Hæstiréttur íslands

Mál nr. 339/2004


Lykilorð

  • Kjarasamningur
  • Laun


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 10. febrúar 2005.

Nr. 339/2004.

Gunnur Kristín Gunnarsdóttir

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

gegn

Íslandsflugi hf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

 

Kjarasamningur. Laun.

G vann sem flugumsjónarmaður hjá Í hf. Með vísan til ákvæða kjarasamnings stéttarfélags G og Í hf. og þess að hún vann ein á vöktum krafðist hún að fá greidd laun sem vaktstjóri. Í dómi Hæstaréttar var fallist á með héraðsdómi að umdeilt ákvæði kjarasamningsins væri ekki skýrt um það atriði sem um væri deilt. Hins vegar væri ljóst af gögnum málsins að við gerð kjarasamningsins hefði af hálfu stéttarfélagsins verið gerð krafa um að flugumsjónarmaður fengi laun samkvæmt launaflokki vaktstjóra við þær aðstæður, er við áttu um starf G. Þessari kröfu hafði verið hafnað af hálfu Í hf. og ákvæði þar að lútandi því ekki tekið inn í kjarasamninginn. Með vísan til þessa var ekki talið að G gæti með stoð í kjarasamningi náð fram kröfu um vaktstjóralaun. Var héraðsdómur um sýknu Í hf. af kröfum G því staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. ágúst 2004. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.437.467 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. september 2001 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málavextir eru raktir í héraðsdómi. Fyrir Hæstarétti byggir áfrýjandi ekki lengur á ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við áfrýjanda er hún réðist til stefnda á árinu 2001, en af málsgögnum verður að telja ljóst að hún hafi verið ráðin sem flugumsjónarmaður. Krafa hennar í málinu um að hún fái greidd laun sem vaktstjóri er reist á 1. grein 7. kafla kjarasamnings Félags flugumsjónarmanna á Íslandi við stefnda á árinu 2000. Samkvæmt a lið greinarinnar skiptast flugumsjónarmenn í tvo launaflokka, annars vegar flugumsjónarmenn og hins vegar vaktstjóra. Í b lið hennar segir að vaktstjóri beri ábyrgð á sinni vakt en ekki flugumsjónarmaður, sem starfi við hlið hans. Óumdeilt er að áfrýjandi vann ein á vöktum.

Stefndi rökstyður mótmæli sín gegn kröfugerð áfrýjanda meðal annars með því að við gerð kjarasamningsins hafi af hans hálfu verið hafnað kröfu um að greidd yrðu laun samkvæmt flokki vaktstjóra við þær aðstæður sem áttu við um starf áfrýjanda. Eins og rakið er í héraðsdómi eru meðal gagna málsins drög að kjarasamningi, er stéttarfélag áfrýjanda lagði fram í upphafi samningaviðræðna. Þar er gert ráð fyrir sérstakri grein í 7. kafla samningsins þar sem kveðið er á um að þar sem svo hátti til að einungis þurfi einn flugumsjónarmann á vakt teljist hann vaktstjóri og hljóti laun samkvæmt því. Er þetta samhljóða ákvæði, sem er í kjarasamningi félagsins við Flugleiðir hf., en stefndi kveðst hafa hafnað því og sé það þess vegna ekki að finna í endanlegum kjarasamningi hans við stéttarfélagið. Hefur þessu ekki verið hnekkt af hálfu áfrýjanda.

Fallist er á það með héraðsdómi að ofangreint ákvæði kjarasamnings stefnda og stéttarfélags áfrýjanda sé ekki skýrt um það atriði, sem hér er um deilt. Hins vegar er ljóst af gögnum málsins að við gerð kjarasamningsins var af hálfu stéttarfélagsins gerð krafa um að flugumsjónarmaður fengi laun samkvæmt launaflokki vaktstjóra við þær aðstæður, er við áttu um starf áfrýjanda. Þessari kröfu var hafnað af hálfu stefnda og ákvæði þar að lútandi var því ekki tekið inn í kjarasamninginn. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að áfrýjandi geti með stoð í kjarasamningi náð fram kröfu um vaktstjóralaun. Að þessu athuguðu verður héraðsdómur staðfestur.

Rétt þykir að áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

        Héraðsdómur skal vera óraskaður.

          Áfrýjandi, Gunnur Kristín Gunnarsdóttir, greiði stefnda, Íslandsflugi hf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 10. maí 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 15. apríl f.m., að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu birtri 20. nóvember 2003.

Stefnandi er Gunnur Kristín Gunnarsdóttir, kt. [...], Traðarbergi 23, Hafnarfirði.

