda. Í öðrum og þriðja lið kröfunnar var þess annars vegar krafist að viðurkennt yrði að stefndu væri óheimilt að birta, nota eða framselja ljósmyndir, sem væru í eigu stefnenda, í Fréttablaðinu eða öðrum blöðum og tímaritum, og hins vegar að stefndu væri gert að viðlögðum dagsektum að eyða umræddum ljósmyndum, sem væru í vörslum Fréttablaðsins. Í fjórða kröfuliðnum var þess krafist að Fréttablaðið ehf. yrði dæmt til að greiða Útgáfufélagi DV ehf. skuld að fjárhæð 3.535.800 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum og í fimmta lið að stefndu yrðu dæmdir til að greiða stefnendum óskipt skaðabætur og miskabætur að fjárhæð 15.338.800 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Þá var þess krafist í sjötta kröfuliðnum að stefndu yrðu dæmdir samkvæmt 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972 til refsingar fyrir brot á þeim lögum og í sjöunda og síðasta lið kröfunnar að þeir yrðu dæmdir til greiðslu málskostnaðar.

Samkvæmt bókun í þingbók héraðsdóms létu varnaraðilar sækja dómþing við þingfestingu málsins. Á dómþingi 5. desember 2002 var bókað að ekki væri mætt af hálfu Fréttablaðsins ehf., en sótt væri þing af hálfu Jónasar Kristjánssonar. Veittur var frestur til gagnaöflunar um framkomna frávísunarkröfu. Á dómþingi 9. apríl 2003 lýstu sóknaraðilar því yfir að þeir féllu frá kröfum á hendur Jónasi Kristjánssyni og Fréttablaðinu ehf., en bú þess félags hafði þá verið tekið til gjaldþrotaskipta. Af hálfu varnaraðila var það þinghald ekki sótt. Að kröfu sóknaraðila var málið tekið til dóms og með dómi 30. apríl 2003 fallist á kröfur sóknaraðila að öðru leyti en því að ekki var dæmt um þá kröfu, sem um gat í fjórða lið kröfugerðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði fóru varnaraðilar fram á endurupptöku málsins með bréfi, sem barst héraðsdómi 29. september 2003. Í bréfinu kom fram að varnaraðilum hafi ekki verið kunnugt um að dómur hefði fallið í máli aðila fyrr en 24. september 2003, þegar varnaraðilanum Gunnari Smára Egilssyni var send boðun lögreglu um að mæta næsta dag í fyrirtöku á aðfararbeiðni Útgáfufélags DV ehf. og sóknaraðilans Höfundarréttarsamtaka DV hjá sýslumanninum í Reykjavík. Í hinum kærða úrskurði var með vísan til b. liðar 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 fallist á kröfu varnaraðila um endurupptöku málsins.  

Bú Útgáfufélags DV ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 4.  nóvember 2003. Í kæru til Hæstaréttar er því lýst yfir að þrotabúið hafi tekið við aðild málsins.

II.

Varnaraðilar reisa kröfu sína um endurupptöku málsins aðallega á 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991, en að því frágengnu á b. eða c. lið 2. mgr. sömu greinar. Frestur samkvæmt 1. mgr. 137. gr. var liðinn þegar endurupptökubeiðni barst héraðsdómi og kemur hún því ekki til frekari álita. Ráðast úrslit málsins af því hvort skilyrði fyrrgreindra stafliða 2. mgr. 137. gr. séu uppfyllt.

