Hæstiréttur íslands

Mál nr. 724/2010


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Nauðvörn
  • Einkaréttarkrafa


                                                                                              

Fimmtudaginn 22. september 2011.

Nr. 724/2010.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari)

gegn

Þorbirni Þórarinssyni

(Sigmundur Hannesson hrl.)

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Líkamsárás. Nauðvörn. Einkaréttarkrafa.

Þ var ákærður fyrir stórfellda líkamsárás með því að hafa veist að A og slegið hann að minnsta kosti fjórum höggum í andlitið með slökkvitæki. Með játningu Þ var sannað að hann hefði slegið A þrjú högg í andlitið með slökkvitækinu en áverkar sem sannanlega voru taldir leiða af árás hans voru ekki taldir stórfelldir. Ekki var fallist á að atlagan hefði verið nauðsynleg til að verjast eða afstýra ólögmætri árás sem byrjuð var eða vofði yfir og var skilyrðum 12. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 því ekki fullnægt. Þ var sakfelldur fyrir brot á 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og honum gert að sæta fangelsi í 8 mánuði. Frestað var framkvæmd 5 mánaða af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum 2 árum frá dómsuppsögu haldi Þ almennt skilorð. Þ var gert að greiða A 250 þúsund krónur með vöxtum í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. desember 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að refsing verði milduð, fjárhæð kröfunnar lækkuð og hún beri dráttarvexti frá dómsuppsögu.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. nóvember 2008 til 29. mars 2009, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að krafan beri dráttarvexti frá því að mánuður var liðinn frá því að hún var kynnt honum. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Með ákæru 4. mars 2010 var ákærða og B gefið að sök að hafa aðfaranótt 21. nóvember 2008 í sameiningu veist að A, B með því að slá A einu höggi með sleggju í höfuðið, en ákærða fyrir að slá hann að minnsta kosti fjórum höggum í andlitið með slökkvitæki. Við þetta hafi A hlotið hálsbrot, 7 cm langan skurð á hnakka, skurð á enni og mar á kinnbeinum. Var þetta talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hinum áfrýjaða dómi var B sýknaður, en ákærði fundinn sekur um að hafa slegið A nokkrum sinnum með slökkvitæki í höfuðið.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi var aðdragandi atburðanna aðfaranótt 21. nóvember 2008 sá að tveimur dögum fyrr hafði C ásamt tveimur öðrum nafngreindum mönnum ruðst inn á heimili D og móður hans í þeim erindagjörðum að innheimta ætlaða skuld af D. Aðfaranótt 21. nóvember þegar þeir D og meðákærði í héraði B sátu að sumbli á heimili þess síðarnefnda áttu þeir í símasambandi við C og verður ráðið að í þeim símtölum hafi verið hafðar uppi hótanir á báða bóga vegna fyrrgreindrar innheimtutilraunar. Í framhaldi af þessum símtölum ók A C upp í [...] til fundar við þá D og B. Fundum þeirra bar saman á bifreiðastæði við [...]. Hélt D til fundarins vopnaður golfkylfu, en B 9 kg sleggju. Ákærði, sem er bróðir B, kveðst hafa verið sofandi, en vaknað við hávaða og heyrt að haft var í hótunum. Hafi hann gripið slökkvitæki og haldið á eftir þeim D. Slökkvitæki þetta var 716,5 g þungur sívalur brúsi 29,5 cm að lengd. Vitnum ber ekki saman um hvort þeir C og A hafi verið vopnaðir, en eins og nánar er rakið í héraðsdómi telja sum þeirra að C hafi verið vopnaður hnífi og A hamri eða öðru barefli. Eftir samskipti á fyrrgreindu bifreiðastæði, sem nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi, en þar mun A hafa slegið ákærða niður, hopuðu þeir C og A á hæli og lögðu síðan á flótta út [...] og niður [...]. D, B og ákærði ráku flóttann. Kemur fram í skýrslum ákærða og B að A hafi fleygt hamri í átt að þeim í þann mund er hann lagði á flótta. B var fyrstur þeirra er á eftir fóru og náði hann A og hafði hann undir. Þegar ákærða kom þar að ber þeim bræðrum saman um að B hafi staðið upp og hlaupið áfram á eftir C, en ákærði tekið við A. Í skýrslu ákærða fyrir dómi kemur fram að eftir að A hafi ögrað honum með orðum hafi hann slegið A þrjú högg í andlitið með slökkvitækinu. Hafi tvö högganna lent á kinnbeinum hans, en það þriðja á enni.

II

Með játningu ákærða er sannað að hann sló A þrjú högg í andlitið með áðurnefndu slökkvitæki. Ákærði heldur því fram að það verk sé refsilaust þar sem það hafi verið unnið í neyðarvörn, sbr. 12. gr. almennra hegningarlaga. Að framan er rakið að A var á flótta þegar þeir bræður náðu honum og höfðu hann undir og að hann var þegar þar var komið sögu vopnlaus, hvað sem líður óvissu um hvort hann hafi mætt til fundarins vopnaður barefli. Atlaga ákærða var því ekki nauðsynleg til að verjast eða afstýra ólögmætri árás sem byrjuð var eða vofði yfir og er skilyrðum 12. gr. almennra hegningarlaga því ekki fullnægt. Ákærði verður því sakfelldur fyrir að slá A þrisvar sinnum í andlitið með slökkvitæki.

 Í ákæru er ákærðu gefin að sök stórfelld líkamasárás. Eins og að framan greinir veittust þeir bræður ekki samtímis að A, heldur tók ákærði við þegar B hélt áfram eftirför eftir C. Þá verður með vísan til framburðar læknanna E og F að telja ólíklegt að högg á andlit hafi valdið broti á hálslið A og það sama á raunar við um skurð á hnakka hans. Er því ósannað að ákærði sé valdur að þessum áverkum og verða þeir áverkar sem sannanlega leiddu af árás hans ekki taldir stórfelldir. Með því að beina höggum með slökkvitæki því sem getið er um í ákæru og lýst er hér að framan að höfði A hefur ákærði engu að síður gerst sekur um sérlega hættulega líkamsárás og er brotið því réttilega heimfært til 2. mgr. 218. gr.almennra hegningarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

 Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærða.

Eins og að framan segir verður ekki nema hluti þeirra áverka brotaþola sem í ákæru greinir sannanlega rakinn til atlögu ákærða. Í ljósi þess eru miskabætur úr hendi hans til A hæfilega ákveðnar 250.000 krónur. Fer um vexti af þeim eins og í dómsorði greinir, en þær bera dráttarvexti frá 17. apríl 2010 þegar mánuður var liðinn frá því að málið var þingfest í héraði og ákærða kynnt bótakrafan.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og málskostnað til handa brotaþola verða staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Ákærði verður dæmdur til að greiða málskostnað brotaþola fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:    

 Héraðsdómur skal vara óraskaður um refsingu ákærða, Þorbjarnar Þórarinssonar, sakarkostnað og málskostnað brotaþola, A.

Ákærði greiði brotaþola 250.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. nóvember 2008 til 17. apríl 2010, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði allan áfrýjunarkostnað málsins samtals 358.175 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

Ákærði greiði brotaþola 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti  

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2010.

Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 4. mars sl. á hendur ákærðu, B, kt. [...] og Þorbirni Þórarinssyni,[...], „fyrir stórfellda líkamsárás með því að hafa, aðfararnótt föstudagsins 21. nóvember 2008, á akbrautinni við Skógarsel til móts við Þingasel í Reykjavík, í sameiningu veist að A, ákærði B með því að slá A einu höggi með 9 kg þungri sleggju í höfuðið og ákærði Þorbjörn með því að slá hann að minnsta kosti fjórum höggum í andlitið með slökkvitæki. Við þetta hlaut A hálsbrot, 7 sm langan skurð á hnakka, skurð á enni og mar á kinnbeinum.

Háttsemi ákærðu telst varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til að greiða honum, in solidium, skaðabætur að fjárhæð krónur 5.000.000. Að auki er krafist vaxta samkvæmt II. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá því hið bótaskylda atvik átti sér stað og dráttarvaxta samkvæmt III. kafla sömu laga frá 29. júní 2009. Þá er krafist bóta vegna málskostnaðar að fjárhæð krónur 138.195 auk kostnaðar af frekari meðferð bótakröfunnar á síðari stigum.“

Ákærðu krefjast sýknu af refsikröfu og þess að bótakröfunni í því verði vísað frá dómi.