Stefndi er Íslandsflug hf., kt. [...], Hlíðarsmára 15, Kópavogi.

Stefnandi gerir þær kröfur að stefnda verði gert að greiða honum vangreidd vinnulaun og orlof og eru endanlegar dómkröfur samtals að fjárhæð kr. 1.437.467 ásamt dráttarvöxtum skv. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af kr. 55.440 frá 01.09.2001 til 01.10.2001, af kr. 109.977 frá 01.10.2001 til 01.11.2001, af kr. 165.417 frá 01.11.2001 til 01.12.2001, af kr. 220.857 frá 01.12.2001 til 01.01.2002, af kr. 276.297 frá 01.01.2002 til 01.02.2002, af kr. 335.061 frá 01.02.2002 til 01.03.2002, af kr. 393.825 frá 01.03.2002 til 01.04.2002, af kr. 452.589 frá 01.04.2002 til 01.05.2002, af kr. 523.198 frá 01.05.2002 til 01.06.2002, af kr. 581.946 frá 01.06.2002 til 01.07.2002, af kr. 641.571 frá 01.07.2002 til 01.08.2002, af kr. 701.204 frá 01.08.2002 til 01.09.2002, af kr. 760.833 frá 01.09.2002 til 01.10.2002, af kr. 820.462 frá 01.10.2002 til 01.11.2002, af kr. 880.091 frá 01.11.2002 til 01.12.2002, af kr. 940.542 frá 01.12.2002 til 01.01.2003, af kr. 1.000.383 frá 01.01.2003 til 01.02.2003, af kr. 1.061.779 frá 01.02.2003 til 01.03.2003, af kr. 1.129.149 frá 01.03.2003 til 01.04.2003, af kr. 1.202.002 frá 01.04.2003 til 01.05.2003, af kr. 1.266.945 frá 01.05.2003 til 01.06.2003, af kr. 1.338.980 frá 01.06.2003 til 01.07.2003, af kr. 1.437.467 frá 01.07.2003 til greiðsludags. Auk þess er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Þá er gerð krafa um að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.

Við aðalmeðferð málsins kom fram að enginn tölulegur ágreiningur væri milli aðila.

I.

Málsatvik verða rakin í einu lagi og umdeildra atriða getið eftir því sem við á. Stefnandi var ráðin sem flugumsjónarmaður hjá stefnda í ágúst 2001 og starfaði til júlí 2003 þar til hún tók við öðru starfi hjá stefnda. Á þessu tímabili voru auk stefnanda starfandi hjá stefnda fjórir flugumsjónarmenn. Deila aðila lýtur að túlkun á ákvæði í kjarasamningi frá árinu 2000 milli Félags flugumsjónarmanna og Íslandsflugs. Í 1. gr. 7. kafla samningsins segir í a-lið: „Flugumsjónarmenn skiptast í eftirtalda flokka: 1) Vaktstjóra 2) Flugumsjónarmaður.“ Í b-lið sömu greinar segir síðan: „Vakstjóri ber ábyrgð á sinni vakt. Flugumsjónarmaður starfar við hlið vaktstjóra, en ber ekki ábyrgð á viðkomandi vakt.“ Stefnandi heldur því fram að hún hafi starfað sem vaktstjóri allt frá því þjálfun hennar lauk 1. ágúst 2001 en einungis fengið greidd laun sem flugumsjónarmaður. Hinir flugumsjónarmennirnir, sem allir hafi verið karlmenn, hefðu hins vegar fengið greidd laun vaktstjóra. Hafi stefnandi ítrekað krafist leiðréttingar á launakjörum sínum en því hafi ávallt verið hafnað af stefnda. Hins vegar hafi kjör stefnanda breyst í júlí 2003 er stefnandi fékk stöðuhækkun. Sú breyting sé hins vegar ótengd þessu máli. Stefndi heldur því fram að samkvæmt kjarasamningnum hafi stefnandi átt að hljóta laun sem flugumsjónarmaður en ekki vaktstjóri. Stefnandi hafi þegar fengið greidd þau laun sem henni bar og hafni stefndi því frekari launagreiðslum til stefnanda. Mismunur á launum stefnanda og annarra flugumsjónarmanna stefnda skýrist meðal annars af því að þeir starfsmenn sem hafi verið fastráðnir við gerð kjarasamnings árið 1999 hafi fengið greitt samkvæmt launatöflu vaktstjóra. Þeir flugumsjónarmenn sem hafi verið ráðnir síðan hafi allir verið ráðnir sem almennir flugumsjónarmenn og fengið greidd laun samkvæmt því en ekki samkvæmt taxta vaktstjóra. Við gerð kjarasamnings Félags flugumsjónarmanna og Íslandsflugs hafi verið höfð hliðsjón af kjarasamningi Flugleiða við sama félag. Í þeim samningi bendir stefndi á að hafi verið ákvæði um að þar sem svo hátti til að einungis einn flugumsjónarmann þurfi á vakt teljist hann vaktstjóri. Það ákvæði hafi hins vegar ekki verið tekið upp við endurnýjun kjarasamninga á árinu 2000 vegna eindreginna andmæla stefnda.

