Hæstiréttur íslands
Mál nr. 590/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Framsal sakamanns
|
|
Þriðjudaginn 11. september 2012. |
|
Nr. 590/2012.
|
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Framsal sakamanna.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á að framselja X til Danmerkur á grundvelli laga nr. 7/1962 um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. september 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. september 2012, þar sem ákvörðun innanríkisráðherra, 6. júní sama ár, um að framselja varnaraðila til Danmerkur var staðfest. Kæruheimild er í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 7/1962 um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar. Varnaraðili krefst þess að framangreind ákvörðun innanríkisráðherra verði felld úr gildi og honum tildæmd málsvarnarlaun vegna kærumáls þessa.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, eins og hún er ákveðin í dómsorði, greiðist úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 7/1962.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um framsal varnaraðila, X, til Danmerkur.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. september 2012.
Með bréfi ríkissaksóknara, dagsettu 27. júní 2012, var vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur kröfu X, kt. [...], um úrskurð um það hvort skilyrði laga um framsal séu fyrir hendi vegna ákvörðunar innanríkisráðuneytisins um framsal, sbr. 11. gr. laga um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, nr. 7/1962 og 1. mgr. 2. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Af hálfu sóknaraðila er krafist staðfestingar ákvörðunar innanríkisráðuneytisins frá 6. júní 2012 um að framselja varnaraðila til Danmerkur.
Af hálfu varnaraðila er þess krafist að ákvörðun innanríkisráðuneytisins verði felld úr gildi. Þá krefst verjandi þóknunar sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.
Hinn 4. nóvember 2011 barst innanríkisráðuneytinu beiðni danskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila. Þar segir að varnaraðili hafi, hinn 15. júní 2010, verið ákærður fyrir brot gegn 2. mgr., sbr. 1. lið, 1. mgr. 191. gr. dönsku hegningarlaganna, með því að hafa á tímabilinu frá 1. október til 1. desember 2009 móttekið allt að 1.1 kg af amfetamíni og 20 g af kókaíni frá manni að nafni A og selt efnin áfram til óþekkts fjölda kaupenda í og við [...]. Brot gegn ákvæðinu varði allt að 10 ára fangelsi. Hinn 11. mars 2010 hafi A viðurkennt fyrir dómi að hafa selt varnaraðila fíkniefnin. Varnaraðili hafi ekki mætt fyrir dóm hinn 2. febrúar 2011, þrátt fyrir birtingu fyrirkalls hinn 9. desember 2010 á lögreglustöðinni [...]. Af þessu sökum hafi dómurinn ákveðið að varnaraðili skyldi handtekinn. Á dómþingi hinn 6. júlí 2011 hafi dómurinn verið upplýstur um að varnaraðili væri á Íslandi og hafi í gegnum verjanda sinn tilkynnt að hann ætlaði ekki að koma fyrir dóm vegna málsins. Málinu hafi verið frestað þar til varnaraðili yrði framseldur og opin handtökuskipun verið gefin út á hendur honum.
Varnaraðila var kynnt framsalsbeiðnin hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum hinn 9. janúar sl. Kannaðist hann við að framsalsbeiðnin ætti við hann en kvaðst mótmæla henni. Ríkissaksóknari sendi innanríkisráðuneytinu gögn málsins, ásamt umsögn varðandi lagaskilyrði framsals, dagsetta 14. mars 2012. Var brot það sem varnaraðili hefur verið ákærður fyrir í Danmörku heimfært undir 173. gr. a. danskra hegningarlaga, en refsirammi ákvæðisins er 12 ár. Refsirammi danska hegningarlagaákvæðisins er 10 ára fangelsi. Niðurstaðan var því sú að efnisskilyrði framsals væru fyrir hendi, sbr. einkum 1. gr., 2. tl. 1. mgr. 2. gr., 3. gr. laga nr. 7/1962, sem og formskilyrði skv. 9. gr. laganna.
Hinn 6. júní 2012 féllst innanríkisráðuneytið beiðni danskra dómsmálayfirvalda um að framselja varnaraðila til Danmerkur. Í ákvörðuninni var tekið fram að aðstæður þættu ekki vera þannig að réttmætt væri að synja um framsal á grundvelli 7. gr. laga nr. 13/1984. Ákvörðun ráðuneytisins var kynnt varnaraðila hinn 19. júní sl. og krafðist hann samdægurs úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi.
