Hæstiréttur íslands
Mál nr. 267/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Barnavernd
- Vistun barns
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 2. maí 2013. |
|
Nr. 267/2013.
|
A og B (Þuríður Halldórsdóttir hdl.) gegn Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Barnavernd. Vistun barns. Gjafsókn.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem barnaverndarnefnd var heimilað að vista C og D, börn A og B, utan heimilis þeirra í 2 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttur settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. apríl 2013 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2013, þar sem staðfestur var úrskurður varnaraðila um að vista börnin C og D utan heimilis sóknaraðila í tvo mánuði frá og með 5. mars 2013. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A og B, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 180.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2013.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 8. apríl 2013, barst dómnum 15. mars s.l. með kröfu sóknaraðila, A og B, [...], Reykjavík, um að úrskurði varnaraðila, Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, Tjarnargötu 11, Reykjavík, frá 5. mars 2013, um að börn sóknaraðila, C og D, skuli vistuð á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði frá og með 5. mars 2013, verði hrundið og börnin afhent þeim þegar í stað. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi varnaraðila, þ.m.t. þóknunar lögmanns, samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbætum virðisaukaskatti.
Varnaraðili, Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, gerir þá kröfu að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti úrskurð varnaraðila frá 5. mars s.l., um að heimilt sé að vista börnin D, kt. [...]-[...] og C, kt. [...]-[...], sem lúta forsjá foreldra sinna, A, kt. [...]-[...], og B, kt. [...]-[...], sem skráð eru með lögheimili að [...] í Reykjavík, utan heimilis sóknaraðila, í allt að tvo mánuði frá og með 5. mars 2013. Af hálfu varnaraðila er ekki gerð krafa um kærumálskostnað.
Atvik máls
Í greinargerð varnaraðila er gerð grein fyrir ástæðum þess að varnaraðili hafi í september 2011 hafið afskipti af sóknaraðilum og börnum þeirra, C, fæddum [...] 2000 og D, fæddri [...] 1997. Í greinargerðinni er saga málsins ítarlega rakin allt þar til varnaraðili ákvað með úrskurði 5. mars 2013 að börnin skyldu vistuð á heimili á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur í allt að tvo mánuði, frá og með 5. mars 2013, með vísan til b.-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Eftirfarandi lýsing málsatvika er byggð á greinargerð varnaraðila, sem studd er framlögðum gögnum.
Börn sóknaraðila, C og D, hafa bæði verið greind með þroska-frávik, D með svonefnda ódæmigerða einhverfu og hreyfiþroskaröskun en C með dæmigerða einhverfu og alvarlega þroskahömlun. Hafa þau af þessum ástæðum verið talin þurfa á sérhæfðri þjónustu og stuðningi að halda. Börnin lúta forsjá sóknaraðila og búa hjá þeim í 3ja herbergja eigin íbúð í Reykjavík. Faðirinn er með sjálfstæðan atvinnurekstur en móðirin heimavinnandi. Móðirin er fædd og uppalin í [...] en hefur búið á Íslandi í um 16 ár. Hún er að eigin sögn með [...]menntun frá sínu heimalandi.
Málefni fjölskyldunnar hafa verið til vinnslu hjá Barnavernd Reykjavíkur (Barnavernd) frá 30. september 2011, er tilkynning barst Barnavernd frá [...]skóla, þar sem áhyggjum var lýst af takmörkuðum mætingum C í skólann. Samkvæmt upplýsingum skólans hafi hann ekki mætt í skólann dögum saman og ef hann mætti hafi það verið í mjög stuttan tíma, yfirleitt í eina klukkustund í senn. Ákvörðun hafi verið tekin í nemendaverndarráði skólans um að tilkynna málið tafarlaust til Barnaverndar með ósk um aðstoð og samvinnu við skólann. Það mun hafa verið mat starfsmanna Barnaverndar á þessum tíma að ekki væri ástæða til afskipta af málinu á grundvelli barnaverndarlaga. Alls munu sjö tilkynningar hafa borist Barnavernd frá [...]skóla, þar sem áhyggjum var lýst vegna fjarveru barna sóknaraðila úr skóla á annað ár. Í kjölfarið leitaði Barnavernd eftir upplýsingum frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar um skólasókn barnanna. Í svari skóla- og frístundasviðs kemur m.a. fram að drengurinn hafi verið í þremur leikskólum en einnig lengi utan leikskóla. Hann hafi byrjað nám í sérdeild [...]skóla haustið 2006. Sóknaraðilar hafi óskað eftir skólavist fyrir drenginn í [...]skóla en verið vísað í sérdeild [...]skóla. Í mars 2009 hafi sóknaraðilar flutt drenginn í [...]skóla. Hann hafi mætt vel í skólann í fyrstu en síðan komið tímabil þar sem hann hafi eingöngu verið í skólanum hluta úr degi. Skólaárið 2011-2012 hafi drengurinn oft ekki mætt nema eina klukkustund á dag og þá oftast í fylgd móður. Þar sem sóknaraðilar hafi verið verulega ósáttir við [...]skóla hafi þeim verið leiðbeint um að sækja um skólavist fyrir hann í einhverfudeild eða [...]skóla. Stúlkan hafi hins vegar alla sína skólagöngu eða frá árinu 2003 verið í [...]skóla, og hafi mætingar hennar verið þokkalegar þar til í októbermánuði 2011 en þá hafi hún hætt að sækja skólann. Starfsfólk [...]skóla hafi ekki merkt vanlíðan hjá stúlkunni í skólanum og telji hana hafa alla getu til að læra. Hún hafi átt vinkonu í skólanum meðan hún hafi verið þar. Samkvæmt upplýsingum frá ráðgjafa á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar var sóknaraðilum ítrekað boðið að koma á fund á skóla- og frístundasviði til að ræða skólagöngu C og D en þau ekki viljað þiggja það. Þá mun D hafa verið boðin skólavist í [...]skóla, og hún verið skráð í þann skóla að undangengnum fundi með starfsmanni skólans, föður, starfsmanni Barnaverndar og ráðgjafa á skóla- og