Hæstiréttur íslands
Mál nr. 167/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 11. maí 2001. |
|
Nr. 167/2001. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Hjalti Pálmason fulltrúi) gegn X (Guðmundur Ágústsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. maí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli er ákæruvaldið hefur höfðað gegn honum, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 21. júní nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2001.
Ár 2001, miðvikudaginn 9. maí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Allan V. Magnússyni héraðsdómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, [ . . . ], litháenskur ríkisborgari, verði á grundvelli b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991 úrskurðaður til að sæta áfram gæsluvarðhaldi, frá lokum þess gæsluvarðhalds sem hann nú sætir en lýkur á morgun kl. 16.00, allt til þar til dómur gengur í málum hans en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 21. jaúní nk., kl. 16.00
[ . . . ]
Hinn 11. apríl sl. var gefin út ákæra á hendur X þar sem honum eru gefin að sök brot á 244. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sem geta varðað hann fangelsisrefsingu verði hann sakfelldur. Er mál ákæruvaldins á hendur honum til meðferðar hér við dómstólinn og aðalmeðferð ákveðin 28. og 29. þ.m.
Samkvæmt upplýsingum frá Interpol hafa allir ákærðu margoft komið við sögu lögreglu og dómstóla í nokkrum löndum Evrópu, og hefur ákærði hlotið refsidóma erlendis. Hann bíður nú dóms hér á landi og verður að ætla að hann muni reyna að komast úr landi ef hann verður nú látinn laus. Verður því ekki fallist á að úrræði svo sem farbann skv. 110. gr. laga nr. 19,1991 sé fullnægjandi.
Með vísan til alls framanritaðs, framlagðra gagna og með vísan til b-liðar 1. mgr. 103. gr., laga nr. 19,1991, um meðferð opinberra mála verður krafa lögreglustjórans í Reykjavík um gæsluvarðhald ákærða tekin til greina svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Ákærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 21. júní nk. kl. 16.00.