Hæstiréttur íslands
Mál nr. 342/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Samaðild
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 21. maí 2015. |
|
Nr. 342/2015.
|
Einar Björn Einarsson og Reynivellir ehf. (Arnar Þór Stefánsson hrl.) gegn Ice Lagoon ehf. og (Garðar Garðarsson hrl.) Sameigendafélagi Fells (Hróbjartur Jónatansson hrl.) |
Kærumál. Samaðild. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli E og R ehf. gegn L ehf. og S var vísað frá dómi. Deildu aðilar um gildi samnings sem S hafði gert við L ehf. um nýtingu á jörðinni F sem var í eigu E, R ehf. og félagsmanna í S auk fjögra annarra aðila. Var ekki talið að fyrsta dómkrafa E og R ehf., sem laut að því að L ehf. yrði bannað að gera út báta með ferðamenn frá landi jarðarinnar á grundvelli áðurnefnds samnings, varðaði ráðstöfun á eignarrétti að jörðinni með þeim hætti að nauðsyn hefði borið til að stefna öllum eigendum hennar, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Yrði þeirri kröfu því ekki vísað frá héraðsdómi og bæri að taka hana til efnismeðferðar. Þá var ekki talið að E og R ehf. hefðu lögvarða hagsmuni af annarri dómkröfu sinni þar sem þeir hefðu ekki mótmælt því að L ehf. hefði þegar fjarlægt það lausafé af jörðinni sem þar væri getið og var henni því vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 4. maí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Ice Lagoon ehf. kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 11. maí 2015. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað, sem verði dæmdur hærri en gert var í héraði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Sameigendafélag Fells krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar en til vara að annarri dómkröfu sóknaraðila verði vísað frá héraðsdómi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðilar eiga samtals 23,6605% hlut í jörðinni Felli í Suðursveit sem er í óskiptri sameign þeirra og 30 annarra einstaklinga og lögpersóna. Flestir þeirra síðarnefndu eiga aðild að varnaraðilanum Sameigendafélagi Fells. Mun hluti Jökulsárlóns á Breiðamerkursandi tilheyra jörðinni Felli og gerðu varnaraðilar samning sín á milli 20. apríl 2012 þar sem varnaraðilanum Ice Lagoon ehf., sem þá hét Must Visit Iceland ehf., var veitt „leyfi til siglinga með ferðamenn á Jökulsárlóni á tveimur sérútbúnum slöngubátum auk sérstaks öryggisbáts samkvæmt kröfum Siglingastofnunar.“ Með samningnum var varnaraðilanum jafnframt veitt heimild til „að vera með færanlegt hýsi t.d. hjólhýsi við lónið sem nýtist sem aðstaða fyrir starfsfólk ... og móttaka fyrir ferðamenn auk yfirbyggðrar kerru fyrir flotgalla og annan búnað.“ Þá var varnaraðilanum „heimilt að útbúa flotbryggju við lónið þar sem verður aðstaða fyrir báta.“ Í samningnum var tekið fram að staðsetning framangreindrar aðstöðu og lausafjár væri háð samþykki varnaraðilans Sameigendafélags Fells. Fyrir liggur að starfsemi varnaraðilans Ice Lagoon ehf., sem umræddur samningur tók til, var sumarið 2014 færð frá vesturbakka lónsins yfir á austurbakka þess, en sá bakki mun vera í landi áðurnefndrar jarðar.