Málavextir

Fyrir liggur að aðfaranótt föstudagsins 21. nóvember 2008  var tilkynnt um það til lögreglu að fjórir menn væru þá að ráðast með barefli á tvo aðra við Teigasel.  Lögreglubílar voru þegar sendir á vettvang og sagði í staðfestri frumskýrslu G lögreglumanns um atvikið að þegar hann kom á vettvang hefði hann séð til tveggja manna við vegkantinn norðan megin götunnar, á móts við Þingasel.  Hefði annar þeirra, ákærði B, sést henda frá sér golfkylfu yfir hljóðmön, sem þarna er meðfram götunni, þegar hann sá til lögreglunnar.  Þá hefði stór 9 kg sleggja legið á akbrautinni við vegkantinn þar sem ákærði og annar maður til, D, stóðu.  Stuttu fyrir ofan mennina hefði maður legið á götunni og reyndist það vera A, f. [...]. Hefði hann verið mjög kvalinn að sjá, andað grunnt og mátt sjá að það blæddi úr hnakka hans og vinstra auga.  Ofarlega á enni, vinstra megin hefði verið hringlaga far sem virtist geta samsvarað því að væri eftir sleggjuna.  Sagði hann mennina hafa lamið sig með sleggjunni a.m.k. 30 sinnum.  Var maðurinn fluttur á slysadeild í sjúkrabíl.  Þeir D og B hafi verið sjáanlega undir einhvers konar vímuáhrifum og erfitt að henda reiður á því sem þeir sögðu.   Þó hefði mátt skilja á D að mennirnir tveir hefðu ráðist á hann og hann ætlað að verja sig.  Sagði hann mennina hafa komið til þess að innheimta fíkniefnaskuld og hefðu þeir áður m..a. ráðist inn á heimili hans og móður hans.  Ákærði hefði kannast við að eiga sleggjuna og hafa haft hana meðferðis.  Þá hefði hann dregið sérstaklega á sig stálbrynjaða klossa, sem hann var á, því hann hefði ætlað að hjálpa vini sínum gegn þessum mönnum.   Þá sagði að ekki hafi verið mikla áverka að sjá á þeim, en þó hefði mátt greina blóðdropa á vinstra eyra D og blóðugt hrufl á hnefum B, sem og roða á höfði hans.  Voru menn þessir handteknir.  Meðan lögreglumenn voru að ræða við þá hafi borist tilkynning um það að maður væri að brjóta rúðu í rauðum bíl á stæði við Teigasel.  Þegar þangað kom hittu lögreglumenn H við bílinn og kvaðst hún hafa verið með þeim  A og C í bílnum.  Sagði hún einn mannanna hafa brotið bílrúðuna með kylfu og kýlt hana í andlitið.  C fyrrnefndur er svo í skýrslunni sagður hafa verið handtekinn skömmu seinna á Skógarseli á móts við ÍR-­heimilið.  Var haft eftir honum að einhver B hefði hringt í hann og beðið þá um að hitta sig við Teigasel því til stæði að berja þá.  Þegar þeir komu á stefnumótið hefðu komið þar að þrír óþekktir menn, tveir þeirra með sleggjur en sá þriðji með einhvers konar járnrör.

Lögreglan lagði hald á 9 kg sleggju og golfkylfu sem fundust á vettvangi og hafa ljósmyndir af þessum áhöldum verið lagðar fram í málinu.  Fram er komið í málinu að ákærði Þorbjörn vísaði á slökkvitæki í sorpgeymslu í Tunguseli 5 og hann sagði vera það sem hann hefði verið með í átökunum.  Eru myndir af tækinu og stutt skýrsla með lýsingu á því meðal gagna málsins.  Um er að ræða svartmálaðan, sívalan, ílangan kút með allöngum stút.  Kúturinn er alls 29,5 sm að lengd, 7,5 sm í þvermál og vegur 716,5 g.  Má ráða af myndunum að hann er úr málmi.  Þá eru í málinu uppdráttur af vettvangi og nágrenni hans og allmargar ljósmyndir af vettvangi og nágrenni sem einnig er vísað til í uppdrættinum.  Ennfremur eru ljósmyndir af bílnum sem fólkið kom í á vettvang og skýrsla um athugun á bílnum.  Kemur þar fram að hliðarrúða hjá bílstjórasæti er brotin.

Í málinu er staðfest vottorð E sérfræðilæknis á slysadeild Landspítala um áverka á A.  Segir þar að maðurinn hafi verið ör í fasi, og sagst hafa verið að taka kókaín og einnig hafi hann kvartað um munnþurrk.  Hann hafi þó verið áttaður á stað og stund og sagt þrjá menn hafa veist að sér og barið með sleggju.  Á hnakka mannsins hafi verið 7 cm blæðandi skurður og annar minni skurður á enninu.  Þá hafi verið áverkar í andliti, nýlegt mar á kinnbeinum og hafi þessir áverkar samsvarað því að geta verið eftir barefli.  Þá hafi hann sagst vera aumur í hálsi.  Tekin hafi verið sneiðmynd af hálsi og þá komið í ljós brot á 7. hálslið (processus spinosi).  Loks er þess að geta að í vottorðinu er sagt að í blóðprufum hafi mátt sjá merki um bráða bólgusvörun. 

Í málinu er ennfremur staðfest vottorð F bæklunarlæknis.  Þar segir svo:

„Sjúkrasaga:

Sjúklingur kom á Slysa- og Bráðadeild Landspítala eftir líkamsárás 21/11 2008.  Barinn með ýmsum bareflum, en egglausum.  Að sögn sjúklings barinn aðallega í höfuð en einnig í kynfæri, óljóst með meðvitundarskerðingu, virtist vita að mestu um atburðarrásina.  Samkvæmt Slysadeildarlæknum var hann töluvert undir áhrifum fíkniefna við innlögn.  Kvartaði um dofa í fingrum.  Tekið var trauma tölvusneiðmynd sem sýndi fram á brot við proc. spinosi C7 með tilfærslu posterio-inferiort. 

Við skoðun var sjúklingur áttaður.  Rakti atburðarrásina vel.  Var með 2 skurði á höfði sem höfðu verið saumaðir.  Hrufl og bólga við nef, erfitt að átta sig á hvort um nýtt brot sé að ræða, telur að hann hafi brotnað áður.  Ekki verkur í nefi við skoðun.  Var með stífan hálskraga.  Verkur í hálsi.

Eymsl víðsvegar um thoracalhrygg ekki ákverkamerki.

Álit: Brot á proc C7 með tilfærslu.  Myndir skoðaðar á morgunfundi.  Ekki ákverkamerki á mænu eða heila.  Ekki ábending fyrir innlögn eða frekari aðgerða.  Haft var samband við vakthafandi deildarlæknir á bæklun.  Ákv að sjúklingur fari heim með mjúkan kraga, endurkoma eftir viku með nýjar myndir.  Rx fyrir parkodini og ibufeni.  Sjúklingur verið observeraður á SBD í nokkra klst.  Ráðlagt að vera þar sem einhver veit af honum amk kosti í dag.

[…….]

TS TRAUMA AF HÖFÐI:

Ekki merki um intracranial blæðingu. Brot greinast ekki.  Heilahólfin eru eðlilega víð og samhverf um miðlínu.  Áverkamerki greinast ekki á höfði.

TS HÁLS:

Til staðar er Clay shoveler´s fractura í C7.  Þannig um 2.5 cm fragment úr processus spinosi á C7.  Brotið er dislocerað inferiort og posteriort og mælist um 6-7 mm diastasi í brotinu.  Ekki merki um rof á facettu lið á þessum stað. Ekki merki um brot inn í facettuliðina.  Frekari áverkamerki greinast ekki á hálsi.

TS THORAX:

Áverkamerki greinast ekki í mediastinum.  Ekki áverkamerki á lungnaparenchymi.  Blæðing greinist ekki innan thorax.  Brot greinast ekki á thoracal svæði. Ekki áverkamerki á thorax.  Niðurstaða:Clay shoveler´s fractura á C7. 2.5 cm langt fragment brotið aftan af processus spinosi C7.  Diastasinn mælist mest um 6-7 mm.  Fragmentið dislocerað inferiort og dorsalt. Frekari áverkamerki greinast ekki.

Heilsufarssaga:

[...]

