Hæstiréttur íslands

Mál nr. 224/2000


Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Kröfuréttur
  • Skaðabótamál


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000.

Nr. 224/2000.

Magnús Jóhannsson

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

Búnaðarbanka Íslands hf.

(Brynjólfur Kjartansson hrl.)

 

Skuldabréf. Kröfuréttur. Framkrafa. Skaðabótamál.

M leysti til sín skuldabréf, sem hann var sjálfskuldarábyrgðarmaður á. Í framhaldi af því gerði B þau mistök að senda aðalskuldaranum (Ó) kvittað skuldabréfið í stað M. M krafði B um skaðabætur á þeim forsendum að þar sem um handhafabréf hefði verið að ræða gæti hann ekki gert kröfu samkvæmt því á hendur Ó eða öðrum sjálfskuldarábyrgðarmanni. Héraðsdómur taldi handvömm B ekki hafa aðra þýðingu fyrir M en að hann gæti ekki rekið hugsanlegt endurkröfumál á grundvelli XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, heldur einungis sem almennt einkamál. Því var B sýknaður. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með þeirri athugasemd að M hafi hvorki reynt að brigða skuldabréfinu frá Ó né leitast við að fá það ógilt með dómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. júní 2000 og krefst þess að stefndi greiði sér 1.079.162 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. janúar 1999 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem greint er í héraðsdómi gerði stefndi þau mistök að senda aðalskuldara skuldabréfsins það eftir að áfrýjandi hafði greitt það að fullu 15. janúar 1999. Reisir áfrýjandi kröfu sína á hendur stefnda á því, að þar sem bréfið, sem sé handhafabréf, sé komið í hendur aðalskuldara, geti hann ekki gert kröfur samkvæmt því á hendur aðalskuldara og sjálfskuldarábyrgðarmanni. Stefnda hafi borið að framselja bréfið til sín við greiðslu þess og hafi það framsal verið forsenda þess að hann eignaðist kröfu á aðra skuldara bréfsins. Þessi forsenda hafi brostið þegar stefndi sendi aðalskuldara bréfið og þar með hafi endurkrafa áfrýjanda á hendur öðrum skuldurum þess fallið niður. Í því sé tjón hans falið og skipti ógjaldfærni aðalskuldara og sjálfskuldarábyrgðarmanns þar ekki höfuðmáli.

Fram er komið að áfrýjandi hafi hvorki reynt að brigða skuldabréfinu frá aðalskuldara þess, sem fékk það í hendur fyrir mistök stefnda, né leitast við að fá það ógilt með dómi. Jafnvel þótt hann fengi ekki bréfið í hendur eða ígildi þess liggur ekki annað fyrir en að hann eigi framkröfu á hendur skuldurum bréfsins þótt mál vegna þeirrar kröfu yrði ekki rekið samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann hefur því ekki sýnt fram á að stefndi hafi valdið honum skaða með mistökum sínum. Vegna þessa og þar sem áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á með öðrum hætti að hann hafi orðið fyrir tjóni af völdum stefnda, verður héraðsdómur staðfestur.

Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2000.

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi 16. mars sl., er höfðað með stefnu sem er árituð um birtingu en dagsetningu vantar.  Málið var þing­fest 7. desember sl.

Stefnandi er Magnús Jóhannsson, kt. 190641-7169, Hraðastöðum, Mosfellsbæ.

Stefndi er Búnaðarbanki Íslands hf., kt. 490169-1219, Austurstræti 5, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.079.162 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. janúar 1999 til greiðslu­dags.  Þá krefst hann málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

II

Málavextir eru þeir að 10. janúar 1995 gaf Ólafur Þór Ólafsson út skuldabréf til hand­hafa að fjárhæð 985.716 krónur.  Sjálfskuldarábyrgðarmaður á bréfinu var Helgi Þór­arinsson.  Stefnandi var eigandi þessa bréfs og 17. janúar 1995 framseldi hann stefnda það og tókst jafnframt á hendur sjálfskuldarábyrgð á því. 

Greiðslufall varð á bréfinu og 15. janúar 1999 leysti stefnandi bréfið til sín með 1.079.162 krónum.  Stefnandi kveðst hafa gengið eftir því hjá stefnda að fá bréfið í hendur eftir að hafa leyst það til sín en stefndi kvað bréfið ekki finnast í bankanum.  Taldi stefndi bréfið glatað og höfðaði mál til ógildingar á því en málinu var vísað frá hér­aðsdómi vegna vanreifunar. 

Síðar kom í ljós að bréfið hafði, fyrir mistök, verið sent skuldaranum, Ólafi Þór Ólafs­syni.  Ólafur Þór hefur bréfið nú undir höndum og er það stimplað sem full­greitt.

