Hæstiréttur íslands

Mál nr. 678/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Mánudaginn 30

 

Mánudaginn 30. nóvember 2009.

Nr. 678/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Daði Ólafur Elíasson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.  

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. desember 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.  Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og að henni verði ekki gert að sæta einangrun.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 2. desember 2009, kl. 16:00.  Þess er krafist að X verði látin vera í einrúmi á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar meint fíkniefnabrot er varði ætlaðan innflutning á fíkninefnum hingað til lands.

Í gær, þann 26. nóvember hafi verið gerð leit á heimili Y og X að [...] í Reykjavík. Við húsleitina hafi fundist rúmlega 340 g af amfetamíni og 482 g af kókaíni víðs vegar um íbúðina en hluta af fíkniefnunum hafði verið komið fyrir í 6 kremdollum.

Lögreglunni hafi borist upplýsingar þess efnis að Y og X hafi farið til Bandaríkjanna í þeim tilgangi að flytja inn til landsins fíkniefni. Að sögn upplýsingagjafa, sem vilji ekki láta nafn síns getið, hafi Y verið búinn að safna saman peningum til kaupa á fíkniefnunum. Y og X komu frá Bandaríkjunum 19. nóvember sl. ásamt öðru pari. Sé það grunur lögreglu að þau hafi flutt fíkniefnin hingað til lands frá Bandaríkjunum.

X neiti að mestu að tjá sig um sakarefnið. X viðurkenni að hafa farið til Bandaríkjanna nýlega ásamt Y, einkaþjálfara þeirra og kærustu hans en X hafi neitað að gefa lögreglu það upp hver þessi einkaþjálfari þeirra sé.

Kærða þyki undir rökstuddum grun um að hafa flutt fíkniefni hingað til lands. Rannsókn málsins sé á frumstigi en nauðsynlegt sé að yfirheyra kærðu frekar og fleiri einstaklinga sem kunni að tengjast málinu.  Um sé að ræða talsvert magn fíkniefna sem víst þyki að hafi átt að fara í sölu- og dreifingu hér á landi.  Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagmuni á þessu stigi málsins. Þá sé frekari gagnaöflun og gagnaúrvinnsla framundan sem skýrt geti frekar aðdraganda brots kærðu. Rannsaka þurfi nánar fjármál kærðu og upplýsa um samskipti kærða við mögulega sam­verkamenn sem kunni að tengjast málinu.

Nauðsynlegt sé að kærða sæti gæsluvarðhaldi en ljóst sé að gangi hún laus geti  hún sett sig í samband við meinta vitorðsmenn sem gangi lausir eða þeir sett sig í samband við hana eða kærða geti komið undan gögnum með sönnunargildi sem ekki hafi verið lagt hald á.  Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærða gangi laus. Til rannsóknar sé ætlað brot gegn 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sem getur varðað fangelsisrefsingu ef sök sannast.

Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til b liðar 1. mgr. 99. gr.  sömu laga hvað varðar kröfu um einangrun.

Kærða er undir rökstuddum grun um aðild að broti gegn 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 sem varðað getur fangelsisrefsingu. Um er að ræða ætlað brot á fíkniefnalöggjöfinni og er rannsókn þess enn á frumstigi. Er fallist á með lögreglu að brýnir hagsmunir séu fyrir því að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hennar er til rannsóknar, enda geti hún torveldað rannsókn málsins með því að koma undan sönnunargögnum eða hafa áhrif samverkamenn, gangi hún laus. Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna og a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tekin til greina, eins og hún er fram sett. Þá er með sömu rökum fallist á að kærða sæti einangrun skv. b- lið 1. mgr. 99. gr. laganna.

Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kærða, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 2. desember 2009, kl. 16:00.  Kærða skal látin vera í einrúmi á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.