Í héraðsdómsstefnu er gerð grein fyrir aðild málsins. Þar kemur fram að stefnendur þess séu annars vegar Útgáfufélag DV ehf., sem á þeim tíma er málið var höfðað gaf út DV, og hins vegar Höfundarréttarsamtök DV, „sem eru samtök blaðamanna, þ.á m. ljósmyndara, sem starfa hjá DV.“ Tekið var fram að meðal eigna fyrrnefnds útgáfufélags væri filmu- og myndasafn, en ljósmyndarar DV hafi tekið ljósmyndir þær sem um er deilt í málinu. Var því haldið fram að fyrrnefndir ljósmyndarar DV ættu höfundarétt að þessum ljósmyndum, og væri eftirgerð því óheimil án samþykkis þeirra, sbr. 1. mgr. 49. gr. höfundalaga nr. 73/1972. Þar sem Útgáfufélag DV ehf. og sóknaraðilinn Höfundarréttarsamtök DV eigi þau réttindi, sem um er deilt í málinu í sameiningu, það er „rétt til birtingar og notkunar á ljósmyndum DV“, sé samaðild samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Um aðild varnaraðilans Fréttar ehf. er greint frá því að félagið sé nýr útgefandi Fréttablaðsins. Því hafi verið lýst yfir í fjölmiðlum að félagið hygðist gera upp skuldir við birgja og aðra kröfuhafa vegna fyrri útgáfu blaðsins. Hafi varnaraðilanum Frétt ehf. því réttilega verið stefnt. Þá hafi útgáfa blaðsins legið niðri um tiltekinn tíma á miðju ári 2002, en blaðið síðan komið út í óbreyttri mynd 12. júlí sama árs. Í því hafi verið birtar ljósmyndir í eigu Útgáfufélags DV ehf. og sóknaraðilans Höfundarréttarsamtaka DV í heimildarleysi. Sé Frétt ehf. því réttur aðili að málinu. Um aðild varnaraðilans Gunnars Smára Egilssonar segir í héraðsdómsstefnu að hann hafi orðið ritstjóri Fréttablaðsins 13. nóvember 2001, en samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt beri ritstjóri blaðs ábyrgð á efni þess óháð eignaraðild.

III.

Með dómi héraðsdóms 30. apríl 2003 var varnaraðilum meðal annars gert að greiða óskipt bætur vegna óheimillar notkunar á ljósmyndum í Fréttablaðinu auk þess að vera dæmd refsing fyrir brot á höfundalögum. Var þannig fallist á að varnaraðilar hefðu brotið gegn rétti Útgáfufélags DV ehf. og Höfundarréttarsamtaka DV á tímabilinu 15. desember 2001 til 21. júní 2002. Var meðal annars gengið út frá því að Útgáfufélag DV ehf. væri eigandi að filmu- og myndasafni DV og að ljósmyndarar DV, sem tóku myndirnar ættu höfundarétt að þeim. Af gögnum málsins verður hins vegar ekki ráðið hvernig háttað sé réttindum sóknaraðilans Höfundarréttarsamtaka DV til ljósmyndanna, en hann telur rétti sínum hallað í málinu. Þannig liggur ekkert fyrir um framsal réttindanna til þessa sóknaraðila, sem sækir málið í eigin nafni, auk þess sem ekkert liggur fyrir um hvernig samningi Útgáfufélags DV ehf. og fyrrnefnds sóknaraðila hafi verið háttað. Með vísan til þessa verður ekki talið að sóknaraðilar hafi sýnt fram á að skilyrði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 hafi verið uppfyllt. Þá verður ekki séð að sóknaraðilinn Höfundarréttarsamtök DV hafi rekið málið í skjóli umboðs frá ljósmyndurum þeim, sem tóku myndirnar. Auk þessa liggur fyrir að varnaraðilinn Frétt ehf. var stofnað í júlí 2002 og gaf út sitt fyrsta tölublað af Fréttablaðinu 12. sama mánaðar. Augljóst er því að umþrætt birting ljósmynda í Fréttablaðinu átti sér að langmestu leyti stað áður en varnaraðilinn Frétt ehf. hóf að gefa út blaðið og ekki hefur verið gerð fullnægjandi grein fyrir því hvaða óheimilar myndbirtingar um sé að ræða eftir það. Þá leituðu sóknaraðilar dóms með fyrsta lið kröfugerðar fyrir héraðsdómi um staðfestingu á riftun á samkomulagi Útgáfufélags DV ehf. og Fréttablaðsins ehf. vegna verulegra vanefnda þess síðarnefnda. Fallið hefur verið frá kröfum á hendur Fréttablaðinu ehf. við meðferð málsins í héraði og ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að sóknaraðilinn Höfundarréttarsamtök DV hafi verið aðili að þessu samkomulagi. Auk annarra annmarka á málatilbúnaði sóknaraðila er málið samkvæmt framansögðu svo vanreifað að einnig þess vegna bar að vísa því sjálfkrafa frá dómi. Að öllu þessu virtu verður að telja að skilyrði b. liðar 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 til endurupptöku á máli aðila séu uppfyllt. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða óskipt varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, þrotabú Útgáfufélags DV ehf. og Höfundarréttarsamtök DV, greiði óskipt varnaraðilum, Gunnari Smára Egilssyni og Frétt ehf., hvorum fyrir sig 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2003.