Skoðun:

Við komu á Slysadeild Landspítala við Fossvog kom eftirfrandi fram við skoðun.  Kviður: mjúkur, ekki eymsl við djúpa palpation. 

Bak: bankaumur vi síðu.

Kynfæri: ekki áverkamerki eða eymsl.

Stoðkerfi: ekki eymsl eða ákveramerki.

Neurol.skoðun:  Heila og taugaskoðun eðlileg  kraftar symmetrískir. skyn eðlilegt utan dofa í fingurgómum 1 og 2 á vi hendi. 

Sjúklingur fullklæddur.  Hann var með lóðréttan skurð aftan á hnakka sem mér sýndist vera um 7 cm.  Skurðurinn var nokkuð djúpur og blæddi ríkulega úr. Þetta var nýlegur áverki og samsvarar því að sjúklingur hafi verið sleginn þungu höggi með barefli í höfuðið.  Hann var þreifiaumur yfir hálshrygg.  Hann var með áverka á vinstra kinnbeini, sem var nýlegur og samrýmist því að hann hafði verið sleginn þungu höggi í andlitið.  Engir sjáanlegir áverkar á auganu sjálfu.  Það voru eðlilegar augnhreyfingar.  Sjúklingur var með þröngar en ljós-reactivar pupillur. Hann var ekki þreifiaumur yfir andlitsbeinum.  Engir áverkar sjáanlegir í munnholi eða á tönnum.  Hann var með symmetriska og vesiculer lungnahlustun.  Thorax var stabill. Eðlileg og symmetrisk lungnahlustun.  Tachycardia, 130/mín.  Kviður mjúkur og eymslalaus.

Útlimaskoðun var eðlileg.

Hann kom svo á stofu til undirritaðs 5/2 2009.  Var hann mjög aumur yfir hryggtind C7 og paravertebralt og verkjaði við allar hreyfingar í hálsi við ystu hreyfimörk einnig voru verkir við að snúa í brjósthrygg.

Samantekt:

Hann hefur ekkert skánað í hálsinum eða brjósthrygg og finnur alltaf fyrir verkjum.  Hann hefur ekkert getað unnið eftir þessa líkamsárás og verður að teljast óvinnufær.  Sótt hefur verið um örorku fyrir hann þar sem hann hefur enga framfærslu.

Það er núna liðnir um 7 mánuðir frá þessari líkamsárás og einkenni eru ennþá slæm í formi verkja.

Einkenni virðast komin til að vera og ekki búist við frekari bata úr þessu.  Ekki er hægt að lækna ástandið með læknisaðgerð.”

A gaf skýrslu hjá lögreglu 21 nóvember 2008.  Var skýrsla þessi tekin upp á myndband og fylgir upptakan málinu.  Hann kvað þá C, sem hann þekkti lítið, hafa verið í heimsókn hjá manni í Breiðholti og hefði beðið hann um að skutla sér út í Seljahverfi.  Auk C hafi farið í bílnum með þeim stúlka sem hann kannaðist ekki við.  Þegar þau komu á þann stað sem tiltekinn hefði verið voru þar fyrir tveir menn vopnaðir sleggju og golfkylfu.  Annar þeirra hefði verið D sem hann þekkti eftir að hafa unnið með honum.  Hann sagði þá C hafa stigið út úr bílnum og spurt hvað væri á seyði.  Hinn maðurinn, sá sem var með sleggjuna, hefði verið trylltur og ber að ofan.  Hefðu þeir öskrað á þá C en skyndilega hefði þriðji maðurinn verið kominn að baki þeim með stóra flösku af einhverju tagi og gert sig líklegan til þess að berja hann en hann kvaðst hafa getað borið af sér höggið.  Hann sagði hund sinn hafa þá hlaupið úr bílnum en D þá barið hundinn með golfkylfu.   Hefðu mennirnir sótt að þeim en þeir hörfað niður Seljabraut í átt að ÍR-húsinu og náð honum.  Hann kvaðst hafa náð að verjast þeim og hefði hann getað fellt einn þeirra.  Hann hefði svo verið barinn með sleggju í höfuðið en hann myndi þetta ekki fyllilega, enda hefði hann fengið mikinn heilahristing af þessu.  Hann segir þó að honum hefði verið haldið niðri en hinn sagt þeim manni að halda honum þannig að hann gæti barið hann í hausinn.  Hann sagðist hafa náð að fella einn af þessum mönnum, annað hvort þann með sleggjuna eða þann með slökkvitækið þannig að þeir skullu í jörðina saman.  Þá hefði einn mannanna tekið utan um hann aftan frá um hálsinn og haldið honum föstum meðan annar barði hann með flöskunni svo að honum lá við roti.  Þegar lögreglan kom á staðinn hafi sá, sem barði hann, hlaupið á brott og sloppið frá lögreglunni.  Hann sagðist ekki hafa séð C lenda í átökum við þessa menn.  Hann sagðist ekki vita tilefni árásarinnar enda hefði þetta verið óviðkomandi honum.  Hefði hann einungis verið að skutla C á mótsstaðinn og ekki hafa vitað að D yrði þarna, þótt C hefði að vísu nefnt einhvern „d“ áður.  Hann sagði annan hinna tveggja hafa verið hávaxinn, beran undir ljósgrænni fráhnepptri skyrtu, skolhærðan. Hafi hann verið sá sem sló hann með sleggjunni.  Hinn hafi verið frekar lítill, lægri vexti enn hann sjálfur, dökkklæddur og  snögghærður.  Þessi maður hafi slegið hann með flöskunni.  

C var yfirheyrður hjá lögreglu þennan sama dag.  Skýrði hann svo frá að mál þetta snerist um „handrukkun“.  D skuldaði manni sem hann nefndi „i“ 500.000 krónur.  Daginn áður hefðu þeir „i“ og þriðji maður til farið heim til D til þess að fá skuldina greidda.   Í nótt hefði hann verið heima hjá j vini sínum þegar „b“ hóf að hringja og skora á hann að koma og verða barinn.  Hafi þetta gerst mörgum sinnum.  Um klukkan hálfþrjú hefði hann hringt síðast og þá verið ákveðið að þeir hittust við Teigasel [...].  J hefði fengið A til þess að fara með þeim H og A hefði komið og ekið þeim þangað.  Þegar þeir stigu úr bílnum í Teigaseli hefði hann orðið þess var að þrír menn nálguðust þá hver úr sinni átt.  Hefði  „b“ haldið á stórri sleggju og D einnig.  Þriðji maðurinn hefði einnig haldið á einhverju barefli.  Þegar þeir nálguðust hefði A sagt við einn mannanna: „Ég vissi ekki að þetta varst þú“.  Einn mannanna, líklega „b“, hefði komið hlaupandi með sleggjuna en þeir A þá hörfað undan.  Mennirnir hefðu reynt að ná til þeirra með bareflunum og þegar leikurinn hafði borist niður að Skógarseli kvaðst hann hafa sagt A að forða sér og sjálfur hlaupið í átt að ÍR-heimilinu og D á eftir honum en svo gefist upp á eftirförinni.  Hann hafi svo numið staðar og litið til baka og þá séð að þriðji maðurinn „lá klofvega“ yfir A og barði hann hvað eftir annað með bareflinu.  Þá hefði A komið að með sleggjuna og barði A svo að dynkur heyrðist.  „B“ hefði svo komið að og tekið að sparka í hann og kýla og berja hann með sinni sleggju.  Hefði „B“ verið sá sem mest hafði sig í frammi við að lumbra á A.  Hann hafi svo heyrt einn þeirra kalla, líklega D: Hann var ekki í þessu, ég þekki hann.“  Þrátt fyrir það hefðu þeir haldið áfram að slá A einu og einu höggi, í rauninni alveg þar til lögreglan kom. C kvaðst hafa verið búinn að fá sér kókaín og drekka nokkra bjóra þegar þetta gerðist en hann hefði samt gert sér glögga grein fyrir því sem fram fór.