III

Stefnandi kveðst krefja stefnda um endurgreiðslu innlausnarfjárhæðarinnar með drátt­arvöxtum frá innlausnardegi, enda liggi ekki annað fyrir en að stefndi hafi á þeim tíma haft frumrit skuldabréfsins undir höndum. Krafan sé skaðabótakrafa innan samn­inga þar sem stefndi hafi ekki staðið við samkomulag aðila, sem helgist annars vegar af efni skuldabréfsins en hins vegar af almennum viðskiptabréfsreglum og regl­um samn­inga- og kröfuréttar. Stefnandi hafi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á skulda­bréf­inu við framsal þess til stefnda en stefndi jafnframt tekið á sig þá ábyrgð að geta fram­selt skuldabréfið á ný til stefnanda ef reyndi á ábyrgð hans.  Stefndi hafi ekki getað staðið við þetta samkomulag sem hafi verið forsendan fyrir innlausn stefnanda.  Í þessu sambandi skipti engu máli þótt stefndi geti hugsanlega sýnt fram á gjaldþrot skuld­ara bréfsins þar sem stefnandi eigi þá fulla endurkröfu á hendur sjálf­skuld­ar­ábyrgð­­armanninum, Helga Þórarinssyni.  Ekki geti þó reynt á ábyrgð hans fyrr en stefn­­andi hafi fengið skuldabréfið framselt með lögmætum hætti frá stefnda.

Ekkert liggi fyrir í málinu annað en að Helgi Þórarinsson, sjálf­skuld­ar­ábyrgð­ar­mað­­urinn, geti verið borgunarmaður bréfsins ef á það reyndi.  Ekkert liggi fyrir um ógjald­­­færni hans og þar að auki telji stefnandi að ekki dygði minna til en gjald­þrot hjá hon­­um til þess að stefndi gæti sýnt fram á að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni við það að innleysa bréfið til sín.

Þá er því haldið fram af hálfu stefnanda að svo virðist sem stefndi hafi blekkt hann til þess að leysa skuldabréfið til sín.

IV

Af hálfu stefnda er á því byggt að þegar skuldabréfið var komið í veruleg vanskil og ljóst hafi verið að aðalskuldari þess væri ógjaldfær, þá hafi þess verið farið á leit við stefnanda, sem framseljanda bréfsins, að hann greiddi kröfuna og hafi hann gert það.  Óumdeilt sé með aðilum að aðalskuldari sé ógjaldfær.  Þá er því mót­mælt af hálfu stefnda að hann hafi blekkt stefnanda til þess að greiða skuldabréfið.  Stefnanda hafi borið skylda til, sem sjálfskuldarábyrgðarmaður, að standa skil á kröfunni gagn­vart stefnda þegar vanskil urðu hjá aðalskuldara.

Þá er því haldið fram að sjálfskuldarábyrgðarmaður bréfsins, Helgi Þórarinsson, sé ógjaldfær í skilningi 4. tl. 65. gr., sbr. 64. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991.  Það sé því ljóst að stefnandi hafi ekki beðið tjón af þessum viðskiptum og eigi þar af leiðandi ekki kröfu á stefnda.

V

Stefnandi bar sjálfskuldarábyrgð á framangreindu skuldabréfi og leysti það til sín þegar ljóst var að skuldari þess stóð ekki í skilum.  Við innlausnina eignaðist stefnandi kröfu á hendur skuldara bréfsins, og á hendur hinum sjálfskuldarábyrgðarmanninum fyrir allt að helmingi innlausnarfjárhæðarinnar, reyndist skuldarinn ógjaldfær.  Ekki hefur reynt á það að þessir menn geti borgað en að framan var gerð grein fyrir fjár­hags­stöðu þeirra.  Hvernig svo sem skipti stefnanda og þessara tveggja manna ganga fyrir sig þá er ljóst að hann getur ekki eignast kröfu á hendur stefnda á grundvelli skulda­bréfsins, enda tók stefndi enga ábyrgð á sig á því þann tíma, sem hann átti það. 

Handvömm stefnda að senda skuldabréfið kvittað til skuldarans í stað þess að senda það til stefnanda getur ekki haft aðra þýðingu fyrir stefnanda en þá að hann getur ekki rekið hugsanlegt endurkröfumál á hendur skuldara bréfsins á grundvelli XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, heldur verður að reka það sem al­mennt einkamál. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að sýkna stefnda en máls­kostn­aður þykir mega falla niður.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

Stefndi, Búnaðarbanki Íslands hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Magnúsar Jóhanns­sonar, en málskostnaður skal falla niður.