Hæstiréttur íslands

Mál nr. 51/2003


Lykilorð

  • Bifreið
  • Slysatrygging ökumanns
  • Ölvunarakstur
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. júní 2003.

Nr. 51/2003.

Sigurður Ólafsson

(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)

gegn

Eddu Björk Magnúsdóttur og

Ibex Motor Policies at Lloyd’s

(Kjartan Reynir Ólafsson hrl.)

 

Bifreiðir. Slysatrygging ökumanns. Ölvunarakstur. Gjafsókn.

S slasaðist er hann missti stjórn á bifreið í eigu E. Þegar liðnar voru um það bil tvær klukkustundir frá því að slysið varð mældist áfengismagn í blóði S 1,66‰ og í þvagi 2,47‰. Talið var að það veitti líkindi fyrir því að S hafi ekið ölvaður og verið óhæfur til að stjórna ökutæki. Bæri S sjálfur sönnunarbyrði fyrir því að ölvum hans verði rakin til neyslu áfengis eftir slysið. Hafi hann engum stoðum rennt undir staðhæfingu sína, sem að þessu lúti. Var talið að I hafi á grundvelli 20 gr. laga nr. 20/1954 verið heimilt að semja svo um að félagið skyldi vera laust úr ábyrgð við tilteknar aðstæður, svo sem þegar vátryggður valdi tjóni undir áhrifum áfengis. Þannig heimili ákvæðið ekki aðeins að kveðið sé í vátryggingarsamningi á um skilyrðislaust brottfall bóta við þær aðstæður heldur einnig að þar megi ákveða að félaginu sé áskilinn réttur til að hafna bótakröfum við sömu aðstæður. Voru I og E því sýknuð af kröfu S.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Stefán Már Stefánsson prófessor.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. febrúar 2003. Hann krefst þess að viðurkennd verði með dómi óskipt bótaábyrgð stefndu á líkamstjóni, sem hann hlaut að morgni 1. desember 1999, er hann ók bifreiðinni LI 987 frá Reykjavík norður Vesturlandsveg þar sem hann missti stjórn á henni með þeim afleiðingum að hún hafnaði utan vegar við brúna yfir Laxá í Leirár- og Melahreppi í Borgarfirði. Þá verður að skilja kröfugerð hans svo að hann krefjist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndu krefjast þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa hans verði aðeins viðurkennd að hluta og málskostnaður felldur niður.

Málavextir eru þeir að áfrýjandi ók bifreið stefndu Eddu Bjarkar Magnúsdóttur LI  987 frá Reykjavík áleiðis til Borgarness að morgni 1. desember 1999. Ökumaður bifreiðarinnar var tryggður lögboðinni slysatryggingu samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 32/1998, hjá stefnda Ibex Motor Policies at Lloyd’s. Krefst áfrýjandi að viðurkennd verði óskipt bótaábyrgð stefndu vegna slyssins. Stefnda Edda Björk hefur ekki borið fyrir sig aðildarskort.

Svo sem rakið er í héraðsdómi mældist áfengismagn í blóði áfrýjanda 1,66‰ og áfengismagn í þvagi hans 2,47‰ þegar liðnar voru um það bil tvær klukkustundir frá því að slysið varð. Veitir það líkindi fyrir því að hann hafi ekið ölvaður og verið óhæfur til að stjórna ökutæki, sbr. 3. mgr. 45. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997. Verður að fallast á það með héraðsdómara að áfrýjandi beri sjálfur sönnunarbyrði fyrir því að ölvum hans verði rakin til neyslu áfengis eftir slysið, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 7. desember 2000 í máli nr. 226/2000 og dóma réttarins 15. febrúar 2001 í málum nr. 357/2000 og nr. 360/2000. Hefur hann engum stoðum rennt undir staðhæfingu sína, sem að þessu lýtur.

 Áfrýjandi heldur því fram að slysið verði fyrst og fremst rakið til hálku á veginum og þess að allhvasst var og dimmt. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að ekkert hafi komið fram sem bendi til að annað hafi valdið slysinu en ölvun áfrýjanda. Þá verður að telja að áfrýjandi hafi sökum ölvunar verið svo á sig kominn við akstur í umrætt sinn að fyrirmæli 20. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga eigi við um hann.