frístundasviði. Stúlkan hafi hins vegar ekki mætt í skólann. Sóknaraðilar munu bæði hafa verið boðuð til fundar á skrifstofu Barnaverndar 27. janúar 2012, ásamt fulltrúum viðkomandi skóla og þjónustumiðstöðvar. Á fundinum mun ekki hafa komið fram nein sérstök skýring á fjarvist barnanna úr skóla en faðir virst hafa áhyggjur af heilsufari barnanna og því að eitthvað gæti mögulega farið úrskeiðis í tengslum við skólasókn þeirra. Á fundinum mun hafa komið fram hjá fulltrúa þjónustumiðstöðvar að fjölskyldunni hefðu boðist ýmis úrræði eins og stuðningsfjölskylda og liðveisla, en sóknaraðilar ekki talið þau úrræði henta sér. Í viðtalinu hafi faðir skrifað undir samþykki fyrir könnun máls, þar sem hann hafi samþykkt að taka á móti starfsmönnum Barnaverndar á heimili fjölskyldunnar og að rætt yrði við börnin. Jafnframt hafi faðir sagst ætla að gera sitt besta til að bæta skólasókn barnanna. Málið mun hafa verið tekið fyrir á meðferðarfundi hjá Barnavernd 31. janúar 2012, þar sem bókað var að á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga yrði farið í könnun þar sem óskað yrði eftir frekari upplýsingum frá skóla, þjónustumiðstöð og Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins. Hinn 1. mars 2012 mun hafa borist tilkynning frá [...]skóla, þar sem áhyggjur starfsmanna voru ítrekaðar. Faðir var upplýstur um nýja tilkynningu frá skólanum og brást hann að sögn reiður við og kvaðst hafa breytt afstöðu sinni til þess að starfsmenn kæmu inn á heimilið og ræddu við börnin. Hann væri hins vegar reiðubúinn að mæta á fund með aðilum frá Barnavernd og þjónustumiðstöð en hann vildi ekki sjá aðila frá [...]skóla á þeim fundi. Starfsmaður Barnaverndar mun hafa óskaði eftir því sérstaklega við föður að móðir barnanna mætti einnig á boðaða fundi Barnaverndar. Starfsmaður Barnaverndar mun hafa haft samband við þjónustumiðstöð 12. mars 2012 og í því samtali komið fram að málefni fjölskyldunnar væru þekkt og að fjölskyldunni hefðu verið boðin ýmis úrræði en sóknaraðilar afþakkað. Jafnframt mun hafa komið fram að áhyggjur væru til staðar á þjónustumiðstöð af stöðu barnanna, sem væru einangruð heima hjá sér. Starfsmaður Barnaverndar mun sama dag hafa haft samband við [...]skóla. Mat starfsmanna skólans var að drengurinn gæti nýtt sér meiri kennslu þ.e. hann hefði úthald í fleiri kennslustundir. Því væri ljóst að foreldrar væru ekki að þiggja þá kennslu og þjónustu sem þeim stæði til boða fyrir drenginn. Ítrekaði skólinn áhyggjur sínar af börnunum og hversu erfitt væri að ná samvinnu við foreldra þeirra. Munu starfsmenn skólans hafa lýst því yfir að þeir óttuðust að börnin einangruðust heima fyrir. Vegna könnunar málsins óskaði Barnavernd eftir skriflegum upplýsingum frá [...]skóla um skólasókn barnanna. Svar barst 27. mars 2012 og kom þar m.a. fram að stúlkan hefði ekki mætt í skólann síðan í nóvember. Drengurinn hefði mætt í klukkustund á dag í skólann um veturinn en ekki hefði verið hægt að fá foreldra til að samþykkja lengri skóladag fyrir hann, þrátt fyrir ítrekuð samtöl. Þá hafi samskipti við foreldri barnanna verið erfið eftir áramótin. Lýstu stjórnendur og kennarar skólans yfir miklum áhyggjum af stöðu stúlkunnar enda hefði skólaganga hennar um veturinn verið nánast engin. Hvað drenginn varðaði lýstu stjórnendur og kennarar yfir miklum áhyggjum af honum vegna takmarkaðrar skólagöngu hans og var hann sagður fara á mis við ýmis námsleg og félagsleg tækifæri sem byðust innan skólans. Faðir mætti á fund Barnaverndar 29. mars 2012. Af hálfu Barnaverndar hafði verið óskað eftir því að báðir sóknaraðilar myndu mæta á fundinn en faðir sagði móður upptekna við að gæta barnanna. Á fundinum var farið yfir stöðu mála og þær tilkynningar sem borist höfðu um fjarveru barnanna frá skóla ræddar. Niðurstaða fundarins mun hafa verið sú að faðir kæmi til viðtals ásamt stúlkunni í vikunni á eftir í þeim tilgangi að skoða tómstundaúrræði fyrir hana. Daginn eftir mun faðir hafa skipt um skoðun og ekki verið tilbúinn að ákveða fundartíma með starfsmanni. Hafi hann viljað sjá til hvort og hvenær hann kæmi með dóttur sína í viðtal. Aftur hafi verið haft samband við föður, 2. apríl 2012, en það samtal ekki leitt til niðurstöðu. Faðir hafi loks mætt á fund ásamt dóttur sinni hjá Barnavernd 4. apríl 2012. Hinn 27. apríl 2012 bárust Barnavernd upplýsingar frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins varðandi greiningar sem gerðar höfðu verið á börnunum, ásamt tillögum að úrræðum fyrir þau og eftirfylgd. Í bréfinu kemur fram að umönnun beggja barnanna sé bæði flókin og krefjandi og félagslegur stuðningur við fjölskylduna úr nærumhverfi enginn. Foreldrum hefðu verið kynnt þau stuðningsúrræði sem í boði væru, eins og ferðaþjónustu, liðveislu, stuðningsfjölskyldu eða skammtímavistun og þau hvött til að nýta sér þessi úrræði. Ekki væri kunnugt um að slík úrræði hefðu verið nýtt af foreldrum nema þá í litlum mæli. Hins vegar hefðu komið fram áhyggjur af stöðu barnanna m.a. vegna óreglulegra mætinga í skóla. Hinn 12. júní 2012 barst Barnavernd ný tilkynning frá skóla þar sem fyrri tilkynningar voru ítrekaðar og verulegum áhyggjum lýst af börnunum. Faðir mætti á fund Barnaverndar 2. júlí 2012, en á fundinn mætti einnig starfsmaður frá skóla- og frístundasviði. Faðir útskýrði forföll móður með því að hún væri að gæta barnanna auk þess sem hún væri búin að missa alla trú á kerfinu og mætti því ekki á boðaða fundi. Ákveðið hafi verið að hittast aftur á fundi 16. ágúst 2012 varðandi skólamál barnanna. Hvað frístundastarf fyrir börnin yfir sumarið varðaði hafi faðir gefið í skyn að ekki væru til úrræði fyrir börnin og fjárhagur fjölskyldunnar væri ekki góður. Hann hafi þó lýst sig tilbúinn til að skoða með frístundaúrræði fyrir börnin, ef hann fengi