Ákærði B var yfirheyrður þennan dag einnig.  Sagðist honum svo frá að þeir hinir hefðu verið með hótanir við D að undanförnu.  Daginn áður hefðu þeir ruðst inn á aldraða móður hans.  Þeir D og Þorbjörn hefðu verið heima hjá ákærða og hefðu þeir hinir verið að hringja í D.  Hefði svo orðið úr að þeir mæltu sér mót í Teigaseli og þeir allir gengið þangað.  Hefði hann tekið með sér sleggju og annar hvor þeirra hinna hefði haft með sér golfkylfu.  Hann myndi það næst að þeir D hlupu á eftir einum eða tveimur mönnum niður að Skógaseli en Þorbjörn orðið eftir.  Lögreglan hefði fljótlega komið að og handtekið þá og kvaðst hann hafa losað sig við sleggjuna þegar hann sá til lögreglunar.  Þá staðfesti hann það sem haft var eftir honum í frumskýrslunni um klossana.  Hann kvaðst ekki geta skýrt það að hann var hruflaður á hnúunum og roða á höfði en gat þess að hann hefði þrefað við lögregluna þegar hann var handtekinn.  Hann kvaðst hafa verið mjög drukkinn þarna um nóttina og myndi hann mjög lítið að því sem gerðist.  Hann neitaði því að hafa slegið A með sleggjunni en sagði að vel gæti verið að hann hefði slegið í hann og sparkað.  Sleggjunni hefði hann ekki beitt enda hefði hún orðið eftir neðar í brekkunni.  Þegar hann var spurður nánar út í þetta og kynntur framburður A um það sagðist hann ekki geta svarið fyrir það að hafa slegið hann þungt högg í höfuðið með sleggjunni, eins og A segði.  Hann sagðist hins vegar ekki trúa því að hann hefði gert slíkt.  Um handrukkunina sagði ákærði að D hefði verið búinn að segja sér að hann skuldaði 100 þúsund krónur en þegar dróst að hann borgaði skuldina hefði hún þrefaldast og loks hefðu þeir farið til móður D og krafið hana um 500 þúsund krónur.

Ákærði Þorbjörn var yfirheyrður hjá lögreglunni þennan sama dag, að viðstöddum verjanda sínum.  Sagðist honum svo frá að hann hefði vaknað, allsgáður, um tvöleytið um nóttina við það að þeir B og D, sem voru mjög ölvaðir, voru að tala um eitthvað sem gerst hafði heima hjá D nokkru áður.  Þá hefði hann heyrt þá tala í síma og um hátalara á símanum að þeim var hótað.  Hefði þetta tengst einhverri skuld D og komið fram að þessir menn hefðu ruðst inn til D.  Þeir D og B hefðu svo farið út og hann á eftir þeim. Áður hefði hann tekið lítið slökkvitæki úr skáp og haft með sér.  Hann hefði náð þeim í Teigaseli og þá séð að kominn var þangað rauður bíll og einhver í honum, sem hann sá seinna að var stúlka.  Við bílinn hefði staðið maður og hélt á stórri sleggju.  Annar maður hefði staðið fyrir framan bílinn og hélt á hnífi og reynt að siga á þá stórum hundi.  Kvaðst hann hafa hlaupið að og náð að króa af þann fyrrnefnda.  Hefði hann tekið öryggispinnann úr slökkvitækinu og reynt að sprauta á manninn en maðurinn náð að slá hann með sleggjunni í vinstri fótinn við hné.  Hann kvaðst þá hafa náð að slá manninn í höfuðið með slökkvitækinu.  Lætin hefðu færst niður eftir hverfinu og hann í „látum“ við þennan mann.   Hefði hann sagt D og meðákærða að ná hinum manninum en sjálfur beðið sinn andstæðing um skilríki.  Þá hefði hann sagt D og B að reyna að ná hinum manninum.  Þegar hann sá lögregluna nálgast hefði hann komið sér í burtu.  Hafi hann litið til baka og séð að maðurinn, sem hann hafði verið í átökum við, lá í götunni og lögreglan var rétt ókomin að honum.  Hefði hann svo haldið að bílnum sem mennirnir höfðu komið á. Kveðst hann hafa brotið rúðu í bílnum og sagt stúlkunni sem í honum var að koma sér í burtu frá svona mönnum.  Eftir þetta hefði hann farið heim til B bróður síns. Aðspurður kvaðst ákærði hafa slegið manninn einu sinni með slökkvitækinu við bílinn en í allt hefði hann slegið hann fimm sinnum.  Kvaðst hann muna að þegar átökin höfðu borist eitthvað frá hefðu B og þessi maður verið að slást.  Kvaðst hann þá hafa gengið að þessum manni og rekið slökkvitækið í andlitið á honum, vinstra megin, að hann heldur og að skurður kom  við vinstri augabrún.  Hann kvað höggin sem hann greiddi A hafa verið þung eða meðal þung enda hefði maðurinn beitt sleggju.  Hefði hann upphaflega ætlað að hafa með sér úðabrúsa en svo séð slökkvitækið og tekið það með sér.  Ákærði kvaðst ekki hafa séð neinn annan með sleggju en A en D hefði verið með eitthvað vopn með sér.   Hann kvaðst ekki hafa séð D ráðast á neinn þarna en þegar neðar dró í brekkuna hefði hann séð B vaða í A.  Svo hefði hann séð B liggja í götunni og þá kveðst hann hafa vaðið í A.  Hefði B ekkert aðhafst eftir það en hann minnti að D hefði sagt við B að nú væri nóg komið. 

D var yfirheyrður sem grunaður maður hjá lögreglu þennan sama.  Skýrði hann svo frá að daginn áður hefði C ruðst inn heima hjá honum ásamt ókunnum manni.  Ástæðan fyrir þeirri heimsókn hefði verið skuld við mann nokkurn sem komin var í vanskil.  Hefði hún staðið í 100 þúsund krónum en hann samþykkt að greiða 300 þúsund krónur vegna þessa dráttar.  Hefðu þeir C hringst á nokkrum sinnum um daginn og C þá haft í stöðugum hótunum.  Hann kvaðst svo hafa hringt í C heiman frá B.  Þar hefði Þorbjörn einnig verið staddur.  Hefði þetta leitt til þess að þeir hittust ákváðu að hittast til þess að „gera þetta upp“.  Þeir hefðu svo hist í Teigaselinu og þeir hinir komið þangað akandi í bíl.  Þar hefði A stigið úr bílnum og haldið á sleggju eða einhverju slíku auk þess sem hundur var með í förinni.  Kvaðst hann hafa séð að A og C tóku á rás niður eftir og Þorbjörn og B á eftir þeim.  Hann kvaðst hafa gengið að bílnum og séð að í honum var stúlka.  Hefði hann svo hlaupið á eftir þeim hinum og séð B og Þorbjörn ná A en sjálfur hefði hann hlaupið á eftir C sem þó hefði komist undan.  Kvaðst hann hafa séð Þorbjörn og B lemja A sem hefði kallað að hann hefði ekki vitað að hann, þ.e. D, ætti þarna í hlut.  Kvaðst hann þá hafa kallað til þeirra bræðranna að þeir skyldu hætta að berja A.  Hefðu þeir hætt eftir að hann hafði öskrað nokkrum sinnum á þá.  Ekki hefði hann séð nákvæmlega hvernig þeir börðu A því þeir hefðu verið einhvern veginn yfir honum.  Þó hefði hann séð þá berja hann með krepptum hnefum.   Í þessu hefði lögreglan komið og Þorbjörn hlaupið á brott en þeir B gengið yfir götuna og hitt lögregluna sem hefði svo handtekið þá.  Hann sagði að A hefði ekki átt að lenda í þessu, enda hefði þetta verið honum óviðkomandi.  Hann sagði aðspurður að B hefði hent frá sér golfkylfu þegar lögreglan nálgaðist.  Þá hefði sleggja legið í götunni.  Þá kvað hann vera rétt hjá C að þeir þrír hefðu gengið að bílnum til þeirra hinna, hver úr sinni átt.  Hefði B, sem hefði verið í fráhnepptri skyrtu, haldið á stórri sleggju en sjálfur hefði hann haldið á golfkylfu.  Ekki kvaðst hann vita hvort Þorbjörn hefði verið með eitthvað í höndunum.  D neitaði því að hafa barið A með sleggjunni.  Þá kvaðst hann ekki hafa séð að flaska kæmi við sögu í átökunum.

Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins. 

