Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-60

Snorri Borgar Óðinsson (Eva B. Helgadóttir lögmaður)
gegn
A og K ehf. (Erlendur Þór Gunnarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Ráðningarsamningur
  • Laun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 16. mars 2022 leitar Snorri Borgar Óðinsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 18. febrúar sama ár í máli nr. 439/2021: Snorri Borgar Óðinsson gegn A og K ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni vegna þess að hann telur nauðsynlegt að Hæstiréttur endurskoði niðurstöðu Landsréttar um málskostnað.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila um laun í uppsagnarfresti að fjárhæð 1.666.150 krónur fyrir tímabilið 18. mars til 30. apríl 2018. Héraðsdómur féllst á kröfuna að hluta til og dæmdi gagnaðila til að greiða leyfisbeiðanda 1.063.667 krónur. Talið var að leyfisbeiðanda hefði verið vikið úr starfi án fyrirvara og að hann ætti rétt á launum í uppsagnarfresti. Hins vegar var því hafnað að hann ætti kröfu um greiðslu fyrir yfirvinnu á tímabilinu þar sem ekki lægi fyrir sönnun fyrir því vinnuframlagi af hans hendi. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með vísan til forsendna hans.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um sönnunarstöðu og sönnunarmat í málum þar sem atvinnurekandi hefur vanrækt að gera skriflegan ráðningarsamning við starfsmann. Hann bendir á að gagnaðili hafi ekki látið starfsmönnum sínum í té nauðsynlegan búnað til skráningar vinnustunda eða yfirfarið skráningar þeirra jafnóðum. Þá sé niðurstaða Landsréttar í andstöðu við fordæmi Hæstaréttar, einkum dóma 17. maí 2018 í málum nr. 600/2017 og 601/2017, þar sem tímaskráningar starfsmanna hafi verið lagðar til grundvallar launakröfum þeirra. Hann telur að niðurstaðan fari í bága við meginreglur vinnuréttar um að greiða beri fyrir vinnuframlag og að vafa um inntak ráðningarsamnings beri að túlka atvinnurekanda í óhag ef hann hlutist ekki til um gerð skriflegs samnings. Jafnframt hafi verið litið framhjá framburði fyrrum starfsmanna gagnaðila sem borið hafi fyrir dómi að vinnutími þeirra allra hefði verið mun meiri en samið hefði verið um í upphafi.

5. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðninni er því hafnað.