til þess fjárstyrk frá Barnavernd. Málefni barnanna voru rædd á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar 3. júlí 2012 og þar lagt til að skoðað yrði með úrræði fyrir börnin yfir sumarið. Skömmu síðar mun starfsmaður Frístundaklúbbsins [...] hafa haft samband við föður, en faðir afþakkað sumarúrræði fyrir börnin á vegum Barnaverndar. Hins vegar hafi faðir virtist jákvæður fyrir því að hitta starfsmann Barnaverndar í ágúst vegna skólamála barnanna. Fundur var haldinn hjá Barnavernd með föður og starfsmönnum skóla- og frístundasviðs 13. ágúst 2012. Faðir mun á fundinum hafa óskaði eftir svari varðandi skólavist fyrir stúlkuna í [...]skóla. Þá hafi hann lýst sig reiðubúinn að skoða [...]skóla fyrir drenginn. Óskað hafi verið eftir því að ræða við börnin á heimili fjölskyldunnar en faðir hafnað þeirri ósk með vísan til stjórnarskrárinnar og friðhelgi einkalífs. Faðir hafi virst í ójafnvægi og ör. Hann hafi sagst enga lausn sjá hvað skólamálin varðaði og þýðingarlaust væri fyrir börnin að sækja skóla. Sama dag hafi verið haft samband við móður og óskað eftir því að hún mætti á fund hjá Barnavernd. Móðirin hafi ekki brugðist vel við en í lok samtalsins þó fallist á að mæta á næsta boðaðan fund. Starfsmaður Barnaverndar mun hafa haft samband við föður, 17. ágúst 2012. Hann hafi þá verið mjög æstur og vísað í tölvupóst skóla- og frístundasviðs þar sem fram hafi komið að beiðni um skólavist stúlkunnar í [...]skóla hefði verið vísað frá og það væri jafnframt mat starfsmanns skóla- og frístundasviðs að [...]skóli væri besti kosturinn fyrir stúlkuna. Þar hafi jafnframt komið fram að foreldrum stæði til boða að fara í heimsókn í [...]skóla varðandi skólavist fyrir drenginn. Móðir hafi áður vísað því frá með þeim orðum að hún vildi hefðbundinn skóla fyrir drenginn en með sérhæfðum kennurum. Því var litið svo á af hálfu skóla- og frístundasviðs að drengurinn yrði áfram í [...]skóla skólaveturinn 2012-2013. Í framhaldinu óskaði Barnavernd eftir skriflegum útskýringum frá foreldrum um ástæðuna fyrir beiðni þeirra um skólaskipti. Svar við þeirri beiðni mun ekki hafa borist. Aftur á móti hafi Barnavernd borist tölvupóstur frá föður 12. ágúst 2012, þar sem hann hafi lýst hugleiðingum sínum um menntakerfið og um kosti og galla vestræns samfélags almennt. Í lok sumars 2012 mun hafa komið kom fram sú ósk hjá foreldrum að sótt yrði um undanþágu fyrir drenginn í [...]skóla. Sá skóli væri næstur heimilinu og í þeim skóla gæti drengurinn þróað með sér félagsfærni sem hann gæti ekki gert með jafnöldum sínum. Þá óskuðu þau eftir skólavist í [...]skóla fyrir stúlkuna. Sóknaraðilum mun hafa verið boðið að mæta til fundar og ræða málin en þau ekki þegið það. Samband var haft við föður 19. september 2012 og óskað eftir því að hann mætti á fund hjá Barnavernd. Hann mun hafa sagst vera upptekinn en óskað eftir því að haft yrði samband við hann daginn eftir. Það hafi verið gert og faðirinn þá upplýst að stúlkan færi ekki aftur í [...]skóla. Hinn 20. september barst Barnavernd tilkynning frá skóla með þeim upplýsingum að börnin hefðu ekkert mætt í skólann frá skólabyrjun. Daginn eftir mun starfsmaður Barnaverndar hafa haft samband við föður með þær upplýsingar að í boði væri pláss fyrir drenginn í sérdeild [...]skóla og að mögulega gæti stúlkan farið í [...]skóla. Faðir hafi ekki verið tilbúinn að svara því hvort þau myndu þiggja þetta úrræði og viljað fá tækifæri til að skoða [...]skóla áður og meta þann tíma sem það tæki að keyra í skólann. Faðir hafi þá verið minntur á Ferðaþjónustu fatlaðra. Aftur hafi verið haft samband við föður 27. september 2012 og hann upplýstur um nýja tilkynningu frá [...]skóla. Hann hafi sagst vera að hugleiða með [...]skóla og sérdeild [...]skóla en í [...]skóla færu börnin aldrei aftur. Mun faðir þá hafa verið upplýstur um mögulega fyrirlögn málsins fyrir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, ef börnin færu ekki í skóla. Faðir hafi brugðist mjög reiður við. Tilkynning hafi enn á ný borist frá skóla 15. nóvember 2012, þar sem ítrekaðar hafi verið áhyggjur starfsmanna af fjarveru barnanna frá skóla. Faðir hafi verið upplýstur um tilkynninguna og enn brugðist illa við. Í símtali starfsmanns Barnaverndar við starfsmann skóla- og frístundasviðs 19. nóvember 2012 hafi m.a. komið fram að ekkert miðaði í þeim efnum að finna börnunum skólaúrræði. Óskað hefði verið eftir læknisvottorði frá foreldrum vegna mikillar fjarveru stúlkunnar úr skóla og þá með það að markmiði að sækja um sjúkrakennslu fyrir hana inn á heimilið. Foreldrar hafi hafnað því boði. Móðir hafi hins vegar viljað fá skólaúrræði fyrir börnin í þeim skólum sem þeim stæðu ekki til boða. Áfram hafi verið skoðað með skólaúrræði fyrir börnin og horft til [...]skóla fyrir stúlkuna og einhverfudeild [...]skóla fyrir drenginn, sem þó yrði áfram í [...]skóla á meðan beðið væri eftir plássi í [...]skóla. Sóknaraðilar hafi ekki þegið þessi úrræði. Sálfræðingur Barnaverndar mun hafa setið þrjá fundi með starfsmönnum Barnaverndar og föður og hafi stúlkan einu sinni verið viðstödd. Hafi það verið mat sálfræðingsins að þótt ekki væri ástæða til að efast um góðan vilja og væntumþykju föður gagnvart börnum sínum væri samvinna við hann sérlega erfið vegna óánægju hans með allt kerfið og starfsmenn þess annars vegar og hins vegar fullvissu hans um að foreldrar væru að veita börnunum bestu mögulegu umönnun. Það væri því að mati sálfræðingsins ástæða til að óttast að börnin væru að einangrast inni á heimili sínu og að erfitt væri að vita og meta atlæti þeirra þar. Telja mætti nær víst að börnin hefðu gott af markvissari meðferð og námi en þau væru að fá í foreldrahúsum. Mál sóknaraðila og barna þeirra mun hafa verið rætt á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar 11. desember 2012, og þar m.a. bókað að ekki hefði tekist að ljúka könnun í málinu með fullnægjandi hætti þar sem sóknaraðilar hefðu alfarið neitað að leyfa starfsmönnum að hitta börnin á heimili fjölskyldunnar. Samvinna við sóknaraðila hefði ekki tekist og þau ekki sætt sig við þau úrræði sem þeim stæðu til boða. Þá virtist sem foreldrar teldu það ekki mikilvægt að börn þeirra sæktu skóla. Ákveðið hafi verið að reynt yrði til þrautar að ná samvinnu við foreldra en að öðrum kosti yrði málið kynnt Barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Samband mun hafa verið haft við föður 14. janúar 2013 og honum greint frá niðurstöðu könnunar og bókun í málinu. Í símtalinu hafi faðir vísað til þess að sími hans væri hleraður og hefði svo verið um nokkurt skeið og hefði hann upplýst sérsveit lögreglunnar um það. Óskað hafi verið eftir því að sóknaraðilar myndu bæði mæta á fund hjá Barnavernd til að fara yfir stöðu málsins og næstu skref. Faðir hafi talið óvíst að móðir sæi sér fært að koma með honum á fundinn. Hinn 21. janúar 2013 mætti faðir á fund Barnaverndar og undirritaði áætlun um meðferð máls. Mun hann hafi lýst sig reiðubúinn til samvinnu um að finna börnunum heppilegt skólaúrræði og að sjá til þess að þau mættu í skólann. Það yrði þó ekki strax vegna líkamlegra kvilla hjá börnunum og mun hann hafa vísað til magabólgna hjá báðum börnunum. Faðir mun hafa tekið meðferðaráætlun með sér heim og sagst ætla að freista þess að fá móður barnanna til að skrifa undir hana. Það hafi hins vegar ekki gengið eftir, og að sögn föður hafi hún neitað því alfarið. Faðir mætti einn til fundar hjá Barnavernd 25. janúar. Á fundinum kom m.a. fram að reynt yrði að fá skólavist fyrir stúlkuna í [...]skóla, líkt og sóknaraðilar hefðu óskað eftir. Þá var lagt til að foreldrar myndu sækja um fyrir drenginn í [...]skóla fyrir 15. mars 2013 svo að drengurinn kæmist þangað inn næsta haust. Á biðtímanum yrði skoðað með að veita ráðgjöf vegna drengsins frá [...]skóla inn í [...]skóla. Á fundinum hafi verið rætt við föður um mikilvægi þess að starfsmaður Barnaverndar fengi tækifæri til að ræða við börnin á heimili þeirra. Hann hafi aftekið það með öllu og vísað til friðhelgi heimilis. Faðir hafi að mestu leyti verið rólegur í viðtalinu en haft af og til í hótunum við starfsmenn, m.a. að skjóta þá, ef þeir settu börnin í þær aðstæður að þau yrðu misnotuð kynferðislega. Hann hafi þó sagst ætla að vera til samvinnu um að finna börnunum heppilegt skólaúrræði. Inntökufundur mun hafa verið haldinn í [...]skóla 8. febrúar fyrir stúlkuna og hún mætt í fylgd föður. Skýr vilji mun hafi komið fram hjá stúlkunni um að mæta í skólann en þó hafi hún haft áhyggjur af bróður sínum og að hann yrði einmana. Niðurstaða fundarins mun hafi verið á þá leið að stúlkan myndi mæta í skólann 12. febrúar sl. og þá í þeim tilgangi að skoða hann betur og fá upplýsingar um námsbækur. Þá hafi verið ákveðið að stúlkan hæfi nám 14. febrúar og yrði til að byrja með hluta úr degi í skólanum. Jafnframt yrði skoðað með þörf hennar fyrir stuðning í skólanum. Þar sem könnun máls var ekki enn lokið af hálfu Barnaverndarhafi var foreldrum sent bréf um fyrirhugaða heimsókn starfsmanna Barnaverndar á heimili fjölskyldunnar 15. febrúar. Mun faðir hafa haft samband við starfsmann Barnaverndar 11. febrúar. Hann hafi verið mjög reiður og sagt móðurina einnig vera mjög reiða. Móðir neitaði nú með öllu að senda stúlkuna í skólann og allur sá árangur er hefði náðst í málinu væri ónýtur vegna eineltis af hálfu starfsmanns Barnaverndar. Hafi faðir lýst því yfir að börnin færu ekki í skóla og að samvinnu við Barnavernd væri lokið. Aðspurður hafi faðir sagst tilbúinn til að skoða það að senda stúlkuna í skólann, ef starfsmenn frestuðu heimsókn sinni á heimilið. Hafi það verið samþykkt af hálfu Barnaverndar. Hinn 12. febrúar bárust Barnavernd þær upplýsingar frá [...]skóla að sóknaraðilar hefðu mætt fyrirvaralaust með drenginn um kl. 10:30, og óskað eftir skólavist fyrir hann. Stúlkan hafi hins vegar ekki mætt og foreldrar sagt hana veika heima. Fundur hafi verið haldinn með foreldrunum í skólanum og þau upplýst um að ekki væri hægt að veita drengnum þann stuðning í skólanum sem hann þyrfti sýnilega á að halda. Sóknaraðilar hafi verið ósáttir við það svar og sagt að þá myndi stúlkan ekki mæta í skólann. Málið var lagt fyrir meðferðarfund starfsmanna Barnaverndar 13. febrúar og þar m.a. bókað að starfsmenn hefðu verulegar áhyggjur af börnunum og þeirri stöðu sem þau væru í. Ákveðið var að leggja málið fyrir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur enda svo metið af hálfu Barnaverndar að um andlegt ofbeldi og grófa vanrækslu væri að ræða og mat starfsmanna að öryggi barnanna á heimili sínu væri ótryggt. Í framhaldi af þessari ákvörðun kallaði Barnavernd eftir upplýsingum frá lækni á Barnaspítala Hringsins vegna rannsóknar á stúlkunni. Í svari læknis 20. febrúar komi fram að stúlkan hefði komið til rannsóknar vegna svima og kviðverkja og undirgengist magaspeglun skömmu fyrir jól. Niðurstaða rannsóknar þætti benda til þess að stúlkan hefi vægt bakflæði. Hvað varðaði andlegt eða líkamlegt ástand hennar og það hvort það væri þess eðlis að það kæmi í veg fyrir skólasókn hennar eða til að sækja úrræði utan heimilis væri ekki séð, að mati læknisins, að kviðverkirnir og þau einkenni sem verið hefðu tilefni rannsóknar á stúlkunni gætu skoðast sem tilefni þess að sækja ekki skóla. Barnavernd fór þess á leit við E, fjölskylduráðgjafa á Fjölskyldumiðstöðinni, með beiðni 20. febrúar, að hún tæki að sér hlutverk talsmanns fyrir börnin. Mál barnanna var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 5. mars. Fyrir fundinum lá tillaga um vistun barnanna utan heimilis með eða