Við munnlegan málflutning í Hæstarétti reisti áfrýjandi kröfu sína á því að stefndi Ibex Motor Policies at Lloyd’s hafi ekki með skilmálum sínum fyrir slysatryggingu ökumanns undanþegið sig ábyrgð þegar svo stendur á sem um ræðir í síðari málslið 20. gr. laga nr. 20/1954, en það ákvæði veiti einungis heimild til að semja um að félagið skuli leyst úr ábyrgð við þar greindar aðstæður. Stefndu hafa ekki andmælt þessari málsástæðu, sem of seint fram kominni. Fimmta grein framangreindra skilmála fjallar um missi bótaréttar og er svohljóðandi: „Réttur til vátryggingabóta getur fallið niður samkvæmt lögum um vátryggingarsamninga ef vátryggingartaki eða vátryggður vanrækir skyldur sínar gagnvart vátryggjanda, t.d. ef hann ekur án þess að hafa ökuréttindi eða veldur tjóni af stórkostlegu gáleysi eða undir áhrifum áfengis, ávana- eða fíkniefna.“ Telur áfrýjandi að með þessu sé ekki með skýrum hætti kveðið á um að félagið skuli laust úr ábyrgð þegar svo stendur á sem í greininni getur heldur einungis vísað til þeirra ákvæða laga nr. 20/1954, sem kveða á um brottfall bótaréttar við tilteknar aðstæður, en það sé til dæmis gert í 2. mgr 18. gr. laganna. Verði stefndu að bera hallann af þessum óskýrleika.

 Með 20 gr. laga nr. 20/1954 er heimilað að semja svo um að félagið skuli laust úr ábyrgð við tilteknar aðstæður. Verður að skilja ákvæðið þannig að það heimili ekki aðeins að kveðið sé í vátryggingarsamningi á um skilyrðislaust brottfall bóta við þær aðstæður heldur einnig að þar megi ákveða að félaginu sé áskilinn réttur til að hafna bótakröfum við sömu aðstæður. Þann rétt áskildi félagið sér með fyrrgreindri 5. gr. skilmálanna og beitti honum réttilega er það hafnaði kröfu áfrýjanda um bætur. Verður því að telja að hið stefnda félag hafi með vátryggingarskilmálum undanskilið sig ábyrgð þegar þannig stendur á fyrir ökumanni sem að framan getur, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar í dómasafni 1995, bls. 2249 og framangreinda tvo dóma réttarins frá 15. febrúar 2001. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur. 

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Sigurðar Ólafssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 375.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2002.
                Mál þetta, sem dómtekið var 22. október sl., er höfðað 22. maí 2002.

                Stefnandi er Sigurður Ólafsson, kt. 160858-6139, Skógarási 17, Reykjavík.

Stefndi er Edda Björk Magnúsdóttir, kt. 260465-3769, Hraunbæ 142, Reykjavík og Ibex Motor Policies at Lloyd's, kt. 600397-9079, Tryggvagötu 8, Reykjavík.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkennd verði bótaábyrgð stefndu in solidum, stefndu Eddu B. Magnúsdóttur sem skráðs eiganda bifreiðarinnar LI-987 og stefnda Ibex Motor Policies at Lloyd's sem vátryggjanda bifreiðarinnar LI-987, á líkamstjóni stefnanda, sem hann varð fyrir að morgni 1. desember 1999, er hann ók nefndri bifreið frá Háaleitisbraut 48, Reykjavík norður Vesturlandsveg þar sem hann missti stjórn á henni sökum hálku með þeim afleiðingum að hún hafnaði utan vegar við brúna yfir Laxá í Leirár- og Melahreppi, Borgarfirði. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd til að greiða honum málskostnað eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndu krefjast þess að verða sýknuð af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða þeim málskostnað.

I

Stefnda, Edda Björk Magnúsdóttir, eigandi bifreiðarinnar LI-987, hafði tryggt ökumann hennar lögboðinni slysatryggingu hjá stefnda, Ibex Motor Policies at Lloyd´s. Að morgni miðvikudagsins 1. desember 1999 ók stefnandi bifreiðinni, frá Háaleitisbraut 48 í Reykjavík áleiðis í Borgarnes. Samkvæmt kvittun frá Speli ehf. greiddi stefnandi veggjald fyrir Hvalfjarðargöng klukkan 06:45:49. Við brúna yfir Laxá í Leirársveit fór bifreiðin út af veginum vinstra megin og niður bratta hlíð, rann eftir ísnum á ánni þvert yfir hana og kastaðist af miklu afli tvo metra upp á árbakkann norðan megin árinnar og rann síðan til baka niður á ísinn. Frá mynni Hvalfjarðarganga að norðan og að slysstað eru 13,02 km samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Snjór og hálka var á veginum, sem er malbikaður, þegar slysið varð. Myrkur var og skýjað, en engin lýsing er á veginum.