II.

Stefnandi byggir dómkröfur sínar í málinu á meginreglum vinnu- og samningaréttar um að samningar skuli standa. Vísar stefnandi til kjarasamnings Félags flugumsjónarmanna við Íslandsflug hf. frá árinu 2000. Í 1. gr. 7. kafla samningsins, sem fjalli um laun og hlunnindi, segi: „a) Flugumsjónarmenn skiptast í eftirtalda flokka: 1) Vaktstjóra 2) Flugumsjónarmaður. b) Vaktstjóri ber ábyrgð á sinni vakt. Flugumsjónarmaður starfar við hlið vaktstjóra, en ber ekki ábygð á viðkomandi vakt.“ Í málatilbúnaði sínum hefur stefnandi bent á að ekki sé um það deilt að stefnandi hafi allt frá því að þjálfunartímabili hennar lauk, eða frá 1. ágúst 2001, unnið ein á vakt og borið ábyrgð á vaktinni og ekki starfað við hlið vaktstjóra. Stefnandi telur að þrátt fyrir ákvæðið um að vaktstjóri sé sá sem beri ábyrgð á sinni vakt og að flugumsjónarmaður starfi við hlið vaktstjóra en beri ekki ábyrgð á viðkomandi vakt hafi stefnandi ekki fengið greidd þau laun sem vaktstjóra bar.

Stefnandi bendir á að í svarbréfum stefnda til stefnanda hafi því verið haldið fram að stefndi hafi haft um þetta ákvæði fyrirvara við gerð kjarasamninga og beri honum því ekki skylda til að greiða stefnanda laun vaktstjóra. Telur stefnandi að jafnvel þótt einhverjir munnlegir og óskráðir fyrirvarar hafi verið gerðir af hálfu stefnda við gerð kjarasamninga sé stefnandi alveg óbundin af slíku. Kjarasamningar séu skriflegir samningar samkvæmt 6. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og skýringar- og túlkunarreglur kjarasamninga byggist fyrst og fremst á túlkun á texta samningsins, farið sé eftir orðanna hljóðan, enda sé samningi ætlað að ná til ótiltekins fjölda fólks sem ekki komi sjálft að samningagerðinni. Tilvitnað ákvæði kjarasamings aðila verði því ekki skilið með öðrum hætti en þeim að starfi flugumsjónarmaður einn og ekki við hlið vaktstjóra þá hljóti hann að bera ábyrgð á vaktinni og sé því vaktstjóri. Einhver setning sem sé í kjarasamningi Flugleiða en ekki í samningi Íslandsflugs geti ekki verið lykillinn að því hvernig skýri beri ákvæðið í Íslandsflugssamningnum.

Stefnandi byggir kröfur sínar einnig á því að jafnréttislög hafi verið brotin. Vísar hún til þeirrar skyldu atvinnurekanda að mismuna ekki kynjum í launum, sbr. 14. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Hafi stefnandi fengið réttindi sem flugumsjónarmaður í september 2001 og unnið ein á vöktum og borið ábyrgð á þeim allt frá þeim tíma án þess þó að hafa fengið það metið í launum. Bendir stefnandi á að hún sé eina konan sem gegnt hafi starfi flugumsjónarmanns hjá stefnda og hafi á tímabili verið sú eina úr hópi flugumsjónarmanna sem ekki hafi fengið laun sem vaktstjóri. Hluta þess tíma hafi karlmaður, sem ekki hafði flugumsjónarmannsskírteini, verið launaður sem vaktstjóri.

Krafa um orlof byggist á orlofslögum nr. 30/1987. Dráttarvaxtakrafan byggist á III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, einkum 5. gr. Stefnandi krefst dráttarvaxta frá gjalddaga launa, þ.e. mánaðarlega miðað við fyrsta dag næsta mánaðar. Varðandi réttarfar er byggt á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála og er krafan um málskostnað byggð á 129. gr. laganna. Krafa um virðisaukaskatt byggist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

III.