Ákærði B hefur skýrt frá því hann hafi verið heima hjá sér í [...] og nokkuð við skál.  Hafi D verið þar staddur einnig.  Hótanir hafi þá farið að berast í síma D og kveðst ákærði hafa heyrt þær um hátalara á símanum.  Hafi heyrst að mennirnir ætluðu að koma með slaghamar og hníf með sér.  D hafi jafnframt sagt frá því að þessir menn hefðu ruðst inn á móður hans.  Kveðst ákærði hafa reiðst mjög við þau tíðindi enda sé hann venslaður konu þessari.  Hafi hann tekið símann af D og sagt í hann við Cað þeir skyldu bara koma og þá fengju þeir þá að sjá hamar sem bragð væri að.  Hafi C tekið því vel og sagst myndu koma og berja ákærða niður og limlesta þá.  Hann segir þá D hafa farið í Teigasel og kveðst hann hafa haft með sér 9 kílóa sleggju en D verið með golfkylfu.  Þegar þangað kom hafi hann látið sleggjuna standa á hausnum á götunni.  Meðákærði Þorbjörn hafi orðið eftir heima en svo komið á vettvang á eftir þeim D og hafi þeir A og C verið komnir á vettvang.  Hafi Þorbjörn haldið á litlu slökkvitæki.  Hafi upphafist þarna rifrildi við þá hina.  Hafi A slegið Þorbjörn í hnéð með hamri svo að hann féll við en sjálfur kveðst hann þá hafa stigið fram og hinir þá hopað undan.  Segist hann hafa numið staðar og þeir Þorbjörn og D einnig.  Við það hafi hinir snúið sér við með látum.  Þá hafi þeir gengið að þeim aftur og leikurinn borist um bílaplanið og fram af því niður að götunni.  Ákærði segir C hafa verið með hníf sem þeir hefðu verið búnir að hóta með í símtölunum.  Hann segist aðspurður ekki hafa hlaupið um með sleggjuna og hafa sett hana frá sér, þegar niður af planinu var komið, til þess að hafa hendur á A.  Hafi hann haldið A þangað til Þorbjörn kom og tók við honum og hélt honum.  Kveðst hann þá hafa hlaupið á eftir C ásamt D en svo séð að lögreglan var komin á staðinn og hafði haft hendur í hári C.  Ákærði neitar því að hafa beitt A ofbeldi og ekki vita til þess að meðákærði hafi gert það heldur.   Ákærði segir A hafa dottið á bakið á gangstétt þegar hann missti fótanna í brekku eftir að hafa farið út af bílaplaninu.  Hann hafi svo staðið á fætur og kastað hamrinum að þeim.  Sjálfur segist hann einnig hafa dottið þegar honum skrikaði fótur þarna við götukant.

Ákærði Þorbjörn hefur skýrt frá því að hann hafi vaknað þessa nótt við orðaskak og læti í íbúðinni.  Hafi þeir hinir verið að tala hvor í sinn símann og skildist ákærða að hótanir „væru í gangi“ og tengdust einhverju sem gerst hefði nokkru áður heima hjá D.  hann segist hafa séð bróður sinn með sleggjuna sem hafi staðið þarna á haus.  Hafi hann heyrt að meðákærða hafi veið hótað með hamri og að D með hnífi.  Hafi þeir verið ofurölvi, meðákærði og D og segir ákærði ekki hafa gengið að róa þá.  Hann hafi farið út 4-5 mínútum á eftir þeim hinum og hafi hann haft með sér lítið slökkvitæki.  Hann segist hafa séð að maður,C, stóð farþegamegin við bíl og hafði stóran hníf í hendi.  Annar maður hafi staðið og ögrað og ógnað með hamri.  Kveðst ákærði hafa hlaupið til með slökkvitækið og beint því að A og sagt við hann að hætta þessu rugli.  Hafi hann haldið þessu áfram og kveðst ákærði þá hafa sagt við hann að hann myndi sprauta á hann en A þá slegið hann með hamrinum í hnéð.  Kveðst hann hafa sótt að A og slegið frá sér en A hörfað að bílnum og hleypt þaðan út afar stórum hundi, sem var á við ákærða að stærð.  Þeir A hafi hopað undan þeim og út af planinu og við það hafi A hrasað og dottið.  A hafi svo fleygt í sig hamrinum en ákærði kveðst hafa getað vikið sér undan hamrinum sem hafi flogið rétt hjá í höfuðhæð.  Við þetta hafi þeir bræður hlaupið á eftir A en D í humátt á eftir þeim.  Hafi B tekið A og snúið hann niður og legið með hann.  Hann hafi svo staðið upp og kveðst ákærði eftir það skipt orðum við hann.  Þeir hinir, B og D, hafi hlaupið á eftir C en orðaskipti ákærða og A, sem hafi verið „svakaleg“ hafi svo leitt til þess að ákærði sló hann þrisvar sinnum með slökkvitækinu í andlitið.  Hafi tvö högg lent á kinnbeini hans en hið þriðja á enninu.  Ekki hafi þetta verið þung högg.  Minnir ákærða að hafa séð skurð á enni mannsins eftir þetta.  Hann kveðst hafa staðið yfir A við hljóðmön sem þarna er og hafa keyrt hnéð í síðu hans til þess að halda honum niðri.  Lögreglan hafi svo verið á leiðinni til þeirra og A hafi staðið á fætur og hlaupið út á götu.  Hafi hann dottið þar á hálku og skollið á hnakkann og legið kyrr eftir.  Ákærða er bent á það að þetta síðasta atriði hafi hann ekki nefnt þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu en hann segist hafa verið mjög taugaóstyrkur þegar hann gaf skýrsluna og ekki munað þetta.  Undir ákærða er það borið sem segir í lögregluskýrslu að B hafi vaðið í A.  Hafi hann átt við að meðákærði hafi farið að honum, án sleggjunnar, og tekið utan um hann og skellt honum í götuna, „eins og að taka krabba í gildru“.  Hafi hann beðið B að sleppa A og D hafi ekki listist á blikuna heldur.   Ákærði segir meðákærða aldrei hafa beitt sleggjunni á A. 

D hefur skýrt frá því að hann hafi verið heima hjá ákærða B í gleðskap.  Þá hafi farið að berast hótanir í síma til vitnisins.  Hafi hann látið B vita af þessu of sagt honum frá atviki sem gerðist heima hjá honum þegar „þeir“ hafi komið til hans.  Hafi B reiðst mjög og hann hafi einnig talað við þá í símann.  Þeir tveir hafi svo ákveðið að fara út og heim til vitnisins að aðgæta með heimili hans.  Hafi bíll mannanna verið á planinu fyrir utan hjá honum og þeir A og C þar hjá.  A hafi haldið á hamri en C á hnífi.  Sjálfur hafi hann verið með golfkylfu sér til öryggis.  Þarna hafi orðið hávaðarifrildi með mönnum og öskur.  Kveðst vitnið hafa staðið andspænis C en B hafi staðið andspænis A með sleggju í hendi sem hann hafði með sér að heiman.  C hafi hörfað undan en sjálfur hafi hann barið hund í hausinn með golfkylfunni.  Hann kveðst svo hafa séð þá hörfa undan B og hafi A fallið við það á stéttina.  Hann hafi svo séð að ákærði B var kominn yfir götuna og að hann hafði kastað frá sér sleggjunni.  Hafi ákærði náð A en sjálfur hafi hann hlaupið á eftir C þar til lögreglan tók C fastan.  D segir ákærða Þorbjörn hafa komið seinna á vettvang og ekki hafi hann séð neitt til hans þar.  Hann segir þá hafa verið vopnaða þar sem C hafði verið búinn að brjótast inn heima hjá honum móður hans til hrellingar.  Hafi þeir viljað verja heimili vitnisins og móður hans sem þarna býr.  Athygli vitnisins er vakin á því að hjá lögreglu hafi hann sagt frá því að bræðurnir hafi náð A, farið að berja hann en hann beðið þá að hætta þessu.  Hann segir þetta ekki rétt eftir sér haft í lögregluskýrslunni.  Hafi hann séð þá vera að stumra yfir A þegar hann hafði snúið við í brekkunni eftir eftirförina við C.  Hafi hann gengið til þeirra og gengið svo yfir akbrautina með B.  Hafi hann ekki séð að A sætti ofbeldi af hálfu þeirra bræðra.  Þá segist hann ekki hafa séð að Þorbjörn yrði fyrir hamri A.  Hann segir þessa úlfúð komna til af fíkniefnaskuld sinni við mann að nafni K. 