                Lögreglu barst tilkynning um slysið klukkan sjö að morgni 1. desember 1999 frá Sigurði Þór Jónssyni. Hann bar fyrir dóminum að í umrætt sinn hafi hann verið farþegi í bifreið tengdaföðurs síns og hafi þeir verið að koma frá Borgarnesi. Hálka hafi verið á veginum og skafrenningsföl yfir öllu. Þegar þeir hafi verið að fara yfir brúna á Laxá hafi hann séð bifreiðaljós ofan í ánni. Þeir hafi haldið áfram yfir brúna en snúið við hjá sláturhúsi handan árinnar og ekið til baka. Hann hafi síðan hlaupið að bifreiðinni og opnað farþegahurð hennar og fundið að heitt var inni í henni. Maður sem hafi verið undir stýri bifreiðarinnar hafi legið með höfuðið í farþegasætinu. Maðurinn hafi verið með eðlilegu lífsmarki en hann hafi engin svör fengið þegar hann reyndi að tala við hann. Áfengislykt hafi verið í bifreiðinni. Hann hafi slökkt ökuljósin, breitt yfir manninn og lokað hurðinni til þess að honum yrði ekki kalt. Hann hafi hringt úr farsíma á lögreglu sem hafi beðið hann að bíða og fylgjast með manninum. Það hafi hann gert þar til lögregla og sjúkralið kom á vettvang. Maðurinn hafi engin viðbrögð sýnt meðan beðið var. Þar sem að ökuljósin voru skýr og vélarhlífin heit hafi hann ályktað að slysið hefði verið nýskeð þegar hann kom að.

                Lögreglumaðurinn Jónbjörn Bogason lýsti því fyrir dóminum að af hjólförum eftir bifreiðina að dæma hafi virst sem stefnandi hafi ekki tekið beygjuna að brúnni heldur ekið beint áfram út af veginum. Hann og lögreglumaðurinn Kristvin Ómar Jónsson lýstu því báðir fyrir dóminum að þegar þeir komu á vettvang hafi stefnandi legið með höfuðið út við dyrnar hægra megin. Hann hafi verið meðvitundarlítill og ekki hægt að ræða við hann. Áfengisþefur hafi verið af honum.

Stefnandi var fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahúsið á Akranesi.

Vegna gruns um að stefnandi hefði verið ölvaður við aksturinn gerðu lögreglumennirnir leit í bifreiðinni og fundu 8 bjórdósir, 1 tóma en 7 óáteknar.

Blóðsýni var tekið úr stefnanda kl. 08:50 og þvagsýni kl. 09:00. Samkvæmt endanlegum niðurstöðum reyndust 1,66‰  alkóhóls vera í blóði stefnanda og 2,47‰ alkóhóls í þvagi hans.

Með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík dags. 6. mars 2000 var óskað álits Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði á áfengismagni í blóði stefnanda, með tilliti til niðurstöðu úr þvagsýni, þegar hann ók bifreiðinni um kl. 06:55. Álit Rannsóknastofunnar er dags. 10. s.m. en þar kemur fram að hlutfall etanóls í blóði og þvagi bendi til þess að viðkomandi hafi ekki neytt áfengis svo nokkru nemi í að minnsta kosti 11/2 - 2 klst áður en sýnin voru tekin. Ekki sé hægt að segja með nákvæmni hver etanólþéttni í blóði viðkomandi hafi verið kl. 06:55 umræddan morgun en að öllum líkindum hafi magn etanóls í blóði verið umtalsvert.

                Með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettu 2. júní 2000, var stefnanda tilkynnt að eins og atvikum væri háttað og með vísan til 112. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, þætti ekki efni til frekari aðgerða í málinu af hálfu embættisins. Málið væri því látið niður falla.

Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 17. apríl 2002, var Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði beðin um álit á niðurstöðum úr etanólmælingu í blóði og þvagi stefnanda í umrætt sinn. Í áliti rannsóknastofunnar sem er frá 3. maí s.á. segir m.a. að hlutfall milli etanólþéttni í blóði og þvagi stefnanda bendi til þess að nokkuð hafi verið um liðið frá því að jafnvægi náðist, brotthvarf etanóls úr blóði hafi verið hafið og etanólþéttni í blóði farin að lækka. Há etanólþéttni í þvagi ásamt hlutfallinu milli blóðsýnis og þvagsýnis bendi eindregið til að drykkja hafi byrjað fyrir kl. 07:00 umræddan morgun. Þótt ekki sé hægt að segja með nákvæmni um etanólþéttni í blóði stefnanda kl. 07:00 hafi hann að öllum líkindum neytt áfengis fyrir þann tíma og verið undir áhrifum áfengis þegar slysið varð.

Þá liggur fyrir í málinu álit rannsóknastofunnar frá 3. október 2002 þar sem svarað er spurningum lögmanns stefnanda. Þar kemur m.a fram staðfesting á niðurstöðum álitsins frá 3. maí. s.á.

 Við skýrslutöku fyrir dóminum skýrði stefnandi svo frá að umræddan morgun hefði hann farið að heiman frá sér á milli klukkan 6:00 og 6:30 og ekið áleiðis í Borgarnes. Það hafi verið dimmt, veður slæmt, snjókoma og hálka. Hann hafi ekið með 60 til 70 km hraða miðað við klukkustund. Rétt áður en hann hafi komið að aflíðandi hægri beygju við brúna yfir Laxá hafi bíllinn losnað upp að aftan og hann misst alla stjórn á bílnum og ekki náð að hægja ferðina. Bíllinn hafi flogið útaf. Eftir á að hyggja hafi hann ekið of hratt miðað við aðstæður. Hann hafi fengið mikið högg og skollið á stýrið þó að hann væri í belti. Hann hafi verið mjög kvalinn og strax fundið að hann hafði meiðst í baki. Hann hafi verið hálfrænulaus í einhverjar mínútur. Hann hafi náð að losa sig úr beltinu og lagst yfir í farþegasætið. Hann hafi náð í ekki alveg fullan viskí-pela sem verið hafi í hanskahólfinu og drukkið megnið úr honum. Hann viti ekki hvað varð um pelann en hann haldi að hann hafi farið á gólfið. Hann muni næst eftir þegar verið var að taka hann út úr bílnunum á börum.

Magnús Jóhannsson forstöðumaður Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði staðfesti álit rannsóknastofunnar frá 3. maí 2002 og 3. október s.á. fyrir dóminum og skýrði það frekar. Aðspurður um það hvort mögulegt væri að stefnandi hefði neytt um pela af 40% áfengi um sjöleytið umræddan morgunn kvað hann það fræðilega mögulegt. Hann gæti ekki útilokað það.

Stefndu hafa hafnað bótaábyrgð á líkamstjóni því sem stefnandi hlaut í slysinu þar sem hann hafi verið ölvaður við aksturinn í umrætt sinn, en hið stefnda félag hafi undanþegið sig ábyrgð við slíkar aðstæður í almennum skilmálum sínum fyrir slysatryggingu ökumanns, sbr. 20. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga.

II

                Stefnandi byggir á að höfnun stefndu á bótaábyrgð sé ólögmæt. Aðeins megi skerða bætur til handa tjónþola verði slys talið rakið til ásetnings viðkomandi eða stórkostlegs gáleysis en hvorugu sé til að dreifa í máli þessu. Staðhæfingar stefndu um að stefnandi hafi verið ölvaður við akstur bifreiðarinnar styðjist ekki við staðreyndir. Niðurstöður alkóhólrannsókna á blóði og þvagi stefnanda veiti ekki sönnun fyrir því að hann hafi verið ölvaður við aksturinn og hafi því staðhæfingum stefnanda um að hann hafi fyrst neytt áfengis eftir aksturinn ekki verið hnekkt. Ekki hafi verið gerð sérstök leit að viskí-pelanum enda lögreglu ekki kunnugt um tilvist hans. Telur stefnandi að pelinn hafi týnst við þær aðfarir sem hafðar voru við flutning hans í sjúkrabifreið.