Í máli því, sem sóknaraðilar hafa höfðað á hendur varnaraðilum, krefjast þeir þess í fyrsta lagi að varnaraðilanum „Ice Lagoon ehf. verði bannað að gera út báta með ferðamenn frá landi jarðarinnar Fells á Jökulsárlóni á grundvelli samnings“ varnaraðila 20. apríl 2012. Þá krefjast sóknaraðilar þess í öðru lagi að varnaraðilanum „Ice Lagoon ehf. verði gert að fjarlægja slöngubáta, hjólhýsi, yfirbyggða kerru, flotbryggju og annað lausafé sem tilheyrir framangreindri starfsemi hans af jörðinni Felli að viðlögðum dagsektum“. Jafnframt að varnaraðilanum Sameigendafélagi Fells „verði gert að þola dóm um framangreindar kröfur.“
Í héraði höfðu varnaraðilar aðallega uppi kröfu um frávísun málsins í heild sinni sökum þess að sóknaraðilar hefðu við höfðun málsins ekki gætt að fyrri málslið 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um samaðild, en til vara gerðu varnaraðilar kröfu um að annarri dómkröfu sóknaraðila yrði vísað frá dómi sökum þess að lögvarða hagsmuni skorti fyrir henni. Eins og áður greinir féllst héraðsdómur á kröfu sóknaraðila um frávísun málsins í heild sinni.
Fyrsta dómkrafa sóknaraðila, sem lýtur að því að varnaraðilanum Ice Lagoon ehf. verði bannað að gera út báta með ferðamenn frá landi jarðarinnar Fells á grundvelli samningsins 20. apríl 2012, miðar einvörðungu að því að lagt verði bann við þeirri starfsemi varnaraðilans. Þótt krafan sé reist á þeirri málsástæðu að viðsemjandi hans hafi brotið gegn óskráðum réttarreglum um óskipta sameign með því að veita honum þá heimild án samþykkis allra eigenda jarðarinnar varðar krafan ekki ráðstöfun á eignarrétti að henni með þeim hætti að nauðsyn hafi borið til að stefna eigendunum og gefa þeim kost á að svara til sakar, sbr. fyrri málslið 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Verður þessari kröfu því ekki vísað frá héraðsdómi og ber að taka hana til efnismeðferðar.
Því hefur ekki verið mótmælt af hálfu sóknaraðila að varnaraðilinn Ice Lagoon ehf. hafi fjarlægt það lausafé, sem vísað er til í annarri dómkröfu sóknaraðila, af landi jarðarinnar Fells. Af þeim sökum hafa þeir ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni af því að hafa uppi þá kröfu á hendur þessum varnaraðila og verður henni því vísað frá héraðsdómi.
Stefnandi einkamáls hefur að jafnaði forræði á því hverjum hann stefnir til varnar. Að virtri þeirri meginreglu var sóknaraðilum heimilt að stefna varnaraðilanum Sameigendafélagi Fells til að þola dóm um fyrstu dómkröfu sína.
Rétt er að ákvörðun málskostnaðar í héraði vegna þessa þáttar málsins bíði efnisdóms. Kærumálskostnaður fellur niður.
Dómsorð:
Vísað er frá héraðsdómi kröfu sóknaraðila, Einars Björns Einarssonar og Reynivalla ehf., um að varnaraðilanum Ice Lagoon ehf. verði gert að fjarlægja lausafé er tilheyrir starfsemi hans á jörðinni Felli í Suðursveit að viðlögðum dagsektum, svo og kröfu sóknaraðila um að varnaraðilanum Sameigendafélagi Fells verði gert að þola dóm um þá kröfu. Lagt er fyrir héraðsdóm að taka málið að öðru leyti til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2015.
Mál þetta, sem höfðað var með stefnu birtri 7. janúar 2015, var tekið til úrskurðar 20. apríl sl. að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefndu. Stefnendur eru Einar Björn Stefánsson og Reynivellir ehf., báðir til heimilis að Austurbraut 13, Höfn í Hornafirði. Stefndu eru Ice Lagoon ehf., Uppsölum 1, Höfn í Hornafirði og Sameigendafélag Fells, Fornhaga 24, Reykjavík. Í þessum þætti málsins krefjast stefndu frávísunar málsins auk málskostnaðar. Stefnendur krefjast þess að kröfu stefndu um frávísun verði synjað auk þess sem þeim verði úrskurðaður málskostnaður.