H hefur skýrt frá því að hún hafi verið á ferð í bíl með þeim C, kunningja sínum, og A.  Þau hafi svo hitt fjóra menn sem hafi komið gangandi að bílnum til þeirra.  Ekki viti hún af hverju þeir höfðu numið staðar þarna.  B hafi komið að bílnum öskrandi og með sleggju sem hann reiddi upp.  Þeir A og C hafi hlaupið út og strákarnir á eftir þeim.  Þeir menn sem fóru á eftir þeim hafi verið með golfkylfu og sleggju og fleira.  Aðspurð segir hún að fyrir þennan fund hefðu þeir verið búnir að rífast í síma mennirnir.  Ekki viti hún um hvað það snerist.  Hún segist muna eftir því að með þeim hafi verið hundur í bílnum sem hleypt var út úr honum og hafi hann verið sleginn með golfkylfunni þegar þeir A og C voru hlaupnir á brott.  Segist hún hafa sett hundinn inn í bílinn.  Hún segist ekki hafa séð að þeir væru vopnaðir.  Hún segist ekki hafa séð nein átök milli mannanna.  Maður hafi hins vegar komið að bílnum og brotið í honum rúðu með glerflösku, að hún heldur.  

L hefur skýrt frá því að hann hafi á þessum tíma átt heima í Teigaseli [...]  í umrætt sinn.  Nótt eina hafi hann vaknað við öskur utan að og þá séð að bíll stóð fyrir utan húsið og að búið var að brjóta í honum rúðu.  Hafi hann séð 3 eða 4 menn standa andspænis tveimur mönnum og að stúlka var inni í bílnum og geltandi hundur.  Hafi öskur gengið á milli manna þarna.  Einn mannanna þriggja hafi haft sig mest í frammi og sveiflað um sig einhverju sem líktist timbursköfu eða golfkylfu og einnig að mönnunum tveimur.  Þessir tveir menn hafi ekki verið með neitt í höndunum að hann sá.  Hafi þeir hopað á hæli undan þeim hinum og eitthvað reynt að verjast, en lítið getað nema að slá og sparka frá sér.  Hann kveðst hafa hringt á lögregluna og hafa svo séð að leikurinn barst niður á götuna og niður hana.  Lögreglan hafi komið á vettvang og reynt að róa mennina niður og hafi það ekki tekist fyrr en eftir rúmar 15 mínútur eða svo.  Hann kveðst hafa séð einn mannanna fara inn í húsagarð en hann hafi staðið þar stutt við.  Lögreglan hafi komið og skakkað leikinn og mennirnir þá verið í Skógarselinu rúma 100 metra frá Teigaseli.    Hann segist ekki hafa séð að menn fengju högg af kylfunni og ekki hafi hann heldur séð að maður félli í götuna.  Hann segist hafa séð vel yfir vettvanginn af fjórðu hæð og hafi verið á að giska 20 metrar í mennina og bílinn frá honum.  Myrkur hafi verið á en lýsing góð.  Önnur vopn en kylfuna eða sköfuna hafi hann ekki séð þarna.  Þá segist hann ekki hafa séð að hundurinn færi úr bílnum. 

M, sem var heima hjá sér á [...] í Teigaseli [...], hefur sagt frá því að hún hafi verið vakandi í umrætt sinn og þá heyrt læti að utan.  Þegar hún leit út hafi hún séð kyrrstæðan bíl í brekkunni þar fyrir utan.  Tveir strákar hafi komið úr bílnum og hún heyrði sagt: „Þetta er vinur minn.“  Þá hafi komið tveir menn gangandi að bílnum og sagt: “Hvað haldið þið að þið getið gert?“  Hundur hafi komið úr bílnum og hafi annar af þeim sem komu að bílnum slegið til hundsins.  Þriðji maðurinn hafi komið aftan að bílnum í laumi en þeir sem úr bílnum komu hafi orðið hans varir og slegið hann niður með einhverjum hætti.  Undir hana er borið það sem segir í skýrslu hennar hjá lögreglu að maðurinn hafi verið sleginn með löngu áhaldi af einhverju tagi og segir hún að þetta geti verið rétt.  Þeir tveir hafi svo hlaupið á brott í átt að bensínstöðinni en hinir mennirnir elt þá.  Stúlkan og hundurinn hafi orðið eftir í bílnum en maður komið að bílnum og skipað að bílglugginn yrði opnaður.  Þegar því var ekki sinnt hafi maðurinn brotið rúðuna með sívalningnum og hlaupið inn í Teigasel [...] að vitnið heldur.  Hún segir mennina sem sóttu að bílnum hafa verið með golfkylfu og einhvern sívalning að vopni, 20 – 30 cm langan.  Hún segist ekki hafa séð að mennirnir í bílnum hefðu verið með nein vopn.  Ekki man hún eftir sleggju þarna.  Hún tekur fram að þar sem nokkuð sé liðið frá þessum atburði muni hún þetta ekki í öllum atriðum. 

Vitnið A hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hann hafi ekið félaga sínum, C, upp í Seljahverfi þar sem C hafði mælt sér mót við einhvern.  Hann kveðst hafa verið í fíkniefnaneyslu á þessum tíma.  Ekki hafi hann vitað til hvers þessi fundur var en þegar þangað var komið hafi komið að þeim náungar sem hafi verið vopnaðir stórri sleggju (B), golfkylfu (D, sem hann kannaðist við) og litlu rauðu slökkvitæki (Þorbjörn).  Hafi hann spurt D að því hvað væri á seyði en ekki verið ansað.  Þessir menn hafi verið mjög æstir og þeir C hafi því flúið undan þeim.  Ekki muni hann hvort þeim hafi lent saman við mennina áður en þeir C lögðu á flótta.  Ekki muni hann hvort hann datt á flóttanum undan þessum.  Hann segist ekki muna til þess að þeir C væru vopnaðir.  Þeim hafi svo lent saman við bræðurna, ákærðu, í brekkunni sem þarna er hjá, líklega vegna þess að þeir hafi verið hlaupnir uppi.  Hafi hann fengið þungt högg á hnakkann og muni hann ekki hvað hafi gerst eftir það.  Heldur hann að Þorbjörn hafi slegið hann þetta högg með slökkvitækinu en hinn bróðirinn, B, haldið honum.  Hann hafi einnig fengið fleiri högg og þá með slökkvitækinu, að hann heldur.  Ekki muni hann til þess að hafa verið barinn með sleggjunni.  Lögreglan hafi svo komið þarna að og skakkað leikinn.  Hann kveðst hafa verið fluttur á slysadeild, blóðugur og með brot á hryggjarlið.  Hann segist vera óvinnufær eftir þessa árás. 

Undir hann er borið það sem segir í skýrslu hans hjá lögreglu að þrír menn hafi elt þá niður Seljabraut og að hann hafi verið sleginn mikið högg í höfuðið með sleggjunni svo hann vankaðist.  Hafi hann reynt að verja sig og muna að hann hafi dottið með einum árásarmannanna.  Þá hafi honum verið haldið og einn af þessum mönnum hafi slegið hann oftar en einu sinni með glerflöskunni.  Hann segir þetta ekki vera rétt eftir honum haft og sé þetta vitleysa í skýrslunni, enda haldi hann að hann hafi ekki fengið sleggjuna í höfuðið.  Hafi hann fyrst haldið að hann hefði verið sleginn með sleggjunni enda hefði hann séð sleggjuna þarna í höndum eins þeirra.  Hafi hann farið að hugsa betur um málið og þá þóst sjá að hann hefði frekar fengið högg af slökkvitækinu en sleggjunni.  Hann segist hafa hitt ákærða B eftir þetta og þeir rætt þetta mál.  Annars sé hann ekki viss um þetta.  Hann segist hafa séð slökkvitækið í höndum Þorbjarnar sem hafi haldið því fyrir framan sig, annarri hendi um stútinn enn hinni um botninn og virst ætla að slá þannig með því.  Hann segist ekki muna hvort honum var haldið þegar hann fékk fyrsta höggið á höfuðið.  Aðspurður hvort hann hafi verið ógnandi í garð Þorbjarnar segist hann hafa varið sig.  Hann segist aðspurður, vegna framburðar M, ekki muna til þess að hafa slegið mann, sem læddist aftan að bílnum, með löngu áhaldi af einhverju tagi.  Verið geti að hann hafi tekið upp eitthvað til þess að verja sig með en ekki hafi hann verið fyrri til þess að slá.