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu aðallega á því að stefnandi hafi þegar fengið þau laun sem henni bar. Stefnandi hafi verið ráðin til stefnda sem flugumsjónarmaður og fengið greidd laun sem slíkur í samræmi við ákvæði gildandi kjarasamnings. Hafi stefnandi verið ein á vakt og borið ábyrgð á eigin störfum en ekki á vakt í skilningi 1. gr. 7. kafla samningsins.

Samkvæmt 1. gr. 7. kafla kjarasamnings Félags flugumsjónarmanna og Íslandsflugs frá árinu 2000 skiptist flugumsjónarmenn í tvo flokka, vaktstjóra og flugumsjónarmenn. Jafnframt segi í samningnum að vaktstjóri beri ábyrgð á sinni vakt. Flugumsjónarmaður starfi við hlið vaktstjóra, en ber ekki ábyrgð á viðkomandi vakt. Stefndi bendir á að samhljóða ákvæði sé í kjarasamningi Félags flugumsjónarmanna við Flugleiði hf. en þar sé hins vegar svohljóðandi viðbótarákvæði í upphafi 2. gr. sama kafla: „Þar sem svo háttar til, að einungis einn flugumsjónarmann þarf á vakt, telst hann vaktstjóri og hlýtur laun samkvæmt því.“ Þrátt fyrir kröfur stéttarfélags stefnanda hafi sama ákvæði ekki verið tekið upp í kjarasamning félagsins við Íslandsflug. Um þennan rétt til handa flugumsjónarmönnum hafi því aldrei verið samið hjá Íslandsflugi. Stefndi byggir á því að sá skilningur Íslandsflugs hafi legið fyrir frá upphafi. Til þess að flugumsjónarmaður taki laun samkvæmt launataxta vaktstjóra verði hann að hafa mannaforráð. Sú afstaða hafi komið fram í kjarasamningsviðræðunum þar sem krafan um vaktstjóralaun hafi verið margrædd. Þá hafi málið einnig verið rætt við marga fulltrúa Félags flugumsjónarmanna hjá Íslandsflugi. Stefnandi hafi rætt málið við yfirmann Flugumsjónar og því verið fullkunnugt um þennan ágreining.

Stefnandi hafi fyrst sett fram formlega kröfu um vaktstjóralaun með bréfi lögmanns hennar 16. janúar 2003 en málið hafði áður verið tekið upp munnlega sem almenn kjarakrafa af hálfu stéttarfélags hennar. Frá lokum samninga hafi flugumsjónarmenn leitað af og til eftir upplýsingum um hvort breyting hafði orðið á stefnu Íslandsflugs gagnvart ákvæðinu. Það hafi verið fyrst um haustið 2002 sem Félag flugumsjónarmanna óskaði eftir fundi vegna máls stefnanda, en af fundinum varð þó ekki.

Stefndi kveðst mótmæla því sem röngu og fullkomlega tilhæfulausu að stefnandi hafi sætt mismunun í launum á grundvelli kynferðis. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á neitt sem styðji þá staðhæfingu. Þvert á móti sé viðurkennt í stefnu að stefnandi hafi hlotið stöðuhækkun í júlí 2003.

Hvað réttindi flugumsjónarmanns hjá Íslandsflugi varði vísist til gr. 5.5.2. í flugrekstrarhandbók Íslandsflugs þar sem fram komi að fyrsta krafa félagsins sé að flugumsjónarmaður hafi atvinnuflugmannsskírteini (Commercial Pilots License) eða réttindi flugumsjónarmanns (ICAA License). Þeir sem uppfylli þær kröfur teljist hafa tilskilin réttindi.

Stefndi byggir varakröfu sína á því að útreikningur launakröfunnar sé ekki réttur auk þess sem orlof greiðist ekki af orlofslaunum samkvæmt orlofslögum. Stefnandi hafi fengið laun í orlofi og eigi því ekki rétt á orlofsgreiðslum af föstum launum sínum. Orlof beri því einungis að reikna af yfirvinnugreiðslum.

Um lagarök vísar stefndi fyrst og fremst til kjarasamnings stefnda og Félags flugumsjónarmanna, laga um orlof nr. 30/1987 og almennra reglna um túlkun kjarasamninga. Um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, 129. og 130. gr.

IV.

Stefnandi var ráðin sem flugumsjónarmaður hjá stefnda í ágústmánuði 2001. Hún starfaði frá þeim tíma til júlí 2003 er hún tók við öðru starfi hjá stefnda. Hefur deila aðila að mestu snúist um túlkun á kjarasamningi Félags flugumsjónarmanna og Íslandsflugs hf. frá árinu 2000.

