Hæstiréttur íslands
Mál nr. 343/2003
Lykilorð
- Skuldamál
- Framsal kröfu
|
|
Fimmtudaginn 18. mars 2004. |
|
Nr. 343/2003. |
Lystadún Snæland ehf. (Jóhannes Albert Sævarsson hrl.) gegn Rauðará ehf. (Jón Gunnar Zoëga hrl.) |
Skuldamál. Framsal kröfu.
R krafði L um greiðslu reikninga, sem R hafði fengið framselda frá F. Af hálfu L voru ekki gerðar athugasemdir við fjárhæð reikninganna. L kvaðst hafa náð samkomulagi við F um uppgjör reikninganna, en gegn mótmælum R voru fullyrðingar L um það taldar ósannaðar. Var því lagt til grundvallar að R væri réttur eigandi kröfunnar og hún tekin til greina. Við úrlausn málsins var litið fram hjá skriflegri yfirlýsingu sem L lagði fyrir Hæstarétt og sérstaklega var útbúin í tengslum við rekstur málsins, en efni hennar hefði með réttu átt að koma fram í munnlegri vitnaskýrslu eftir reglum VIII. kafla laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. ágúst 2003. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt skriflega yfirlýsingu Eyjólfs Sveinssonar fyrrum stjórnarformanns Fréttablaðsins ehf., dagsetta 27. nóvember 2003, þar sem segir meðal annars að honum sé „kunnugt um” að Fréttablaðið ehf. og Póstflutningar ehf. hafi gert með sér samkomulag þess efnis sem áfrýjandi heldur fram, en „fyrir mistök” virðist umræddar kröfur hafa verið framseldar stefnda. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi lýst því að hann telji þessa yfirlýsingu styðja eindregið málatilbúnað sinn. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti kvaðst lögmaðurinn ekki geta gefið ástæðu fyrir því að Eyjólfur gaf ekki skýrslu fyrir dómi, aðra en þá að hann hafi án sérstakra skýringa verið ófáanlegur að koma fyrir dóm.
Skjal það sem um ræðir var sérstaklega útbúið í tengslum við rekstur þessa dómsmáls og hefur það sætt andmælum af hálfu stefnda. Hefur skjalið að geyma skriflega yfirlýsingu, sem með réttu hefði átt að koma fram í munnlegri vitnaskýrslu þess sem það stafar frá eftir reglum VIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður því ekki byggt á skjali þessu við úrlausn málsins.
Að þessu virtu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
D ó m s o r ð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Lystadún Snæland ehf., greiði stefnda, Rauðará ehf., 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. maí 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 20. þessa mánaðar, er höfðað 10. desember 2002 af Rauðará ehf., Laugavegi 7, Reykjavík, gegn Lystadúni-Snælandi ehf., Mörkinni 4, Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 545.086 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 434.156 krónum frá 26. maí 2002 til 17. júní 2002, en af 471.135 krónum frá þeim degi til 21. júní 2002 og af 545.086 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.
I.
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu skuldar vegna kaupa stefnda á auglýsingum í Fréttablaðinu 6. maí 2002 að fjárhæð 434.156 krónur, 28. maí 2002 að fjárhæð 36.977 krónur og 1. júní 2002 að fjárhæð 73.953 krónur, eða samtals 545.086 krónur. Reikningar vegna auglýsingakaupanna voru framseldir stefnanda 8. maí 2002, 2. júní 2002 og 3. júní 2002. Stefnandi krafði stefnda um greiðslu fyrsta reikningsins að fjárhæð 434.156 krónur með innheimtubréfi, dagsettu 21. ágúst 2002, en af gögnum málsins verður ekki ráðið, að sérstök viðbrögð hafi orðið af hálfu stefnda af því tilefni. Stefndi heldur því fram, að skuldin sé uppgerð með því, að samið hafi verið um það milli fyrirsvarsmanns Fréttablaðsins ehf., Eyjólfs Sveinsonar, sem jafnframt hafi verið fyrirsvarsmaður Póstflutninga ehf., að auglýsingaúttektir stefnda hjá Fréttablaðinu ehf. skyldu koma til frádráttar skuld Póstflutninga ehf. við Valdimar Grímsson, aðaleiganda og fyrirsvarsmann stefnda, vegna launakröfu Valdimars á hendur Póstflutningum ehf., sem hann starfaði áður hjá. Hafi verið gert sérstakt samkomulag þessu til staðfestingar. Er því mótmælt af hálfu stefnanda, að slíkt samkomulag hafi verið gert.
II.