Eftir að vitnið hefur vikið frá er gert stutt hlé.  Að því loknu kemur vitnið aftur fyrir dóminn og skýrir aðspurt frá því að ákærði Þorbjörn hafi hringt og sagt að hann myndi ekki líða það að vera lokaður inn fyrir þetta og sagst vilja að ákæran yrði dregin til baka.  Kveðst A hafa skynjað þetta sem hótanir í sinn garð.  Hafi skýrsla hans nú fyrir dómi verið gefin undir áhrifum þessara hótana.  Aðspurður hvort hann vilji breyta framburði sínum nú segist hann ekki muna atvikin betur en hann hefur þegar sagt frá.  Þegar gengið er á hann og hann minntur á skýrslu sína hjá lögreglu segir hann að hann hafi haldið, þegar hann gaf skýrsluna, að hann hefði fengið högg af sleggjunni í höfuðið og segist hann vilja standa við það sem hann sagði þá í skýrslunni.  Hann kveðst halda að fyrsta höggið hafi hann fengið í hnakkann af slökkvitækinu, sem hann hafi þá haldið að væri glerflaska, og fallið við það á grúfu.  Hann segist ekki hafa séð hver sló hann næsta högg, þegar hann lá á grúfu, eða með hverju en hann haldi að hann hafi verið sleginn eitt högg með sleggjunni og á hnakkann en B hafi verið með sleggju í hendi þegar þeim lenti saman.  Annars segir hann það vera erfitt að segja til um það með hverju hann var sleginn þegar hann lá þarna, hvort það var með slökkvitækinu eða sleggjunni.  Hann segir þá hafa reynt að snúa honum við þar sem hann lá og hafi hann heyrt einn þeirra, Þorbjörn að hann heldur, segja að það yrði að snúa honum við svo að hægt væri að mölva á honum andlitið.  Hann segist hafa fengið einhver högg í andlitið í þessum átökum en þyngstu höggin hafi hann fengið á hnakkann.  Um högg ofarlega á hrygginn segist hann ekki geta sagt annað en það að hann haldi að það hafi verið af sleggjunni.

C hefur skýrt frá því fyrir dómi að einhver hefði hringt í sig, líklega D, og sagst vilja hitta sig til þess að útkljá eitthvert mál.  Hafi hann farið á staðinn í bíl, sem A ók.  Stúlka hafi verið með í förinni einnig.  Hafi þá komið 4 eða 5 menn að þeim með „einhverjar sleggjur“ og barefli og ráðist á þá þar sem þeir höfðu stigið út úr bílnum.  Nánar segir hann að einn mannanna hafi verið með stóra sleggju, annar með golfkylfu, að hann heldur.  Hafi þeir hlaupið frá mönnunum.  Hann hafi svo litið um öxl og heyrt dynk og séð úr fjarska, á að giska 100 – 200 metra fjarlægð, að A var barinn með sleggju þar sem hann lá.  Hann segist ekki þekkja þessa menn en þeir hafi allir lumbrað á A þarna. Hann segist ekki hafa verið að innheimta skuld af þessum mönnum.  Þá kannast hann ekki við að hafa ruðst inn til D tveimur dögum áður ásamt öðrum mönnum og segist ekki þekkja D.  Hann kannast ekki við að hafa verið með barefli þarna og ekki hafa farið á staðinn til þess að eiga í átökum, enda hafi hann verið með stúlku með sér.   Hann er spurður út í skýrsluna sem hann gaf hjá lögreglu og segist hann muna að hafa séð einn mannanna hafi liggja ofan á A og berja hann með einhverju.  Þá segir hann að B hafi komið og sparkað í A og slegið hann bæði með hnúunum og með sleggju.  Hann segir að hins vegar hafi D ekki barið A með sleggju enda hafi D ekki haldið á sleggju.  Annars er framburður hans um það hver hafi slegið A með sleggjunni óljós mjög og segir hann að hann hafi ekki séð hver það gerði enda horft á þetta úr fjarska en A hafi verið „sleginn með þungu barefli“.  Hann kannast við, eins og fram kom í skýrslu hans hjá lögreglu, að hann hafi reynt að innheimta skuld hjá D og hafi þessi fundur þeirra tengst því.  Hafi hann farið á fundinn til þess að sjá hvað myndi gerast þegar þeir hittust.       

G lögreglumaður hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að tilkynnt hafi verið um það að fjórir menn væru að berja mann við Teigasel.  Hafi þeir félagi hans hraðað sér á vettvang.  Þegar þeir komu neðst inn í Skógarsel hafi þeir hitt C sem hafi virst skelkaður.  Minnir vitnið að C hafi sagt þeim að félagi hans sætti barsmíðum ofar í götunni.   Hafi þeir skilið þar við C og haldið áfram ferðinni.  Nálægt Þingaseli hafi þeir séð tvo menn, D og ákærða B við vegkantinn.  Hafi B kastað frá sér golfkylfu inn í runna en örfáa metra frá þeim hafi verið sleggja.  Ögn ofar í götunni, innan við 50 metra að hann heldur, hafi A legið og virtist sárkvalinn.  Þegar þeir höfðu tal af B og D  hafi þeir sagt að ráðist hefði verið á þá en ekki hafi verið að sjá á þeim nein merki þess. 

E læknir hefur komið fyrir dóminn og skýrt vottorð sitt.  Hann segir um brotið á hálsliðnum að það verði við beint högg á hálsinn.  Þessi 7. hálsliður sé sá neðsti í hálsi manns, á mótum hálshryggs og brjósthryggs.  Þurfi frekar þungt högg til þess að valda slíkum áverka.  Bæði geti brotið komið til af höggi með barefli og eins af falli úr hæð, eins til tveggja metra hæð eða meiri.  Hugsanlega geti þessi áverki komið til af því að maður falli aftur fyrir sig.  Áverkinn geti vel svarað til þess að A hafi verið sleginn með þungu barefli.  Hann segist ekki muna til þess að áverki hafi verið sjáanlegur yfir hálsbrotinu enda hlyti hann að hafa getið þess í vottorðinu, hafi svo verið.  Hann segir aðspurður hugsanlegt að þungt högg á hnakka hefði getað valdið hnykk og þar með brotinu á hálsliðnum.  Aðspurður af verjanda segir hann að það eigi þó ekki við hálshnykk eins og menn fái af umferðarslysi. 

F læknir hefur komið fyrir dóm og staðfest vottorð sitt í málinu.  Hann kveðst hafa byggt vottorð sitt á gögnum spítalans og því sem hann komst sjálfur að raun um við skoðun.  Um áverkann á 7. hálslið segir hann liðinn liggja á mótum háls- og brjósthryggjar.  Tindurinn á þessum lið hafi verið brotinn og sé sá tindur sem mest skagi út og verið því helst fyrir hnjaski.  Hafi maðurinn verið mjög aumur þarna og lítið getað hreyft hálsinn.  Áverki sem þessi geti verið af tvennum toga, annars vegar með höggi beint á tindinn eða með höggi á höfuð sem leiði til þess að höfuðið sveigist fram.   Þannig komi spenna og tog á tindinn sem sé festa fyrir vöðva og sinar og tindurinn rifnar af.  Aðspurður hvort áverki á þessum hryggtindi sé algengur fylgifiskur þess er menn detta aftur fyrir sig í hálku segir hann svo ekki vera.  Þá segir hann að áverki eins og þessi komi ekki til af því að menn detti á jafnsléttu.  Þurfi einhvers konar upphækkun að koma til þannig að höfuðið spennist fram.  Um batahorfur sé ekkert hægt að segja og hann tekur auk þess fram að hann hafi ekki skoðað manninn síðan í júlí í fyrra.  Áverkar af þessu tagi geti haft í för með sér langvarandi verki og stirðleika. 

Niðurstaða

Sannað er með framburði ákærðu og D að þeir fóru umrædda nótt heiman frá B til þess að hitta Cog aðra sem þeir töldu sig eiga sökótt við fyrir innheimtutilraunir, húsbrot og hótanir, einkum í garð D.  Höfðu þeir allir barefli meðferðis, B þunga sleggju, D golfkylfu og Þorbjörn lítið slökkvitæki.  Þorbjörn varð ekki samferða þeim á mótsstaðinn heldur fylgdi hann á eftir.  Af skýrslum ákærðu, D, A, C og sjónarvottanna, þeirra L og M, verður ályktað með vissu að ákærðu og D sóttu samtímis og vopnaðir að þeim hinum við bílinn sem þeir höfðu komið á.  Liggur þannig fyrir að þeir veittust í sameiningu að A, eins og í ákærunni segir. 