án samþykkis foreldra. Meðferðaráætlun Barnaverndar var lögð fyrir fundinn þar sem m.a. var kveðið á um að líðan barnanna og þroski yrði metin, skipulagi komið á skólagöngu þeirra og unnið að bættum aðstæðum á heimili þeirra. Foreldrar mættu ekki á fundinn þrátt fyrir boðun. Málið var tekið til úrskurðar og varð það niðurstaða nefndarinnar að grípa þyrfti tafarlaust inn í þá þróun sem átt hefði sér stað varðandi börnin sem lifað hefðu við vanrækslu til lengri tíma og því væri nauðsynlegt að vista þau á Vistheimili barna í allt að tvo mánuði, frá og með 5. mars, sbr. b. liður 1.mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Hinn 12. mars var úrskurði varnaraðila fylgt eftir, en þá var farið að heimili fjölskyldunnar, ásamt túlki og lögreglu. Að beiðni starfsmanna Barnaverndar hafi lögreglan kallað til lásasmið og fóru starfsmenn Barnaverndar ásamt lögreglu inn á heimilið. Móðir var ein heima með börnin. Að mati Barnaverndar var ástand íbúðarinnar slæmt, bæði mikil óreiða og óhreinindi og þá ekki síst í eldhúsi. Mun lögregla hafi tekið myndir af ástandi heimilisins. Um sé að ræða 3ja herbergja íbúð og hafi þær upplýsingar komið fram að drengurinn svæfi upp í rúmi hjá móður sinni en faðir og stúlkan deildu herbergi. Börnin og móðir ræddu saman á spænsku og kom fram hjá túlki að móðir legði að börnunum að ræða ekkert við starfsmenn Barnaverndar og að þau myndu ekki segja frá neinu. Eftir að börnin voru fjarlægð af heimilinu hafa þau dvalið á Vistheimili barna. Talsmaður barnanna, skipaður af Barnavernd, ræddi við börnin á vistheimilinu 23. mars. Þá munu tveir kennarar frá [...]skóla hafa farið á vistheimilið til að sinna börnunum námslega. Í þinghaldi í máli þessu 20. mars skipaði dómari Leif Runólfsson héraðsdómslögmann talsmann barnanna með vísan til 2. mgr. 55. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 61. gr. laganna. Var það mat dómara að rétt væri að börnunum yrði skipaður löglærður talsmaður með reynslu af barnaverndarmálum. Hinn dómskipaði talsmaður hefur rætt við börnin á vistheimilinu m.a. til að kanna, eftir því sem unnt hefur verið, afstöðu þeirra til málsins. Hefur hinn dómskipaði talsmaður lýst því yfir að stúlkan D muni ekki ganga inn í málið með meðalgöngustefnu, sbr. 2. ml. 1. mgr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, þar sem meðalganga hennar myndi að öllum líkindum tefja málið. Við aðalmeðferð málsins gáfu sóknaraðila skýrslur. Auk þeirra komu eftirgreind vitni, öll starfsmenn varnaraðila, fyrir dóminn og gáfu skýrslur: F félagsráðgjafi, G félagsráðgjafi og H sálfræðingur. Dómari málsins ræddi við stúlkuna D í húsnæði Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl ásamt I sálfræðingi. Var stúlkunni í því samtali m.a. gefinn kostur á að tjá sig um málið. Skýrsla sálfræðingsins um það samtal hefur verið lögð fram í málinu en í því kom fram að hún vildi eindregið og þegar í stað fara af Vistheimili barna og á heimili sitt að nýju. Var það mat dómara að ekki væri ástæða til að stúlkan gæfi skýrslu fyrir dómi. Þá var ekki talin ástæða til að ræða málið við drenginn C vegna aldurs hans og mikillar þroskaskerðingar.
Málsástæður sóknaraðila og tilvísum til réttarheimilda
Sóknaraðilar byggja á því að varhugavert sé og beinlínis hættulegt, vegna fötlunar barna sinna, C og D, að vista þau hjá ókunnugum. Þetta eigi sérstaklega við um C, sem vegna mikillar fötlunar þurfi mjög á umönnun móður sinnar að halda t.d. varðandi svefn. Sóknaraðilar hafi gengið þrautagöngu í kerfinu til að reyna að fá skóla og aðstoð við hæfi barna sinna, sem taki mið af fötlun þeirra og veikindum. Sóknaraðilar vilji umfram allt að börnin sæki skóla og fái alla þá aðstoð og hjálp sem unnt sé að fá í þjóðfélaginu og séu reiðubúin að vera í samvinnu við starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur til að finna bestu úrræðin fyrir börnin.
Sóknaraðilar hafi talið að verið væri að leita að hentugum skóla fyrir börnin og ekki skilið þann seinagang sem þau hafi talið vera í kerfinu en svo hafi virst sem ekki væri til neinn skóli sem mætt gæti þörfum barnanna. Sóknaraðilar hafi lýst því yfir á fundi með starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur að þau vildu að börnin færu í skóla, sem mætt gæti þörfum þeirra og að sóknaraðilar væru reiðubúin að vera í samvinnu og samstarfi við starfsmenn Barnaverndar til að koma börnunum í hentugan skóla og þiggja alla þá hjálp og aðstoð sem í boði væri fyrir fötluð og veik börn og börn sem lent hefðu í einelti í skóla. Hins vegar gætu sóknaraðila ekki samþykkt vistun barnanna utan heimils enda teldu þau hana beinlínis skaðlega fyrir börnin. Sóknaraðilar byggi kröfu sína um að fá börnin til sín og að úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur verði hrundið á þeirri meginreglu barnalaga og barnaverndarlaga að barn skuli vera þar sem því sé fyrir bestu að vera, sbr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Telja verði umræddan úrskurð og framkvæmd hans alvarlegt brot á 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þar sem segi að ávallt skuli miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt og því aðeins grípa til íþyngjandi ráðstafana ef lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Ljóst sé að skilyrði 27. gr. barnaverndarlaga hafi ekki verið fyrir hendi þegar hinn kærði úrskurður hafi verið kveðinn upp þar sem ekki hafi áður verið reynd önnur og vægari úrræði, svo sem í 24. sbr. 23. gr. barnaverndarlaga greini. Þá brjóti umræddur úrskurður einnig í bága við 8. gr. Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem segi að stuðla skuli að því að sameina fjölskyldur en ekki sundra þeim. Krafa um kærumálskostnað byggi á 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggi á lögum 50/1988.