                Stefnandi byggir á að slysið hafi ekki orðið fyrir vangá hans heldur sé orsök þess einungis rekja til þess að aðstæður til aksturs hafi verið mjög erfiðar þ.e. mikill snjór og hálka hafi verið á veginum auk þess sem skýjað hafi verið og dimmt.

                Verði hins vegar talið að akstur stefnanda hafi verið gáleysislegur miðað við aðstæður, þá byggir stefnandi á að það verði ekki metið sem stórkostleg vangá, en stefndu geti aðeins borið fyrir sig brottfall ábyrgðar að vangá hafi verið stórkostleg, sbr. 20. gr. laga nr. 20/1954.

Þá byggir stefnandi á að verði talið að stefnandi hafi ekið undir áhrifum áfengis í umrætt sinn verði ekki talið að slysið hafi gerst fyrir "ölæði" stefnanda eins og það ákvæði verði réttilega skilið samkvæmt ríkri málvenju.

Stefndu hafi sönnunarbyrði um þau atvik eða atriði sem þau telji að leysi þau undan bótaskyldu.

Af gögnum málsins sé ekkert sem bendi til þess að stefnandi hafi verið ófær um að stjórna ökutæki í umrætt sinn og að orsök slyssins megi ekki rekja til mikillrar hálku og snjóa á vegi. Stefndu beri sönnunarbyrði fyrir fullyrðingum sínum um annað.

Stefnandi fellst ekki á að þau atriði sem stefndu bera á stefnanda, verði metin honum til stórkostlegrar vangár eða að þau hafi verið framin í ölæði. Ef svo ólíklega færi að stefnandi bæri einhverja sök á óhappinu sem leiða megi af ástandi hans, bæri að skipta sök samkvæmt ákvæðum vátryggingarsamningalaga, en ekki fella bótaábyrgð stefndu alfarið niður.

Verði talið að stefndu hafi tekist sönnun fyrir því að stefnandi hafi verið undir áhrifum áfengis við aksturinn í umrætt sinn, þá byggja stefndu á að ósannað sé undir hversu miklum áhrifum stefnandi var, en hann heldur því fram að vínandamagn í blóði hans hafi verið vel innan við 0,50‰ en ella innan við 1,20‰ meðan á akstri stóð. Ökumaður teljist einungis óhæfur til að stjórna ökutæki ef vínandamagn er meira en 1,20‰. Sé vínandamagn meira en 0,50‰ en minna en 1,20‰ teljist viðkomandi ekki geta stjórnað ökutæki örugglega, sem feli ekki í sér stórkostlegt gáleysi samkvæmt ákvæðum laga nr. 20/1954.

Þar sem ljóst sé af lýsingu á aðstæðum að veður og færð hafi átt stærstan þátt í slysinu og séu meginorsök þess réttlæti það þau sjónarmið stefnanda að eigi verði gengið lengra en að skipta sök. Stefndu beri sönnunarbyrðina fyrir því að snjór og hálka hafi ekki verið meðorsakandi í slysi stefnanda.

Stefnandi byggir á almennum reglum skaðabóta- og vátryggingaréttar og ákvæðum umferðarlaga, einkum XIII. kafla. Þá vísar stefnandi til ákvæða eml., einkum 25. gr., og almennra reglna um sönnun og sönnunarbyrði, svo og ákvæða laga nr. 20/1954, einkum 20. gr., og skilmála ökumannstryggingar hins stefnda félags.

III

                Stefndu byggja á að mælingar á vínandamagni í blóði og þvagi stefnanda sem tekið hafi verið úr stefnanda um tveimur klukkustundum eftir að akstri hans lauk sýni og sanni að hann hafi verið undir áhrifum áfengis og ölvaður í meira lagi, við akstur bifreiðarinnar í umrætt sinn.

                Miðað við afturreikning á því magni alkóhóls sem mældist í blóði stefnanda samkvæmt formúlu sem sett sé fram í riti Preben Lyngsö, Dansk forsikringsret, væri niðurstaðan sú að þéttni alkóhóls í blóði stefnanda hafi verið ca. 1,96‰ klukkan 07:00 um morguninn.

                Ekki fái staðist að stefnandi hafi fyrst eftir að akstri lauk fengið sér áfengi því það að alkóhól í þvagi stefnanda reyndist vera 2,47‰ sýni að stefnandi hafi hafið drykkju fyrir aksturinn eða undir honum, nema hvortveggja hafi verið.