Í greinargerð varnaraðila kemur fram að framsalsmál þetta snúist um meint fíkniefnamisferli og muni maður að nafni A hafa lýst því yfir að hann hafi afhent varnaraðila 1,1 kg af amfetamíni og 20 g af kókaíni. Við yfirheyrslur hjá lögreglu neitaði varnaraðili því að hafa fengið fíkniefni afhent hjá umræddum manni. Varnaraðili tekur fram að hann hafi flust til Íslands vegna bakveikinda, sem hann hafi ekki fengið meðferð við í Danmörku, en ekki hafi verið um það að ræða að hann væri að flýja réttvísina í Danmörku. Telur varnaraðili að skilyrði laga nr. 7/1962 til framsals sé ekki fullnægt. Krafa varnaraðila um að ákvörðun um framsal verði hnekkt byggist á því að skilyrði 1. tl. 2. gr. 1. mgr. og 2. tl. 2. gr. 1. mgr. laga nr. 7/1962 séu ekki uppfyllt og til grundvallar framsalsbeiðni liggi ekki fyrir fullnægjandi lýsingar á sakargiftum. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að til staðar sé rökstuddur grunur. Byggir varnaraðili á því að íslenskur ríkisborgari verði því aðeins framseldur að hann hafi verið búsettur í því landi sem framsals óskar síðustu tvö ár áður en afbrot var framið. Ekki sé að sjá að það hafi verið kannað við rannsókn málsins hversu lengi varnaraðili hafi dvalið í Danmörku áður en brotið eigi að hafa verið framið. Byggir varnaraðili á því að skilyrði 2. tl. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 7/1962 sé ekki fullnægt, þar sem ekki sem sýna verði fram á með dómafordæmum að hærri refsing en fjögur ár liggi við broti. Í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1962 sé kveðið á um, að hafi sá sem krafist sé framsals á ekki samþykkt framsal eða játað sakargiftir, skuli liggja til grundvallar framsalsbeiðni áfellisdómur eða dómsákvörðun um að rökstudd ástæða sé til þess að gruna viðkomandi um að hafa framið brot. Engin slík ákvörðun liggi fyrir. Þá byggir varnaraðili á því að íslensk stjórnvöld hafi ekki rannsakað málið með þeim hætti sem kveðið sé á um í íslenskum lögum og bresti því skilyrði til framsalsins.
Varnaraðili byggir og á því, verði það niðurstaðan að efnis- og formskilyrði laga nr. 7/1962 teljist vera til staðar, megi beita undanþáguheimild í 7. gr. laga nr. 13/1984. Byggir varnaraðili annars vegar á heilsufarsástæðum, en í framlögðu læknisvottorði komi fram að hann sé óvinnufæri vegna afleiðinga slyss sem hann hafi orðið fyrir 5. apríl 2002, og eins því að hann eigi nýfætt barn.
Niðurstaða
Krafist hefur verið framsals varnaraðila, sem er íslenskur ríkisborgari, til Danmerkur, en fyrir liggur að varnaraðili hefur verið ákærður fyrir hegningarlagabrot í Danmörku, sem varðað getur allt að 10 ára fangelsi. Brot þau sem varnaraðili hefur verið ákærður fyrir myndu varða hann refsingu samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot samkvæmt ákvæðinu getur varðað fangelsi allt að 12 árum.
Samkvæmt lögum nr. 7/1962 má framselja menn, sem staddir eru innan lögsögu íslenska ríkisins, en grunaðir eru, ákærðir eða dæmdir í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð fyrir refsiverða háttsemi.
Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 7/1962, er það skilyrði framsals, að þyngri refsing en 4 ára fangelsi liggi við brotinu eða samsvarandi broti samkvæmt íslenskum lögum. Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar hefur verið litið svo á að miða beri við refsiramma þeirra refsiheimilda sem deilt er um að eigi við. Því er fullnægt skilyrðum 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 7/1962. Með því að fullnægt er skilyrðum 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 7/1962 kemur ekki til skoðunar ákvæði 1. tl. 1. mgr. 2. gr., sbr.skýrt orðalag ákvæðisins. Þá er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 3. gr. laga nr. 7/1962, en samkvæmt dönsku hegningarlögunum getur brotið varðað allt að 10 ára fangelsi. Samkvæmt framlögðum gögnum hefur ákæra verið gefin út á hendur varnaraðila og hún verið birt honum. Liggur og fyrir að dómari í Danmörku hefur gefið út handtökuskipun á hendur varnaraðila, þar sem hann hefur ekki sinnt því að mæta fyrir dóm. Framsalsbeiðnin hefur verið borin fram með tilskyldum hætti og er hún studd viðhlítandi gögnum. Er því jafnframt fullnægt skilyrðum 9. gr. laga nr. 13/1984. Þá hefur verið gætt lögbundinna stjórnsýslureglna við meðferð málsins og mat á því að almenn lagaskilyrði framsals séu fyrir hendi.
Innanríkisráðuneytið hefur í ákvörðun sinni frá 6. júní 2012 fjallað um þau atriði, sem varnaraðili hefur fært fram, með vísan hans til undanþáguákvæða 7. gr. laga nr. 13/1984. Verður ekki annað séð en að mat ráðuneytisins hafi farið fram með réttum og málefnalegum hætti. Eru ekki efni til að því mati verði hnekkt í málinu.
Samkvæmt framansögðu teljast uppfyllt skilyrði fyrir framsali varnaraðila. Verður því staðfest ákvörðun um framsal hans til Danmerkur.
Með vísan til 2. mgr. 13. gr. laga nr. 7/1962 greiðist þóknun skipaðs verjanda úr ríkissjóði og þykir hún hæfilega ákveðin 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun innanríkisráðherra frá 6. júní 2012 um að framselja varnaraðila til Danmerkur er staðfest.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 800.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.