Samkvæmt gögnum málsins eru stefnendur eigendur að samtals 23,6605% eignarhlut í jörðinni Felli sem á land að Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi. Í stefnu kemur kemur fram að aðrir eigendur séu alls 30 talsins í misstórum hlutföllum. Samkvæmt samningi 6. júlí 1995 hafa þessir eigendur haft með sér sérstakt félag um eignarhluti sína, Sameigendafélag Fells, sem er annar stefndu í málinu. Stefnandi Einar Björn hefur frá árinu 2000 rekið í gegnum einkahlutafélag sitt, Jökulsárlón ferðaþjónustu ehf., starfsemi sem einkum felst í því að boðið er upp á siglingar á Jökulsárlóni. Grundvallast starfsemin á samningi við stefnda Sameigendafélag Fells.
Hinn 20. apríl 2012 gerðu stefndu samning sín á milli þar sem stefnda Ice Lagoon ehf. var, gegn árlegri leigugreiðslu, heimilað að hafa aðstöðu í landi Fells til siglinga með ferðamenn á Jökulsárlóni. Var samningurinn gerður í kjölfar samþykktar á aðalfundi stefnda Sameignarfélags Fells þar sem munu hafa verið mættir fulltrúar nálega 77% eignarhlutar í jörðinni, þ.e. fulltrúar allra eigenda jarðarinnar ef frá eru taldir stefnendur máls þessa. Í málinu er ágreiningslaust að í kjölfar fundarins gengu fjórir nafngreindir aðilar úr Sameigendafélagi Fells og standa utan félagsins í dag. Fyrir liggur að stefndi Ice Lagoon ehf. rak ferðaþjónustu á austurbakka Jökulsárlóns í landi Fells síðastliðið sumar en fjarlægði alla lausafjármuni vegna starfseminnar síðastliðið haust, svo sem gert er ráð fyrir í téðum samningi stefndu. Hins vegar er af hálfu stefndu ekki mótmælt fullyrðingum stefnenda um að félagið hyggist nýta sér heimild sína til áframhaldandi starfsemi við Jökulsárlóni í landi Fells á þessu sumri.
Efnislegur ágreiningur aðilar lýtur í meginatriðum að því hvort stefnda Sameigendafélagi Fells hafi verið heimilt að gera umræddan samning við stefnda Ice Lagoon ehf. Í málinu hafa stefnendur þannig uppi þá kröfu að stefnda Ice Lagoon ehf. verði bannað að gera út báta með ferðamenn frá landi jarðarinnar Fells á Jökulsárlóni á grundvelli samningsins. Þá krefjast stefnendur þess að stefnda Ice Lagoon ehf. verði gert að fjarlægja slöngubáta, hjólhýsi, yfirbyggða kerru, flotbryggju og annað lausafé sem tilheyrir framangreindri starfsemi af jörðinni Felli að viðlögðum dagsektum frá dómsuppsögudegi að fjárhæð 500.000 krónum sem renni óskipt til stefnenda. Í meginatriðum byggja stefnendur málatilbúnað sinn annars vegar á því að til gerðar samningsins hafi þurft samþykki allra eigenda Fells, en hins vegar að samningurinn gangi gegn réttindum stefnenda samkvæmt samningnum við stefnda Sameigendafélag Fells 23. október 2000.
Frávísunarkrafa stefndu er á því byggð að nauðsyn hafi borið til að stefna öllum eigendum jarðarinnar Fells samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Telja stefndu ljóst að dómur verði ekki felldur á kröfur stefnenda án þess að þeim fjórum nafngreindu aðilum sem sögðu sig úr stefnda Sameigendafélagi Fells verði gefinn kostur á að svara til sakar. Enn fremur telja stefndu að stefnendur skorti lögvarða hagsmuni af síðari dómkröfu sinni enda liggi fyrir að að ekkert lausafé hafi verið á vegum stefnda Ice Lagoon ehf. við höfðun málsins. Að mati stefndu virðist því kröfunni ætlað að taka til síðari atvika sem muni hugsanlega koma til en óvissa sé um á þessari stundu.