Ákærði B var, sem fyrr segir vopnaður sleggju þegar hann fór á að finna þá hina í Teigaseli.  Hann neitaði því í yfirheyrslu hjá lögreglu að hafa barið mann með henni, þótt hann segðist ekki geta útilokað það og segði að verið gæti að hann hefði slegið A á annan hátt og sparkað í hann.  Hefði hann enda verið búinn að losa sig við sleggjuna neðar í brekkunni.  Fyrir dómi neitaði hann því alfarið að hann hefði beitt manninn ofbeldi af neinu tagi og sagðist hafa lagt sleggjuna frá sér þegar hann kom niður af bílaplaninu.  Ákærði Þorbjörn sagði í skýrslu sinni hjá lögreglu að hann hefði séð B vaða í A og slást við hann.  Fyrir dómi sagði hann B hafa vaðið í A, án sleggjunnar, tekið hann fangbragði og skellt honum í götuna.  Hefði hann aldrei beitt sleggjunni á A.  D sagði í skýrslu sinni hjá lögreglu að hann hefði séð B (og Þorbjörn) lemja A með berum hnefum en fyrir dómi dró hann í land og sagðist ekki hafa séð ákærða beita A ofbeldi.  A hefur að sínu leyti gefið óljósan framburð um þetta sakaratriði, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi.  Verður ekki annað ráðið af framburði hans í málinu en að hann viti ekki með vissu hvort hann fékk högg af sleggjunni.  C sagði í yfirheyrslu hjá lögreglu að hann hefði séð B sparka í A, kýla hann og berja hann með sleggjunni.  Fyrir dómi sagðist hann hafa séð að A var barinn með sleggjunni og hefði B bæði barið hann með hnúum og sleggju og sparkað í hann.  Hann dró þó úr þessu þegar á leið skýrsluna og sagðist ekki hafa séð hver það var sem sló manninn með sleggju en hann hefði þó verið sleginn með þungu barefli.  Ákærði B neitar því að hafa barið manninn með sleggjunni og þeir Þorbjörn og D bera með honum um það.  Þeir tveir sem hafa sagt hann hafa beitt sleggjunni, A og C, hafa fyrir dómi dregið mjög úr þessu.  Verður framburður þeirra ekki skilinn öðru vísi en svo að þeir treysti sér ekki til þess að fullyrða þetta.  Verður því að telja þetta sakaratriði ákærunnar ósannað.  Eins og ákæran er úr garði gerð kemur ekki til álita að sakfella ákærða B fyrir annað.  Ber því að sýkna hann af ákærunni og vísa bótakröfunni frá dómi, að því er hann varðar. 

Ákærði Þorbjörn fór til fundar við þá C og A vopnaður slökkvitækinu, eins og áður var slegið föstu.  Hann játaði hjá lögreglu að hafa barið A einu sinni í höfuðið með tækinu þegar þeir voru við bílinn og svo aftur í andlitið þegar komið var neðar í götuna.  Hefði hann því slegið A alls fimm sinnum með slökkvitækinu.  Fyrir dómi kvaðst hann hafa slegið frá sér til A við bílinn og hafa slegið hann þrisvar sinnum með slökkvitækinu í andlitið.  Framburður B um þetta sakaratriði er á þann veg að hann viti ekki til þess að Þorbjörn hafi beitt A ofbeldi.  D sagðist hjá lögreglu hafa séð Þorbjörn (og B) lemja A með krepptum hnefum eftir að hafa hlaupið hann uppi og hann hefði ekki séð að Þorbjörn væri með barefli.  Fyrir dómi sneri hann við blaðinu og sagðist ekki hafa séð að A væri beittur neinu ofbeldi.  C sagði frá því í lögregluyfirheyrslu að hann hefði séð þriðja manninn (annan en þá B eða D, að ætla verður) vera klofvega á A og berja hann hvað eftir annað með barefli og hann hefur borið á líkan veg um þetta fyrir dómi.  A sagði frá því í skýrslu sinni hjá lögreglu að þriðji maðurinn (annar en þeir B eða D, að ætla verður) berja til sín með „stórri flösku“ hjá bílnum en hann borið af sér höggið.  Þá sagði hann þennan mann hafa barið sig með flöskunni svo að honum hélt við öngviti meðan annar árásarmaður hélt honum föstum.  Fyrir dómi sagði hann Þorbjörn hafa barið sig þungt högg með slökkvitæki í hnakkann þegar hann hafði verið hlaupinn uppi í brekkunni og hann fallið á grúfu.  Eftir þetta hefði hann svo fengið fleiri högg með barefli í hnakkann og högg í andlitið eftir að honum hafði verið snúið við.  Með því sem rakið hefur verið, einkum játningu ákærða Þorbjörns sjálfs, telst það sakaratriði vera sannað að hann hafi slegið A nokkrum sinnum með slökkvitæki í höfuðið.  Heilsutjón hans telst vera stórfellt í skilningi 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og aðferð hans við árásina telst hafa verið sérstaklega hættuleg í skilningi þess ákvæðis.  Hefur ákærði með því gerst sekur um brot gegn 2. mgr., sbr. 1. mgr. almennra hegningarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981.

Ákærði hefur borið það fyrir sig að árás hans A hafi verið í nauðvörn.  Ekki verður séð að neitt í málinu styðji þá viðbáru hans og ber að hafna henni.

Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður

Sakferill ákærða Þorbjörns hefur ekki þýðingu í málinu.  Á hinn bóginn var atlaga hans að A heiftarleg og gerð í félagi við aðra og olli auk þess umtalsverðu heilsutjóni.  Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði.  Þar sem ákærði hefur ekki áður gerst sekur um brot sem máli skipt þykir mega ákveða að fresta því að framkvæma 5 mánuði af refsingu þessari og að sá hluti hennar falli niður að liðnum 2 árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Af hálfu A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til þess að greiða honum 1.000.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt II. kafla laga um vexti og verðbætur nr. 38, 2001 frá tjónsdegi þar til mánuði eftir dagsetningu kröfunnar, 27. febrúar 2009, en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags samkvæmt III. kafla laganna.  Dæma ber ákærða til þess að greiða A 450.000 krónur í miskabætur ásamt almennum vöxtum frá 21. nóvember 2008 til 29. mars 2009, en þaðan í frá með dráttarvöxtum til greiðsludags. 

Dæma ber ákærða Þorbjörn til þess að greiða verjanda sínum, Sigmundi Hannessyni hrl., 300.000 krónur í málsvarnarlaun en dæma ber að málsvarnarlaun verjanda ákærða Ólafs Rúnars, Jóns Egilssonar hdl., 300.000 krónur, skuli greidd úr ríkissjóði.  Málsvarnarlaunin dæmast með virðisaukaskatti.  Þá ber einnig að dæma ákærða til þess að greiða talsmanni bótakrefjandans, Sveini Andra Sveinssyni, 200.000 krónur í þóknun, sem dæmist með virðisaukaskatti og jafnframt 32.000 krónur í útlagðan kostnað. 

Um annan kostnað af málinu er það að athuga að kostnaður við akstur [...] og [...] geta ekki talist til sakarkostnaðar í því.  Ber þannig að dæma ákærða til þess að greiða samtals 154.345 krónur í sakarkostnað. 

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, B, er sýkn af ákæru í máli þessu.

Ákærði, Þorbjörn Þórarinsson, sæti fangelsi í 8 mánuði.  Frestað er því framkvæma 5 mánuði af refsingu þessari og fellur hluti hennar niður liðnum 2 árum frá dómsuppsögu telja, haldi ákærði almennt skilorð.

Ákærði greiði A 450.000 krónur í miskabætur ásamt almennum vöxtum frá 21. nóvember 2008 til 29. mars 2009, en þaðan í frá með dráttarvöxtum til greiðsludags. 

Ákærði greiði verjanda sínum, Sigmundi Hannessyni hrl., 300.000 krónur í málsvarnarlaun en málsvarnarlaun verjanda ákærða B, Jóns Egilssonar hdl., 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. 

Ákærði greiði Sveini Andra Sveinssyni, 200.000 krónur í þóknun og 32.000 krónur í útlagðan kostnað. 

Ákærði greiði 154.345 krónur í annan sakarkostnað.