Stefnandi hefur í málinu krafist þess að fá greidd laun sem vaktstjóri. Hefur hún í fyrsta lagi byggt þá kröfu sína á kjarasamningi Félags flugumsjónarmanna og Íslandsflugs. Kveður hún skýra lagatúlkun kjarasamningsins leiða til þeirrar niðurstöðu að greiða beri henni umrædd laun. Í öðru lagi hefur stefnandi byggt kröfu sína á þeirri málsástæðu að samstarfsmenn hennar hafi allir fengið vaktstjóralaun nema hún. Hún sé eini kvenmaðurinn í hópnum og brjóti því framangreindur kjaramismunur í bága við jafnréttislög. Stefndi hefur byggt dómkröfur sínar á því að launamismunur flugumsjónarmanna hjá félaginu eigi sér fullkomlega eðlilegar skýringar. Samkvæmt eldri kjarasamningi milli Félags flugumsjónarmanna og Íslandsflugs frá 1999 hafi þrír af flugumsjónarmönnum stefnda fengið greidd vaktstjóralaun. Sá kjarasamningur tengist stefnanda hins vegar ekki neitt. Staðhæfingar um að tveir flugumsjónarmenn til viðbótar hafi fengið greidd vaktstjóralaun eigi sér eðlilegar skýringar. Öðrum þeirra, Jóhanni Inga Helgasyni, hafi verið falin önnur störf hjá stefnda sem hafði í för með sér fleiri verkefni, aukna ábyrgð og hærri laun. Hinn aðilinn, Ólafur Örn Guðmundsson, hafi verið fenginn til starfa hjá stefnda vegna reynslu sinnar og þekkingar í sambærilegu starfi og hafi sá eini kostur verið fyrir stefnda að greiða honum hærri laun en aðrir flugumsjónarmenn stefnda höfðu á þeim tíma. Markaðssjónarmið hafi því ráðið þeirri launaákvörðun.

Samkvæmt gögnum málsins og framburði aðila og vitna var stefnandi ráðin til starfa hjá stefnda sem flugumsjónarmaður. Stefnandi gekk vaktir og var ávallt ein á þeim. Þrátt fyrir það þá er það mat dómsins að ekki sé unnt að fallast á það að stefnandi geti talist hafa gegnt starfi vaktstjóra. Verður að telja að hugtakið vaktstjóri í þessu samhengi vísi fremur til tiltekins launaflokks heldur en raunverulegs stöðuheitis. Um slíkan rétt stefnanda var aldrei samið og er ekki skýrt ákvæði að finna um þetta í kjarasamningi Félags flugumsjónarmanna og Íslandsflugs frá árinu 2000. Stefnandi hefur vísað til þess til stuðnings kröfu sinnar að samið hafi verið um slíkan rétt flugumsjónarmanna sem stóðu einir á vakt í kjarasamningi Félags flugumsjónarmanna og Flugleiða frá sama ári. Komið hefur fram í málflutningi í málinu að höfð var uppi krafa um sambærileg kjör og sæst var á í kjarasamningi Flugleiða en þeirri kröfu hafi hins vegar verið hafnað. Afleiðingar þessa eru að mati dómara að sönnunarbyrðin fyrir því að það eigi að gilda sem hafnað var við gerð kjarasamnings hvíli á þeim sem slíku heldur fram. Að mati dómsins hefur stefnanda ekki tekist að færa á þetta sönnur og verður því að bera hallann af því. Þá hefur stefnandi haldið því fram sem málsástæðu að hún hafi í starfi sínu sem flugumsjónarmaður þurft að þola mismunun í launum á grundvelli kynferðis. Í ljós hefur verið leitt að auk hennar störfuðu flugumsjónarmenn af gagnstæðu kyni á sömu launakjörum á þeim tíma sem hún starfaði hjá stefnda sem slíkur. Er því ekki fallist á þessa málsástæðu stefnanda. Með hliðsjón af framansögðu er það því niðurstaða dómsins að stefnanda hafi hvorki tekist að sanna með nægilegum hætti að hún hafi átt að hljóta laun sem vaktstjóri né að hún hafi verið beitt launamisrétti á grundvelli kynferðis. Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.

Dóm þennan kveður upp Sveinn Sigurkarlsson, héraðsdómari.

D ó m s o r ð :

Stefndi, Íslandsflug hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda.

Málskostnaður fellur niður.