                Mál þetta var tekið til úrskurðar 5. þessa mánaðar.  Stefnendur eru þrotabú Útgáfufélags DV ehf., kt.631100-3090 og Höfundarréttarsamtök DV, kt. 690801-2480, Skaftahlíð 24, Reykjavík.  Stefndu eru Gunnar Smári Egilsson, kt. 110161-4099, Þórsgötu 10 og Frétt ehf., kt. 480702-2390, Þverholti 9, báðir í Reykjavík.

                Upphaflega var málinu lokið með dómi uppkveðnum 30. apríl 2003.  Með bréfi er barst dóminum 29. september 2003 kröfðust stefndu, Gunnar Smári Egilsson og Frétt ehf., þess að málið yrði endurupptekið.  Þeir segjast munu krefjast sýknu af kröfum stefnenda.  Að auki krefjast stefndu þess að réttaráhrif dómsins frá 30. apríl falli niður að öllu leyti og að fjárnám, sem gert hafi verið á grundvelli þess dóms, verði ógilt og látið niður falla þegar í stað.

                Stefnendur krefjast þess að kröfu stefndu um endurupptöku málsins verði hafnað.

                Í upphafi var stefnt fjórum aðilum, Fréttablaðinu ehf., sem fyrrum útgefanda Fréttablaðsins, Frétt ehf., sem nýjum útgefanda Fréttablaðsins og Gunnari Smára Egilssyni og Jónasi Kristjánssyni, báðum sem ritstjórum Fréttablaðsins.  Í endurupp-tökubeiðni greina stefndu frá því að Gunnar Smári hafi, strax eftir að honum hafði verið birt stefnan, rætt við þáverandi lögmann stefnanda og löglærðan fulltrúa hans.  Eftir það samtal hafi hann talið þá hafa fallist á að málinu væri ranglega beint að honum svo og að stefnda, Frétt ehf.  Af þessum sökum hafi þingsókn þeirra beggja fallið niður, en síðar hafi þáverandi lögmenn stefnenda sagt sig frá málinu.  Í þinghaldi 9. apríl sl. voru felldar niður kröfur á hendur stefndu, Fréttablaðinu ehf. og Jónasi Kristjánssyni, ritstjóra, en ekki á hendur stefndu, Frétt ehf. og Gunnari Smára Egilssyni, ritstjóra.  Var kveðinn upp útivistardómur um þær kröfur sem gerðar voru á hendur þeim.  Stefndu geta þess að þeim hafi ekki verið kunnugt um dóminn fyrr en 24. september sl. þegar þeim var birt boðun í fyrirtöku á aðfararbeiðni stefnenda á hendur þeim hjá sýslumanninum í Reykjavík og hafi þau þá þegar hafist handa við að fá málið endurupptekið.

                Vegna kröfu sinnar um sýknu byggja stefndu fyrst og fremst á því að þau skuli sýknuð vegna aðildarskorts.  Frétt ehf. hafi ekki verið rekstraraðili Fréttablaðsins á þeim tíma sem stefnendur halda fram að myndir hafi birst í blaðinu úr myndagrunni sínum og byggja dómkröfur sínar á.