Málsástæður varnaraðila og tilvísun til réttarheimilda
Varnaraðili styður kröfu sína um vistun utan heimilis fyrst og fremst með því að umræddur úrskurður varnaraðila hafi fengið lögformlega málsmeðferð og sé gildur að lögum. Við uppkvaðningu hans hafi verið gætt meðalhófs og tekið mið af því að vægari úrræði samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga hafi verið reynd og verið fullreynd án þess að viðunandi árangur hafi náðst, þar sem aðstæður barnanna hafa ekki batnað. Varnaraðili hafi veitt sóknaraðilum víðtækan stuðning þar sem leitast hafi verið við að ná samvinnu í skólamálum barnanna og styrkja og aðstoða sóknaraðila í uppeldishlutverki sínu og þar með bæta líðan og stöðu barna þeirra. Sóknaraðilum hafi staðið til boða stuðningur af hálfu þjónustumiðstöðvar en þau hafi ekki nýtt sér úrræðin sem skyldi. Varnaraðili telji sóknaraðila ekki hafa innsæi í þarfir barnanna og að uppeldisaðstæður þeirra séu og hafi verið óviðunandi. Varnaraðili telji að málefnalegar ástæður hafi legið að baki uppkvaðningu úrskurðar um vistun utan heimilis og að rannsóknar-, andmæla- og meðalhófsreglna hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins. Úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp eingöngu með sjónarmið um heilsu, velferð og vellíðan barnanna að leiðarljósi og með vitund um þá brýnu nauðsyn að börnin sæktu skóla og fengju tækifæri til að þroskast og dafna eins og jafnaldrar sínir, við öruggar og góðar aðstæður. Ennfremur liggi úrskurðinum til grundvallar sú staðreynd að sóknaraðilar hafa ekki verið til samvinnu, og að sóknaraðilar hafi neitað vanda sínum eða ekki þegið úrræði sem þeim hafi staðið til boða í því skyni að bæta aðstæður og velferð barnanna. Aðdragandi málsins sé langur, eins og fram komi af atvikum þess og hafi börnin ekki sótt skóla í á annað ár. Í málinu sé nú svo komið að vægari úrræði en vistun utan heimilis dugi ekki til. Varnaraðili bendi á að í kæru sé ekkert minnst á skort á samvinnu sóknaraðila við þá aðila sem að málefnum barnanna hafi komið. Að því virtu og með hliðsjón af afneitun og skorti sóknaraðila á samvinnu og innsæi í vanda sinn í gegnum tíðina og því að svo virðist vera að börnin telji sig ábyrg fyrir afskiptum barnaverndaryfirvalda af málefnum fjölskyldunnar þá séu sóknaraðilar, eins og staða þeirra sé í dag, ekki hæf til að veita börnum sínum þá viðeigandi umönnun og stuðning sem þau þurfi nauðsynlega á að halda. Nauðsynlegt hafi verið fyrir börnin að komast í annað umhverfi þar sem markmiðið sé að börnin byrji að sækja skóla á ný og búi við skýran ramma frá degi til dags, njóti útivistar og frístunda, en sóknaraðilar hafa ekki sinnt þeim þætti þrátt fyrir að barnavernd hafi boðið þeim fjárhagslegan stuðning í þeim efnum. Að framangreindu virtu telji varnaraðili, með vísan til b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, það mæta brýnum hagsmunum barnanna best að vera vistuð utan heimilis um takmarkaðan tíma svo vinna megi með sóknaraðilum á vanda þeirra. Í bókun frá 5. mars s.l. hafi varnaraðili samþykkt að fela starfsmönnum Barnaverndar að gera meðferðaráætlun með sóknaraðilum, sbr. 23. gr. barnaverndarlaga, þar sem gert sé ráð fyrir að sóknaraðilar undirgangist forsjárhæfnimat og að skipulagi verði komið á skólagöngu barnanna, og sálfræðingur á vegum Barnaverndar ræði við börnin og leggi mat á þroskastöðu þeirra og líðan. Sóknaraðilar hafi hins vegar alfarið neitað að samþykkja áætlun um meðferð máls með umræddum markmiðum. Með vísan til framangreinds og gagna málsins að öðru leyti sé það mat varnaraðila að börnin hafi í allt of langan tíma búið við miður góðar aðstæður í umsjá sóknaraðila. Varnaraðili telji það þjóna hagsmunum barnanna best að vistast utan heimilis tímabundið á meðan unnið sé með sóknaraðilum að því að bæta stöðu barna þeirra og meta foreldrahæfni þeirra. Að mati varnaraðila hafi meðalhófsreglunnar verið gætt í hvívetna við meðferð málsins og ekki verið gripið til viðurhlutameiri úrræða en nauðsyn hafi krafist. Þar sem varnaraðili telji nauðsynlegt að vistun barnanna standi í allt að tvo mánuði sé sú krafa gerð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að dómurinn staðfesti úrskurð varnaraðila frá 5. mars 2013, um að heimilt sé að vista systkinin, D og C, utan heimilis sóknaraðila í allt að tvo mánuði frá og með 5. mars 2013, sbr. b-liður 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Mál barnanna hafi verið til meðferðar hjá varnaraðila frá því um haustið 2011, án þess að aðstæður og líðan barnanna hafi breyst til batnaðar. Varnaraðili telji þá niðurstöðu, að nauðsynlegt sé að vista börnin utan heimilis, í samræmi við meginreglu barnaréttar, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga, en við slíka ákvörðun beri sem endranær þegar málum barna sé skipað, að taka það ráð sem barni sé fyrir bestu.
Forsendur og niðurstaða
Sóknaraðili byggir kröfu sína um að úrskurði varnaraðila frá 5. mars 2013 um vistun barna sóknaraðila utan heimils, verði hrundið, á því að hættulegt sé og jafnvel skaðlegt vegna fötlunar barnanna að vista þau utan heimils. Sóknaraðilar hafi verið reiðubúin til samvinnu við varnaraðila og starfsmenn Barnaverndar um að koma börnunum í skóla við þeirra hæfi og þiggja alla þá hjálp og aðstoð sem í boði væri fyrir fötluð og veik börn sem lent hafi í einelti í skóla. Úrskurður varnaraðila og framkvæmd hans feli í sér alvarlegt brot á 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þar sem ekki hafi verið gripið til vægustu úrræða til að ná þeim markmiðum sem varnaraðili hafi stefnt að. Skilyrði 27. gr. barnaverndarlaga fyrir vistun barnanna utan heimilis hafi því ekki verið til staðar þegar hinn kærði úrskurður hafi verið kveðinn upp enda önnur og vægari úrræði ekki verið fullreynd. Þá brjóti hinn kærði úrskurður í bága við 8. gr. Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Varnaraðili styður kröfu sína með því að úrskurður varnaraðila hafi fengið lögformlega málsmeðferð og sé gildur að lögum. Við uppkvaðningu hans hafi verið gætt meðalhófs og tekið mið af því að vægari úrræði samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga hafi verið fullreynd án þess að viðunandi árangur hafi náðst, þar sem aðstæður barnanna hafi ekki batnað. Varnaraðili hafi veitt sóknaraðilum víðtækan stuðning, þar sem leitast hafi verið við að ná samvinnu í skólamálum barnanna og styrkja og aðstoða sóknaraðila í uppeldishlutverki þeirra og þar með bæta líðan og stöðu barna þeirra. Sóknaraðilum hafi staðið til boða stuðningur af hálfu viðkomandi þjónustumiðstöðvar en þau hafi ekki nýtt sér úrræðin sem skyldi. Varnaraðili telji sóknaraðila ekki hafa nægilegt innsæi, hvað þarfir barnanna varði, og að uppeldisaðstæður þeirra séu og hafi verið óviðunandi. Varnaraðili telji að málefnalegar ástæður hafi legið að baki uppkvaðningu úrskurðar um vistun utan heimilis og að rannsóknar-, andmæla- og meðalhófsreglna hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins. Úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp eingöngu með sjónarmið um heilsu, velferð og vellíðan barnanna að leiðarljósi og með vitund um þá brýnu nauðsyn að börnin sæki skóla og fái tækifæri til að þroskast og dafna eins og jafnaldrar sínir, við öruggar og góðar aðstæður. Ennfremur liggi úrskurðinum til grundvallar sú staðreynd að sóknaraðilar hafi ekki verið til samvinnu og neitað vanda sínum eða ekki þegið úrræði, sem þeim hafi staðið til boða, í því skyni að bæta aðstæður og velferð barnanna. Aðdragandi málsins hafi verið langur, eins og fram komi af atvikum málsins, og hafi börnin ekki sótt skóla í á annað ár. Sé nú svo komið að vægari úrræði en vistun utan heimilis dugi ekki til. Sóknaraðilar, eins og staða þeirra sé í dag, séu ekki hæf til að veita börnum sínum þá viðeigandi umönnun og stuðning sem þau þurfi nauðsynlega á að halda. Nauðsynlegt hafi verið fyrir börnin að komast í annað umhverfi þar sem markmiðið sé að börnin byrji að sækja skóla á ný og búi við skýran ramma frá degi til dags, njóti útivistar og frístunda, en sóknaraðilar hafa ekki sinnt þeim þætti, þrátt fyrir að Barnavernd hafi boðið þeim fjárhagslegan stuðning í því skyni.