Stefnandi vísar um lagarök til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en reglan fái m.a. lagastoð í 5., 6. og 28. gr. laga nr. 39/1922 til 1. júní 2001 og eftir þann tíma í lögum nr. 50/2000. Við munnlegan málflutning var mótmælt, að þau drög að samkomulagi milli Póstflutninga ehf. og Valdimars Grímssonar, sem fyrir liggja í málinu, hefðu eitthvert sönnunargildi og hafi slíkt samkomulag aldrei verið gert. Þá liggi ekki fyrir í málinu neitt framsal frá Valdimar Grímssyni til stefnda á ráðstöfun kröfu hans á hendur Póstflutningum ehf.
Stefndi byggir sýknukröfu á því, að stefndi og fyrirsvarsmaður Fréttablaðsins ehf., Eyjólfur Sveinsson, hafi gert með sér samkomulag, sem unnið hafi verið að, auk Eyjólfs, af hálfu Sveins Andra Sveinssonar hrl., lögmanni Eyjólfs Sveinssonar, og Óskari Norðmann hdl., lögmanni Valdimars Grímssonar, framkvæmdastjóra og aðaleiganda stefnda. Hafi samkomulagið fjallað um uppgjör á launaskuldum Póstflutninga ehf. við Valdimar Grímsson, en hann sé fyrrum starfsmaður félagsins. Hafi verið svo um samið af hálfu Eyjólfs Sveinssonar, sem auk þess að vera fyrirsvarsmaður Fréttablaðsins ehf., hafi verið sá stjórnarmaður Póstflutninga ehf., sem annast skyldi uppgjörsmál við Valdimar Grímsson, að stefndi gæti tekið út auglýsingar hjá Fréttablaðinu ehf., og skyldu úttektirnar koma til lækkunar launakröfu Valdimars á hendur Póstflutningum ehf. Hafi það síðan verið mál milli stefnda og Valdimars, hvernig færi með uppgjör milli þeirra.
III.
Í málinu liggja fyrir drög að samkomulagi milli Póstflutninga ehf. annars vegar og Valdimars Grímssonar, fyrirsvarsmanns og aðaleiganda stefnda hins vegar, með dagsetningunni „xx. júní 2002”, þar sem meðal annars kemur fram, að Póstflutningar ehf. framselji til Valdimars Grímssonar eða þess, sem hann framselur rétt sinn til, rétt til auglýsingapláss og/eða birtingar auglýsinga í Fréttablaðinu samkvæmt samkomulagi Póstflutninga ehf. við Fréttablaðið ehf. í maí 2002. Liggja jafnframt fyrir í málinu drög að samkomulagi í þessa veru milli Fréttablaðsins ehf. og Póstflutninga ehf., með dagsetningunni „xx. júní 2002.” Sveinn Andri Sveinsson hrl., sem kveðst hafa verið lögmaður Eyjólfs Sveinssonar, fyrirsvarsmanns Fréttablaðsins ehf. og Póstflutninga ehf. á þessum tíma, hefur komið fyrir dóm og greint frá því, að áðurnefndur Eyjólfur Sveinsson hafi gefið munnlegt samþykki sitt fyrir ofangreindum skuldbindingum nefndra einkahlutafélaga, en hann hafi hins vegar ekki gengið frá samningum með undirritun sinni.
Stefndi hefur að mati dómsins ekki fært sönnur á, gegn mótmælum stefnanda, að umræddar ráðagerðir hafi verið samþykktar af hálfu Fréttablaðsins ehf. Reikningar þeir, sem mál þetta snýst um, voru, sem fyrr segir, framseldir stefnanda af hálfu Fréttablaðsins ehf. 8. maí, 2. og 3. júní árið 2002. Reikningarnir hafa ekki sætt tölulegum andmælum af hálfu stefnda og þá hefur framsali þeirra til stefnanda ekki verið mótmælt. Verður því að leggja til grundvallar við úrlausn málsins, að stefnandi sé réttur eigandi kröfu þeirrar, sem mál þetta á rætur að rekja til.
Samkvæmt framansögðu ber að taka kröfu stefnanda til greina og dæma stefnda til greiðslu stefnufjárhæðar, ásamt vöxtum, eins og krafist er.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndi dæmdur til greiðslu málskostnaðar, sem þykir hæfilega ákveðinn 175.000 krónur.
Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, Lystadún-Snæland ehf., greiði stefnanda, Rauðará ehf., 545.086 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 434.156 krónum frá 26. maí 2002 til 17. júní 2002, af 471.135 krónum frá þeim degi til 21. júní 2002 og af 545.086 krónum frá þeim degi til greiðsludags og 175.000 krónur í málskostnað.