                Vegna þess vínandamagns sem stefnandi hafði í blóði og þvagi þegar sýni voru tekin, verði að telja sannað að við slysið hafi hann haft a.m.k. það vínandamagn í blóði sínu og að stefnandi hafi verið búinn að neyta áfengis í drjúgan tíma fyrir slysið vegna þess alkóhólsmagns sem mældist í þvagi. Stefnandi hafi því samkvæmt 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga verið óhæfur til að stjórna bifreiðinni þegar slysið varð. Fyrir liggi því lögfull sönnun þess að stefnandi hafi verið óhæfur til að stjórna ökutæki er slysið varð. Því eigi 20. gr. vátryggingarsamningalaga nr. 20/1954 við um ástand stefnanda en stefndi Ibex hafi undanskilið sig ábyrgð í vátryggingarskilmálum sínum fyrir slysatryggingu ökumanns og eiganda sem farþega, þegar vátryggingartaki eða vátryggður vanrækir skyldur sínar gagnvart vátryggjanda, t.d. ef hann ekur án þess að hafa ökuréttindi eða veldur tjóni  af stórkostlegu gáleysi eða undir áhrifum áfengis, ávana- eða fíkniefna.

                Varðandi þá málsástæðu stefnanda að ekki verði talið að slysið hafi orsakast af "ölæði" stefnanda byggja stefndu á að um samnorræna löggjöf sé að ræða og að með hliðsjón af merkingu orðsins "ölæði" í norrænu lögunum, en í samsvarandi ákvæði dönsku vátryggingasamningalaganna sé notað orðið "beruselse", hafi ekki þótt verða lögð þröng merking í orðið, heldur taki það til ólögmæts ölvunaraksturs. Megi því fullyrða að orðið taki til ölvunar stefnanda við aksturinn í umrætt sinn.

                Þar sem stefnandi leiti viðurkenningar á rétti sínum til slysabóta úr hendi stefndu samkvæmt vátryggingarsamningi verði stefnandi sjálfur að bera sönnunarbyrði fyrir því að vínandinn sem mældist í blóði hans og þvagi verði rakinn til neyslu hans á áfengi eftir slysið. Þar sem stefnanda hafi ekki tekist sú sönnun, verði hann vegna ölvunarástands síns og ákvæða vátryggingarskilmála í vátryggingar-samningi á milli stefnda Ibex og stefndu Eddu Bjarkar, varðandi ökumannstryggingu um missi bótaréttar og fyrirmæla 20. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 20 frá 1954,  að bera tjón sitt sjálfur.

IV

                Fyrir liggur að stefnda, Edda Björk Magnúsdóttir, eigandi bifreiðarinnar LI-987, keypti vátryggingu samkvæmt 92. gr. laga umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum hjá stefnda Ibex Motor Policies at Lloyd´s. Krefst stefnandi þess í máli þessu að viðurkennd verði bótaábyrgð stefndu á líkamstjóni því sem hann varð fyrir er hann ók bifreiðinni útaf við Laxá í Leirársveit 1. desember 1999. Stefndu telja sig hins vegar laus undan ábyrgð, þar sem stefnandi hafi verið ölvaður þegar slysið varð, en stefndi Ibex Motor Policies at Lloyd´s hafi undanþegið sig ábyrgð við slíkar aðstæður í almennum skilmálum sínum fyrir slysatryggingu ökumanns, sbr. 20. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Stefnandi kveðst hins vegar fyrst hafa neytt áfengis eftir slysið.

Upplýst er að stefnandi greiddi veggjald í Hvalfjarðargöngum kl. 06:45:49 umræddan morgunn en vegalendin frá göngum að slysstað er 13,02 km. Sigurður Þór Jónsson sem fyrstur kom á vettvang kveður ummerki hafa bent til þess að slysið hafi orðið skömmu áður. Hann tilkynnti lögreglu um slysið kl. 07:00 en þá var hann kominn að bifreiðinni og búinn að hlú að stefnanda. Þegar fjarlægðin frá Hvalfjarðargöngum að slysstað er virt, en stefnandi kveðst hafa ekið með 60 til 70 km hraða miðað við klukkustund, verður við það að miða að slysið hafi orðið skömmu áður en Sigurður Þór kom á vettvang.