Í 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er kveðið á um heimildir barnaverndarnefndar til að úrskurða um vistun barns utan heimilis í tilvikum þar sem ekki liggur fyrir samþykki foreldris og/eða barns sem náð hefur 15 ára aldri enda mæli brýnir hagsmunir barns með því. Í b-lið 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að barnaverndarnefnd geti kveðið á um töku barns af heimili í allt að tvo mánuði og um nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi þess eða til að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barninu og veita því nauðsynlega meðferð og aðhlynningu. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 80/2002 segir um 27. gr. að tveir mánuðir þyki hæfilegur tími til að meta stöðu og þarfir barns, taka ákvörðun um hvort barn skuli snúa heim eða nauðsyn þess að grípa til annarra ráðstafana, svo sem vistunar til frekari meðferðar. Samkvæmt 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skulu barnaverndaryfirvöld eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þá skulu þau jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Skal því aðeins gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Framangreind meginregla 7. mgr. 4. barnaverndarlaga um meðalhóf er í samræmi við 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar segir að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skal í barnaverndarstarfi beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu og hagsmunir barna ávalt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda.
Í forsendum úrskurðar varnaraðila frá 5. mars 2013 segir að telpan D, sem við uppkvaðningu úrskurðarins sé á sextánda aldursári, hafi verið greind með ódæmigerða einhverfu og drengurinn C, sem sé tæplega þrettán ára, hafi verið greindur með dæmigerða einhverfu. Bæði börnin séu talin í mikilli þörf fyrir öflugan stuðning, þjálfun og sérkennslu og stuðning varðandi félagsleg samskipti. Þá er rakið að foreldrar hafi ekki fylgt tillögum Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins um úrræði fyrir börnin. Drengurinn hafi verið í alls þremur leikskólum en sóknaraðilar lýst m.a. efasemdum um að nægilega vel hafi verið hugsað um hann þar. Hafi drengurinn verið lengi utan leikskóla af sömu ástæðu. Foreldrum hafi staðið til boða úrræði á vegum viðkomandi þjónustumiðstöðvar en þau hafi hafnað því. Sjö tilkynningar hafi borist í málinu frá skóla þar sem áhyggjum hafi verið lýst af börnunum vegna langtíma fjarveru þeirra frá skóla en þau hafi ekki mætt í skóla vel á annað ár. Þá hafi komið fram í viðtali við föður að hann og móðir barnanna teldu börnunum það ekki til góðs að sækja skóla, annars vegar vegna eineltis af hálfu starfsmanna skóla og nemenda og hins vegar vegna vangetu kennara til að lesa lög og stjórnarskrána. Þá hafi faðir sagt að betra væri að kenna börnunum að skjóta frá sér eða að taka inn svefnlyf til þess að þurfa ekki að lifa í óásættanlegu samfélagi. Í viðtali við telpuna hafi komið fram skýr vilji hennar til að sækja skóla og faðir hafi staðfest að það væri einnig vilji drengsins. Þá liggi fyrir upplýsingar frá föður um að bæði börnin glími við líkamleg veikindi, t.a.m. magabólgur og skjaldkirtilsvanda, andlega vanlíðan, þunglyndi og alvarlegar sjálfsvígshugsanir. Þá er í forsendum úrskurðarins rakið að foreldrar hafi hvorki verið til samvinnu um að finna börnunum heppilegt skólaúrræði né hafi þau samþykkt að starfsmaður Barnaverndar kæmi á heimili þeirra og ræddi þar við börnin og skoðaði þær aðstæður sem börnin byggju við á heimilinu. Þegar eftir því hafi verið leitað hafi faðir haft í hótunum við starfsmenn m.a. um lögsókn. Þá hafi faðir lýst því yfir að hann myndi skjóta starfsmenn ef þeir settu börnin í þær aðstæður að hægt yrði að misnota þau kynferðislega. Í úrskurði varnaraðila er ennfremur rakið að í greinargerð starfsmanna Barnaverndar, dags. 18. febrúar 2013, komi fram að á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga hafi starfsmenn Barnaverndar miklar áhyggjur af öryggi og velferð barnanna í umsjá foreldra og telji að börnin sæti grófri vanrækslu. Væri því lagt til að börnin yrðu vistuð utan heimilis foreldra en ekki væri talið nægjanlegt að gefin væru fyrirmæli um skólasókn barnanna og eftirlit á heimili þeirra, sbr. a.- og b.-liði 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þar sem talið væri að börnin byggju við svo alvarlega vanrækslu á heimili sínu. Ljóst væri af gögnum málsins að tilefni væri til að hafa verulegar áhyggjur af uppeldisaðstæðum barnanna hjá foreldrum en þau fengju hvorki stuðning eða úrræði sem þeim væru talin nauðsynleg né sæktu skóla.
Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að dóttir sóknaraðila, D, hefur ekki sótt skóla frá 13. október 2011. Hafa skólastjórnendur sent Barnavernd fjölmörg erindi af þessari ástæðu þar sem verulegum áhyggjum er lýst yfir fjarveru telpunnar frá skóla. Málið hefur af hálfu Barnaverndar og fleiri aðila ítrekað verið rætt við föður telpunnar án þess að fullnægjandi skýringar og viðunandi lausn hafi fengist. Fallist er á það með varnaraðila að við svo búið megi ekki lengur standa enda séu brýnir hagsmunir telpunnar í húfi, sbr. 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Hefur telpan sjálf ítrekað lýst því yfir m.a. við dómskipaðan talsmann sinn, sbr. fyrirliggjandi skýrslu talsmannsins frá 23. mars 2013, og dómara málsins og sálfræðing, sem var dómara til aðstoðar við samtal við telpuna, að hún hafi eindreginn vilja til að sækja skóla og afla sér þeirrar menntunar sem henni sé nauðsynleg til að geta tekið virkan þátt í þjóðfélaginu. Að halda telpunni frá skóla jafn lengi og raun ber vitni brýtur gróflega í bága við réttindi telpunnar til menntunar og þá skyldu foreldra að afla henni lögmæltrar fræðslu og stuðla að því að hún fái menntun og eftir atvikum starfsþjálfun í samræmi við hæfileika sína og áhugamál, sbr. 2. mgr. 1. gr., sbr. 3. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003, sbr. lög nr. 61/2012 um breytingu á þeim lögum.
Eins og rakið hefur verið þjáist drengurinn C af dæmigerðri einhverfu. Er hann að mati sérfræðinga í þörf fyrir mikla aðstoð. Eins og málum var háttað þegar drengurinn var tekinn af heimili sínu, 12. mars s.l., naut hann engrar faglegrar aðstoðar innan eða utan heimilis, hvorki þjálfunar eða kennslu, og hafði allri slíkri aðstoð ítrekað verið hafnað af foreldrum. Þannig hafði drengurinn t.d. ekki sótt skóla, samkvæmt ákvörðun foreldra, nema mjög stopult og aðeins í mjög stuttan tíma í senn, svo mánuðum skipti. Fallist er á það með varnaraðila að við svo búið megi ekki lengur standa enda séu brýnir hagsmunir drengsins í húfi, sbr. 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Fyrir liggur í gögnum málsins og hefur ekki verið hrundið af sóknaraðilum að þeim voru, áður en til úrskurðar varnaraðila kom hinn 5. mars s.l., kynnt og boðin margvísleg úrræði vegna barna sinna, á vegum Barnaverndar, skóla og viðkomandi þjónustumiðstöðvar. Þannig voru sóknaraðilum boðin ýmis skólaúrræði fyrir börnin t.d. skólavist í [...]skóla og [...]skóla fyrir D auk [...]skóla og dvöl fyrir C í [...]skóla, sérdeild [...]skóla og [...]skóla. Þá var foreldrum boðin ferðaþjónusta fyrir börnin, liðveisla stuðningsfjölskyldu og skammtímavistun, sjúkrakennsla inn á heimili, sjúkraþjálfun fyrir börnin og fjárstyrkur vegna frístundaiðkunar. Með vísan til framangreinds og upplýsinga, sem fyrir liggja í málinu og fram komu í skýrslum starfsmanna Barnaverndar fyrir dóminum, um fjölmarga fundi starfsmanna Barnaverndar með föður, þar sem framangreind úrræði og annað sem Barnavernd taldi að gera þyrfti, vegna brýnna hagsmuna barnanna, var rætt, verður fallist á það með varnaraðila að gætt hafi verið nægilega að tæmingu vægari úrræða áður en úrskurður um töku barna sóknaraðila af heimili var kveðinn upp 5. mars og hrint í framkvæmd 12. mars. Þá verður með hliðsjón af framangreindu talið að varnaraðili hafi gætt meðalhófs í ákvörðunum og aðgerðum sínum gagnvart sóknaraðilum og ekki gripið til harkalegri aðgerða en tilefni var til að teknu tilliti til brýnna hagsmuna barnanna C og D, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þá er það niðurstaða dómsins að mat varnaraðila á aðstæðum sóknaraðila hafi verið málefnalegt og byggt á ítarlegum fyrirliggjandi gögnum.
Sóknaraðilar hafa haldið því fram að hættulegt sé og jafnvel skaðlegt vegna fötlunar barna sóknaraðila að vista þau utan heimilis. Sóknaraðilar hafa ekki stutt þessa málsástæðu neinum gögnum og er hún í fullri andstöðu við það sem fyrir liggur í málinu um nauðsynlega meðferð barnanna, að börnin njóti góðrar aðhlynningar á Vistheimili barna og að verið sé að leggja þar grundvöll að nauðsynlegri áframhaldandi aðstoð við börnin, með bestu hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Er þessari tilhæfulausu málsástæðu sóknaraðila því hafnað.
Sóknaraðilar hafa m.a. fært fram þau lagarök að úrskurður varnaraðila frá 5. mars s.l. brjóti í bága við 8. gr. Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Fram kom hjá lögmanni sóknaraðila við aðalmeðferð málsins að átt væri við Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Ákvæðið er svohljóðandi í íslenskri þýðingu:
Hver sá sem sætir meðferð sem brýtur í bága við grundvallarréttindi þau, sem tryggð eru í stjórnarskrá eða lögum, skal eiga rétt á raunhæfu úrræði fyrir lögbærum dómstólum landsins.
Sóknaraðilar hafa ekki fært nein rök fyrir þýðingu framangreinds ákvæðis fyrir niðurstöðu máls þessa og kemur efni þess og réttarheimildaleg staða því ekki til skoðunar.
Með vísan til alls framangreinds er kröfu sóknaraðila um að úrskurði varnaraðila frá 5. mars 2013 um vistun barna sóknaraðila utan heimils verði hrundið og varnaraðila gert að afhenda sóknaraðilum börnin þegar í stað, hafnað. Fallist er á kröfu varnaraðila um staðfestingu á úrskurði hans frá 5. mars 2013.
Varnaraðili gerir ekki kröfu um málskostnað en krafa sóknaraðila um málskostnað úr hendi varnaraðila verður ekki tekin til greina og fellur málskostnaður því niður. Sóknaraðilar hafa gjafsókn í máli þessu samkvæmt gjafsóknarleyfi útgefnu 21. mars s.l., sbr. 61. gr., sbr. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 80/2002. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, sem er þóknun lögmanns þeirra, Þuríðar K. Halldórsdóttur héraðsdómslögmanns, 848.389 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti og útlagður kostnaður vegna aðstoðar dómtúlks, 31.600 krónur, án virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði. Þóknun dómskipaðs talsmanns barna sóknaraðila, Leifs Runólfssonar héraðsdómslögmanns, 228.410 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurðinn kveður upp Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kröfu sóknaraðila, A og B, um að úrskurði varnaraðila, Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, frá 5. mars 2013, um vistun barna sóknaraðila utan heimils verði hrundið og að varnaraðila verði gert að afhenda sóknaraðilum börnin, C og D, þegar í stað, er hafnað. Framangreindur úrskurður varnaraðila frá 5. mars 2013 er staðfestur. Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, sem er þóknun lögmanns þeirra, Þuríðar K. Halldórsdóttur héraðsdómslögmanns, 848.380 krónur og útlagður kostnaður vegna aðstoðar dómtúlks, 31.600 krónur, greiðist úr ríkissjóði.