                Stefndu vísa einnig til þess að stefnendur túlki prentlög rangt þegar þeir haldi því fram að unnt sé að gera stefnda, Gunnar Smára, ábyrgan fyrir fjárskuldbindingum fyrri útgáfuaðila blaðsins, Fréttablaðsins ehf., á grundvelli þeirra laga og skýra þau þannig að hann verði persónulega ábyrgur fyrir höfundarréttarbrotum Fréttablaðsins ehf., hafi hann gegnt ritstjórastarfi hjá því fyrirtæki tímabundið.  Stefndu telja ábyrgð ritstjóra samkvæmt 15. gr. prentlaga nr. 57/1956 einungis taka til ærumeiðinga og brota á friðhelgi einkalífs.  Hún taki hinsvegar ekki til höfundarréttabrota vegna óheimillar birtingar ljósmynda í blaðinu sem hann ritstýrir.

                Að auki benda stefndu á að stefnendur hafi ekki sannað þær fullyrðingar sínar að stefndu hafi haldið því fram í fjölmiðlum að hið nýja útgáfufélag hyggist gera upp skuldir við alla kröfuhafa Fréttablaðsins ehf.  Slíkri yfirlýsingu hafi Frétt ehf. ekki beint að stefnendum eða á annan hátt gefið þeim loforð um að hún tæki yfir skyldur Fréttablaðsins ehf. gagnvart stefnendum.

                Stefndu vísa til 137. gr. laga um meðferð einkamála.  Þau vitna aðallega til 1. mgr. ákvæðisins og byggja á því að jafnvel þótt þriggja mánaða fresturinn sé liðinn þá hafi stefndu aldrei verið birt boðun um að mæta í fyrirtöku hjá Sýslumanninum í Reykjavík þar sem taka ætti fyrir aðfararbeiðni stefnda á hendur þeim þann 25. september sl., fyrr en þann 24. september sl.  Af þeim sökum sé full ástæða til að víkja frá þriggja mánaða frestinum með vísan til sanngirnisraka og eðlis máls, enda sé fullkomlega óeðlilegt að kröfuhafi njóti góðs af því að starfsmenn sýslumanns birti aldrei boðanir fyrir stefndu fyrr en frestur samkvæmt 1. mgr. sé liðinn og stefndu þannig gert ókleyft að byggja á 1. mgr. 137. gr. EML. 

                Fallist dómurinn ekki á þessar röksemdir vísa stefndu til c. liðar 2. mgr. 137. gr. EML og byggja á því að ljóst sé að dómari hefði átt að sýkna stefndu án kröfu.  Í fyrsta lagi hefði dómari mátt sjá að stefnendur vissu að þeir áttu enga kröfu á hendur stefndu.  Í öðru lagi veiti lög enga heimild til að vitna í óljósar, óskilgreindar og ósannaðar yfirlýsingar frá einhverjum óljósum aðilum í fjölmiðlum, sem ekki virðist haldið fram að hafi verið beint að stefnendum.  Í þriðja lagi hafi dómara mátt vera ljóst að engan rökstuðning sé að finna fyrir greiðsluskyldu ritstjóra.  Í fjórða lagi komi fram í stefnu að það sé ágreiningur um höfundarréttindi á milli stefnenda og hafi dómara átt að vera það ljóst.  Í fimmta lagi hafi dómara mátt vera ljóst að svokölluð skuld að fjárhæð kr. 3.535.800 sé órökstudd og að fyrir henni skorti gögn.  Í sjötta lagi hafi dómara borið að taka afstöðu til þess hvers vegna Fréttablaðið ehf. hafði ótakmarkaðan aðgang að hinu umdeilda myndefni allt þar til útgáfu blaðsins var hætt í júní 2002 en það bendi til þess að samkomulag hafi verið milli aðila þar um.  Stefndu vísa einnig til b. liðar sömu greinar enda sé málið verulega vanreifað gagnvart stefndu báðum og engin gögn lögð fram til stuðnings kröfum stefnenda.  Í sjöunda lagi hafi stefnandi fallið frá kröfum á hendur Fréttablaðinu ehf. með yfirlýsingu í þinghaldi þann 9. apríl 2003 og því hafi verið rangt af dómara að taka afstöðu til og fallast á riftunarkröfu stefnenda sem beindist gegn Fréttablaðinu.

                Vegna kröfu sinnar um brottfall réttaráhrifa dómsins frá 30. apríl sl. vísa stefndu til þess að stefnandi, Útgáfufélag DV ehf., hafi fengið greiðslustöðvun og þar með liggi ljóst fyrir að ef stefndu verði að láta fjármunina af hendi á grundvelli fjárnáms eða á annan hátt þá muni þeir ekki geta endurheimt þá fjármuni síðar þegar dómur falli stefndu í hag.

                Stefnendur telja að heimild 1. mgr. 137. gr. laga nr. 19/1991 takmarkist við að endurupptökubeiðni berist til héraðsdóms innan þriggja mánaða frá því máli lauk í héraði.  Þar sem umræddu máli hafi lokið 30. apríl sl. hafi átt að óska endurupptöku eigi síðar en 30. júlí sl.  Þar sem beiðni stefndu hafi ekki borist dóminum fyrr en 29. september beri að hafna beiðni um endurupptöku sem styðjist við áðurnefnt ákvæði.

                Stefnendur vísa til þess að engin skylda hafi hvílt á sér að birta dóm héraðsdóms sérstaklega fyrir stefndu.  Stefnendur mótmæla því ennfremur að það eigi að leiða til endurupptöku málsins að boðun hafi ekki verið birt fyrir stefndu af sýslumanninum í Reykjavík. 

                Jafnframt mótmæla stefnendur þeim málatilbúnaði stefndu að sýslumaðurinn í Reykjavík hafi brotið gegn skyldum sínum skv. stjórnsýslulögum.

                Hvað varðar kröfu stefndu um endurupptöku á grundvelli heimildar í b- og c- liðum 2. mgr. 137. gr. laga 91/1991 byggja stefnendur á því að ekki sé unnt að fallast á endurupptöku á þessum forsendum þar sem skilyrði þessara stafliða séu ekki uppfyllt. 

                Stefnendur hafna alfarið þeirri fullyrðingu stefndu að stefnendur hafi viðurkennt að þeir vissu að þeir ættu enga kröfu á hendur stefndu. 

                Ennfremur hafna stefnendur þeirri fullyrðingu stefndu að í stefnu sé vísað til óljósra, óskilgreindra og ósannaðra yfirlýsinga frá einhverjum óljósum aðilum í fjölmiðlum.  Þvert á móti sé málatilbúnaði stefnenda lýst með skýrum og skilmerki­legum hætti í stefnu. 

                Þá hafna stefnendur þeirri fullyrðingu stefndu að í stefnunni sé ekki færður fram neinn rökstuðningur fyrir greiðsluskyldu ritstjóra.  Í stefnu sé gerð grein fyrir saknæmri háttsemi allra stefndu, þar með talið háttsemi Gunnars Smára Egilssonar og Fréttar ehf. 

                Þá hafna stefnendur þeirri fullyrðingu stefndu að af stefnu hafi mátt ráða að ágreiningur um höfundarréttindi hafi verið á milli stefnenda.  Enginn ágreiningur sé á milli stefnenda um höfundarréttindi.  Stefnendur standi sameiginlega að málshöfðun sinni á hendur stefndu og hafi krafist þess að stefndu yrðu dæmdir í samræmi við dómkröfur þeirra. 

                Þessu til viðbótar telja stefnendur að fullyrðing stefndu þess efnis að skuld að fjárhæð kr. 3.535.800 sé órökstudd og fyrir henni skorti gögn sé byggð á misskilningi.  Stefnendur vísa til þess að stefndu hafi ekki verið dæmdir til greiðslu þessarar fjárhæðar, enda hafi þessari kröfu ekki verið beint gegn þeim heldur hafi henni verið beint að Fréttablaðinu ehf. sem upphaflega var í hópi stefndu.  Dómari málsins hefði því ekki getað sýknað stefndu af þessari fjárkröfu án skýrrar kröfu um sýknu, sbr. c-lið 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991. 

                Jafnframt hafna stefnendur þeirri fullyrðingu stefndu að dómara hafi borið að taka afstöðu til þess hvers vegna Fréttablaðið ehf. hafi haft ótakmarkaðan aðgang að hinu umdeilda myndefni allt þar til útgáfu blaðsins var hætt í júní 2002 en það hafi bent til þess að samkomulag hafi verið milli aðilanna um slíkan aðgang.  Einnig hafna þeir tilvísun stefndu til b. liðar 2. mgr. 137. gr. þar sem málið hafi verið verulega vanreifað gagnvart stefndu báðum og engin gögn lögð fram til stuðnings kröfum stefnenda. 

                Stefnendur hafna einnig gildi þeirra röksemda stefndu að þar sem stefnendur hafi fallið frá kröfum á hendur Fréttablaðinu ehf., í þinghaldi 9. apríl, sl. sé rangt af dómara að taka afstöðu til og fallast á riftunarkröfu stefnenda sem beindist gegn Fréttablaðinu.  Þessi rök geti ekki leitt til endurupptöku málsins gagnvart þeim sem nú krefjist hennar.  Endurupptökubeiðni hljóti samkvæmt eðli sínu að miða við að endurskoða þann hluta héraðsdóms sem varði þá sem beiðist hennar með beinum hætti, sbr. c-lið 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991.

                Stefnendur mótmæla kröfu stefndu þess efnis að réttaráhrif dómsins frá 30. apríl 2003 falli niður að öllu leyti og fjárnám sem gert hafi verið á grundvelli þess dóms verði ógilt og látið niður falla þegar í stað.  Að mati stefnenda hafi það engin áhrif á kröfu þeirra að annar stefnenda, Útgáfufélag DV ehf., hafi fengið heimild til greiðslustöðvunar. 

                Niðurstaða. 

                Tímafrestur sá sem settur er í 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 er ekki miðaður við annað en uppkvaðningu dóms eða áritun stefnu og hvenær beiðni um endurupptöku berst.  Beiðni stefndu um endurupptöku barst ekki innan frestsins og verður málið því ekki endurupptekið samkvæmt þessari heimild. 

                Stefndu vísa til 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991.  Fallast ber á það að enda þótt hið nýja útgáfufélag kunni að hafa gefið yfirlýsingar í fjölmiðlum, er ekki staðhæft í stefnu að stefndu hafi lýst því yfir við stefnendur að þeir hygðist greiða kröfur sem þeir kynnu að eiga á hendur fyrri útgefanda blaðsins.  Er málið vanreifað að þessu leyti og hefði verið réttara að vísa kröfunni frá dómi, sbr. b lið 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991.

                Aðra sýknuástæðu nefna stefndu þá að engan rökstuðning sé að finna fyrir greiðsluskyldu ritstjóra í stefnu.  Þetta er að vísu ekki alls kostar rétt en fallast má á að ekki séu nægjanleg rök færð fyrir þeirri fullyrðingu stefnenda að ritstjórnarábyrgð hans, samkvæmt 15. gr. prentlaga nr. 57/1956, taki einnig til höfundarréttarbrota.  Verður því að telja slíkan vafa leika á um ábyrgð hans  til að vísa hefði kröfum á hendur honum frá dómi að einhverju leyti, sbr. b lið 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991.

                Því er fallist á beiðni stefndu um endurupptöku málsins nr. E-10990/2002 Útgáfufélag DV ehf. og Höfundarréttarsamtök DV gegn Frétt ehf. og Gunnari Smára Egilssyni.  Ekki sýnt að fjárnám hafi verið gert á grundvelli dómsins og verður því ekki ógilt.  Rétt er að réttaráhrif dómsins falli niður samkvæmt 1. mgr. 139. gr. laga nr. 91/1991. 

                Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan. 

Ú r s k u r ð a r o r ð

                Að kröfu stefndu, Gunnars Smára Egilssonar og Fréttar ehf., skal mál nr. E-10990/2002, Útgáfufélag DV ehf. og Höfundarréttarsamtök DV gegn Frétt ehf. og Gunnari Smára Egilssyni, endurupptekið og falla réttaráhrif dóms í málinu frá 30. apríl 2003 niður.