Af hálfu stefnenda er kröfu stefndu um frávísun málsins mótmælt. Er einkum vísað til þess að dómkröfur beinist að framkvæmd samnings sem einungis stefndu séu aðilar að en ekki aðrir eigendur. Þeir eigendur jarðarinnar, sem ekki séu aðilar að stefnda Sameigendafélaginu, hafi enga hagsmuni af dómi um þessar kröfur. Þá skipti engu máli þótt þessir eigendur kunni að hafa samið við stefnda Sameigendafélagið um að þeir eigi rétt á greiðslum frá félaginu vegna samningsins enda sé þar um að ræða lögskipti sem séu þessu máli óviðkomandi. Að því er varðar síðari dómkröfu stefnenda er vísað til þess að fyrirsjáanlegt sé að stefndi Ice Lagoon ehf. hefji starfsemi að nýju innan skamms og því sé stefnendum nauðsyn á dómi um kröfuna.
Niðurstaða
Í efnisþætti málsins hafa stefnendur uppi þá kröfu að viðurkennt verði að stefnda Ice Lagoon ehf. sé óheimil tiltekin starfsemi á grundvelli samnings sem félagið gerði við meðstefnda Sameigendafélag Fells ehf. 20. apríl 2012, en einnig er þess krafist að stefndi Ice Lagoon ehf. fjarlægi tiltekið lausafé sem tengist þessari starfsemi að viðlögðum dagsektum. Ekki er um það deilt að stefndi Sameigendafélag Fells fer með málsóknarumboð fyrir þá eigendur sem eru aðilar að sameigendafélaginu. Hins vegar liggur fyrir að eftir gerð téðs samnings hafa fjórir nafngreindir eigendur gengið úr félaginu. Eru þessi fjórir eigendur því hvorki aðilar að máli þessu í eigin nafni né fyrir tilhlutan stefnda Sameigendafélags Fells.
Í efnisþætti málsins er meðal annars um það deilt hvort heimilt hafi verið að gera téðan samning 20. apríl 2012 fyrir tilhlutan meirihluta eða aukins meirihluta eigenda jarðarinnar Fells. Byggja stefnendur málatilbúnað sinn á því að nauðsynlegt hafi verið að afla samþykkis allra eigenda jarðarinnar til gerðar samningsins. Fela dómkröfur þeirra það í sér að stefndi Ice Lagoon ehf. geti í reynd ekki byggt neinn rétt á samningnum þar sem hann sé ógildur gagnvart eigendum jarðarinnar.
Ef fallist er á fyrrgreinda málsástæðu stefnenda verður að leggja til grundvallar að aðilum málsins sé óheimilt að ráðstafa sakarefni málsins án samþykkis umræddra fjögurra meðeigenda jarðarinnar enda getur slík ráðstöfun jafngilt því að téður samningur sé annað hvort látinn halda gildi sínu með þeim afleiðingum að stefndi Ice Lagoon ehf. haldi áfram starfsemi sinni eða þá látinn niður falla þannig að starfseminni verði hætt. Þegar þessi aðstaða er höfð í huga þykir hafið yfir vafa að málið varðar hagsmuni umræddra fjögurra eigenda með þeim hætti að skylt var að stefna þeim til varnar og gefa þeim kost á að svara til sakar, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Er óhjákvæmilegt af þessari ástæðu að vísa málinu frá dómi í heild sinni samkvæmt 2. málsgrein sömu greinar.
Eftir úrslitum málsins verða stefnendur dæmdir sameiginlega til að greiða hvorum stefndu um sig málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Einar Björn Einarsson og Reynivellir ehf., greiði stefndu, Ice Lagoon ehf. og Sameigendafélagi Fells, sameiginlega hvorum um sig stefndu, Sameigendafélagi Fells og Ice Lagoon ehf., 250.000 krónur í málskostnað.