Þegar Sigurður Þór kom á slysstað var stefnandi með eðlilegu lífsmarki en ekki hægt að tala við hann. Að beiðni lögreglu fylgdist Sigurður Þór með stefnanda og varð hann ekki var við að stefnandi vaknaði. Þegar lögreglan kom á vettvang var stefnandi enn meðvitundarlítill og ekki hægt að ræða við hann.

Blóðsýni var tekið úr stefnanda kl. 08:50 og þvagsýni kl. 09:00. Samkvæmt endanlegum niðurstöðum reyndust 1,66‰  alkóhóls vera í blóði stefnanda og 2,47‰ alkóhóls í þvagi hans.

Stefnandi heldur því fram að hann hafi drukkið megnið úr viskí-pela eftir slysið og að það áfengismagn sem í blóði hans mældist verði rakið til þeirrar áfengisneyslu. Vegna gruns um að stefnandi hefði ekið undir áhrifum áfengis var gerð leit í bifreiðinni að áfengi og áfengisumbúðum. Fundust 8 bjórdósir, 1 tóm en 7 óáteknar.

Þegar litið er til þess sem upplýst er um ástand stefnanda frá því skömmu eftir slysið og þess að enginn viskí-peli fannst við leit í bifreiðinni, verður að telja nánast óhugsandi að stefnandi hafi drukkið það magn af áfengi sem hann heldur fram eftir slysið. Þykja niðurstöður Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði styðja það. En samkvæmt áliti rannsóknastofunnar frá 3. maí 2002 bendir há etanólþéttni í þvagi ásamt hlutfallinu milli blóðsýnis og þvagsýnis eindregið til þess að stefnandi hafi byrjað drykkju fyrir kl. 07:00 umræddan morgunn. Þá kemur þar fram að þó ekki sé hægt með nákvæmni að segja til um etanólþéttni í blóði stefnanda kl.07:00 hafi hann að öllum líkindum neytt áfengis fyrir þann tíma og verið undir áhrifum áfengis þegar slysið varð.

Hið eina sem fram hefur komið í málinu sem stutt getur fullyrðingu stefnanda um áfengisneyslu eftir slysið er það að Magnús Jóhannesson forstöðumaður Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði kvað hana fræðilega mögulega. Hins vegar staðfesti forstöðumaðurinn tilvitnað álit rannsóknastofunnar frá 3. maí 2002.

Þegar framanrakið er virt þykir stefnanda ekki hafa tekist að sanna að áfengismagn það sem mældist í blóði hans verði rakið til áfengisneyslu eftir slysið en fyrir því ber hann sönnunarbyrði. Verður því að leggja til grundvallar að áfengismagnið sem mældist í blóði stefnanda hafi átt rætur að rekja til áfengis sem hann neytti fyrir slysið. Var stefnandi því, sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, óhæfur til að stjórna ökutæki er slysið varð.

Stefnandi hefur borið því við að slysið megi rekja til akstursaðstæðna í umrætt sinn en mikill snjór og hálka hafi verið á veginum auk þess sem skýjað hafi verið og dimmt. Ekkert liggur fyrir í málinu um að akstursskilyrði hafi í umrætt sinn verið verri en almennt er í hálku á þeim árstíma er slysið varð. Þá er á það að líta að Jónbjörn Bogason lögreglumaður lýsti því fyrir dóminum að af hjólförum á vettvangi að dæma hafi virst sem stefnandi hafi ekki tekið beygjuna að brúnni heldur ekið beint út af veginum. Þykir þannig ekkert fram komið í málinu annað en að meginorsök slyssins verði rakin til ölvunar stefnanda.

Samkvæmt framangreindu, og með vísan til dóms Hæstaréttar í dómasafni 1995 bls. 2249 verður að telja að stefnandi hafi sökum ölvunar verið svo á sig kominn við akstur í umrætt sinn að fyrirmæli 20. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga eigi við um hann. Hefur stefndi Ibex Motor Policies at Lloyd´s með vátryggingarskilmálum undanskilið sig ábyrgð þegar þannig stendur á fyrir ökumanni.

Verða stefndu því sýknuð af kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans sem þykir hæfilega ákveðin 550.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði. 

                Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

                Stefndu, Edda Björk Magnúsdóttir og Ibex Motor Policies at Lloyd´s, eru sýkn af kröfum stefnanda, Sigurðar Ólafssonar.

                Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 550.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði.